EPA

Húsin sem jörðin gleypti

Jöklar, höf, ár og önnur náttúrunnar öfl hafa í þúsundir ára mótað hið stórkostlega landslag Noregs. Fegurð stafar af djúpum fjörðum í fjallasölum og skógi vöxnum holtum og hæðum en þar leynist einnig hætta. Bergstál og fornir sjávarbotnar þurfa stundum ekki mikið til að láta koma sér úr jafnvægi.

Til­hlökkun í loft­inu. Ákveð­inn léttir líka. Kannski í bland við kvíða. Óvissu. Þetta ár hafði ekki verið neitt venju­legt. Öllu snúið á hvolf út af veiru­skömminni. En nú var þessu hörm­ung­ar­ári senn að ljúka og jákvæð teikn á lofti um að það sama gilti um far­ald­ur­inn.

Það er komin nótt. Sú næst síð­asta á árinu 2020. Árinu sem eng­inn á eftir að sakna. Sólin þegar farin að hækka á lofti og betri tíð næstum áþreif­an­leg.

Það hefur rignt mik­ið. Suma daga meira en aðra. En nú er snjó­föl yfir öllu.

Þau slökkva ljós­in. Ganga til hvílu.

Þetta er í dæmi­gerðum norskum smá­bæ. Í rúm­lega fjöru­tíu kíló­metra fjar­lægð frá höf­uð­borg­inni. Þó að á þessum slóðum hafi verið byggð frá fornu fari var það ekki fyrr en alþjóða­flug­völl­ur­inn var fluttur út úr borg­inni að ný hverfi tóku að rísa. Íbú­unum að fjölga. Atvinnu­lífið að blómstra. Loks árið 2012 var bær­inn skil­greindur sem þétt­býli, þá bjuggu þar 1.912 manns.

Klukkan slær fjögur að nóttu. Flestir í fasta­svefni. En á svip­stundu breyt­ist allt og einni mín­útu síðar fer sím­inn hjá neyð­ar­lín­unni að hringja. Á and­ar­taki verða allar línur rauð­gló­andi.

Það hefur eitt­hvað hræði­legt gerst í Ask.

Auglýsing

Örvinglað fólk sagði hús horf­in. Að önnur væru á hreyf­ingu. Einn sem hringir seg­ist liggja undir þak­plöt­um. Fast­ur.



Aðrir sögðu að það væri risa­stór hola í jörð­inni. Að tré væru horf­in. Eða að þau hefðu skyndi­lega birst fyrir utan glugg­ann. Heilu skóg­ar­lund­irn­ir.



Starfs­menn neyð­ar­lín­unnar áttu fullt í fangi með að taka við öllum til­kynn­ing­unum sem hrönn­uð­ust inn. Þeir ein­beittu sér að því að upp­lýsa við­bragðs­að­ila um það sem hafði gerst. Að það væri engu lík­ara en að jörðin hefði gleypt íbúða­hverfi í Ask.



Það var enn nið­dimm nótt og það var ekki fyrr en að það birti að morgni að umfang ham­far­anna varð að fullu ljóst: Að í norska smá­bænum Ask blasti við gríð­ar­stórt sár í lands­lag­inu. Að þar sem eitt sinn stóðu fjór­býl­is­hús í röðum með afgirtum snyrti­legum görðum hefði opn­ast ógur­legur leðjupytt­ur. Að hús hefðu flust um allt að 400 metra. Möl­brotn­að. Horf­ið.



Og fjölda manns var sakn­að.



Jarðfallið er um 700 metrar á lengd og 400 metrar á breidd. Hús með samtals 31 íbúð varð skriðunni að bráð.
EPA

Undir hús­unum í bænum Ask og víðar í sveit­ar­fé­lag­inu Gjer­drum leyn­ist saga svæð­is­ins í jarð­veg­in­um. Þetta er forn sjáv­ar­botn. Leir­inn sem þar er að finna er getur verið margra metra þykkur og bland­aður salti. Hann er óstöð­ugur og rign­ingar eða fram­kvæmdir geta orðið til þess að hann breyt­ist í kvikleir og fari af stað. Skriðan í Ask féll ekki úr fjalls­hlíð, eins og aur­skriður gera gjarn­an, heldur verður með þeim hætti að jarð­veg­ur­inn hrein­lega fellur sam­an, gefur sig undan álagi og skríður fram.  



Slíkar leir­skriður eru ekki óal­gengar í Nor­egi og hafa reyndar tekið tugi manns­lífa, yfir 150 tals­ins, frá því á miðri nítj­ándu öld. Þær hafa orðið í Ask og nágrenni, síð­ast í byrjun des­em­ber. Önnur hafði fallið árið 2007 og 1924 varð stór leir­skriða norðan við Ask en þó ekk­ert í lík­ingu við þá sem féll aðfara­nótt 30. des­em­ber síð­ast­lið­ins.

Það var því ekki þannig að hætta á skriðum væri ókunn í nýja íbúða­hverf­inu í Ask, hverfi sem reist var fyrir um fimmtán árum. Yfir­völd höfðu kannað svæðið á sínum tíma, vakið athygli á hætt­unni og gert kröfu um for­varnir áður en bygg­ing hvítu fjór­býl­is­hús­anna sem nú eru horfin myndi hefj­ast.

Enn er þriggja saknað eftir að skriðan féll.
EPA

Norska Jarð­fræði­stofn­unin komst að þeirri nið­ur­stöðu árið 2005 að svæði í Ask væri eitt það hættu­leg­asta í land­inu með til­liti til leir­skriðu­falla af 26 svæðum sem stofn­unin hafði rann­sak­að. Engu að síður var þar haf­ist handa við að byggja 2-300 íbúðir árið 2008. Í fréttum norskra og danskra fjöl­miðla hefur komið fram að norska vatns- og orku­stofn­unin (Vand- og Energi­di­rekt­orat)  átti að end­ur­skoða hættu­matið sem gert var fyrir einum og hálfum ára­tug. Sú vinna var ekki hafin er skriðan féll en var á stefnu­skránni.



Jarð­fræði­stofn­unin (NGI) hefur birt allar skýrslur sínar sem gerðar hafa verið um svæð­ið. Aften­posten skrifar að í þeim komi þrjú lyk­il­at­riði fram: Að um hættu­svæði var að ræða, að ætl­ast hafi verið til að gripið yrði til örygg­is­ráð­staf­ana, fyr­ir­byggj­andi aðgerða, er ákveðið var að byggja þar en að ein­hverjar þeirra hafi ekki verið full­nægj­andi. Með sumum aðgerðum var mælt utan íbúða­svæð­is­ins, öðrum innan þess. Að loknum fram­kvæmdum átti svæðið að verða örugg­ara. Í hættu­mati frá árinu 2003 sagði að ef skriða myndi falla gæti það haft alvar­legar afleið­ing­ar. Að 5-50 manns gætu týnt lífi. Og að gríð­ar­legt eigna­tjón gæti auk þess orð­ið.



En einnig kemur fram að hluti þess svæðis sem nú skreið fram hafði árið 2015 verið sagt „óstöðugt“ (lav stabilitet). Sá sem reisti hverf­ið, og býr sjálfur í einu af húsum þess sem þurfti að rýma eftir skriðu­föll­in, seg­ist hafa fylgt öllum regl­um. Vegur var t.d. lagður um svæðið sem átti að gegna hlut­verki nokk­urs konar varn­ar­garðs. Þegar á reyndi dugði það ekki til.



For­stjóri Jarð­fræði­stofn­un­ar­innar vill ekki full­yrða að rekja megi skriðu­föllin til bygg­inga­fram­kvæmd­anna eða að ekki hafi verið nóg gert til að draga úr hættu á skrið­um. Rann­saka þurfi málið ofan í kjöl­inn.



Þegar dagur reis í Ask að morgni 30. des­em­ber ríkti ringul­reið. Ekki var með fullu vitað hversu margra var sakn­að. Fyrst var talið að fjöld­inn væri 26. En það var ekki vitað hverjir höfðu verið heima, hvort að ein­hverjir hefðu bjarg­ast út úr hús­unum sem hurfu í hina 700 metra löngu og 300 metra breiðu gjá sem mynd­að­ist við skriðu­föll­in.



Auglýsing

Smám saman fækk­aði í hópi þeirra sem var sakn­að. 21. 18. 15. Og að lokum tíu. Þeirra á meðal ólétt kona og tveggja ára barn.



En sú skelfi­lega stað­reynd blasti við að leit og björgun yrði erf­ið. Svæðið umhverfis hol­una stóru var mjög ótryggt. Enn féllu litlar skrið­ur. Hús sáust hverfa ofan í. Ekki var hægt að senda björg­un­ar­fólk í leðju­hafið á botni henn­ar. Það varð að leita úr lofti. Hífa fólk upp í þyrlu.



Þeir sem hófu björg­un­ar­starfið um nótt­ina unnu við lífs­hættu­legar aðstæð­ur. Nágrann­ar, lög­reglu­menn og slökkvi­liðs­menn fóru um og björg­uðu tugum manna úr húsum sem voru á brún skrið­unn­ar. Slökkvi­liðs­mað­ur­inn Kenn­eth Wangen var einn þeirra. „Við brutum niður hurð­ir, öskr­uðum og æpt­um. Allir sem voru á staðnum í fyrstu reyndu allt hvað þeir gát­u,“ segir hann í sam­tali við VG. „Og ásamt þyrl­unni þá tókst að bjarga mörgum manns­líf­um.“



Lög­reglu­yf­ir­völd segja að enn sé leitað lífs. Sjö hafa fund­ist látn­ir. Þeirra á meðal Alma, tveggja ára og for­eldrar henn­ar, Bjørn-I­var og Charlot Grymyr Jan­sen. Charlot var langt gengin með annað barn þeirra hjóna.



Kerti loga í nágrenni skriðusvæðisins í Ask.
EPA

Þriggja er enn saknað. Tveggja barna móð­irin Rasa Lasin­ski­ene var úti að ganga með hund­inn sinn er ham­far­irnar urðu. Hún var að að tala við eig­in­mann sinn í sím­ann þegar sím­talið slitn­aði skyndi­lega.



Einnig er leitað mæðgn­anna Ann-Mari og Vict­oriu Emilie. Hús þeirra stóð við göt­una Nystulia og var númer 36. Það fór ofan í leðju­haf­ið.



Vict­oria er þrettán ára.  



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar