Bára Huld Beck

Ekkert pláss fyrir íhald í stjórnmálum næstu árin

Alvarlegt ástand er nú komið upp í íslensku efnahagslífi. Mörg hundruð milljarða króna tap í ríkisrekstri er fyrirsjáanlegt, tugir þúsunda verða án atvinnu að öllu leyti eða hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn talaði við fulltrúa í stjórnarandstöðunni til þess að kanna hvernig þeir sæju framtíðina fyrir sér – og hvaða leiðir væru bestar út úr þessu ástandi. Fyrstur er þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson.

Við erum að fara ofan í ákveðna holu; það er að segja efna­hags­erf­ið­leik­arnir eru núna og er vonin nátt­úru­lega að þeim ljúki þegar höml­unum verður aflétt og allt fer í gang aft­ur. Við sjáum það þó flest og gerum okkur grein fyrir því að það verður ekki þannig.“

Þetta segir Björn Leví Gunn­ars­son, þing­maður Pírata, þegar hann er spurður út í stöð­una sem upp er komin vegna COVID-19 far­ald­urs­ins en horfur í efna­hags­líf­inu eru dökkar um þessar mundir – og óljóst er nákvæm­lega hvað fram­tíðin ber í skauti sér. 

Stjórn­völd „skila bara auðu“

Björn Leví segir að vonin til að byrja með þegar far­ald­ur­inn var á byrj­un­ar­stigi hafi verið sú að þessir erf­ið­leikar væru „stutt pása“ og svo tæki allt við sér að nýju. „En á þeim tíma þegar fyrstu aðgerð­irnar voru boð­aðar hjá stjórn­völdum þá voru mun fleiri og þær raddir urðu hávær­ari að erf­ið­leik­arnir myndu standa lengur yfir en í tvo mán­uð­i.“

Auglýsing

Hann bendir á að stjórn­völd hafi verið sama sinnis; að for­svars­menn hennar séu búnir að greina frá því að ástandið á næst­unni verði ekki aftur eins og á síð­asta ári. „En á sama tíma hafa aðgerðir stjórn­valda nokkurn veg­inn ein­ungis verið til þess að moka ofan í þessa holu sem við erum í nún­a.“ Þá vísar Björn Leví í neyð­ar­að­gerðir stjórn­valda til þess að reyna að kom­ast yfir þau aug­ljósu vanda­mál sem íslenskt efna­hags­líf stendur frammi fyrir núna vegna COVID-19 far­ald­urs­ins – en þó án nokk­urrar áætl­unar hvað taki við eftir hann.

„Það er það sem við höfum verið að kalla eft­ir; hver er áætl­unin í kjöl­farið en svarið er ein­fald­lega ekki neitt. Stjórn­völd skila bara auðu þar. Þau vísa jú eitt­hvað í nýsköpun – það má gefa þeim hrós fyrir það – en að mínu mati fer það rétt upp í það nýsköp­un­ar­stig sem ætti að vera alla­jafn­a.“

Höfum hjakkað í sama far­inu

Varð­andi nýsköp­un­ar­að­gerðir stjórn­valda þá segir Björn Leví að þær nái ekki yfir þann gríð­ar­lega fjölda fólks sem hefur orðið atvinnu­laust og leitar nú að vinnu. „Þess vegna þarf nú enn aukið átak í nýsköp­un, til þess að nýta tæki­færið sem þetta svig­rúm gef­ur. Á und­an­förnum árum höfum við verið að hjakka í sama far­inu. Við höfum verið að nýta okkur þennan enn eina hval­reka sem ferða­þjón­ustan hefur verið – eins og til að mynda síldar­æv­in­týrið, álið og .com-­bólan var fyrir okk­ur. Alltaf grípum við þessi tæki­færi sem gefast, við rennum út þá öldu ein­hvern veg­inn en spyrjum ekki hvað ger­ist þegar sú alda klár­ast. Við lendum alltaf í dýfu eftir það, í stað­inn fyrir að aldan fjari út á föstu landi þar sem við getum gengið án þess að falla í öldu­dal­inn,“ segir hann.

Björn Leví segir að vissu­lega séu óhefð­bundnar ástæður fyrir því að ástandið sé erfitt núna en hann telur að það hafi þó þrátt fyrir það verið fyr­ir­sjá­an­legt. „Það var í fyrra end­ur­skoðuð fjár­mála­stefna og allir umsagn­ar­að­ilar sögðu: Það er að koma dýfa. Þá var alltaf sagt að við værum að fara í mjúka lend­ingu en það var ekk­ert sem sýndi fram á það. Það var ein­ungis ágisk­un.“

Björn Leví telur að erfitt ástand hafi að einhverju leyti verið fyrirsjáanlegt.
Bára Huld Beck

Hann segir þess vegna að ástandið væri erfitt efna­hags­lega á Íslandi núna hvort sem COVID-19 sjúk­dóm­ur­inn hefði riðið yfir heim­inn eður ei. „En að sjálf­sögðu ekki af sömu stærð­argráðu – alls ekki – en skort­ur­inn á fram­tíð­ar­sýn stjórn­valda er algjör­lega sá sami. Það hefði komið lægð, eins og allir voru að benda á og búist var við og fjár­mála­stefnan end­ur­spegl­aði þá lægð, en það var eng­inn sýn um það hvernig við ætl­uðum annað hvort að koma í veg fyrir lægð­ina eða hvernig við ætl­uðum að stíga upp úr henni. Öll spá­módel gerðu ráð fyrir því að við yrðum komin í eðli­legan hag­vöxt eftir tvö ár. En það segja öll spá­módel alltaf og þá erum við bara að von­ast til þess að allt ger­ist sjálf­krafa.“

Þannig búist stjórn­völd við því að lægðin klárist eftir eitt til tvö ár. Hann segir þó að þetta sé rétt ályktun að vissu leyti vegna þess að Ísland sé ríkt land – og telur hann að í raun sé ein­kenni­legt að allir Íslend­ingar séu ekki ríkir vegna þessa ríki­dæm­is. „Við erum nú að taka lán frá fram­tíð­ar­kyn­slóðum og við munum hafa efni á því láni. Það er eng­inn efi um það en þegar við tökum lán frá fram­tíð­inni þá eigum við að nota það til þess að byggja upp arð­semi til að greiða það lán til baka þannig að næstu kyn­slóðir þurfi ekki að greiða okkar skuld­ir. Við þurfum að gefa þeim tæki­færi til þess að fá arð af þeirri fjár­fest­ingu sem við fengum að láni frá þeim til þess að end­ur­greiða lán­ið. Þannig er hægt að halda sömu rétt­indum og þjón­ustu þrátt fyrir að borga lánið sem við þurftum að nota til þess að brúa þetta bil.“

Það sem vantar í aðgerðir rík­is­stjórn­ar­inn­ar, að mati Björns Leví, er þessi arð­sem­is­fjár­fest­ing.

Sjálf­virkni­væð­ing fyr­ir­sjá­an­leg

En hver er fram­tíð­ar­sýnin eða hver ætti hún að vera fyrir Íslend­inga? Björn Leví segir að þau í Pírötum horfi alltaf til fram­tíð­ar. „Við sjáum þró­un­ina sem er í gangi núna og ákveð­inn óhjá­kvæmi­leika – og þá er ég að vísa til fjórðu iðn­bylt­ing­ar­innar og sjálf­virkni­væð­ing­ar­innar sem við sjáum taka upp ný og ný störf en að sjálf­sögðu búa til ný og ný tæki­færi. Það er ekk­ert sem bendir til þess að þessi sjálf­virkni­væð­ing hætti á ein­hverjum ákveðnum tíma­punkti. Það þýðir að öll fram­leiðslu­störf sem sjá okkur fyrir mat, klæðn­aði og öllum lífs­nauð­synjum verða unnin af vél­menn­um, ekki af fólki. Og hvað það þýðir þegar verka­fólkið hefur ekki lengur putt­ana í þeirri fram­leiðslu sem þau í raun lifa af er algjör­lega breytt heims­mynd,“ segir hann.

Þarna er Björn Leví að tala um í mesta lagi næstu 20 til 30 ár. „Þetta hefur gríð­ar­leg áhrif á kjara­bar­áttu og þess vegna höfum við talað fyrir stytt­ingu vinnu­vik­unnar til móts við þessa þróun sem er í gangi. Þess vegna höfum við líka verið að tala um kjöt­rækt, þ.e. hvernig við verðum að vera til­búin þegar sjálf­virkni­væð­ingin kem­ur. Það er líka þróun í átt að meiri sjálf­virkni í orku­fram­leiðslu sem gerir okkar vatns­afls­virkj­anir til­tölu­lega úreltar á heims­vísu hvað varðar græna, ódýra og aðgengi­lega orku. Þá missum við af ákveðnu sam­keppn­is­for­skoti sem við höfum verið með hingað til.“

Þannig vanti að benda á marga þætti sem eru að fara að breyt­ast í sam­fé­lag­inu á kom­andi árum. „Við þurfum að und­ir­búa okkur fyrir þetta og ef eitt­hvað er þá verðum við að passa að þetta ger­ist fyrr því að þessi þróun færir okkur líka gríð­ar­legan auð og örygg­i.“

Hvernig verður valda­jafn­vægi tryggt?

Varð­andi sjálf­virkni­væð­ing­una þá segir Björn Leví að ákveðnir áhættu­þættir fylgi henni sem tengj­ast valdi og auð­dreif­ingu. „Þarna er stór spurn­ing: Hver á þessa sjálf­virkni? Vænt­an­lega verður það ekki verka­fólk sem stjórnar þessum tækjum og á það þannig séð ekki kröfu að hlut­deild af þeim arði sem tækin búa til leng­ur. Og hvernig ætlum við þá að tryggja ákveðið valda­jafn­vægi í þess­ari fram­tíð?“ spyr hann.

Svarið liggur í því að hafa opið aðgengi, að hans mati. „Þetta er höf­und­ar­rétt­ar­mál upp á nýtt. Þetta er nákvæm­lega sama höf­und­ar­rétt­ar­mál og birt­ist þegar allt í einu var hægt að afrita bíó­myndir og tón­list. Þegar hægt var að búa til enda­laus ókeypis ein­tök. Þetta er nákvæm­lega sama bar­átta.“ Þarna séu Píratar í „ess­inu sínu“ og með skýra sýn hvernig tækla skuli þannig mál og þessa þró­un.

„Við deilum vald­inu með því að deila tækn­inni. Við verðum sem sagt að passa upp á það að það verði ekki ein­okun á sjálf­virkn­inni. Það er algjört lyk­il­at­rið­i,“ segir hann.

Verður að huga að afkomu fólks

Ann­ars vegar verður að huga að afkomu fólks, sam­kvæmt Birni Leví. „Þá getum við haft til dæmis borg­ara­laun, sem er skil­yrð­is­laus grunn­fram­færsla, og styttri vinnu­vik­ur. Þá gefum við fólki meiri tæki­færi til þess að ein­beita sér að því sem það hefur áhuga á að gera. Þá þarf það ekki að hafa áhyggjur af lífs­nauð­syn­legri fram­færslu því hún er búin til af vél­menn­um.“

Mestar áhyggjur hefur hann af þess­ari ein­okun sem hætta er á að verði en hann telur að það geti auð­veld­lega gerst að valda­ó­jafn­vægi mynd­ist og sér hann fyrir sér að það yrði eins og ein­hvers konar léns­veldi. Það megi alls ekki ger­ast.

Björn Leví Gunnarsson
Bára Huld Beck

„Þarna kemur nýsköp­unin gríð­ar­lega sterk og nauð­syn­lega inn í þetta ferli sem myndi færa okkur aukna sjálf­virkni. Við verðum að hafa þann grund­völl og aðgengi að bæði end­ur­menntun og aðstöðu til þess að finna okkur eitt­hvað nýtt að gera. Mann­veran gerir það alltaf, það er ekki spurn­ing um það. Störfin sem eru að hverfa eru skamm­líf­ari en þau sem taka við. Á end­anum kemur að því að við verðum ekki með þessi „ævi­störf“ sem reyndar er mikið minna um núna – og í raun eru þau alveg að hverfa. Þessi þróun er ekki að fara að hætta, hún er ein­ungis að verða hrað­ar­i.“

Lausnin liggur í nýsköpun

Þess vegna sé gríð­ar­lega öfl­ugt nýsköp­un­ar­um­hverfi mik­il­vægt í slíkum aðstæð­um. Björn Leví bendir á að Alþingi sé búið að sam­þykkja tvær þings­á­lykt­un­ar­til­lögur sem spili inn á þetta. Í fyrsta lagi sé það klasa­stefnan sem snýst um það að hafa ákveðna aðstöðu um land allt þar sem atvinnu­líf, hið opin­bera og fólk nær að koma saman og vinna að hug­mynd­um. Hins vegar til­laga um smiðjur þar sem til­gang­ur­inn er að allir hafi aðgengi að staf­rænni smiðju.

„Það er svo mik­il­vægt upp á jað­ar­svæði, til dæmis ef við ætlum að ná að sinna þeim rétt­indum sem við erum að setja okk­ur, til að mynda rétt­ur­inn til náms og heil­brigð­is, þá þurfum við að geta nálg­ast þá þjón­ustu auð­veld­lega. En fjar­lægðin milli byggða á Íslandi gerir það að verkum að ekki er hægt að hafa tækni­sjúkra­hús alls staðar en þá höfum við aðstöðu til að iðka nokk­urs konar sjálfs­hjálp.

Með því að vera í slíkri staf­rænni smiðju þá er jafn­framt hægt að vera iðn­nemi hvar sem er á land­inu og í fjar­námi það­an. Þú ert með aðgengi að tækj­unum fyrir sjálf­virkn­ina á staðnum og er þetta nýsköp­un­ar­um­hverfi sem allir ættu að geta komið að. Allir hafa þá aðgang að þessum tækjum og tólum til að búa til það næsta sem þau hafa áhuga á að prófa.“

Björn Leví segir að fram­tíð­ar­sýnin felist í þessum þátt­um; að gera sér grein fyrir því hvað muni ger­ast á kom­andi miss­erum og árum og búa til aðstæður svo fram­tíðin komi ekki á óvart. „Sjálf­virkni­væð­ingin er að koma og nýsköp­unin er tólið til þess að kom­ast þangað án þess að lenda í vand­ræð­u­m.“

Auglýsing

Leggur til atvinnu­leys­is­bætur án skuld­bind­inga

Varð­andi nýsköp­un­ar­kerfið sem nú er til staðar þá telur Björn Leví það vera eilítið bjag­að. „Fólk sem er til dæmis nýkomið úr skóla og hefur ekki mikið af skuld­bind­ingum getur farið í nýsköpun eða fólk sem er mjög stöndugt. Í gegnum heims­sög­una hafa það yfir­leitt verið aðals­menn sem hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af pen­ingum og getað gert nýsköp­un­ar­hluti eða fjár­magnað þá. En lang­flestir eru fastir í skuld­bind­ingum og vinnu og hafa ekki tæki­færi þrátt fyrir að hafa góðar hug­myndir til að fara í nýsköp­un­ina, því hún gefur í raun ekki það mikið öryggi að hún geti staðið undir þessum skuld­bind­ingum varð­andi hús og fjöl­skyld­u.“

Í þessu sam­hengi veltir hann því fyrir sér hvort ekki hefði verið upp­lagt í COVID-19 far­aldr­inum að hafa atvinnu­leys­is­bætur án skuld­bind­inga. Fólk gæti þá nýtt tæki­færið til þess að gera „eitt­hvað snið­ugt“ – það sé ákveð­inn hvati að vera á atvinnu­leys­is­bótum og að hafa tæki­færi til að koma með nýjar hug­mynd­ir. Jafn­vel væri hægt að kalla þetta nýsköp­un­ar­styrki fyrir ein­stak­linga.

Nýja stjórn­ar­skráin grunn­ur­inn fyrir lýð­ræði fram­tíð­ar­innar

Björn Leví telur að nú sé hár­rétt tíma­setn­ing til þess að breyta til og það mik­il­væg­asta sem hægt er að gera sé að koma á nýju stjórn­ar­skránni. „Þar er grunn­ur­inn fyrir lýð­ræði fram­tíð­ar­inn­ar. Athygli hefur verið vakin á að nú sé hætta á ákveðnu lýð­skrumi en besta lækn­ingin við því er að dreifa völdum – og til að tryggja vald­dreif­ingu þá vantar okkur þennan mál­skots­rétt og frum­kvæð­is­rétt þjóð­ar­innar sem er í henni. Svo er margt annað þar, til dæmis að tryggja rétt yfir auð­lind­unum og stjórn­kerfið eins og það leggur sig. Það eru svo margir ein­ræð­is­mögu­leikar í núver­andi stjórn­ar­skrá að við verðum að breyta henni áður en á þá reyn­ir.“

Hann bendir á að þeir sem vilja ekki breyta stjórn­ar­skránni segi iðu­lega að „nú sé ekki rétti tím­inn til þess að breyta“. Þannig sé aldrei rétti tím­inn; ekki þegar það er óvissa og ekki þegar allt gengur vel.

„Aug­ljós­lega hefur þetta fólk rangt fyrir sér. Breyt­ing­arnar ger­ast hvort sem við viljum þær eða ekki. Og stjórn­kerfið sem slíkt er einmitt búið að hjakka í sama far­inu mjög lengi og í ákveðnum draum­órum for­tíð­ar­inn­ar. En nákvæm­lega eins og for­menn stjórn­ar­flokk­anna hafa sagt þá erum við ekki að fara aftur til árs­ins 2019 og það þýðir ein­fald­lega að það er ekk­ert pláss fyrir íhald í stjórn­málum næstu árin. Það er bara þannig,“ segir hann.

Ára­tugum eftir á í hugsun

Þing­mað­ur­inn gagn­rýnir það sem hann kallar „risa­eðlu­á­hrif í póli­tík“ sem hefur þær afleið­ingar að lítið breyt­ist – og sein­t.  „Við erum tutt­ugu árum á eftir í hugs­un. Það er vanda­málið sem við erum að glíma við. Við erum til dæmis loks­ins núna að sjá hug­myndir um mál­frelsi og tján­ing­ar­frelsi varð­andi upp­ljóstr­ara koma í gegn, 10 árum of seint. Við erum að sjá neyslu­rýmin koma, eitt­hvað sem byrjað var að tala um fyrir tíu árum síð­an.“

Björn Leví segir að mál sem þessi taki svo langan tíma að kom­ast í gegn vegna þess að þeir sem stjórna land­inu vilji ein­fald­lega ekki breyt­ing­ar. „Þetta fólk hefur getað stundað sín stjórn­mál á þann hátt að til þess að ná sínum mark­miðum þá þarf það ekki að gera neitt. Það er svo merki­legt að það eina sem íhaldið þarf að gera til að breyta ekki neinu er að gera ekki neitt. Svo líður tím­inn.“

Hann spyr hvers vegna Íslend­ingar ættu að vilja fólk í stjórn­mál sem geri ekki neitt. Hann segir að þær breyt­ingar sem þó fara í gegn séu vegna þess að stjórn­kerfið hafi fengið að „malla þessu í gegn“ og að margar þessar breyt­ingar fái Íslend­ingar í gegnum EES. „Það er búið að neyða sumar breyt­ingar upp á okkur þannig að í stað­inn fyrir að vera með frum­kvæði og að setja ein­hverja stefnu þá ítrekað sitja þau á rass­inum og gera ekki neitt. Þetta ein­kennir íslensk stjórn­mál: Hvernig er hægt að segja sem mest og gera sem minnst.“

Björn Leví segir að þetta við­horf lýsi ákveð­inni veru­leikafirr­ingu, þar sem hver kyn­slóð upp­lifi gríð­ar­lega breyt­ingu á einni mannsævi. Breyt­ingar séu óhjá­kvæmi­legar – og ekki sé hægt að fara til baka í gamla tíma. „Sam­fé­lagið óhjá­kvæmi­lega fer þessa leið og tækni­breyt­ingin lík­a.“

Auglýsing

Engar áhyggjur af efna­hags­legri fram­tíð Íslands

Björn Leví hefur engar áhyggjur af því að Íslend­ingar muni kom­ast vel í gegnum þetta ástand efna­hags­lega og sam­fé­lags­lega. „Ég hef engar áhyggjur af því, Ísland er ríkt land og við höfum efni á því að takast á við svona vanda­mál. Það er að sjálf­sögðu alltaf álita­efni hvernig við skiptum á milli þeim arði sem Ísland skilar af sér og ójöfn skipt­ing þar gerir okkur erf­ið­ara fyrir til að takast á við svona áföll. En ég hef engar áhyggjur af efna­hags­legri fram­tíð Íslands. Það sem ég hef áhyggjur af eru þær aðgerðir sem gripið er til til að takast á við þau vanda­mál sem við stöndum frammi fyr­ir.“

Þessar áhyggjur varða til að mynda það fólk sem missir vinn­una og mun til dæmis ekki ná að nýta sér hluta­bóta­leið­ina – að það muni falla milli skips og bryggju. Þarna megi taka sem dæmi fólk í námi. „Við erum með ömur­legt náms­lána­kerfi sem dugar ekki fyrir fram­færslu. Margir eru í vinnu til að fram­fleyta sér í námi sem munu missa þá vinnu núna. Það að vera í vinnu með námi hefur slæm áhrif á skil­virkni þess að fara í nám, fólk verður lengur í námi og flosnar frekar upp úr því. Þannig að við erum með eitr­aðan kok­teil af sam­verk­andi þáttum sem gerir það að verkum að þegar eitt­hvað bjátar á, til dæmis þegar þeir missa vinn­una, þá fá þeir ekki atvinnu­leys­is­trygg­ing­ar.“

Þá telur hann að Íslend­ingar missi mik­inn mannauð í far­aldr­inum vegna þessa. „Þó eru tæki­færi til að grípa fólk­ið, svo það falli ekki alveg niður eins og gerð­ist í hrun­inu þar sem margir misstu íbúðir sínar og fleira. Það er það sem þarf að passa. Ég hef eins og ég segi engar áhyggjur af því að við komust yfir þetta sem sam­fé­lag en við verðum að passa að missa enga á þennan botn eins og gerð­ist í hrun­inu. Ef það ger­ist ekki þá komust við vel frá þessu,“ segir hann að lok­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal