Minningarhátíð í uppnámi

Mikil hátíðahöld sem fyrirhuguð voru í Nuuk, höfuðstað Grænlands í sumar eru í uppnámi. Minnast átti þess að 300 ár eru síðan Hans Egede kom til landsins og kristnaði þjóðina. Sumir Grænlendingar telja hann þjóðhetju, aðrir segja hann nýlenduherra.

Styttan af Hans Egede í Nuuk
Styttan af Hans Egede í Nuuk
Auglýsing

Í byrjun júlí árið 1721 steig á land á Grænlandi maður með skriflegt leyfi Friðriks IV Danakonungs upp á vasann. Þessi maður hét Hans Egede. Hann fæddist í Noregi árið 1686, faðirinn danskur, móðirin norsk. Hans Egede stundaði nám í guðfræði við Hafnarháskóla og lauk þaðan embættisprófi og leit ætíð á sig sem Dana. Eftir að náminu lauk sneri Hans Egede heim til Noregs og gerðist prestur í Lófóten. Þar heyrði hann margar frásagnir af norrænu fólki á Grænlandi. Þessar frásagnir vöku áhuga hans og í maí árið 1721 var hann kominn með leyfi Friðriks IV til að leita uppi norrænt fólk á Grænlandi og freista þess að kristna það og jafnframt að endurkristna þá íbúa landsins sem hugsanlega væru gengnir af trúnni. Ennfremur hafði konungur gefið Hans Egede leyfi til að kanna möguleika á, og eftir atvikum, freista þess að gera Grænland að nýlendu Dana og Norðmanna, sem þá voru í ríkjasambandi. Grænland hafði löngu áður en þetta gerðist verið undir stjórn Norðmanna en eftir pláguna miklu á 14. öld , Svartadauða, misstu Norðmenn ítök sín á Grænlandi. Eftir að ríkjasambandi Danmerkur og Noregs lauk árið 1814 varð Grænland nýlenda Dana.

Auglýsing
Hans Egede beið ekki boðanna eftir að leyfi konungs var fengið og í júní 1721 hélt hann af stað frá Bergen, ásamt eiginkonu sinni og fjórum börnum. Með í för voru einnig rúmlega 40 menn og konur, sem Hans Egede hafði fengið til fararinnar. Félagið Det Bergen Grønlandske Compagnie var stofnað, skömmu fyrir brottförina til Grænlands. Því var ætlað að annast „praktísk mál“, halda uppi lögum og reglu, skipuleggja veiðar til tekjuöflunar o.s. frv. Ennfremur kanna möguleika á vinnslu málma, sem talið var að víða væri að finna í landinu. Grænlandsfararnir voru á þremur skipum með margs konar búnað. Hans Egede hafði gefið sínu skipi nafnið Vonin, sem var lýsandi fyrir leiðangurinn. 

Ekkert norrænt fólk 

Hans Egede tók land á vesturströnd Grænlands 3. júlí 1721. Ekkert fólk, norrænt í útliti, sá hann þegar á land var komið. Fólkið sem mætti honum reyndist vera Inúítar. Af fólki með norrænt útlit sást hvorki tangur né tetur, þrátt fyrir mikla eftirgrennslan á allstóru svæði á vesturströndinni á næstu vikum og mánuðum. Hans Egede sat þó ekki aðgerðalaus, hann tók til við að læra mál innfæddra og jafnframt að boða innfæddum kristna trú. Það var þó langt í frá auðvelt, mörg vestræn hugtök fyrirfundust ekki í grænlensku. Brauð þekktu Grænlendingar ekki og setningin „gef oss í dag vort daglegt brauð“ var þeim óskiljanleg. Hans Egede ákvað á endanum, eftir mikil heilabrot, að skipta brauðinu út fyrir sel og þá voru Grænlendingar með á nótunum „gef oss í dag vorn daglega sel“.

Skyrbjúgur og hlaupabóla

Margskonar erfiðleikar mættu Hans Egede og „landnemunum“. Veðráttan á Grænlandi er óblíð og vetrarkuldinn reyndist mörgum erfið. Þegar líða tók á fyrsta veturinn þjáðust margir úr hópnum af skyrbjúg og strax vorið 1722 héldu margir þeirra sem komið höfðu með Hans Egede til baka. Hann var þó ekki á því að gefast upp og hélt trúboðinu áfram. Nú fóru líka smám saman að berast tekjur af varningi sem fluttur var til Danmerkur og Noregs einkum kjöt, lýsi og skinn. Staðurinn þar sem Hans Egede og hans fólk settist að hét Kangeq og samanstóð af örfáum húsum. Nokkrum árum síðar var ákveðið, að tillögu danska kóngsins að flytja byggðina og byggja nýtt þorp, skammt frá Kangeq. Hans Egede gaf staðnum nafnið Godthåb, Íslendingar kölluð staðinn Góðvon. Síðar fékk staðurinn nafnið Nuuk. Nuuk er höfuðstaður Grænlands og miðstöð stjórnsýslu í landinu, íbúar í dag eru um 18 þúsund.  

Árið 1733 fengu þýskir trúboðar, herrnhutar, leyfi til að setja upp trúboðsstöð skammt frá Nuuk. Talið er að með þessum trúboðum, eða dönsku kaupskipi, hafi borist hlaupabóla sem varð mörgum Grænlendingum að aldurtila. Plágan sneyddi ekki hjá nýlendunni og meðal þeirra sem létust var Gertrud, eiginkona Hans Egede. Sjálfur sneri hann til baka, til Kaupmannahafnar árið 1736, ásamt þremur börnum sínum en það fjórða, Poul Egede, sem hafði þá lokið guðfræðiprófi frá Hafnarháskóla, varð eftir á Grænlandi. Poul Egede átti stóran hlut í að skapa grænlenskt ritmál og er einkum minnst sem málvísindamanns. Hann starfaði ötullega að trúboði og hélt þannig áfram brautryðjendastarfi föður síns. 

Biskup 

Hans Egede lagði ekki árar í bát eftir að hann kom til Kaupmannahafnar. Hann stofnaði fljótlega skóla með það fyrir augum að mennta trúboða til starfa á Grænlandi. Árið 1741 var hann gerður að biskupi yfir Grænlandi, með aðsetur í Kaupmannahöfn. Hans Egede dreymdi um að snúa aftur til Grænlands en sú varð ekki raunin. 

Auglýsing
Skömmu eftir heimkomuna til Kaupmannahafnar gekk hann í hjónaband með Mette Trane „miðaldra fyrirmyndarkonu og húsmóður“ eins og eiginmaðurinn lýsti henni. Þau fluttu frá Kaupmannahöfn til Stubbekjøbing á Falstri árið 1747 þar sem þau bjuggu til æviloka. Hans Egede lést 1758 og Mette Trane þremur árum síðar. 

Boðberi kristninnar og stofnandi Nuuk

Hans Egede er einkum minnst fyrir tvennt. Í fyrsta lagi fyrir að koma með kristnina til Grænlands. Vitað er að löngu fyrir hans daga höfðu kristnir menn af norrænum uppruna sest að á suðurhluta Grænlands, Eystri og Vestri byggð. Sú byggð lagðist hins vegar af. Hans Egede var því ekki fyrstur til að koma með kristnina til Grænlands en sá þráður sem hann tók upp með veru sinni þar hefur haldist óslitinn síðan. Þess má geta að í dag eru 96% íbúa Grænlands kristnir. 

Í öðru lagi er hans minnst sem stofnanda höfuðstaðarins Nuuk.

Stytturnar og rauða málningin

Við Marmarakirkjuna (Friðrikskirkju) í Kaupmannahöfn stendur stytta af Hans Egede, steypt í brons. Önnur nákvæmlega eins, sömuleiðis úr bronsi, stendur í grænlenska höfuðstaðnum Nuuk. Höfundur frumgerðarinnar, sem unnin var í gifs er danski myndhöggvarinn August Saaby (1823 – 1916). 

21. júní 2020, á þjóðhátíðardegi Grænlands, var rauðri málningu skvett á styttuna af Hans Egede í Nuuk. Á fótstall styttunnar var skrifað orðið „decolonize“. Níu dögum síðar var samskonar málningu skvett á styttuna við Marmarakirkjuna í Kaupmannahöfn og sama orðið ritað á fótstallinn. Í viðtali sagði einn „málaranna“ að Hans Egede væri fulltrúi danskrar nýlendustefnu á Grænlandi. Hann hefði „átt stærstan þátt í því að troða kristninni uppá Grænlendinga“.

Þegar þetta gerist var skammt um liðið frá miklum mótmælum í Bandaríkjunum eftir að lögregla í Minneapolis varð þeldökkum manni, George Floyd, að bana. Milljónir mótmæltu framferði lögreglunnar og í kjölfarið reis mikil mótmælaalda víða um lönd. Þau mótmæli beindust ekki síst gegn nýlenduherrum fyrri alda og fólust einkum í að skvetta rauðri málningu á styttur í borgum og bæjum fyrrum nýlenduríkja. 

Á Hans Egede að fara eða vera áfram í Nuuk?

Héraðsstjórnin í Sermersooqs, sem Nuuk tilheyrir, ákvað 3. júlí í fyrra að efna til kosninga um hvort styttan af Hans Egede skyldi vera áfram á sínum stað eða hvort hún skyldi fjarlægð. Kosningaþátttaka var afar dræm, af 23 þúsund manns sem höfðu rétt til að kjósa greiddu aðeins 1521 atkvæði. 921 vildi láta styttuna vera áfram á sínum stað, 600 vildu að hún yrði fjarlægð. Hans Egede stendur því áfram á stalli sínum. Sömu sögu er að segja um styttuna við Marmarakirkjuna í Kaupmannahöfn, hún stendur óhreyfð og engar raddir hafa heyrst um að fjarlægja hana.

Minningarhátíðin í uppnámi 

Árið 1971, var þess minnst með veglegum hætti að 250 ár voru liðin frá komu Hans Egede til Grænlands, meðal annars var þá vígð ný kirkja í bænum, kennd við hann.   

Fyrir nokkrum árum ákváðu bæjaryfirvöld í Nuuk að sumarið 2021 skyldi þess minnst með margvíslegum hætti að 300 ár yrðu liðin frá komu Hans Egede til Grænlands en eins og áður var getið settist hann að í Nuuk árið 1728, fimm árum eftir komuna til landsins. Á fjárhagsáætlun bæjarins var gert ráð fyrir að verja 2,7 milljónum danskra króna (57 milljónir íslenskar) til að minnast tímamótanna. Hápunktur hátíðahaldanna yrði í kringum heimsókn Margrétar Þórhildar Danadrottningar til Nuuk. Drottningin nefndi fyrirhugaða heimsókn sérstaklega í nýársávarpi sínu í sjónvarpi og útvarpi. Og nefndi nafn Hans Egede sérstaklega í því sambandi. 

En nú er óvíst hvað verður. Í viðtali við dagblaðið Politiken fyrir nokkrum dögum sagði Charlotte Ludvigsen borgarstjóri að héraðsstjórnin hefði ákveðið að draga til baka fjárveitingar vegna hátíðahaldanna. Margir íbúar í Nuuk hefðu lýst óánægju með að miklum peningum yrði varið í að minnast sérstaklega manns sem hefði verið fulltrúi nýlenduherranna í Kaupmannahöfn. Jafnframt sagði borgarstjórinn að peningunum sem ákveðið hefði verið að nota á þessu ári yrði varið til að minnast þess að árið 1728 verða liðin 300 ár frá því að bærinn Nuuk varð til.  

Hvort, og með hvaða hætti, þess verður minnst á komandi sumri að þá verða 300 ár frá komu Hans Egede til Grænlands er óljóst á þessari stundu. Charlotte Ludvigsen borgarstjóri sagði að ef einhverjir vildu skipuleggja hátíðahöld væri þeim það velkomið. Hún nefndi sérstaklega að auðvitað væri Margrét Þórhildur drottning velkomin til Nuuk hvenær sem er. Fjölmiðlafulltrúi drottningar vildi ekki svara því hvort breytingar yrðu á fyrirhugaðri Grænlandsferð.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Árvakur hf. gefur út Morgunblaðið, mbl.is og útvarpsstöðina K100.
Útgáfufélag Morgunblaðsins tapaði 75 milljónum þrátt fyrir 100 milljóna ríkisstyrk
Tap Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, minnkaði um 135 milljónir á milli ára. Framkvæmdastjóri fyrirtækisins þakkar veigamiklum hagræðingaraðgerðum fyrir það að reksturinn hafi batnað þrátt fyrir veirufaraldurinn.
Kjarninn 26. júlí 2021
Joe Biden Bandaríkjaforseti.
Bandaríkin ætla að halda ferðabanni gagnvart Evrópu til streitu enn um sinn
Íslendingar og aðrir Evrópubúar munu ekki geta sótt Bandaríkin heim alveg á næstunni án þess að hafa sérstakar undanþágur. Í ljósi útbreiðslu delta-afbrigðis kórónuveirunnar hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að halda núverandi ferðatakmörkunum í gildi.
Kjarninn 26. júlí 2021
Eyþór Eðvarðsson
Fjórar spurningar um loftslagsmál sem kjósendur þurfa að fá svar við
Kjarninn 26. júlí 2021
Þrettán starfsmenn Landspítalans í einangrun
Um helgina komu upp smit hjá starfsmönnum í nokkrum starfseiningum Landspítala. Rakning er langt komin og þrettán starfsmenn eru komnir í einangrun og nokkur fjöldi starfsmanna og sjúklinga í sóttkví.
Kjarninn 26. júlí 2021
Benedikt Jóhannesson, einn stofnenda Viðreisnar, mun starfa áfram með flokknum.
Sættir hafa náðst hjá Viðreisn og Benedikt starfar áfram innan flokksins
Benedikt Jóhannesson fyrrverandi formaður Viðreisnar greinir frá því í dag að samkomulag hafi náðst um að hann starfi áfram með flokknum.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meirihluti þjóðarinnar er bólusettur og meirihluti þeirra sem eru að greinast með veiruna er bólusettur.
116 óbólusettir greinst á einni viku
Um 64 prósent þeirra sem eru með COVID-19 á landinu eru á aldrinum 18-39 ára. Flestir sem greinst hafa síðustu daga eru bólusettir en 116 óbólusettir einstaklingar hafa greinst með veiruna á einni viku.
Kjarninn 26. júlí 2021
Þórður Snær Júlíusson
Endalok tálmyndar um endurkomu hins eðlilega lífs
Kjarninn 26. júlí 2021
Himinn og haf skilja fátækari ríki heims og þau ríkari að þegar kemur að bólusetningum.
Þórólfur: Hægt að hafa margar skoðanir á siðferði bólusetninga
Að baki þeirri ákvörðun að gefa fólki bólusettu með Janssen örvunarskammt býr að sögn sóttvarnalæknis sú stefna að reyna að bólusetja sem flesta hér á landi með áhrifaríkum hætti. 1,32 prósent íbúa fátækustu ríkja heims hafa verið bólusett.
Kjarninn 26. júlí 2021
Meira eftir höfundinnBorgþór Arngrímsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar