Pexels Heimilislífið í covid

Frá þurrvörum til þrautaleikja: COVID-áhrifin á heimilislífið

Bakað, eldað, málað og spilað. Allt heimagert. Ýmsar breytingar urðu á hegðun okkar í hinu daglega í lífi á meðan faraldurinn stóð hvað hæst. Sum neysluhegðun er þegar að hverfa aftur til fyrra horfs en önnur gæti verið komin til að vera.

Hvað er hægt að gera til að drepa tímann þegar veirufaraldur geisar og sundlaugar, skíðasvæði og barir eru lokaðir og verulegar takmarkanir eru á flestu öðru í samfélaginu? Svarið er: Fjölmargt.

Síðustu tólf mánuði hefur það sýnt sig að fólk deyr ekki ráðalaust þegar kemur að því að finna sér eitthvað til dundurs er rútínan fer úr skorðum og heimilið verður miðstöð allra þátta lífsins á augabragði. Þegar fjölskyldan og aðeins nánustu vinir eru þeir sem borgar sig að umgangast.

Í tilefni af því að ár er liðið frá því að fyrsta smitið greindist innanlands og faraldurinn hófst leitaði Kjarninn til nokkurra aðila og spurði: Hverju breytti COVID þegar kemur að lifnaðarháttum okkar og neyslu? 


Auglýsing

Hjarta heimilisins

Í upphafi fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins, þegar samkomubann var fyrst sett á, greip um sig ákveðinn ótti sem sýndi sig í því að fólk hamstraði margskonar þurrvörur. „Við vorum dugleg að miðla því að nóg væri til af mat og fljótlega gekk þetta til baka,“ segir Hjördís Elsa Ásgeirsdóttir, markaðsstjóri Krónunnar. Hún segir að á undanförnu ári hafi komið fram ýmsar sterkar neyslubreytingar sem rekja megi til faraldursins. Sumar stoppuðu stutt en annarra langvarandi áhrifa gætir enn, að sögn Hjördísar. Hún nefnir sem dæmi að viðskiptavinir heimsæki verslanir Krónunnar sjaldnar en áður en kaupi meira inn í einu. Í fyrstu bylgjunni hafi Krónan sett Snjallverslun sína í loftið, app sem hægt er að panta heimsendingu í gegnum. „Við sjáum að margir hafa haldið áfram að fá matvörurnar sendar heim enda mjög þægilegt.“


Bakstur hefur líklega sjaldan verið meiri á heimilum landsmanna frá því í seinna stríði. Eða þar um bil.
Pexels

Síðasta vor fór fólk að baka oftar og elda frá grunni heima. Þá minnkaði sala á tilbúnum réttum verulega, s.s. samlokum og salötum. Á sama tíma „rauk sala á hveiti og öðrum bökunarvörum upp,“ segir Hjördís. 

Í haust mátti svo sjá ýmsar áhugaverðar breytingar í neysluhegðun og sem dæmi segir Hjördís að sala á matvöru tengdum jólunum hafi byrjað mjög snemma. „Vörur eins og piparkökur, smákökudeig og jólahlaðborðsréttirnir okkar fóru á mikið flug. Fólk var augljóslega að halda jólahlaðborðin heima.“ 

En nú er hegðunin að færast aftur til fyrra horfs. Fólk er aftur farið að sækja í tilbúna rétti. „Líklega eru margir orðnir þreyttir á að hafa útbúið allar máltíðir dagsins heima,“ segir Hjördís. Réttir á borð við sushi, tilbúnar súpur og tilbúið lasagna eru meðal þeirra sem njóta nú aftur mjög vaxandi vinsælda.


Margir snéru sér að garðyrkju af ýmsu tagi í faraldrinum.
Pexels

Grænir fingur

En Íslendingar voru ekki aðeins duglegir að nota eldhúsið í á meðan faraldurinn herjaði heldur voru þeir sérlega áhugasamir um að dytta að hinu og þessu heimavið. Framkvæmdagleðin var augljós, segir Árni Reynir Alfreðsson, markaðsstjóri BYKO. „Það hefur verið afskaplega mikill gangur til dæmis í pallasmíði og öðru tengdu garðverkunum svo sem sölu á áburði, sláttuvélum, grillum og svo framvegis.“

Þá hafa reiðhjól og trampólín selst „eins og enginn væri morgundagurinn,“ segir Árni. „Fólk hefur verið svo mikið heimavið og líkamsræktarstöðvar hafa verið lokaðar þannig að slíkir hlutir hafa nýst í hreyfingu og skemmtun.“


Parket og flísar seldust vel í faraldrinum enda fólk mikið heimavið og nýtti tímann til viðhalds.
Pexels

Þá segir Árni gríðarlega mikla söluaukningu hafa verið í öllum vörum er tengjast breytingum á heimilinu, s.s. í parketi, flísum, hreinlætis- og blöndunartækjum, málningu, ljósum, gluggum og hurðum. Þetta tengir hann m.a. við mikla hreyfingu á fasteignamarkaðnum. „Eins hefur samhliða þessu farið ofboðslega mikið magn af byggingavörum, það er að segja timbri, plötum og annarri grófvöru sem þarf til að breyta húsnæði.“

Árni segir að svo virðist sem fagmenn af öllu tagi séu að undirbúa sig fyrir framkvæmdir og því séu „afar góð teikn á lofti fyrir byggingavörumarkaðinn á þessu ári“.


Grímur og fleiri grímur. Alls konar grímur seldust eins og heitar lummur meirihluta síðasta árs.
Pexels

Seldu yfir eina milljón gríma


Og í búðunum, og annars staðar þar sem ekki var hægt að tryggja tveggja metra fjarlægð við næsta mann, var í haust sett á grímuskylda. Margir höfðu byrjað að bera grímur víða áður – sérstaklega fólk í viðkvæmum hópum. Sprenging varð því í sölu þeirra.


Fyrirtækið sem líklega flytur inn mest af þeim og selur svo í apótek, verslanir og víðar, heitir Kemi. „Við, ólíkt mörgum erum búnir að vera að selja grímur í fjölda ára til iðnaðarmanna og iðnfyrirtækja,“ segir Hermann Guðmundsson, forstjóri fyrirtækisins. Innflutningur á grímum sem hann kallar COVID-grímur, stórjókst á því herrans ári 2020 og í fyrra seldi Kemi yfir milljón slíkar. Milljón grímur vega að sögn Hermanns um 15 tonn í flutningi.


Guðmundur H. Björnsson, markaðsstjóri Lyfju, segir að strax í janúar og febrúar í fyrra orðið mikil aukning í eftirspurn eftir grímum. En hún var nær eingöngu frá erlendum ferðamönnum sem staddir voru hér á landi.


Í ágúst jókst eftirspurnin gríðarlega að sögn Guðmundar samhliða breyttum áherslum frá sóttvarnalækni. Hún var svo nokkuð stöðug það sem eftir lifði síðasta árs. Töluvert hefur hins vegar dregið úr henni á þessu ári.


Í lok maí var búinn til sérstakur tollflokkur; „Andlitsgrímur ætlaðar til að vernda gegn mögulegum sýkingum, notað sem hlífðarbúnaður fyrir heilbrigðisstarfsfólk“. Samkvæmt gögnum Hagstofunnar voru slíkar grímur fluttar inn frá fjölda landa, allt frá Bandaríkjunum til Belgíu og Kína til Kambódíu. Samtals um 30 tonn. Innflutningurinn var langmestur í nóvember eða tæp 10 tonn. Grímur má finna í fleiri tollflokkum en við látum þennan duga til að varpa ljósi á umfangið.


Yatsy átti endurkomu í faraldrinum.
Pexels

Kanntu kotru?

Og eitthvað þurftum við að hafa við að vera í nýuppgerðum húsum og eftir góða heimalagaða máltíð. Margir gripu til þekktra aðferða til að drepa tímann, eins og að púsla, tefla og spila (með hefðbundinn spilastokk að vopni). Já – og svo var kotra líka vinsæl. Þú last rétt: Kotra. Gamla góða yatzýið átti svo einnig góða endurkomu.

„Púsluspilasala meira en þrefaldaðist á milli ára,“ segir Þorlákur Lúðvíksson hjá Spilavinum. Hann bendir á að sala á púsluspilum hafi reyndar aukist í heiminum öllum og dæmi voru um að stórar verslanir ytra tæmdust af púsluspilum. 

Sala jókst einnig á tveggja manna spilum enda segir Þorlákur að fólk velji gjarnan spil sem það þekki. Jafnliða jókst hönnun og framleiðsla á slíkum spilum. 


Hann segir að vinsældir samvinnuspila og þrautaleikja hafi einnig aukist tilfinnanlega. Þannig seldist Pandemic-serían ítrekað upp í Spilavinum. 


Margir settust að tafli og kenndu börnum sínum mannganginn.
Pexels

„Fólk sem gerði áður aðra hluti en að spila kemur inn í mengið því það vill bæta samverustundina með fjölskyldunni; finna hluti til að gera saman því allir eru saman hvort eð er,“ segir Þorlákur. „Það leitaði í það sem það kunni; klassísk spil. Við höldum að margir muni hugsa hlýtt til stundanna sem það eyddi með fjölskyldunni.“

Hann telur að fólk hafi í samkomubanni áttað sig á því að það hefði ekki kennt börnum sínum klassísku, gömlu spilin sem það ólst sjálft upp við. Þar hafi skák komið sérstaklega sterk inn og juku sjónvarpsþættirnir Queens Gambit enn á skákáhugann. 

Monopoly og Catan hafa ekki verið til frá því fyrir COVID, svo fólk þurfti að leita annað líka og uppgötvaði þannig ný spil sem það hefði líklega annars látið fram hjá sér fara, segir Þorlákur. „En það er líklegt að fólk eigi eftir henda inn einum eða tveimur COVID-bröndurum á sama tíma og það stillir upp Pandemic.“


Einhverjir hafa dustað rykið af Monopoly en aðrir uppgötvuðu ný og spennandi spil
Pexels

Óvæntasta aukningin er líklega í partíspilum. Það þarf þó ekki að þýða að fólk hafi almennt verið með standandi partí í miðjum faraldri heldur er líklegri skýring sú að partíspil geta verið fjölskylduspil þegar börnin á heimilinu eru komin langt fram á unglingsaldurinn, bendir Þorlákur á. 

Skýringin á vinsældum spilanna er nokkuð augljós – við vorum öll meira og minna heima. En hvað skýrir ásókn í púsluspil að mati Þorláks? „Mig grunar ástæða þess að fólk leitaði í púsl sé af sama meiði og af hverju það leitaði í borðspil. Púsl eru þekkt stærð; það er auðvelt að samvinna púsl; púsl geta tekið eins langan tíma í einu og fólk vill; það er auðvelt að standa upp frá púsli og auðvelt að setjast niður aftur; fólk getur komið inn í púsl í miðjum klíðum og tekið þátt.“


Auglýsing

Í fjarsambandi við vinnu og skóla

Afkoma ELKO á síðasta ári var sú besta frá upphafi. „Við höfum í raun séð aukningu í sölu í öllum flokkum,“ segir Arinbjörn Hauksson, markaðsstjóri. Tölvur, sjónvörp, heimilistæki ruku út og sömuleiðis var sala í raftækjum sem tengjast afþreyingu, s.s. snjallúr og heyrnartól, mikil. 

Viðvera fólks heima við jókst gríðarlega síðastliðið ár, bæði hvað varðar frítíma og vinnu, og segir Arinbjörn hana hafa aukið þörf á raftækjum. „Margir þurftu að koma upp aðstöðu fyrir heimavinnu með tilheyrandi búnaði og sáum við það mjög greinilega, sérstaklega í fyrstu og annarri bylgju.“ 


Ekkert er betra en að vera í þægilegum fötum heimavið.
Pexels

Trendí jogginggallar slógu í gegn

En hvernig höfum við viljað klæða okkur í faraldrinum? Líkt og annars staðar í heiminum eru þægileg föt, „heimaföt“ vinsæl. Þetta segist Tania Lind, markaðsstjóri NTC, hafa fundið í sölu á fatnaði verslana fyrirtækisins. „Það helsta sem við sjáum breytingu á er að fólk sækist meira í trendí jogginggalla en áður,“ segir hún. Einnig hafa grófir skór, „boots“ eins og Tania kallar þá, notið gríðarlegra vinsælda. Þó að fólk hafi almennt ekki verið að stunda fínar samkomur á meðan samkomutakmarkanir voru mestar segir Tania alltaf eftirspurn eftir sparifötum þó að vissulega hafi hún minnkað verulega þegar faraldurinn stóð sem hæst. „Samhliða tilslökunum á samkomubanni finnum við þó samstundis fyrir aukningu á sölu á fínni fötum,“ segir hún. „Fólk þyrstir í að klæða sig upp og fara út á lífið. Ég er þó nokkuð viss um að trendí jogginggallarnir séu komnir til að vera enda einstaklega flottir og þægilegir á sama tíma.“


Skíði af ýmsum stærðum og gerðum nutu sérstakra vinsælda.
Pexels

Á skíðum skemmti ég mér, trallallala

 „Það er skemmst frá því að segja að það hefur orðið algjör sprenging í allri útivist,“ segir Ásmundur Þórðarson, markaðsstjóri Fjallakofans. Gönguskór og allur útivistarfatnaður hefur að hans sögn rokið út og sömu sögu er að segja með allan skíðabúnað. Sérstaklega segir Ásmundur áhugavert að sjá aukinn áhuga á skíðagöngu og fjallaskíðum.

„Í skíðagöngu hafa bæði hin hefðbundnu brautarskíði verið að seljast vel en mesta aukningin er í utanbrautarskíðum og búnaði tengdum þeim. Við í Fjallakofanum fáum þá tilfinningu að annar hver Íslendingur sé að fara að ganga yfir Vatnajökul á skíðum í vor og sumar.“

Margir hafa líka bæst í þann hóp sem stundar fjallaskíði þar sem hællinn er losaður og skinn sett undir skíðin til að hægt sé að ganga upp á þeim og renna sér svo niður. „Þar sem takmarkanir hafa verið á fjölda á skíðastöðum og ekki fer skíðafólk til útlanda á skíði finnst mörgum þetta spennandi valkostur.“


Útsýnið af Esjunni heillar marga.
Af Wikipedia

Upp, upp, uppá fjall

Auður Elva Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur, segir að umferð fólks um Heiðmörk og Esju hafi aukist mikið frá því faraldurinn hófst. Þannig að nýi búnaðurinn sem fólk hefur fjárfest í hefur þá væntanlega komið að góðum notum. 

Teljari var settur upp við Esjuna í desember og síðan þá ganga að meðaltali um 80 manns á fjallið hvern virkan dag og um 200 hvorn daginn um helgar. 

Augljóslega hefur góða veðrið á suðvesturhorni landsins síðustu vikur og mánuði haft sitt að segja um göngugleðina sem heltekið hefur marga. Enda fóru veðurguðirnir sérlega mjúkum höndum um höfuðborgarbúa og nærsveitamenn í febrúar á meðan svalara var norðaustanlands. Hiti var þó alls staðar yfir meðallagi síðustu 30 ára. Hann var hvorki meira né minna en 2,1 stigi yfir meðallagi í Reykjavík.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar