Pexels Heimilislífið í covid
Pexels

Frá þurrvörum til þrautaleikja: COVID-áhrifin á heimilislífið

Bakað, eldað, málað og spilað. Allt heimagert. Ýmsar breytingar urðu á hegðun okkar í hinu daglega í lífi á meðan faraldurinn stóð hvað hæst. Sum neysluhegðun er þegar að hverfa aftur til fyrra horfs en önnur gæti verið komin til að vera.

Hvað er hægt að gera til að drepa tím­ann þegar veiru­far­aldur geisar og sund­laug­ar, skíða­svæði og barir eru lok­aðir og veru­legar tak­mark­anir eru á flestu öðru í sam­fé­lag­inu? Svarið er: Fjöl­margt.

Síð­ustu tólf mán­uði hefur það sýnt sig að fólk deyr ekki ráða­laust þegar kemur að því að finna sér eitt­hvað til dund­urs er rútínan fer úr skorðum og heim­ilið verður mið­stöð allra þátta lífs­ins á auga­bragði. Þegar fjöl­skyldan og aðeins nán­ustu vinir eru þeir sem borgar sig að umgang­ast.

Í til­efni af því að ár er liðið frá því að fyrsta smitið greind­ist inn­an­lands og far­ald­ur­inn hófst leit­aði Kjarn­inn til nokk­urra aðila og spurði: Hverju breytti COVID þegar kemur að lifn­að­ar­háttum okkar og neyslu? 



Auglýsing

Hjarta heim­il­is­ins

Í upp­hafi fyrstu bylgju kór­ónu­veiru­far­ald­urs­ins, þegar sam­komu­bann var fyrst sett á, greip um sig ákveð­inn ótti sem sýndi sig í því að fólk hamstr­aði margs­konar þurr­vör­ur. „Við vorum dug­leg að miðla því að nóg væri til af mat og fljót­lega gekk þetta til bak­a,“ segir Hjör­dís Elsa Ásgeirs­dótt­ir, mark­aðs­stjóri Krón­unn­ar. Hún segir að á und­an­förnu ári hafi komið fram ýmsar sterkar neyslu­breyt­ingar sem rekja megi til far­ald­urs­ins. Sumar stopp­uðu stutt en ann­arra langvar­andi áhrifa gætir enn, að sögn Hjör­dís­ar. Hún nefnir sem dæmi að við­skipta­vinir heim­sæki versl­anir Krón­unnar sjaldnar en áður en kaupi meira inn í einu. Í fyrstu bylgj­unni hafi Krónan sett Snjall­verslun sína í loft­ið, app sem hægt er að panta heim­send­ingu í gegn­um. „Við sjáum að margir hafa haldið áfram að fá mat­vör­urnar sendar heim enda mjög þægi­leg­t.“



Bakstur hefur líklega sjaldan verið meiri á heimilum landsmanna frá því í seinna stríði. Eða þar um bil.
Pexels

Síð­asta vor fór fólk að baka oftar og elda frá grunni heima. Þá minnk­aði sala á til­búnum réttum veru­lega, s.s. sam­lokum og salöt­um. Á sama tíma „rauk sala á hveiti og öðrum bök­un­ar­vörum upp,“ segir Hjör­dís. 

Í haust mátti svo sjá ýmsar áhuga­verðar breyt­ingar í neyslu­hegðun og sem dæmi segir Hjör­dís að sala á mat­vöru tengdum jól­unum hafi byrjað mjög snemma. „Vörur eins og pip­ar­kök­ur, smáköku­deig og jóla­hlað­borðs­rétt­irnir okkar fóru á mikið flug. Fólk var aug­ljós­lega að halda jóla­hlað­borðin heima.“ 

En nú er hegð­unin að fær­ast aftur til fyrra horfs. Fólk er aftur farið að sækja í til­búna rétti. „Lík­lega eru margir orðnir þreyttir á að hafa útbúið allar mál­tíðir dags­ins heima,“ segir Hjör­dís. Réttir á borð við sus­hi, til­búnar súpur og til­búið lasagna eru meðal þeirra sem njóta nú aftur mjög vax­andi vin­sælda.



Margir snéru sér að garðyrkju af ýmsu tagi í faraldrinum.
Pexels

Grænir fingur

En Íslend­ingar voru ekki aðeins dug­legir að nota eld­húsið í á meðan far­ald­ur­inn herj­aði heldur voru þeir sér­lega áhuga­samir um að dytta að hinu og þessu heima­við. Fram­kvæmda­gleðin var aug­ljós, segir Árni Reynir Alfreðs­son, mark­aðs­stjóri BYKO. „Það hefur verið afskap­lega mik­ill gangur til dæmis í palla­smíði og öðru tengdu garð­verk­unum svo sem sölu á áburði, sláttu­vél­um, grillum og svo fram­veg­is.“

Þá hafa reið­hjól og trampólín selst „eins og eng­inn væri morg­un­dag­ur­inn,“ segir Árni. „Fólk hefur verið svo mikið heima­við og lík­ams­rækt­ar­stöðvar hafa verið lok­aðar þannig að slíkir hlutir hafa nýst í hreyf­ingu og skemmt­un.“



Parket og flísar seldust vel í faraldrinum enda fólk mikið heimavið og nýtti tímann til viðhalds.
Pexels

Þá segir Árni gríð­ar­lega mikla sölu­aukn­ingu hafa verið í öllum vörum er tengj­ast breyt­ingum á heim­il­inu, s.s. í par­k­eti, flís­um, hrein­læt­is- og blönd­un­ar­tækj­um, máln­ingu, ljósum, gluggum og hurð­um. Þetta tengir hann m.a. við mikla hreyf­ingu á fast­eigna­mark­aðn­um. „Eins hefur sam­hliða þessu farið ofboðs­lega mikið magn af bygg­inga­vörum, það er að segja timbri, plötum og annarri gróf­vöru sem þarf til að breyta hús­næð­i.“

Árni segir að svo virð­ist sem fag­menn af öllu tagi séu að und­ir­búa sig fyrir fram­kvæmdir og því séu „afar góð teikn á lofti fyrir bygg­inga­vöru­mark­að­inn á þessu ári“.



Grímur og fleiri grímur. Alls konar grímur seldust eins og heitar lummur meirihluta síðasta árs.
Pexels

Seldu yfir eina milljón gríma



Og í búð­un­um, og ann­ars staðar þar sem ekki var hægt að tryggja tveggja metra fjar­lægð við næsta mann, var í haust sett á grímu­skylda. Margir höfðu byrjað að bera grímur víða áður – sér­stak­lega fólk í við­kvæmum hóp­um. Spreng­ing varð því í sölu þeirra.



Fyr­ir­tækið sem lík­lega flytur inn mest af þeim og selur svo í apó­tek, versl­anir og víð­ar, heitir Kemi. „Við, ólíkt mörgum erum búnir að vera að selja grímur í fjölda ára til iðn­að­ar­manna og iðn­fyr­ir­tækja,“ segir Her­mann Guð­munds­son, for­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins. Inn­flutn­ingur á grímum sem hann kallar COVID-grím­ur, stórjókst á því herr­ans ári 2020 og í fyrra seldi Kemi yfir milljón slík­ar. Milljón grímur vega að sögn Her­manns um 15 tonn í flutn­ingi.



Guð­mundur H. Björns­son, mark­aðs­stjóri Lyfju, segir að strax í jan­úar og febr­úar í fyrra orðið mikil aukn­ing í eft­ir­spurn eftir grím­um. En hún var nær ein­göngu frá erlendum ferða­mönnum sem staddir voru hér á landi.



Í ágúst jókst eft­ir­spurnin gríð­ar­lega að sögn Guð­mundar sam­hliða breyttum áherslum frá sótt­varna­lækni. Hún var svo nokkuð stöðug það sem eftir lifði síð­asta árs. Tölu­vert hefur hins vegar dregið úr henni á þessu ári.



Í lok maí var búinn til sér­stakur toll­flokk­ur; „And­lits­grímur ætl­aðar til að vernda gegn mögu­legum sýk­ing­um, notað sem hlífð­ar­bún­aður fyrir heil­brigð­is­starfs­fólk“. Sam­kvæmt gögnum Hag­stof­unnar voru slíkar grímur fluttar inn frá fjölda landa, allt frá Banda­ríkj­unum til Belgíu og Kína til Kam­bó­díu. Sam­tals um 30 tonn. Inn­flutn­ing­ur­inn var lang­mestur í nóv­em­ber eða tæp 10 tonn. Grímur má finna í fleiri toll­flokkum en við látum þennan duga til að varpa ljósi á umfang­ið.



Yatsy átti endurkomu í faraldrinum.
Pexels

Kanntu kotru?

Og eitt­hvað þurftum við að hafa við að vera í nýupp­gerðum húsum og eftir góða heima­lag­aða mál­tíð. Margir gripu til þekktra aðferða til að drepa tím­ann, eins og að púsla, tefla og spila (með hefð­bund­inn spila­stokk að vopn­i). Já – og svo var kotra líka vin­sæl. Þú last rétt: Kotra. Gamla góða yatzýið átti svo einnig góða end­ur­komu.

„Púslu­spila­sala meira en þre­fald­að­ist á milli ára,“ segir Þor­lákur Lúð­víks­son hjá Spila­vin­um. Hann bendir á að sala á púslu­spilum hafi reyndar auk­ist í heim­inum öllum og dæmi voru um að stórar versl­anir ytra tæmd­ust af púslu­spil­u­m. 

Sala jókst einnig á tveggja manna spilum enda segir Þor­lákur að fólk velji gjarnan spil sem það þekki. Jafn­liða jókst hönnun og fram­leiðsla á slíkum spil­u­m. 



Hann segir að vin­sældir sam­vinnu­spila og þrauta­leikja hafi einnig auk­ist til­finn­an­lega. Þannig seld­ist Pandem­ic-ser­ían ítrekað upp í Spila­vin­um. 



Margir settust að tafli og kenndu börnum sínum mannganginn.
Pexels

„Fólk sem gerði áður aðra hluti en að spila kemur inn í mengið því það vill bæta sam­veru­stund­ina með fjöl­skyld­unni; finna hluti til að gera saman því allir eru saman hvort eð er,“ segir Þor­lák­ur. „Það leit­aði í það sem það kunni; klass­ísk spil. Við höldum að margir muni hugsa hlýtt til stund­anna sem það eyddi með fjöl­skyld­unn­i.“

Hann telur að fólk hafi í sam­komu­banni áttað sig á því að það hefði ekki kennt börnum sínum klass­ísku, gömlu spilin sem það ólst sjálft upp við. Þar hafi skák komið sér­stak­lega sterk inn og juku sjón­varps­þætt­irnir Queens Gambit enn á skák­á­hug­ann. 

Monopoly og Catan hafa ekki verið til frá því fyrir COVID, svo fólk þurfti að leita annað líka og upp­götv­aði þannig ný spil sem það hefði lík­lega ann­ars látið fram hjá sér fara, segir Þor­lák­ur. „En það er lík­legt að fólk eigi eftir henda inn einum eða tveimur COVID-brönd­urum á sama tíma og það stillir upp Pandem­ic.“



Einhverjir hafa dustað rykið af Monopoly en aðrir uppgötvuðu ný og spennandi spil
Pexels

Óvæntasta aukn­ingin er lík­lega í partí­spil­um. Það þarf þó ekki að þýða að fólk hafi almennt verið með stand­andi partí í miðjum far­aldri heldur er lík­legri skýr­ing sú að partí­spil geta verið fjöl­skyldu­spil þegar börnin á heim­il­inu eru komin langt fram á ung­lings­ald­ur­inn, bendir Þor­lákur á. 

Skýr­ingin á vin­sældum spil­anna er nokkuð aug­ljós – við vorum öll meira og minna heima. En hvað skýrir ásókn í púslu­spil að mati Þor­láks? „Mig grunar ástæða þess að fólk leit­aði í púsl sé af sama meiði og af hverju það leit­aði í borð­spil. Púsl eru þekkt stærð; það er auð­velt að sam­vinna púsl; púsl geta tekið eins langan tíma í einu og fólk vill; það er auð­velt að standa upp frá púsli og auð­velt að setj­ast niður aft­ur; fólk getur komið inn í púsl í miðjum klíðum og tekið þátt.“



Auglýsing

Í fjar­sam­bandi við vinnu og skóla

Afkoma ELKO á síð­asta ári var sú besta frá upp­hafi. „Við höfum í raun séð aukn­ingu í sölu í öllum flokk­um,“ segir Arin­björn Hauks­son, mark­aðs­stjóri. Tölv­ur, sjón­vörp, heim­il­is­tæki ruku út og sömu­leiðis var sala í raf­tækjum sem tengj­ast afþr­ey­ingu, s.s. snjallúr og heyrn­ar­tól, mik­il. 

Við­vera fólks heima við jókst gríð­ar­lega síð­ast­liðið ár, bæði hvað varðar frí­tíma og vinnu, og segir Arin­björn hana hafa aukið þörf á raf­tækj­um. „Margir þurftu að koma upp aðstöðu fyrir heima­vinnu með til­heyr­andi bún­aði og sáum við það mjög greini­lega, sér­stak­lega í fyrstu og annarri bylgju.“ 



Ekkert er betra en að vera í þægilegum fötum heimavið.
Pexels

Trendí jogg­ing­gallar slógu í gegn

En hvernig höfum við viljað klæða okkur í far­aldr­in­um? Líkt og ann­ars staðar í heim­inum eru þægi­leg föt, „heima­föt“ vin­sæl. Þetta seg­ist Tania Lind, mark­aðs­stjóri NTC, hafa fundið í sölu á fatn­aði versl­ana fyr­ir­tæk­is­ins. „Það helsta sem við sjáum breyt­ingu á er að fólk sæk­ist meira í trendí jogg­ing­galla en áður,“ segir hún. Einnig hafa grófir skór, „boots“ eins og Tania kallar þá, notið gríð­ar­legra vin­sælda. Þó að fólk hafi almennt ekki verið að stunda fínar sam­komur á meðan sam­komu­tak­mark­anir voru mestar segir Tania alltaf eft­ir­spurn eftir spari­fötum þó að vissu­lega hafi hún minnkað veru­lega þegar far­ald­ur­inn stóð sem hæst. „Sam­hliða til­slök­unum á sam­komu­banni finnum við þó sam­stundis fyrir aukn­ingu á sölu á fínni föt­u­m,“ segir hún. „Fólk þyrstir í að klæða sig upp og fara út á líf­ið. Ég er þó nokkuð viss um að trendí jogg­ing­gall­arnir séu komnir til að vera enda ein­stak­lega flottir og þægi­legir á sama tíma.“



Skíði af ýmsum stærðum og gerðum nutu sérstakra vinsælda.
Pexels

Á skíðum skemmti ég mér, trallallala

 „Það er skemmst frá því að segja að það hefur orðið algjör spreng­ing í allri úti­vist,“ segir Ásmundur Þórð­ar­son, mark­aðs­stjóri Fjalla­kof­ans. Göngu­skór og allur úti­vi­starfatn­aður hefur að hans sögn rokið út og sömu sögu er að segja með allan skíða­bún­að. Sér­stak­lega segir Ásmundur áhuga­vert að sjá auk­inn áhuga á skíða­göngu og fjalla­skíð­um.

„Í skíða­göngu hafa bæði hin hefð­bundnu braut­ar­skíði verið að selj­ast vel en mesta aukn­ingin er í utan­braut­ar­skíðum og bún­aði tengdum þeim. Við í Fjalla­kof­anum fáum þá til­finn­ingu að annar hver Íslend­ingur sé að fara að ganga yfir Vatna­jökul á skíðum í vor og sum­ar.“

Margir hafa líka bæst í þann hóp sem stundar fjalla­skíði þar sem hæll­inn er los­aður og skinn sett undir skíðin til að hægt sé að ganga upp á þeim og renna sér svo nið­ur. „Þar sem tak­mark­anir hafa verið á fjölda á skíða­stöðum og ekki fer skíða­fólk til útlanda á skíði finnst mörgum þetta spenn­andi val­kost­ur.“



Útsýnið af Esjunni heillar marga.
Af Wikipedia

Upp, upp, uppá fjall

Auður Elva Kjart­ans­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Skóg­rækt­ar­fé­lags Reykja­vík­ur, segir að umferð fólks um Heið­mörk og Esju hafi auk­ist mikið frá því far­ald­ur­inn hófst. Þannig að nýi bún­að­ur­inn sem fólk hefur fjár­fest í hefur þá vænt­an­lega komið að góðum not­u­m. 

Telj­ari var settur upp við Esj­una í des­em­ber og síðan þá ganga að með­al­tali um 80 manns á fjallið hvern virkan dag og um 200 hvorn dag­inn um helg­ar. 

Aug­ljós­lega hefur góða veðrið á suð­vest­ur­horni lands­ins síð­ustu vikur og mán­uði haft sitt að segja um göngu­gleð­ina sem hel­tekið hefur marga. Enda fóru veð­urguð­irnir sér­lega mjúkum höndum um höf­uð­borg­ar­búa og nær­sveita­menn í febr­úar á meðan sval­ara var norð­aust­an­lands. Hiti var þó alls staðar yfir með­al­lagi síð­ustu 30 ára. Hann var hvorki meira né minna en 2,1 stigi yfir með­al­lagi í Reykja­vík.



Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar