Skjálftarnir færst sunnar – Krýsuvíkursvæðið undir sérstöku eftirliti
Skjálftarnir á Reykjanesi hafa færst aðeins til suðvesturs frá því gær. Virkni færðist í aukana snemma í morgun en órói hins vegar ekki. Krýsuvíkursvæðið er undir sérstöku eftirliti jarðvísindamanna en það kerfi teygir anga sína inn í úthverfi höfuðborgarsvæðisins.
Kvika finnur sér alltaf einföldustu leið upp á yfirborðið, sagði Freysteinn Sigmundsson, deildarstjóri jarðvísindadeildar Háskóla Íslands, á blaðamannafundi í gær. Það sem hann átti við er að hún leitar að auðveldasta staðnum til að brjótast upp um jarðskorpuna – ef svo má að orði komast. Þess vegna getur kvika ferðast um langan veg, jafnvel tugi kílómetra eins og dæmi frá fyrri eldgosum hér á landi sanna, áður en hún kemur upp á yfirborðið.
Þetta er áhugavert í ljósi þess að jarðskjálftarnir á Reykjanesi, sem tengjast gliðnun í jarðskorpunni, sem og hinn umtalaði óróapúls, hafa færst til suðvesturs frá því í gær. Nokkrir stórir skjálftar hafa orðið í morgun og var einn þeirra 4,5. Órói hefur enn ekki byrjað aftur samhliða þeim.
Á Reykjanesskaga eru fimm eldstöðvakerfi og þau eru nátengd og það virðist gjarnan gjósa í þeim flestum í sömu hrinunum. Síðast gerðist það á árunum 950-1240 og þar áður fyrir um 1.800-2.500 árum. Engar megineldstöðvar er að finna í kerfunum á Reykjanesskaga og er magn gosefna í hverju gosi að jafnaði lítið þó að ummerki um stærri gos séu augljós á svæðinu.
Kvikuinnskot hafa ítrekað orðið í þessum kerfum undanfarið ár án þess að það hafi valdið tjóni, benti Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur á í RÚV í gærkvöldi. Hins vegar er ekki hægt að útiloka að kæmi til eldgoss við Keili, eins og líkur voru mestar taldar á í gær, gæti það haft í för með sér innskot á öðrum stöðum á Reykjanesskaganum. Segir Páll að jafnvel gætu opnast sprungur ofanjarðar án þess að eldgos yrði á þeim stað.
„Þegar svona virkni tekur sig upp þá virðist vera að öll svæðin taki undir,“ sagði Páll í Kastljósi í gær og bætti við að eina svæðið sem ekki hefði tekið undir ennþá séu Brennisteinsfjöll en að það væri bara tímaspursmál hvenær virkni hefjist þar líka. Sprunguhreyfingar geta valdið tjóni og sagði Páll það eitthvað sem ekki væri hægt að horfa framhjá. „Kannski er það það alvarlegasta sem getur gerst þarna.“
Í gær mældust um 2.500 jarðskjálftar og frá miðnætti hafa yfir 800 skjálftar mælst. Frá því jarðskjálftahrinan hófst fyrir viku hafa ríflega 18.000 jarðskjálftar orðið. Mesta virknin hefur verið bundin við Fagradalsfjall en hún hefur nú, eins og fyrr segir, færst suðvestar. Páll sagði í Kastljósi að litlir skjálftar síðdegis í gær hefðu verið „óþægilega nálægt“ Krýsuvíkursvæðinu en það teygir anga sína alla leið inn í úthverfi höfuðborgarsvæðisins. Því er það svæði undir sérstöku eftirliti jarðvísindamanna.
Á árabilinu 1150-1180 urðu veruleg eldsumbrot í Krýsuvíkurkerfinu og opnuðust nokkrar gossprungur í þeirri hrinu. Hafa þessi eldgos verið nefnd Krýsuvíkureldar. Hraun runnu þá til sjávar báðu megin við Reykjanesskagann. Þá varð gos við Sveifluháls um 1180. Ekki virðist hinsvegar hafa gosið í kerfinu í Reykjaneseldunum á 13. öld þegar mikil goshrina gekk yfir vestar á skaganum.
Óróapúlsinn, sem hófst klukkan 14.20 í gær, er samfelld hrina lítilla og þéttra skjálfta. Hann er til marks um að „greinileg umbrot eru í gangi“ líkt og Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar Veðurstofu Íslands, sagði á blaðamannafundi í gær. Sagði hún „einhvers konar sigdæld á yfirborði“ hafa myndast og að hugsanlega hafi orðið „meiri tognun en við höfum séð hingað til“. Nýjar gervitunglamyndir voru teknar í gær og verður rýnt í þær í dag til að meta stöðuna. „Þetta er mjög krítísk staða – órói sem sýnir að kvika sé að brjóta skorpuna en óvíst hvert hún leitar og hvert þetta ferli fer,“ sagði Freysteinn Sigmundsson, deildarforseti jarðvísindadeildar Háskóla Íslands, í gær.
Eins og staðan er núna er ekki hægt að segja til um nákvæmlega hvar eða hvenær – og jafnvel hvort – að kvikan brýtur séð leið upp á yfirborðið. Fyrri jarðhræringar benda til að það geti gerst eftir nokkra klukkutíma en einnig að það geti verið margir dagar í það.
Vika er síðan að jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga með 5,7 stiga skjálfta við Fagrafjall. Hundruð skjálfta hafa orðið síðan og margir þeirra yfir 4 að stærð. Jörð hefur þó skolfið þar allt frá upphafi síðasta árs en þeirri hrinu fylgdi landris við fjallið Þorbjörn, skammt frá Grindavík.
Reykjanesskaginn er yngsti hluti Íslands. Hann er mjög eldbrunninn og dregur nafn sitt af allmiklu gufu- og leirhverasvæði, eins og segir í ítarlegri grein Magnúsar Á. Sigurgeirssonar jarðfræðings í Náttúrufræðingnum frá árinu 1995.
Eldstöðvakerfin fimm á skaganum eru: Reykjaneskerfið, sem er vestast, Svartsengi, sem er norður af Grindavík, Fagradalsfjall, sem er litlu austar, Krýsuvíkurkerfið, kennt við Krísuvík, og svo Brennisteinsfjallakerfið, sem einnig er stundum kennt við Bláfjöll.
Í samantekt Magnúsar og fleiri í Íslensku eldfjallavefsjánni kemur fram að eldstöðvakerfi Reykjaness hafi verið í meðallagi virkt. Norðurhluti þess renni inn í kerfi Svartsengis en syðstu níu kílómetrarnir séu undir sjávarmáli. Á nútíma (síðustu tíu þúsund árin eða svo) hafa þar orðið fleiri en fimmtán gos. Eldgos á landi hafa einkennst af hraunflæði en í sjó hafa orðið „surtseysk sprengigos“ eins og það er orðað.
Frá landnámi hefur þrisvar sinnum gosið á Reykjanesi, síðast á árunum 1211-1240 og eru þeir atburðir kallaðir Reykjaneseldar. Á því tímabili gaus nokkrum sinnum, þar af urðu þrjú gos í eldstöðvakerfi sem kennt er við Svartsengi. Eldgosin voru hraungos á 1-10 kílómetra löngum gossprungum. Gosvirkni á Reykjanesi-Svartsengi einkennist af goslotum eða eldum sem geta varað í áratugi og má búast við goslotu á um 1100 ára fresti.
Í Reykjaneseldum urðu samanlagt minnst sex gos með hléum og vörðu frá tveimur til tólf ára. Gosvirknin hófst í eldstöðvakerfinu Reykjanesi og færðist svo í átt til Svartsengis á seinni stigum eldanna. Á Reykjanesi myndaðist eitt hraun en þrjú við Svartsengi. „Surtseysk gos“ urðu í sjó við Reykjanes í eldunum og mynduðu fjögur gjóskulög. Tvö þessara gjóskulaga hafa fundist á höfuðborgarsvæðinu, í um 45 kílómetra fjarlægð, að því er fram kemur á Íslensku eldfjallalvefsjánni.
Reykjaneseldar tóku til alls vestanverðs Reykjanesskagans. Sambærilegir eldar voru einnig í gangi í Brennisteinsfjöllum austast á skaganum á 10. öld. Á 12. öld urðu svo Krýsuvíkureldar um miðhluta skagans, líkt og fram kemur í grein Magnúsar.
Gjóska í allt að 100 kílómetra fjarlægð
Allmörg neðansjávargos hafa orðið á Reykjaneshrygg síðustu aldir. Öflugt gos varð suður af Eldeyjarboða árið 1783. Þá myndaðist eyja sem hvarf þó stuttu síðar vegna ágangs sjávar. Á 19. öld er vitað um þrjú gos á þessum slóðum, segir í Íslensku eldfjallavefsjánni, og á 20. öldinni varð nokkrum sinnum vart við ólgu í sjó og gjóskuþústir sem líklega hafa verið af völdum lítilla neðansjávargosa.
Stærsta þekkta gos á Reykjanesi var sprengigos árið 1226. Í eldfjallavefsjánni segir að gjóska úr því hafi borist með vindum til austurs og norðausturs, þakið allan Reykjanesskagann og fundist í jarðvegi í allt að 100 kílómetra fjarlægð frá upptökum.
Þá segir að ritaðar heimildir gefi í skyn að gjóskufallið hafi valdið heilsubresti í búfé á nærliggjandi svæðum. Einnig kunni að hafa orðið jarðvegseyðing á vesturhluta Reykjanesskaga. Lengd gossins er ekki þekkt en sennilega hefur það varað í nokkrar vikur.
Í grein Magnúsar í Náttúrufræðingnum kemur fram að heimildir geti um fjölda gosa í sjó undan Reykjanesi eftir landnám en aðeins eitt á landi. Í heimildum sé hins vegar hvergi sagt berum orðum að hraun hafi runnið á Reykjanesi en helst er þó ýjað að því í frásögnum við árin 1210-1211.
Í Oddverjaannál segir til dæmis: „Elldur wm Reyianes: Saurli fann Elldeyjar hinar nyo enn hinar horfnar er alla æfi haufdu stadit.“
Sé þessi setning færð til nútímamáls er hún á þá leið að Sörli Kolsson hafi fundið „Eldeyjar hinar nýju en að hinar hafi horfið er áður stóðu“.
Magnús bendir á að alls sé óvíst hvort eða hvernig þessi frásögn tengdist þeirri Eldey sem við sjáum í dag en ekkert útiloki að hún sé frá þessum tíma.
„Jörðin skalf öll og pipraði af ótta“
Í öðrum frásögnum af gosum í sjó á 13. öld er ávallt talað um eldgos eða elda í sjó við eða fyrir Reykjanesi. Það bendir, að mati Magnúsar, ótvírætt til goss í sjó.
Í Páls sögu biskups segir við árið 1211: „Jörðin skalf öll og pipraði af ótta; himin ok skýin grétu, svá at mikill hlutr spilltist jarðar ávaxtarins, en himintúnglin sýndu dauðatákn ber á sér, þá náliga var komit at hinum efstum lífsstundum Páls biskups, en sjórinn brann ok fyrir landinu þá; þar sem hans biskupsdómur stóð yfir sýndist náliga allar höfutskepnur nokkut hrygðarmark á sér sýna frá hans fráfalli“.
Magnús útskýrir í grein sinni að þegar sagt er að himintunglin sýni á sér dauðatákn sé vel hugsanlegt að þar sé vísað til móðu í lofti sem gjarnan er fylgifiskur hraungosa og að sól og tungl hafi af þeim sökum sýnst rauð.
„Mikilvægt hlýtur að teljast að þekkja eðli og hætti eldvirkninnar á Reykjanesi vegna hinnar ört vaxandi byggðra og umsvifa manna á Suðurnesjum,“ skrifaði Magnús í grein sinni árið 1995. „Víst má telja að komi upp hraun á Reykjanesi í náinni framtíð verða mannvirki þar í verulegri hættu og af gjóskugosi við ströndina getur, auk tjóns á mannvirkjum, orðið veruleg röskun á samgöngum í lofti, á landi og í sjó.“