283 lítra af vatni þarf til framleiða eitt kíló af „græna gullinu“
Sprenging í eftirspurn eftir avókadó hefur orðið til þess að skógar hafa verið ruddir, ár og lækir mengaðir og mikilvægum vistkerfum stefnt í voða. Eiturlyfjahringir sjá sér leik á borði og kúga fé út úr smábændum og nota viðskipti með ávöxtinn til peningaþvættis. Einhverjir gætu fengið sting í sitt meðvitaða neytendahjarta en rétta viðbragðið er ekki endilega að sniðganga hina ljúffengu lárperu.
Á sumum svæðum í Kólumbíu ná avókadó-akrar í hlíðum Andes-fjallanna og umhverfis þau svo langt sem augað eygir. Þarna var áður blómleg kaffibaunarækt en vegna öfga í veðri og ítrekaðs uppskerubrests síðasta áratuginn eða svo og mikilla sveiflna í markaðsverði hafa margir bændanna horfið frá kaffinu – ekki síst í ljósi þess að sprenging hefur orðið í eftirspurn á verðmætari framleiðsluvöru: Hinu perulaga avókadó sem fólk vill ýmist flokka sem grænmeti eða ávöxt.
Af þessari þróun hafa náttúruverndarsinnar og vísindamenn í umhverfisfræðum nokkrar áhyggjur enda náttúra Kólumbíu með þeirri fjölskrúðugustu í víðri veröld. Sífellt meira land er brotið undir ræktun „græna gullsins“ og óttast er að þetta muni að endingu hafa áhrif á líffræðilegan fjölbreytileika.
Vinsældir avókadó hófu að aukast hratt á níunda áratug síðustu aldar er banni á innflutningi þeirra frá Mexíkó frá árinu 1914 var aflétt í Bandaríkjunum. Það er hins vegar aðeins um áratugur frá því að sannkallað æði greip um sig í hinum vestræna heimi sem varð til þess að bændurnir í Kólumbíu og víðar í Suður-Ameríku ákváðu margir hverjir að hefja ræktun á avókadó. Þar sem eftirspurnin hafði skyndilega rokið upp úr öllu valdi fékkst á sama tíma gott verð fyrir vöruna. Og útflutningur til Bandaríkjanna, Evrópu og Asíu hófst.
Árið 2014, þegar framleiðsla á avókadós hófst í Kólumbíu, voru flutt út 1.400 tonn. Árið 2020 var þessi tala komin upp í 545 þúsund tonn. Það er hins vegar ekki langt síðan að um 80 prósent alls avókadós af þessari tegund (e. hass avocado) var framleitt í Bandaríkjunum, fyrst og fremst í hinni sólríku Kaliforníu. Í dag er Kólumbía orðinn þriðji stærsti útflytjandinn á heimsvísu.
Avókadó-æðið á sér margar skýringar. Fyrir nokkrum árum var farið að kalla þetta „ofurfæðu“, ristað brauð með avókadó varð vinsælt meðlæti á kaffihúsum og ekki má gleyma stórauknum vinsældum guacamole, ídýfunnar fagurgrænu. Talið er að áhorfendur Super Bowl, úrslitaleik NFL-deildarinnar í amerískum fótbolta, hafi árið 2018 neytt um 200 milljón stykkja af avókadó, auðvitað að mestu leyti í formi guacamole. Bandaríkjamenn flytja gríðarlegt magn af ávextinum inn þrátt fyrir innlenda framleiðslu, aðallega frá Mexíkó.
Lárperan fer vel ofan í landann
Íslendingar elska líka avókadó. Og ekkert í neinum smá skömmtum. Ef við gefum okkur að hvert avókadó sé að meðaltali um 180 grömm þá voru flutt inn rúmlega 13 avókadó á hvert mannsbarn á Íslandi í fyrra. Ef við gefum okkur að þyngd hvers þeirra sé 150 grömm erum við farin að tala um 15 avókadó á mann. Ef við miðum við um það bil meðalþyngd lítilla avókadó sem seld eru í plastnetum í íslenskum matvöruverslunum verða lárperur á mann 23. Og þá eru ungbörn og matvandir ekki undanskilin.
Í fyrra voru í heildina flutt inn rúmlega milljón kíló eða þúsund tonn af lárperum líkt og ávöxturinn kallast á íslensku. Enn meira eða tæplega 1,1 milljón kíló (1.100 tonn) voru flutt inn árið 2019. Fyrstu átta mánuðina í ár hafa verið flutt inn 670 tonn, samkvæmt tölum Hagstofunnar.
Jákvæðu áhrifin
Að fara úr kaffinu í avókadórækt hefur skilað jákvæðum efnahagslegum áhrifum víða í Kólumbíu. Laun hafa hækkað, verkamennirnir njóta kjara á borð við heilbrigðistrygginga og velferðarþjónusta hefur batnað í sveitunum þar sem mesta framleiðslan er. Það sama er uppi á teningnum í Mexíkó, fátækir bændur hafa brotist út úr fátækt og geta séð sér og sínum farborða.
Kólumbía og önnur lönd í Suður- og Mið-Ameríku eru ekki einu löndin sem tók við sér er avókadó-sprengingin varð. Víða í Austur-Afríku og Nígeríu hafa bændur tekið þessari dellu Vesturlandabúa fagnandi og gert nákvæmlega það sama og bændur í Kólumbíu: Farið að rækta avókadó í stórum stíl.
En það sem fer upp á gríðarhraða kemur oft hratt niður aftur og einmitt það veldur áhyggjum. Ekki síst vegna þess að á sumum svæðum er byrjað að rækta avókadó við það sem ekki er hægt að kalla kjöraðstæður ávaxtarins. Það þýðir að meira þarf til ræktunarinnar. Ekki síst vatn. Og það hefur svo áhrif á aðrar tegundir plantna og dýra.
Mest flutt inn frá Chile
Avókadó hefur síðustu tvö árin verið flutt inn hér á landi frá 35 löndum. Langmest er þó flutt inn frá einu landi: Chile.
Hollensk samtök, Water Footprint Network, sem rekja „vatnsfótspor“ ýmissa vara hafa komist að því að það þurfi um 283 lítra af áveituvatni að meðaltali til að framleiða eitt kíló af avókadó í Chile. Það er fjórum sinnum meira en þarf til að framleiða eitt kíló af appelsínum og tíu sinnum meira en það sem þarf til að rækta sama magn af tómötum. Þetta þýðir einnig að það þarf um 70 lítra af vatni til að framleiða aðeins eitt stykki af avókadó í landinu. Þá er ekki tekið með í reikninginn sá vökvi sem tréð fær vegna rigninga.
Mjög misjafnt getur verið eftir landsvæðum og heimshlutum hversu miklu vatni þarf að veita á avókadó-akra. Innan Chile er munurinn t.d. gríðarlegur. Á þeim svæðum þar sem mest er framleitt af ávextinum (t.d. í Petorca-héraði) þarf 1.280 lítra vatns á hvert kíló að mati Water Footprint Network sem þýðir að um 320 lítra þarf til að framleiða aðeins eitt stykki á þeim slóðum.
Þessi gríðarlega vatnsnotkun er eitt en fleiri neikvæð umhverfisáhrif geta fylgt framleiðslunni. Eftir því sem ræktun avókadó fer lengra frá kjöraðstæðum ávaxtarins þarf að nota meira af skordýraeitri og áburði.
Hærra og hærra
Árekstrar eru að verða tíðari milli þeirra sem standa vilja vörð um náttúruna og land sitt í Kólumbíu og fyrirtækjunum sem vilja rækta avókadó í stórum stíl. Dæmi eru um að avókadó-trjám hafi verið plantað í friðlöndum sem njóta verndar vegna einstaks lífríkis þar sem oft má finna heimkynni dýrategunda í viðkvæmri stöðu eða útrýmingarhættu. Þetta vandamál er ekki bundið við Kólumbíu.
Stórtækir ræktendur hafa undanfarin ár stöðugt fært sig hærra upp í hlíðar Andes-fjallanna og plantað í viðkvæmum vistkerfum þeirra. Þetta er gert til stýra framboðinu betur. Ávextir trjáa í mikilli hæð þroskast seinna og utan hinnar hefðbundnu uppskerutíðar. Þannig er hægt að bjóða neytendum avókadó árið um kring og halda verðsveiflum í lágmarki.
Hvergi er framleitt meira af avókadó en í Mexíkó. Ólöglegt skógarhögg hefur fylgt þessari miklu framleiðslu og jarðir hafa verið hrifsaðar af smábændum í stórum stíl eða þeir beittir fjárkúgunum. Þekkt er einnig að glæpagengi nota viðskipti með avókadó til peningaþvættis. Í ágúst árið 2019 héngu nítján limlest hálfnakin lík lögreglumanna fram af brú í mexíkósku borginni Uruapan.
Þessar aftökur voru þegar í stað tengdar við ofbeldi fíkniefnahringja á svæðinu. Einn þeirra lýsti meira að segja yfir ábyrgð á morðunum. En þetta er ekki aðeins barátta um viðskipti með fíkniefni. Þetta er stríð um yfirráð yfir avókadó-viðskiptum og fé sem fæst frá bændum með kúgunum.
Árið 2019, svo dæmi sé tekið, voru flutt inn til Íslands yfir 1.600 tonn af avókadó til Íslands.
„Blóðavókadó“
Hinn perulaga ávöxtur er orðinn nýjasti átakavarningur heimsins. Við blóðdemöntum hafa tekið blóðávextir.
Hvergi í heiminum er hættulegra að berjast fyrir náttúruna og umhverfið en í Kólumbíu. Í fyrra voru 227 manneskjur sem börðust fyrir umhverfið drepnar, langflestar í fátækari ríkjum þar sem lög og regla er virt að vettugi, rannsóknir morða í skötulíki og mútugreiðslur til yfirvalda daglegt brauð. 65 „varðmenn umhverfisins“, líkt og Global Witness kallar þá í skýrslu sinni, voru drepnir í Kólumbíu í fyrra. Um helmingur þeirra voru smábændur sem m.a. voru að verjast ágangi fyrirtækja í stórtækum landbúnaði.
Margir velta skiljanlega fyrir sér hvort að í ljósi alls þessa, umhverfisáhrifanna og blóðugu átakanna sem skapast um ræktun avókadó í Rómönsku-Ameríku, ætti fólk að sniðganga avókadó sem þaðan kemur. Sum kaffi- og veitingahús á Bretlandseyjum hafa þegar gert það og hafa hvatt aðra til að gera slíkt hið sama. Frekar ætti að kaupa avókadó frá öðrum löndum, eins og t.d. Bretlandi og Írlandi.
Aðrir telja slíka sniðgöngu lítið hjálpa, að minnsta kosti í baráttunni við eiturlyfjahringina. „Þegar bændur eru ofsóttir af glæpagengjum er glórulaust að refsa þeim enn frekar efnahagslega,“ skrifaði Ioan Grillo í leiðara í New York Times í fyrra. Grillo hefur skrifað fréttir og fréttaskýringar um eiturlyfjahringina og ofbeldisverk þeirra í Mexíkó í tvo áratugi. „Við þurfum að þrýsta á mexíkósk yfirvöld að stöðva kúgunina í stað þess að refsa fyrirtækjunum.“ Sniðganga á avókadó myndi að hans mati hafa áhrif á þúsundir „harðduglegra fjölskyldna sem hafa sér ekkert til saka unnið“.
Grillo segir líklegt að eiturlyfjahringirnir noti avókadó-viðskipti til peningaþvættis. En það geri þeir á mörgum öðrum sviðum.
Hvað umhverfisáhrifin snertir segir hann það einnig rétt að þau geti verið mikil og alvarleg. En að sama skapi þá sé skógareyðing og mengun vatnsbóla ekki eingöngu bundin við ræktun á avókadó. Vandinn felist í umhverfislöggjöfinni og eftirliti. Báða þessa þætti þurfi að styrkja í stað þess að ráðast á bændurna sem flestir fylgja lögum og reglum. Það er engin tilviljun að stórtækur landbúnaður með miklum umhverfisáhrifum blómstrar í löndum eins og Kólumbíu og Mexíkó þar sem löggjöfin er veik og yfirvöld líta oft í hina áttina þegar hún er brotin.
Kaupa vopnin löglega í Bandaríkjunum
Ein helsta ástæða þess að eiturlyfjahringjunum tekst að kúga fé út úr saklausum avókadó-bændum er þeirra mikla vopnaeign. Þeir kaupa byssur löglega í Bandaríkjunum og smygla þeim svo í stórum stíl til Mexíkó. Peningaþvætti þeirra á eiturlyfjagróðanum nær til stórfyrirtækja og banka um allan heim. Í þessu liggur stóra vandamálið og á þessum þáttum; vopnasmygli og peningaþvætti, þarf að taka. Slíkar ákvarðanir liggja hjá stjórnvöldum ríkja á borð við Bandaríkin og annarra sem eiga viðskipti við lönd þar sem lög eru kerfisbundið brotin. Innflutningsfyrirtæki geta líka gert sitt og valið að versla aðeins við framleiðendur sem geta sýnt fram á sjálfbæra ræktun. Neytendur geta vissulega lagt sín lóð á vogarskálarnar, t.d. með því að þrýsta á stjórnvöld og innflytjendur að beita sér.
„En þú getur notið áfram hins einstaklega bragðgóða guacamole,“ skrifar Grillo til áhyggjufullra neytenda. „Að hætta að borða það er ekki að fara að fella eiturlyfjahringina.“