Mynd: Pixabay

Dauði geisladisksins, tilkoma Spotify og upprisa vínylplötunnar

Áætlað er að Spotify hafi haft um 700 milljónir króna í tekjur af íslenskum notendum á árinu 2019, og að 90 prósent allra tekna vegna sölu á tónlist hafi verið vegna streymisveitna. Sala á vínylplötum hefur þó líka tekið kipp, og átjánfaldast á örfáum árum.

Árið 1999 náði geisla­diska­sala hámarki á Íslandi. Það ár seld­ust alls 855 þús­und slíkir á land­inu, eða rúm­lega þrír geisla­diskar á hvern þeirra 279 þús­und lands­manna sem hér bjuggu í lok þess árs. 

Tíu árum síðar hafði þessi sala helm­inga­st, enda átti geisla­disk­ur­inn undir högg að sækja vegna ólög­legs nið­ur­hals og nýrra staf­rænna leiða til að hlusta á tón­list. Þegar tutt­ugu ár voru liðin frá tind­inum í geisla­diska­sölu, árið 2019, seld­ust 30 þús­und geisla­diskar á Íslandi. Það þýðir að salan þá var 3,5 pró­sent af því sem hún var 1999. 

Heild­ar­sölu­verð­mæti allra hljóð­rita náði líka sinni hæstu krónu­tölu árið 1999, þegar sala diska, platna, snælda og staf­rænna skráa skil­aði 757 millj­ónum króna í kass­ann. Tíu árum síðar var sú krónu­tala komin niður í 591 milljón króna. Krónu­tölu­metið stóð óhaggað þangað til í hitteð­fyrra, þegar salan skil­aði 802 millj­ónum króna í kass­ann. 

Auglýsing

Þegar tekið er til­lit til verð­bólgu breyt­ist þessi mynd þó auð­vitað umtals­vert. Á verð­lagi árs­ins 1999 skil­aði salan 2019 enda um 329 millj­ónum króna, og því ljóst að hún hefur rúm­lega helm­ing­ast að raun­virð­i. 

Aldrei fleiri með Spotify

Botn­inum í heild­sölu­verð­mæti tón­listar á diskum, plöt­um, snældum og staf­rænum skrám var náð árið 2014 þegar það var ein­ungis 430 millj­ónir króna. Síðan þá hefur sölu­verð­mætið hækkað ár frá ári, bæði í krónum og oft­ast að raun­virð­i. 

Þannig hefur heild­sölu­verð­mætið auk­ist milli 2014 og 2019 um 66,5 pró­sent. Skýr­ingin á því er nokkuð ljós: Spoti­fy.

Talið er að um 100 þúsund manns á Íslandi séu áskrifendur að Spotify.
Mynd: Pixabay

Sölu­aukn­ingu und­an­far­innar ára má nán­ast alfarið rekja til greiðslna á staf­rænum skrám í streymi, og um 98 pró­sent af allri streymdri tón­list á Íslandi fer í gegnum Spoti­fy. Talið er að um 100 þús­und Íslend­ingar séu með áskrift að Spoti­fy, en áskrift­ar­kostn­aður að keðj­unni hélst óbreytt frá því að Spotify varð aðgengi­legt á Íslandi 2013 og þangað til nýlega. Árið 2019 er áætlað að Spotify hafi haft um 700 millj­ónir króna í tekjur af íslenskum not­end­um.

Nýverið var gjaldið sem er tekið fyrir áskrift að Spotify hækkað um tíu pró­sent. Eiður Arn­ar­son, fram­kvæmda­stjóri félags íslenskra hljóm­plötu­út­gef­anda, sagði í Morg­un­út­varp­inu á Rás 2 í byrjun síð­asta mán­aðar að hækk­unin ætti að þýða um 350 millj­óna króna veltu­aukn­ingu hjá Spotify á Íslandi og að stærstur hluti þeirrar upp­hæðar myndi skila sér til rétt­hafa. 

Platan snýr aftur

Það er ekki ein­ungis þróun í geisla­diska­sölu, streym­is­á­skriftum og heild­sölu­verð­mæti sem hafa farið í gegnum rús­sí­bana und­an­farin ár. Það hefur vín­yl­plötu­sala einnig gert. 

Auglýsing

Vín­yl­plötur deila flokki með hljóð­snæld­um, einnig þekktum sem kassett­um, í talna­safni Hag­stofu Íslands. Slá má því nokkuð föstu að lít­ill mark­að­ur, ef ein­hver, sé fyrir snældum leng­ur, enda gæðin ekki góð og fátt eigu­legt við snældu­hulst­ur.

Öðru máli gegnir um vín­yl­plöt­ur. Þær hafa gengið í gegnum end­ur­nýjun líf­daga. 

Í byrjun tíunda ára­tug­ar­ins er áætlað að um 200 þús­und plötur og snældur hafi selst á ári hverju hér­lend­is. Þeim tók að snar­fækka þegar leið á ára­tug­inn og á ald­ar­mót­ar­ár­inu 2000 seld­ust ein­ungis 13 þús­und plötur og snæld­ur. Fjórum árum síðar var salan komin niður í um eitt þús­und á ári og helst um eða undir þeirri tölu næstu ár, eða út árið 2010.  

En síðan gerð­ist eitt­hvað. Frá árinu 2011 hefur nefni­lega verið upp­taktur í sölu á plötum á hverju ári. Heild­ar­sölu­tölur fyrir plötur og snældur fóru aftur yfir tíu þús­und árið 2014 og fimm árum síð­ar, árið 2019, seld­ust 18 þús­und ein­tök á Íslandi. Salan hefur því átján­fald­ast á níu árum.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar