EPA

Þegar súrefnið þrýtur

Það er búið að taka fleiri fjöldagrafir. Yngra fólk er að sýkjast alvarlegar núna en í fyrstu bylgjunni. Fyrstu bylgjunni sem var svo skæð að vísindamenn sögðu að hjarðónæmi hefði myndast í borginni. Það var rangt.

Í haust voru birtar niðurstöður mótefnarannsóknar í borginni Manaus á Amazon-svæðinu í Brasilíu sem vöktu mikla athygli. Samkvæmt þeim höfðu um 76 prósent íbúanna líklega sýkst af kórónuveirunni og hjarðónæmi því náð. Niðurstaðan var síðar birt í vísindatímaritinu Science. Fólkið í Manaus og nágrenni varpaði öndinni léttar. Faraldurinn hafði verið sérlega skæður fyrstu mánuði ársins og í apríl þurfti að grafa fjöldagrafir – þær fyrstu vegna faraldursins í Brasilíu. 

Fréttaskeyti báru með sér hversu hrikalegt ástandið var: Lík lágu á götum úti, því yfirvöld höfðu ekki við að sækja lík þeirra sem létust á heimilum sínum. Þeim var svo safnað saman, sett í kistur úr pappa, og raðað hlið við hlið í fjöldagröfum. Þetta var svakalegt. En þetta gekk nokkuð hratt yfir. Í júní var dánartíðnin á svæðinu komin í það horf sem hún var fyrir tíð kórónuveirunnar.


Auglýsing

Hjarðónæmi „lék stóran þátt“ í að faraldurinn gekk niður, sagði í rannsókninni sem bar titilinn: Hjarðónæmi gegn COVID-19 á Amazon-svæði Brasilíu. Ester Sabino, vísindamaður við Háskólann í São Paulo, segir að titillinn hafi verið mistök. „Við áttum ekki von á annarri bylgju,“ segir hún.


Önnur bylgjan, sem hófst í desember og stendur enn, er enn skæðari en sú fyrsta. Vanbúin sjúkrahúsin í Amazon eru yfirfull og þar er súrefni sumstaðar á þrotum. Fólk stendur í biðröðum á bensínstöðvum til að kaupa súrefni handa helsjúkum ástvinum sínum. Manaus er afskekkt og þar sem önnur bylgjan kom aftan að fólki barst neyðaróp til stjórnvalda landsins of seint. Sjúklingar voru þegar kafnaðir vegna skorts á súrefni.


Heilbrigisstarfsmaður tekur COVID-próf af manneskju sem lést í heimahúsi í Manaus.
EPA

Fregnir af hjarðónæmi voru því annað hvort verulega ýktar eða að slíkt ónæmi margra hafði einfaldlega enga þýðingu. Ný og skæðari afbrigði veirunnar voru komin á kreik og vel kann að vera að það ónæmi sem fólk myndaði í fyrstu bylgjunni dugi einfaldlega ekki gegn þeim.  


Við þurfum hjálp

Þegar heilbrigðiskerfið í Manaus hrundi vegna álags á fyrstu mánuðum síðasta árs og fjöldagrafir voru grafnar sendi borgarstjórinn út neyðarkall til leiðtoga þjóða heimsins. „Við erum að gera okkur besta en ég segir ykkur satt, það dugar ekki gegn þessari óværu,“ sagði Arthur Virgílio Neto í myndbandi sem hann sendi frá sér í maí. „Við getum ekki þagað. Við þurfum alla þá hjálp sem við getum fengið.“


Rúmlega tvær milljónir manna búa í Manaus sem oft er kölluð „gáttin að regnskógunum“. Hún er höfuðborg Amazon-svæðis Brasilíu og þjónustumiðstöð margra smáþorpa við og inni í regnskóginum. „Í þetta skiptið er ástandið jafnvel verra,“ segir Virgílio nú, níu mánuðum síðar.  


Um 200 manns deyja vegna COVID-19 í borginni á hverjum degi.
EPA

Undir það taka heilbrigðisstarfsmenn sem hafa þurft að horfa upp á sjúklinga kafna í sjúkrarúmum sínum, ef þeir hafa þá komist svo langt, þar sem súrefni til að létta þeim öndun er ekki til að dreifa. Og aftur er farið að taka fjöldagrafir. Um 180-200 létust daglega í borginni á tímabili í janúar, meira en sex sinnum fleiri en í venjulegu árferði.


Einhver hjálp hefur borist og súrefni verið flogið til borgarinnar en aðstoð hefur einnig borist úr óvæntri átt: Frá nágrannaríkinu Venesúela. Þaðan komu í síðustu viku flutningabílar með súrefniskúta. Þeir höfðu skrölt í gegnum torfæra vegi regnskóganna í að minnsta kosti fjóra daga áður en til Manaus var komið. Gjöfin er hápólitísk. Forseti Venesúela, Nicolas Maduro, hefur fengið lof fyrir framtakið og það sagt niðurlægjandi fyrir erkióvin hans, Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu. Þeir eru á sitthvorum enda hins pólitíska litrófs en er báðum kennt um þá neyð og misskiptingu sem ríkir í löndum þeirra.


Auglýsing

Mannúðarsamtökin Læknar án landamæra hafa sent teymi heilbrigðisstarfsfólks til afskekktustu svæða Amazon. Þau segja að læknar þeirra hafi ekki getað sent sjúklinga úr þorpunum til borgarinnar Manaus þar sem sjúkrahúsin þar séu yfirfull. Ótímabær dauðsföll hafa orðið í þorpunum af þessum sökum.


Á afskekktum búsvæðum var fyrstu vikurnar í janúar ekkert súrefni að hafa en einhverjar birgðir hafa síðan verið fluttar þangað með þyrlum. Fyrir marga hefur súrefnið komið of seint. Læknar án landamæra sem og önnur hjálparsamtök segja að í það minnsta þrjátíu COVID-sjúklingar hafi dáið á innan við viku vegna skorts á súrefni. Margir þeirra voru innan við fimmtugt. Samtökin ætla að höfða mál gegn stjórnvöldum vegna vanrækslu.


Sprenging


Uppsveiflu faraldursins í Amazon-ríki Brasilíu hefur verið líkt við sprengingu. Og hún hefur valdið bæði óvissu og miklum áhyggjum annars staðar í heiminum. Allir vita hversu slæm fyrsta bylgjan var í Manaus og margir vissu að þar átti að hafa náðst hið umtalaða hjarðónæmi. Fólk spyr: Hvernig gat þetta þá gerst aftur?


Ein skýringin gæti falist í nýju afbrigði kórónuveirunnar. Ýmislegt styður þá kenningu.


Þegar önnur bylgjan hóf að rísa hratt í desember og lama heilbrigðiskerfið á stuttum tíma, var fólk sem kom á sjúkrahúsin veikara en í þeirri fyrstu. Það hefur ýtt undir kenningar um að nýtt afbrigði eigi þar sök og að flestir séu að smitast af því nú. Talið er að það sé meira smitandi en flest önnur en sumir óttast einnig að það sé hættulegra. Það er t.d. skoðun Noaldo Lucena, sérfræðings í smitsjúkdómum, á stofnun hitabeltissjúkdóma í Manaus. „Þetta er ekki tilfinning mín. Þetta er staðreynd,“ sagði hann nýverið í viðtali við Washington Post.


Fólk bíður í röð eftir að fá súrefni á kúta. Margir þurfa sjálfir að verða sér úti um súrefni fyrir veika ættingja sína.
EPA

Aðrir hafa bent á að vegna ótímabærra frétta um að hjarðónæmi hefði náðst hefði fólk upplifað falskt öryggi og haldið sín jól og komið saman í desember án þess að gæta að sóttvörnum.


Vísindamenn frá Bretlandi og Brasilíu lögðu saman krafta sína og rýndu í stöðuna og rituðu grein í læknatímaritið Lancet í síðustu viku. Í henni draga þeir fram fjóra þætti sem mögulega gætu útskýrt sprenginguna í faraldrinum í Manaus á síðustu vikum.


Sá möguleiki er að þeirra mati fyrir hendi að þeir sem gerðu rannsóknina í sumar, og komust að þeirri niðurstöðu að um 76 prósent íbúa borgarinnar hefðu þegar sýkst, hefðu hreinlega ofmetið sýkingarhlutfallið út frá þeim takmörkuðu gögnum sem þeir öfluðu. Þannig er vel mögulegt að hjarðónæmi hafi alls ekki verið náð.

Er mótefnið að dofna?


Annar möguleiki er að mótefni þeirra sem sýktust í fyrstu bylgjunni hafi dofnað mikið og ekki lengur veitt þeim vörn við endursýkingu. Þetta telja vísindamennirnir þó ekki að fullu geta skýrt þá hröðu og miklu uppsveiflu sem varð í faraldrinum.


Tveir aðrir möguleikar sem vísindamennirnir tiltaka tengjast, þ.e. að ónæmi af fyrri afbrigðum gagnist ekki gegn nýju afbrigði veirunnar og að fólk sé því að sýkjast aftur. Í fjórða lagi segja þeir mögulegt að önnur bylgjan skýrist af því hversu mjög svo smitandi hið nýja afbrigði sé, mun meira en það eða þau sem ollu fyrstu bylgjunni í Amazon.  


Hið nýja brasilíska afbrigði hefur ekki verið rannsakað eins mikið og það breska og suðurafríska en öll þrjú afbrigðin eru þó talin hafa svipaða eiginleika, þ.e. að vera meira smitandi en önnur. Ný rannsókn sýnir að yfir 85 prósent fólks sem sýkst hefur í Manaus í janúar hafði smitast af hinu nýja afbrigði.


Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, var lengi á þeirri skoðun að engra aðgerða væri þörf gegn COVID-19.
EPA

Bolsonaro, sem sjálfur hefur fengið COVID-19, hefur brugðist þjóð sinni ítrekað í faraldrinum. Hann var seinn til aðgerða til að hefta útbreiðslu en hafði – og hefur víst enn – ofur trú á gagnsemi malaríulyfsins hydroxychloroquine til að vinna gegn sýkingunni.


Brasilíski flugherinn segist hafa farið í 45 flugferðir til Amazon-svæðisins í janúar með súrefni, aðallega til Manaus. Sigla átti svo með súrefnið til enn afskekktari bæja og þorpa inni í skóginum. Sú aðstoð virðist annað hvort hafa komið of seint eða ekki dugað til ef marka má frásagnir heilbrigðisstarfsfólks og aðstandenda sjúkra og látinna.

Met í dauðsföllum


Hvergi í heiminum, að Bandaríkjunum undanskildum, hefur faraldurinn fellt jafn marga og í Brasilíu eða yfir 215 þúsund manns.


Læknarnir í Manaus eru búnir að fá nóg af afsökunum hans. „Þetta er alltaf einhverjum öðrum að kenna,“ segir Marcus Vinícius Lacerda, sérfræðingur á stofnun hitabeltissjúkdóma í borginni. „Fyrst var þetta borgarstjóranum að kenna. Eða þetta var ríkisstjóranum að kenna. Það var þeim að kenna því þeir notuðu ekki chloroquine. Forsetinn hefur alltaf góðar skýringar á því hvers vegna fólk er að deyja.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar