Böðvar Þórisson Tjaldur Mynd: Böðvar Þórisson

Ástarsaga úr fjörunni – flaug til makans og setti Íslandsmet

Kannski var það afkomuótti frekar en söknuður sem rak hana yfir hafið mun fyrr en dæmi eru um. En hver svo sem ástæðan er hafa þau fundið hvort annað eftir langan aðskilnað og tryggt sér búsetu á óðalinu í sumar.

LO-W(CC) og NR-W(CC) eru sameinuð á ný. Þetta eru ekki þjálustu nöfnin í ástarsögum samtímans, svo mikið er víst, og ekki eru þetta nöfnin sem þau kalla hvort annað enda eru þau fuglar, nánar til tekið tjaldar. En þetta eru nöfnin sem þau eru þekkt undir í heimi fuglafræðinga og annars áhugafólks sem fylgist með ferðum þeirra hér um land og erlendis – þangað sem vængirnir bera þau hverju sinni.


LO-W(CC) ætti kannski að fá nýtt nafn og fallegra eftir það afrek sem hún hefur nú unnið. Vetrinum eyddi hún á Ermarsundeyjunni Guernsey en þann 18. febrúar var hún mætt á óðalið sitt í Kjósinni eins og sannri drottningu sæmir. Hún er nefnilega ekki á því að láta það af hendi svo glatt til einhverra annarra sem kunna að girnast það, óðalið við sjóinn – matarkistuna miklu.

Auglýsing

En aftur af afrekinu. Svo snemmbúið farflug tjalds frá útlöndum hefur ekki áður verið staðfest. Fyrra metið var 28. febrúar. Auðvitað kann að vera að aðrir tjaldar hafi komið yfir hafið á svipuðum árstíma áður en af því að LO-W(CC) ber tvo lithringi á vinstri löpp og einn hvítan hring með stöfnunum CC á þeim hægri er hægt að skrá afrekið í sögubækurnar: Þetta er Íslandsmet.


Þangað til annað kemur í ljós.


Hringana fékk hún ekki hjá honum NR-W(CC) sínum heldur voru það fuglafræðingar sem færðu henni þá árið 2018 svo hægt yrði að fylgjast með ferðum hennar og læra meira um hegðun hennar og annarra tjalda. Í sama tilgangi fékk NR-W(CC) líka hringa á fæturna 2015. Það er því fylgst með þeim. Þó úr fjarska sé. Enginn staðsetningarbúnaður er í þessum merkingum.  


Óðalsparið fór út að borða er þau höfðu hist á ný eftir langan aðskilnað.
Böðvar Þórisson

Böðvar Þórisson fuglafræðingur og verkefnisstjóri hjá Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Suðurlandi var staddur í Hvalfirði í síðustu viku að telja vaðfugla í fjörunum er hann og samstarfsmaður hans, Sölvi Rúnar Vignisson, komu auga á LO-W(CC). Um þriðjungur íslenska tjaldastofnsins hefur hér vetursetu og því ekki óalgengt að sjá tjalda á þessum árstíma. En þegar betur var að gáð og lesið  af merkinu hennar kom í ljós að síðast hafði sést til hennar á Guernsey í Ermarsundi þann 4. febrúar. Er Böðvar og Sölvi sáu hana hafði hún þegar fundið makann sem hún hefur haldið tryggð við í að minnsta kosti nokkur ár.


„Við vorum að vona að þeir væru ekki mættir, þessir sem hafa verið erlendis, svo að við fengjum góða mynd af þeim sem hafa hér vetursetu,“ segir Böðvar um rannsóknarleiðangurinn. Tjaldar koma yfirleitt til Íslands í fyrsta lagi um 1. mars. Á fyrstu dögum mánaðarins fer það svo ekki framhjá neinum að þeir eru farnir að koma í stríðum straumum. Það sést vel sunnanlands þar sem stóra hópa þeirra er oft að finna, til dæmis í fjörunni á Eyrarbakka.


„En það er alla vega einn kominn nú þegar,“ segir hann.


Tjaldaparið hefur helgað sér óðal við Laxavog í Hvalfirði og það kann að skýra af hverju hún var svona snemma á ferðinni. „Við vitum það ekki fyrir víst en kannski koma fuglar sem eiga sér varpstaði nálægt fjörum fyrr en aðrir,“ segir Böðvar enda fæði nægt þó vetur ríki enn. Fuglar sem dvelja inn til landsins, til dæmis á Suðurlandi, eru ekki væntanlegir fyrr en í mars.


Tjaldar aðstoða unga sína fram eftir aldri við að afla fæðu. Leggja orma fyrir framan þá og láta þá glíma við þá.
Tómas Grétar Gunnarsson

LO-W(CC) sást oft á Ermarsundseyjunum í vetur. Böðvar telur líklegast að hún hafi fært sig smám saman nær Íslandi og að hún hafi því verið tiltölulega nýkomin til landsins þegar hann kom auga á hana 18. febrúar.


Hann er með þá kenningu að hún hafi komið svona snemma til að vera þess fullviss að hún myndi halda óðalinu sínu. Ef aðrir tjaldar kæmu á undan henni gæti hún misst það. „Það eru ekki mörg varppör þarna því það er frekar þröngt.“


Makinn hefur þó að öllum líkindum haldið til á Íslandi yfir veturinn og hefur því óþreyttur tekið á móti kellu sinni þegar hún kom heim í óðalið eftir að minnsta kosti 700 kílómetra flugferð. Þó að hún hafi valið að dvelja á Guernsey í vetur er það ekki beint „heitur“ vetrardvalarstaður tjalda. Þeir fara flestir til Bretlandseyja, aðallega Norður-Írlands, yfir vetrarmánuðina. Einhverjir fljúga þó alla leið til Spánar.

Þessi tjaldur er vel merktur. Einkenni tjalda eru annars auðvitað goggurinn og bleiku fæturnir.
Tómas Grétar Gunnarsson

Vorveðrið sem ríkt hefur á Suðvesturlandi síðustu daga og vikur er ekki endilega beinlínis ástæðan fyrir snemmkomunni – og þó. LO-W(CC) hefur að öllum líkindum nýtt sér hagstæða vinda til að hjálpa sér með flugið.


En er einhver hætta á ferðum fyrir hana – að mæta svona snemma í óðal sitt?


„Eins og við vitum að þá gæti hér gert hörkuvetur ennþá,“ segir Böðvar. „Það er alltaf viss áhætta fólgin í því að koma snemma.“


En tjaldar með sína tignarlegu rauðgulu gogga og bleikrauðu sterkbyggðu fætur eru duglegir fuglar. Þeir eiga það til að taka sjensa, eru djarfir og verpa til dæmis fyrr en flestir fiðraðir frændur þeirra og þurfa svo að hafa meira fyrir uppeldi unganna því þeir eru ósjálfbjarga þegar þeir klekjast úr eggi og stóla á að foreldrarnir mati þá. „Venjulega eru ungar vaðfugla sjálfbjarga um fæðu eftir fyrsta daginn eða svo,“ bendir Böðvar á.


Auglýsing

Allir ungar þurfa í fyrstu skjól og vernd foreldranna, bæði fyrir veðri og afræningjum. Ungar tjaldsins fylgja foreldrunum jafnvel fram í september. „Þá eru þeir enn að betla fæðu af þeim,“ segir Böðvar. Tjaldar verja unga sína með því „að láta öllum illum látum í kringum mann og reyna að leiða mann í burtu.“


Tjaldurinn verpur einu sinni yfir sumarið. Ef varpið misheppnast í fyrstu tilraun er þó mögulegt að hann reyni aftur. Jafnvel þrisvar. Þeir kunna vel sig í fjörunum og velja sér oft varpstað í námunda við þær – stundum í aðeins of mikilli nálægð og missa hreiðrin út á stórstreymi. Flestir reyna því að verpa ofan fjörubakkans.

Vel er þekkt að tjaldar komist á fertugsaldur. Og ef allt gengur vel halda pörin tryggð. Mynd: Vísindavefurinn

Óðalsparið LO-W(CC) og NR-W(CC) virðist sprækt en margt getur enn átt eftir að gerast áður en að ungar þeirra koma úr eggi. Margir ásælast eggin og ósjálfbjarga ungana. Minkur og tófa eru þeirra helstu ferfættu óvinir og af fuglum eru það mávar og hrafnar. „Svo getur maðurinn óvart labbað ofan a hreiðrin eða keyrt yfir þau,“ bendir Böðvar á.


Það er einmitt slíkt sem getur valdið skilnuðum hjá fuglum. Að koma ekki ungum á legg. Tjaldar maka sig ekki fyrir lífstíð eins og stundum er sagt um fugla. Á því er allur gangur. „Þeir geta vissulega haldið saman í mörg ár, jafnvel áratug, ef óðalið er gott og þeir ná að koma upp ungum ár hvert. Þetta eru mjög praktísk sambönd. Og sumir eru alltaf að skipta.“


Böðvar mun fara aftur í Hvalfjörðinn í vor og mæla hreiður. Þá verður tjaldaparið vonandi á vegi hans á ný. Ef allt gengur að óskum.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiInnlent