Áróðursmyndbönd flokkanna: Hvað vilja þeir sýna kjósendum?
Íslensku stjórnmálaflokkarnir dæla nú flestir út stuttum myndböndum með skilaboðum til þeirra sem ætla sér á kjörstað 25. september. Kjarninn kafaði í auglýsingabanka Facebook og rýndi í það hverju flokkarnir eru að koma á framfæri og með hvaða hætti, í áróðursmyndböndum sínum.
Það má með sanni segja að kosningabaráttan hafi farið af stað fyrir alvöru í vikunni sem er að líða. Flokkarnir hafa verið að dæla út kosningastefnuskrám, opna kosningaskrifstofur og aðsendar greinar eftir frambjóðendur um hin ýmsu efni troðfylla skoðanasíður fjölmiðlanna. Síðan hafa kappræður á milli frambjóðenda flokka um hin ýmsu málefni farið fram í sjónvarpi, útvarpi og í vefþáttum stærstu netmiðla landsins.
Það er ærið verk að reyna að fylgjast með öllu því sem fram fer í kosningabaráttunni og margt fer framhjá jafnvel þeim kjósendum sem reyna sitt ýtrasta til þess að hafa augun á stjórnmálabaráttunni. Á öld samfélagsmiðlanna hafa stjórnmálaflokkarnir þó fengið í hendur tól til þess að koma boðskap sínum og ef til vill sterkum frammistöðum fulltrúa sinna í kappræðunum milliliðalaust til kjósenda í stuttum myndböndum.
Kjarninn skoðaði þær auglýsingar sem stjórnmálaflokkarnir og frambjóðendur þeirra hafa verið að dæla inn á Facebook síðustu vikuna og reyndi að rýna í hvað það er sem flokkarnir virðast helst vilja vera að leggja áherslu á.
Eru það sterk augnablik leiðtoganna úr sjónvarpskappræðum, þar sem þeir stinga upp í andstæðinga sína með hnyttnum hætti? Eru það einhver ný stefnumál sem flokkarnir telja að geti aflað sér fylgis í komandi kosningum? Og hvaða stjórnmálamönnum eru flokkarnir að trana fram fyrir augu kjósenda?
Efnahagslegur stöðugleiki Bjarna og orkuskipti Þórdísar Kolbrúnar
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins mætti í fyrstu leiðtogaumræðurnar á RÚV á þriðjudagskvöld og ræddi þar um efnahagslegan stöðugleika, varaði við kosningaloforðum annarra flokka og mælti fyrir trú á fólk, en ekki ríkislausnir. Textað myndband af þessum orðum formannsins er nú í keyptri dreifingu á Facebook.
Bjarni Benediktsson í leiðtogaumræðum á RÚVTrúum á fólk en reynum ekki að ríkisvæða allar hugmyndir.
Posted by Sjálfstæðisflokkurinn on Wednesday, September 1, 2021
Sjálfstæðisflokkurinn er einnig að rúlla út mínútulöngu broti úr ræðu Bjarna frá stefnumótandi fundi flokksins um liðna helgi inn í Facebook, þar sem hann meðal annars sagði að svartsýnir sjái vandamál í öllum tækifærum, en bjartsýnir (eins og hann) sjái tækifæri í öllum vandamálum.
Þessi orð hans voru sett fram í sambandi við loftslagsbreytingar og nýlega skýrslu IPCC um vandann sem mannkynið á við að etja og þarf að finna lausnir á næstu ár og áratugi. Sjálfstæðisflokkurinn keyrir nú einnig út auglýsingu þar sem varaformaður flokksins, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir segir Sjálfstæðisflokkinn ætla í „alvöru aðgerðir í loftslagsmálum“ í „landi tækifæranna“, en orkuskipti í samgöngum eru í forgrunni þess sem flokkurinn vill koma áleiðis til kjósenda í þeim málaflokki.
Kristrún er með svörin fyrir Samfylkinguna
Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar mætti fyrir hönd flokksins í leiðtogakappræðurnar á RÚV í vikunni, en flokkurinn hefur þó klippt saman einhverja bita af því sem hann kom á framfæri þar og dælt því inn í vitund landsmanna með kostuðum auglýsingum.
Fyrr þann sama dag mætti Kristrún Frostadóttir frambjóðandi flokksins hins vegar í þáttinn Pallborðið á Vísi og tókst á við þá Bjarna Benediktsson og Gunnar Smára Egilsson í umræðum um efnahagsmál og fleira.
Kristrún í PallborðinuKristrún var með svörin klár í Pallborðinu í dag. Fjölskyldur í forgang og skýr áætlun um tekjuöflun. Samfylkingin býður sig fram í stjórn, ekki stjórnarandstöðu. Kynntu þér kosningastefnu Samfylkingarinnar: https://xs.is/stefnan
Posted by Samfylkingin on Tuesday, August 31, 2021
Samfylkingin deilir á Facebook rúmlega mínútu löngu myndskeiði úr þættinum, þar sem Kristrún færði rök fyrir því af hverju kosningaloforð flokksins um stóreignaskatt og barnabætur fyrir fleiri fjölskyldur væru góð hugmynd og framkvæmanleg. „Ég sem hagfræðingur og efnahagsmálasérfræðingur hefði aldrei farið fram með pakka sem ég vissi að stæði ekki undir sér,“ segir Kristrún meðal annars.
Málsvarar gleymda fólksins minna á sig
Flokkur fólksins hefur verið virkur í því að koma boðskap sínum áleiðis á Facebook um lengri tíma. Þessa dagana er í auglýsingasafni flokksins hægt að finna margar innblásnar ræður formannsins Ingu Sæland og líka viðtöl við einstaka frambjóðendur um stefnumálin – eins og þetta hér að neðan við Tómas Tómasson veitingamann og oddvita flokksins.
Skertar launatekjur eldri borgaraEldri borgarar sem hafa áhuga og getu til að vinna eiga að fá tækifæri til þess. Fólkið fyrst, svo allt hitt.
Posted by Flokkur fólksins on Monday, March 15, 2021
Flokkurinn hefur einnig gripið nýlegt myndbrot úr þætti Páls Magnússonar á Hringbraut og deilt inn á Facebook, þar sem Inga Sæland ræðir um helstu áherslumál flokksins.
Sigurður Ingi fer yfir stefnuna og Ásmundur Einar að kjósa
Framsóknarflokkurinn keyrir þessa dagana út þrettán mínútna langa ræðu formannsins Sigurðar Inga Jóhannssonar um málefnaáherslur flokksins fyrir kosningar, í heild sinni, í kostuðum auglýsingum á Facebook.
Einstaka stjórnmálamenn flokksins láta líka til sín taka í myndbandaframleiðslu og kostun þeirra á Facebook og hefur Ásmundur Einar Daðason félag- og barnamálaráðherra varið meira fé til auglýsinga í gegnum sína eigin Facebook-síðu en sumir flokkar sem bjóða fram undanfarna viku, eða vel yfir hundrað þúsund krónum. Hér má sjá hann fara í Kringluna að setja X við B.
✅ XB - Búinn að kjósa! 🗣 Nú er hægt að kjósa í Kringlunni og Smáralind alla daga frá kl 10-22 🤩 Ótrúlega einfalt og fljótlegt. Hvet sem flesta til að fara og klára að kjósa!
Posted by Ásmundur Einar Daðason on Wednesday, September 1, 2021
Sósíalistar leggja áherslu á að losna við Sjálfstæðisflokkinn
Sósíalistaflokkurinn hefur gripið upp klippu úr leiðtogaumræðum RÚV af Gunnari Smára Egilssyni tala um hve „gríðarlega áríðandi“ það sé fyrir almenning að Sjálfstæðisflokkurinn muni ekki lengur að koma að stjórn landsmálanna.
Brýnasta verkefnið á næsta kjörtímabili"Sjálfstæðisflokkurinn hefur setið í ríkisstjórn í 26 ár af síðustu 30 og hér lofa bæði VG og Framsókn því að atkvæði greitt þeim flokkum verði til þess að framlengja í fjögur ár í viðbót ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum"
Posted by Sósíalistaflokkur Íslands on Wednesday, September 1, 2021
Þessi textaða auglýsing með orðum formanns framkvæmdastjórnar flokksins er í keypti dreifingu á Facebook þessa dagana.
Innlit/Útlit-stemning hjá Viðreisn
Viðreisn hefur á síðustu vikum verið að dæla út fagmannlega framleiddum myndböndum á Facebook, þar sem frambjóðendur flokksins ræða um hverjir þeir eru og af hverju þeir séu í stjórnmálum. Mikið virðist lagt í þessi myndbönd og frambjóðendurnir sýndir við ýmsar aðstæður, á heimilum sínum ásamt fjölskyldum.
Eitt slíkt af formanninum Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur er til dæmis í keypti dreifingu á Facebook þessa dagana.
Viðtal við Þorgerði Katrínu, formann ViðreisnarÞorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar skipar 1. sæti á lista flokksins í Suðvesturkjördæmi. Hér kynnumst við hennar sýn á stjórnmálin betur og fáum að heyra um hvað kosningarnar munu snúast að hennar mati. En fáir stjórnmálamenn hafa jafn mikla reynslu á því sviði og hún. #XC #Viðreisn
Posted by Viðreisn on Monday, August 30, 2021
Viðreisn er einnig að keyra út styttri og snarpari kosningaauglýsingar á miðlinum, eins og þessa hér, þar sem frambjóðandinn Sigmar Guðmundsson biður fólk um að „gefa framtíðinni tækifæri“ með því að kjósa Viðreisn.
Katrín og loftslagsbreytingar í forgrunni hjá VG
Vinstri græn hafa ekki látið mikið til sín taka í myndbandagerð enn sem komið er. Flokkurinn hefur til dæmis ekki enn hagnýtt sér neitt af frammistöðu Katrínar Jakobsdóttur í leiðtogaumræðunum á RÚV til þess að setja fram í auglýsingum sínum á Facebook.
Á síðu flokksins má þó finna eitt nýlegt myndband, með mynd af formanninum, hressilegri tónlist og helstu áherslumálum flokksins. Það er þó ekki í kostaðri dreifingu.
X-V 25. september
Posted by Vinstrihreyfingin - grænt framboð on Wednesday, September 1, 2021
Flokkurinn framleiddi einnig einfalda auglýsingu sem var í birtingu á Facebook í seinni helmingi ágústmánaðar, þar sem áhersla var lögð á að flokkurinn hefði löngum talað um loftslagsbreytingar. Um er að ræða klippu af þingmönnum flokksins segja orðið „loftslagsbreytingar“ í ræðustóli Alþingis.
„Ding, ding, ding, Erna á þing“
Miðflokkurinn hefur ekki látið farið mikið fyrir sér fara í áróðursmyndbandagerð að undanförnu, en flokkurinn birti þó í gær nýtt og fagmannlega unnið myndskeið þar sem Erna Bjarnadóttir, sem situr í öðru sæti á lista flokksins í Suðurkjördæmi, segir frá sér í stuttu máli og lætur fylgja með slagorðið „Ding, ding, ding, Erna á þing.“
Það myndband var þó ekki enn komið í kostaða dreifingu er Kjarninn skoðaði auglýsingakaup flokksins á Facebook.
Erna Bjarnadóttir - 2. sæti SuðurkjördæmiHún Erna Bjarnadóttir skipar 2.sæti á lista Miðflokksins í Suðurkjördæmi. Áhugi Ernu á heilbrigðis- og landbúnaðarmálum er kveikjan að framboði hennar. Erna hefur áður vakið athygli fyrir baráttuna á öruggum og skilvirkum leghálsskimunum kvenna. Aukum nýsköpun í landbúnaði. Heilbrigðisskimanir fyrir alla! Ding, ding, ding - Ernu á þing! www.midflokkurinn.is
Posted by Miðflokkurinn on Friday, September 3, 2021
Flokkurinn hefur ekki enn framleitt neitt myndband upp úr kappræðunum á RÚV, þar sem formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson kom fram.
Hins vegar hefur flokkurinn verið að koma kosningaáherslum sínum, um 10 ný réttindi fyrir íslensku þjóðina, á framfæri með stuttu myndskeiði af hesti.
Málefnamyndbönd Pírata
Píratar hafa á undanförnum dögum birt nokkur stutt myndskeið á Facebook þar sem frambjóðendur flokksins fara yfir afstöðu flokksins til ýmissa mála. Ekkert þeirra var þó í kostaðri dreifingu þegar Kjarninn fór yfir auglýsingabanka Facebook í gær.
Flokkurinn, sem skoraði hæst í hvað loftslags- og umhverfismál varðar í hlutlægu mati Ungra umhverfissinna sem kynnt var í gær, setur til dæmis fram myndband um loftslagsstefnu sína þar sem frambjóðendur flokksins gagnrýna stefnu núverandi ríkisstjórnar í loftslagsmálum og segja að fólk sem „skilur vandann“ þurfi að komast að stjórnartaumunum.
Strax í gær var flokkurinn svo kominn með myndband í kostaða dreifingu þar sem Andrés Ingi Jónsson þingmaður greindi frá þessum niðurstöðum og stefnu Pírata í málaflokknum.
🌎 Loftslagsstefna Pírata er sú besta að mati Ungra umhverfissinna! Við þökkum UNG fyrir frábært framtak í þágu umhverfisins og okkar allra. Andrés Ingi á þingi tók við einkunnagjöfinni fyrir hönd flokksins.
Posted by Píratar on Friday, September 3, 2021
Píratar hafa hins vegar ekki gert neitt með frammistöður einstaka frambjóðenda í kappræðum í sjónvarpi eða á öðrum stöðum til þessa, en Þórhildur Sunna Ævarsdóttir var fulltrúi flokksins í leiðtogaumræðunum á RÚV í vikunni.
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn sífellt í beinni
Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn fer nokkuð óhefðbundnar leiðir í sínum kosningaáróðri á samfélagsmiðlum. Á Facebook-síðu flokksins er reglulega vísað beint yfir á Facebook-færslur frá formönnum flokksins og myndbönd af öðrum þeirra, Guðmundi Franklín Jónssyni, ræða milliliðalaust við kjósendur.
Í gær mætti hann í beina á Facebook og mærði frammistöðu meðformanns síns, Glúms Baldvinssonar í sjónvarpskappræðunum á RÚV fyrr í vikunni, kvartaði yfir því að flokkurinn hefði ekki þegar fengið boð í umræðuþætti Stöðvar 2 fyrir kosningarnar og hvatti alla til að segja upp afskriftinni af Morgunblaðinu, auk annars, í 15 mínútna löngu myndbandi.
„Þið sem eru að koma inn núna, endilega ýtið á líka við og deila, þá sjá þetta fleiri,“ sagði Guðmundur Franklín, en flokkurinn hefur minna verið í því að kaupa auglýsingar á félagsmiðlum.
Posted by Guðmundur Franklín on Friday, September 3, 2021
Þó hefur flokkurinn komið boðskap sínum áleiðis með nokkrum stuttum slagorðaauglýsingum, eins og til dæmis þessari, samkvæmt því sem sjá má í auglýsingabanka Facebook.