Mynd: Pixabay

Dauði geisladisksins, tilkoma Spotify og upprisa vínylplötunnar

Áætlað er að Spotify hafi haft um 700 milljónir króna í tekjur af íslenskum notendum á árinu 2019, og að 90 prósent allra tekna vegna sölu á tónlist hafi verið vegna streymisveitna. Sala á vínylplötum hefur þó líka tekið kipp, og átjánfaldast á örfáum árum.

Árið 1999 náði geisla­diska­sala hámarki á Íslandi. Það ár seld­ust alls 855 þús­und slíkir á land­inu, eða rúm­lega þrír geisla­diskar á hvern þeirra 279 þús­und lands­manna sem hér bjuggu í lok þess árs. 

Tíu árum síðar hafði þessi sala helm­inga­st, enda átti geisla­disk­ur­inn undir högg að sækja vegna ólög­legs nið­ur­hals og nýrra staf­rænna leiða til að hlusta á tón­list. Þegar tutt­ugu ár voru liðin frá tind­inum í geisla­diska­sölu, árið 2019, seld­ust 30 þús­und geisla­diskar á Íslandi. Það þýðir að salan þá var 3,5 pró­sent af því sem hún var 1999. 

Heild­ar­sölu­verð­mæti allra hljóð­rita náði líka sinni hæstu krónu­tölu árið 1999, þegar sala diska, platna, snælda og staf­rænna skráa skil­aði 757 millj­ónum króna í kass­ann. Tíu árum síðar var sú krónu­tala komin niður í 591 milljón króna. Krónu­tölu­metið stóð óhaggað þangað til í hitteð­fyrra, þegar salan skil­aði 802 millj­ónum króna í kass­ann. 

Auglýsing

Þegar tekið er til­lit til verð­bólgu breyt­ist þessi mynd þó auð­vitað umtals­vert. Á verð­lagi árs­ins 1999 skil­aði salan 2019 enda um 329 millj­ónum króna, og því ljóst að hún hefur rúm­lega helm­ing­ast að raun­virð­i. 

Aldrei fleiri með Spotify

Botn­inum í heild­sölu­verð­mæti tón­listar á diskum, plöt­um, snældum og staf­rænum skrám var náð árið 2014 þegar það var ein­ungis 430 millj­ónir króna. Síðan þá hefur sölu­verð­mætið hækkað ár frá ári, bæði í krónum og oft­ast að raun­virð­i. 

Þannig hefur heild­sölu­verð­mætið auk­ist milli 2014 og 2019 um 66,5 pró­sent. Skýr­ingin á því er nokkuð ljós: Spoti­fy.

Talið er að um 100 þúsund manns á Íslandi séu áskrifendur að Spotify.
Mynd: Pixabay

Sölu­aukn­ingu und­an­far­innar ára má nán­ast alfarið rekja til greiðslna á staf­rænum skrám í streymi, og um 98 pró­sent af allri streymdri tón­list á Íslandi fer í gegnum Spoti­fy. Talið er að um 100 þús­und Íslend­ingar séu með áskrift að Spoti­fy, en áskrift­ar­kostn­aður að keðj­unni hélst óbreytt frá því að Spotify varð aðgengi­legt á Íslandi 2013 og þangað til nýlega. Árið 2019 er áætlað að Spotify hafi haft um 700 millj­ónir króna í tekjur af íslenskum not­end­um.

Nýverið var gjaldið sem er tekið fyrir áskrift að Spotify hækkað um tíu pró­sent. Eiður Arn­ar­son, fram­kvæmda­stjóri félags íslenskra hljóm­plötu­út­gef­anda, sagði í Morg­un­út­varp­inu á Rás 2 í byrjun síð­asta mán­aðar að hækk­unin ætti að þýða um 350 millj­óna króna veltu­aukn­ingu hjá Spotify á Íslandi og að stærstur hluti þeirrar upp­hæðar myndi skila sér til rétt­hafa. 

Platan snýr aftur

Það er ekki ein­ungis þróun í geisla­diska­sölu, streym­is­á­skriftum og heild­sölu­verð­mæti sem hafa farið í gegnum rús­sí­bana und­an­farin ár. Það hefur vín­yl­plötu­sala einnig gert. 

Auglýsing

Vín­yl­plötur deila flokki með hljóð­snæld­um, einnig þekktum sem kassett­um, í talna­safni Hag­stofu Íslands. Slá má því nokkuð föstu að lít­ill mark­að­ur, ef ein­hver, sé fyrir snældum leng­ur, enda gæðin ekki góð og fátt eigu­legt við snældu­hulst­ur.

Öðru máli gegnir um vín­yl­plöt­ur. Þær hafa gengið í gegnum end­ur­nýjun líf­daga. 

Í byrjun tíunda ára­tug­ar­ins er áætlað að um 200 þús­und plötur og snældur hafi selst á ári hverju hér­lend­is. Þeim tók að snar­fækka þegar leið á ára­tug­inn og á ald­ar­mót­ar­ár­inu 2000 seld­ust ein­ungis 13 þús­und plötur og snæld­ur. Fjórum árum síðar var salan komin niður í um eitt þús­und á ári og helst um eða undir þeirri tölu næstu ár, eða út árið 2010.  

En síðan gerð­ist eitt­hvað. Frá árinu 2011 hefur nefni­lega verið upp­taktur í sölu á plötum á hverju ári. Heild­ar­sölu­tölur fyrir plötur og snældur fóru aftur yfir tíu þús­und árið 2014 og fimm árum síð­ar, árið 2019, seld­ust 18 þús­und ein­tök á Íslandi. Salan hefur því átján­fald­ast á níu árum.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar