EPA

34 mínútur skelfingar

„Ég heyrði konu hrópa. Þetta eru verstu öskur sem ég hef heyrt á ævi minni.” Lýsingar sjónarvotta af því þegar Dani á fertugsaldri fór um gamla bæinn í Kongsberg vopnaður boga, örvum, hnífi og jafnvel fleiri drápstækjum, eru hrollvekjandi. Fimm manneskjur létust, allar eftir að lögreglan hafði hann fyrst í sigtinu. Nú spyr fólk sig: Hvernig gat það tekið 34 langar mínútur að handsama ódæðismanninn?

Lög­reglan kom auga á hann. En missti svo sjónar af hon­um. Áður en hún náði loks að hafa hendur í hári hans hafði honum tek­ist að drepa fimm mann­eskj­ur; fjórar konur og einn karl­mann. Frið­ur­inn hefur verið rof­inn í hinum forn­fræga norska bæ, Kongs­berg, og eftir situr fólk með brýnar spurn­ingar sem margar snúa að yfir­völdum – lög­regl­unni sem þekkti til manns­ins af vondu einu og týndi honum svo í eft­ir­för milli meðal ann­ars lágreistra timb­ur­húsa sem hann nýtti til að strá­fella fólk sem á vegi hans varð.

„Þetta var and­styggi­legt. Hann bara fór um og drap til­vilj­un­ar­kennt hér á göt­unum okk­ar,“ segir Gudoon Hersi, íbúi í Kongs­berg. Hann spyr hvernig það hafi getað gerst að lög­reglan náði honum ekki fyrr. Að það sé „hræði­legt“ til þess að hugsa.

Lög­reglu­stöðin í Kongs­berg er í um eins kíló­metra fjar­lægð frá gamla mið­bæn­um. Þangað barst fyrsta til­kynn­ing kl. 18.13 í gær að norskum tíma. Sjón­ar­vottur lýsti því að maður væri að skjóta á eftir fólki með boga og örvum í mið­bæn­um. Lög­reglu­bíll var sendur af stað. Lög­reglu­menn­irnir komu fyrst auga á mann­inn sjö mín­útum eftir að fyrsta til­kynn­ingin bar­st, kl. 18.18. En svo misstu þeir sjónar af hon­um. Talið er að mað­ur­inn hafi drepið alla sem lét­ust eftir þetta. Þrír lög­reglu­bílar til við­bótar voru sendir á vett­vang enda til­kynn­ingum rignt stans­laust inn. Það var svo ekki fyrr en kl. 18.47 að hann var hand­tek­inn. Til að gæta allrar nákvæmni: Liðnar voru rúm­lega 34 mín­útur frá fyrstu til­kynn­ing­unni er mað­ur­inn, sem drepið hafði fimm og sært tvo, var yfir­bug­að­ur.

Fagri bær­inn í fjöll­unum

Kongs­berg á sér langa og merki­lega sögu. Krist­ján fjórði kon­ungur stofn­aði hann á þriðja ára­tug sautj­ándu aldar er þar hafði fund­ist silf­ur. Bær­inn byggð­ist hratt upp í kringum námu­gröft­inn var því sann­kall­aður iðn­að­ar­bær þótt þar léti kon­ung­ur­inn einnig reisa sér bústað. Um miðja átj­ándu öld var hann orð­inn næst­stærsti bær Nor­egs. Það var ekki aðeins silfrið sem orsak­aði það því þegar fram liðu stundir var þar stofnuð vopna­verk­smiðja auk verk­smiðja með bíla­í­hluti og búnað fyrir skip, flug og síðar olíu- og gas­iðn­að­inn. Enn í dag er stærsta fyr­ir­tækið Kongs­berg Group (sem aftur á Kongs­berg Defence & Aer­ospace og Kongs­berg Mariti­me).

En þótt iðn­að­ur­inn sé sterkt afl í sam­fé­lag­inu er háskól­inn í bænum það líka. Þangað flykkj­ast upp­veðruð ung­menni til að ganga mennta­veg­inn.

Mikil á skiptir bænum í tvo hluta, þann vest­ari og þann eystri. Vestan megin hennar er elsti hluti bæj­ar­ins en austan megin hefur nútím­inn sett sitt mark á bygg­ing­ar. Í mið­bæn­um, sem segja má að sé beggja vegna árinn­ar, er svo brú sem sam­einar borg­ar­hlut­ana tvo.

Ein af örvum árásarmannsins í vegg á húsi í miðbæ Kongsberg.
EPA

Tíma­línan

Snemma kvölds í gær gekk danskur rík­is­borg­ari, 37 ára gam­all karl­mað­ur, inn í Coop Extra-verslun í mið­bænum og hóf að skjóta á fólk með boga og örvar að vopni. Lög­reglan fær fyrstu til­kynn­ingu 18.13. Fimmtán mín­útum síð­ar, kl. 18.28, til­kynnir lög­reglan á Twitter um „að­gerð“ í miðbæ Kongs­berg og að maður hafi skotið eina mann­eskju með boga og ör. Fólk var hvatt til að halda sig inn­an­dyra þar sem ekki hefði enn tek­ist að hand­sama mann­inn.

Til­kynn­ing um hand­tök­una barst svo frá lög­regl­unni kl. 19.24 en nú er vitað að hand­takan var gerð nokkru fyrr eða kl. 18.47. „Þetta er alvar­legur atburð­ur,“ sagði í þess­ari annarri til­kynn­ingu lög­regl­unn­ar. Um klukku­stund síðar er svo upp­lýst að fólk hafi dáið í árásinni en það er ekki fyrr en 23.18 sem greint er frá því að fimm hafi lát­ist og tveir særst.

Lög­reglan sagð­ist á blaða­manna­fundi í morgun engin svör hafa við því hvers vegna tók svo langan tíma að hand­sama árás­armann­inn. Enn eigi eftir að rann­saka við­brögð hennar ofan í kjöl­inn.

Lögreglumenn á ferð um miðbæinn eftir árásirnar í gær. Svæðið var girt af á meðan rannsókn stóð yfir.
EPA

Sjón­ar­vott­arnir

Tveir ungir háskóla­nemar brugðu sér út í gær­kvöldi til að kaupa inn í Coop Extra, versl­un­inni í mið­bæn­um. Við inn­gang­inn sáu þeir mann sem þeir héldu í fyrstu að væri örygg­is­vörð­ur. „Það var ör aftan á hon­um,“ segir annar ungu mann­anna við Netta­visen. „Það var mikið áfall að sjá það.“ Hann seg­ist hafa spurt mann­inn hvað hefði eig­in­lega ger­st, hann svar­aði að það væri í lagi með sig en að hann ætl­aði að fara á bráða­mót­tök­una.

Skömmu síðar voru lög­reglu­menn mættir á stað­inn og bað ungu menn­ina og aðra við­skipta­vini að fara út úr búð­inni og koma sér í öruggt skjól. Þeir sáu örvar um allt en árás­armann­inn sáu þeir aldrei.

Í húsi í nágrenni búð­ar­innar var ungur maður í gær­kvöldi að horfa á sjón­varps­þátt­inn Squid Game er hann heyrði hávært sírenu­væl. „Ég hélt að þetta væri í sjón­varp­inu. En svo heyrði hann hrópað af öllum lífs og sál­ar­kröft­um: „Legðu frá þér vopn­ið!“ Hann hafi svo séð fleiri lög­reglu­bíla koma á stað­inn, lög­reglu­menn með skildi og hjálma á höfði. Þeir þustu inn í versl­un­ina og svo fóru þeir að berja á dyr í nær­liggj­andi húsum og segja fólki að halda sig inni.

Enn einn sjón­ar­vott­ur­inn var á gangi í nágrenni búð­ar­innar þegar hann heyrði í þyrlu fyrir ofan sig. Er hann nálg­að­ist búð­ina sá hann blikk­andi ljós, bæði lög­reglu­bíla og sjúkra­bíla. „Þetta var hræði­legt. Það átti eng­inn von á því að neitt í lík­ingu við þetta gæti gerst í litla Kongs­berg.“

Fleiri sjón­ar­vottar hafa greint frá því sem fyrir augu bar og einn þeirra seg­ist hafa séð árás­armann­inn á hlaupum með lög­regl­una á hæl­un­um. Hann hafi heyrt skoti hleypt af í átt að mann­in­um.

Enn eitt vitnið seg­ist hafa séð konu liggj­andi á göt­unni og hrópa á hjálp. Hann telji hana hafa verið stungna með hnífi. Það sama segir annað vitni um aðra konu. Að sker­andi öskur hennar hafi verið það versta sem hann hafi nokkru sinni heyrt.

Eftir að lögreglan mætti á vettvang í miðbænum var fólk á ferli beðið að leita sér skjóls.
EPA

Árás­armað­ur­inn

Dan­inn sem framdi ódæðið hefur búið í Kongs­berg í að minnsta kosti sex ár. Hann hefur nokkrum sinnum komið við sögu lög­reglu, síð­ast í maí fyrra er for­eldrar hans fengu nálg­un­ar­bann á hann í sex mán­uði vegna ógn­andi hegð­unar hans á heim­ili þeirra. Norskir fjöl­miðlar segja að vís­bend­ingar hafi verið um að skoð­anir hans væru öfga­fullar og er hann ógn­aði for­eldrum sínum og hót­aði að minnsta kosti öðru þeirra líf­láti hafi hann haft skamm­byssu með­ferð­is. Einnig hefur verið greint frá því að hann hafi áður verið dæmdur fyrir þjófnað sem og minni­háttar fíkni­efna­brot og hlaut hann fyrir það sex­tíu daga fang­els­is­dóm árið 2012. Hann hafði þá áður fengið dóm fyrir sam­bæri­legt broti.

Að því er lög­reglan hefur sagt eftir ódæð­is­verkin höfðu borist til­kynn­ingar um öfga­fulla hegðun hans, síð­ast í fyrra, og að það gæti verið að hann hefði snú­ist til íslam. Ekki hefur frekar verið útskýrt að svo stöddu hvaða þýð­ingu það hefur en lög­reglan hefur einnig sagt að hann hafi verið einn að verki. Hún úti­lokar ekki hryðju­verk.

Í frétt norska rík­is­út­varpsins kemur fram að í dómnum vegna nálg­un­ar­banns­ins komi fram að lög­reglan hafði áhyggjur af því að mað­ur­inn myndi fremja refsi­verða hátt­semi gegn for­eldrum sín­um.

Oyvind Aas, yfirlögregluþjónn, hélt tvo upplýsingafundi í gærkvöldi fyrir utan lögreglustöðina. Hann hafði ekki mörg svör þá en málin hafa skýrst nokkuð síðustu klukkustundir.
EPA

Árás­armað­ur­inn hefur verið yfir­heyrð­ur. Hann játar sök en hefur ekki sagt hvers vegna hann framdi voða­verk­in. Rita Katz, yfir­maður SITE Intelli­g­ence Group, sem vakta og greina vís­bend­ingar um hryðju­verka­starf­semi á net­inu, skrif­aði á Twitter í gær­kvöldi að bæði hægri öfga­menn sem og öfga­sam­tök sem kenna sig við íslam hafi áður hvatt til að nota boga og örvar sem vopn í hermd­ar­verk­um. Notkun slíks vopns sé þó mjög sjald­gæf.

Einn helsti sér­fræð­ingur Norð­ur­landa í hryðju­verkum seg­ist aldrei nokkurn tím­ann hafa heyrt um hryðju­verka­árás þar sem bogi og örvar voru not­að­ar. „Þetta er gríð­ar­lega óvenju­leg­t,“ segir Svínn Magnus Ran­storp sem hefur unnið við rann­sókn hryðju­verka í þrjá ára­tugi. Hann segir of snemmt að stað­festa að árásin óhugn­an­lega í Kongs­berg hafi verið hryðju­verk. Til að gera slíkt þurfi að kanna bak­grunn ger­and­ans og þær hvatir sem lágu að baki því að fram­kvæma árás með þessum hætti. „Þetta getur allt eins tengst geð­rænum vanda­mál­u­m,“ sagði hann við Netta­visen í morg­un.

Lög­fræð­ingur lög­regl­unnar í Kongs­berg sagði við norska rík­is­út­varpið í morgun að árás­armað­ur­inn myndi sæta geð­rann­sókn. Slíkt sé ekki óvana­legt í svo alvar­legum mál­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar