Mynd: Bára Huld Beck

Erfiðu ákvarðanirnar eftir sem gætu reynt á þanþol ríkisstjórnarinnar

Ísland er í alvarlegri efnahagskreppu. Fyrirliggjandi er mörg hundruð milljarða króna tap á rekstri ríkissjóðs í ár, tugir þúsunda eru án atvinnu að öllu leyti eða hluta og þúsundir fyrirtækja standa frammi fyrir algjörri óvissu um hvort þau lifi eða deyi. Kjarninn hitti alla þrjá leiðtoga stjórnarflokkanna til að ræða þeirra sýn út úr þeim aðstæðum sem nú blasa við. Fyrstur í röðinni er Bjarni Benediktsson.

Ef við förum aðeins upp í tíu þús­und fet þá erum við að tapa lands­fram­leiðslu. Það er það sem er að ger­ast og þess vegna hverfa störf. Þau eru nær öll að hverfa úr einka­geir­an­um. Það eru ekki margir opin­berir starfs­menn sem að hafa áhyggjur af starfs­ör­yggi sínu núna. Við þurfum að ná til baka lands­fram­leiðsl­unni, verja störf eins og hægt er, end­ur­heimta störf eins og til dæmis Í ferða­þjón­ustu og skapa ný. 

Ef það mis­tekst, ef okkur gengur illa að gera þetta, þá hef ég verið að benda á að þá eigum við bara ein­fald­lega ekki fyrir opin­beru þjón­ust­unni sem við höldum úti í dag. En ég trúi því að við getum gert það, þess vegna erum við ekki að skera niður þar. Það verður þó ekki svig­rúm á meðan að við erum í þessu end­ur­reisn­ar­starfi til þess að fara að auka byrðar rík­is­ins vegna opin­bera rekst­urs­ins.“

Þetta segir Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra og for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins. Til­efnið er sam­tal um þá stöðu sem nú er uppi í íslensku efna­hags­kerfi, og í raun heim­inum í heild. Veiran sem veldur COVID-19 sjúk­dómnum hefur á örfáum vikum kúvent öllum for­sendum sem áður var unnið með. Nú eru vel á sjötta tug þús­und manns án atvinnu hér­lendis að öllu leyti eða hluta, stjórn­völd vinna með að halla­rekstur á rík­is­sjóði verði 250 til 300 millj­arðar króna í ár hið minnsta og ferða­þjón­ust­an, stærsta stoðin undir efna­hags­kerf­inu, stendur skyndi­lega frammi fyrir því í heild að vera nær tekju­laus. Og ekk­ert liggur fyrir hvenær ferða­menn geti með góðu móti heim­sótt Ísland á ný. 

Ekki enda­laust hægt að setja af stað risa­að­gerðir

Íslenska ríkið er að setja gríð­ar­lega fjár­muni í að takast á við þá stöðu sem nú er uppi í sam­fé­lag­inu. Deilt er um hvort að nógu mik­ið, eða jafn­vel of mik­ið, sé að gert til að mæta stöðu íbúa og fyr­ir­tækja og röð þeirra sem krefj­ast frek­ari aðgerða fyrir sinn veru­leika virð­ist lengj­ast við hvern aðgerð­ar­pakka sem kynntur er, frekar en stytt­ast. 

Á meðan halda reikn­ing­arnir sem ber­ast rík­is­sjóði áfram að hrann­ast upp. Um síð­ustu mán­aða­mót greiddi Vinnu­mála­stofnun til að mynda tólf millj­arða króna í atvinnu­leys­is­bætur til þeirra sem voru án atvinnu að öllu leyti eða hluta. Það er hærri fjár­hæð en stofn­unin greiddi allt árið 2018 í atvinnu­leys­is­bæt­ur. Við­skipta­ráð og Sam­tök atvinnu­lífs­ins mátu kostnað vegna hluta­bóta­leið­ar­innar og rík­is­styrkja til fyr­ir­tækja til að hjálpa þeim að segja upp fólki án þess að verða gjald­þrota á 60 millj­arða króna í ár í nýlega fram­settri sviðs­mynd.

Auglýsing

Bjarni segir að það hafi legið fyrir frá upp­hafi að stjórn­völd hafi ekki treyst sér til að lög­festa hluta­bóta­leið­ina svoköll­uðu, sem gerði fyr­ir­tækjum kleift að lækka starfs­hlut­fall starfs­manna niður í allt að 25 pró­sent og láta þá gera samn­ing við ríkið um greiðslu allt að 75 pró­sent launa sinna tíma­bund­ið, í lengri tíma en tvo og hálfan mán­uð. Hann telur það hafa verið hár­rétta ákvörðun og nú hafi verið boðuð fram­leng­ing á úrræð­inu, en með hertum skil­yrð­um. Ljóst sé að þarna séu um ofboðs­legar fjár­hæðir að ræða en Bjarni telur að aðgerðin hafi þrátt fyrir það heppn­ast vel og pen­ing­unum vel varið vegna þess að komið hafi verið í veg fyrir miklar upp­sagnir sem hafi verið yfir­vof­and­i. 

Ekki sé þó hægt að setja enda­laust af stað risa­að­gerðir eins og hluta­bóta­leið­ina. Þar sé um neyð­ar­að­gerðir að ræða til að bregð­ast við áfalli. Næsta skref verður svo að setja mikla fjár­muni í við­bragðið við áfall­inu. „Það fer að koma tími til þess að við förum úr þessum neyð­ar­að­gerðum og horfum til lengri tíma.“

Minni smit­hætta á Íslandi en í neð­an­jarð­ar­lest í stór­borg

Flestar sviðs­myndir um stöð­una í efna­hags­málum á Íslandi eru svart­ar, og hafa versnað eftir því sem rykið sest frek­ar. Nú gera þær flestar ráð fyrir því að ferða­þjón­ustan hér­lendis taki vart við sér sem neinu nemur fyrir en á næsta ári hið fyrsta. Sú versta sem sett hefur verið fram kom frá Við­skipta­ráði og Sam­tökum atvinnu­lífs­ins í vik­unni þar sem grunn­s­viðs­myndin gerði ráð fyrir 13 pró­sent sam­drætti í ár. Sú svart­sýn­asta gerði ráð fyrir að hann yrði 18 pró­sent. 

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, er sannfærður um að Ísland geti náð viðspyrnu.
Mynd: Bára Huld Beck

Bjarni segir að það sé mark­mið ráða­manna nú að vinna sína vinnu og gera betur en þær sviðs­myndir sem settar hafa verið fram spá fyrir um að staðan verði. „Það er ekki nátt­úru­lög­mál að við getum ekki farið úr þess­ari þröngu stöðu sem við erum í í dag og tekið að nýju við 1,5 til tveimur millj­ónum ferða­manna áður en þrjú til fimm ár eru lið­in. Ef við verðum klár þá getur það mögu­lega gerst. Ég held að við verðum að nálg­ast það þannig. Veg­irnir og hót­elin eru hérna. Allt aðdrátt­ar­aflið sem landið hefur verður til stað­ar. Ef eitt­hvað er í mínum huga þá hefur for­skot Íslands í alþjóð­legri sam­keppni vaxið við þessa atburð­i.“

Það muni sitja lengi sitja í fólki um allan heim að það sé til að mynda meiri smit­hætta í neð­an­jarð­ar­lest í stór­borg en að vera á Íslandi. „Ég vil trúa því, og er reyndar alveg sann­færður um það, að við vorum komin á kortið hjá hinum alþjóð­lega ferða­manni og staða okkar hefur styrkst eftir þetta. Það sem getur dregið úr mögu­leikum okkar að koma hratt til baka er að það verði lang­vinn alþjóð­leg efna­hags­leg lægð. Þannig að kjör milli­stétt­ar­innar sem er á ferð­inni hafi versn­að. Að fólk hafi ekki efni á að ferð­ast eins og það gerði áður.“

Gætum skuldað börn­unum okkar svör

Gera verður ráð fyrir því að þótt hag­kerfið taki við sér með ein­hverjum hætti aftur strax á næsta ári, árið 2021, að það muni ekki duga í að brúa alfarið kostn­að­ar­gatið sem er milli þeirrar sam­neyslu sem við höfum van­ist að rík­is­sjóður borgi fyr­ir. Því verða næstu ár tekin að lán­i. 

Bjarni er sann­færður um að Ísland muni finna við­spyrn­una og að þeirri kyn­slóð sem nú stýrir land­inu muni takast að skila því í betra ásig­komu­lagi en hún tók við Íslandi. Það hafi allar kyn­slóðir í yfir eitt hund­rað ár gert og hann trúir því að þessi muni gera slíkt hið sama þrátt fyrir yfir­stand­andi kreppu. „Við munum finna lausnir sem munu duga og finna nýjar leiðir til þess að verða sjálf­bær. Taka högg sem eðli­legt er að þjóð­fé­lög þurfi að gera við jafn miklar efna­hags­legar ham­farir eins og eru hér að eiga sér stað og við finnum stað þar sem við finnum nýja við­spyrnu. Þetta er ekki mjög langt undan og það er erfitt að tíma­setja þetta. En þetta tekur ein­hver ár.“

Auglýsing

Tak­ist þetta mark­mið ekki, að end­ur­heimta lands­fram­leiðslu sem nú er að tapast, á næstu miss­erum og árum, þá blasi við aðlög­un. Henni væri hægt að mæta með því að auka skil­virkni í opin­berum rekstri og ljóst að allt þyrfti að gera til að verja vel­ferð­ina. Þetta vel­ferð­ar­stig sem að við Íslend­ingar höfum náð að byggja upp er fram­úr­skar­andi þótt okkur finn­ist oft að það megi gera bet­ur. Fólk upp­lifir það í öllum könn­unum að það sé öruggt í íslensku sam­fé­lagi á breiðum grund­velli séð. 

Ef okkur mis­tekst að end­ur­heimta lands­fram­leiðsl­una og fá tekjur til að standa undir sam­neysl­unni þá hugsa ég þetta ein­fald­lega þannig að við munum skulda fram­tíð­ar­kyn­slóðum svör. Þeim sem fá reikn­ing­inn fyrir því að við höfum viljað að fá að njóta þjón­ust­unnar eins og hún er í dag án þess að eiga fyrir henni. Af því að þá erum við bara að taka hana alla að láni. Okkur líður vel með það á meðan að það er að ger­ast. En reikn­ing­ur­inn, hann verður sendur á krakk­anna sem eru núna í barna­skóla. Maður verður þá að standa frammi fyrir þeim ein­hvern tím­ann og segja: við gátum ekki annað heldur en að búa okkur þau kjör sem við höfðum van­ist og vorum ekki til í að gera annað en að velta þessu yfir á ykk­ur. Þið hljótið að vinna út úr þessu.“

Hægt að gera margt með skil­virk­ari hætti

Bjarni er þó, líkt og áður sagði, viss í sinni sök að Íslandi geti náð sér á strik áður en til þess­arar stöðu kem­ur. Í byrjun apríl sagði hann í við­tali við Vísi að hann vildi sjá Ísland koma út úr þessu ástandi í upp­færslu 2.0. Aðspurður um hvernig sú upp­færsla sé segir Bjarni að í henni felist að þurfa að horfa djarft til margar sviða sam­fé­lags­ins. Hann hafi verið að hugsa til einka­geirans, og að við myndum hætta að gera það þar sem ekki gekk upp, en líka að horft yrði til verð­mæta­sköp­unar á fleiri sviðum en gert hafi verið til þessa. Í því felist meðal ann­ars að setja aukin kraft í stuðn­ing við rann­sókn­ar- og nýsköp­un­ar­um­hverfið í land­in­u. 

Hann seg­ist þó ekki síður hafa verið að vísa til þess sem snýr að opin­bera geir­an­um. „Ég finn það svo sterkt úr mínu ráðu­neyti hvað við gætum verið að gera marga hluti með skil­virk­ari hætti. Eitt aug­ljós­asta dæmið um það er það sem við erum að vinna að í gegnum Star­frænt Ísland og auka þjón­ustu­fram­boð á vefnum Island.­is. En það teygir sig líka yfir fjöl­mörg önnur svið, eins og vöru- og þjón­ustu­kaup á vegum rík­is­ins þar sem við höfum verið með allt of sund­ur­slitið kerfi. Við verðum sem sam­fé­lag að horfa til fram­tíðar og spyrja hvernig Ísland þurfi að breyt­ast og taka betur við þeim áskor­unum sem við okkur blasa og þar koma inn í mála­flokkar eins og loft­lags­málin og umhverf­is­mál.“

Bjarni telur að mikil tækifæri liggi til að mynda í orkuskiptum hérlendis.
mynd: Bára Huld Beck

Hér séu til að mynda tæki­færi í orku­skiptum sem standi flestum öðrum þjóðum ekki til boða, enda Ísland stór fram­leið­andi á raf­orku. Orku­skiptin snúi að veru­legu leyti að því að fara að nýta raf­ork­una til sam­gangna og í því liggi gríð­ar­leg tæki­færi fyrir Ísland vegna þess að við getum fram­leitt raf­orku með hag­kvæmum hætti, náð loft­lags­mark­miðum og í þeim felist líka jákvæð efna­hags­leg áhrif „sem snýr að því að við hættum að kaupa olí­una af Rússum eða Norð­mönnum eða ein­hverjum öðrum sem byggja sinn efna­hag á útflutn­ing­i,“ að mati Bjarna. 

Þannig sé hægt að slá nokkrar flugur í eigu höggi. „Það er bara stað­reynd að stundum þarf áfall til þess að staldra við. Þá skap­ast ákveðin neyð til að ráð­ast í breyt­ing­ar. Og ég sé þau tæki­færi liggja mjög víða sem sam­fé­lag.“

Ekki treysta á þá sem koma með bak­poka og nið­ur­suðu­dósir

Í einka­geir­anum þarf að taka erf­iðar en stefnu­mót­andi ákvarð­anir að mati Bjarna. Skapa þurfi umhverfi fyrir fyr­ir­tæki til að fá við­spyrnu en að passa sig líka að teygja ekki opin­beran stuðn­ing til að bjarga fyr­ir­tækjum sem voru ekki að reka sig án vand­ræða áður en yfir­stand­andi áfall reið yfir. 

Það verði til að mynda að horfast í augu við það að sum fyr­ir­tæki í ferða­þjón­ustu hafi ekki verið að ganga nægi­lega vel. „Við verðum að gæta að því hversu langt við göngum í að halda lífi í þeim. Um það snýst meðal ann­ars umræðan um að við viljum fyrst og fremst styðja við líf­væn­leg fyr­ir­tæki. Síðan er það bara þannig að það hafa verið að skjóta rótum nýjar greinar á Íslandi. Ég nefni fisk­eldi sem dæmi. Það er ekk­ert hægt að horfa fram hjá því hversu ofboðs­leg verð­mæta­sköpun er þar að eiga sér stað á fáum árum. Og dæmi um vax­andi atvinnu­grein sem við skrifum í stjórn­ar­sátt­mál­ann að þurfi að vaxa í sátt við nátt­úr­una eins og mögu­legt er. Við viljum byggja þá atvinnu­grein þannig upp að við getum sagt að það sé ekki hægt að gera þetta með betri hætti heldur en við erum að leggja áherslu á hér á Íslandi með til­liti til umhverf­is­sjón­ar­miða.“

Auglýsing

Bjarni telur ferða­þjón­ust­una, sem gengur nú í gegnum mikla eyði­merk­ur­göngu, eigi mikla mögu­leika á að ná vopnum sínum aft­ur. Hægt sé að læra af reynslu síð­ustu ára og af þeim umhverf­is­legu og sam­fé­lags­legu áskor­unum sem fylgdu því að fara úr hálfri milljón ferða­manna á ári í rúm­lega tvær millj­ónir á skömmum tíma. „Út um skrif­stofu­glugg­ann hjá mér í ráðu­neyt­inu þá horfi ég á stærsta fimm stjörnu hót­elið á Íslandi [Marriott-hót­elið sem rís nú við hlið Hörpu]. Nýtt hótel sem er hugsað til þess að draga til lands­ins ferða­menn sem eru að leita að slíkum gisti­mögu­leika. Þarna held ég að við séum að færa okkur aðeins nær því að það verði meira eftir fyrir sam­fé­lagið í heild að fá slíka til lands­ins, ólíkt því sem væri ef við værum ein­göngu að treysta á það sem koma með bak­poka og nið­ur­suðu­dós­ir.“

Þurfum efna­hags­á­ætlun

Efna­hags­á­fallið vegna COVID-19 er auð­vitað ekki fyrsta höggið sem margir þeirra þing­manna sem nú sitja á Alþingi, eða í rík­is­stjórn, hafa tek­ist á við. Hluti þeirra tók þátt í aðdrag­anda og end­ur­reisn­inni eftir banka­hrunið sem reið yfir haustið 2008. 

Bjarni rifjar upp að eitt af því sem þá hafi verið gert á undra­skömmum tíma var að smíða efna­hags­á­ætlun fyrir til­stuðlan Alþjóða­gjald­eyr­is­sjóðs­ins, sem var enda for­senda fyrir aðkomu sjóðs­ins að málum á Íslandi. Í kjöl­farið hafi svo farið af stað vinna með ráð­gjafa­fyr­ir­tæk­inu McK­insey sem hefði skilað af sér hinum svo­kall­aða Sam­ráðs­vett­vangi um aukna hag­sæld. „Ég hef notið góðs að þeirri vinnu sem fjár­mála­ráð­herra í mörg ár á eftir og leit reyndar aftur yfir það skjal [skýrslu McK­insey] um dag­inn þar sem að hafði komið frá þeim vett­vangi. Þetta bíður okkur núna. Það er eng­inn að ýta á okkur að utan. Það er eng­inn að setja skil­yrði fyrir fyr­ir­greiðslu til Íslands að það verði efna­hags­á­ætl­un, en aug­ljós­lega er það það sem við þurfum að ger­a.“

Að mati Bjarna þyrfti mögu­lega aðkomu aðila vinnu­mark­að­ar­ins að slíkri áætlun til að tryggja breiðu lín­urnar og sem mesta sátt, ekki ósvipað og var gert í júní 2009 þegar hinn svo­kall­aði stöð­ug­leika­sátt­máli var gerð­ur. Hann var óform­legur sam­starfs­samn­ingur og vilja­yf­ir­lýs­ing milli hins opin­bera, helstu aðila atvinnu­lífs­ins og stétt­ar­fé­laga um að tryggja stöð­ug­leika í íslensku atvinnu­lífi. Bjarni segir að áfallið sem hag­kerfið standi núna frammi fyrir sé ein­fald­lega ekk­ert minna en þá átti við. „Mér finnst umræðan um þetta til­tölu­lega skammt á veg kom­in.“

Mun reyna á þan­þol rík­is­stjórn­ar­innar

Það eru margar aðgerðir sem á eftir að koma í far­veg til að mynda grunn­inn að þeirri stefnu sem Bjarni hefur teiknað upp að þyrfi að feta til að koma Íslandi aftur efna­hags­lega í gang. Hins vegar er ekki mikið eftir af kjör­tíma­bil­inu. Því lýkur í síð­asta lagi haustið 2021. 

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur setið að völdum frá 2017, og er skipuð þremur afar ólíkum flokkum.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Hann seg­ist enn vera þeirrar skoð­unar að það rík­is­stjórnin geri rétt í því að starfa út kjör­tíma­bilið allt. „En ég hef líka sagt það að þessar ákvarð­anir sem við höfum tekið núna til þessa – í mars, apríl og núna inn í maí – þetta eru ekki mjög erf­iðar ákvarð­anir miðað við þær sem bíða okkar þegar við förum að taka á stöð­unni í haust. Að búa til ný fjár­lög, koma fram með fjár­mála­á­ætlun og fjalla um það hvernig við ætlum að reka sam­fé­lagið á næstu árum ver­andi í halla. Það verða erf­ið­ari ákvarð­anir og það er hætt við því að það muni draga fram ákveðnar póli­tískar línur sem að munu geta reynt á þan­þol stjórn­ar­inn­ar.“ 

Reynslan hafi þó sýnt honum að stjórnin kom­ist í gegnum slíka hluti. „Það er gott jafn­vægi í þess­ari rík­is­stjórn og mér finnst við hafa sett saman rík­is­stjórn sem er lík­legri en allar aðrar mögu­legar stjórnir við þessar aðstæður til þess að leysa þann vanda. Mér finnst við hafa skyldu til þess að gera það. Það mun kosta ein­hverjar mála­miðl­anir en það er mjög auð­velt að sjá það fyrir sér að við munum fara beint úr þeirri umræðu inn í kosn­ing­ar, og taka þangað með okk­ur, hvenær sem þær verða nákvæm­lega, hluta af þess­ari umræð­u.“ 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar