Lokkandi ferðatilboð í skugga hættu á annarri bylgju

Lægri skattar, niðurgreiðslur á ferðum og gistingu, ókeypis gisting og læknisaðstoð ef til veikinda kemur eru meðal þeirra aðferða sem lönd ætla að beita til að lokka ferðamenn til sín. Á sama tíma vara heilbrigðisyfirvöld við hættunni á annarri bylgju.

Landamæri margra landa opna á nýjan leik á næstunni. En ferðamennska sumarsins 2020 verður með öðru sniði en venjulega.
Landamæri margra landa opna á nýjan leik á næstunni. En ferðamennska sumarsins 2020 verður með öðru sniði en venjulega.
Auglýsing

Ný hópsmit í Evrópu hafa vakið upp spurningar um hvort of hratt sé verið að fara í afléttingu takmarkana á samkomum og ferðalögum fólks. Stjórnmálamenn hvetja fólk til þess að gefa persónulegum sóttvörnum áfram mikinn gaum svo hægt verði að afþíða atvinnulíf og þar með efnahag landanna. Ástæðan er sú að þau hópsmit sem upp hafa komið má mörg rekja til óvarkárni.

Lönd utan Evrópu hafa verið að glíma við það sama og það hefur komið á daginn að það er mikil jafnvægislist að gera tilslakanir á samkomum fólks án þess að veiran fari aftur á kreik.

Á sama tíma og þjóðir heims eru margar hverjar að taka skref út úr hörðum aðgerðum sínum og að opna landamæri sín og jafnvel hvetja ferðamenn til að koma varar Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) við því að COVID-19 gæti fylgt mannkyninu í langan tíma.

Auglýsing

„Þessi veira fer kannski aldrei,“ sagði Michael Ryan, læknir og starfsmaður WHO á blaðamannafundi í síðustu viku. Án bóluefnis gæti það tekið mörg ár að byggja upp nægjanlegt hjarðónæmi meðal jarðarbúa. „Mér finnst mikilvægt að gera sér grein fyrir því að þessi veira gæti orðið landlæg í samfélögum okkar.“ Benti hann á að það hafi gerst með HIV-veiruna. Hún hafi aldrei dáið út en að meðferðir við sjúkdómnum hafi verið þróaðar svo hægt sé að lifa með henni. Það tók hins vegar mörg ár.

Ryan sagði ennfremur að þó að bóluefni finnist muni það taka langan tíma að framleiða nóg af því og dreifa því svo um heimsbyggðina. „Hvert einasta skref sem er tekið er hlaðið áskorunum,“ sagði hann.

Hópsmit og skref til baka

Bakslag hefur komið í baráttu margra ríkja heims við kórónuveiruna undanfarnar vikur. Oftast er þar um að ræða einangruð hópsmit en engu að síður hefur þurft að afkvía svæði, herða á aðgerðum og brýna fyrir fólki að fara gætilega.


Í Wuhan-borg í Kína, þar sem veiran lét fyrst á sér kræla, er hafin allsherjar skimun með allra íbúa, sem eru ellefu milljónir, eftir að ný smit hófu að greinast fyrir nokkrum dögum.


Í Líbanon var sömuleiðis tímabundið aftur gripið til harðra aðgerða eftir að fjöldi smita jókst hratt og ljóst þótti að almenningur væri ekki að fara eftir reglum um fjarlægðarmörk og fleira sem þeim bar að fylgja í kjölfar tilslakana.


Í Seúl, höfuðborg Suður-Kóreu, hefur orðið að gera slíkt hið sama eftir að hópsmit kom til dæmis upp í vöruhúsi risastórrar vefverslunar í borginni og á skemmtistöðum.


Sömu sögu er að segja frá Ítalíu þar sem smitum fjölgaði tímabundið hratt í kjölfar tilslakana. Í Pakistan varð einnig að herða á aðgerðum á nýjan leik. Fólk streymdi til útimarkaða sem leiddi til nokkur hundruð nýrra smita.

Opnun landamæra með ýmsu sniði


Landamæri margra Evrópuríkja verða opnuð um miðjan júní. Í þeirra hópi er til dæmis Þýskaland en þar er stefnt að opnun fyrir ríki Evrópusambandsins sem og EES-landanna og þar á meðal Íslands. Önnur hafa náð samkomulagi við sína næstu nágranna um opnun þeirra á milli.


Stjórnvöld flestra Evrópulanda vara þó áfram við því að hættan á annarri bylgju faraldursins sé til staðar. Með opnun landamæranna aukist hún enn frekar. Til að draga úr þessari hættu er, eins og svo ótal sinnum hefur komið fram, nauðsynlegt að fólk haldi fjarlægð sín á milli og haldi áfram að viðhafa ítrasta hreinlæti, handþvott og sprittun.

Líf er að færast í strendur Mallorca á ný. Mynd: EPA


Eftir innilokun síðustu mánaða eru margir farnir að láta sig dreyma um að pakka ofan í tösku og yfirgefa heimili sín í leit að tilbreytingu. Innanlandsferðalög eru skiljanlega mörgum ofarlega í huga og skynsamlegur kostur en möguleikar á utanlandsferðum munu aukast hratt næstu vikur og mánuði.


Ferðamennska hefur nánast þurrkast út vegna faraldurs COVID-19 sem hefur komið hart niður á efnahag margra landa – sumra meiri en annarra. Þau lönd sem reiða sig mjög á ferðaþjónustu hafa því sum hver sett fram áætlanir sem miða að því að lokka ferðamenn til sín þegar í sumar.


Fáir á ferli

Evrópa er áfangastaður um helmings allra þeirra sem leggja land undir fót á hverju ári. Þar var gripið til mjög harðra aðgerða vegna COVID-19, harðari en víðast hvar annars staðar í heiminum. Á þessum tíma árs fylla ferðamenn yfirleitt stræti og torg borga á borð við Feneyja, Rómar, Parísar og Barcelona. En nú eru þar fáir á ferli.


Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gefið út vegvísi til aðildarríkjanna um hvernig haga megi umgengnisreglum á ströndum, hótelum, tjaldstæðum, veitingahúsum og víðar til að tryggja sem best öryggi gesta og starfsmanna. Þá hafa ríki ESB sammælst um að samkeyra rakningar-öpp sín svo vara megi fólk við sýkingarhættu á ákveðnum svæðum. „Þetta verður ekki venjulegt sumar, ekki fyrir nokkurt okkar,“ sagði Margrethe Vestager, varaframkvæmdastjóri framkvæmdastjórnar ESB. „En þegar við vinnum öll saman og uppfyllum öll okkar hlutverk þá þurfum við ekki að þola það að vera föst heima í sumar eða að ferðaþjónustan í Evrópu tapist algjörlega í sumar.“

Auglýsing


En mikil óvissa ríkir. Löndin eru misjafnlega stödd með tilliti til faraldursins. Sumum hefur tekist að ná góðum tökum á útbreiðslunni – öðrum alls ekki. Sum eru farin að sjá mjög mikla fækkun tilfella dag frá degi – önnur óttast mjög aðra bylgju.


Reglulegt farþegaflug er ennþá mjög takmarkað í Evrópu en það kann að breytast upp úr miðjum næsta mánuði þegar landamæri margra ríkja verða opnuð á nýjan leik. Stóra spurningin í því sambandi er hvort spurn verður eftir flugsætum. Hvort einhverjir hætti sér í ferðalög milli landa í því óvissuástandi sem enn mun ríkja.

Þjónn á veitingastað á Kýpur sótthreinsar borð fyrir gesti. Mynd: EPA


Til að róa taugar áhugasamra ferðamanna hafa stjórnvöld á Kýpur ákveðið að greiða fyrir upphald fólks ef það greinist með veiruna eftir að koma til eyjunnar. Þá segjast þau einnig ætla að greiða lyfjakostnað. Veikist fólk af COVID-19 á meðan dvölinni stendur þarf það sem sagt aðeins að greiða fyrir ferðalagið til og frá eyjunni. Á Kýpur hafa 939 greinst með kórónuveirusmit og sautján hafa látist.


Grikkir eru að undirbúa ferðasumarið 2020. Hótel verða opnuð um miðjan júní og landamærin 1. júlí. Til að lokka þangað ferðamenn verða skattar á fólksflutninga lækkaðir um helming í fimm mánuði. Ferðamenn þurfa ekki að fara í sóttkví við komuna til landsins en verður skylt að fara í sýnatöku ef fram á það verður farið. Fram hefur komið að yfirvöld ætli að gera stikkprufur meðal ferðamanna.

Niðurlag ástandsins


Grísk yfirvöld gripu snemma í faraldrinum til harðra aðgerða og samkomutakmarkanna. Um 170 hafa látist vegna COVID-19 í landinu. „Ferðamannatímabilið hefst 15. júní þegar hótel geta opnað aftur,“ sagði forsætisráðherrann Kyriakos Mitsotakis nýverið. „Látum þetta sumar verða niðurlag ástandsins [vegna COVID-19].“


Mitsotakis varar þó við því að ferðalög um Grikkland í sumar verði „aðeins öðruvísi“ en fólk eigi að venjast. „Kannski verða barirnir ekki opnir og ekki eins troðið en þú getur samt fengið frábæra upplifun á Grikklandi.“


En Grikkir eru ekki spenntir fyrir að taka á móti hverjum sem er og þess vegna hafa þeir, eins og nokkrar aðrar þjóðir, flokkað lönd heims eftir áhættu. Bretar eru meðal þeirra sem verða að bíða með ferðalög til Grikklands enda faraldurinn þar enn umfangsmikill.

Gestir á safni í Dresden í Þýskalandi með grímur fyrir vitum. Mynd: EPA


Í Svartfjallalandi hreykja yfirvöld sér af því að vera fyrsta „veirufría“ Evrópulandið en þar er nú ekkert virkt smit af veirunni. Í dag, 1. júní, verða landamærin opnuð fyrir íbúum þeirra landa þar sem færri en 25 virk smit er að finna á hverja 100.000 íbúa. Ísland er á þeim lista. Ferðamenn frá þessum löndum þurfa ekki að fara í tveggja vikna sóttkví.


„Ég ætla að taka af mér grímuna,“ sagði forsætisráðherrann Dusko Markovic er hann fagnaði því á dögunum að ekkert virkt smit væri í landinu. Síðast greindist þar smit 5. maí. Ferðaþjónusta er stór atvinnugrein í Svartfjallalandi en stærstur hluti ferðamannanna kemur frá Rússlandi og Bretlandi og þau lönd standast ekki viðmiðin sem sett hafa verið um fjölda virkra smita. Staðir sem efnaðir ferðamenn hafa flykkst til síðustu ár verða því líklega ekki eins umsetnir. Ferðaskrifstofur og aðrir sem starfa í greininni eygja þó örlitla von um að einhverjir ferðamenn komi í sumar en um 19 prósent þjóðarinnar starfa við atvinnugreinina.

Auglýsing


Erlendir ferðamenn hafa þegar verið boðnir velkomnir til Portúgals á ný og varð landið þannig eitt fyrsta Evrópulandið til að gera það. „Ferðamenn eru boðnir velkomnir til Portúgals,“ sagði utanríkisráðherrann Santos Silva í síðustu viku. Ferðalangar verða ekki allir skikkaðir í sóttkví við komuna en einhver heilsufarsskoðun mun fara fram á flugvöllum. Portúgalar sluppu betur frá COVID-19 en nágrannar þeirra á Ítalíu og Spáni og hafa því tekið stór skref í afléttingu takmarkana síðustu vikur. 

Ekki aflýsa

Margar verslanir og veitingastaðir hafa þegar verið opnaðir en þó með ákveðnum takmörkunum. Einnig hefur verið gripið til ýmissa varúðarráðstafana á hótelum og á ströndunum en á þeim geta sóldýrkendur farið að láta sjá sig á ný í lok vikunnar. Þeir verða þó að halda 1,5 metra fjarlægð sín á milli og allir sem koma til landsins þurfa að hlaða smitrakningarappi niður í símann sinn.


Yfirvöld eru þó ekki að búast við því að margir erlendir ferðamenn komi til Portúgal í ár og hafa því hafið markaðsherferð undir slagorðinu „ekki aflýsa – frestaðu“ og vona að sumarið 2021 verði fólk tilbúið að leggjast í ferðalög á ný í stórum stíl.

Sandpokar á strönd á Ítalíu sem eiga að minna fólk á að halda bili sín á milli. Mynd: EPA


Íbúar á ítölsku eyjunni Sikiley reiða sig velflestir á ferðamennsku. Yfirvöld á eyjunni hyggjast niðurgreiða ferðalög þangað til að reyna að ýta sumarvertíðinni úr vör af krafti. Áætlunin gerir ráð fyrir að ferðamenn fái þrjár nætur á gististöðum á verði tveggja eða sex nætur á verði fjögurra. Þá á einnig að gefa ferðaávísanir sem nýta má í ýmiskonar afþreyingu. Að auki hafa yfirvöld á Sikiley viðrað áform sín um að niðurgreiða flugfargjöld en það hefur þó ekki enn verið staðfest. Þar sem nokkur óvissa ríkir enn um þróun faraldursins á Ítalíu hefur ekki verið gefið út hvenær þetta tilboð taki gildi.


Ríkisstjórn Ítalíu tilkynnti nýlega að frá og með 3. júní þurfi ferðamenn frá löndum ESB ekki að fara í sóttkví. Þau segjast gera sér grein fyrir að þessu muni fylgja einhver áhætta. Tilslakanirnar eru gerðar til að reyna að koma ferðaþjónustunni í gang að nýju. Forsætisráðherrann Giuseppe Conte sagði í síðustu viku að þessi aflétting gæti þýtt að „kúrfan“ myndi sveigjast upp á við á ný. „Við verðum að taka því. Annars getum við aldrei komið [efnahagnum] af stað aftur.“


Eftir að aflétting takmarkana hófst í byrjun maí varð skyndileg aukning í fjölgun smita í þeim héruðum sem höfðu orðið verst úti í faraldrinum í upphafi.

Á lestarstöð í París. Merki hafa verið sett á brautarpallana til að minna fólk á fjarlægðarmörk. Mynd: EPA


Í Frakklandi hafa nokkur skref verið tekin í því að aflétta aðgerðum vegna faraldursins. Síðan þá hafa komið upp nokkur hópsmit, m.a. á gististöðum. Veitingastaðir og barir hafa verið opnaðir en viðskiptavinum má aðeins bjóða borð utandyra. Franska ríkisstjórnin hefur enn ekki gefið út hvenær erlendum ferðamönnum verður hleypt inn í landið en nýjum smitum hefur farið hratt fækkandi síðustu daga.


Hópsmit hafa komið upp á veitingastað í Þýskalandi sem og í nokkrum kjötvinnslum í landinu. Í einni þeirra reyndust 270 af 1.200 starfsmönnum með COVID-19. Í Berlín hafa barir verið opnaður að nýju og þó að smitum fari fækkandi dag frá degi þá hefur R-tölunni, sem gefur til kynna hversu marga hver og einn sýktur er talinn hafa smitað, hefur hækkað upp í 1,37.

Auglýsing


Sömu sögu er að segja frá Spáni. Þegar verst lét voru yfir 7.500 ný tilfelli að greinast daglega en nú eru þau um 400-500 á dag. En hópsmit hafa verið að skjóta upp kollinum. Stjórnvöld vilja fara varlega en hafa sagt að ef þróunin haldi áfram í þessa átt vonist þau til að geta opnað landamæri sín fyrir erlendum ferðamönnum um miðjan júní. Þau ætla hins vegar ekki að hleypa hverjum sem er yfir þau heldur flokka lönd eftir áhættu. Eru Norðurlöndin í hópi þeirra landa þar sem áhættan er talin lítil eins og staðan er í dag.

Raunveruleg hætta


Yfirvöld í löndum Asíu hafa verið varkárari í yfirlýsingum sínum. Til Taílands verður líklega ekki hægt að ferðast á næstunni. Þar á að bíða og sjá hvernig faraldurinn heldur áfram að þróast. Og þegar ferðaþjónustan fer aftur af stað verður það með ýmsum takmörkunum, bæði á hverjir geta ferðast til landsins og hvert þeir geta farið innan  þess.


Í Bandaríkjunum hafa mörg ríki tekið til við að aflétta takmörkunum á ferðum og samkomum fólks. „Það er raunveruleg hætta á því að þú setjir af stað faraldur sem þú getur kannski ekki náð tökum á,“ sagði Anthony Fauci, ráðgjafi Bandaríkjastjórnar í smitsjúkdómavörnum, í síðustu viku. Um 1,5 milljón smit af veirunni hafa verið staðfest í landinu og yfir 82 þúsund hafa látist.Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá vígslu málverkanna í febrúar árið 2018. Síðan þá hafa þau ekki verið sýnd hlið við hlið.
Portrettmyndir Obama-hjónanna gera víðreist um Bandaríkin
Aðsóknarmet var slegið í National Portrait Gallery í Washington D.C. eftir að opinberar portrettmyndir Obama-hjónanna bættust í safneignina árið 2018. Nú eru myndirnar á leið í 11 mánaða reisu vítt og breitt um Bandaríkin.
Kjarninn 19. júní 2021
Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar.
Afnám leiguþaks gæti orðið Löfven að falli
Svíþjóð hefur, líkt og önnur lönd í Evrópu, reynt að sporna gegn hröðum leiguverðshækkunum með leiguþaki. Nú gæti farið svo að sænska ríkisstjórnin falli vegna áforma um að afnema slíkar takmarkanir fyrir nýbyggingar.
Kjarninn 18. júní 2021
Frá Akureyri.
Starfsfólki sagt upp á hjúkrunarheimilinu Hlíð á Akureyri
Forseti ASÍ gagnrýnir hagræðingaraðgerðir sem bitna fyrst og fremst á starfsfólki að hennar mati. Heilsuvernd tók við rekstri Öldrunarheimila Akureyrar í apríl á þessu ári.
Kjarninn 18. júní 2021
Kona gengur fram hjá minningarvegg um fórnarlömb COVID-19 í London.
Delta-afbrigðið á fleygiferð á Bretlandseyjum
Tilfellum af COVID-19 fjölgaði um 50 prósent í Bretlandi á einum mánuði frá 5. maí til 7. júní. Smitum af völdum Delta-afbrigðisins svokallaða fjölgaði um tæp 80 prósent milli vikna. Ný bylgja segja sumir en aðrir benda á að hún verði aldrei skæð.
Kjarninn 18. júní 2021
Komum erlendra ferðamanna til landsins fækkaði um 81 prósent milli 2019 og 2020.
Íslendingar eyddu minna á ferðalögum innanlands í fyrra heldur en árið 2019
Heildarútgjöld íslenskra ferðamanna innanlands námu 122 milljörðum króna í fyrra og drógust saman um 14 prósent frá 2019. Hlutfall ferðaþjónustu í landsframleiðslu dróst saman um rúmlega helming á tímabilinu, fór úr átta prósentum niður í 3,9 prósent.
Kjarninn 18. júní 2021
Upplýsingar um alla hluthafa og hversu mikið þeir eiga í skráðum félögum hafa legið fyrir á opinberum vettvangi undanfarið. Þetta telur Persónuvernd stríða gegn lögum.
Persónuvernd telur víðtæka birtingu hluthafalista fara gegn lögum
Vegna nýlegra lagabreytinga hefur verið hægt að nálgast heildarhluthafalista skráðra félaga í Kauphöllinni í samstæðureikningum á vef Skattsins. Persónuvernd telur þessa víðtæku birtingu fara gegn lögum.
Kjarninn 18. júní 2021
Flókið að fást við fólk sem lætur sannleikann ekki þvælast fyrir sér
Kerfið brást Helgu Björgu harðlega eftir að hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa Miðflokksins í um tvö ár án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Málið hefur haft margvíslegar alvarlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu hennar.
Kjarninn 18. júní 2021
Horft frá Nauthólsvík yfir á Kársnes og að Hamraborg, þar sem Kópavogsbær stefnir á uppbyggingu þéttrar byggðar meðfram væntum borgarlínuleiðum.
Telur kjörnum fulltrúum skylt að rýna í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi vill rýna betur í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu, sem lagðar hafa verið fram að undanförnu, svo vilji sveitarstjórna sé skýr í málinu. Einnig viðrar hún sérstakar áhyggjur af rekstrarkostnaði.
Kjarninn 18. júní 2021
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiErlent