EPA

8 mínútur og 46 sekúndur leystu úr læðingi sársauka margra kynslóða

Ólgan í Bandaríkjunum snýst ekki aðeins um þær átta mínútur og 46 sekúndur sem lögreglumaður hélt hné sínu að hálsi George Floyds þar til hann lést. Hún á rætur í þjáningum margra kynslóða fólks er býr enn við misrétti sem er samgróið hugarfari og viðbrögðum valdastofnana.

Tra­y­von Mart­in! Næsta nafn! Freddie Gray! Næsta nafn! Eric Garn­er! Næsta nafn! Terrill Thom­as! Næsta nafn!



Fylk­ing fólks gengur að lög­reglu­stöð­inni í Baltimore. Sá sem leiðir hóp­inn hrópar nafn og sam­ferða­menn hans biðja um það næsta. Þetta eru nöfn fórn­ar­lamba lög­reglu­of­beld­is. Nánar til­tekið nöfn svartra fórn­ar­lamba manna sem ber að gæta öryggis borg­ar­anna.



En aðeins hluti nafna af löngum lista.



Á árunum 2013 til 2019 urðu banda­rískir lög­reglu­menn 7.666 manns að bana. Þrátt fyrir að svartir séu aðeins um 13 pró­sent þjóð­ar­innar eru þeir 2,5 sinnum lík­legri en hvítir til að falla fyrir hendi lög­reglu­manns.



Keith Scott! Næsta nafn! Randy Evans! Næsta nafn! Kevin Hicks! Næsta nafn!



George Floyd.



Nafn hans bætt­ist við list­ann þann 25. maí. Morðið á honum var drop­inn sem fyllti mæl­inn. Eld­fimi drop­inn sem kveikti neista og gerði millj­ónir manna bál­reið­ar. Og síð­ustu daga hafa Banda­ríkin logað stranda á milli.



Auglýsing

Í heila viku hafa fjöl­menn mót­mæli farið fram í borgum vítt og breitt um Banda­rík­in. Í mörgum borg­anna hefur nú verið sett á útgöngu­bann. Þjóð­varð­liðið hefur verið kallað út og því verið hótað að kalla út her­inn.  



Hvað viljum við? Rétt­læti! Hvenær viljum við það? Núna!



Í upp­hafi voru mót­mælin frið­sam­leg. Fólki var brugð­ið. Enn einn svartur maður var lát­inn eftir afskipti lög­reglu­manna. Mann­fjöld­inn gekk um götur og hróp­aði slag­orð. Breyt­inga var kraf­ist.



En svo magn­að­ist ófrið­ar­bál. Og um síð­ustu helgi sauð upp úr. Kveikt var í ýmsum bygg­ing­um, m.a. lög­reglu­stöðvum og bönk­um. Einnig versl­unum af öllum stærðum og gerð­um. Við versl­un­ar­götur blæs sum­ar­vind­ur­inn óheftur inn um glugga. Rúð­urnar eru brotn­ar. Hill­urnar eru sumar hverjar tóm­ar.



Maður reynir að kveikja sér í sígarettu af logandi lögreglubíl í Boston.
EPA

Síð­asti mánu­dagur í maí­mán­uði er lög­boð­inn frí­dagur í Banda­ríkj­un­um. Á ensku kall­ast hann Memorial Day og er helg­aður minn­ingu þeirra sem fallið hafa í her­þjón­ustu.



25. maí síð­ast­lið­inn var síð­asti mánu­dagur mán­að­ar­ins.  Um kvöld­ið, nánar til­tekið klukkan 20.00, gekk George Floyd inn í versl­un­ina Cup Foods á horni 38. strætis og Chicago Avenue í suð­ur­hluta Minn­ea­polis í Minnesota-­ríki. Þar eru bestu mentól-sí­gar­ettur borg­ar­innar sagðar fást og þangað var Floyd kom­inn til að kaupa sér tóbak.



Hann réttir afgreiðslu­mann­in­um, sem er á tán­ings­aldri, 20 doll­ara seð­il. Starfs­mann­inum grunar að seð­il­inn sé fals­að­ur, fer út á eftir Floyd og sér hvar hann er í bíl sín­um. Hann biður Floyd um að skila sígar­ett­unum en það vill hann ekki gera, að því er starfs­mað­ur­inn lýsti í sím­tali við neyð­ar­lín­una í kjöl­far­ið. Í sím­tal­inu seg­ist hann telja Floyd drukk­inn.



Að hringja á lög­reglu ef grunur vaknar um fals­aðan seðil er það sem bræð­urnir fjórir er reka Cup Foods hafa upp­álagt starfs­fólki sínu að gera. Það hefur verið gert áður en lög­reglan sýnt því lít­inn áhuga.



En ekki í þetta skipt­ið.



Lögreglumennirnir setja George Floyd í handjárn við bíl hans.
Úr öryggismyndavél

Aðeins fáum mín­útum eftir sím­talið við neyð­ar­lín­una er lög­reglu­bíll mættur á vett­vang. Í honum eru tveir lög­reglu­menn. Síðar kemur annar lög­reglu­bíll. Í honum eru einnig tveir lög­reglu­menn. Tveir lög­reglu­bílar og fjórir lög­reglu­menn mæta vegna gruns um fals­aðan pen­inga­seð­il.



Floyd situr enn í bíl sínum handan göt­unnar ásamt tveimur öðr­um. Lög­reglu­menn­irnir ræða við fólkið og eftir ein­hverjar mín­útur er Floyd dreg­inn út úr bíl­stjóra­sæt­inu og hand­járn­að­ur. Annar lög­reglu­mað­ur­inn lætur hann setj­ast upp við vegg við gang­stétt­ina. Hann er síðan færður yfir göt­una að lög­reglu­bíln­um. Hann hrasar á leið­inni. Á einu mynd­bandi, sem birt hefur verið til að púsla atburða­rásinni saman, er Floyd kom­inn í aft­ur­sæti lög­reglu­bíls­ins. Báðar aft­ur­dyrnar eru opn­ar. Við aðra þeirra standa tveir menn og við hina lög­reglu­maður sem er kom­inn hálfur inn í bíl­inn. Það næsta sem sést er að lög­reglu­menn­irnir tveir taka á móti Floyd er hann kemur út þeirra meg­in.



Sama kvöld og hand­takan átti sér stað var birt mynd­band á Face­book sem fékk blóðið til að ólga í æðum fólks: Floyd liggur á grúfu við hlið lög­reglu­bíls­ins og einn lög­reglu­mann­anna er með hnéð á hálsi hans. Floyd er enn í hand­járn­um. „Ég get ekki and­að,“ segir hann ítrekað með erf­ið­is­mun­um. Hann hafði áður sagt lög­regl­unni að hann þjáð­ist af inni­lok­un­ar­kennd. Veg­far­endur heyr­ast spyrja hvenær tak­inu á mann­inum verði sleppt. Lög­reglu­mað­ur­inn er róleg­ur. Hann er með hendur í vös­um, hag­ræðir hnénu annað slagið en sleppir ekki. Ekki fyrr en að 8 mín­útum og 46 sek­úndum liðn­um. Ekki fyrr en Floyd er orð­inn mátt­laus. Hættur að kalla á hjálp. Hné lög­reglu­manns­ins er á honum í tvær mín­útur og 53 sek­úndur eftir það. Einn lög­reglu­mann­anna tekur um úln­lið hans og athugar púls­inn. En finnur eng­an.



Ég get ekki and­að! Ég get ekki and­að! Ég get ekki and­að!



Hróp­andi mót­mæl­endur ganga fylktu liði um götur Minn­ea­polis eftir að mynd­bandið af síð­ustu and­ar­tökum George Floyd hafði verið birt. Síð­ustu orð Floyds hafa síðan þá verið end­ur­tekin í mót­mælum um allan heim.



Nokkrum tímum eftir lát Floyd sendi lög­reglan í Minn­ea­polis út frétta­til­kynn­ingu. Þar er talað um „lækn­is­fræði­legt atvik“ (e. med­ical incident). Borg­ar­stjór­inn Jacob Frey og lög­reglu­stjór­inn Med­aria Arra­dondo halda blaða­manna­fund strax um morg­un­inn. „Það sem við sáum var hræði­leg­t,“ segir borg­ar­stjór­inn um mynd­band­ið. „Al­gjör­lega rugl­að“. Hann ákveður að láta siða­reglur ráð­húss­ins, um að segja sem minnst, fara lönd og leið. Hann ákveður að vera hrein­skil­inn. Rík­is­stjór­inn tekur stuttu síðar í sama streng, segir skort á mannúð aug­ljós­an. Sak­sókn­ar­inn til­kynnir að málið verði rann­sakað ofan í kjöl­inn.



Um hádeg­is­bil er þegar byrjað að setja blóm og kerti við stað­inn þar sem hand­takan fór fram og nokkru síðar til­kynnir lög­reglu­stjór­inn að lög­reglu­mönn­unum fjórum, sem áttu þátt í hand­tök­unni, hafi verið sagt upp störf­um.



Síð­degis hafa hund­ruð manna safn­ast saman á horni 38. strætis og Chicago Avenue. Hópur mót­mæl­enda gengur að lög­reglu­stöð­inni í hverf­inu og ein­hverjir sjást henda hlutum í hana. Lög­reglan beitir piparúða.



Á mið­viku­deg­inum taka sam­tök akti­vista sig saman og beina þeim til­mælum til allra að mót­mæla með frið­semd en ekki ofbeldi. Það gera enda lang­flest­ir. En um kvöldið er frið­ur­inn úti. Eldur er bor­inn að bygg­ingum og inn­brot fram­in. Nóttin ein­kenn­ist af mik­illi ólgu. Dag­inn eftir biður borg­ar­stjór­inn um aðstoð þjóð­varð­liðs­ins. Hann sá að lög­reglan í borg­inni , sú sama valda­stofnun og vakti reið­ina í upp­hafi, réð ekki við ástand­ið. Um kvöldið er kveikt í lög­reglu­stöð­inni í hverf­inu þar sem Floyd lést. Kveikt er í tugum bygg­inga til við­bót­ar.



Minn­ea­polis logar.



Mótmælandi stendur fyrir framan vegatálma og hóp lögreglumanna í New York.
EPA

Á föstu­deg­inum er lög­reglu­mað­ur­inn sem hélt hnénu að hálsi Floyds hand­tek­inn og hann ákærður fyrir mann­dráp (morð af þriðju gráðu). Hann heitir Der­eck Chauvin. Hann hefur starfað í lög­regl­unni í tæp tutt­ugu ár og sinnt örygg­is­gæslu á skemmti­stöðum í auka­vinnu.



Borg­ar­yf­ir­völd setja á útgöngu­bann frá klukkan átta á kvöld­in. Þegar fyrsta kvöldið er ljóst að margir ætla ekki að virða það. Lög­reglan ræður ekki við neitt og hópur manna tekur lög­reglu­stöð yfir. Fleiri þjóð­varð­liðar eru kall­aðir á vett­vang.



Eftir hádegi á laug­ar­deg­inum hefj­ast gríð­ar­lega fjöl­menn mót­mæli. Áfram er kraf­ist rétt­lætis og breyt­inga. Mót­mæli eru einnig hafin í tugum ann­arra borga í Banda­ríkj­un­um. And­rúms­loftið breyt­ist þegar kvölda tek­ur. Þá eru eld­arnir kveikt­ir.



Þannig líður helg­in. Lög­reglu­menn og þjóð­varð­lið­ar, gráir fyrir járn­um, raða sér upp um alla Minn­ea­polis og hand­taka hund­ruð manna. Mót­mæl­endur eru ekki sátt­ir. Segja harð­ræði vera beitt. Að meðal hinna hand­teknu sé sak­laust fólk sem hafi aðeins verið að mót­mæla órétt­læti. Að við­brögð lög­reglu hafi verið ofsa­fengin og oft án til­efn­is. Upp­lausn­ar­á­stand rík­ir.



„Þegar grip­deild­irnar byrja – hefst skot­hríð­in“ (e. when the loot­ing starts – the shoot­ing starts).



Þetta skrif­aði Don­ald Trump for­seti Banda­ríkj­anna á Twitter síð­asta föstu­dag. Setn­ingin er til­vísun til orða alræmds lög­reglu­stjóra í Miami árið 1967. Upp­þotum í hverfum svartra í borg­inni hafði verið svarað af hörku: „Okkur er sama þó að við séum sak­aðir um hrotta­skap. Þetta er rétt að byrj­a,“ sagði lög­reglu­stjór­inn Walter E. Hea­d­ly. „Þegar grip­deild­irnar byrja hefst skot­hríð­in.“



Yfir­lýs­ingar hans voru ekki orðin tóm. Hann sendi sér­sveitir lög­reglu­manna með hunda inn í hverfin og þær höfðu leyfi til að stöðva fólk og leita á því án til­efn­is. „Þetta er stríð,“ sagði hann. Mann­rétt­inda­sam­tök gagn­rýndu aðferðir Hea­d­lys harð­lega og sögðu hann hafa gert Miami að fas­ista­ríki. Rétt­inda­bar­átta svartra var á þessum tíma að ná hámarki og var smám saman farin að svipta hul­unni af kerf­is­bund­inni mis­munun í þeirra garð.



Síðan eru liðnir rúmir fjórir ára­tug­ir.



Reiðin sem hefur ólgað í Minn­ea­polis og víðar í Banda­ríkj­unum síð­ustu daga er ekki til­komin vegna morðs á einum svörtum manni. Hún er heldur ekki vegna níð­ings­háttar eins lög­reglu­manns. Hún blossar upp vegna þess að George Floyd var enn einn svartur maður sem lætur lífið vegna hátt­ar­lags enn eins lög­reglu­manns­ins. Kerf­is­bundin mis­munun er enn að eiga sér stað. Rætur reið­innar má rekja til þján­inga sem kyn­slóð eftir kyn­slóð hefur búið við.



Blómahaf við gatnamótin þar sem George Floyd var myrtur.
EPA

Margir hafa lýst undrun sinni á því að mót­mæli og óeirðir skulu hafa haldið áfram eftir að búið var að reka lög­reglu­menn­ina. Og líka eftir að búið var að hand­taka og ákæra lög­reglu­mann­inn sem setti hnéð að hálsi Floyds. Var ekki búið að taka málið föstum tök­um?



„Þetta snýst ekki bara um þær átta mín­útur sem lög­reglu­mað­ur­inn var með hnéð að hálsi George Floyd,“ segir Jacob Frey, borg­ar­stjóri Minn­ea­polis, í sam­tali við New York Times.„Þetta snýst um síð­ustu fjögur hund­ruð ár. Þetta snýst um hund­ruð ára af aðskiln­aði og mis­munun sem er inn­byggð í allt kerf­ið. Þetta snýst um end­ur­tekna illa með­ferð lög­reglu­manna í ára­tugi. Eina ástæðan fyrir því að við sjáum þessi mál oftar núna er sú að þau nást á mynd­band.“



Í nær engri banda­rískri borg er meiri mis­skipt­ingu að finna en í Minn­ea­pol­is. Hún er ekki vel sjá­an­leg á yfir­borð­inu. Með­al­tekjur í tví­bura­borg­unum svoköll­uðu, Minn­ea­polis og St. Paul, eru yfir með­al­tali á lands­vísu. Það sama á við um með­al­aldur fólks sem þykir jafnan til marks um vel­meg­un.



En mis­mun­unin birt­ist í gríð­ar­legum aðstöðumun svartra og hvítra, hvort sem varðar mennt­un, tekjur eða atvinnu­tæki­færi. Samuel L. Myers, hag­fræð­ingur við Minnesota-há­skóla, kallar þetta „Minnesota þver­sögn­ina“.



Útgöngubann sem sett hefur verið á í mörgum borgum hefur verið virt að vettugi.
EPA

Orsakir mis­skipt­ing­ar­innar má rekja allt aftur til þræla­halds­ins en ákvarð­anir sem teknar voru fyrir nokkrum ára­tugum hafa haft mikið að segja. Til dæmis þegar hrað­braut var lögð í gegnum borg­irnar á sjötta ára­tugnum og hverfi svartra voru rifin niður en ekki hvítra. Með nið­ur­rif­inu hurfu ekki aðeins hús heldur sam­fé­lög. Þar hafði fólk tengst í gegnum kirkj­ur, félags­mið­stöðv­ar, versl­anir og fleira.



Um svipað leyti bauðst hvítum verka­manna­fjöl­skyldum að kaupa sína fyrstu fast­eign með lánum frá alrík­is­stjórn­inni. Svartir fengu ekki þessi lán. Gjáin dýpkaði enn. Nýlegra dæmi á svip­uðum nótum er sú stað­reynd að umsóknum svartra um lán í bönkum er oftar hafnað en hvítra. Og það eftir að tekið er til­lit til skulda og tekna.



Tekjur heim­ila svartra Banda­ríkja­manna eru að með­al­tali um 60 pró­sent af með­al­tekjum heim­ila hvítra í land­inu. Í Bret­landi, þar sem mis­munun er vissu­lega til staðar er munur á með­al­tekjum þess­ara hópa tíu pró­sent. Árið 1970 voru svartir með um 50 pró­sent af launum hvítra en næstu ára­tug­ina minnk­aði bilið – allt til árs­ins 2000. Síðan þá hefur það auk­ist á ný.



Auglýsing

Í frétta­skýr­ingu Economist segir að launa­töl­urnar segi þó aðeins brot af sög­unni. Atvinnu­leysi er mikið meira meðal svartra en hvítra. Í nýlegri rann­sókn kom fram að um 35 pró­sent ungra svartra karl­manna í Banda­ríkj­unum eru án atvinnu.



Mis­mun­inn kemur svo skýrt fram í því hvernig lög­reglan kemur fram við svarta. Það er ekki bundið við tví­bura­borg­irnar í Minnesota. Húð­lit­ur­inn einn er nóg til þess að svartir þykja grun­sam­legri en hvít­ir.



Í nær öllum ríkjum Banda­ríkj­anna eru svartir lík­legri til að vera drepnir af lög­regl­unni en hvítir að teknu til­liti til hlut­falls beggja hópa af heildar íbúa­fjölda. Í Utah, svo dæmi sé tek­ið, eru svartir rétt rúm­lega 1 pró­sent íbú­anna en hins vegar tíu pró­sent þeirra sem lög­reglan hefur skotið til bana. Í Minnesota, þar sem George Floyd bjó, eru svartir fjórum sinnum lík­legri en hvítir að verða drepnir af lög­reglu­mönn­um. Aðeins 5 pró­sent íbú­anna eru svartir en þeir eru 20 pró­sent þeirra sem hafa fallið fyrir hendi lög­regl­unn­ar.  



Samstöðumótmæli hafa farið fram um allan heim.
EPA

„Við erum orðin þreytt,“ sagði Mike Griffin, einn þeirra sem mót­mælti í Minn­ea­polis um helg­ina. Bar­áttan fyrir því að geta notið lífs­gæða til jafns við aðra hafi tekið á sam­fé­lag svartra. Svo var George Floyd myrt­ur. Í því krist­all­að­ist allt það órétt­læti sem þeir hafa búið við. Þeir hafa svo oft bent á hið kerf­is­læga mis­rétti. En morð af þessum toga eru enn að eiga sér stað. Oft hefur verið lofað umbótum en þær virð­ast gleym­ast jafn­óð­um. Þess vegna eru eldar kveikt­ir. Til að fanga athygli heims­byggð­ar­inn­ar.



Svartir Banda­ríkja­menn eru lík­legri en hvítir til að vinna lág­launa­störf og eru meðal þeirra fyrstu til að missa vinn­una þegar efna­hags­þreng­ingar verða. En þeir eru ólík­legri til að geta tekið sér launað leyfi frá störfum vegna veik­inda. Það gerði þeim erfitt fyrir í far­aldri COVID-19. Rann­sóknir hafa sýnt að þeir eru útsett­ari fyrir veirunni en aðrir hópar og veikj­ast alvar­leg­ar.  



Lögregla handtekur hóp mótmælenda í New York sem höfðu brotið útgöngubann.
EPA

„Kyn­þátta­hatur í Banda­ríkj­unum er eins og ryk í loft­in­u,“ skrifar Kareem Abdul-Jabb­ar, fyrr­ver­andi körfu­bolta­maður í NBA-­deild­inn­i, í Los Ang­eles Times. „Það virð­ist ósýni­legt – jafn­vel þó að þú sért að kafna – þar til þú hleypir sól­inni inn. Þá sést það greini­lega um allt. Á meðan við látum ljósið skína á það þá höfum við mögu­leika á því að hreinsa það hvar sem það lend­ir. En við verðum að halda árvekni því það er áfram í loft­in­u.“



Svart fólk hefur ekki áhyggjur af því að halda of lít­illi fjar­lægð sín á milli þótt kór­ónu­veiran sé enn á sveimi, heldur Abdul-Jabbar áfram. Svart fólk hefur ein­fald­lega of miklar áhyggjur af því að synir þeirra, eig­in­menn, feður og bræður verði myrtir af lög­regl­unni.



„Það sem þú ættir að sjá þegar þú sérð svarta mót­mæl­endur á tímum Trump og kór­ónu­veirunnar er fólk sem hefur verið ýtt út á ystu nöf, ekki vegna þess að það vill að barir og hár­greiðslu­stofur verði opn­aðar heldur af því að það vill lifa. Og anda.“



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar