Borghildur ásamt börnunum þremur, Sóleyju Önnu sjö ára og tvíburunum Kára Kjartani og Birnu Björk, fjögurra ára.

Í fjarkennslu með fjögurra ára tvíbura á hliðarlínunni

Borghildur Sverrisdóttir, kennari við Flensborgarskóla, hóf fjarkennslu í samkomubanni af miklum krafti, með fjögurra ára tvíbura og sex ára dóttur oft við hlið sér. „Við þessar aðstæður ætlaði ég mér að skila 100 prósent vinnu,“ segir hún. „En þetta gekk einfaldlega ekki upp.“ Hún tók því nokkur skref til baka, sjálfri sér og nemendum til góða.

 Ég var að mæta í skólann í fyrsta skipti frá því að samkomubann var sett á,“ segir Borghildur  Sverrisdóttir, kennari við Flensborgarskóla. Það má heyra gleði í rödd hennar. Það var góð tilfinning að koma aftur í skólahúsið, jafnvel þó að þar hafi hún hitt fáa fyrir og aðeins kennara.  „Ég hlakka mikið til að hitta nemendurna aftur í haust.“

Borghildur kennir sálfræði og uppeldisfræði og hefur auk þess umsjón með hópi nemenda. Hún segir mikilvægi umsjónarkennara hafa komið glögglega í ljós við þær aðstæður sem sköpuðust í skólastarfinu í vetur vegna faraldursins.

„Það hefur alltaf verið lögð mikil áhersla á að halda vel utan um nemendur í Flensborgarskóla á meðan þeir eru enn börn að lögum eða til átján ára aldurs,“ segir hún. Hluti af því felst í því að aðstoða þau við námið en ekki síður að styðja við þau í þeim nýju aðstæðum sem framhaldsskólinn er. „Í faraldrinum höfum við skipulega verið í sambandi við þau bæði símleiðis og í gegnum tölvupóst til að heyra hvernig þeim líður og hvetja þau áfram í náminu. Þetta hefur verið stærra hlutverk hjá okkur eftir að þetta ástand skall á.“

Auglýsing

Borghildi hefur tekist ágætlega að halda utan um nemendahópinn sinn síðustu vikur. Hún hefur hringt í alla og suma nokkrum sinnum. „Ég reyndi að halda þeim við efnið og hvetja áfram. Þeir eru flestir að standa sig ótrúlega vel, jafnvel betur en áður. Sumir tala um að þeim finnist þetta fyrirkomulag á náminu vera betra.“

En það á ekki við um alla. Margir sem glíma til dæmis við kvíða eða eru með athyglisbrest eiga til dæmis erfiðara með að koma sér að verki en áður. Utanumhald skólastofunnar og viðvera kennarans öllum stundum er sú rútína sem þeir þarfnast. „Við höfum þurft að halda betur utan um þennan hóp en áður,“ segir Borghildur og bendir á að þar hafi námsráðgjafar skólans einnig komið sterkir inn. Að styðja við viðkvæmustu nemendurnar hafi verið lykilatriði í því að almennt hafi allt gengið vel í skólastarfinu því það eru þeir sem eiga á mestri hættu að líða illa við svona aðstæður og detta úr skóla.

Hvað námið varðar hafa nemendur Borghildar staðið sig mjög vel „en þeim finnst þetta skrítið. Þeim finnst þetta einmanalegt. Þau tala um að þeim þyki ömurlegt að vera ekki í skólanum og hitta ekki vini sína. Og finnst leiðinlegt að vera oft og mikið ein.“  

Borghildur við borstofuborðið heima að vinna. Börnin þrjú ekki langt undan.
Jóhann Bj.

Borghildur hóf að kenna við Flensborgarskóla, skólann sem hún sjálf gekk í á sínum tíma, árið 2016. Hún lagði stund á heimspeki er hún hóf háskólanám sitt en útskrifaðist með BA-próf úr sálfræði og fjölmiðlafræði. Að því loknu vann hún lengst af sem einkaþjálfari, skrifaði pistla um heilsu og veitti ráðgjöf. Árið 2013 tók hún nýja stefnu, fór í nám á ný og tók meistarapróf í menntunarfræði til kennsluréttinda við Háskólann á Akureyri.

Skólaárið hófst með hefðbundnum hætti í Flensborgarskóla síðasta haust. Og þó að fregnir hafi tekið að berast af nýrri veiru í Kína upp úr áramótum héldu allir ró sinni. „Okkur óraði auðvitað ekki fyrir því sem átti eftir að gerast frekar en öðrum,“ segir Borghildur.

Eitthvað lá í loftinu

Um hálfum mánuði áður en samkomubannið var sett á fann Borghildur að eitthvað lá í loftinu. Breytinga væri að vænta. „Það töluðu margir um að þetta væri ekki spurning um ef heldur þegar. En þá vissum við ekkert hvernig þetta myndi gerast, hvort við þyrftum öll að fara heim eins og síðar kom á daginn. Við vorum því öll í lausu lofti og létum bara hvern dag líða. En svo kom þetta bara allt í einu. Og við þurftum að taka upp nýja tækni og finna nýjar lausnir. Þannig að þetta skall svolítið á og við settum í annan gír.“

Borghildur líkt og aðrir kennarar fór heim að vinna og nemendurnir sömuleiðis. Reynt var að vinna úr uppkominni stöðu sem best en á ýmsa veggi átti eftir að hlaupa. „Ég reyndi frá upphafi hvað ég gat að einbeita mér að því að halda utan um minn nemendahóp.“

Auglýsing

Stóru spurningarnar fólust hins vegar í því hvernig hægt væri að nota tæknina sem best til að koma námsefninu til skila. Hvaða leiðir ætti að fara, hvaða forrit að nota, hvernig framkvæma átti próf og þar fram eftir götunum. „Við vorum að henda okkur út í djúpu laugina í því sambandi.“

Á einni viku var allt sett af stað og ýmis búnaður og forrit reynd. „Persónulega fór ég of geyst í þetta. Ég fann að ég réð ekki almennilega við allt það sem ég stefndi að. Ég var svolítið syndandi án þess að kunna fyllilega að synda,“ rifjar hún upp. „Fyrstu vikuna var ég bara að reyna að halda mér á floti.“

Það var ekki nóg með að gjörbylta þurfti kennsluháttum heldur varð að taka tillit til þess að aðstæður heima fyrir voru sömuleiðis breyttar.  „Ég er með þrjú ung börn heima, fjögurra ára tvíbura og sjö ára stelpu. Tvíburarnir voru í leikskólanum annan hvern dag og sú elsta í skólanum og frístund í um tvo tíma á dag. Við þessar aðstæður ætlaði ég mér að skila 100 prósent vinnu. En þetta gekk einfaldlega ekki upp.“

Stjórnendur Flensborgarskóla höfðu fullan skilning á því að aðstæður kennara heima fyrir væru misjafnar og vildu að þeir sniðu sér stakk eftir vexti. „En maður hefur metnað og vill gera það besta fyrir nemendur sína. Maður vill ekki að þetta bitni á neinu heldur halda dampi í kennslunni.“

Nemendurnir stóðu sig að sögn Borghildar langflestir mjög vel í fjarnáminu.
EPA

 Um tíu dögum eftir að fjarkennslan hófst þurfti Borghildur að taka nokkur skref til baka til að ná betur utan um aðstæðurnar. Þá voru nemendur einnig farnir að tala um það að álagið væri full mikið og að margir kennarar væru að senda þeim of mikið og stór verkefni. „Þannig að við kennarar og nemendur þurftum að tala betur saman og fundum svo einhvers konar jafnvægi á fyrstu tveimur vikunum.“

Þeir nemendur sem Borghildur hefur verið í samskiptum við segja að þegar jafnvægi hafi fengist hafi þeim flestum gengið vel í sínu námi og álagið orðið viðráðanlegt.

Borghildur segir að það kæmi sér ekki á óvart ef brottfall úr framhaldsskólanámi yrði meira þessa önnina en að jafnaði. Hún veit ekki til þess að sú sé staðan í Flensborg en ef brottfall yrði lítið „yrðu það vissulega frábærar fréttir“.

Ekki í lausu lofti

Áður en til samkomubanns kom höfðu kennarar í Flensborgarskóla fengið ráðgjöf um fjarkennslu frá kennslufræðingi. Hann kynnti fyrir þeim forrit og tæknibúnað sem gæti nýst við kennsluna. „Við vorum því ekki í lausu lofti þegar þetta skall svo á þó að það hafi enginn tími gefist til undirbúnings að ráði. Og ég held að allir hafi sannarlega reynt að gera sitt besta.“

Borghildur fór þá leið að fylgja stundaskrá sinna nemenda að nokkru leyti. Þegar þeir áttu að vera í kennslustund sendi hún þeim verkefni og glærur sem hún hafði talað inn á. Á þessum tilteknum tímum var hún svo alltaf til staðar fyrir þau við tölvuna ef þau þyrftu á aðstoð hennar að halda.  Svo var hún reglulega með fjarkennslustundir í beinni þar sem hún ræddi við nemendurna, fór yfir verkefni og undirbjó þá fyrir próf. „Mér fannst nemendurnir taka því almennt ótrúlega vel að fara úr staðnámi í fjarnám. Þeir voru duglegir að spyrja og senda okkur pósta.“ 

Auglýsing

Sumum finnst þægilegt að geta unnið á sínum hraða og á sínum tíma og hafa því notið sveigjanleika fjarkennslunnar. Einnig segir Borghildur að nemendum hafi verið sýndur meiri skilningur en áður hvað varðar verkefnaskil og rýmri tími gefinn í þeim efnum. Ekki hafi verið slegið almennt af námskröfum en ákveðnar tilslakanir verið gerðar. „Við vildum auðvitað draga úr brottfalli. Það var númer, eitt tvö og þrjú í okkar áherslum. Að halda nemendum inni, hvetja þau áfram og gefa þeim sveigjanleika.“

Borghildur vonar að hún þurfi ekki að halda margar fjarkennslustundir til viðbótar í framtíðinni. Samveran í skólastofunni sé dýrmæt. En hún ætlar að nýta sér áfram rafrænar lausnir við verkefnavinnu og próf. „Við kennarar höfum allir þjálfast í því að nýta okkur tæknina. Við þurfum alltaf að tileinka okkur nýja hluti í því sambandi og að því leyti hefur þetta ástand gefið okkur eitthvað.“

Öll próf rafræn

Síðustu daga hafa nemendur Flensborgarskólans verið að taka vorprófin. Þau eru öll rafræn þessa önnina.  Borghildur sendi sínum nemendum prófin í gegnum netið og svo gátu þau leitað til hennar á meðan þau voru að vinna það. Mörg hafi nýtt sér það, hringt og sent pósta með fyrirspurnum. „Það er mjög gott að þau létu þetta ekki stoppa sig og mjög gott að heyra í þeim.“

Allir þurftu að læra mikið og á stuttum tíma síðustu vikur. Sumir, eins og Borghildur, fóru kannski eilítið of bratt af stað í vinnu sinni í breyttum aðstæðum en fundu svo jafnvægið. „Þetta hefur verið skrautlegur tími,“ segir hún og hlær dátt. „Það tók kennara og nemendur líka tíma að koma sér upp rútínu heima.“

Kári Kjartan sýnir mömmu sinni stafi sem hann hefur skrifað. Allir að vinna heima.
Jóhann Bj.

Stundum hafi hún vakið nemendur sína er hún hringdi í þá um hádegisbil. Alltaf brýni hún fyrir þeim öllum hversu mikilvæg rútína er í námi og vinnu; að fara á fætur, borða góðan morgunmat og sinna svo verkefnum dagsins. „Maður var svolítið mamma þeirra líka,“ segir hún og heldur áfram að hlæja.

Heima fyrir hafi hún svo sjálf verið að berjast við að halda góðri rútínu hjá öllum og nota þá glugga sem gáfust til að sinna vinnunni inni á milli. Sjö ára dóttir hennar var stutt í skólanum á hverjum degi og var svo með heilmikið heimanám alla daga. Og tvíburarnir bara í leikskólanum annan hvern dag. „Maðurinn minn þurfti stundum að taka frí frá sinni vinnu svo að þetta gengi allt upp. Þá fór þetta alveg að ganga vel. En það eru auðvitað allir í svipaðri stöðu og ég er ekkert frábrugðin öðrum.“

Hlakkar til að hitta nemendur

Borghildur er bjartsýn að eðlisfari. Hún óttast ekki að hið undarlega ástand sem nemendur hafa þurft að búa við síðustu vikur muni hafa langtíma áhrif á þeirra líðan eða nám. „Ég hef trú á því að við komum aftur í skólann í haust, kannski ekki eins og ekkert hafi í skorist, en höldum áfram okkar starfi, bæði nemendur og kennarar. Ég hlakka til. Það er alltaf betra að vera í beinum samskiptum við fólk, halda kennslustund. Þess vegna er ég nú kennari. Annars hefði ég bara valið mér eitthvað starf fyrir framan tölvu.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiViðtal