Skipulagsferli virkjunar í einu yngsta árgljúfri heims er hafið
Hún er ekki stór að afli, aðeins 9,3 MW, en mun rjúfa einstaka landslagsheild sem nýtur verndar í lögum og skal ekki raska nema að brýna nauðsyn beri til. Mikil umfram raforka er til í landinu en sveitarstjórn Skaftárhrepps hefur samþykkt að hefja skipulagsgerð vegna Hnútuvirkjunar í Hverfisfljóti á þeim rökum að afhendingaröryggi sé ótryggt.
Meirihluti sveitarstjórnar Skaftárhrepps hefur fallist á að aðalskipulagi verði breytt í samræmi við breytt áform um virkjun við Hnútu í Hverfisfljóti. Framkvæmdaaðilinn, Ragnar Jónsson, óskaði eftir því í sumar að afli fyrirhugaðrar virkjunar á aðalskipulagi yrði breytt úr 15 MW í 9,3 MW og að aðkomuvegur og iðnaðarsvæði yrðu sett inn. Samtímis óskaði Ragnar eftir heimild til að vinna deiliskipulag fyrir svæðið og var það einnig samþykkt.
Ósk Ragnars var tekin fyrir og samþykkt á fundi skipulagsnefndar hreppsins í byrjun september og sú afgreiðsla var svo staðfest á fundi sveitarstjórnar með þremur atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins gegn tveimur atkvæðum fulltrúa Z-listans, Sólar í Skaftárhreppi.
Hverfisfljót er jökulá en í það rennur einnig grunnvatn. Áin fellur úr Síðujökli í vestanverðum Vatnajökli, meðfram eystri jaðri Eldhrauns niður á Fljótseyrar rétt vestan Skeiðarársands.
Virkjunin er fyrirhuguð í landi jarðarinnar Dalshöfða sem er í eigu Ragnars. Í frummatsskýrslu árið 2017 kom fram að reist yrði 800 metra löng 1-3 metra há stífla í Hverfisfljóti skammt frá fjallinu Hnútu og hluta vatnsins veitt úr farveginum um þrýstipípu, 2,3 kílómetra leið að stöðvarhúsi. Á þessum kafla, þar sem Lambhagafossa er m.a. að finna, myndi rennsli minnka verulega yfir vetrarmánuðina og farvegurinn að líkindum þurrkast upp í mars á hverju ári. Framkvæmdinni myndi fylgja lagning tæplega sjö kílómetra aðkomuvegar auk aðrennslis- og frárennslisskurða.
Hugmyndin um virkjun við Hnútu hefur verið umdeild í Skaftárhreppi, bæði meðal íbúa, hagsmunaaðila í ferðaþjónustu sem og innan sveitarstjórnar eins og afgreiðsla hennar á erindi Ragnars sýnir. Í bókun Jónu Bjarkar Jónsdóttur, líffræðings og fulltrúa Z-lista í skipulagsnefnd, kom fram að breyting á aðalskipulagi vegna Hnútuvirkjunar yrði að öllum líkindum til þess að fresta vinnu við endurskoðun aðalskipulags hreppsins sem væri mjög miður. Vísaði hún svo í álit Skipulagsstofnunar sem birt var í sumar og sagði æskilegt að virkjanahugmyndin yrði skoðuð í heild með hliðsjón af þeim gögnum sem nú lægju fyrir. Undir þessa bókun tóku fulltrúar Z-lista í sveitarstjórn þegar ósk Ragnars var þar til umfjöllunar og höfnuðu þeir erindi hans.
Hugmyndir um virkjun Hverfisfljóts við Hnútu eru langt frá því nýjar af nálinni og í aðalskipulagi Skaftárhrepps er þar gert ráð fyrir 40 MW virkjun. Fyrstu hugmyndir framkvæmdaaðilans gerðu þó ráð fyrir 2,5 MW virkjun en í matsáætlun, sem fara þurfti í samkvæmt ákvörðun umhverfisráðherra í kjölfar kæru, var virkjunin orðin 15 MW. Skipulagsstofnun gaf út niðurstöðu sína um matsáætlunina árið 2008 en stuttu seinna var áformunum frestað allt þar til fyrir þremur árum og nú stendur til að virkjunin verði 9,3 MW.
Myndi hafa neikvæð áhrif á Skaftáreldahraun
Virkjunarsvæðið er fyrirhugað í hinu tæplega 240 ára gamla Eldhrauni sem rann í Skaftáreldum á árunum 1783-1784. Skaftáreldar voru eitt mesta eldgos Íslandssögunnar og þriðja mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni frá ísaldarlokum. Um þetta atriði fjallaði Skipulagsstofnun sérstaklega í áliti sínu á matsskýrslu Ragnars sem gefið var út í sumar. Var það niðurstaða stofnunarinnar sú að virkjunin myndi hafa neikvæð áhrif á Skaftáreldahraun sem hefði mikið verndargildi bæði á landsvísu og heimsvísu. Ekki væri hægt að að horfa til stærðar hraunsins og hlutfallslegs rasks þess líkt og gert væri í matsskýrslunni og bent á að um jarðminjar væri að ræða sem nytu sérstakrar verndar í náttúruverndarlögum. Þeim skuli ekki raska nema brýna nauðsyn beri til og að almannahagsmunir séu í húfi. „Skipulagsstofnun telur að ekki hafi verið sýnt fram á brýna nauðsyn fyrir röskun á Skaftáreldahrauni,“ segir svo í álitinu og að í ljósi sérstöðu þess verði að gera kröfu um að sýnt verði fram á það með afdráttarlausari hætti í skipulagsgerð og áður en kemur til leyfisveitinga.
Skaftáreldahraun er annað af tveimur stærstu hraungosum sem runnið hafa á jörðinni á sögulegum tíma. Verndargildi þess bæði á landsvísu og heimsvísu er hátt og hefur umtalsverða sérstöðu.
Nóg rafmagn er á lausu í landinu. Stórnotendum hefur fækkað, að minnsta kosti tímabundið, með lokun kísilvera á Húsavík og í Helguvík. Þá nota gagnaver og álver minni orku nú en áður. Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, bendir á það í umsögn sinni um kerfisáætlun Landsnets, sem greint var frá í Fréttablaðinu á fimmtudag, að samanlagður samdráttur í raforkukaupum á Íslandi nemi um 7,5 prósentum af árlegri vinnslugetu eða um 1,5 teravattstundum. Samdrátturinn er því meiri en samanlögð framleiðslugeta Sultartangavirkjunar og Vatnsfellsvirkjunar, tveggja af stærstu virkjunum Landsvirkjunar.
„Við í meirihluta sveitarstjórnar teljum að uppbygging atvinnu og framleiðsla á grænni orku sé af hinu góða í okkar landstóra sveitarfélagi,“ segir Eva Björk Harðardóttir, oddviti í Skaftárhreppi, um ástæður þess að jákvætt var tekið í erindi Ragnars þrátt fyrir breytta stöðu á raforkumarkaði. „Fyrir mér hangir þetta tvennt svolítið á sömu spýtunni.“
Telur áhrif virkjunarinnar afturkræf
Rask á Skaftáreldahrauni vegna virkjunarframkvæmdanna yrði í lágmarki og aðallega meðfram Hverfisfljóti í formi veglagningar sem muni nýtast öllum sem vilja komast um landið. „Við teljum að aukin raforkuframleiðsla með lágmarksraski komi sér vel fyrir atvinnulífið í sveitarfélaginu. Nú þegar við sjáum fram á að lagning þriggja fasa rafmagns sé loksins að verða að veruleika þá er mikilvægt að tryggja raforkuöryggi hjá fyrirtækjum á svæðinu sem hafa verið að keyra á hálfum afköstum eða jafnvel brenna olíu.“
Eva segir að rafmagn sem framleitt yrði með virkjun við Hnútu færi inn á dreifikerfi Landsnets í hreppnum og myndi því nýtast í heimabyggð. Í dag komi það inn á kerfið úr virkjun við Smyrlabjörg í austri og Hrauneyjum í vestri. „Fleiri svona virkjanir sem bæta rafmagni inn á kerfið gerir það stöðugra og öflugra.“
Við erum ekki að tala um uppistöðulón eða stóra framkvæmd með ófyrirséðum afleiðingum fyrir viðkvæma náttúru sem við viljum auðvitað öll vernda.
Ferðaþjónusta er ein af lykilatvinnugreinum í Skaftárhreppi. Nágrenni við jökla og beljandi jökulfljót og óbyggð víðerni eru þar eitt helsta aðdráttaraflið. „Við erum ekki að tala um uppistöðulón eða stóra framkvæmd með ófyrirséðum afleiðingum fyrir viðkvæma náttúru sem við viljum auðvitað öll vernda,“ segir Eva og að Hnútuvirkjun yrði rennslisvirkjun og ætti því að vera afturkræf framkvæmd að fullu.
Spurð hvaða áhrif ótrygg afhending rafmagns í sveitarfélaginu hafi í dag tekur hún sem dæmi hótelið sem hún sjálf rekur. Í gegnum tíðina hafi orðið þónokkurt tjón á rafmagnstækjum hótelsins sem rekja megi til bilana og truflana í raforkukerfinu. Þetta hafi þó lagast töluvert eftir að nýtt tengivirki var sett upp „en ennþá erum við að glíma við tíð rafmagnsleysi og stöku flökt sem hefur skelfilegar afleiðingar fyrir þau mörgu og viðkvæmu tæki sem fylgja svona rekstri“.
Eva segist ekki geta fullyrt að Hnútuvirkjun komi að fullu í veg fyrir vandamál af þessum toga en samkvæmt upplýsingum sem hún hafi aflað sér „þá mun verða minna raforkutap og stöðugri orkuflutningur ef raforkan kemur í þéttara mæli inn á línuna“.
Ábyrgð sveitarstjórnar mikil
Skaftárhreppur sé víðfeðmt sveitarfélag og frekari uppbygging ferðaþjónustu er fyrirhuguð víða. Oddvitinn segir það á ábyrgð sveitarstjórnar að reyna að tryggja raforkuinnviði eins og aðra. Efling flutningskerfisins sé nú þegar hafin og þriggja fasa rafmagn um hreppinn sé hluti af því verkefni. Það muni gjörbreyta aðbúnaði allrar atvinnustarfsemi í sveitarfélaginu. „Við þurfum að hafa í huga að ábyrgð okkar sem sitjum í sveitarstjórn er mikil. Við berum bæði ábyrgð á viðkvæmri og stórkostlegri náttúru ásamt því að sjá til þess að innviðir okkar séu samkeppnishæfir þannig að íbúar okkar sitji við sama borð hér og annars staðar.“
Spurð hvort að hún telji þá brýna nauðsyn fyrir röskun Skaftáreldahrauns vera til staðar, líkt og Skipulagsstofnun vill að verði staðfest með afgerandi hætti, bendir hún á að sveitarstjórn hafi ekki enn gefið út framkvæmdaleyfi, aðeins sé búið að heimila að hefja skipulagsgerð vegna virkjunarinnar. „Við munum að sjálfsögðu fara að fyrirmælum Skipulagsstofnunar varðandi skipulagsgerðina og fara í einu og öllu eftir lögum og reglum.“
Þegar meira en nóg af rafmagni er til í landinu vakna spurningar um hvers vegna því sé ekki hægt að koma til íbúa dreifðari byggða með tryggari hætti. Eins og Eva nefnir er það flutningskerfið sjálft, sem er á ábyrgð Landsnets og dreifiveitna á hverjum stað. Og eins og Eva nefnir er afhendingaröryggið í Skaftárhreppi ekki eins og best verður á kosið.
En úrbætur eru þó í pípunum. Afhendingarstaður Landsnets í Skaftárhreppi er á Prestbakka við Kirkjubæjarklaustur og þar eru tengdar tvær háspennulínur sem eru hluti af byggðalínunni. „Tengivirkið á Prestbakka er tengt lengstu flutningslínu Landsnets sem nær alla leið frá Sigöldu og austur á Hóla við Höfn í Hornafirði,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets.
Undir venjulegum kringumstæðum væri um fullt afhendingaröryggi að ræða en vegna fyrirkomulags í tengivirkinu veldur truflun á annarri hvorri línunni því að taka þarf báðar úr rekstri samtímis. „Verið er að leggja lokahönd á byggingu tengivirkis á Hnappavöllum í Öræfum sem mun stytta þessa línu töluvert og minnka þar með líkur á truflun. Einnig er endurnýjun tengivirkisins á Prestbakka á tíu ára framkvæmdaáætlun Landsnets sem mun bæta ástandið þar talsvert.“
Steinunn bendir einnig á að Prestbakki sé tengdur afhendingarstað Landsnets í Rimakoti í Landeyjum gegnum kerfi RARIK og að sú tenging hafi komið að góðum notum við að anna forgangsálagi í Skaftárhreppi við truflanir á byggðalínunni.
Í umsögnum og athugasemdum sem bárust við frummatskýrslu um Hnútuvirkjun á sínum tíma voru áhyggjur af röskun landslagsheildarinnar, hins einstæða Eldhrauns og eins yngsta árgljúfurs heims, augljósar. Landvernd og Eldvötn – samtök um náttúruvernd í Skaftárhreppi, fjölluðu ítarlega um sérstöðu svæðisins í athugasemdum sínum og aðilar í ferðaþjónustu um að með virkjun í Hverfisfljóti yrði ósnortinni náttúru spillt og þar með óbyggðaupplifun ferðamanna.
Undir þetta er tekið í áliti Skipulagsstofnunar sem telur framkvæmdirnar líklegar til að hafa neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu en ekki öfugt eins og framkvæmdaaðili heldur fram. „Óbyggðir landsins eru mikilvæg auðlind fyrir ferðaþjónustu, bæði sem áfangastaður ferðamanna og sem ímynd Íslands,“ segir í áliti stofnunarinnar.
Þar sem virkjun Hverfisfljóts við Hnútu er undir 10 MW þarf hún ekki að fara í gegnum ítarlegt ferli rammaáætlunar, þar sem virkjunarhugmyndum er raðað í orkunýtingar-, bið- og verndarflokk. Hún er því í ört stækkandi hópi svonefndra „smávirkjana“ sem þegar hafa risið og eru á teikniborðinu víðs vegar um landið.
Umhverfisráðherra vill endurskoða lög um smávirkjanir
Um þetta fjallar Skipulagsstofnun í áliti sínu á Hnútuvirkjun. Hún bendir á að í rammaáætlun fari fram mikilvæg greining og samanburður á fýsileika ólíkra virkjunarkosta á víðum grundvelli. „Sú framkvæmd sem hér er til umfjöllunar og forsaga hennar sýna veikleika þess að miða við uppsett afl sem viðmið um það hvaða framkvæmdir skulu teknar fyrir í rammaáætlun. Umfang fyrirhugaðrar 9,3 MW virkjunar í Hverfisfljóti er að mestu sambærilegt fyrri áformum um 15 MW virkjun. Um er að ræða framkvæmd sem mun að mati Skipulagsstofnunar hafa verulega neikvæð umhverfisáhrif og tilefni hefði verið til að meta með öðrum virkjunarkostum í rammaáætlun.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra sagði í viðtali við RÚV nýverið að verið væri að undirbúa of margar smávirkjanir sem geti haft umtalsverð neikvæð umhverfisáhrif. Nauðsynlegt væri að endurskoða lög um slíkar virkjanir og meta áhrifin af þeim frekar en horfa eingöngu til uppsetts afls.
Engin virkjun er í Hverfisfljóti í dag en í þingsályktunartillögu þriðja áfanga rammaáætlunar, sem enn hefur ekki verið afgreidd á Alþingi, er lagt til að tvær stærri virkjanahugmyndir, Hverfisfljótsvirkjun og Kaldbaksvirkjun, fari í biðflokk.
Virkjunarframkvæmdirnar eru fyrirhugaðar innan Kötlu jarðvangs sem hefur hlotið viðurkenningu UNESCO sem jarðvangur (Global Geopark) og Skaftáreldahraun er meðal merkustu jarðminja innan hans. Útnefningin felur í sér að svæðið telst hafa mikilvægt jarðfræðilegt gildi á heimsvísu. Skipulagsstofnun telur að horfa verði til þessa þegar metin eru áhrif fyrirhugaðrar framkvæmdar.
Stofnunin gerði miklar athugasemdir við matsskýrsluna fyrir utan það sem hér að ofan hefur verið rakið. Hún benti til dæmis einnig á að fyrirhuguð virkjun væri á svæði þar sem engin mannvirki eru fyrir og lítil sem engin ummerki um rask af mannavöldum. Framkvæmdirnar kæmu því til með að skerða óbyggð víðerni að hluta innan marka miðhálendis Íslands.
Samkvæmt Landsskipulagsstefnu 2015-2026 skal sérkennum miðhálendisins og náttúrugæðum viðhaldið meðal annars með verndun víðerna og landslagsheilda. Þótt umrædd ákvæði Landsskipulagsstefnu eigi við miðhálendi Íslands telur Skipulagsstofnun að sambærileg sjónarmið eigi við um áhrifasvæði fyrirhugaðrar virkjunar í Hverfisfljóti neðan miðhálendismarkanna, vegna nálægðar þess við miðhálendið og yfirbragðs þess sem óraskaðs svæðis. „Framkvæmdin mun þannig hafa verulega neikvæð áhrif á landslag og víðernisupplifun á einstöku svæði.“
Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri Skaftáhrepps, ítrekar að nú sé aðeins búið að taka fyrsta skrefið í átt að skipulagsgerð vegna virkjunarinnar og í ferlinu eigi stofnanir og almenningur eftir að fá tækifæri til að gera athugasemdir sem tillit verði tekið til. Þá eigi sveitarstjórn eftir að fá málið til áframhaldandi afgreiðslu á nokkrum stigum þess sem og Skipulagsstofnun.
„Það er því ekki svo einfalt að sveitarstjórn sé búin að ákveða á þessari stundu hvort breytingin verði samþykkt eður ei þar sem ferlið er rétt á byrjunarstigi,“ segir hún. Framundan sé ferli sem taki að minnsta kosti nokkra mánuði.