Mynd: Pixabay

Dauði geisladisksins, tilkoma Spotify og upprisa vínylplötunnar

Áætlað er að Spotify hafi haft um 700 milljónir króna í tekjur af íslenskum notendum á árinu 2019, og að 90 prósent allra tekna vegna sölu á tónlist hafi verið vegna streymisveitna. Sala á vínylplötum hefur þó líka tekið kipp, og átjánfaldast á örfáum árum.

Árið 1999 náði geisladiskasala hámarki á Íslandi. Það ár seldust alls 855 þúsund slíkir á landinu, eða rúmlega þrír geisladiskar á hvern þeirra 279 þúsund landsmanna sem hér bjuggu í lok þess árs. 

Tíu árum síðar hafði þessi sala helmingast, enda átti geisladiskurinn undir högg að sækja vegna ólöglegs niðurhals og nýrra stafrænna leiða til að hlusta á tónlist. Þegar tuttugu ár voru liðin frá tindinum í geisladiskasölu, árið 2019, seldust 30 þúsund geisladiskar á Íslandi. Það þýðir að salan þá var 3,5 prósent af því sem hún var 1999. 

Heildarsöluverðmæti allra hljóðrita náði líka sinni hæstu krónutölu árið 1999, þegar sala diska, platna, snælda og stafrænna skráa skilaði 757 milljónum króna í kassann. Tíu árum síðar var sú krónutala komin niður í 591 milljón króna. Krónutölumetið stóð óhaggað þangað til í hitteðfyrra, þegar salan skilaði 802 milljónum króna í kassann. 

Auglýsing

Þegar tekið er tillit til verðbólgu breytist þessi mynd þó auðvitað umtalsvert. Á verðlagi ársins 1999 skilaði salan 2019 enda um 329 milljónum króna, og því ljóst að hún hefur rúmlega helmingast að raunvirði. 

Aldrei fleiri með Spotify

Botninum í heildsöluverðmæti tónlistar á diskum, plötum, snældum og stafrænum skrám var náð árið 2014 þegar það var einungis 430 milljónir króna. Síðan þá hefur söluverðmætið hækkað ár frá ári, bæði í krónum og oftast að raunvirði. 

Þannig hefur heildsöluverðmætið aukist milli 2014 og 2019 um 66,5 prósent. Skýringin á því er nokkuð ljós: Spotify.

Talið er að um 100 þúsund manns á Íslandi séu áskrifendur að Spotify.
Mynd: Pixabay

Söluaukningu undanfarinnar ára má nánast alfarið rekja til greiðslna á stafrænum skrám í streymi, og um 98 prósent af allri streymdri tónlist á Íslandi fer í gegnum Spotify. Talið er að um 100 þúsund Íslendingar séu með áskrift að Spotify, en áskriftarkostnaður að keðjunni hélst óbreytt frá því að Spotify varð aðgengilegt á Íslandi 2013 og þangað til nýlega. Árið 2019 er áætlað að Spotify hafi haft um 700 milljónir króna í tekjur af íslenskum notendum.

Nýverið var gjaldið sem er tekið fyrir áskrift að Spotify hækkað um tíu prósent. Eiður Arnarson, framkvæmdastjóri félags íslenskra hljómplötuútgefanda, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í byrjun síðasta mánaðar að hækkunin ætti að þýða um 350 milljóna króna veltuaukningu hjá Spotify á Íslandi og að stærstur hluti þeirrar upphæðar myndi skila sér til rétthafa. 

Platan snýr aftur

Það er ekki einungis þróun í geisladiskasölu, streymisáskriftum og heildsöluverðmæti sem hafa farið í gegnum rússíbana undanfarin ár. Það hefur vínylplötusala einnig gert. 

Auglýsing

Vínylplötur deila flokki með hljóðsnældum, einnig þekktum sem kassettum, í talnasafni Hagstofu Íslands. Slá má því nokkuð föstu að lítill markaður, ef einhver, sé fyrir snældum lengur, enda gæðin ekki góð og fátt eigulegt við snælduhulstur.

Öðru máli gegnir um vínylplötur. Þær hafa gengið í gegnum endurnýjun lífdaga. 

Í byrjun tíunda áratugarins er áætlað að um 200 þúsund plötur og snældur hafi selst á ári hverju hérlendis. Þeim tók að snarfækka þegar leið á áratuginn og á aldarmótarárinu 2000 seldust einungis 13 þúsund plötur og snældur. Fjórum árum síðar var salan komin niður í um eitt þúsund á ári og helst um eða undir þeirri tölu næstu ár, eða út árið 2010.  

En síðan gerðist eitthvað. Frá árinu 2011 hefur nefnilega verið upptaktur í sölu á plötum á hverju ári. Heildarsölutölur fyrir plötur og snældur fóru aftur yfir tíu þúsund árið 2014 og fimm árum síðar, árið 2019, seldust 18 þúsund eintök á Íslandi. Salan hefur því átjánfaldast á níu árum.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar