EPA

Black Lives Matter: Frá myllumerki til mótmælaöldu

Alicia Garza fann nístandi sorg læsast um sig þegar morðingi Trayvon Martin var sýknaður. Hún settist við tölvuna og skrifaði að það kæmi sér alltaf jafn mikið á óvart „hversu litlu máli líf svartra skipta“. Þarna hafði hún hitt naglann á höfðuðið: „Black lives matter“.

Í júlí árið 2013 fór Alicia Garza út með vinum sínum. Þau voru að bíða. Bíða eftir niðurstöðu í dómsmáli sem var að vænta á hverri mínútu. Þau höfðu ekki sérstakar áhyggjur. Áttu ekki von á öðru en að sá sem án alls vafa skaut unga manninn til bana yrði fundinn sekur og tæki í kjölfarið út sína refsingu.  

En svo var hann sýknaður af öllum ákæruliðum. George Zimmerman, sem hafði verið ákærður fyrir morðið á hinum sautján ára gamla Trayvon Martin, var laus allra mála.  

Þetta var ekki í fyrsta sinn sem svartur maður var skotinn til bana í Bandaríkjunum án þess að það hefði nokkrar afleiðingar fyrir gerandann. Og þetta var heldur ekki í síðasta skiptið.


Auglýsing

Sýknudómurinn varð Garza mikið áfall. Um nóttina vaknaði hún hágrátandi. Hún hafði séð þetta gerast of oft. Hún settist því við tölvuna og hóf að skrifa færslu á Facebook um líðan sína og sárar tilfinningar. Hún skrifaði að það kæmi henni alltaf á óvart „hversu litlu máli líf svartra virðast skipta“. Þarna hafði hún hitt naglann á höfðuðið: „Black lives matter“.

Þessi þrjú orð hreyfðu við mörgum, m.a. Patrissu Collors, vinkonu Garza, sem bjó til myllumerkið #BlackLivesMatter. Það fór samstundis á mikið flug um netheima. Var margsinnis notað næstu árin þegar upp komst um ofbeldi gegn svörtum, jafnvel morð, sem yfirvöld sinntu ekki að rannsaka vel – eða rannsaka yfir höfuð. 

Í upphafi ársins 2020 var það ítrekað notað vegna dauða þriggja svartra Bandaríkjamanna: Ahmaud Arbery, Breonnu Taylor og George Floyd.


Dauði þess síðastnefnda í lok maí var dropinn sem fyllti mælinn. Eldfimi dropinn sem kveikti neista og gerði milljónir manna bálreiðar. Og vikurnar og mánuðina á eftir loguðu Bandaríkin stranda á milli.

Floyd bjó í Minneapolis, einni þeirra borga þar sem ójöfnuður milli svartra og hvítra íbúa er mikill. Þann 25. maí gekk hann inn í verslun og borgaði fyrir sígarettupakka með peningaseðli sem afgreiðslumanninn grunaði að væri falsaður. Hann hringdi því í lögregluna sem kom skömmu síðar á vettvang. Floyd var handtekinn og einn lögreglumannanna setti hné sitt að hálsi hans. Floyd, liggjandi á jörðinni í handjárnum, sagðist ekki ná andanum en það breytti engu, áfram var hnénu haldið að hálsi hans. Í átta mínútur og 46 sekúndur. 

Þar til Floyd hætti að anda. 


Mótmælendur standa við veggmynd af George Floyd.
EPA

Reiðin sem hefur ólgað í Minneapolis og víðar í Bandaríkjunum í kjölfarið er ekki tilkomin vegna morðs á einum svörtum manni. Hún er heldur ekki vegna níðingsháttar eins lögreglumanns. Hún blossar upp vegna þess að George Floyd var enn einn svartur maður sem lætur lífið vegna háttarlags enn eins lögreglumannsins. Kerfisbundin mismunun gegn svörtum er enn að eiga sér stað. Rætur reiðinnar má rekja til þjáninga sem kynslóð eftir kynslóð hefur búið við.

Þó að orðin „Black Lives Matter“ hafi á síðustu árum hlotið hljómgrunn, verið notuð sem myllumerki og slagorð, voru þau ekki á allra vörum fyrr en eftir morðið á George Floyd. Formleg samtök höfðu verið stofnuð undir nafninu Black Lives Matter fyrir nokkrum árum. Þau höfðu mannréttindi svartra á stefnuskrá sinni og bentu á hið rótgróna og kerfibundna ofbeldi sem lögreglan hefur beitt svarta í áratugi. Eitt stefnumálið hefur verið að umbylta lögreglunni og draga úr fjárframlögum til hennar. Þó að það baráttumál hafi ekki hlotið víðtækan hljómgrunn hafa samtökin notið vaxandi stuðnings. Annað og nýrra stefnumál, að banna lögreglumönnum að beita því fantabragði sem Floyd var beittur og dró hann til dauða, hefur hins vegar fengið byr undir báða vængi. Árið 2017 fengu samtökin nafnið Black Lives Matter Global Network Foundation, Inc., og starfið varð í kjölfarið formlegra og skipulagðara. 


Lögreglumenn umkringja mótmælanda í Washington-borg.
EPA

Baráttuhreyfingin sem myndast hefur með slagorðið að vopni er þó ekki skipulögð nema að litlu leyti. Í henni taka fjölmargir þátt sem vita vart að samtökin eru til en nota myllumerkið á samfélagsmiðlum og hrópa orðin þrjú í mótmælagöngum. 

Því mismunun svartra og hvítra í Bandaríkjunum er ekki aðeins einhver tilfinning fólks. Hún er raunveruleg og hefur verið margsönnuð í rannsóknum og sést greinilega í allri tölfræði. Rannsóknir hafa sýnt að aðskilnaður milli svartra og hvítra er ekki eitthvað sem tilheyrir fortíðinni. Hann er raunveruleiki sem margir svartir þurfa að búa við enn þann dag í dag í mörgum borgum Bandaríkjanna.  Lögreglumenn eru fjórum sinnum líklegri til að beita valdi í samskiptum sínum við svarta en hvíta borgara. Svartir eru í miklum meirihluta þeirra sem dæmdir eru til fangelsisvistar. Svartir hafa ekki jafn góðan aðgang að heilbrigðisþjónustu og hvítir nágrannar þeirra og þegar kemur að aðgengi að góðri menntun hallar verulega á svört börn og ungmenni.


EPA

Á sama tíma og hreyfing fólks undir slagorðunum Black Lives Matter hefur orðið meira áberandi hefur gagnrýnisröddunum fjölgað. Þó að stuðningur við baráttuna sé mun víðtækari meðal hvítra í dag en hann var fyrir nokkrum árum, þykir sumum nóg um og telja aðferðirnar rangar. Væri ekki nær að hrópa „Öll mannslíf skipta máli“ frekar en „líf svartra skipta máli“ – hafa sumir spurt.

Einn þeirra er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands og nú formaður Miðflokksins. Í grein sem hann birti í Morgunblaðinu í lok júlí, þegar mótmælaaldan í Bandaríkjunum stóð enn sem hæst, skrifaði hann að þótt allt „vitiborið fólk“ hljóti að vera sammála fullyrðingunni um að líf svartra skipti máli sé það „óneitanlega sérkennilegt að litgreina líf sem svört, hvít eða eitthvað annað“. Sagði hann að þessi „nýja menningarbylting“ fæli í sér endurvakningu kynþáttahyggju, þess að flokka fólk eftir hútlit. „Menningarbylting Vesturlanda er byggð á því sem kallað hefur verið fórnarlambamenning. Tilhneigingu til að skipa fólki í hópa sem njóta mismikilla réttinda eftir því hversu hátt þeir skora á óformlegum fórnarlambaskala.“

Í niðurlagi greinarinnar skrifaði Sigmundur Davíð: „Nú þarf að standa vörð um grunngildi vestrænnar siðmenningar. Þau gildi sem skilað hafa samfélögum meiri árangri en nokkuð annað í mannkynssögunni. Þar ber hæst hugsjónina um að allir skuli teljast jafnréttháir óháð líkamlegum einkennum.“


Samstöðumótmæli á Austurvelli í byrjun júní.
Bára Huld Beck

Hugsjónin sem Sigmundur nefnir er langt frá þeim veruleika sem margar svartar manneskjur búa við í Bandaríkjunum. „Þegar Sigmundur ræðst gegn Black Lives Matter er hann [...] ekki að verja jafnan rétt fólks,“ skrifaði stór hópur fólks í aðsendri grein sem birt var á Vísi í kjölfar skrifa formanns Miðflokksins. „Þvert á móti er hann að gera mannréttindabaráttu tortryggilega og boða rasíska, fóbíska og kvenfjandsamlega hugmyndafræði. Slík hugmyndafræði mun eingöngu geta af sér meiri sundrungu og djúpstæðara óréttlæti.

Sigmundur er að verja valdakerfi undir formerkjum „vestrænnar siðmenningar“, sem hyglir körlum eins og honum á kostnað jaðarsetts fólks. Hann er að verja harðlínukapítalisma sem beinlínis hvetur til arðráns ríks fólks á fátæku fólki.“

Donald Trump tapaði í forsetakosningunum í byrjun nóvember fyrir Joe Biden. Trump hafði litla eða enga samúð sem málstað þeirra sem mótmæltu kynþáttamisréttinu í sumar. Þrátt fyrir að hann fari senn frá völdum stendur misréttið rótgróna enn eftir. Og hann lét það verða eitt sitt síðasta verk að náða lögreglumann sem hafði verið sakfelldur fyrir að siga hundi á handjárnaðan, heimilislausan, svartan mann. 

Auglýsing

En hvað ætlar Joe Biden er að gera í málinu?

Í fyrstu ræðunni sem hann hélt eftir að úrslit kosninganna voru ljós sagði hann að ein stærsta áskorunin sem taka þyrfti á væri „kerfisbundinn rasismi“. Hann sagði einnig að þegar á brattann var að sækja í kosningabaráttunni hafi það verið svartir Bandaríkjamenn sem stóðu með honum. „Þeir hafa alltaf staðið við bakið á mér og ég mun standa við bakið á ykkur.“

Biden hefur viðurkennt að þetta var sá hópur sem átti stóran þátt í því að koma honum til valda. Forsvarsmenn Black Lives Matter hreyfingarinnar vilja aðgerðir strax. Þeir vilja að Biden taki þegar í stað til hendinni í húsnæðis-, heilbrigðis- og menntakerfinu. Eitt helsta baráttumálið, að umbylta lögreglunni, er svo enn efst á baugi. 

Veruleikinn sem margir af öðrum litarhætti en hvítum búa við í Bandaríkjunum er ekki alltaf jafn sýnilegur og á myndbandinu af lögregluþjóninum að murka lífið úr George Floyd. 

„Kynþáttahatur í Bandaríkjunum er eins og ryk í loftinu,“ skrifar Kareem Abdul-Jabbar, fyrrverandi körfuboltamaður í NBA-deildinni, í Los Angeles Times. „Það virðist ósýnilegt – jafnvel þó að þú sért að kafna – þar til þú hleypir sólinni inn. Þá sést það greinilega um allt. Á meðan við látum ljósið skína á það þá höfum við möguleika á því að hreinsa það hvar sem það lendir. En við verðum að halda árvekni því það er áfram í loftinu.“

Svart fólk hefur ekki áhyggjur af því að halda of lítilli fjarlægð sín á milli þótt kórónuveiran sé enn á sveimi, heldur Abdul-Jabbar áfram. Svart fólk hefur einfaldlega of miklar áhyggjur af því að synir þeirra, eiginmenn, feður og bræður verði myrtir af lögreglunni.

„Það sem þú ættir að sjá þegar þú sérð svarta mótmælendur á tímum Trump og kórónuveirunnar er fólk sem hefur verið ýtt út á ystu nöf, ekki vegna þess að það vill að barir og hárgreiðslustofur verði opnaðar heldur af því að það vill lifa. Og anda.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar