Mynd: Bára Huld Beck

Ásættanlegur fórnarkostnaður við frekari opnun landamæra sem var aldrei metinn

Þann 12. maí var kynnt ákvörðun um að draga úr takmörkunum á landamærum Íslands um miðjan júní. Til grundvallar þeirra ákvörðun, sem fól í sér að fleiri ferðamönnum var hleypt inn í landið, lá mat á hagrænum áhrifum þess á ferðaþjónustu. Ekki var gerð tilraun til að meta efnahagslegan kostnað þess að bakslag gæti komið í baráttuna gegn COVID-19 hérlendis samhliða auknum líkum á að samfélagslegt smit gæti tekið sig upp að nýju.

Þann 12. maí boðaði ríkisstjórn Íslands til blaðamannafundar. Viðstaddir voru alls sex ráðherrar, eða meirihluti þeirra. Auk þeirra voru embættismenn viðstaddir í Þjóðmenningarhúsinu ásamt fjölda aðstoðarmanna ráðherra. Viðföng fundarins og fylgisveit þeirra voru raunar mun fjölmennari hópur en blaða- og fréttamennirnir, sem voru nær engir utan fulltrúa sjónvarpsstöðvanna tveggja. 

Þessi staða varð til þess að bókstaflega engin spurning var lögð fram eftir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hafði lokið máli sínu. Þess í stað spurði hún: „Engar spurningar? Engar spurningar? Hvar er Björn Ingi?“

Í kjölfarið var sitt hvor ráðherrann kallaður í sjónvarpsviðtal og hinir stóðu eins og illa gerðir hlutir eftir, án þess að hafa lagt nokkuð til mála á fundinum og án þess að eftirspurn hafi verið hjá fáum fjölmiðlamönnum á svæðinu eftir skoðunum þeirra á ákvörðuninni.

Búið til súrefni fyrir ferðaþjónustu

Tilgangur fundarins var að kynna ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að stefna að því, eigi síðar en 15. júní 2020, að bjóða upp á skimun á landamærum Íslands í stað tveggja vikna sóttkvíar sem krafist hafði verið mánuðina á undan.

Auglýsing

Ísland lokaðist aldrei fyrir umheiminum. Umheimurinn lokaði hins vegar að mestu á Ísland um tíma með ákvörðunum sem teknar voru í mars, fyrst af Bandaríkjunum og svo af ýmsum Evrópulöndum. Þ.e. helstu viðskiptalöndum okkar. Það hefur hins vegar verið hægt að fá undanþágur frá tveggja vikna sóttkví með ýmsum hætti og í gegnum COVID-ástandið þá hefur verið slæðingur af fólki sem fer um alþjóðaflugvöllinn í Keflavík. 

En nú átti að stíga stærra skref og losa verulega um takmarkanir. 

Samhliða var skýrsla stýrihóps um afléttingu ferðatakmarkana birt á vef stjórnarráðsins, en hún var unnin á vegum forsætisráðuneytisins. Í þeim hópi sátu ráðuneytisstjórar sex ráðuneyta: forsætisráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis og utanríkisráðuneytis. Ráðherrar allra þeirra ráðuneyta voru viðstaddir blaðamannafundinn.

Stýrihópurinn hafði fundað fimm sinnum frá því að hann var settur saman 21. apríl og að auki átt fundi með Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni, Ölmu D. Möller landlækni, Víði Reynissyni yfirlögregluþjóni og Kára Stefánssyni, forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar. 

Í skilabréfi starfshópsins sagði meðal annars: „Ekki þarf að fjölyrða um hin miklu efnahagslegu áhrif sem faraldurinn hefur haft hér á landi. Það eru því miklir hagsmunir tengdir því að takist að koma efnahagslífinu aftur á skrið. Um leið er mikilvægt að hafa í huga að ef of geyst er farið getur komið dýrkeypt bakslag í baráttuna gegn veirunni hér innan lands og þá er betur heima setið en af stað er farið.“

Ísland markaðssett til að auka eftirspurn ferðamanna

Á þessum tíma hafði tekist að koma böndum á COVID-19 faraldurinn á Íslandi og búið var að losa um harðar hömlur sem höfðu verið við lýði vikum saman á athafnafrelsi fólks. Íslendingar voru eins frjálsir og hægt var að vera við þessar aðstæður, og mun frjálsari – innan eigin landamæra – en flestar aðrar þjóðir í heiminum. 

Mikill þrýstingur hefur verið frá ferðaþjónustunni á að gera ferðalög til Íslands auðveldari.
Mynd: Bára Huld Beck

Sem hluti af efnahagsaðgerðum sínum hafði ríkisstjórnin heitið 1,5 milljarði króna í markaðsverkefni fyrir íslenska ferðaþjónustu til að bregðast við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs á hana. 

Verkefnið fékk heitið „Ísland – Saman í sókn“ og á grundvelli þess voru meðal annars settir upp gulir öskurhátalarar á nokkrum stöðum á landinu. Markmið verkefnisins er skýrt: að auka eftirspurn eftir íslenskri ferðaþjónustu, styrkja ímynd Íslands sem áfangastaðar og viðhalda samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu og annarra útflutningsgreina.

Með öðrum orðum að lokka fleiri ferðamenn til landsins við fyrsta mögulega tækifæri.

Mikið að umfangi

Ferðaþjónustan hafði enda vaxið gríðarlega á undanförnum árum. Í fyrra komu um tvær milljónir ferðamanna til Íslands og um 25 þúsund manns unnu beint í ferðaþjónustu. Útflutningsverðmæti hennar voru 370 milljarðar króna á árinu 2019, eða 35 prósent heildarútflutnings. Þó er vert að taka fram að í þeirri tölu vigtar flugrekstur mjög mikið og innflutningskostnaður, til dæmis á dýru eldsneyti á flugvélar, er umtalsverður á móti. Auk þess kallar ferðaþjónusta á mikinn innflutning á matvælum.

Ferðaþjónustan var enda átta prósent af vergri landsframleiðslu á síðasta ári, samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands. Það er meira en sjávarútvegur, en ekki jafn mikið og ætla mætti miðað við hið gríðarlega umfang geirans. 

Á sama tíma var það sem kallað er verðmæti innfluttrar ferðaþjónustu, það sem Íslendingar eyddu á ferðalögum erlendis, 200 milljarðar króna. 

Semsagt: ferðamenn eyddu 370 milljörðum króna á Íslandi á ári og Íslendingar eyddu 200 milljörðum krónum á ári í útlöndum. 

Tvö sjónarmið

Flestar efnahagslegar hjálparaðgerðir sem ríkisstjórnin hefur kynnt til leiks, hvort sem um er að ræða hlutabótaleið, uppsagnarstyrkir, brúar- og stuðningslán, lokunarstyrkir, markaðsátak eða Ferðagjöfin, hafa beinst að ferðaþjónustu og tengdum greinum fyrst og síðast. 

Auglýsing

Það átti því kannski ekki að koma mörgum á óvart að mikill þrýstingur var á að, við fyrsta mögulega tækifæri, yrði opnað fyrir mögulega tekjusókn þessa geira að nýju. Og opna jafnvel landamæri landsins frekar með auknum tilslökunum gagnvart þeim sem hingað vildu koma. 

Stýrihópurinn sem skipaður var æðstu embættismönnum sex ráðuneyta tók að sér að framkvæma hagrænt mat á því að losa um ferðatakmarkanir og fékk skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu til að vinna punkta um það.

Í minnisblaði skrifstofunnar, sem er dagsett 30. apríl 2020, segir að við afléttingu sóttvarnaraðgerða við landamæri takist á tvö efnahagsleg meginsjónarmið. Annars vegar ávinningur af því að létta ferðatakmörkunum og hins vegar kostnaður sem fellur til ef faraldurinn tekur sig upp að nýju.

Hagræn áhrif á ferðaþjónustu bara metin

Þar segir að mikið sé til þess að vinna að draga megi úr ferðatakmörkunum hratt og örugglega og sérstaklega tiltekið að áhrif þess væru meginumfjöllunarefni minnisblaðsins. Af þeim átta blaðsíðum sem minnisblaðið telur eru um sjö og hálfri varið í hagrænt mat á áhrifum afléttingar á ferðaþjónustu. 

Sex línum er varið í að taka fram að efnahagsleg áhrif þess að faraldurinn gæti tekið sig upp að nýju á Íslandi gætu orðið veruleg. Í þeim segir: „Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gerir t.d. ráð fyrir að hagkerfi heimsins vaxi um eitt prósent árið 2021 í stað 5,8 prósent ef faraldurinn tekur sig upp að nýju á næsta ári. Ætla má að hver mánuður af hörðum sóttvarnaraðgerðum innanlands minnki einkaneyslu hér á landi um hátt í eitt prósentustig á ársgrundvelli. Einkaneyslan er um helmingur landsframleiðslunnar. Minni utanlandsferðir Íslendinga og neysla erlendis vegna ferðatakmarkana milli landa eru ekki meðtalin í þessu mati.“ 

Aðallega talað við ferðaþjónustuna

Stýrihópurinn setti líka á fót vinnuhóp til að velta upp hugmyndum um opnun landamæra í kjölfar kórónuveiru. Sigurður Kári Árnason, yfirlögfræðingur í heilbrigðisráðuneytinu, Guðmundur Daði Rúnarsson, framkvæmdastjóri hjá Isavia, og Skarphéðinn B. Steinarsson ferðamálastjóri sátu í honum.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, var á meðal þeirra sem vinnuhópurinn ræddi við.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Í drögum að erindisbréfi fyrir hópinn sagði að atvinnuvegaráðuneytið í samráði við samgöngu- og sveitatstjórnarráðuneytið væri að leita til hagsmunaaðila í ferðaþjónustu og „öðrum iðnaði“ um að móta tillögur að atvinnustarfsemi á tímum takmarkana. 

Í minnisblaði vinnuhópsins, sem er dagsett 1. maí, segir að hann hafi verið kallaður til starfa 27. apríl, eða fimm dögum fyrr. Á fund hans hefðu komið Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri Arctic Adventures, Eva María Lange, framkvæmdastjóri Pink Iceland, Ásberg Jónsson, framkvæmdastjóri Nordic Visitor, Hilmar Sigurðsson, forstjóri Saga film, og Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela. 

Hópurinn hafi auk þess átt fund með þeim Pétri Óskarssyni, Einari Hansen Tómassyni, Sigríði Dögg Guðmundsdóttur og Karli Guðmundssyni hjá Íslandsstofu. „Þá hafa fulltrúar vinnuhópsins rætt við fjölmarga aðra um viðfangsefnið og aflað gagna og upplýsinga.“

Á ofangreindri upptalningu má sjá að nær einvörðungu var rætt við aðila í ferðaþjónustu í vinnu hópsins. Eina undantekningin var forstjóri Saga film. Auk þess voru tveir af þeim þremur einstaklingum sem sátu í vinnuhópnum frá ferðaþjónustueiningum.

Mikið óvissa en kostnaðurinn ekki greindur

Til viðbótar við skýrslu stýrihópsins vann fjármála- og efnahagsráðuneytið greinargerð um efnahagsleg sjónarmið við losun ferðatakmarkana sem birt var í byrjun júní. Þar var þremur valkostum velt upp um málið: algjör opnun án skimunar, opnun með skimun eða áframhaldi gildi þáverandi reglna um sóttkví við komu til landsins.

Við vinnslu greinargerðarinnar var leitað sjónarmiða sóttvarnarlæknis, yfirlæknis smitsjúkdómadeildar Landspítalans og Samtaka ferðaþjónustunnar. Auk þess var rætt við hagfræðingana dr. Axel Hall, Friðrik Má Baldursson, Gunnar Haraldsson, Gylfa Zoega, dr. Tinnu Laufeyju Ásgeirsdóttur, Tryggva Guðmundsson og Rósu Björk Sveinsdóttur og Pálmar Þorsteinsson frá Seðlabanka Íslands.

Í greinargerðinni, sem nú er verið að uppfæra, segir meðal annars að efnahagsleg áhrif losunar ferðatakmarkana séu hjúpuð mikilli óvissu. „Greining þeirra er í eðli sínu þjóðhagsleg kostnaðar- og ábatagreining. Grundvallaróvissa ríkir hins vegar um kostnaðarhlið greiningarinnar. Sú óvissa byggir annars vegar á því að gögn um útbreiðslu veirunnar eru víða óáreiðanleg og ómögulegt virðist að spá fyrir um þróun og áhrif faraldursins blossi hann upp að nýju. Hins vegar þarf að meta kostnað vegna faraldursins og sóttvarnaraðgerða á heilsu, líf og lífsgæði sem reynist oft átakaefni þótt til séu hagræn tæki til þess verks. Ábatinn er þekktari, ekki síst þegar kemur að hagrænum ábata þjóðarbúsins af ferðamönnum.“

Ráðuneyti Bjarna Benediktssonar vann greinargerðum efnahagsleg áhrif losunar ferðatakmarkana.
Mynd: Bára Huld Beck

Því fjallar greinargerðin að uppistöðu um þann ábata sem hægt væri að hafa af ferðamönnum með frekari opnun landamæra.

Á grundvelli ofangreindrar vinnu, og þeirrar staðreyndar að í maí og júní liðu oft margir dagar eða vikur án þess að smit greindist á Íslandi, var ákveðið að opna frekar landamæri landsins með því að taka upp sýnatöku í stað tveggja vikna sóttkvíar. Nokkru síðar var liðkað enn meira til með því að fjölga löndum á lista yfir „örugg lönd“, sem þurftu ekki einu sinni að fara í skimun, og taldi sá listi þá m.a. Þýskaland, Danmörku, Grænland og Færeyjar. Fyrir vikið fóru 132 þúsund farþegar um Keflavíkurflugvöll í júlímánuði.

Hörð gagnrýni hagfræðinga

Blaðamannafundurinn 12. maí, ákvörðun ríkisstjórnarinnar og skýrsla starfshópsins hafa ratað aftur í sviðsljósið undanfarna daga, í ljósi þess að önnur bylgja af COVID-19 faraldrinum hefur skollið á, með þeim afleiðingum að herða hefur þurft sóttvarnaraðgerðir og það mikla frelsi sem komið var á hérlendis er nú í hættu. 

Þórólfur Matthíasson, prófessor í hagfræði, birti grein á Kjarnanum á fimmtudag þar sem hann sagði að ákvörðun um opnun landamæta og rýmkandi ákvarðanir í sóttvörnum virtust hafa verið teknar á grundvelli þrýstings hagsmunagæslumanna í ferðaþjónustu og þröngra hagsmuna umbjóðenda þeirra, en ekki á grundvelli hagræns uppgjörs á kostnaði og ábata. Hann minntist þar einnig á að Norðmenn hafi látið vinna slíkt uppgjör í apríl þar sem fram hafi komið að það sem mestu skipti væri að halda útbreiðslu niðri og komast hjá því að loka skólum og leikskólum vegna þess hversu hamlandi slíkar lok­anir eru á atvinnu­lífið almennt. „Íslensk stjórn­völd þekkja til þeirrar vinnu en hafa ekki látið vinna til­svar­andi álits­gerð mér vit­an­lega. Það er skaði því hugs­an­lega hefði nið­ur­staða slíkrar vinnu haft áhrif,“ skrifaði Þórólfur. 

Daginn eftir birtist grein Gylfa Zoega, prófessors í hagfræði, í Vísbendingu, þar sem hann færði hagfræðileg rök fyrir því að stjórnvöld hefðu gert mistök með því að opna landamæri Íslands frekar. „Með ákvörð­unum sínum um opnun lands­ins hafa stjórn­völd stefnt mik­il­vægum almanna­gæðum í hættu sem eru þau gæði að geta hitt annað fólk, lært með öðru fólki, unnið með öðru fólki og verslað við annað fólk. Og þar með er efna­hag lands­ins einnig stefnt í hætt­u.“

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, sem er líka prófessor í hagfræði og sérfræðingur í heilsuhagfræði, bættist svo í hóp gagnrýnenda í byrjun viku þegar hún sagði að ákvörðunin um að opna frekar landamærin væri „mikil áhætta fyrir lítinn ávinning“. Eftir því sem tíminn hafi liðið hafi orðið ljóst að kostnaðurinn af áhættunni sé svo mikill að það hefði borgað sig að viðhafa mjög strangar reglur um ferðir fólks yfir landamærin og þær sóttvarnir sem hver og einn farþegi þarf að hlíta. 

Almannagæði

Gylfi Zoega hafði áður varað við þeirri stöðu sem komin var upp, í erindi sem hann hélt á mál­þing­inu „Út úr kóf­inu“ sem haldið var í hátíð­ar­sal Háskóla Íslands í byrjun júní. 

Þar sagði hann meðal ann­ars að hag­kerfið myndi ná sér á strik þótt að fjöldi ferða­manna myndi ekki koma til lands­ins, svo fremi sem að annar far­aldur kór­ónu­veiru myndi ekki skella á síðar á árinu. „Góður árangur í sótt­vörnum í vor hefur skapað almanna­gæði sem bæta lífs­kjör og örva hag­vöxt.“ 

Í sam­tali við RÚV í kjöl­farið sagði Gylfi að þetta væru almanna­gæði eins og „að geta búið í landi þar sem að er ekki far­sótt, þar sem að fólk getur mætt í vinnu, farið út að borða, það getur hist. Og þessi almanna­gæði eru svo mik­il­væg að maður má passa sig að gera ekk­ert sem að stefnir þeim í voða.“

Hann sagði enn fremur að það að bíða með opnun landamæra hefði gildi. Hags­munir fárra, þeirra sem starfa í ferða­þjón­ustu, mættu ekki verða til þess að heilsu og afkomu ann­arra væri stefnt í hætt­u.

Í greininni í Vísbendingu sagði Gylfi að stjórnvöld á Íslandi hafi löngum látið stjórnast af ráðandi atvinnugreinum. „Með því að opna landið í sumar var hættunni boðið heim að önnur bylgja faraldursins lamaði þjóðlíf og efnahagslíf. Sérstaða Íslands hefur falist í því undanfarna mánuði að hér hefur líf fólks verið næsta eðlilegt á meðan grímuklæddar þjóðir í nágrenninu glíma við það illleysanlega vandamál hversu mikið eigi að aflétta sóttvörnum innan lands til þess að efla efnahag þótt smitum fari fjölgangi.“

Engin heildstæð athugun

Stór hluti af gagnrýni bæði Þórólfs og Gylfa var sú að við undirbúning ákvörðunar um að opna landamæri Íslands frekar um miðjan júní hafi ekki verið gerð heildstæð athugun á efnahagslegum áhrifum opnunarinnar.

Þar vísuðu þeir í áðurnefnda skýrslu stýrihóps um afléttingu ferðatakmarkana sem birt var samhliða því að áform um frekari opnun voru kynnt í maí, og lá til grundvallar þeirri ákvörðun, og greinargerð fjármála- og efnahagsráðuneytisins, sem einnig var fjallað um hér að ofan.

Auglýsing

Í skýrslu stýrihópsins er það sérstaklega tekið fram að það hafi blasað við að viss áhætta væri fólgin í því að draga úr sóttvarnaráðstöfunum hérlendis og liðka fyrir ferðalögum til og fá landinu. Þar segir hins vegar líka: „Á hinn bóginn má segja að með því að staða sóttvarna er nú með ágætum innlands og í ljósi þess að aukin ferðalög til og frá landinu verða fyrr eða síðar óhjákvæmileg þá sé nú tímabært að huga að tilslökunum. Að ýmsu leyti sé það hagstætt nú vegna þess að ferðalög milli landa séu hvort eð er í lágmarki og því svigrúm til staðar til að prófa sig áfram án þess að missa tök á ástandinu.“

Við þetta bættust veigamikil efnahagsleg rök sem mældu, samkvæmt skýrsluhöfundum, með tilslökunum. „Verkefnið má því orða svo að meta þurfi hvað sé ásættanlegt að taka mikla áhættu í hverju skrefi sem stigið verður í átt til afléttingar ferðatakmarkana. Og jafnframt hvernig megi grípa til varúðarráðstafana samhliða tilslökunum til að takast á við möguleg smit sem upp kunna að koma í kjölfarið.“

Einhliða málsvarar

Í Vísbendingargrein Gylfa Zoega var bent á að við undirbúning ákvörðunarinnar hafi engan málsvara verið að finna fyrir aðrar greinar eða hópa sem tapa ef veitan tæki að dreifa sér um samfélagið að nýju. 

Hann nefndi sem dæmi nem­endur í fram­halds­skólum og háskól­um, eldri kyn­slóð­ina, starfs­fólk og við­skipta­vini í þjón­ustu­geir­anum sem sé stærsti hluti efna­hags­lífs­ins, og almenn­ing sem hafi verið mikið létt þegar sóttin hafði verið kveðin niður í júní. „Af frétta­flutn­ingi má ráða að svo til einu hags­mun­irnir sem skipta máli séu hags­munir ferða­þjón­ustu. Þessi áhersla kemur glöggt fram í grein­ar­gerðum fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neyt­is­ins í júní og stýri­hóps um afnám ferða­tak­mark­ana í maí. Sjaldan hefur verið aug­ljósar hversu mikil áhrif ein atvinnu­grein getur haft á ákvarð­anir stjórn­valda.“

Ásættanleg áhætta

Þór­dís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, svar­aði um helg­ina og sagði gagn­rýni Gylfa og Þór­ólfs Matth­í­as­son­ar, slá sig „svo­lítið eins og að fagna góðu stuði í gleð­skap á mið­nætti án þess að hugsa út í haus­verk­inn að morgn­i.“ 

Það hafi komið henni á óvart að Gylfi skuli í grein sinni í Vís­bend­ingu leggja áherslu á að Ísland þurfi ekki erlenda ferða­­menn því að staða efna­hags­­mála sé framar von­um. „Ég þekki ekki marga sem ætla að fara hring­inn í októ­ber,“ skrif­aði ráð­herr­ann.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir hefur hafnað gagnrýni hagfræðinganna.
Mynd: Bára Huld Beck

Hún bætti við, í sam­tali við RÚV á laug­ar­dag, að áhættan af því að skima og hleypa fólki inn í landið væri lítil og að hún gæti ekki fall­ist á þau rök að hún sé svo mikil að það ætti að loka land­inu og ekki hleypa fólki inn. „Þannig að áhættan er í mínum huga ásætt­an­­leg.“

Önnur ríki brugðust öðruvísi við

Gylfi svaraði þessu í grein sem birtist í Morgunblaðinu í gær. Það er í fyrsta sinn sem hann hefur, að eigin sögn, séð tilefni til að skrifast á við stjórnmálamann. Og hann vonast til að þurfa ekki að gera það aftur. 

Í svargrein sinni skrifaði Gylfi að önnur ríki hafi brugðist við faraldrinum með hætti sem Ísland hefði getað horft til. Til dæmis hafi annað eyríki, Nýja-­Sjá­land, ákveðið að nota sér­stöðu sína til þess að hafa strangar sótt­varnir á landa­mærum og vernda þannig inn­lent hag­kerfi og sam­fé­lag uns lyf og bólu­efni koma til hjálp­ar. „Í nágrenni okkar mælir utan­rík­is­ráðu­neyti Nor­egs, svo dæmi sé tek­ið, með því að Norð­menn ferð­ist ekki til útlanda nema brýn­ustu nauð­syn beri til.“ 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra mótmælti ekki ábendingum Gylfa í samtali við sama blað í morgun en sagði það fjarri lagi að hagsmunir ferðaþjónustunnar hafi verið settir í fyrirrúm við ákvörðunartöku ríkisstjórnarinnar.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar