EPA

Húsin sem jörðin gleypti

Jöklar, höf, ár og önnur náttúrunnar öfl hafa í þúsundir ára mótað hið stórkostlega landslag Noregs. Fegurð stafar af djúpum fjörðum í fjallasölum og skógi vöxnum holtum og hæðum en þar leynist einnig hætta. Bergstál og fornir sjávarbotnar þurfa stundum ekki mikið til að láta koma sér úr jafnvægi.

Tilhlökkun í loftinu. Ákveðinn léttir líka. Kannski í bland við kvíða. Óvissu. Þetta ár hafði ekki verið neitt venjulegt. Öllu snúið á hvolf út af veiruskömminni. En nú var þessu hörmungarári senn að ljúka og jákvæð teikn á lofti um að það sama gilti um faraldurinn.

Það er komin nótt. Sú næst síðasta á árinu 2020. Árinu sem enginn á eftir að sakna. Sólin þegar farin að hækka á lofti og betri tíð næstum áþreifanleg.

Það hefur rignt mikið. Suma daga meira en aðra. En nú er snjóföl yfir öllu.

Þau slökkva ljósin. Ganga til hvílu.

Þetta er í dæmigerðum norskum smábæ. Í rúmlega fjörutíu kílómetra fjarlægð frá höfuðborginni. Þó að á þessum slóðum hafi verið byggð frá fornu fari var það ekki fyrr en alþjóðaflugvöllurinn var fluttur út úr borginni að ný hverfi tóku að rísa. Íbúunum að fjölga. Atvinnulífið að blómstra. Loks árið 2012 var bærinn skilgreindur sem þéttbýli, þá bjuggu þar 1.912 manns.

Klukkan slær fjögur að nóttu. Flestir í fastasvefni. En á svipstundu breytist allt og einni mínútu síðar fer síminn hjá neyðarlínunni að hringja. Á andartaki verða allar línur rauðglóandi.

Það hefur eitthvað hræðilegt gerst í Ask.

Auglýsing

Örvinglað fólk sagði hús horfin. Að önnur væru á hreyfingu. Einn sem hringir segist liggja undir þakplötum. Fastur.


Aðrir sögðu að það væri risastór hola í jörðinni. Að tré væru horfin. Eða að þau hefðu skyndilega birst fyrir utan gluggann. Heilu skógarlundirnir.


Starfsmenn neyðarlínunnar áttu fullt í fangi með að taka við öllum tilkynningunum sem hrönnuðust inn. Þeir einbeittu sér að því að upplýsa viðbragðsaðila um það sem hafði gerst. Að það væri engu líkara en að jörðin hefði gleypt íbúðahverfi í Ask.


Það var enn niðdimm nótt og það var ekki fyrr en að það birti að morgni að umfang hamfaranna varð að fullu ljóst: Að í norska smábænum Ask blasti við gríðarstórt sár í landslaginu. Að þar sem eitt sinn stóðu fjórbýlishús í röðum með afgirtum snyrtilegum görðum hefði opnast ógurlegur leðjupyttur. Að hús hefðu flust um allt að 400 metra. Mölbrotnað. Horfið.


Og fjölda manns var saknað.


Jarðfallið er um 700 metrar á lengd og 400 metrar á breidd. Hús með samtals 31 íbúð varð skriðunni að bráð.
EPA

Undir húsunum í bænum Ask og víðar í sveitarfélaginu Gjerdrum leynist saga svæðisins í jarðveginum. Þetta er forn sjávarbotn. Leirinn sem þar er að finna er getur verið margra metra þykkur og blandaður salti. Hann er óstöðugur og rigningar eða framkvæmdir geta orðið til þess að hann breytist í kvikleir og fari af stað. Skriðan í Ask féll ekki úr fjallshlíð, eins og aurskriður gera gjarnan, heldur verður með þeim hætti að jarðvegurinn hreinlega fellur saman, gefur sig undan álagi og skríður fram.  


Slíkar leirskriður eru ekki óalgengar í Noregi og hafa reyndar tekið tugi mannslífa, yfir 150 talsins, frá því á miðri nítjándu öld. Þær hafa orðið í Ask og nágrenni, síðast í byrjun desember. Önnur hafði fallið árið 2007 og 1924 varð stór leirskriða norðan við Ask en þó ekkert í líkingu við þá sem féll aðfaranótt 30. desember síðastliðins.

Það var því ekki þannig að hætta á skriðum væri ókunn í nýja íbúðahverfinu í Ask, hverfi sem reist var fyrir um fimmtán árum. Yfirvöld höfðu kannað svæðið á sínum tíma, vakið athygli á hættunni og gert kröfu um forvarnir áður en bygging hvítu fjórbýlishúsanna sem nú eru horfin myndi hefjast.

Enn er þriggja saknað eftir að skriðan féll.
EPA

Norska Jarðfræðistofnunin komst að þeirri niðurstöðu árið 2005 að svæði í Ask væri eitt það hættulegasta í landinu með tilliti til leirskriðufalla af 26 svæðum sem stofnunin hafði rannsakað. Engu að síður var þar hafist handa við að byggja 2-300 íbúðir árið 2008. Í fréttum norskra og danskra fjölmiðla hefur komið fram að norska vatns- og orkustofnunin (Vand- og Energidirektorat)  átti að endurskoða hættumatið sem gert var fyrir einum og hálfum áratug. Sú vinna var ekki hafin er skriðan féll en var á stefnuskránni.


Jarðfræðistofnunin (NGI) hefur birt allar skýrslur sínar sem gerðar hafa verið um svæðið. Aftenposten skrifar að í þeim komi þrjú lykilatriði fram: Að um hættusvæði var að ræða, að ætlast hafi verið til að gripið yrði til öryggisráðstafana, fyrirbyggjandi aðgerða, er ákveðið var að byggja þar en að einhverjar þeirra hafi ekki verið fullnægjandi. Með sumum aðgerðum var mælt utan íbúðasvæðisins, öðrum innan þess. Að loknum framkvæmdum átti svæðið að verða öruggara. Í hættumati frá árinu 2003 sagði að ef skriða myndi falla gæti það haft alvarlegar afleiðingar. Að 5-50 manns gætu týnt lífi. Og að gríðarlegt eignatjón gæti auk þess orðið.


En einnig kemur fram að hluti þess svæðis sem nú skreið fram hafði árið 2015 verið sagt „óstöðugt“ (lav stabilitet). Sá sem reisti hverfið, og býr sjálfur í einu af húsum þess sem þurfti að rýma eftir skriðuföllin, segist hafa fylgt öllum reglum. Vegur var t.d. lagður um svæðið sem átti að gegna hlutverki nokkurs konar varnargarðs. Þegar á reyndi dugði það ekki til.


Forstjóri Jarðfræðistofnunarinnar vill ekki fullyrða að rekja megi skriðuföllin til byggingaframkvæmdanna eða að ekki hafi verið nóg gert til að draga úr hættu á skriðum. Rannsaka þurfi málið ofan í kjölinn.


Þegar dagur reis í Ask að morgni 30. desember ríkti ringulreið. Ekki var með fullu vitað hversu margra var saknað. Fyrst var talið að fjöldinn væri 26. En það var ekki vitað hverjir höfðu verið heima, hvort að einhverjir hefðu bjargast út úr húsunum sem hurfu í hina 700 metra löngu og 300 metra breiðu gjá sem myndaðist við skriðuföllin.


Auglýsing

Smám saman fækkaði í hópi þeirra sem var saknað. 21. 18. 15. Og að lokum tíu. Þeirra á meðal ólétt kona og tveggja ára barn.


En sú skelfilega staðreynd blasti við að leit og björgun yrði erfið. Svæðið umhverfis holuna stóru var mjög ótryggt. Enn féllu litlar skriður. Hús sáust hverfa ofan í. Ekki var hægt að senda björgunarfólk í leðjuhafið á botni hennar. Það varð að leita úr lofti. Hífa fólk upp í þyrlu.


Þeir sem hófu björgunarstarfið um nóttina unnu við lífshættulegar aðstæður. Nágrannar, lögreglumenn og slökkviliðsmenn fóru um og björguðu tugum manna úr húsum sem voru á brún skriðunnar. Slökkviliðsmaðurinn Kenneth Wangen var einn þeirra. „Við brutum niður hurðir, öskruðum og æptum. Allir sem voru á staðnum í fyrstu reyndu allt hvað þeir gátu,“ segir hann í samtali við VG. „Og ásamt þyrlunni þá tókst að bjarga mörgum mannslífum.“


Lögregluyfirvöld segja að enn sé leitað lífs. Sjö hafa fundist látnir. Þeirra á meðal Alma, tveggja ára og foreldrar hennar, Bjørn-Ivar og Charlot Grymyr Jansen. Charlot var langt gengin með annað barn þeirra hjóna.


Kerti loga í nágrenni skriðusvæðisins í Ask.
EPA

Þriggja er enn saknað. Tveggja barna móðirin Rasa Lasinskiene var úti að ganga með hundinn sinn er hamfarirnar urðu. Hún var að að tala við eiginmann sinn í símann þegar símtalið slitnaði skyndilega.


Einnig er leitað mæðgnanna Ann-Mari og Victoriu Emilie. Hús þeirra stóð við götuna Nystulia og var númer 36. Það fór ofan í leðjuhafið.


Victoria er þrettán ára.  


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar