EPA

283 lítra af vatni þarf til framleiða eitt kíló af „græna gullinu“

Sprenging í eftirspurn eftir avókadó hefur orðið til þess að skógar hafa verið ruddir, ár og lækir mengaðir og mikilvægum vistkerfum stefnt í voða. Eiturlyfjahringir sjá sér leik á borði og kúga fé út úr smábændum og nota viðskipti með ávöxtinn til peningaþvættis. Einhverjir gætu fengið sting í sitt meðvitaða neytendahjarta en rétta viðbragðið er ekki endilega að sniðganga hina ljúffengu lárperu.

Á sumum svæðum í Kól­umbíu ná avóka­dó-akrar í hlíðum And­es-fjall­anna og umhverfis þau svo langt sem augað eyg­ir. Þarna var áður blóm­leg kaffi­bauna­rækt en vegna öfga í veðri og ítrek­aðs upp­skeru­brests síð­asta ára­tug­inn eða svo og mik­illa sveiflna í mark­aðs­verði hafa margir bænd­anna horfið frá kaff­inu – ekki síst í ljósi þess að spreng­ing hefur orðið í eft­ir­spurn á verð­mæt­ari fram­leiðslu­vöru: Hinu peru­laga avókadó sem fólk vill ýmist flokka sem græn­meti eða ávöxt.

Af þess­ari þróun hafa nátt­úru­vernd­ar­sinnar og vís­inda­menn í umhverf­is­fræðum nokkrar áhyggjur enda nátt­úra Kól­umbíu með þeirri fjöl­skrúð­ug­ustu í víðri ver­öld. Sífellt meira land er brotið undir ræktun „græna gullsins“ og ótt­ast er að þetta muni að end­ingu hafa áhrif á líf­fræði­legan fjöl­breyti­leika.

Vin­sældir avókadó hófu að aukast hratt á níunda ára­tug síð­ustu aldar er banni á inn­flutn­ingi þeirra frá Mexíkó frá árinu 1914 var aflétt í Banda­ríkj­un­um. Það er hins vegar aðeins um ára­tugur frá því að sann­kallað æði greip um sig í hinum vest­ræna heimi sem varð til þess að bænd­urnir í Kól­umbíu og víðar í Suð­ur­-Am­er­íku ákváðu margir hverjir að hefja ræktun á avóka­dó. Þar sem eft­ir­spurnin hafði skyndi­lega rokið upp úr öllu valdi fékkst á sama tíma gott verð fyrir vör­una. Og útflutn­ingur til Banda­ríkj­anna, Evr­ópu og Asíu hófst.

Árið 2014, þegar fram­leiðsla á avóka­dós hófst í Kól­umbíu, voru flutt út 1.400 tonn. Árið 2020 var þessi tala komin upp í 545 þús­und tonn. Það er hins vegar ekki langt síðan að um 80 pró­sent alls avóka­dós af þess­ari teg­und (e. hass avocado) var fram­leitt í Banda­ríkj­un­um, fyrst og fremst í hinni sól­ríku Kali­forn­íu. Í dag er Kól­umbía orð­inn þriðji stærsti útflytj­and­inn á heims­vísu.

Unnið á avókadó-akri í Kólumbíu.
EPA

Avóka­dó-æðið á sér margar skýr­ing­ar. Fyrir nokkrum árum var farið að kalla þetta „of­ur­fæð­u“, ristað brauð með avókadó varð vin­sælt með­læti á kaffi­húsum og ekki má gleyma stór­auknum vin­sældum guacamo­le, ídýf­unnar fag­ur­grænu. Talið er að áhorf­endur Super Bowl, úrslita­leik NFL-­deild­ar­innar í amer­ískum fót­bolta, hafi árið 2018 neytt um 200 milljón stykkja af avókadó, auð­vitað að mestu leyti í formi guacamole. Banda­ríkja­menn flytja gríð­ar­legt magn af ávext­inum inn þrátt fyrir inn­lenda fram­leiðslu, aðal­lega frá Mexíkó.

Lárperan fer vel ofan í land­ann

Íslend­ingar elska líka avóka­dó. Og ekk­ert í neinum smá skömmt­um. Ef við gefum okkur að hvert avókadó sé að með­al­tali um 180 grömm þá voru flutt inn rúm­lega 13 avókadó á hvert manns­barn á Íslandi í fyrra. Ef við gefum okkur að þyngd hvers þeirra sé 150 grömm erum við farin að tala um 15 avókadó á mann. Ef við miðum við um það bil með­al­þyngd lít­illa avókadó sem seld eru í plast­netum í íslenskum mat­vöru­versl­unum verða lárperur á mann 23. Og þá eru ung­börn og mat­vandir ekki und­an­skil­in.

Í fyrra voru í heild­ina flutt inn rúm­lega milljón kíló eða þús­und tonn af lárperum líkt og ávöxt­ur­inn kall­ast á íslensku. Enn meira eða tæp­lega 1,1 milljón kíló (1.100 tonn) voru flutt inn árið 2019. Fyrstu átta mán­uð­ina í ár hafa verið flutt inn 670 tonn, sam­kvæmt tölum Hag­stof­unn­ar.

Jákvæðu áhrifin

Að fara úr kaff­inu í avóka­dórækt hefur skilað jákvæðum efna­hags­legum áhrifum víða í Kól­umbíu. Laun hafa hækk­að, verka­menn­irnir njóta kjara á borð við heil­brigð­is­trygg­inga og vel­ferð­ar­þjón­usta hefur batnað í sveit­unum þar sem mesta fram­leiðslan er. Það sama er uppi á ten­ingnum í Mexíkó, fátækir bændur hafa brot­ist út úr fátækt og geta séð sér og sínum far­borða.

Kól­umbía og önnur lönd í Suð­ur- og Mið-Am­er­íku eru ekki einu löndin sem tók við sér er avóka­dó-­spreng­ingin varð. Víða í Aust­ur-Afr­íku og Nígeríu hafa bændur tekið þess­ari dellu Vest­ur­landa­búa fagn­andi og gert nákvæm­lega það sama og bændur í Kól­umbíu: Farið að rækta avókadó í stórum stíl.

Guacamole, ídýfan sem allir geta gert og flestir elska með snakkinu.
Pexels

En það sem fer upp á gríð­ar­hraða kemur oft hratt niður aftur og einmitt það veldur áhyggj­um. Ekki síst vegna þess að á sumum svæðum er byrjað að rækta avókadó við það sem ekki er hægt að kalla kjörað­stæður ávaxt­ar­ins. Það þýðir að meira þarf til rækt­un­ar­inn­ar. Ekki síst vatn. Og það hefur svo áhrif á aðrar teg­undir plantna og dýra.

Mest flutt inn frá Chile

Avókadó hefur síð­ustu tvö árin verið flutt inn hér á landi frá 35 lönd­um. Lang­mest er þó flutt inn frá einu landi: Chile.

Hol­lensk sam­tök, Water Foot­print Network, sem rekja „vatns­fótspor“ ýmissa vara hafa kom­ist að því að það þurfi um 283 lítra af áveitu­vatni að með­al­tali til að fram­leiða eitt kíló af avókadó í Chile. Það er fjórum sinnum meira en þarf til að fram­leiða eitt kíló af app­el­sínum og tíu sinnum meira en það sem þarf til að rækta sama magn af tómöt­um. Þetta þýðir einnig að það þarf um 70 lítra af vatni til að fram­leiða aðeins eitt stykki af avókadó í land­inu. Þá er ekki tekið með í reikn­ing­inn sá vökvi sem tréð fær vegna rign­inga.

Loftmynd af skraufaþurrum dal við hlið avókadó-ekru í Petorca-héraði í Chile. Rosalba Quiroz á hús í dalnum en þar hefur fjölskyldan hennar stundað búskap í margar kynslóðir. Hún neitar að yfirgefa húsið sitt sem stendur við bakka uppþornaðar ár. Þegar hún skrúfar frá krana í húsinu kemur lítið sem ekkert vatn. Þetta er að gerast víða í Chile. Þúsundir heimila hafa ekki aðgang að rennandi vatni vegna þess að auðlindin, vatnið, hefur verið einkavædd. Eigandi avókadó-ekrunnar þarf ekki að örvænta. Hann kaupir vatn, í tugþúsunda lítra vís til að vökva avókadótrén.
EPA

Mjög mis­jafnt getur verið eftir land­svæðum og heims­hlutum hversu miklu vatni þarf að veita á avóka­dó-akra. Innan Chile er mun­ur­inn t.d. gríð­ar­leg­ur. Á þeim svæðum þar sem mest er fram­leitt af ávext­inum (t.d. í Petorca-hér­aði) þarf 1.280 lítra vatns á hvert kíló að mati Water Foot­print Network sem þýðir að um 320 lítra þarf til að fram­leiða aðeins eitt stykki á þeim slóð­um.

Þessi gríð­ar­lega vatns­notkun er eitt en fleiri nei­kvæð umhverf­is­á­hrif geta fylgt fram­leiðsl­unni. Eftir því sem ræktun avókadó fer lengra frá kjörað­stæðum ávaxt­ar­ins þarf að nota meira af skor­dýra­eitri og áburði.

Hærra og hærra

Árekstrar eru að verða tíð­ari milli þeirra sem standa vilja vörð um nátt­úr­una og land sitt í Kól­umbíu og fyr­ir­tækj­unum sem vilja rækta avókadó í stórum stíl. Dæmi eru um að avóka­dó-trjám hafi verið plantað í frið­löndum sem njóta verndar vegna ein­staks líf­ríkis þar sem oft má finna heim­kynni dýra­teg­unda í við­kvæmri stöðu eða útrým­ing­ar­hættu. Þetta vanda­mál er ekki bundið við Kól­umbíu.

Stór­tækir rækt­endur hafa und­an­farin ár stöðugt fært sig hærra upp í hlíðar And­es-fjall­anna og plantað í við­kvæmum vist­kerfum þeirra. Þetta er gert til stýra fram­boð­inu bet­ur. Ávextir trjáa í mik­illi hæð þroskast seinna og utan hinnar hefð­bundnu upp­skeru­tíð­ar. Þannig er hægt að bjóða neyt­endum avókadó árið um kring og halda verð­sveiflum í lág­marki.

Félagi í heimavarnarliði hóps sem kallar sig Pueblos Unidos stendur vörð um veg að avókadó-ekru í Michoacan í Mexíkó í sumar. Í héraðinu hafa glæpagengi hreiðrað um sig, versla með fíkniefni og avókadó sem er þar framleitt í stórum stíl. Þótt hópurinn neiti því segja yfirvöld hann og fleiri sambærilega tengjast eiturlyfjahringjum.
EPA

Hvergi er fram­leitt meira af avókadó en í Mexíkó. Ólög­legt skóg­ar­högg hefur fylgt þess­ari miklu fram­leiðslu og jarðir hafa verið hrifs­aðar af smá­bændum í stórum stíl eða þeir beittir fjár­kúg­un­um. Þekkt er einnig að glæpa­gengi nota við­skipti með avókadó til pen­inga­þvætt­is. Í ágúst árið 2019 héngu nítján lim­lest hálf­nakin lík lög­reglu­manna fram af brú í mexíkósku borg­inni Uru­ap­an.

Þessar aftökur voru þegar í stað tengdar við ofbeldi fíkni­efna­hringja á svæð­inu. Einn þeirra lýsti meira að segja yfir ábyrgð á morð­un­um. En þetta er ekki aðeins bar­átta um við­skipti með fíkni­efni. Þetta er stríð um yfir­ráð yfir avóka­dó-við­skiptum og fé sem fæst frá bændum með kúg­un­um.

Árið 2019, svo dæmi sé tek­ið, voru flutt inn til Íslands yfir 1.600 tonn af avókadó til Íslands.

„Blóða­vóka­dó“

Hinn peru­laga ávöxtur er orð­inn nýjasti átaka­varn­ingur heims­ins. Við blóð­demöntum hafa tekið blóð­á­vext­ir.

Hvergi í heim­inum er hættu­legra að berj­ast fyrir nátt­úr­una og umhverfið en í Kól­umbíu. Í fyrra voru 227 mann­eskjur sem börð­ust fyrir umhverfið drepn­ar, lang­flestar í fátæk­ari ríkjum þar sem lög og regla er virt að vettugi, rann­sóknir morða í skötu­líki og mútu­greiðslur til yfir­valda dag­legt brauð. 65 „varð­menn umhverf­is­ins“, líkt og Global Wit­ness kallar þá í skýrslu sinni, voru drepnir í Kól­umbíu í fyrra. Um helm­ingur þeirra voru smá­bændur sem m.a. voru að verj­ast ágangi fyr­ir­tækja í stór­tækum land­bún­aði.

Margir velta skilj­an­lega fyrir sér hvort að í ljósi alls þessa, umhverf­is­á­hrif­anna og blóð­ugu átak­anna sem skap­ast um ræktun avókadó í Rómönsku-Am­er­íku, ætti fólk að snið­ganga avókadó sem þaðan kem­ur. Sum kaffi- og veit­inga­hús á Bret­landseyjum hafa þegar gert það og hafa hvatt aðra til að gera slíkt hið sama. Frekar ætti að kaupa avókadó frá öðrum lönd­um, eins og t.d. Bret­landi og Írlandi.

Aðrir telja slíka snið­göngu lítið hjálpa, að minnsta kosti í bar­átt­unni við eit­ur­lyfja­hring­ina. „Þegar bændur eru ofsóttir af glæpa­gengjum er glóru­laust að refsa þeim enn frekar efna­hags­lega,“ skrif­aði Ioan Grillo í leið­ara í New York Times í fyrra. Grillo hefur skrifað fréttir og frétta­skýr­ingar um eit­ur­lyfja­hring­ina og ofbeld­is­verk þeirra í Mexíkó í tvo ára­tugi. „Við þurfum að þrýsta á mexíkósk yfir­völd að stöðva kúg­un­ina í stað þess að refsa fyr­ir­tækj­un­um.“ Snið­ganga á avókadó myndi að hans mati hafa áhrif á þús­undir „harð­dug­legra fjöl­skyldna sem hafa sér ekk­ert til saka unn­ið“.

Grillo segir lík­legt að eit­ur­lyfja­hringirnir noti avóka­dó-við­skipti til pen­inga­þvætt­is. En það geri þeir á mörgum öðrum svið­um.

Skógareldar í Kaliforníu hafa síðustu ár sett strik í reikning avókadó-bænda í ríkinu. Árið 2017 brunnu þúsundir hektara í eldum.
EPA

Hvað umhverf­is­á­hrifin snertir segir hann það einnig rétt að þau geti verið mikil og alvar­leg. En að sama skapi þá sé skóg­areyð­ing og mengun vatns­bóla ekki ein­göngu bundin við ræktun á avóka­dó. Vand­inn felist í umhverf­is­lög­gjöf­inni og eft­ir­liti. Báða þessa þætti þurfi að styrkja í stað þess að ráð­ast á bænd­urna sem flestir fylgja lögum og regl­um. Það er engin til­viljun að stór­tækur land­bún­aður með miklum umhverf­is­á­hrifum blómstrar í löndum eins og Kól­umbíu og Mexíkó þar sem lög­gjöfin er veik og yfir­völd líta oft í hina átt­ina þegar hún er brot­in.

Kaupa vopnin lög­lega í Banda­ríkj­unum

Ein helsta ástæða þess að eit­ur­lyfja­hringj­unum tekst að kúga fé út úr sak­lausum avóka­dó-bændum er þeirra mikla vopna­eign. Þeir kaupa byssur lög­lega í Banda­ríkj­unum og smygla þeim svo í stórum stíl til Mexíkó. Pen­inga­þvætti þeirra á eit­ur­lyfja­gróð­anum nær til stór­fyr­ir­tækja og banka um allan heim. Í þessu liggur stóra vanda­málið og á þessum þátt­um; vopna­smygli og pen­inga­þvætti, þarf að taka. Slíkar ákvarð­anir liggja hjá stjórn­völdum ríkja á borð við Banda­ríkin og ann­arra sem eiga við­skipti við lönd þar sem lög eru kerf­is­bundið brot­in. Inn­flutn­ings­fyr­ir­tæki geta líka gert sitt og valið að versla aðeins við fram­leið­endur sem geta sýnt fram á sjálf­bæra rækt­un. Neyt­endur geta vissu­lega lagt sín lóð á vog­ar­skál­arn­ar, t.d. með því að þrýsta á stjórn­völd og inn­flytj­endur að beita sér.

„En þú getur notið áfram hins ein­stak­lega bragð­góða guacamo­le,“ skrifar Grillo til áhyggju­fullra neyt­enda. „Að hætta að borða það er ekki að fara að fella eit­ur­lyfja­hring­ina.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar