EPA

283 lítra af vatni þarf til framleiða eitt kíló af „græna gullinu“

Sprenging í eftirspurn eftir avókadó hefur orðið til þess að skógar hafa verið ruddir, ár og lækir mengaðir og mikilvægum vistkerfum stefnt í voða. Eiturlyfjahringir sjá sér leik á borði og kúga fé út úr smábændum og nota viðskipti með ávöxtinn til peningaþvættis. Einhverjir gætu fengið sting í sitt meðvitaða neytendahjarta en rétta viðbragðið er ekki endilega að sniðganga hina ljúffengu lárperu.

Á sumum svæðum í Kól­umbíu ná avóka­dó-akrar í hlíðum And­es-fjall­anna og umhverfis þau svo langt sem augað eyg­ir. Þarna var áður blóm­leg kaffi­bauna­rækt en vegna öfga í veðri og ítrek­aðs upp­skeru­brests síð­asta ára­tug­inn eða svo og mik­illa sveiflna í mark­aðs­verði hafa margir bænd­anna horfið frá kaff­inu – ekki síst í ljósi þess að spreng­ing hefur orðið í eft­ir­spurn á verð­mæt­ari fram­leiðslu­vöru: Hinu peru­laga avókadó sem fólk vill ýmist flokka sem græn­meti eða ávöxt.

Af þess­ari þróun hafa nátt­úru­vernd­ar­sinnar og vís­inda­menn í umhverf­is­fræðum nokkrar áhyggjur enda nátt­úra Kól­umbíu með þeirri fjöl­skrúð­ug­ustu í víðri ver­öld. Sífellt meira land er brotið undir ræktun „græna gullsins“ og ótt­ast er að þetta muni að end­ingu hafa áhrif á líf­fræði­legan fjöl­breyti­leika.

Vin­sældir avókadó hófu að aukast hratt á níunda ára­tug síð­ustu aldar er banni á inn­flutn­ingi þeirra frá Mexíkó frá árinu 1914 var aflétt í Banda­ríkj­un­um. Það er hins vegar aðeins um ára­tugur frá því að sann­kallað æði greip um sig í hinum vest­ræna heimi sem varð til þess að bænd­urnir í Kól­umbíu og víðar í Suð­ur­-Am­er­íku ákváðu margir hverjir að hefja ræktun á avóka­dó. Þar sem eft­ir­spurnin hafði skyndi­lega rokið upp úr öllu valdi fékkst á sama tíma gott verð fyrir vör­una. Og útflutn­ingur til Banda­ríkj­anna, Evr­ópu og Asíu hófst.

Árið 2014, þegar fram­leiðsla á avóka­dós hófst í Kól­umbíu, voru flutt út 1.400 tonn. Árið 2020 var þessi tala komin upp í 545 þús­und tonn. Það er hins vegar ekki langt síðan að um 80 pró­sent alls avóka­dós af þess­ari teg­und (e. hass avocado) var fram­leitt í Banda­ríkj­un­um, fyrst og fremst í hinni sól­ríku Kali­forn­íu. Í dag er Kól­umbía orð­inn þriðji stærsti útflytj­and­inn á heims­vísu.

Unnið á avókadó-akri í Kólumbíu.
EPA

Avóka­dó-æðið á sér margar skýr­ing­ar. Fyrir nokkrum árum var farið að kalla þetta „of­ur­fæð­u“, ristað brauð með avókadó varð vin­sælt með­læti á kaffi­húsum og ekki má gleyma stór­auknum vin­sældum guacamo­le, ídýf­unnar fag­ur­grænu. Talið er að áhorf­endur Super Bowl, úrslita­leik NFL-­deild­ar­innar í amer­ískum fót­bolta, hafi árið 2018 neytt um 200 milljón stykkja af avókadó, auð­vitað að mestu leyti í formi guacamole. Banda­ríkja­menn flytja gríð­ar­legt magn af ávext­inum inn þrátt fyrir inn­lenda fram­leiðslu, aðal­lega frá Mexíkó.

Lárperan fer vel ofan í land­ann

Íslend­ingar elska líka avóka­dó. Og ekk­ert í neinum smá skömmt­um. Ef við gefum okkur að hvert avókadó sé að með­al­tali um 180 grömm þá voru flutt inn rúm­lega 13 avókadó á hvert manns­barn á Íslandi í fyrra. Ef við gefum okkur að þyngd hvers þeirra sé 150 grömm erum við farin að tala um 15 avókadó á mann. Ef við miðum við um það bil með­al­þyngd lít­illa avókadó sem seld eru í plast­netum í íslenskum mat­vöru­versl­unum verða lárperur á mann 23. Og þá eru ung­börn og mat­vandir ekki und­an­skil­in.

Í fyrra voru í heild­ina flutt inn rúm­lega milljón kíló eða þús­und tonn af lárperum líkt og ávöxt­ur­inn kall­ast á íslensku. Enn meira eða tæp­lega 1,1 milljón kíló (1.100 tonn) voru flutt inn árið 2019. Fyrstu átta mán­uð­ina í ár hafa verið flutt inn 670 tonn, sam­kvæmt tölum Hag­stof­unn­ar.

Jákvæðu áhrifin

Að fara úr kaff­inu í avóka­dórækt hefur skilað jákvæðum efna­hags­legum áhrifum víða í Kól­umbíu. Laun hafa hækk­að, verka­menn­irnir njóta kjara á borð við heil­brigð­is­trygg­inga og vel­ferð­ar­þjón­usta hefur batnað í sveit­unum þar sem mesta fram­leiðslan er. Það sama er uppi á ten­ingnum í Mexíkó, fátækir bændur hafa brot­ist út úr fátækt og geta séð sér og sínum far­borða.

Kól­umbía og önnur lönd í Suð­ur- og Mið-Am­er­íku eru ekki einu löndin sem tók við sér er avóka­dó-­spreng­ingin varð. Víða í Aust­ur-Afr­íku og Nígeríu hafa bændur tekið þess­ari dellu Vest­ur­landa­búa fagn­andi og gert nákvæm­lega það sama og bændur í Kól­umbíu: Farið að rækta avókadó í stórum stíl.

Guacamole, ídýfan sem allir geta gert og flestir elska með snakkinu.
Pexels

En það sem fer upp á gríð­ar­hraða kemur oft hratt niður aftur og einmitt það veldur áhyggj­um. Ekki síst vegna þess að á sumum svæðum er byrjað að rækta avókadó við það sem ekki er hægt að kalla kjörað­stæður ávaxt­ar­ins. Það þýðir að meira þarf til rækt­un­ar­inn­ar. Ekki síst vatn. Og það hefur svo áhrif á aðrar teg­undir plantna og dýra.

Mest flutt inn frá Chile

Avókadó hefur síð­ustu tvö árin verið flutt inn hér á landi frá 35 lönd­um. Lang­mest er þó flutt inn frá einu landi: Chile.

Hol­lensk sam­tök, Water Foot­print Network, sem rekja „vatns­fótspor“ ýmissa vara hafa kom­ist að því að það þurfi um 283 lítra af áveitu­vatni að með­al­tali til að fram­leiða eitt kíló af avókadó í Chile. Það er fjórum sinnum meira en þarf til að fram­leiða eitt kíló af app­el­sínum og tíu sinnum meira en það sem þarf til að rækta sama magn af tómöt­um. Þetta þýðir einnig að það þarf um 70 lítra af vatni til að fram­leiða aðeins eitt stykki af avókadó í land­inu. Þá er ekki tekið með í reikn­ing­inn sá vökvi sem tréð fær vegna rign­inga.

Loftmynd af skraufaþurrum dal við hlið avókadó-ekru í Petorca-héraði í Chile. Rosalba Quiroz á hús í dalnum en þar hefur fjölskyldan hennar stundað búskap í margar kynslóðir. Hún neitar að yfirgefa húsið sitt sem stendur við bakka uppþornaðar ár. Þegar hún skrúfar frá krana í húsinu kemur lítið sem ekkert vatn. Þetta er að gerast víða í Chile. Þúsundir heimila hafa ekki aðgang að rennandi vatni vegna þess að auðlindin, vatnið, hefur verið einkavædd. Eigandi avókadó-ekrunnar þarf ekki að örvænta. Hann kaupir vatn, í tugþúsunda lítra vís til að vökva avókadótrén.
EPA

Mjög mis­jafnt getur verið eftir land­svæðum og heims­hlutum hversu miklu vatni þarf að veita á avóka­dó-akra. Innan Chile er mun­ur­inn t.d. gríð­ar­leg­ur. Á þeim svæðum þar sem mest er fram­leitt af ávext­inum (t.d. í Petorca-hér­aði) þarf 1.280 lítra vatns á hvert kíló að mati Water Foot­print Network sem þýðir að um 320 lítra þarf til að fram­leiða aðeins eitt stykki á þeim slóð­um.

Þessi gríð­ar­lega vatns­notkun er eitt en fleiri nei­kvæð umhverf­is­á­hrif geta fylgt fram­leiðsl­unni. Eftir því sem ræktun avókadó fer lengra frá kjörað­stæðum ávaxt­ar­ins þarf að nota meira af skor­dýra­eitri og áburði.

Hærra og hærra

Árekstrar eru að verða tíð­ari milli þeirra sem standa vilja vörð um nátt­úr­una og land sitt í Kól­umbíu og fyr­ir­tækj­unum sem vilja rækta avókadó í stórum stíl. Dæmi eru um að avóka­dó-trjám hafi verið plantað í frið­löndum sem njóta verndar vegna ein­staks líf­ríkis þar sem oft má finna heim­kynni dýra­teg­unda í við­kvæmri stöðu eða útrým­ing­ar­hættu. Þetta vanda­mál er ekki bundið við Kól­umbíu.

Stór­tækir rækt­endur hafa und­an­farin ár stöðugt fært sig hærra upp í hlíðar And­es-fjall­anna og plantað í við­kvæmum vist­kerfum þeirra. Þetta er gert til stýra fram­boð­inu bet­ur. Ávextir trjáa í mik­illi hæð þroskast seinna og utan hinnar hefð­bundnu upp­skeru­tíð­ar. Þannig er hægt að bjóða neyt­endum avókadó árið um kring og halda verð­sveiflum í lág­marki.

Félagi í heimavarnarliði hóps sem kallar sig Pueblos Unidos stendur vörð um veg að avókadó-ekru í Michoacan í Mexíkó í sumar. Í héraðinu hafa glæpagengi hreiðrað um sig, versla með fíkniefni og avókadó sem er þar framleitt í stórum stíl. Þótt hópurinn neiti því segja yfirvöld hann og fleiri sambærilega tengjast eiturlyfjahringjum.
EPA

Hvergi er fram­leitt meira af avókadó en í Mexíkó. Ólög­legt skóg­ar­högg hefur fylgt þess­ari miklu fram­leiðslu og jarðir hafa verið hrifs­aðar af smá­bændum í stórum stíl eða þeir beittir fjár­kúg­un­um. Þekkt er einnig að glæpa­gengi nota við­skipti með avókadó til pen­inga­þvætt­is. Í ágúst árið 2019 héngu nítján lim­lest hálf­nakin lík lög­reglu­manna fram af brú í mexíkósku borg­inni Uru­ap­an.

Þessar aftökur voru þegar í stað tengdar við ofbeldi fíkni­efna­hringja á svæð­inu. Einn þeirra lýsti meira að segja yfir ábyrgð á morð­un­um. En þetta er ekki aðeins bar­átta um við­skipti með fíkni­efni. Þetta er stríð um yfir­ráð yfir avóka­dó-við­skiptum og fé sem fæst frá bændum með kúg­un­um.

Árið 2019, svo dæmi sé tek­ið, voru flutt inn til Íslands yfir 1.600 tonn af avókadó til Íslands.

„Blóða­vóka­dó“

Hinn peru­laga ávöxtur er orð­inn nýjasti átaka­varn­ingur heims­ins. Við blóð­demöntum hafa tekið blóð­á­vext­ir.

Hvergi í heim­inum er hættu­legra að berj­ast fyrir nátt­úr­una og umhverfið en í Kól­umbíu. Í fyrra voru 227 mann­eskjur sem börð­ust fyrir umhverfið drepn­ar, lang­flestar í fátæk­ari ríkjum þar sem lög og regla er virt að vettugi, rann­sóknir morða í skötu­líki og mútu­greiðslur til yfir­valda dag­legt brauð. 65 „varð­menn umhverf­is­ins“, líkt og Global Wit­ness kallar þá í skýrslu sinni, voru drepnir í Kól­umbíu í fyrra. Um helm­ingur þeirra voru smá­bændur sem m.a. voru að verj­ast ágangi fyr­ir­tækja í stór­tækum land­bún­aði.

Margir velta skilj­an­lega fyrir sér hvort að í ljósi alls þessa, umhverf­is­á­hrif­anna og blóð­ugu átak­anna sem skap­ast um ræktun avókadó í Rómönsku-Am­er­íku, ætti fólk að snið­ganga avókadó sem þaðan kem­ur. Sum kaffi- og veit­inga­hús á Bret­landseyjum hafa þegar gert það og hafa hvatt aðra til að gera slíkt hið sama. Frekar ætti að kaupa avókadó frá öðrum lönd­um, eins og t.d. Bret­landi og Írlandi.

Aðrir telja slíka snið­göngu lítið hjálpa, að minnsta kosti í bar­átt­unni við eit­ur­lyfja­hring­ina. „Þegar bændur eru ofsóttir af glæpa­gengjum er glóru­laust að refsa þeim enn frekar efna­hags­lega,“ skrif­aði Ioan Grillo í leið­ara í New York Times í fyrra. Grillo hefur skrifað fréttir og frétta­skýr­ingar um eit­ur­lyfja­hring­ina og ofbeld­is­verk þeirra í Mexíkó í tvo ára­tugi. „Við þurfum að þrýsta á mexíkósk yfir­völd að stöðva kúg­un­ina í stað þess að refsa fyr­ir­tækj­un­um.“ Snið­ganga á avókadó myndi að hans mati hafa áhrif á þús­undir „harð­dug­legra fjöl­skyldna sem hafa sér ekk­ert til saka unn­ið“.

Grillo segir lík­legt að eit­ur­lyfja­hringirnir noti avóka­dó-við­skipti til pen­inga­þvætt­is. En það geri þeir á mörgum öðrum svið­um.

Skógareldar í Kaliforníu hafa síðustu ár sett strik í reikning avókadó-bænda í ríkinu. Árið 2017 brunnu þúsundir hektara í eldum.
EPA

Hvað umhverf­is­á­hrifin snertir segir hann það einnig rétt að þau geti verið mikil og alvar­leg. En að sama skapi þá sé skóg­areyð­ing og mengun vatns­bóla ekki ein­göngu bundin við ræktun á avóka­dó. Vand­inn felist í umhverf­is­lög­gjöf­inni og eft­ir­liti. Báða þessa þætti þurfi að styrkja í stað þess að ráð­ast á bænd­urna sem flestir fylgja lögum og regl­um. Það er engin til­viljun að stór­tækur land­bún­aður með miklum umhverf­is­á­hrifum blómstrar í löndum eins og Kól­umbíu og Mexíkó þar sem lög­gjöfin er veik og yfir­völd líta oft í hina átt­ina þegar hún er brot­in.

Kaupa vopnin lög­lega í Banda­ríkj­unum

Ein helsta ástæða þess að eit­ur­lyfja­hringj­unum tekst að kúga fé út úr sak­lausum avóka­dó-bændum er þeirra mikla vopna­eign. Þeir kaupa byssur lög­lega í Banda­ríkj­unum og smygla þeim svo í stórum stíl til Mexíkó. Pen­inga­þvætti þeirra á eit­ur­lyfja­gróð­anum nær til stór­fyr­ir­tækja og banka um allan heim. Í þessu liggur stóra vanda­málið og á þessum þátt­um; vopna­smygli og pen­inga­þvætti, þarf að taka. Slíkar ákvarð­anir liggja hjá stjórn­völdum ríkja á borð við Banda­ríkin og ann­arra sem eiga við­skipti við lönd þar sem lög eru kerf­is­bundið brot­in. Inn­flutn­ings­fyr­ir­tæki geta líka gert sitt og valið að versla aðeins við fram­leið­endur sem geta sýnt fram á sjálf­bæra rækt­un. Neyt­endur geta vissu­lega lagt sín lóð á vog­ar­skál­arn­ar, t.d. með því að þrýsta á stjórn­völd og inn­flytj­endur að beita sér.

„En þú getur notið áfram hins ein­stak­lega bragð­góða guacamo­le,“ skrifar Grillo til áhyggju­fullra neyt­enda. „Að hætta að borða það er ekki að fara að fella eit­ur­lyfja­hring­ina.“

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar