Mynd: 123rf.com

Ríkustu tíu prósent landsmanna eiga tæplega þrjú þúsund milljarða í eigin fé

Frá lokum árs 2010 og út árið 2019 urðu til 3.612 milljarðar króna í nýju eigin fé á Íslandi. Af þeim fóru 1.577, eða 44 prósent, til þeirra tæplega 23 þúsund fjölskyldna sem mynda ríkustu tíu prósent landsmanna. Í fyrra jókst auður þessa hóps um 198 milljarða króna á á síðustu þremur árum hefur hann vaxið um 865 milljarða króna. Hann á rúmlega 56 prósent af öllu eigin fé sem til er hérlendis.

Eigið fé Íslendinga, það sem stendur eftir þegar búið er að draga skuldir frá eignum, hækkaði um 433 milljarða króna í fyrra. Það er töluvert minna en sú hækkun sem varð á árunum 2017 (760 milljarðar króna) og 2018 (641 milljarðar króna), en vert er að taka fram að á þeim árum varð mesta hækkun sem átt hefur sér stað á vexti á eigin fé frá því að Hagstofa Íslands hóf að halda utan um þær tölur.

Uppgangur síðustu ára hefur skilað því að eigið fé lands­manna, eignir þeirra þegar búið er að draga skuldir frá, hefur farið úr því að vera 1.565 millj­arðar króna í lok árs 2010 í að vera 5.176 milljarðar krókna um síðustu áramót. Það hefur aldrei verið meira og er nú í fyrsta sinn yfir fimm þúsund milljarðar króna.

Þetta kemur fram í nýjum tölum um eignir og skuldir landsmanna sem Hagstofa Íslands birti í morgun.

Ríkustu taka fleiri krónur til sín

Á þessu tímabili, frá byrjun árs 2011 og út síðasta ár, hafa orðið til 3.612 nýir milljarðar króna í íslensku samfélagi. Þorri þeirrar upphæðar, 1.577 milljarðar króna, hafa farið til þeirra tíu prósent landsmanna sem eiga mest, alls 22.697 fjölskyldna, eða tæplega 44 prósent.

Auglýsing

Í fyrra jókst auður þessa hóps um 198 milljarða króna á á síðustu þremur árum hefur hann vaxið um 865 milljarða króna. Á sama tíma hefur heildarauður landsmanna aukist um 1.833 milljarða króna. Því hefur um 47 prósent af því nýja eigin fé sem orðið hefur til á Íslandi á árunum 2017, 2018 og 2019 farið til þeirrar tíundar sem átti mest fyrir. 

Sá hópur átti rúmlega 56 prósent af öllu eigin fé landsmanna um síðustu áramót, eða alls 2.927 milljarða króna. Þar á meðal er tæplega helmingur alls eigin fjár í fasteignum sem til er í landinu og rúmlega helmingur allra innlána. 

Efsti fimmtungurinn átti samtals 4.089 milljarða króna í eigið fé um síðustu áramót. Það þýðir að 80 prósent landsmanna átti rúmlega 20 prósent eigin fjár og ríkustu 20 prósentin tæplega 80 prósent þess.

Mælir ekki allan auð

Eigið fé ríkustu tíu prósenta landsmanna er reyndar stórlega vanmetið, og er mun meira en tölur Hagstofunnar segja til um. Hluti verðbréfaeignar, hlutabréf í innlendum og erlendum hlutafélögum, er metin á nafnvirði, en ekki markaðsvirði. Þá eru fasteignir metnar á samkvæmt fasteignamati, ekki markaðsvirði, sem er í flestum tilfellum hærra.

Það þýðir að ef verðbréf í t.d. hlutafélögum hafi hækkað í verði frá því að þau voru keypt þá kemur slíkt ekki fram í þessum tölum. Úrvalsvísitala Kauphallar Íslands hefur til að mynda hækkað um 30 prósent frá því snemma í janúar 2019 og um 60 prósent frá byrjun árs 2015.

Auglýsing

Þessi hópur er líka líklegastur allra til að eiga eignir utan Íslands sem koma ekki fram í tölum Hagstofunnar, en áætlað hefur verið að íslenskir aðilar eigi hundruð milljarða króna í aflandsfélögum sem ekki hafi verið gerð grein fyrir. 

Þessi staða var meðal annars dregin upp í skýrslu sem unnin var fyrir Bjarna Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, eftir opinberun Panamaskjalanna og var birt í janúar 2017. Niðurstaða hennar var að  uppsafnað umfang eigna Íslendinga á aflandssvæðum frá árinu 1990 til 2015 næmi einhvers staðar á bilinu 350 til 810 milljörðum króna, og að tekjutap hins opinbera á árunum 2006 til 2014 vegna þessa væri líklega um 56 milljörðum króna. Á hverju ári gæti tapið vegna vantalinna skatta því verið á bilinu 4,6 til 15,5 milljarðar króna.  

Helmingur á rúmlega allt eigið féð

Sá helmingur Íslendinga sem er með minnstu tekjurnar, alls  um 113,5 þúsund fjölskyldur, skuldar samanlagt meira en hann á. Það hefur þó dregið úr þeirri stöðu á undanförnum árum og skiptir þar mestu að eigið fé fasteigna hefur næstum fjórfaldast frá árslokum 2010. 

Ástæðan þess er einföld: hækkandi húsnæðisverð og bætt skuldastaða. Eigið fé í fasteignum landsmanna hefur enda aukist um 2.888 milljarða króna frá árinu 2010 og er því ábyrgt fyrir 80 prósent þeirrar hækkunar sem Hagstofan skrásetur.

Auglýsing

Sá helmingur landsmanna sem er með hæstu tekjurnar er því með jákvætt eigið fé um alls 5.269 milljarð króna, eða meira en sem nemur eigin fé þjóðarinnar allrar. 

Erfitt að bera saman eignastöðu með tæmandi hætti

Einfaldur samanburður á eignastöðu fólks á Íslandi er flókinn. Sérstaklega vegna þess að þær hagtölur sem safnað er saman mæla ekki að öllu leyti heildareignir fólks né taka tillit til hlutdeildar þess í eignum lífeyrissjóðakerfisins. hér að ofan hefur fyrst og síðast horft á hann út frá því hvernig krónur skiptast á milli hópa.

Sumir greinendur kjósa að horfa einungis á hlutfallstölur þegar þeir skoða slíkar tölur, og hvort ójöfnuður hafi aukist. Ef horft er á slíkar, sérstaklega á afmörkuðum tímabilum, er mjög auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu að eignajöfnuður sé að minnka. 

Til að mynda áttu tíu prósent ríkustu landsmanna  86 prósent alls eiginfjár í eigu einstaklinga árið 2010. Um síðustu áramót hafði það hlutfall lækkað niður í um 56 prósent og hlutfallið féll lítillega frá árinu áður. En taka verður tillit til þess að árið 2010 höfðu eignir annarra Íslendinga rýrnað mjög vegna hrunsins á meðan eignir ríkustu héldust nokkuð stöðugar í gegnum storminn.

Þegar horft er á þetta með öðrum augum, hversu stór hluti af nýjum auði fer til ríkustu tíu prósent landsmanna, þá kemur í ljós að frá árinu 2010 hefur, líkt og áður sagði, 47 prósent hans endað hjá þessum hópi, sem er með vanáætlaðri eignir en hinir sem eiga einfaldara eignasafn.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar