Mynd: Bára Huld Beck

Erfiðu ákvarðanirnar eftir sem gætu reynt á þanþol ríkisstjórnarinnar

Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Fyrirliggjandi er mörg hundruð milljarða króna tap á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda eru án atvinnu að öllu leyti eða hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn hitti alla þrjá leiðtoga stjórnarflokkanna til að ræða þeirra sýn út úr þeim aðstæðum sem nú blasa við. Fyrstur í röðinni er Bjarni Benediktsson.

Ef við förum aðeins upp í tíu þúsund fet þá erum við að tapa landsframleiðslu. Það er það sem er að gerast og þess vegna hverfa störf. Þau eru nær öll að hverfa úr einkageiranum. Það eru ekki margir opinberir starfsmenn sem að hafa áhyggjur af starfsöryggi sínu núna. Við þurfum að ná til baka landsframleiðslunni, verja störf eins og hægt er, endurheimta störf eins og til dæmis Í ferðaþjónustu og skapa ný. 

Ef það mistekst, ef okkur gengur illa að gera þetta, þá hef ég verið að benda á að þá eigum við bara einfaldlega ekki fyrir opinberu þjónustunni sem við höldum úti í dag. En ég trúi því að við getum gert það, þess vegna erum við ekki að skera niður þar. Það verður þó ekki svigrúm á meðan að við erum í þessu endurreisnarstarfi til þess að fara að auka byrðar ríkisins vegna opinbera rekstursins.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. Tilefnið er samtal um þá stöðu sem nú er uppi í íslensku efnahagskerfi, og í raun heiminum í heild. Veiran sem veldur COVID-19 sjúkdómnum hefur á örfáum vikum kúvent öllum forsendum sem áður var unnið með. Nú eru vel á sjötta tug þúsund manns án atvinnu hérlendis að öllu leyti eða hluta, stjórnvöld vinna með að hallarekstur á ríkissjóði verði 250 til 300 milljarðar króna í ár hið minnsta og ferðaþjónustan, stærsta stoðin undir efnahagskerfinu, stendur skyndilega frammi fyrir því í heild að vera nær tekjulaus. Og ekkert liggur fyrir hvenær ferðamenn geti með góðu móti heimsótt Ísland á ný. 

Ekki endalaust hægt að setja af stað risaaðgerðir

Íslenska ríkið er að setja gríðarlega fjármuni í að takast á við þá stöðu sem nú er uppi í samfélaginu. Deilt er um hvort að nógu mikið, eða jafnvel of mikið, sé að gert til að mæta stöðu íbúa og fyrirtækja og röð þeirra sem krefjast frekari aðgerða fyrir sinn veruleika virðist lengjast við hvern aðgerðarpakka sem kynntur er, frekar en styttast. 

Á meðan halda reikningarnir sem berast ríkissjóði áfram að hrannast upp. Um síðustu mánaðamót greiddi Vinnumálastofnun til að mynda tólf milljarða króna í atvinnuleysisbætur til þeirra sem voru án atvinnu að öllu leyti eða hluta. Það er hærri fjárhæð en stofnunin greiddi allt árið 2018 í atvinnuleysisbætur. Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins mátu kostnað vegna hlutabótaleiðarinnar og ríkisstyrkja til fyrirtækja til að hjálpa þeim að segja upp fólki án þess að verða gjaldþrota á 60 milljarða króna í ár í nýlega framsettri sviðsmynd.

Auglýsing

Bjarni segir að það hafi legið fyrir frá upphafi að stjórnvöld hafi ekki treyst sér til að lögfesta hlutabótaleiðina svokölluðu, sem gerði fyrirtækjum kleift að lækka starfshlutfall starfsmanna niður í allt að 25 prósent og láta þá gera samning við ríkið um greiðslu allt að 75 prósent launa sinna tímabundið, í lengri tíma en tvo og hálfan mánuð. Hann telur það hafa verið hárrétta ákvörðun og nú hafi verið boðuð framlenging á úrræðinu, en með hertum skilyrðum. Ljóst sé að þarna séu um ofboðslegar fjárhæðir að ræða en Bjarni telur að aðgerðin hafi þrátt fyrir það heppnast vel og peningunum vel varið vegna þess að komið hafi verið í veg fyrir miklar uppsagnir sem hafi verið yfirvofandi. 

Ekki sé þó hægt að setja endalaust af stað risaaðgerðir eins og hlutabótaleiðina. Þar sé um neyðaraðgerðir að ræða til að bregðast við áfalli. Næsta skref verður svo að setja mikla fjármuni í viðbragðið við áfallinu. „Það fer að koma tími til þess að við förum úr þessum neyðaraðgerðum og horfum til lengri tíma.“

Minni smithætta á Íslandi en í neðanjarðarlest í stórborg

Flestar sviðsmyndir um stöðuna í efnahagsmálum á Íslandi eru svartar, og hafa versnað eftir því sem rykið sest frekar. Nú gera þær flestar ráð fyrir því að ferðaþjónustan hérlendis taki vart við sér sem neinu nemur fyrir en á næsta ári hið fyrsta. Sú versta sem sett hefur verið fram kom frá Viðskiptaráði og Samtökum atvinnulífsins í vikunni þar sem grunnsviðsmyndin gerði ráð fyrir 13 prósent samdrætti í ár. Sú svartsýnasta gerði ráð fyrir að hann yrði 18 prósent. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er sannfærður um að Ísland geti náð viðspyrnu.
Mynd: Bára Huld Beck

Bjarni segir að það sé markmið ráðamanna nú að vinna sína vinnu og gera betur en þær sviðsmyndir sem settar hafa verið fram spá fyrir um að staðan verði. „Það er ekki náttúrulögmál að við getum ekki farið úr þessari þröngu stöðu sem við erum í í dag og tekið að nýju við 1,5 til tveimur milljónum ferðamanna áður en þrjú til fimm ár eru liðin. Ef við verðum klár þá getur það mögulega gerst. Ég held að við verðum að nálgast það þannig. Vegirnir og hótelin eru hérna. Allt aðdráttaraflið sem landið hefur verður til staðar. Ef eitthvað er í mínum huga þá hefur forskot Íslands í alþjóðlegri samkeppni vaxið við þessa atburði.“

Það muni sitja lengi sitja í fólki um allan heim að það sé til að mynda meiri smithætta í neðanjarðarlest í stórborg en að vera á Íslandi. „Ég vil trúa því, og er reyndar alveg sannfærður um það, að við vorum komin á kortið hjá hinum alþjóðlega ferðamanni og staða okkar hefur styrkst eftir þetta. Það sem getur dregið úr möguleikum okkar að koma hratt til baka er að það verði langvinn alþjóðleg efnahagsleg lægð. Þannig að kjör millistéttarinnar sem er á ferðinni hafi versnað. Að fólk hafi ekki efni á að ferðast eins og það gerði áður.“

Gætum skuldað börnunum okkar svör

Gera verður ráð fyrir því að þótt hagkerfið taki við sér með einhverjum hætti aftur strax á næsta ári, árið 2021, að það muni ekki duga í að brúa alfarið kostnaðargatið sem er milli þeirrar samneyslu sem við höfum vanist að ríkissjóður borgi fyrir. Því verða næstu ár tekin að láni. 

Bjarni er sannfærður um að Ísland muni finna viðspyrnuna og að þeirri kynslóð sem nú stýrir landinu muni takast að skila því í betra ásigkomulagi en hún tók við Íslandi. Það hafi allar kynslóðir í yfir eitt hundrað ár gert og hann trúir því að þessi muni gera slíkt hið sama þrátt fyrir yfirstandandi kreppu. „Við munum finna lausnir sem munu duga og finna nýjar leiðir til þess að verða sjálfbær. Taka högg sem eðlilegt er að þjóðfélög þurfi að gera við jafn miklar efnahagslegar hamfarir eins og eru hér að eiga sér stað og við finnum stað þar sem við finnum nýja viðspyrnu. Þetta er ekki mjög langt undan og það er erfitt að tímasetja þetta. En þetta tekur einhver ár.“

Auglýsing

Takist þetta markmið ekki, að endurheimta landsframleiðslu sem nú er að tapast, á næstu misserum og árum, þá blasi við aðlögun. Henni væri hægt að mæta með því að auka skilvirkni í opinberum rekstri og ljóst að allt þyrfti að gera til að verja velferðina. Þetta velferðarstig sem að við Íslendingar höfum náð að byggja upp er framúrskarandi þótt okkur finnist oft að það megi gera betur. Fólk upplifir það í öllum könnunum að það sé öruggt í íslensku samfélagi á breiðum grundvelli séð. 

Ef okkur mistekst að endurheimta landsframleiðsluna og fá tekjur til að standa undir samneyslunni þá hugsa ég þetta einfaldlega þannig að við munum skulda framtíðarkynslóðum svör. Þeim sem fá reikninginn fyrir því að við höfum viljað að fá að njóta þjónustunnar eins og hún er í dag án þess að eiga fyrir henni. Af því að þá erum við bara að taka hana alla að láni. Okkur líður vel með það á meðan að það er að gerast. En reikningurinn, hann verður sendur á krakkanna sem eru núna í barnaskóla. Maður verður þá að standa frammi fyrir þeim einhvern tímann og segja: við gátum ekki annað heldur en að búa okkur þau kjör sem við höfðum vanist og vorum ekki til í að gera annað en að velta þessu yfir á ykkur. Þið hljótið að vinna út úr þessu.“

Hægt að gera margt með skilvirkari hætti

Bjarni er þó, líkt og áður sagði, viss í sinni sök að Íslandi geti náð sér á strik áður en til þessarar stöðu kemur. Í byrjun apríl sagði hann í viðtali við Vísi að hann vildi sjá Ísland koma út úr þessu ástandi í uppfærslu 2.0. Aðspurður um hvernig sú uppfærsla sé segir Bjarni að í henni felist að þurfa að horfa djarft til margar sviða samfélagsins. Hann hafi verið að hugsa til einkageirans, og að við myndum hætta að gera það þar sem ekki gekk upp, en líka að horft yrði til verðmætasköpunar á fleiri sviðum en gert hafi verið til þessa. Í því felist meðal annars að setja aukin kraft í stuðning við rannsóknar- og nýsköpunarumhverfið í landinu. 

Hann segist þó ekki síður hafa verið að vísa til þess sem snýr að opinbera geiranum. „Ég finn það svo sterkt úr mínu ráðuneyti hvað við gætum verið að gera marga hluti með skilvirkari hætti. Eitt augljósasta dæmið um það er það sem við erum að vinna að í gegnum Starfrænt Ísland og auka þjónustuframboð á vefnum Island.is. En það teygir sig líka yfir fjölmörg önnur svið, eins og vöru- og þjónustukaup á vegum ríkisins þar sem við höfum verið með allt of sundurslitið kerfi. Við verðum sem samfélag að horfa til framtíðar og spyrja hvernig Ísland þurfi að breytast og taka betur við þeim áskorunum sem við okkur blasa og þar koma inn í málaflokkar eins og loftlagsmálin og umhverfismál.“

Bjarni telur að mikil tækifæri liggi til að mynda í orkuskiptum hérlendis.
mynd: Bára Huld Beck

Hér séu til að mynda tækifæri í orkuskiptum sem standi flestum öðrum þjóðum ekki til boða, enda Ísland stór framleiðandi á raforku. Orkuskiptin snúi að verulegu leyti að því að fara að nýta raforkuna til samgangna og í því liggi gríðarleg tækifæri fyrir Ísland vegna þess að við getum framleitt raforku með hagkvæmum hætti, náð loftlagsmarkmiðum og í þeim felist líka jákvæð efnahagsleg áhrif „sem snýr að því að við hættum að kaupa olíuna af Rússum eða Norðmönnum eða einhverjum öðrum sem byggja sinn efnahag á útflutningi,“ að mati Bjarna. 

Þannig sé hægt að slá nokkrar flugur í eigu höggi. „Það er bara staðreynd að stundum þarf áfall til þess að staldra við. Þá skapast ákveðin neyð til að ráðast í breytingar. Og ég sé þau tækifæri liggja mjög víða sem samfélag.“

Ekki treysta á þá sem koma með bakpoka og niðursuðudósir

Í einkageiranum þarf að taka erfiðar en stefnumótandi ákvarðanir að mati Bjarna. Skapa þurfi umhverfi fyrir fyrirtæki til að fá viðspyrnu en að passa sig líka að teygja ekki opinberan stuðning til að bjarga fyrirtækjum sem voru ekki að reka sig án vandræða áður en yfirstandandi áfall reið yfir. 

Það verði til að mynda að horfast í augu við það að sum fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi ekki verið að ganga nægilega vel. „Við verðum að gæta að því hversu langt við göngum í að halda lífi í þeim. Um það snýst meðal annars umræðan um að við viljum fyrst og fremst styðja við lífvænleg fyrirtæki. Síðan er það bara þannig að það hafa verið að skjóta rótum nýjar greinar á Íslandi. Ég nefni fiskeldi sem dæmi. Það er ekkert hægt að horfa fram hjá því hversu ofboðsleg verðmætasköpun er þar að eiga sér stað á fáum árum. Og dæmi um vaxandi atvinnugrein sem við skrifum í stjórnarsáttmálann að þurfi að vaxa í sátt við náttúruna eins og mögulegt er. Við viljum byggja þá atvinnugrein þannig upp að við getum sagt að það sé ekki hægt að gera þetta með betri hætti heldur en við erum að leggja áherslu á hér á Íslandi með tilliti til umhverfissjónarmiða.“

Auglýsing

Bjarni telur ferðaþjónustuna, sem gengur nú í gegnum mikla eyðimerkurgöngu, eigi mikla möguleika á að ná vopnum sínum aftur. Hægt sé að læra af reynslu síðustu ára og af þeim umhverfislegu og samfélagslegu áskorunum sem fylgdu því að fara úr hálfri milljón ferðamanna á ári í rúmlega tvær milljónir á skömmum tíma. „Út um skrifstofugluggann hjá mér í ráðuneytinu þá horfi ég á stærsta fimm stjörnu hótelið á Íslandi [Marriott-hótelið sem rís nú við hlið Hörpu]. Nýtt hótel sem er hugsað til þess að draga til landsins ferðamenn sem eru að leita að slíkum gistimöguleika. Þarna held ég að við séum að færa okkur aðeins nær því að það verði meira eftir fyrir samfélagið í heild að fá slíka til landsins, ólíkt því sem væri ef við værum eingöngu að treysta á það sem koma með bakpoka og niðursuðudósir.“

Þurfum efnahagsáætlun

Efnahagsáfallið vegna COVID-19 er auðvitað ekki fyrsta höggið sem margir þeirra þingmanna sem nú sitja á Alþingi, eða í ríkisstjórn, hafa tekist á við. Hluti þeirra tók þátt í aðdraganda og endurreisninni eftir bankahrunið sem reið yfir haustið 2008. 

Bjarni rifjar upp að eitt af því sem þá hafi verið gert á undraskömmum tíma var að smíða efnahagsáætlun fyrir tilstuðlan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem var enda forsenda fyrir aðkomu sjóðsins að málum á Íslandi. Í kjölfarið hafi svo farið af stað vinna með ráðgjafafyrirtækinu McKinsey sem hefði skilað af sér hinum svokallaða Samráðsvettvangi um aukna hagsæld. „Ég hef notið góðs að þeirri vinnu sem fjármálaráðherra í mörg ár á eftir og leit reyndar aftur yfir það skjal [skýrslu McKinsey] um daginn þar sem að hafði komið frá þeim vettvangi. Þetta bíður okkur núna. Það er enginn að ýta á okkur að utan. Það er enginn að setja skilyrði fyrir fyrirgreiðslu til Íslands að það verði efnahagsáætlun, en augljóslega er það það sem við þurfum að gera.“

Að mati Bjarna þyrfti mögulega aðkomu aðila vinnumarkaðarins að slíkri áætlun til að tryggja breiðu línurnar og sem mesta sátt, ekki ósvipað og var gert í júní 2009 þegar hinn svokallaði stöðugleikasáttmáli var gerður. Hann var óformlegur samstarfssamningur og viljayfirlýsing milli hins opinbera, helstu aðila atvinnulífsins og stéttarfélaga um að tryggja stöðugleika í íslensku atvinnulífi. Bjarni segir að áfallið sem hagkerfið standi núna frammi fyrir sé einfaldlega ekkert minna en þá átti við. „Mér finnst umræðan um þetta tiltölulega skammt á veg komin.“

Mun reyna á þanþol ríkisstjórnarinnar

Það eru margar aðgerðir sem á eftir að koma í farveg til að mynda grunninn að þeirri stefnu sem Bjarni hefur teiknað upp að þyrfi að feta til að koma Íslandi aftur efnahagslega í gang. Hins vegar er ekki mikið eftir af kjörtímabilinu. Því lýkur í síðasta lagi haustið 2021. 

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur setið að völdum frá 2017, og er skipuð þremur afar ólíkum flokkum.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hann segist enn vera þeirrar skoðunar að það ríkisstjórnin geri rétt í því að starfa út kjörtímabilið allt. „En ég hef líka sagt það að þessar ákvarðanir sem við höfum tekið núna til þessa – í mars, apríl og núna inn í maí – þetta eru ekki mjög erfiðar ákvarðanir miðað við þær sem bíða okkar þegar við förum að taka á stöðunni í haust. Að búa til ný fjárlög, koma fram með fjármálaáætlun og fjalla um það hvernig við ætlum að reka samfélagið á næstu árum verandi í halla. Það verða erfiðari ákvarðanir og það er hætt við því að það muni draga fram ákveðnar pólitískar línur sem að munu geta reynt á þanþol stjórnarinnar.“ 

Reynslan hafi þó sýnt honum að stjórnin komist í gegnum slíka hluti. „Það er gott jafnvægi í þessari ríkisstjórn og mér finnst við hafa sett saman ríkisstjórn sem er líklegri en allar aðrar mögulegar stjórnir við þessar aðstæður til þess að leysa þann vanda. Mér finnst við hafa skyldu til þess að gera það. Það mun kosta einhverjar málamiðlanir en það er mjög auðvelt að sjá það fyrir sér að við munum fara beint úr þeirri umræðu inn í kosningar, og taka þangað með okkur, hvenær sem þær verða nákvæmlega, hluta af þessari umræðu.“ 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar