Bára Huld Beck

Ekkert pláss fyrir íhald í stjórnmálum næstu árin

Alvarlegt ástand er nú komið upp í íslensku efnahagslífi. Mörg hundruð milljarða króna tap í ríkisrekstri er fyrirsjáanlegt, tugir þúsunda verða án atvinnu að öllu leyti eða hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn talaði við fulltrúa í stjórnarandstöðunni til þess að kanna hvernig þeir sæju framtíðina fyrir sér – og hvaða leiðir væru bestar út úr þessu ástandi. Fyrstur er þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson.

Við erum að fara ofan í ákveðna holu; það er að segja efnahagserfiðleikarnir eru núna og er vonin náttúrulega að þeim ljúki þegar hömlunum verður aflétt og allt fer í gang aftur. Við sjáum það þó flest og gerum okkur grein fyrir því að það verður ekki þannig.“

Þetta segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, þegar hann er spurður út í stöðuna sem upp er komin vegna COVID-19 faraldursins en horfur í efnahagslífinu eru dökkar um þessar mundir – og óljóst er nákvæmlega hvað framtíðin ber í skauti sér. 

Stjórnvöld „skila bara auðu“

Björn Leví segir að vonin til að byrja með þegar faraldurinn var á byrjunarstigi hafi verið sú að þessir erfiðleikar væru „stutt pása“ og svo tæki allt við sér að nýju. „En á þeim tíma þegar fyrstu aðgerðirnar voru boðaðar hjá stjórnvöldum þá voru mun fleiri og þær raddir urðu háværari að erfiðleikarnir myndu standa lengur yfir en í tvo mánuði.“

Auglýsing

Hann bendir á að stjórnvöld hafi verið sama sinnis; að forsvarsmenn hennar séu búnir að greina frá því að ástandið á næstunni verði ekki aftur eins og á síðasta ári. „En á sama tíma hafa aðgerðir stjórnvalda nokkurn veginn einungis verið til þess að moka ofan í þessa holu sem við erum í núna.“ Þá vísar Björn Leví í neyðaraðgerðir stjórnvalda til þess að reyna að komast yfir þau augljósu vandamál sem íslenskt efnahagslíf stendur frammi fyrir núna vegna COVID-19 faraldursins – en þó án nokkurrar áætlunar hvað taki við eftir hann.

„Það er það sem við höfum verið að kalla eftir; hver er áætlunin í kjölfarið en svarið er einfaldlega ekki neitt. Stjórnvöld skila bara auðu þar. Þau vísa jú eitthvað í nýsköpun – það má gefa þeim hrós fyrir það – en að mínu mati fer það rétt upp í það nýsköpunarstig sem ætti að vera allajafna.“

Höfum hjakkað í sama farinu

Varðandi nýsköpunaraðgerðir stjórnvalda þá segir Björn Leví að þær nái ekki yfir þann gríðarlega fjölda fólks sem hefur orðið atvinnulaust og leitar nú að vinnu. „Þess vegna þarf nú enn aukið átak í nýsköpun, til þess að nýta tækifærið sem þetta svigrúm gefur. Á undanförnum árum höfum við verið að hjakka í sama farinu. Við höfum verið að nýta okkur þennan enn eina hvalreka sem ferðaþjónustan hefur verið – eins og til að mynda síldarævintýrið, álið og .com-bólan var fyrir okkur. Alltaf grípum við þessi tækifæri sem gefast, við rennum út þá öldu einhvern veginn en spyrjum ekki hvað gerist þegar sú alda klárast. Við lendum alltaf í dýfu eftir það, í staðinn fyrir að aldan fjari út á föstu landi þar sem við getum gengið án þess að falla í öldudalinn,“ segir hann.

Björn Leví segir að vissulega séu óhefðbundnar ástæður fyrir því að ástandið sé erfitt núna en hann telur að það hafi þó þrátt fyrir það verið fyrirsjáanlegt. „Það var í fyrra endurskoðuð fjármálastefna og allir umsagnaraðilar sögðu: Það er að koma dýfa. Þá var alltaf sagt að við værum að fara í mjúka lendingu en það var ekkert sem sýndi fram á það. Það var einungis ágiskun.“

Björn Leví telur að erfitt ástand hafi að einhverju leyti verið fyrirsjáanlegt.
Bára Huld Beck

Hann segir þess vegna að ástandið væri erfitt efnahagslega á Íslandi núna hvort sem COVID-19 sjúkdómurinn hefði riðið yfir heiminn eður ei. „En að sjálfsögðu ekki af sömu stærðargráðu – alls ekki – en skorturinn á framtíðarsýn stjórnvalda er algjörlega sá sami. Það hefði komið lægð, eins og allir voru að benda á og búist var við og fjármálastefnan endurspeglaði þá lægð, en það var enginn sýn um það hvernig við ætluðum annað hvort að koma í veg fyrir lægðina eða hvernig við ætluðum að stíga upp úr henni. Öll spámódel gerðu ráð fyrir því að við yrðum komin í eðlilegan hagvöxt eftir tvö ár. En það segja öll spámódel alltaf og þá erum við bara að vonast til þess að allt gerist sjálfkrafa.“

Þannig búist stjórnvöld við því að lægðin klárist eftir eitt til tvö ár. Hann segir þó að þetta sé rétt ályktun að vissu leyti vegna þess að Ísland sé ríkt land – og telur hann að í raun sé einkennilegt að allir Íslendingar séu ekki ríkir vegna þessa ríkidæmis. „Við erum nú að taka lán frá framtíðarkynslóðum og við munum hafa efni á því láni. Það er enginn efi um það en þegar við tökum lán frá framtíðinni þá eigum við að nota það til þess að byggja upp arðsemi til að greiða það lán til baka þannig að næstu kynslóðir þurfi ekki að greiða okkar skuldir. Við þurfum að gefa þeim tækifæri til þess að fá arð af þeirri fjárfestingu sem við fengum að láni frá þeim til þess að endurgreiða lánið. Þannig er hægt að halda sömu réttindum og þjónustu þrátt fyrir að borga lánið sem við þurftum að nota til þess að brúa þetta bil.“

Það sem vantar í aðgerðir ríkisstjórnarinnar, að mati Björns Leví, er þessi arðsemisfjárfesting.

Sjálfvirknivæðing fyrirsjáanleg

En hver er framtíðarsýnin eða hver ætti hún að vera fyrir Íslendinga? Björn Leví segir að þau í Pírötum horfi alltaf til framtíðar. „Við sjáum þróunina sem er í gangi núna og ákveðinn óhjákvæmileika – og þá er ég að vísa til fjórðu iðnbyltingarinnar og sjálfvirknivæðingarinnar sem við sjáum taka upp ný og ný störf en að sjálfsögðu búa til ný og ný tækifæri. Það er ekkert sem bendir til þess að þessi sjálfvirknivæðing hætti á einhverjum ákveðnum tímapunkti. Það þýðir að öll framleiðslustörf sem sjá okkur fyrir mat, klæðnaði og öllum lífsnauðsynjum verða unnin af vélmennum, ekki af fólki. Og hvað það þýðir þegar verkafólkið hefur ekki lengur puttana í þeirri framleiðslu sem þau í raun lifa af er algjörlega breytt heimsmynd,“ segir hann.

Þarna er Björn Leví að tala um í mesta lagi næstu 20 til 30 ár. „Þetta hefur gríðarleg áhrif á kjarabaráttu og þess vegna höfum við talað fyrir styttingu vinnuvikunnar til móts við þessa þróun sem er í gangi. Þess vegna höfum við líka verið að tala um kjötrækt, þ.e. hvernig við verðum að vera tilbúin þegar sjálfvirknivæðingin kemur. Það er líka þróun í átt að meiri sjálfvirkni í orkuframleiðslu sem gerir okkar vatnsaflsvirkjanir tiltölulega úreltar á heimsvísu hvað varðar græna, ódýra og aðgengilega orku. Þá missum við af ákveðnu samkeppnisforskoti sem við höfum verið með hingað til.“

Þannig vanti að benda á marga þætti sem eru að fara að breytast í samfélaginu á komandi árum. „Við þurfum að undirbúa okkur fyrir þetta og ef eitthvað er þá verðum við að passa að þetta gerist fyrr því að þessi þróun færir okkur líka gríðarlegan auð og öryggi.“

Hvernig verður valdajafnvægi tryggt?

Varðandi sjálfvirknivæðinguna þá segir Björn Leví að ákveðnir áhættuþættir fylgi henni sem tengjast valdi og auðdreifingu. „Þarna er stór spurning: Hver á þessa sjálfvirkni? Væntanlega verður það ekki verkafólk sem stjórnar þessum tækjum og á það þannig séð ekki kröfu að hlutdeild af þeim arði sem tækin búa til lengur. Og hvernig ætlum við þá að tryggja ákveðið valdajafnvægi í þessari framtíð?“ spyr hann.

Svarið liggur í því að hafa opið aðgengi, að hans mati. „Þetta er höfundarréttarmál upp á nýtt. Þetta er nákvæmlega sama höfundarréttarmál og birtist þegar allt í einu var hægt að afrita bíómyndir og tónlist. Þegar hægt var að búa til endalaus ókeypis eintök. Þetta er nákvæmlega sama barátta.“ Þarna séu Píratar í „essinu sínu“ og með skýra sýn hvernig tækla skuli þannig mál og þessa þróun.

„Við deilum valdinu með því að deila tækninni. Við verðum sem sagt að passa upp á það að það verði ekki einokun á sjálfvirkninni. Það er algjört lykilatriði,“ segir hann.

Verður að huga að afkomu fólks

Annars vegar verður að huga að afkomu fólks, samkvæmt Birni Leví. „Þá getum við haft til dæmis borgaralaun, sem er skilyrðislaus grunnframfærsla, og styttri vinnuvikur. Þá gefum við fólki meiri tækifæri til þess að einbeita sér að því sem það hefur áhuga á að gera. Þá þarf það ekki að hafa áhyggjur af lífsnauðsynlegri framfærslu því hún er búin til af vélmennum.“

Mestar áhyggjur hefur hann af þessari einokun sem hætta er á að verði en hann telur að það geti auðveldlega gerst að valdaójafnvægi myndist og sér hann fyrir sér að það yrði eins og einhvers konar lénsveldi. Það megi alls ekki gerast.

Björn Leví Gunnarsson
Bára Huld Beck

„Þarna kemur nýsköpunin gríðarlega sterk og nauðsynlega inn í þetta ferli sem myndi færa okkur aukna sjálfvirkni. Við verðum að hafa þann grundvöll og aðgengi að bæði endurmenntun og aðstöðu til þess að finna okkur eitthvað nýtt að gera. Mannveran gerir það alltaf, það er ekki spurning um það. Störfin sem eru að hverfa eru skammlífari en þau sem taka við. Á endanum kemur að því að við verðum ekki með þessi „ævistörf“ sem reyndar er mikið minna um núna – og í raun eru þau alveg að hverfa. Þessi þróun er ekki að fara að hætta, hún er einungis að verða hraðari.“

Lausnin liggur í nýsköpun

Þess vegna sé gríðarlega öflugt nýsköpunarumhverfi mikilvægt í slíkum aðstæðum. Björn Leví bendir á að Alþingi sé búið að samþykkja tvær þingsályktunartillögur sem spili inn á þetta. Í fyrsta lagi sé það klasastefnan sem snýst um það að hafa ákveðna aðstöðu um land allt þar sem atvinnulíf, hið opinbera og fólk nær að koma saman og vinna að hugmyndum. Hins vegar tillaga um smiðjur þar sem tilgangurinn er að allir hafi aðgengi að stafrænni smiðju.

„Það er svo mikilvægt upp á jaðarsvæði, til dæmis ef við ætlum að ná að sinna þeim réttindum sem við erum að setja okkur, til að mynda rétturinn til náms og heilbrigðis, þá þurfum við að geta nálgast þá þjónustu auðveldlega. En fjarlægðin milli byggða á Íslandi gerir það að verkum að ekki er hægt að hafa tæknisjúkrahús alls staðar en þá höfum við aðstöðu til að iðka nokkurs konar sjálfshjálp.

Með því að vera í slíkri stafrænni smiðju þá er jafnframt hægt að vera iðnnemi hvar sem er á landinu og í fjarnámi þaðan. Þú ert með aðgengi að tækjunum fyrir sjálfvirknina á staðnum og er þetta nýsköpunarumhverfi sem allir ættu að geta komið að. Allir hafa þá aðgang að þessum tækjum og tólum til að búa til það næsta sem þau hafa áhuga á að prófa.“

Björn Leví segir að framtíðarsýnin felist í þessum þáttum; að gera sér grein fyrir því hvað muni gerast á komandi misserum og árum og búa til aðstæður svo framtíðin komi ekki á óvart. „Sjálfvirknivæðingin er að koma og nýsköpunin er tólið til þess að komast þangað án þess að lenda í vandræðum.“

Auglýsing

Leggur til atvinnuleysisbætur án skuldbindinga

Varðandi nýsköpunarkerfið sem nú er til staðar þá telur Björn Leví það vera eilítið bjagað. „Fólk sem er til dæmis nýkomið úr skóla og hefur ekki mikið af skuldbindingum getur farið í nýsköpun eða fólk sem er mjög stöndugt. Í gegnum heimssöguna hafa það yfirleitt verið aðalsmenn sem hafa ekki þurft að hafa áhyggjur af peningum og getað gert nýsköpunarhluti eða fjármagnað þá. En langflestir eru fastir í skuldbindingum og vinnu og hafa ekki tækifæri þrátt fyrir að hafa góðar hugmyndir til að fara í nýsköpunina, því hún gefur í raun ekki það mikið öryggi að hún geti staðið undir þessum skuldbindingum varðandi hús og fjölskyldu.“

Í þessu samhengi veltir hann því fyrir sér hvort ekki hefði verið upplagt í COVID-19 faraldrinum að hafa atvinnuleysisbætur án skuldbindinga. Fólk gæti þá nýtt tækifærið til þess að gera „eitthvað sniðugt“ – það sé ákveðinn hvati að vera á atvinnuleysisbótum og að hafa tækifæri til að koma með nýjar hugmyndir. Jafnvel væri hægt að kalla þetta nýsköpunarstyrki fyrir einstaklinga.

Nýja stjórnarskráin grunnurinn fyrir lýðræði framtíðarinnar

Björn Leví telur að nú sé hárrétt tímasetning til þess að breyta til og það mikilvægasta sem hægt er að gera sé að koma á nýju stjórnarskránni. „Þar er grunnurinn fyrir lýðræði framtíðarinnar. Athygli hefur verið vakin á að nú sé hætta á ákveðnu lýðskrumi en besta lækningin við því er að dreifa völdum – og til að tryggja valddreifingu þá vantar okkur þennan málskotsrétt og frumkvæðisrétt þjóðarinnar sem er í henni. Svo er margt annað þar, til dæmis að tryggja rétt yfir auðlindunum og stjórnkerfið eins og það leggur sig. Það eru svo margir einræðismöguleikar í núverandi stjórnarskrá að við verðum að breyta henni áður en á þá reynir.“

Hann bendir á að þeir sem vilja ekki breyta stjórnarskránni segi iðulega að „nú sé ekki rétti tíminn til þess að breyta“. Þannig sé aldrei rétti tíminn; ekki þegar það er óvissa og ekki þegar allt gengur vel.

„Augljóslega hefur þetta fólk rangt fyrir sér. Breytingarnar gerast hvort sem við viljum þær eða ekki. Og stjórnkerfið sem slíkt er einmitt búið að hjakka í sama farinu mjög lengi og í ákveðnum draumórum fortíðarinnar. En nákvæmlega eins og formenn stjórnarflokkanna hafa sagt þá erum við ekki að fara aftur til ársins 2019 og það þýðir einfaldlega að það er ekkert pláss fyrir íhald í stjórnmálum næstu árin. Það er bara þannig,“ segir hann.

Áratugum eftir á í hugsun

Þingmaðurinn gagnrýnir það sem hann kallar „risaeðluáhrif í pólitík“ sem hefur þær afleiðingar að lítið breytist – og seint.  „Við erum tuttugu árum á eftir í hugsun. Það er vandamálið sem við erum að glíma við. Við erum til dæmis loksins núna að sjá hugmyndir um málfrelsi og tjáningarfrelsi varðandi uppljóstrara koma í gegn, 10 árum of seint. Við erum að sjá neyslurýmin koma, eitthvað sem byrjað var að tala um fyrir tíu árum síðan.“

Björn Leví segir að mál sem þessi taki svo langan tíma að komast í gegn vegna þess að þeir sem stjórna landinu vilji einfaldlega ekki breytingar. „Þetta fólk hefur getað stundað sín stjórnmál á þann hátt að til þess að ná sínum markmiðum þá þarf það ekki að gera neitt. Það er svo merkilegt að það eina sem íhaldið þarf að gera til að breyta ekki neinu er að gera ekki neitt. Svo líður tíminn.“

Hann spyr hvers vegna Íslendingar ættu að vilja fólk í stjórnmál sem geri ekki neitt. Hann segir að þær breytingar sem þó fara í gegn séu vegna þess að stjórnkerfið hafi fengið að „malla þessu í gegn“ og að margar þessar breytingar fái Íslendingar í gegnum EES. „Það er búið að neyða sumar breytingar upp á okkur þannig að í staðinn fyrir að vera með frumkvæði og að setja einhverja stefnu þá ítrekað sitja þau á rassinum og gera ekki neitt. Þetta einkennir íslensk stjórnmál: Hvernig er hægt að segja sem mest og gera sem minnst.“

Björn Leví segir að þetta viðhorf lýsi ákveðinni veruleikafirringu, þar sem hver kynslóð upplifi gríðarlega breytingu á einni mannsævi. Breytingar séu óhjákvæmilegar – og ekki sé hægt að fara til baka í gamla tíma. „Samfélagið óhjákvæmilega fer þessa leið og tæknibreytingin líka.“

Auglýsing

Engar áhyggjur af efnahagslegri framtíð Íslands

Björn Leví hefur engar áhyggjur af því að Íslendingar muni komast vel í gegnum þetta ástand efnahagslega og samfélagslega. „Ég hef engar áhyggjur af því, Ísland er ríkt land og við höfum efni á því að takast á við svona vandamál. Það er að sjálfsögðu alltaf álitaefni hvernig við skiptum á milli þeim arði sem Ísland skilar af sér og ójöfn skipting þar gerir okkur erfiðara fyrir til að takast á við svona áföll. En ég hef engar áhyggjur af efnahagslegri framtíð Íslands. Það sem ég hef áhyggjur af eru þær aðgerðir sem gripið er til til að takast á við þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir.“

Þessar áhyggjur varða til að mynda það fólk sem missir vinnuna og mun til dæmis ekki ná að nýta sér hlutabótaleiðina – að það muni falla milli skips og bryggju. Þarna megi taka sem dæmi fólk í námi. „Við erum með ömurlegt námslánakerfi sem dugar ekki fyrir framfærslu. Margir eru í vinnu til að framfleyta sér í námi sem munu missa þá vinnu núna. Það að vera í vinnu með námi hefur slæm áhrif á skilvirkni þess að fara í nám, fólk verður lengur í námi og flosnar frekar upp úr því. Þannig að við erum með eitraðan kokteil af samverkandi þáttum sem gerir það að verkum að þegar eitthvað bjátar á, til dæmis þegar þeir missa vinnuna, þá fá þeir ekki atvinnuleysistryggingar.“

Þá telur hann að Íslendingar missi mikinn mannauð í faraldrinum vegna þessa. „Þó eru tækifæri til að grípa fólkið, svo það falli ekki alveg niður eins og gerðist í hruninu þar sem margir misstu íbúðir sínar og fleira. Það er það sem þarf að passa. Ég hef eins og ég segi engar áhyggjur af því að við komust yfir þetta sem samfélag en við verðum að passa að missa enga á þennan botn eins og gerðist í hruninu. Ef það gerist ekki þá komust við vel frá þessu,“ segir hann að lokum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnBára Huld Beck
Meira úr sama flokkiViðtal