Af hverju er húsnæðisliðurinn í vísitölu neysluverðs?
Fjölgað hefur í hópi þeirra sem vilja fjarlægja svokallaðan húsnæðislið úr vísitölu neysluverðs til að draga úr verðbólgunni. Hvað mælir þessi liður nákvæmlega og hvers vegna er hann í vísitölunni núna?
Svokallaður húsnæðisliður – sem er sá hluti neysluverðsvísitölunnar sem mælir kostnaðinn við að búa í eigin húsnæði – hefur verið áberandi í umræðunni á síðustu árum. Þessi hluti vísitölunnar er helsti drifkrafturinn á bak við verðbólgu hérlendis þessa stundina, en samkvæmt þingmönnum Framsóknarflokksins og Flokks fólksins ætti að afnema hann úr vísitölunni til að halda verðhækkunum í skefjum.
Samkvæmt alþjóðlegum stöðlum ætti liðurinn hins vegar að vera í vísitölunni, en önnur lönd mæla einnig kostnaðinn af því að búa í eigin húsnæði í sínum verðbólgumælingum. Aftur á móti eru reikniaðferðirnar til að meta þennan kostnað mismunandi á milli landa, þar sem sum lönd miða við leiguverð og önnur líta framhjá skammtímasveiflum í fasteignaverði.
Aukinn stuðningur við afnám húsnæðisliðarins
Einn af mest áberandi gagnrýnendum húsnæðisliðarins á síðustu árum er Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. Í pistli sem hann skrifaði á Pressunni árið 2016, heldur hann því fram að verðbólga sé mæld án húsnæðisliðar í öllum löndum í Evrópu, þar sem litið sé á húsnæði sem fjárfestingu en ekki neyslu.
Vilhjálmur segir ákvörðun íslenskra yfirvalda um að halda húsnæðisliðnum í vísitölunni hafa haft skelfilegar afleiðingar fyrir heimili og fyrirtæki þessa lands, þar sem hann hafi knúið verðbólguna áfram á síðustu árum.
Á undanförnum dögum hafa þessi sjónarmið fengið hljóðbyr frá Flokki fólksins og Framsóknarflokknum. Í síðustu viku lagði Flokkur fólksins fram frumvarp um að húsnæðisliðurinn yrði tekinn úr neysluverðsvísitölunni til að sporna gegn hörðustu áhrifum verðbólgunnar, sem mælist nú 5,7 prósent. Í greinargerð sem fylgdi frumvarpinu sagði flokkurinn að þetta fyrirkomulag tíðkaðist víða, til dæmis í verðbólgumælingum Evrópusambandsins.
Í viðtali við RÚV í vikunni sagði Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra einnig að mikil áhrif húsnæðisliðarins á verðbólgu þessa stundina gæfu tilefni til að íhuga hvort fjarlægja ætti hann úr vísitölunni. Halla Signý Kristjánsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, tók undir þessi ummæli á Alþingi á miðvikudaginn, en þar sagði hún að horfa þyrfti til nágrannalanda, sem noti aðrar forsendur við útreikninga verðbólgu.
Alþjóðlega viðurkennd aðferð
Þrátt fyrir staðhæfingar Vilhjálms, Framsóknarflokksins og Flokks fólksins mun samrýmd neysluverðsvísitala Evrópusambandsins innihalda húsnæðislið, þar sem kostnaðurinn við að búa í eigið húsnæði er metinn. Þetta samþykkti sambandið í desember í fyrra, en innlimun liðarins er í samræmi við hið alþjóðlega flokkunarkerfi Sameinuðu þjóðanna um hvernig eigi að setja saman vísitölu neysluverðs.
Hins vegar er nokkur munur á því hvernig húsnæðisliðurinn er reiknaður á milli landa. Ástæðan fyrir því er að fasteignakaup geta bæði talist til neyslu, þar sem fasteignir veita húsaskjól fyrir þá sem búa í því, og fjárfestingar. Vísitala neysluverðs ætti að líta fram hjá þeim verðsveiflum sem verða á húsnæðismarkaði vegna spákaupmennsku og einungis taka tillit til verðbreytinga við að búa í eigin húsnæði.
Eurostat, hagstofa Evrópusambandsins, hyggst meta kostnaðinn á því að búa í eigin húsnæði einungis út frá breytingum í verði á nýjum fasteignum og lítur fram hjá öllum öðrum fasteignakaupum. Samkvæmt skýrslu frá Evrópuþinginu er þetta svipuð aðferð og er notuð til að meta verðbreytingar á aðrar endingargóðar neysluvörur sem einnig mætti líta á sem fjárfestingar, líkt og bíla, húsgögn og heimilistæki.
Í öðrum löndum, líkt og í Noregi og Sviss, er kostnaðurinn við að búa í eigin húsnæði metinn út frá leiguverði, þ.e. þeim tekjum sem fasteignaeigendur hefðu getað fengið ef þeir leigðu íbúðina sína út.
Enn önnur lönd, líkt og Kanada og Svíþjóð, nota svo svipaða aðferð og Hagstofa Íslands og meta svokallaðan notendakostnað við að búa í eigin húsnæði. Þar eru sveiflur í reglulegum greiðslum af húsnæði metnar út frá markaðsverði húsnæðisins, að teknu tilliti til stærðar, tegundar og staðsetningar.
Önnur lönd nota langtímameðaltal
Árið 2018 skilaði nefnd sem var skipuð af fjármálaráðherra og leidd af Ásgeiri Jónssyni, núverandi seðlabankastjóra, skýrslu um framtíð íslenskrar peningastefnu. Þar var fjallað um húsnæðisliðinn og mælingar á honum bornar saman við aðferðir annarra landa. Samkvæmt skýrslunni á nálgun Hagstofunnar við að meta húsnæðiskostnað mjög vel við Ísland, í ljósi þess hversu stórt hlutfall þjóðarinnar býr í eigin húsnæði.
Hins vegar bendir nefndin á að Svíþjóð og Kanada, sem beita sömu reikniaðferðum, miða við 25 og 30 ára hlaupandi meðaltal af fasteignaverði, á meðan Hagstofa Íslands miðar við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal.
Sjálfstæði Hagstofu mikilvægt
Samkvæmt nefndinni getur orðið óheppilegt fyrir Seðlabankann að fara eftir neysluverðsvísitölu sem innihaldi einnig eignaverð. Því ætti peningastefnunefnd bankans að líta framhjá húsnæðisliðnum í vaxtaákvörðunum sínum þegar verðhækkanir á húsnæði eru langt umfram verðhækkanir á öðrum neysluvörum.
Þó tekur nefndin ekki afstöðu til þess hvernig húsnæðisliðurinn er reiknaður í vísitölu Hagstofunnar og segir sjálfstæði Hagstofu vera mikilvægt. Enn fremur bætir hún við að hægt sé að færa fræðileg rök fyrir núverandi mælingaraðferð hagstofunnar, þ.e. að styðjast við þriggja mánaða hlaupandi meðaltal af fasteignaverði.