34 mínútur skelfingar
„Ég heyrði konu hrópa. Þetta eru verstu öskur sem ég hef heyrt á ævi minni.” Lýsingar sjónarvotta af því þegar Dani á fertugsaldri fór um gamla bæinn í Kongsberg vopnaður boga, örvum, hnífi og jafnvel fleiri drápstækjum, eru hrollvekjandi. Fimm manneskjur létust, allar eftir að lögreglan hafði hann fyrst í sigtinu. Nú spyr fólk sig: Hvernig gat það tekið 34 langar mínútur að handsama ódæðismanninn?
Lögreglan kom auga á hann. En missti svo sjónar af honum. Áður en hún náði loks að hafa hendur í hári hans hafði honum tekist að drepa fimm manneskjur; fjórar konur og einn karlmann. Friðurinn hefur verið rofinn í hinum fornfræga norska bæ, Kongsberg, og eftir situr fólk með brýnar spurningar sem margar snúa að yfirvöldum – lögreglunni sem þekkti til mannsins af vondu einu og týndi honum svo í eftirför milli meðal annars lágreistra timburhúsa sem hann nýtti til að stráfella fólk sem á vegi hans varð.
„Þetta var andstyggilegt. Hann bara fór um og drap tilviljunarkennt hér á götunum okkar,“ segir Gudoon Hersi, íbúi í Kongsberg. Hann spyr hvernig það hafi getað gerst að lögreglan náði honum ekki fyrr. Að það sé „hræðilegt“ til þess að hugsa.
Lögreglustöðin í Kongsberg er í um eins kílómetra fjarlægð frá gamla miðbænum. Þangað barst fyrsta tilkynning kl. 18.13 í gær að norskum tíma. Sjónarvottur lýsti því að maður væri að skjóta á eftir fólki með boga og örvum í miðbænum. Lögreglubíll var sendur af stað. Lögreglumennirnir komu fyrst auga á manninn sjö mínútum eftir að fyrsta tilkynningin barst, kl. 18.18. En svo misstu þeir sjónar af honum. Talið er að maðurinn hafi drepið alla sem létust eftir þetta. Þrír lögreglubílar til viðbótar voru sendir á vettvang enda tilkynningum rignt stanslaust inn. Það var svo ekki fyrr en kl. 18.47 að hann var handtekinn. Til að gæta allrar nákvæmni: Liðnar voru rúmlega 34 mínútur frá fyrstu tilkynningunni er maðurinn, sem drepið hafði fimm og sært tvo, var yfirbugaður.
Fagri bærinn í fjöllunum
Kongsberg á sér langa og merkilega sögu. Kristján fjórði konungur stofnaði hann á þriðja áratug sautjándu aldar er þar hafði fundist silfur. Bærinn byggðist hratt upp í kringum námugröftinn var því sannkallaður iðnaðarbær þótt þar léti konungurinn einnig reisa sér bústað. Um miðja átjándu öld var hann orðinn næststærsti bær Noregs. Það var ekki aðeins silfrið sem orsakaði það því þegar fram liðu stundir var þar stofnuð vopnaverksmiðja auk verksmiðja með bílaíhluti og búnað fyrir skip, flug og síðar olíu- og gasiðnaðinn. Enn í dag er stærsta fyrirtækið Kongsberg Group (sem aftur á Kongsberg Defence & Aerospace og Kongsberg Maritime).
En þótt iðnaðurinn sé sterkt afl í samfélaginu er háskólinn í bænum það líka. Þangað flykkjast uppveðruð ungmenni til að ganga menntaveginn.
Mikil á skiptir bænum í tvo hluta, þann vestari og þann eystri. Vestan megin hennar er elsti hluti bæjarins en austan megin hefur nútíminn sett sitt mark á byggingar. Í miðbænum, sem segja má að sé beggja vegna árinnar, er svo brú sem sameinar borgarhlutana tvo.
Tímalínan
Snemma kvölds í gær gekk danskur ríkisborgari, 37 ára gamall karlmaður, inn í Coop Extra-verslun í miðbænum og hóf að skjóta á fólk með boga og örvar að vopni. Lögreglan fær fyrstu tilkynningu 18.13. Fimmtán mínútum síðar, kl. 18.28, tilkynnir lögreglan á Twitter um „aðgerð“ í miðbæ Kongsberg og að maður hafi skotið eina manneskju með boga og ör. Fólk var hvatt til að halda sig innandyra þar sem ekki hefði enn tekist að handsama manninn.
Tilkynning um handtökuna barst svo frá lögreglunni kl. 19.24 en nú er vitað að handtakan var gerð nokkru fyrr eða kl. 18.47. „Þetta er alvarlegur atburður,“ sagði í þessari annarri tilkynningu lögreglunnar. Um klukkustund síðar er svo upplýst að fólk hafi dáið í árásinni en það er ekki fyrr en 23.18 sem greint er frá því að fimm hafi látist og tveir særst.
Lögreglan sagðist á blaðamannafundi í morgun engin svör hafa við því hvers vegna tók svo langan tíma að handsama árásarmanninn. Enn eigi eftir að rannsaka viðbrögð hennar ofan í kjölinn.
Sjónarvottarnir
Tveir ungir háskólanemar brugðu sér út í gærkvöldi til að kaupa inn í Coop Extra, versluninni í miðbænum. Við innganginn sáu þeir mann sem þeir héldu í fyrstu að væri öryggisvörður. „Það var ör aftan á honum,“ segir annar ungu mannanna við Nettavisen. „Það var mikið áfall að sjá það.“ Hann segist hafa spurt manninn hvað hefði eiginlega gerst, hann svaraði að það væri í lagi með sig en að hann ætlaði að fara á bráðamóttökuna.
Skömmu síðar voru lögreglumenn mættir á staðinn og bað ungu mennina og aðra viðskiptavini að fara út úr búðinni og koma sér í öruggt skjól. Þeir sáu örvar um allt en árásarmanninn sáu þeir aldrei.
Í húsi í nágrenni búðarinnar var ungur maður í gærkvöldi að horfa á sjónvarpsþáttinn Squid Game er hann heyrði hávært sírenuvæl. „Ég hélt að þetta væri í sjónvarpinu. En svo heyrði hann hrópað af öllum lífs og sálarkröftum: „Legðu frá þér vopnið!“ Hann hafi svo séð fleiri lögreglubíla koma á staðinn, lögreglumenn með skildi og hjálma á höfði. Þeir þustu inn í verslunina og svo fóru þeir að berja á dyr í nærliggjandi húsum og segja fólki að halda sig inni.
Enn einn sjónarvotturinn var á gangi í nágrenni búðarinnar þegar hann heyrði í þyrlu fyrir ofan sig. Er hann nálgaðist búðina sá hann blikkandi ljós, bæði lögreglubíla og sjúkrabíla. „Þetta var hræðilegt. Það átti enginn von á því að neitt í líkingu við þetta gæti gerst í litla Kongsberg.“
Fleiri sjónarvottar hafa greint frá því sem fyrir augu bar og einn þeirra segist hafa séð árásarmanninn á hlaupum með lögregluna á hælunum. Hann hafi heyrt skoti hleypt af í átt að manninum.
Enn eitt vitnið segist hafa séð konu liggjandi á götunni og hrópa á hjálp. Hann telji hana hafa verið stungna með hnífi. Það sama segir annað vitni um aðra konu. Að skerandi öskur hennar hafi verið það versta sem hann hafi nokkru sinni heyrt.
Árásarmaðurinn
Daninn sem framdi ódæðið hefur búið í Kongsberg í að minnsta kosti sex ár. Hann hefur nokkrum sinnum komið við sögu lögreglu, síðast í maí fyrra er foreldrar hans fengu nálgunarbann á hann í sex mánuði vegna ógnandi hegðunar hans á heimili þeirra. Norskir fjölmiðlar segja að vísbendingar hafi verið um að skoðanir hans væru öfgafullar og er hann ógnaði foreldrum sínum og hótaði að minnsta kosti öðru þeirra lífláti hafi hann haft skammbyssu meðferðis. Einnig hefur verið greint frá því að hann hafi áður verið dæmdur fyrir þjófnað sem og minniháttar fíkniefnabrot og hlaut hann fyrir það sextíu daga fangelsisdóm árið 2012. Hann hafði þá áður fengið dóm fyrir sambærilegt broti.
Að því er lögreglan hefur sagt eftir ódæðisverkin höfðu borist tilkynningar um öfgafulla hegðun hans, síðast í fyrra, og að það gæti verið að hann hefði snúist til íslam. Ekki hefur frekar verið útskýrt að svo stöddu hvaða þýðingu það hefur en lögreglan hefur einnig sagt að hann hafi verið einn að verki. Hún útilokar ekki hryðjuverk.
Í frétt norska ríkisútvarpsins kemur fram að í dómnum vegna nálgunarbannsins komi fram að lögreglan hafði áhyggjur af því að maðurinn myndi fremja refsiverða háttsemi gegn foreldrum sínum.
Árásarmaðurinn hefur verið yfirheyrður. Hann játar sök en hefur ekki sagt hvers vegna hann framdi voðaverkin. Rita Katz, yfirmaður SITE Intelligence Group, sem vakta og greina vísbendingar um hryðjuverkastarfsemi á netinu, skrifaði á Twitter í gærkvöldi að bæði hægri öfgamenn sem og öfgasamtök sem kenna sig við íslam hafi áður hvatt til að nota boga og örvar sem vopn í hermdarverkum. Notkun slíks vopns sé þó mjög sjaldgæf.
Einn helsti sérfræðingur Norðurlanda í hryðjuverkum segist aldrei nokkurn tímann hafa heyrt um hryðjuverkaárás þar sem bogi og örvar voru notaðar. „Þetta er gríðarlega óvenjulegt,“ segir Svínn Magnus Ranstorp sem hefur unnið við rannsókn hryðjuverka í þrjá áratugi. Hann segir of snemmt að staðfesta að árásin óhugnanlega í Kongsberg hafi verið hryðjuverk. Til að gera slíkt þurfi að kanna bakgrunn gerandans og þær hvatir sem lágu að baki því að framkvæma árás með þessum hætti. „Þetta getur allt eins tengst geðrænum vandamálum,“ sagði hann við Nettavisen í morgun.
Lögfræðingur lögreglunnar í Kongsberg sagði við norska ríkisútvarpið í morgun að árásarmaðurinn myndi sæta geðrannsókn. Slíkt sé ekki óvanalegt í svo alvarlegum málum.