Af vefnum Icceland360VR

Skjálftarnir færst sunnar – Krýsuvíkursvæðið undir sérstöku eftirliti

Skjálftarnir á Reykjanesi hafa færst aðeins til suðvesturs frá því gær. Virkni færðist í aukana snemma í morgun en órói hins vegar ekki. Krýsuvíkursvæðið er undir sérstöku eftirliti jarðvísindamanna en það kerfi teygir anga sína inn í úthverfi höfuðborgarsvæðisins.

Kvika finnur sér alltaf ein­föld­ustu leið upp á yfir­borð­ið, sagði Frey­steinn Sig­munds­son, deild­ar­stjóri jarð­vís­inda­deildar Háskóla Íslands, á blaða­manna­fundi í gær. Það sem hann átti við er að hún leitar að auð­veldasta staðnum til að brjót­ast upp um jarð­skorpuna – ef svo má að orði kom­ast. Þess vegna getur kvika ferð­ast um langan veg, jafn­vel tugi kíló­metra eins og dæmi frá fyrri eld­gosum hér á landi sanna, áður en hún kemur upp á yfir­borð­ið.

Þetta er áhuga­vert í ljósi þess að jarð­skjálft­arnir á Reykja­nesi, sem tengj­ast gliðnun í jarð­skorpunni, sem og hinn umtal­aði óró­apúls, hafa færst til suð­vest­urs frá því í gær. Nokkrir stórir skjálftar hafa orðið í morgun og var einn þeirra 4,5. Órói hefur enn ekki byrjað aftur sam­hliða þeim.

Á Reykja­nesskaga eru fimm eld­stöðvakerfi og þau eru nátengd og það virð­ist gjarnan gjósa í þeim flestum í sömu hrin­un­um. Síð­ast gerð­ist það á árunum 950-1240 og þar áður fyrir um 1.800-2.500 árum. Engar meg­in­eld­stöðvar er að finna í kerf­unum á Reykja­nesskaga og er magn gos­efna í hverju gosi að jafn­aði lítið þó að ummerki um stærri gos séu aug­ljós á svæð­inu.

Auglýsing

Kvikuinn­skot hafa ítrekað orðið í þessum kerfum und­an­farið ár án þess að það hafi valdið tjóni, benti Páll Ein­ars­son jarð­eðl­is­fræð­ingur á í RÚV í gær­kvöldi. Hins vegar er ekki hægt að úti­loka að kæmi til eld­goss við Keili, eins og líkur voru mestar taldar á í gær, gæti það haft í för með sér inn­skot á öðrum stöðum á Reykja­nesskag­an­um. Segir Páll að jafn­vel gætu opn­ast sprungur ofanjarðar án þess að eld­gos yrði á þeim stað.   



„Þegar svona virkni tekur sig upp þá virð­ist vera að öll svæðin taki und­ir,“ sagði Páll í Kast­ljósi í gær og bætti við að eina svæðið sem ekki hefði tekið undir ennþá séu Brenni­steins­fjöll en að það væri bara tíma­spurs­mál hvenær virkni hefj­ist þar líka. Sprungu­hreyf­ingar geta valdið tjóni og sagði Páll það eitt­hvað sem ekki væri hægt að horfa fram­hjá. „Kannski er það það alvar­leg­asta sem getur gerst þarna.“

Grænu stjörnurnar tákna skjálfta sem eru yfir 3 að stærð. Mynd birt kl. 9.35 í morgun.
Veðurstofa íslands

Í gær mæld­ust um 2.500 jarð­skjálftar og frá mið­nætti hafa yfir 800 skjálftar mælst. Frá því jarð­skjálfta­hrinan hófst fyrir viku hafa ríf­lega 18.000 jarð­skjálftar orð­ið. Mesta virknin hefur verið bundin við Fagra­dals­fjall en hún hefur nú, eins og fyrr seg­ir, færst suð­vest­ar. Páll sagði í Kast­ljósi að litlir skjálftar síð­degis í gær hefðu verið „óþægi­lega nálægt“ Krýsu­vík­ur­svæð­inu en það teygir anga sína alla leið inn í úthverfi höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins. Því er það svæði undir sér­stöku eft­ir­liti jarð­vís­inda­manna.

Á ára­bil­inu 1150-1180 urðu veru­leg eldsum­brot í Krýsu­vík­ur­kerf­inu og opn­uð­ust nokkrar gossprungur í þeirri hrinu. Hafa þessi eld­gos verið nefnd Krýsu­vík­ur­eld­ar. Hraun runnu þá til sjávar báðu megin við Reykja­nesskag­ann. Þá varð gos við Sveiflu­háls um 1180. Ekki virð­ist hins­vegar hafa gosið í kerf­inu í Reykja­nes­eld­unum á 13. öld þegar mikil gos­hrina gekk yfir vestar á skag­an­um.

Krýsuvíkureldar urðu á árunum 115-1180. Nokkrar sprungur opnuðust í þeirri hrinu.
Wikipedia

Óró­apúlsinn, sem hófst klukkan 14.20 í gær, er sam­felld hrina lít­illa og þéttra skjálfta. Hann er til marks um að „greini­leg umbrot eru í gangi“ líkt og Kristín Jóns­dótt­ir, hóp­stjóri nátt­úru­vár­vökt­unar Veð­ur­stofu Íslands, sagði á blaða­manna­fundi í gær. Sagði hún „ein­hvers konar sig­dæld á yfir­borði“ hafa mynd­ast og að hugs­an­lega hafi orðið „meiri tognun en við höfum séð hingað til“. Nýjar gervi­tungla­myndir voru teknar í gær og verður rýnt í þær í dag til að meta stöð­una. „Þetta er mjög krítísk staða – órói sem sýnir að kvika sé að brjóta skorpuna en óvíst hvert hún leitar og hvert þetta ferli fer,“ sagði Frey­steinn Sig­munds­son, deild­ar­for­seti jarð­vís­inda­deildar Háskóla Íslands, í gær.



Eins og staðan er núna er ekki hægt að segja til um nákvæm­lega hvar eða hvenær – og jafn­vel hvort – að kvikan brýtur séð leið upp á yfir­borð­ið. Fyrri jarð­hrær­ingar benda til að það geti gerst eftir nokkra klukku­tíma en einnig að það geti verið margir dagar í það.



Vika er síðan að jarð­skjálfta­hrina hófst á Reykja­nesskaga með 5,7 stiga skjálfta við Fagra­fjall. Hund­ruð skjálfta hafa orðið síðan og margir þeirra yfir 4 að stærð.  Jörð hefur þó skolfið þar allt frá upp­hafi síð­asta árs en þeirri hrinu fylgdi land­ris við fjallið Þor­björn, skammt frá Grinda­vík.



Auglýsing

Reykja­nesskag­inn er yngsti hluti Íslands. Hann er mjög eld­brunn­inn og dregur nafn sitt af all­miklu gufu- og leir­hvera­svæði, eins og segir í ítar­legri grein Magn­úsar Á. Sig­ur­geirs­sonar jarð­fræð­ings í Nátt­úru­fræð­ingnum frá árinu 1995. 

 Eld­stöðvakerfin fimm á skag­anum eru: Reykja­neskerf­ið, sem er vest­ast, Svarts­engi, sem er norður af Grinda­vík, Fagra­dals­fjall, sem er litlu austar, Krýsu­vík­ur­kerf­ið, kennt við Krísu­vík, og svo Brenni­steins­fjalla­kerf­ið, sem einnig er stundum kennt við Blá­fjöll.



Í sam­an­tekt Magn­úsar og fleiri í Íslensku eld­fjalla­vefsjánni kemur fram að eld­stöðvakerfi Reykja­ness hafi verið í með­al­lagi virkt. Norð­ur­hluti þess renni inn í kerfi Svarts­engis en syðstu níu kíló­metr­arnir séu undir sjáv­ar­máli. Á nútíma (síð­ustu tíu þús­und árin eða svo) hafa þar orðið fleiri en fimmtán gos. Eld­gos á landi hafa ein­kennst af hraun­flæði en í sjó hafa orðið „surtseysk sprengigos“ eins og það er orð­að.



Þessi teikning eftir Ásberg H. Sigurgeirsson fylgir grein Magnúsar Á. Sigurgeirssonar í Náttúrufræðingnum. Um hugsýn Magnúsar af Reykjaneseldum er að ræða, segir við myndina.

Frá land­námi hefur þrisvar sinnum gosið á Reykja­nesi, síð­ast á árunum 1211-1240 og eru þeir atburðir kall­aðir Reykja­nes­eld­ar. Á því tíma­bili gaus nokkrum sinn­um, þar af urðu þrjú gos í eld­stöðvakerfi sem kennt er við Svarts­engi. Eld­gosin voru hraun­gos á 1-10 kíló­metra löngum gossprung­um. Gos­virkni á Reykja­nes­i-­Svarts­engi ein­kenn­ist af goslotum eða eldum sem geta varað í ára­tugi og má búast við goslotu á um 1100 ára fresti.



Í Reykja­nes­eldum urðu sam­an­lagt minnst sex gos með hléum og vörðu frá tveimur til tólf ára. Gos­virknin hófst í eld­stöðvakerf­inu Reykja­nesi og færð­ist svo í átt til Svarts­engis á seinni stigum eld­anna. Á Reykja­nesi mynd­að­ist eitt hraun en þrjú við Svarts­engi. „Surtseysk gos“ urðu í sjó við Reykja­nes í eld­unum og mynd­uðu fjögur gjósku­lög. Tvö þess­ara gjósku­laga hafa fund­ist á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, í um 45 kíló­metra fjar­lægð, að því er fram kemur á Íslensku eld­fjallal­vefsjánni.



Reykja­nes­eldar tóku til alls vest­an­verðs Reykja­nesskag­ans. Sam­bæri­legir eldar voru einnig í gangi í Brenni­steins­fjöllum aust­ast á skag­anum á 10. öld. Á 12. öld urðu svo Krýsu­vík­ur­eldar um mið­hluta skag­ans, líkt og fram kemur í grein Magn­ús­ar.

Surtseyjargosið 30. nóvember 1963, rúmum tveimur vikum eftir að gossins varð fyrst vart.
Wikipedia

Gjóska í allt að 100 kíló­metra fjar­lægð



All­mörg neð­an­sjáv­ar­gos hafa orðið á Reykja­nes­hrygg síð­ustu ald­ir. Öfl­ugt gos varð suður af Eld­eyj­ar­boða árið 1783. Þá mynd­að­ist eyja sem hvarf þó stuttu síðar vegna ágangs sjáv­ar. Á 19. öld er vitað um þrjú gos á þessum slóð­um, segir í Íslensku eld­fjalla­vefsjánni, og á 20. öld­inni varð nokkrum sinnum vart við ólgu í sjó og gjósku­þústir sem lík­lega hafa verið af völdum lít­illa neð­an­sjáv­ar­gosa.



Stærsta þekkta gos á Reykja­nesi var sprengigos árið 1226. Í eld­fjalla­vefsjánni segir að gjóska úr því hafi borist með vindum til aust­urs og norð­aust­urs, þakið allan Reykja­nesskag­ann og fund­ist í jarð­vegi í allt að 100 kíló­metra fjar­lægð frá upp­tök­um.



Þá segir að rit­aðar heim­ildir gefi í skyn að gjósku­fallið hafi valdið heilsu­bresti í búfé á nær­liggj­andi svæð­um. Einnig kunni að hafa orðið jarð­vegseyð­ing á vest­ur­hluta Reykja­nesskaga. Lengd goss­ins er ekki þekkt en senni­lega hefur það varað í nokkrar vik­ur.



Auglýsing

Í grein Magn­úsar í Nátt­úru­fræð­ingnum kemur fram að heim­ildir geti um fjölda gosa í sjó undan Reykja­nesi eftir land­nám en aðeins eitt á landi. Í heim­ildum sé hins vegar hvergi sagt berum orðum að hraun hafi runnið á Reykja­nesi en helst er þó ýjað að því í frá­sögnum við árin 1210-1211.



 Í Odd­verja­an­nál segir til dæm­is: „Elldur wm Reyi­anes: Saurli fann Elldeyjar hinar nyo enn hinar horfnar er alla æfi haufdu stadit.“



Sé þessi setn­ing færð til nútíma­máls er hún á þá leið að Sörli Kols­son hafi fundið „Eld­eyjar hinar nýju en að hinar hafi horfið er áður stóð­u“.



Magnús bendir á að alls sé óvíst hvort eða hvernig þessi frá­sögn tengd­ist þeirri Eldey sem við sjáum í dag en ekk­ert úti­loki að hún sé frá þessum tíma.



„Jörðin skalf öll og pipraði af ótta“



Í öðrum frá­sögnum af gosum í sjó á 13. öld er ávallt talað um eld­gos eða elda í sjó við eða fyrir Reykja­nesi. Það bend­ir, að mati Magn­ús­ar, ótví­rætt til goss í sjó.



Í Páls sögu bisk­ups segir við árið 1211: „Jörðin skalf öll og pipraði af ótta; himin ok skýin grétu, svá at mik­ill hlutr spillt­ist jarðar ávaxt­ar­ins, en him­in­tún­glin sýndu dauða­tákn ber á sér, þá náliga var komit at hinum efstum lífs­stundum Páls bisk­ups, en sjór­inn brann ok fyrir land­inu þá; þar sem hans bisk­ups­dómur stóð yfir sýnd­ist náliga allar höfut­skepnur nokkut hrygð­ar­mark á sér sýna frá hans frá­fall­i“.



Eldstöðvakerfin á Reykjanesi sem og kerfið sem kennt er við Hengil.
Ísor

Magnús útskýrir í grein sinni að þegar sagt er að him­in­tunglin sýni á sér dauða­tákn sé vel hugs­an­legt að þar sé vísað til móðu í lofti sem gjarnan er fylgi­fiskur hraun­gosa og að sól og tungl hafi af þeim sökum sýnst rauð.



 „Mik­il­vægt hlýtur að telj­ast að þekkja eðli og hætti eld­virkn­innar á Reykja­nesi vegna hinnar ört vax­andi byggðra og umsvifa manna á Suð­ur­nesju­m,“ skrif­aði Magnús í grein sinni árið 1995. „Víst má telja að komi upp hraun á Reykja­nesi í náinni fram­tíð verða mann­virki þar í veru­legri hættu og af gjósku­gosi við strönd­ina get­ur, auk tjóns á mann­virkj­um, orðið veru­leg röskun á sam­göngum í lofti, á landi og í sjó.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar