Mynd: Birgir Þór Harðarson

Er kreppan búin?

Samkvæmt nýjum hagtölum er vinnumarkaðurinn orðinn svipað stór og hann var áður en heimsfaraldurinn byrjaði í mars í fyrra. Þrátt fyrir það er yfirstandandi kreppa ekki alveg búin, að minnsta kosti ekki fyrir alla.

Alls voru rúm­lega 207 þús­und starfs­menn starf­andi á íslenskum vinnu­mark­aði í ágúst, sam­kvæmt nýbirtum tölum Hag­stofu. Þetta eru tæp­lega 15 þús­und fleiri ein­stak­lingar en voru starf­andi í byrjun síð­asta árs og litlu færri en störf­uðu í ágúst árið 2019.

Af þessum tölum að dæma mætti halda að efna­hags­á­standið sé orðið sam­bæri­legt því sem það var áður en heims­far­ald­ur­inn skall á og yfir­stand­andi kreppa gæti því verið búin.

Ef breyt­ingar á vinnu­mark­aðnum eru hins vegar skoð­aðar nánar virð­ist vera mik­ill munur á milli þjóð­fé­lags­hópa í þeim efn­um. Á meðan staða margra er jafn­góð eða betri en hún var fyrir far­ald­ur­inn vantar enn tölu­vert upp á að störf ungs fólks og inn­flytj­enda nái fyrri hæð­um.

Hættu­merki áður en veiran kom

Myndin hér að neðan sýnir breyt­ingar í fjölda starf­andi eftir mán­uðum frá þar­síð­ustu árs­byrj­un, ef miðað er við sama mánuð árið 2019, skipt eftir ald­urs­hóp­um. Sam­kvæmt henni var vinnu­mark­að­ur­inn í árs­byrjun 2020 hjá starfs­mönnum eldri en 30 ára sam­bæri­legur því sem hann var einu ári áður.

Fjöldi starfsmanna undir þrítugu er enn ekki orðinn jafnmikill og hann var á sama tíma árið 2019.
Mynd: Kjarninn og Hagstofa Íslands

Á hinn bóg­inn hafði starfs­mönnum undir þrí­tugu fækkað tölu­vert á sama tíma, en í jan­úar og febr­úar árið 2020 voru þeir orðnir 3-4 pró­sentum færri en þeir voru í byrjun árs 2019. Á sama tíma hafði atvinnu­leysið auk­ist nokk­uð, en það nam sex pró­sentum í febr­úar í fyrra, miðað við fjögur pró­sent í febr­úar árið 2019. Því voru ýmis hættu­merki ljós á vinnu­mark­aðnum ljós áður en far­ald­ur­inn hófst.

Ungir sitja eftir

Um leið og veiran tók að breiða sér um heim­inn minnk­aði svo fjöldi starfa tölu­vert í öllum ald­urs­hóp­um, en líkt og myndin hér að ofan sýnir varð lækk­unin lang­mest á meðal ungra starfs­manna. Lág­punkt­inum var svo náð í síð­asta jan­ú­ar­mán­uði, en þá hafði starfs­mönnum undir þrí­tugu fækkað um 17 pró­sent frá því í jan­úar árið 2019. Sam­bæri­leg fækkun eldri starfs­manna var mun minni og nam um fimm pró­sentum á sama tíma.

Sá ald­urs­hópur sem hefur verið fljót­astur að rétta úr kútnum er hópur starfs­manna á milli þrí­tugs og fimm­tugs, en líkt og myndin sýnir starfa nú fleiri á þessu ald­urs­bili heldur en gerðu árið 2019. Fjöldi starfs­manna yfir fimm­tugu er sömu­leiðis orð­inn svip­aður og hann var á sömu mán­uðum fyrir tveimur mán­uðum síð­an. Hins vegar hefur hópur ungra starfs­manna ekki enn náð sér á strik. Sam­kvæmt tölum Hag­stofu voru þeir 4 pró­sentum færri í síð­asta ágúst­mán­uði en þeir voru í sama mán­uði árið 2019.

Mun færri starf­andi inn­flytj­endur

Þegar breyt­ingar í fjölda starf­andi eru skoð­aðar eftir bak­grunn starfs­manna sést einnig skýr munur á inn­flytj­endum og þeim sem hafa íslenskan bak­grunn. Í síð­ar­nefnda hópnum störf­uðu tæp­lega 170 þús­und manns í ágúst, en þeim hefur fjölgað um tæpt þús­und frá sama mán­uði árið 2019.

Starfs­menn með erlendan bak­grunn eru hins vegar langt frá því að vera orðnir jafn­margir og þeir voru áður en far­ald­ur­inn byrj­aði, en þeim hefur fækkað um tæp­lega þrjú þús­und á sama tíma. Líkt og myndin hér að neðan sýnir jafn­gildir þetta sjö pró­senta fækkun á starf­andi inn­flytj­endum frá sama mán­uði árið 2019, á meðan starf­andi fólki með íslenskan bak­grunn hefur fjölgað um tæpt pró­sent.

Þrátt fyrir að staða starfsmanna með íslenskan bakgrunn hafi náð sér á strik miðað við sama tíma árið 2019 hefur verulega fækkað í hópi starfandi innflytjenda.
Mynd: Kjarninn og Hagstofa

Enn vantar ferða­menn, en horfur eru jákvæðar

Mis­mun­ur­inn í fjölda starf­andi eftir ald­urs­hópum og bak­grunni starfs­manna sýnir hversu mis­jöfn við­spyrnan hefur verið í efna­hags­líf­inu hér­lendis á síð­ustu mán­uð­um. Hún gefur einnig vís­bend­ingar þess efnis að atvinnu­greinar sem reiða sig meira á yngra starfs­fólk og starfs­fólk með erlendan bak­grunn eigi erf­ið­ara með að ná sér á strik.

Ein af þessum starfs­greinum er ferða­þjón­ust­an, en sam­kvæmt tölum Hag­stofu var hlut­fall yngra starfs­fólks hærra þar en ann­ars staðar í hag­kerf­inu árið 2019, auk þess sem 36% þeirra hafði erlendan bak­grunn.

Í september voru ferðamenn um Keflavíkurflugvöll rúmum 40 prósentum færri en þeir voru í sama mánuði árið 2019.
Mynd: Kjarninn og Ferðamálastofa

Sam­kvæmt nýbirtum tölum Ferða­mála­stofu um far­þega um Kefla­vík­ur­flug­völl voru brott­farir þeirra um 108 þús­und tals­ins í síð­asta mán­uði, sem er ekki langt frá þeim mán­að­ar­lega fjölda ferða­manna sem fór um flug­völl­inn í byrjun árs 2020. Hins vegar vantar mikið upp á að fjöld­inn kom­ist aftur í eðli­legt horf ef leið­rétt er fyrir árs­tíð­ar­sveifl­um, en líkt og myndin hér að ofan fóru tæp­lega helm­ingi færri ferða­menn um flug­stöð­ina í sept­em­ber heldur en í sama mán­uði árið 2019.

Hins vegar mætti búast við að þetta bil muni minnka enn frekar á næstu mán­uð­um, en sam­kvæmt nýrri grein­ingu Íslands­banka eru horfur á áfram­hald­andi fjölgun ferða­manna til næstu ára­móta og útlit fyrir all­hraðan bata í grein­inni. Verði sá bati að veru­leika má búast við að staða ungs fólks og inn­flytj­enda á vinnu­mark­aði batni sömu­leiðis á næst­unni.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar