Árekstur í þrjátíu daga
New York er suðupottur mannlífs og menningar úr öllum heimshornum. Á eyjunni Manhattan skella miklir kraftar saman. Magnús Halldórsson fór í þrjátíu dagsferðir á þrjátíu dögum með sonum sínum tveimur, átta og þriggja ára, um borgina sem aldrei sefur.
Hinn 13. júní fluttum við fjölskyldan af landi brott til New York en Freyja konan mín fór út 17. maí, þar sem námið hennar við Columbia háskóla hófst síðar í mánuðinum. Þá lá fyrir að mikið álag yrði vegna prófa og verkefna í náminu svo til alla sumarmánuðina, í það minnsta út júlí.
Með nokkrum fyrirvara skipulögðum við feðgar, ég og Heimir Andri átta ára sonur minn, þrjátíu dagsferðir um Manhattan sem við ætluðum að fara í á jafn mörgum dögum, frá 1. júlí til 1. ágúst. Með í för yrði Halldór Elí þriggja og hálfs árs. Hann mátti ekki vera útundan og það var heldur enginn möguleiki á því.
Feðgar skoða heiminn
Eftir að skipulagið var tilbúið, þar sem hver dagur var sjálfstætt ævintýri, var ekki annað að gera en að leggja af stað. Það er skemmst frá því að segja að okkur tókst vel að halda áætlun, með vegalitlum undantekningum, og eftir stendur minning sem líklega gleymist seint og er nú þegar þrykkt í minni okkar feðga. Stórkostlegur tími.
Ég bind vonir við að Halldór Elí muni sterkt eftir ferðinni þegar fram í sækir, í það minnsta nokkrum atvikum í henni. Þó hann sé bara þriggja ára þá hefur hann talað stanslaust um það sem fyrir augu bar, og það bætir heldur í spurningaflóðið frekar en hitt.
Manhattan er einn stór árekstur. Á henni mætast straumar og stefnur ólíkra menningarheima, lífskoðana og kynþátta. Þetta er eitt helsta einkenni Manhattan og New York borgar. Hún er samfelldur og síbreytilegur árekstur krafta úr ólíkum áttum. Hún er líka vettvangur dínamískra öfga fjármagnsins, sem flæðir ýmist í miklu magni upp eina götuna, eða virðist órafjarri þeirri næstu, í það minnsta utan frá séð. Allt rýmist þetta á rúmlega 87 ferkílómetra Manhattan svæðinu, þar sem íbúar eru 1,6 milljónir. Íbúarnir eru aðeins hluti af stærra samfélagi, því þau sem sækja svæðið heim á ári hverju sem ferðamenn eru meira en 50 milljónir úr öllum heimshornum, og einnig innan Bandaríkjanna. Fyrir vikið verður krafturinn í þessum borgarhluta næstum áþreifanlegur þegar gengið er um torg, götur og garða.
Stutt og löng saga
New York á sér bæði langa sögu og stutta. Þó saga byggðar og mannlífs teygi sig að líkindum nokkur þúsund ár aftur, samkvæmt sagnfræðilegum rannsóknum, þá er sá andi sem einkennir hana tiltölulega nýr eða innan við 250 ára. Í það minnsta miðað við margar aðrar borgir heimsins, sem standa á gömlum merg sögu, arkitektúr, hönnunar og mannlífs. Í bókinni The Epic of New York City: A Narrative History, fjallar rithöfundurinn Edward Robb Ellis um hvernig stórviðburðir í sögu Bandaríkjanna hafa tengst þróun New York allt fram á okkar tíma.
Ég ákvað, að teknu tilliti til ýmissa athugasemda Heimis Andra, að byggja dagsferðirnar í kringum þessa sögu sem teiknuð er upp í þessari frábæru bók Robb Ellis, ásamt því að blanda inn í nokkrum skemmtilegum stöðum úr kvikmyndum, tónlistarsögunni og bókum sem eru í uppáhaldi hjá mér. Svo var alltaf tími fyrir ís, vatnskælingu og heimsóknir í hina ýmsu garða, og „play date“ komust að öðru hvoru líka. Rauði þráðurinn er saga stanslausrar baráttu og öfga, ófyrirséðra atburða og viðbragða við þeim. New York endurspeglar þessa spennu í öllum sínum fjölbreytileika.
Stríð, friður, peningar, list og völd
Borgarastríðið sem stóð yfir frá 1861 til 1865 hafði mikil áhrif á þróun uppbyggingar á Manhattan – og uppbyggingu mannlífs og lýðræðis í borginni. New York var miðpunktur Kreppunnar miklu, tímabils sem oftast er markað af áratugnum frá 1929 til 1939 en teygir anga sína bæði langt aftur fyrir það tímabil og líka fram fyrir styrjaldarárin frá 1939 til 1945. Djúpar rætur jass- og blúsmenningar borgarinnar voru ekki síst vökvaðar á þessum erfiðleikatímabilum, þar sem fólk leitaði í listina sér til dægrastyttingar. Listamenn, sem nú teljast til frumkvöðla ekki síst í jazz-senunni, urðu hluti af borginni og gjálífi hennar milli stéttanna, og enduspegluðu kraftanna í djúpri listsköpun, sem enn telst til einkenna hennar.
Litlu munaði að New York borg yrði gjaldþrota á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar, með tilheyrandi erfiðleikum og stöðnun. Atvinnuleysi fór þá yfir 20 prósent í borginni, en árið 1972 munaði innan við sólarhring að borgarsjóður tæmdist. Aðeins samkomulag við seðlabankann bjargaði því að allt færi á versta veg.
Uppgangur og hjartað í fjármálakerfi heimsins
Á áttunda og níunda áratugnum umturnaðist fjármálakerfi borgarinnar með alþjóðavæðingu fjármálamarkaða og uppgangi fjárfestingabankastarfsemi. Sá tími setti mikinn svip á borgarlífið og stjórnmálin, einkum neðst á Manhattan, í fjármálahverfinu. New York hefur alla tíð verið alþjóðleg fjármálamiðstöð. Ólíkt Íslandi hefur hún staðið undir nafni sem slík.
Ímynd New York er nátengd fjármálahverfinu og Wall Street, tiltölulega lítilli götu sem í huga umheimsins rúmar allt heimsins fjármagn. Nautið í fjármálahverfinu (Charging Bull), bronsslegin stytta eftir Arturo Di Modica, kemur oft upp í hugann sem táknmynd kapítalismans og taumlausrar græðgi.
Ekki síst vegna þessarar sterku valdamiklu ímyndar var árásin á tvíburaturnanna í New York, 11. september 2001, eins og ör í hjarta Bandaríkjanna. Minningar um hana lifa enn. Ekki aðeins á söfnum heldur ekki síður með ýmsum minnisvörðum víða um borgina, eins og við sáum glögglega í Bronx. Þar var stórt skilti við slökkviliðsstöðina skammt frá dýragarðinum, þar sem minningu þeirra 343 slökkviliðsmanna sem létu lífið í árásunum var haldið á lofti.
Svo til endalaust er hægt að telja upp einkennandi staði fyrir borgina sem nota má um hin undarlegustu lýsingarorð. Við vorum sammála um það feðgar, þegar túrinn var búinn, að þetta væri svolítið magnaður staður. Líklega yrði öðruvísi að búa í borginni en í Rauðalæknum – þrátt fyrir að heimþráin kæmi reglulega upp í hugann í amstri dagsins – en alveg örugglega skemmtilegt flesta daga. Og epískt.
Frá Riverside Drive á hverjum degi
Lagt var upp í hverja ferð frá heimili okkar á Riverside Drive, skammt frá Columbia háskólanum við 116. stræti, og þaðan haldið á vit ævintýranna. Svo var komið heim seinnipartinn og batterýin hlaðin. Við Heimir vorum stundum með hlaupahjól en oftast nær gangandi. Lestin var stundum okkar helsta samgöngutæki. Halldór Elí naut svo góðs af kerru þegar þess þurfti, ekki síst þegar hvíla þurfti lúin bein.
Dagur 1
Heimsóttum Harlem, eftir göngu í gegnum Morningside Park. Fórum svo niður frá 120 stræti í göngu niður að 110 stræti, og beygðum þar inn í Central Park. Stoppað var við leikvelli og vatnsbunur eins og þurfti.
Dagur 2
Vöknuðum snemma og fórum rakleiðis niður á 83. stræti þar sem Children‘s Museum er til húsa. Þar eyddum við góðum klukkutímum við leik og fróðleik. Svo var komið við í Westside Records og kíkt á vínylplötur, pabbanum til mikillar gleði. Á heimleiðinni var viðkoma í Westside Market, keypt í matinn og eldaður góður matur.
Dagur 3
Ákváðum að skoða nærumhverfi heimilis okkar vel, svo allir væru nú vel með á nótunum fyrir framhaldið. Skoðuðum Riverside Park hátt og lágt, og eyddum bróðupartinum af deginum á mögnuðu afþreyingarsvæði niður við Hudson. Fótbolti, körfubolti, tennis, hafnabolti, hjólabretti, strandblak, fimleikaáhöld. Allt mátti finna þarna (Þarna áttum við eftir að sækja mikið, og gerum enn!). Enduðum daginn í mat á Tom‘s Restaurant, á 112. stræti. Sem Seinfeld aðdáandi gati pabbinn ekki beðið lengur með það, fyrst þetta er í nágrenninu. Vissulega sögulegur staður, og frekar Seinfeld-legt; tekur ekki kort, pirringur í þjónum og „basic“ egg og beikon það helsta á matseðlinum.
Dagur 4
Times Square og nágrenni. Þetta er nú meiri orkusugan. En áhrifamikið er um að litast. Auglýsingaiðnaðurinn er þarna með æðar sínar í kringum helstu merkjabúðir. Við feðgar létum lukkudýr plata okkur í rándýra myndatöku, eins og margir aðrir, en áttum skemmtilegar stundir.
Dagur 5
Ísinn reyndist okkur eins og bensínið fyrir ameríska bíla, þegar heitast var. Eftir að hafa skoðað málið vel, var ekki hjá því komist að fara í elstu Ben & Jerry‘s búðina á Manhattan, og fá sér ís. Svo var farið á 52. stræti og gengið um göturnar þar sem jazz-istarnir léku við hvurn sinn fingur forðum. Og gera á stöku stað enn.
Dagur 6
Vöknuðum snemma og komum okkur af stað niður í Riverside Park, sem er hinu megin við götuna hjá okkur. Löng ferð var fyrir höndum þennan daginn, þar sem við löbbuðum meðfram Hudson alveg niður í High Line Park. Stoppuðum á leiðinni og borðuðum nesti og drukkum vatn. Halldór Elí svaf á leiðinni til baka, svo til úrvinda eftir nokkurra kílómetra göngu og gríðarlegt spurningaflóð sem pabbinn átti oft erfitt með að hemja. Heimir Andri var heillaður af þessari framúrstefnulegu notkun á gömlum lestarteinum.
Dagur 7
Bret Easton Ellis er minn maður. Hann er frægur fyrir nákvæmar og ítarlegar frásagnir í sögum sínum, ekki síst lýsingum á ýmsum krókum og kimum New York borgar í meistaraverkinu American Psycho. Bókin kom út árið 1991 og fangar uppganginn á Wall Street í gegnum vitfirrtan verðbréfasala. Christan Bale gerði söguna ódauðlega með magnaðri frammistöðu sem sögumaðurinn Patrick Bateman í kvikmynd sögunnar, sem kom út árið 2000. Pabbinn gat ekki annað en teygt sig aðeins í bókina, og lagað ferðalagið að nokkrum stöðum úr sturlaðri sögu um brjálæðinginn Bateman. Við sóttum Rivers Café heim, en borðuðum reyndar ekki þar. Þar át Bateman hins vegar oft. Inn á milli morða, þráhyggjukasta og hlustunar á epíska popptónlist.
Dagur 8
Dýragarðurinn í Bronx var næsti áfangastaður. Það dugði ekkert annað en að fara snemma af stað, og stoppa allan daginn. Við feðgar skemmtum okkur stórkostlega, og komum þreyttir heim seinni part dags. Halldór Elí sofnaði í lestinni og fékk brjálæðiskast þegar hann vaknaði. En það gekk fljótt yfir.
Dagur 9
Fórum af stað um níu leytið að þessu sinni, sem var í seinni kantinum miðað dagana á undan. Markmiðið var að skoða vel svæðið á Upper West, einkum í kringum 89. til 95. stræti. Löbbuðum meðal annars að Dwight School þar sem meðlimir The Strokes voru saman í skóla, og settust þar í grenndinni inn á kaffihúsi. Þar voru teknir upp sköllóttir playmo kallar og tókst þeim bræðrum að leika sér í sátt og samlyndi um stund. Munið: Aldrei að trufla börn leik.
Dagur 10
Minigolf niður á Pier, neðst á Manhattan. Það er tilkomumikið að horfa niður á fjármálahverfið þaðan. Heimir Andri var ósáttur við það að Halldór Elí kynni ekki reglurnar, enda truflaði hann meira og minna alla sem voru að reyna að spila með því hlaupa yfir á aðrar brautir og sparka í kúlurnar. Það var mjög skemmtilegt. Já já. Við löbbuðum svo á skemmtilegan leikvöll með klifurvegg, og tókum svo lestina heim.
Dagur 11
Eftir að hafa legið yfir fróðleik um borgina, í nokkra mánuði áður en við fórum til New York, var komið að því að heimsækja safnið um árásirnar 11. september 2001. Heimir Andri spurðri margra spurninga um þessa merkilegu og hrikalegu atburði, sem setja mark sitt á Manhattan. Halldór Elí staldraði mikið við slökkviliðsbílinn sem er inn á safninu, en turnarnir tveir hrundu svo til alveg yfir hann.
Dagur 12
Ákváðum að halda okkur við neðsta hluta Manhattan, enda með eindæmum fjölbreytt og skemmtilegt svæði. Stefnan var tekin á slökkviliðssafnið á Spring Street. Þar var fyrst slökkviliðsstöðin á Manhattan. Safnið er skemmtilegt fyrir krakka, mátulega lítið og skipulagið einfalt og skemmtilegt. Á safninu er áhrifamikill minnisvarði um þá slökkviliðsmenn sem létust 11. september. Við Heimir Andri urðum svolítið hissa þegar við áttuðum okkur á því að meira en tíu prósent allra þeirra sem létust voru slökkviliðsmenn. Komum við á ítölskum Pizza stað í grennd og svo til öllum vatnskrönum sem við komumst í. Það var heitt.
Dagur 13
Ég greip aftur í American Psycho, og fór með strákana niður að gamla skemmtistaðnum Tunnel, alveg niður við Hudson ef gengið er frá lestarstöðinni á 34. Stræti. Þar er nú hönnunarhús sem nefnist ENK-NYC. Bateman var skæður á Tunnel, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Færðum okkur síðan niður í Bryant Park eftir að hafa keypt mat. Annars vorum við oftast með nesti meðferðis.
Dagur 14
Nú var komið að miklu tilhlökkunarefni bræðra, vatnsstríði okkar feðga. Ég á móti þeim. Keyptar voru nokkur hundruð vatnsblöðrur, og byrjað á því að setja í einn fullan poka, sextíu blöðrur. Vígvöllurinn var Central Park, eftir gengið er út frá 90. stræti. Þetta var langt stríð en praktískt. Það var ægilega heitt og allir höfðu gott af því að fá á sig kalt vatn. Við gengum í gegnum Central Park, upp 110. stræti og þar upp á Broadway, og heim.
Dagur 15
Litum við á West End jazz klúbbnum gamla. Þar stóð Miles Davis oft, þrútinn af eiturlyfjaneyslu og áfengisdrykkju, og bræddi viðstadda með ótrúlegum hæfileikum sínum á trompetinn. Í dag er þetta fremur venjulegur staður og ekki eins vinsæll og á gullaldartímabili jazz-senunnar í borginni. Strákunum fannst gaman að koma þarna og Heimir Andri spurði aðeins út í Miles Davis. Hann fær svörin við því kannski betur þega fram líða stundir. Davis er New York goðsögn, þó hann sé ekki fæddur í borginni, og bjó lengst af á Upper West Manhattan. Hann lést 65 ára gamall, árið 1991.
Dagur 16
Go Yankees! Við fórum á leik með New York City á Yankees Stadium, þeim goðsagnakennda velli. Bræður voru í skýjunum með leikvanginn. Þetta er hafnaboltavöllur, svo því sé til haga haldið.
Dagur 17
„Hey, remember me, Benny Blanco from the Bronx“. Við skipulögðum góða ferð um ýmsa staði á neðri hluta Manhattan, sem tengdust Kreppunni miklu. Hrunið á fjármálamarkaðnum í New York markaði upphaf hennar, og ýmsar glæsilegar byggingar voru byggðar upp í umfangsmikilli innviðauppbyggingu. Grand Central, vettvangur lokasenunnar í Carlito´s Way (Pabbinn mundi það!), var heimsótt og skoðuð hátt og lágt. Stórkostleg bygging, þó hún sé hluti af hversdagslegu lífi New York búa.
Dagur 18
Áfram var haldið á neðri hluta Manhattan. Við ákváðum að heimsækja Children‘s Museum of Art, á Charlton Street, skammt frá Hudson Square. Stórkostlega skemmtilegur staður fyrir krakka. Þarna var margt skemmtilegt að skoða og sjá. Eftir gott stopp gengum við í dágóða stund og skoðuðum öll „stóru húsin“. Halldór Elí talaði mikið um háhýsin, og vildi meina að sum þeirra væru endalaus.
Dagur 19
Mikill hiti og raki einkenndi ferðaplanið þennan daginn. Í stað þess að fara niður í China Town, ákváðum við að fara í Riverside Park og eyða deginum í vatni og á leikvöllum. Ein undantekning var þó gerð á því. Rétt um hádegið fórum við í frábæra bókabúð, sem er hér í grennd. Kíktum í barnadeildina í kjallaranum og keyptar voru bækur. Bræður áttu það skilið eftir mikinn dugnað.
Dagur 20
Soho hverfið var okkar helsti viðverustaður þennan daginn. Við tókum lestina niður á Canal Street og löbbuðum þaðan inn í Soho hverfið. Stoppuðum á tveimur kaffihúsum, og litum við á hinum sögufræga The Ear Inn bar. Hann var stofnaður 1830, er frekar lítill, en hefur lengi vel verið vettvangur líflegra mannamóta. Þegar heim var komið spurðu bræður mikið um litadýrð og skrýtnar búðir sem seldu sérkennilega hluti. Magnað hverfi Soho.
Dagur 21
Þegar hér var komið, var mikil þreyta í okkur öllum. Og við ætluðum að reyna að eiga frekar náðugan dag. Við fórum í bíó á sjá Jurassic World. Heimir Andri, sá eldri, sat límdur með þrívíddargleraugun og naut Spielbergs ævintýrisins. Halldór Elí var of ungur fyrir þessa mynd og fór fljótlega að hlaupa um salinn í myrkrinu. Í eitt skiptið fór hann alveg úr salnum og ég sprettaði á eftir honum. Ég fann hann alltaf við rúllustigann. Rúllustigar eru tímalaus snilld í huga þriggja og hálfs árs gutta. Við stoppuðum aftur í Ben Jerry‘s á heimleiðinni, eftir viðkomumí Central Park, og sáum Kevin Spacey!
Dagur 22
Vorum aðeins að vandræðast þennan daginn, en lögðum upp með að koma okkur niður á Times Square og labba þaðan upp á 50. stræti. Skyndilegar breytingar á lestarplönum, og leiðindabilanir, ollu því að Halldór Elí fékk nett brjálæðiskast í lestinni. Hann gerir einfaldlega meiri kröfur til lestanna! En þegar við loksins náðum að koma okkur út úr mestu þvögunni og upp að Central Park, þá tók við skemmtilegur tími í þessum ótrúlega garði. Við höfðum mest verið í eftir hluta garðsins vestan megin, en færðum okkur nú í hitt hornið, austan megin. Og gengum svo hringinn heim, upp í. Frábær dagur, þrátt fyrir nokkuð kröftuglega byrjun lestarkerfisins.
Dagur 23
Harlem hafði heillað okkur í þau skipti sem við fórum þangað. Nema í eitt skiptið, þá gerðum við smá mistök og fórum vitlausa leið í hinn frábæra Fairway Market. Þau mistök gerðum við ekki núna, og keyptum inn góðan mat og alls konar. Ótrúleg matvörubúð. Á heimleiðinni ræddum við um New Jersey og brúnna þangað sem sést ágætlega á leiðinni. Bruce Springsteen er fæddur í New Jersey, sagði ég. Hann hefur samið lög um venjulega Bandaríkjamenn í 50 ár.
Dagur 24
Aftur fórum við inn í Harlem og nú lá leiðin einungis stuttan spöl. Við vildum, eins og áður segir, vera með allt nærumhverfið á hreinu eftir þessar skemmtilegu dagsferðir. Þegar hér var komið treysti ég Heimi Andra til þess að rata heim og bjarga sé svo til alls staðar. Yelp Appið sagði mér að besta ískaffið væri á Senafina, og því fórum við þangað. Í Harlem er mikill og skemmtilegur kraftur, einkum á svæðinu sem er nærri Columbia skólanum. Listadeildir Columbia eru sumar hverjar staðsettar þar og sköpunin flæðir skemmtilega út í mannlíf heimamanna.
Dagur 25
Tribeca. Þangað höfðum við farið en áttum eftir að fara gagngert til að þess að anda að okkur þessum borgarhluta á hans forsendum. Við drifum okkur af stað með lestinni og fórum út á Canal Street og gengum rakleiðis inn í Tribeca með hjálp Google Maps. Halldór Elí spurði mikið um stóru húsin, sem fyrr,og fékk þau svör að þetta væru bankar. Goldman Sachs, Barclays, svo eitthvað sé nefnt. Ég missti það út úr mér við strákana að mér þætti helst til mikið snobb á þessu svæði, en það voru reyndar ekki alveg orð að sönnu. Eins og svo víða í hverfum New York borgar finna flestir eitthvað við sitt hæfi. Já og við fundum ís. Svo var rennt heim með lestinni, eftir dágóðan tíma á fínasta bekk á Greenwich Street.
Dagur 26
Á 17. júní höfðum við fjölskyldan farið á skemmtilegan stað niður við Hudson sem tilheyrir Riverside Park en alveg niður við 66. stræti. Þar undir gamalli lestarteinabrú er flottasti street ball körfuboltavöllur borgarinnar, að okkar mati. Við eyddum dágóðum tíma þar og vorum með nesti með okkur. White men can´t jump, og það allt. Við töldum okkur hafa afsannað það.
Dagur 27
Sameinuðu þjóðirnar eru með höfuðstöðvar í New York og það var ekki hægt að sleppa þeim. Þrátt fyrir þreytu, eftir frábæran körfuboltadag í hitanum, létum við okkur hafa það og koma okkur niður á austurhlutann og skoða okkur um við byggingar sem tilheyra starfi Sameinuðu þjóðanna. Við þurftum að skipta um lest í þessum túr, en ég reyndi að skipuleggja flestar ferðirnar þannig að þær féllu ágætlega að ásnum, sem gengur upp og niður framhjá heimili okkar. Reglurnar í lestinni voru einfaldar; alltaf að leiðast inn og út úr lestunum og halda hópinn. Ef einhver vondur karl ræðst á okkur þá átti pabbi að nota hlaupahjólið hans Heimis Andra til lemja frá sér, á meðan þeir bræður orguðu help, help á meðan. Blessunarlega kom aldrei til þess að neyðaráætlunin yrði virkjuð.
Dagur 28
Halldór Elí var á þessum tíma farinn að sýna svolítil merki um þreytu, einkum í lestunum. Enda búinn að standa sig með eindæmum vel að mati okkar Heimis Andra. Nú var ákveðið að fara aftur í bíó, og nú skyldi Halldór Elí fá eitthvað annað en risaeðluárásir í þrívídd. Minions varð fyrir valinu, en auglýsingaherferðin fyrir myndina var ekki búin að fara framhjá okkur neinsstaðar. Gulir kallar með læti.
Dagur 29
Empire State, hæsta byggingin í New York þegar hún var byggð árið 1930, var næst á dagskrá stórkostlegt mannvirki. Við fórum ekki upp að þessu sinni (gerðum það síðar), en skoðuðum hana utan frá eftir að hafa farið í Madison Square Garden, íþrótta- og tónleikahöllina frægu. Þegar heim var komið fletti Heimir Andri upp alls konar tilþrifum New York Knicks. Flest frá fyrri árum (ég sagði honum að skrifa John Starks á Youtube).
Dagur 30
Þessum degi höfðum við beðið eftir með nokkurri óþreygju enda átti önnum kafin mamman afmæli. Við feðgar fórum í Danny‘s Cycle club og keyptum handa henni nýtt hjól, og Heimir Andri fékk líka nýjan fák í nýrri heimaborg. Svo var farið í hjólatúr, en við Halldór Ellí lölluðum á eftir. Enduðum frábæran dag í kökuáti heima, eftir að Heimir Andri hafði sigrað mömmu sína í körfubolta.
Dagur 31
Halldór Elí var örmagna á þessum degi, en margs vísari. Á einum mánuði var eins og þeir bræður hefðu elst um nokkur ár. Svo mikið áreiti var í kringum þá þennan ævintýralega mánuð, í borginni sem aldrei sefur. Eins og fyrr segir, á aldrei að trufla barn í leik. Þegar Halldór Elí var búinn að raða playmo köllunum sínu upp á rúmstokkinn og stilla sjóræningjaskipinu upp, þá fórum við feðgar ég og Heimir Andri út í kvöldhjólatúr, þegar mamma var komin heim að lesa, og sáum magnað útsýnið frá Morningside Heights yfir blokkarþökin.