EPA

8 mínútur og 46 sekúndur leystu úr læðingi sársauka margra kynslóða

Ólgan í Bandaríkjunum snýst ekki aðeins um þær átta mínútur og 46 sekúndur sem lögreglumaður hélt hné sínu að hálsi George Floyds þar til hann lést. Hún á rætur í þjáningum margra kynslóða fólks er býr enn við misrétti sem er samgróið hugarfari og viðbrögðum valdastofnana.

Trayvon Martin! Næsta nafn! Freddie Gray! Næsta nafn! Eric Garner! Næsta nafn! Terrill Thomas! Næsta nafn!


Fylking fólks gengur að lögreglustöðinni í Baltimore. Sá sem leiðir hópinn hrópar nafn og samferðamenn hans biðja um það næsta. Þetta eru nöfn fórnarlamba lögregluofbeldis. Nánar tiltekið nöfn svartra fórnarlamba manna sem ber að gæta öryggis borgaranna.


En aðeins hluti nafna af löngum lista.


Á árunum 2013 til 2019 urðu bandarískir lögreglumenn 7.666 manns að bana. Þrátt fyrir að svartir séu aðeins um 13 prósent þjóðarinnar eru þeir 2,5 sinnum líklegri en hvítir til að falla fyrir hendi lögreglumanns.


Keith Scott! Næsta nafn! Randy Evans! Næsta nafn! Kevin Hicks! Næsta nafn!


George Floyd.


Nafn hans bættist við listann þann 25. maí. Morðið á honum var dropinn sem fyllti mælinn. Eldfimi dropinn sem kveikti neista og gerði milljónir manna bálreiðar. Og síðustu daga hafa Bandaríkin logað stranda á milli.


Auglýsing

Í heila viku hafa fjölmenn mótmæli farið fram í borgum vítt og breitt um Bandaríkin. Í mörgum borganna hefur nú verið sett á útgöngubann. Þjóðvarðliðið hefur verið kallað út og því verið hótað að kalla út herinn.  


Hvað viljum við? Réttlæti! Hvenær viljum við það? Núna!


Í upphafi voru mótmælin friðsamleg. Fólki var brugðið. Enn einn svartur maður var látinn eftir afskipti lögreglumanna. Mannfjöldinn gekk um götur og hrópaði slagorð. Breytinga var krafist.


En svo magnaðist ófriðarbál. Og um síðustu helgi sauð upp úr. Kveikt var í ýmsum byggingum, m.a. lögreglustöðvum og bönkum. Einnig verslunum af öllum stærðum og gerðum. Við verslunargötur blæs sumarvindurinn óheftur inn um glugga. Rúðurnar eru brotnar. Hillurnar eru sumar hverjar tómar.


Maður reynir að kveikja sér í sígarettu af logandi lögreglubíl í Boston.
EPA

Síðasti mánudagur í maímánuði er lögboðinn frídagur í Bandaríkjunum. Á ensku kallast hann Memorial Day og er helgaður minningu þeirra sem fallið hafa í herþjónustu.


25. maí síðastliðinn var síðasti mánudagur mánaðarins.  Um kvöldið, nánar tiltekið klukkan 20.00, gekk George Floyd inn í verslunina Cup Foods á horni 38. strætis og Chicago Avenue í suðurhluta Minneapolis í Minnesota-ríki. Þar eru bestu mentól-sígarettur borgarinnar sagðar fást og þangað var Floyd kominn til að kaupa sér tóbak.


Hann réttir afgreiðslumanninum, sem er á táningsaldri, 20 dollara seðil. Starfsmanninum grunar að seðilinn sé falsaður, fer út á eftir Floyd og sér hvar hann er í bíl sínum. Hann biður Floyd um að skila sígarettunum en það vill hann ekki gera, að því er starfsmaðurinn lýsti í símtali við neyðarlínuna í kjölfarið. Í símtalinu segist hann telja Floyd drukkinn.


Að hringja á lögreglu ef grunur vaknar um falsaðan seðil er það sem bræðurnir fjórir er reka Cup Foods hafa uppálagt starfsfólki sínu að gera. Það hefur verið gert áður en lögreglan sýnt því lítinn áhuga.


En ekki í þetta skiptið.


Lögreglumennirnir setja George Floyd í handjárn við bíl hans.
Úr öryggismyndavél

Aðeins fáum mínútum eftir símtalið við neyðarlínuna er lögreglubíll mættur á vettvang. Í honum eru tveir lögreglumenn. Síðar kemur annar lögreglubíll. Í honum eru einnig tveir lögreglumenn. Tveir lögreglubílar og fjórir lögreglumenn mæta vegna gruns um falsaðan peningaseðil.


Floyd situr enn í bíl sínum handan götunnar ásamt tveimur öðrum. Lögreglumennirnir ræða við fólkið og eftir einhverjar mínútur er Floyd dreginn út úr bílstjórasætinu og handjárnaður. Annar lögreglumaðurinn lætur hann setjast upp við vegg við gangstéttina. Hann er síðan færður yfir götuna að lögreglubílnum. Hann hrasar á leiðinni. Á einu myndbandi, sem birt hefur verið til að púsla atburðarásinni saman, er Floyd kominn í aftursæti lögreglubílsins. Báðar afturdyrnar eru opnar. Við aðra þeirra standa tveir menn og við hina lögreglumaður sem er kominn hálfur inn í bílinn. Það næsta sem sést er að lögreglumennirnir tveir taka á móti Floyd er hann kemur út þeirra megin.


Sama kvöld og handtakan átti sér stað var birt myndband á Facebook sem fékk blóðið til að ólga í æðum fólks: Floyd liggur á grúfu við hlið lögreglubílsins og einn lögreglumannanna er með hnéð á hálsi hans. Floyd er enn í handjárnum. „Ég get ekki andað,“ segir hann ítrekað með erfiðismunum. Hann hafði áður sagt lögreglunni að hann þjáðist af innilokunarkennd. Vegfarendur heyrast spyrja hvenær takinu á manninum verði sleppt. Lögreglumaðurinn er rólegur. Hann er með hendur í vösum, hagræðir hnénu annað slagið en sleppir ekki. Ekki fyrr en að 8 mínútum og 46 sekúndum liðnum. Ekki fyrr en Floyd er orðinn máttlaus. Hættur að kalla á hjálp. Hné lögreglumannsins er á honum í tvær mínútur og 53 sekúndur eftir það. Einn lögreglumannanna tekur um úlnlið hans og athugar púlsinn. En finnur engan.


Ég get ekki andað! Ég get ekki andað! Ég get ekki andað!


Hrópandi mótmælendur ganga fylktu liði um götur Minneapolis eftir að myndbandið af síðustu andartökum George Floyd hafði verið birt. Síðustu orð Floyds hafa síðan þá verið endurtekin í mótmælum um allan heim.


Nokkrum tímum eftir lát Floyd sendi lögreglan í Minneapolis út fréttatilkynningu. Þar er talað um „læknisfræðilegt atvik“ (e. medical incident). Borgarstjórinn Jacob Frey og lögreglustjórinn Medaria Arradondo halda blaðamannafund strax um morguninn. „Það sem við sáum var hræðilegt,“ segir borgarstjórinn um myndbandið. „Algjörlega ruglað“. Hann ákveður að láta siðareglur ráðhússins, um að segja sem minnst, fara lönd og leið. Hann ákveður að vera hreinskilinn. Ríkisstjórinn tekur stuttu síðar í sama streng, segir skort á mannúð augljósan. Saksóknarinn tilkynnir að málið verði rannsakað ofan í kjölinn.


Um hádegisbil er þegar byrjað að setja blóm og kerti við staðinn þar sem handtakan fór fram og nokkru síðar tilkynnir lögreglustjórinn að lögreglumönnunum fjórum, sem áttu þátt í handtökunni, hafi verið sagt upp störfum.


Síðdegis hafa hundruð manna safnast saman á horni 38. strætis og Chicago Avenue. Hópur mótmælenda gengur að lögreglustöðinni í hverfinu og einhverjir sjást henda hlutum í hana. Lögreglan beitir piparúða.


Á miðvikudeginum taka samtök aktivista sig saman og beina þeim tilmælum til allra að mótmæla með friðsemd en ekki ofbeldi. Það gera enda langflestir. En um kvöldið er friðurinn úti. Eldur er borinn að byggingum og innbrot framin. Nóttin einkennist af mikilli ólgu. Daginn eftir biður borgarstjórinn um aðstoð þjóðvarðliðsins. Hann sá að lögreglan í borginni , sú sama valdastofnun og vakti reiðina í upphafi, réð ekki við ástandið. Um kvöldið er kveikt í lögreglustöðinni í hverfinu þar sem Floyd lést. Kveikt er í tugum bygginga til viðbótar.


Minneapolis logar.


Mótmælandi stendur fyrir framan vegatálma og hóp lögreglumanna í New York.
EPA

Á föstudeginum er lögreglumaðurinn sem hélt hnénu að hálsi Floyds handtekinn og hann ákærður fyrir manndráp (morð af þriðju gráðu). Hann heitir Dereck Chauvin. Hann hefur starfað í lögreglunni í tæp tuttugu ár og sinnt öryggisgæslu á skemmtistöðum í aukavinnu.


Borgaryfirvöld setja á útgöngubann frá klukkan átta á kvöldin. Þegar fyrsta kvöldið er ljóst að margir ætla ekki að virða það. Lögreglan ræður ekki við neitt og hópur manna tekur lögreglustöð yfir. Fleiri þjóðvarðliðar eru kallaðir á vettvang.


Eftir hádegi á laugardeginum hefjast gríðarlega fjölmenn mótmæli. Áfram er krafist réttlætis og breytinga. Mótmæli eru einnig hafin í tugum annarra borga í Bandaríkjunum. Andrúmsloftið breytist þegar kvölda tekur. Þá eru eldarnir kveiktir.


Þannig líður helgin. Lögreglumenn og þjóðvarðliðar, gráir fyrir járnum, raða sér upp um alla Minneapolis og handtaka hundruð manna. Mótmælendur eru ekki sáttir. Segja harðræði vera beitt. Að meðal hinna handteknu sé saklaust fólk sem hafi aðeins verið að mótmæla óréttlæti. Að viðbrögð lögreglu hafi verið ofsafengin og oft án tilefnis. Upplausnarástand ríkir.


„Þegar gripdeildirnar byrja – hefst skothríðin“ (e. when the looting starts – the shooting starts).


Þetta skrifaði Donald Trump forseti Bandaríkjanna á Twitter síðasta föstudag. Setningin er tilvísun til orða alræmds lögreglustjóra í Miami árið 1967. Uppþotum í hverfum svartra í borginni hafði verið svarað af hörku: „Okkur er sama þó að við séum sakaðir um hrottaskap. Þetta er rétt að byrja,“ sagði lögreglustjórinn Walter E. Headly. „Þegar gripdeildirnar byrja hefst skothríðin.“


Yfirlýsingar hans voru ekki orðin tóm. Hann sendi sérsveitir lögreglumanna með hunda inn í hverfin og þær höfðu leyfi til að stöðva fólk og leita á því án tilefnis. „Þetta er stríð,“ sagði hann. Mannréttindasamtök gagnrýndu aðferðir Headlys harðlega og sögðu hann hafa gert Miami að fasistaríki. Réttindabarátta svartra var á þessum tíma að ná hámarki og var smám saman farin að svipta hulunni af kerfisbundinni mismunun í þeirra garð.


Síðan eru liðnir rúmir fjórir áratugir.


Reiðin sem hefur ólgað í Minneapolis og víðar í Bandaríkjunum síðustu daga er ekki tilkomin vegna morðs á einum svörtum manni. Hún er heldur ekki vegna níðingsháttar eins lögreglumanns. Hún blossar upp vegna þess að George Floyd var enn einn svartur maður sem lætur lífið vegna háttarlags enn eins lögreglumannsins. Kerfisbundin mismunun er enn að eiga sér stað. Rætur reiðinnar má rekja til þjáninga sem kynslóð eftir kynslóð hefur búið við.


Blómahaf við gatnamótin þar sem George Floyd var myrtur.
EPA

Margir hafa lýst undrun sinni á því að mótmæli og óeirðir skulu hafa haldið áfram eftir að búið var að reka lögreglumennina. Og líka eftir að búið var að handtaka og ákæra lögreglumanninn sem setti hnéð að hálsi Floyds. Var ekki búið að taka málið föstum tökum?


„Þetta snýst ekki bara um þær átta mínútur sem lögreglumaðurinn var með hnéð að hálsi George Floyd,“ segir Jacob Frey, borgarstjóri Minneapolis, í samtali við New York Times.„Þetta snýst um síðustu fjögur hundruð ár. Þetta snýst um hundruð ára af aðskilnaði og mismunun sem er innbyggð í allt kerfið. Þetta snýst um endurtekna illa meðferð lögreglumanna í áratugi. Eina ástæðan fyrir því að við sjáum þessi mál oftar núna er sú að þau nást á myndband.“


Í nær engri bandarískri borg er meiri misskiptingu að finna en í Minneapolis. Hún er ekki vel sjáanleg á yfirborðinu. Meðaltekjur í tvíburaborgunum svokölluðu, Minneapolis og St. Paul, eru yfir meðaltali á landsvísu. Það sama á við um meðalaldur fólks sem þykir jafnan til marks um velmegun.


En mismununin birtist í gríðarlegum aðstöðumun svartra og hvítra, hvort sem varðar menntun, tekjur eða atvinnutækifæri. Samuel L. Myers, hagfræðingur við Minnesota-háskóla, kallar þetta „Minnesota þversögnina“.


Útgöngubann sem sett hefur verið á í mörgum borgum hefur verið virt að vettugi.
EPA

Orsakir misskiptingarinnar má rekja allt aftur til þrælahaldsins en ákvarðanir sem teknar voru fyrir nokkrum áratugum hafa haft mikið að segja. Til dæmis þegar hraðbraut var lögð í gegnum borgirnar á sjötta áratugnum og hverfi svartra voru rifin niður en ekki hvítra. Með niðurrifinu hurfu ekki aðeins hús heldur samfélög. Þar hafði fólk tengst í gegnum kirkjur, félagsmiðstöðvar, verslanir og fleira.


Um svipað leyti bauðst hvítum verkamannafjölskyldum að kaupa sína fyrstu fasteign með lánum frá alríkisstjórninni. Svartir fengu ekki þessi lán. Gjáin dýpkaði enn. Nýlegra dæmi á svipuðum nótum er sú staðreynd að umsóknum svartra um lán í bönkum er oftar hafnað en hvítra. Og það eftir að tekið er tillit til skulda og tekna.


Tekjur heimila svartra Bandaríkjamanna eru að meðaltali um 60 prósent af meðaltekjum heimila hvítra í landinu. Í Bretlandi, þar sem mismunun er vissulega til staðar er munur á meðaltekjum þessara hópa tíu prósent. Árið 1970 voru svartir með um 50 prósent af launum hvítra en næstu áratugina minnkaði bilið – allt til ársins 2000. Síðan þá hefur það aukist á ný.


Auglýsing

Í fréttaskýringu Economist segir að launatölurnar segi þó aðeins brot af sögunni. Atvinnuleysi er mikið meira meðal svartra en hvítra. Í nýlegri rannsókn kom fram að um 35 prósent ungra svartra karlmanna í Bandaríkjunum eru án atvinnu.


Mismuninn kemur svo skýrt fram í því hvernig lögreglan kemur fram við svarta. Það er ekki bundið við tvíburaborgirnar í Minnesota. Húðliturinn einn er nóg til þess að svartir þykja grunsamlegri en hvítir.


Í nær öllum ríkjum Bandaríkjanna eru svartir líklegri til að vera drepnir af lögreglunni en hvítir að teknu tilliti til hlutfalls beggja hópa af heildar íbúafjölda. Í Utah, svo dæmi sé tekið, eru svartir rétt rúmlega 1 prósent íbúanna en hins vegar tíu prósent þeirra sem lögreglan hefur skotið til bana. Í Minnesota, þar sem George Floyd bjó, eru svartir fjórum sinnum líklegri en hvítir að verða drepnir af lögreglumönnum. Aðeins 5 prósent íbúanna eru svartir en þeir eru 20 prósent þeirra sem hafa fallið fyrir hendi lögreglunnar.  


Samstöðumótmæli hafa farið fram um allan heim.
EPA

„Við erum orðin þreytt,“ sagði Mike Griffin, einn þeirra sem mótmælti í Minneapolis um helgina. Baráttan fyrir því að geta notið lífsgæða til jafns við aðra hafi tekið á samfélag svartra. Svo var George Floyd myrtur. Í því kristallaðist allt það óréttlæti sem þeir hafa búið við. Þeir hafa svo oft bent á hið kerfislæga misrétti. En morð af þessum toga eru enn að eiga sér stað. Oft hefur verið lofað umbótum en þær virðast gleymast jafnóðum. Þess vegna eru eldar kveiktir. Til að fanga athygli heimsbyggðarinnar.


Svartir Bandaríkjamenn eru líklegri en hvítir til að vinna láglaunastörf og eru meðal þeirra fyrstu til að missa vinnuna þegar efnahagsþrengingar verða. En þeir eru ólíklegri til að geta tekið sér launað leyfi frá störfum vegna veikinda. Það gerði þeim erfitt fyrir í faraldri COVID-19. Rannsóknir hafa sýnt að þeir eru útsettari fyrir veirunni en aðrir hópar og veikjast alvarlegar.  


Lögregla handtekur hóp mótmælenda í New York sem höfðu brotið útgöngubann.
EPA

„Kynþáttahatur í Bandaríkjunum er eins og ryk í loftinu,“ skrifar Kareem Abdul-Jabbar, fyrrverandi körfuboltamaður í NBA-deildinni, í Los Angeles Times. „Það virðist ósýnilegt – jafnvel þó að þú sért að kafna – þar til þú hleypir sólinni inn. Þá sést það greinilega um allt. Á meðan við látum ljósið skína á það þá höfum við möguleika á því að hreinsa það hvar sem það lendir. En við verðum að halda árvekni því það er áfram í loftinu.“


Svart fólk hefur ekki áhyggjur af því að halda of lítilli fjarlægð sín á milli þótt kórónuveiran sé enn á sveimi, heldur Abdul-Jabbar áfram. Svart fólk hefur einfaldlega of miklar áhyggjur af því að synir þeirra, eiginmenn, feður og bræður verði myrtir af lögreglunni.


„Það sem þú ættir að sjá þegar þú sérð svarta mótmælendur á tímum Trump og kórónuveirunnar er fólk sem hefur verið ýtt út á ystu nöf, ekki vegna þess að það vill að barir og hárgreiðslustofur verði opnaðar heldur af því að það vill lifa. Og anda.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar