Wikipedia Spói í Afríku

Nýtur lífsins undir Afríkusól og bíður íslenska vorsins

Sumarmánuðunum eyddi hún í nábýli við íslenska hesta en í vetur hefur hún haldið sig á slóðum hinna klunnalegu Nílhesta. Spóinn Ékéké spókar sig nú á frjósömum leirum Bijagós-eyjaklasans en mun á nýju ári hefja undirbúning fyrir Íslandsförina.

Dýralífið á Bijagós-eyjum úti fyrir ströndum Gíneu-Bissau í Vestur-Afríku er einstaklega fjölskrúðugt. Óteljandi spendýr, skriðdýr og fiskar hafa kosið sér þetta búsvæði og milljónir fugla, sem eyða sumarmánuðum á norðlægari slóðum, njóta þar kossa sólarinnar yfir vetrarmánuðina. Þegar fjarar hópast þeir á frjósamar leirurnar, hina fornu ósa ánna Rio Geba og Rio Grande, og tína upp í sig góðgætið sem hlýtt Atlantshafið skilur eftir. Þeir synda svo margir milli flæktra fenjaviðanna sem aftur fóstra heilu vistkerfin. 

Eyjarnar eru 88 talsins og fyrir nokkrum árum fengu þær sérstaka vernd UNESCO. Á sumum þeirra býr fólk, meðvitað um sérstöðu heimahaganna, í sátt og samlyndi við dýr, jafnt stór sem smá.


Auglýsing

Og sumar dýrategundirnar á Bijagós-eyjum eru fágætar og njóta verndar. Í þeirra hópi er sæskjaldbakan Chelonia mydas sem þangað sækir til að verpa eggjum sínum. Tvær sjaldgæfar krókódílategundir hafast þar einnig við og ekki má gleyma Nílhestinum, stórvaxinni og klunnalegri tegund flóðhests. 

Á þessum ævintýralega stað er því ekki víst að grábrúnn, háfættur vaðfugl fangi athygli margra. Fugl sem er algengur í íslenskri náttúru á sumrin en hefur sig til flugs á suðlægari slóðir síðsumars og lætur ekki sjá sig aftur fyrr en að vori. En þarna er hann nú samt í góðu yfirlæti, innan um litskrúðuga afríska ættingja sína, spóinn sem með velli sínu einkennir íslenska sumarið.


Einn þessara spóa er hún Ékéké. Við vitum að hún er þarna á leirunum við vesturströnd Afríku því hún ber hátæknilegan sendi svo hægt er að fylgjast með ferðum hennar.

„Jú, mér sýnist hún vera í fullu fjöri,“ segir Tómas Grétar Gunnarsson fuglafræðingur í samtali við Kjarnann, spurður hvort að Ékéké sé ekki örugglega enn á meðal okkar. Hann fylgist reglulega með Ékéké og öðrum spóum sem merktir voru fyrir nokkrum árum í rannsóknarskyni. Það var Tómas sem fræddi lesendur Kjarnans um ferðir og hegðun Ékéké í byrjun ágúst þegar óralangt flug hennar fram og til baka yfir Atlantshafið hafði vakið athygli fuglaáhugamanna hér heima og erlendis. Hún flaug til Íslands frá Gíneu-Bissau síðasta vor með stuttri millilendingu í Skotlandi. Flugið tók fjóra daga og fjórar nætur. Hún flakkaði svo landshorna á milli í sumar, fann líklega ekki maka og hélt því snemma til vetrarstöðvanna undir Afríkusólinni.


Ékéké er að sóla sig við strendur Afríku.
Global flyway network

Ékéké hefur síðustu vikur haldið sig á Babaque-eyju, einni af stærri eyjum Bijagós-eyjaklasans. Þar flýgur hún stranda á milli, nokkra kílómetra á degi hverjum. Escadinhas, karlfugl sem einnig er merktur, er sjaldan langt undan. Spóinn sá flaug ekki til Íslands í vor líkt og flestir þeirra gera heldur dvaldi á eyjunum sólríku í sumar. Hvað veldur er erfitt að segja til um og þó að gaman sé að gæla við þá hugmynd að þau Ékéké séu nú par er það langsótt. Spóarnir para sig á varpstöðvunum en pörin eru svo aðskilin á veturna, segir Tómas. 

En sjáum til. Kannski verða þau samferða til Íslands í vor og hver veit nema að þau felli hugi saman. 

Ékéké verður líklega róleg fram í apríl, bætir Tómas við og bendir á að „meðalspóinn“ leggi ekki í flugferðina löngu frá Afríku fyrr en upp úr 20. apríl. Þeir hafa margir viðkomu á Írlandi eða í Bretlandi og eru flestir lentir á íslenskri grund fyrstu vikuna í maí.

Spóar eru sum sé ekkert að flýta sér til Íslands með hækkandi sól. Þeir vilja heldur bíða með komu sína þar til nokkuð tryggt er að aðstæður hér eru orðnar ásættanlegar til sumardvalar – þegar „úti er vetrarþraut,“ segir Tómas. 


Spóar í íslenskri náttúru.
Tómas Grétar Gunnarsson

Aðrir fuglar, sem fljúga styttra á milli varp- og vetrarstöðva, stilla komutíma sinn betur í takt við aðstæður hér á landi hverju sinni. Þeir mjaka sér smám saman nær og meta stöðuna. Tómas tekur sem dæmi jaðrakana sem dvelja yfir veturinn í Portúgal en fara að flytja sig smám saman norður á bóginn strax í janúar og febrúar. 

En hvað mun verða til þess að Ékéké og félagar breiði út vængina og stefna norður í vor? 

Tómas bendir á að flestir vaðfuglar ferðist í hópum en að lítið sé vitað um hvað nákvæmlega gerist í hópnum í aðdraganda „ákvörðunar“ um ferðalagið. „En líklega er þetta samspil einstaklinga,“ segir Tómas. Stærðfræðilíkön sýni að sameiginlegar ákvarðanir séu betri en ákvarðanir einstaklinga. Þetta eigi líka við um mannfólk. „Ætli það sé ekki einn sem er óþolinmóðastur og aðrir skoða svo hvort þeir eru tilbúnir að fljúga líka.“ Einn er áræðnari og aðrir fylgja og vona að hann viti hvað hann er að gera!


Auglýsing

Veðurskilyrði í háloftunum þurfa líka að vera hagstæð. Dæmi eru um að hópar fari af stað en að einhverjir einstaklingar snúi svo við. Það getur nefnilega tekið verulega á að fljúga í mótvindi yfir heilt Atlantshaf.

Ékéké er ungur kvenfugl og líklega paraðist hún ekki við komuna til Íslands síðasta vor sem skýrir óvenjulegt flakk hennar um landið. „Það verður mjög spennandi að sjá hvað hún gerir í vor ef hún nær hingað aftur,“ segir Tómas.

Hér getur þú fylgst með Ékéké og hinum merktu spóunum. 


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiInnlent