Þegar hlutabréfaverðið í Arion banka fór að rísa þá seldu erlendu eigendurnir sig niður
Hlutabréfaverð í Arion banka hefur hækkað um 58 prósent frá því í haust og fyrir liggja áform um að tappa tugi milljarða króna af eigin fé af bankanum. Á sama tíma eru nær allir erlendir eigendur bankans að minnka stöðu sína í honum. Hratt.
Erlent eignarhald Arion Banka er nú komið niður í að minnsta kosti 13,18 prósent, samkvæmt nýjum hluthafalista bankans sem sýnir 20 stærstu hluthafa hans. Í lok september í fyrra áttu erlendir sjóðir sem birtust á listanum yfir stærstu hluthafa hans samtals 42,24 prósent í Arion banka. Eignarhlutur þeirra í bankanum, miðað við breytingar á sýndum hluthafalista yfir stærstu eigendur, hefur því minnkað um alls um rúmlega 29 prósentustig á rúmum fimm mánuðum. Það sem gerir þessa stöðu athyglisverða er að á tímabilinu hefur hlutabréfaverð í Arion banka hækkað mikið, eða um rúmlega 58 prósent, og markaðsvirði bankans er nú meira en eigið fé hans, eða tæplega 209 milljarðar króna.
Arion banki tilkynnti auk þess nýverið að bankinn ætlaði sér að kaupa eigin bréf af hluthöfum fyrir 15 milljarða króna á þessu ári og greiða þeim allt að þrjá milljarða króna í arð. Til viðbótar kom fram í ársuppgjöri Arion banka að hann ætlaði sér að greiða út á sjötta tug milljarða króna alls af eigin fé sínu á næstu árum, þar sem ógjörningur væri að ávaxta það og því væri betra að skila því til hluthafa. Þannig væri einnig hægt að ná betri arðsemi á eigin fé bankans, sem er vinsæll mælikvarði á árangur í fjármálaheiminum, með því að tappa því einfaldlega af og í vasa hluthafa.
Erlendu sjóðirnir komu inn í eigendahóp Arion banka í aðdraganda þess að bankinn var skráður á markað 2018. Þeir höfðu áður verið ráðandi í kröfuhafahópi Kaupþings, undanfara Arion banka sem var stærsti eigandi hans árum saman. Þeir virðast ekki sjá tækifæri í miklum hækkunum á hlutabréfaverði Arion banka og áformum um að greiða út tugi milljarða króna til hluthafa á næstu árum. Þess í stað hafa þeir selt um tvo þriðju af eign sinni í bankanum á nokkrum mánuðum. Salan hefur verið sérstaklega hröð síðastliðinn mánuð.
Stærstu vogunarsjóðirnir selja hratt og fara
Vogunarsjóðirnir Taconic Capital Advisors og Sculptor Capital Management voru lengi vel stærstu einstöku eigendur Arion banka. Í haust átti Taconic 23,22 prósent í Arion banka en hefur selt sig niður í 10,71 prósent eignarhlut. Sculptor átti 9,92 prósent hlut í Arion banka í lok september en er nú ekki lengur á meðal 20 stærstu hluthafa bankans og á því einhverstaðar á bilinu 0 til eitt prósent í bankanum eins og er.
Fleiri erlendir fjárfestar, sem komu inn í hluthafahóp Arion banka vegna þess að þeir voru kröfuhafar í Kaupþingi, hafa verið að lækka stöður sínar hratt. Þannig átti Goldman Sachs International 2,97 prósent hlut í bankanum í lok september en er ekki lengur á meðal 20 stærstu hluthafa hans.
Sömu sögu er að segja af vogunarsjóðunum Eaton Vance og Landsdowne partners. Sá fyrrnefndi átti 2,6 prósent í Arion banka fyrir fimm mánuðum síðan en á nú 1,33 prósent. Hlutur hans hefur því nánast helmingast á skömmum tíma. Landsdowne átti 2,39 prósent hlut í Arion banka í lok september en er ekki lengur á meðal 20 stærstu hluthafa bankans, og á því undir eitt prósent í bankanum.
Auk þeirra var breski sjóðurinn Attestor Capital, á meðal ráðandi hluthafa í Arion banka fyrir nokkrum árum, en hann seldi sig hratt niður í bankanum árið 2019.
Lífeyrissjóðir stærstir á kaupendahliðinni
Íslenskir lífeyrissjóðir hafa tekið við leiðandi hlutverki í eigendahópi Arion banka. Í lok september voru sjö slíkir á meðal 20 stærstu hluthafa bankans og áttu samtals 29,17 prósent í honum. Nú eru ellefu lífeyrissjóðir á meðal 20 stærstu hluthafa Arion banka og samanlagt eiga þeir um 41 prósent eignarhlut í honum. Þeir hafa því bætt við sig tæpum tólf prósentustigum á fimm mánuðum. Markaðsvirði þess eignarhluts er nú um 85,5 milljarðar króna.
Þrír stærstu lífeyrissjóðir landsins: Gildi (9,61 prósent), Lífeyrissjóður verzlunarmanna (8,45 prósent) og Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (7,86 prósent) draga þar vagninn líkt og í flestum skráðum félögum á Íslandi.
Fleiri lífeyrissjóðir: Stapi, Birta, Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Brú, Almenni lífeyrissjóðurinn, Festa og Lífsverk hafa allir líka bætt við sig í Arion banka á síðustu mánuðum.
Fyrir liggur þó að íslenskir lífeyrissjóðir hafa ekki keypt öll bréfin sem erlendu vogunarsjóðirnir hafa verið að selja að undanförnu, að minnsta kosti með beinum hætti.
Þorri þess sem út af stendur hefur verið keypt af sjóð- og eignastýringarfyrirtækjum banka eða einfaldlega í nafni annarra banka. Auk þess er tryggingafélagið Sjóvá komið á lista yfir 20 stærstu hluthafa Arion banka.
Góð arðsemi í fyrra
Rekstur Arion banka gekk vel í fyrra. Hagnaður bankans nam 12,5 milljörðum króna og hann náði því markmiði sínu á síðasta ársfjórðungi að vera með arðsemi á eigin fé sitt yfir tíu prósentum, en hún var alls 11,8 prósent á síðustu þremur mánuðum síðasta árs.
Heildar eigið fé nam 198 milljörðum króna í árslok 2020, sem er átta milljörðum krónum hærra en það var í árslok 2019. Að meðtöldum arðgreiðslum og þeim fjárhæðum sem nýttar verða í kaup á eigin bréfum jókst eiginfjárgrunnur samstæðunnar því um 28 milljarða króna frá árslokum 2019.
Lestu meira:
-
28. júní 2022Ætlar ekki að láta Seðlabankann afhenda sér gögn um ráðstöfun opinberra hagsmuna
-
27. júní 2022Enn dregst leiga á myndlyklum saman en tekjur vegna sjónvarps halda áfram að aukast
-
27. júní 2022Hagstofan býst við að hagvöxtur verði enn kröftugri en spáð var í lok vetrar
-
27. júní 2022Fjármálaráðuneytið segist ekki hafa yfirlit yfir fjársópseignirnar sem seldar voru leynilega
-
26. júní 2022Heildartekjur fjarskiptafyrirtækja jukust um 6,1 milljarð í fyrra og voru 72,4 milljarðar
-
25. júní 2022Niðurhal Íslendinga stóreykst milli ára
-
25. júní 2022Sjö molar um seðlabankavexti úti í heimi
-
24. júní 2022Samkeppniseftirlitið ekki haft aðkomu að rannsókn á dótturfélagi Eimskips í Danmörku
-
24. júní 2022Verð á hveiti hækkað um 40 prósent á hálfu ári
-
24. júní 2022Eru íslensku bankarnir að okra á heimilum landsins?