Root

Áróðursmyndbönd flokkanna: Hvað vilja þeir sýna kjósendum?

Íslensku stjórnmálaflokkarnir dæla nú flestir út stuttum myndböndum með skilaboðum til þeirra sem ætla sér á kjörstað 25. september. Kjarninn kafaði í auglýsingabanka Facebook og rýndi í það hverju flokkarnir eru að koma á framfæri og með hvaða hætti, í áróðursmyndböndum sínum.

Það má með sanni segja að kosn­inga­bar­áttan hafi farið af stað fyrir alvöru í vik­unni sem er að líða. Flokk­arnir hafa verið að dæla út kosn­inga­stefnu­skrám, opna kosn­inga­skrif­stofur og aðsendar greinar eftir fram­bjóð­endur um hin ýmsu efni troð­fylla skoð­ana­síður fjöl­miðl­anna. Síðan hafa kapp­ræður á milli fram­bjóð­enda flokka um hin ýmsu mál­efni farið fram í sjón­varpi, útvarpi og í vef­þáttum stærstu net­miðla lands­ins.

Það er ærið verk að reyna að fylgj­ast með öllu því sem fram fer í kosn­inga­bar­átt­unni og margt fer fram­hjá jafn­vel þeim kjós­endum sem reyna sitt ýtrasta til þess að hafa augun á stjórn­mála­bar­átt­unni. Á öld sam­fé­lags­miðl­anna hafa stjórn­mála­flokk­arnir þó fengið í hendur tól til þess að koma boð­skap sínum og ef til vill sterkum frammi­stöðum full­trúa sinna í kapp­ræð­unum milli­liða­laust til kjós­enda í stuttum mynd­bönd­um.

Kjarn­inn skoð­aði þær aug­lýs­ingar sem stjórn­mála­flokk­arnir og fram­bjóð­endur þeirra hafa verið að dæla inn á Face­book síð­ustu vik­una og reyndi að rýna í hvað það er sem flokk­arnir virð­ast helst vilja vera að leggja áherslu á.

Auglýsing

Eru það sterk augna­blik leið­tog­anna úr sjón­varp­s­kapp­ræð­um, þar sem þeir stinga upp í and­stæð­inga sína með hnyttnum hætti? Eru það ein­hver ný stefnu­mál sem flokk­arnir telja að geti aflað sér fylgis í kom­andi kosn­ing­um? Og hvaða stjórn­mála­mönnum eru flokk­arnir að trana fram fyrir augu kjós­enda?

Efna­hags­legur stöð­ug­leiki Bjarna og orku­skipti Þór­dísar Kol­brúnar

Bjarni Bene­dikts­son for­maður Sjálf­stæð­is­flokks­ins mætti í fyrstu leið­togaum­ræð­urnar á RÚV á þriðju­dags­kvöld og ræddi þar um efna­hags­legan stöð­ug­leika, var­aði við kosn­inga­lof­orðum ann­arra flokka og mælti fyrir trú á fólk, en ekki rík­is­lausn­ir. Textað mynd­band af þessum orðum for­manns­ins er nú í keyptri dreif­ingu á Face­book.

Bjarni Bene­dikts­son í leið­togaum­ræðum á RÚV

Trúum á fólk en reynum ekki að rík­i­s­væða allar hug­mynd­ir.

Posted by Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn on Wed­nes­day, Sept­em­ber 1, 2021

Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn er einnig að rúlla út mín­útu­löngu broti úr ræðu Bjarna frá stefnu­mót­andi fundi flokks­ins um liðna helgi inn í Face­book, þar sem hann meðal ann­ars sagði að svart­sýnir sjái vanda­mál í öllum tæki­færum, en bjart­sýnir (eins og hann) sjái tæki­færi í öllum vanda­mál­um.

Þessi orð hans voru sett fram í sam­bandi við lofts­lags­breyt­ingar og nýlega skýrslu IPCC um vand­ann sem mann­kynið á við að etja og þarf að finna lausnir á næstu ár og ára­tugi. Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn keyrir nú einnig út aug­lýs­ingu þar sem vara­for­maður flokks­ins, Þór­dís Kol­brún R. Gylfa­dóttir segir Sjálf­stæð­is­flokk­inn ætla í „al­vöru aðgerðir í lofts­lags­mál­um“ í „landi tæki­færanna“, en orku­skipti í sam­göngum eru í for­grunni þess sem flokk­ur­inn vill koma áleiðis til kjós­enda í þeim mála­flokki.

Kristrún er með svörin fyrir Sam­fylk­ing­una

Logi Ein­ars­son for­maður Sam­fylk­ing­ar­innar mætti fyrir hönd flokks­ins í leið­toga­kapp­ræð­urnar á RÚV í vik­unni, en flokk­ur­inn hefur þó klippt saman ein­hverja bita af því sem hann kom á fram­færi þar og dælt því inn í vit­und lands­manna með kost­uðum aug­lýs­ing­um.

Fyrr þann sama dag mætti Kristrún Frosta­dóttir fram­bjóð­andi flokks­ins hins vegar í þátt­inn Pall­borðið á Vísi og tókst á við þá Bjarna Bene­dikts­son og Gunnar Smára Egils­son í umræðum um efna­hags­mál og fleira.

Kristrún í Pall­borð­inu

Kristrún var með svörin klár í Pall­borð­inu í dag. Fjöl­skyldur í for­gang og skýr áætlun um tekju­öfl­un. Sam­fylk­ingin býður sig fram í stjórn, ekki stjórn­ar­and­stöð­u. Kynntu þér kosn­inga­stefnu Sam­fylk­ing­ar­inn­ar: https://xs.is/­stefnan

Posted by Sam­fylk­ingin on Tues­day, Aug­ust 31, 2021

Sam­fylk­ingin deilir á Face­book rúm­lega mín­útu löngu mynd­skeiði úr þætt­in­um, þar sem Kristrún færði rök fyrir því af hverju kosn­inga­lof­orð flokks­ins um stór­eigna­skatt og barna­bætur fyrir fleiri fjöl­skyldur væru góð hug­mynd og fram­kvæm­an­leg. „Ég sem hag­fræð­ingur og efna­hags­mála­sér­fræð­ingur hefði aldrei farið fram með pakka sem ég vissi að stæði ekki undir sér,“ segir Kristrún meðal ann­ars.

Málsvarar gleymda fólks­ins minna á sig

Flokkur fólks­ins hefur verið virkur í því að koma boð­skap sínum áleiðis á Face­book um lengri tíma. Þessa dag­ana er í aug­lýs­inga­safni flokks­ins hægt að finna margar inn­blásnar ræður for­manns­ins Ingu Sæland og líka við­töl við ein­staka fram­bjóð­endur um stefnu­málin – eins og þetta hér að neðan við Tómas Tóm­as­son veit­inga­mann og odd­vita flokks­ins.

Skertar launa­tekjur eldri borg­ara

Eldri borg­arar sem hafa áhuga og getu til að vinna eiga að fá tæki­færi til þess. Fólkið fyrst, svo allt hitt.

Posted by Flokkur fólks­ins on Monday, March 15, 2021

Flokk­ur­inn hefur einnig gripið nýlegt mynd­brot úr þætti Páls Magn­ús­sonar á Hring­braut og deilt inn á Face­book, þar sem Inga Sæland ræðir um helstu áherslu­mál flokks­ins.

Sig­urður Ingi fer yfir stefn­una og Ásmundur Einar að kjósa

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn keyrir þessa dag­ana út þrettán mín­útna langa ræðu for­manns­ins Sig­urðar Inga Jóhanns­sonar um mál­efna­á­herslur flokks­ins fyrir kosn­ing­ar, í heild sinni, í kost­uðum aug­lýs­ingum á Face­book.

Ein­staka stjórn­mála­menn flokks­ins láta líka til sín taka í mynd­banda­fram­leiðslu og kostun þeirra á Face­book og hefur Ásmundur Einar Daða­son félag- og barna­mála­ráð­herra varið meira fé til aug­lýs­inga í gegnum sína eigin Face­book-­síðu en sumir flokkar sem bjóða fram und­an­farna viku, eða vel yfir hund­rað þús­und krón­um. Hér má sjá hann fara í Kringl­una að setja X við B.

✅ XB - Búinn að kjósa! 🗣 Nú er hægt að kjósa í Kringl­unni og Smára­lind alla daga frá kl 10-22 🤩 Ótrú­lega ein­falt og fljót­legt. Hvet sem flesta til að fara og klára að kjósa!

Posted by Ásmundur Einar Daða­son on Wed­nes­day, Sept­em­ber 1, 2021

Sós­í­alistar leggja áherslu á að losna við Sjálf­stæð­is­flokk­inn

Sós­í­alista­flokk­ur­inn hefur gripið upp klippu úr leið­togaum­ræðum RÚV af Gunn­ari Smára Egils­syni tala um hve „gríð­ar­lega áríð­andi“ það sé fyrir almenn­ing að Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn muni ekki lengur að koma að stjórn lands­mál­anna.

Brýn­asta verk­efnið á næsta kjör­tíma­bili

"Sjálf­stæð­is­flokk­ur­inn hefur setið í rík­is­stjórn í 26 ár af síð­ustu 30 og hér lofa bæði VG og Fram­sókn því að atkvæði greitt þeim flokkum verði til þess að fram­lengja í fjögur ár í við­bót rík­is­stjórn með Sjálf­stæð­is­flokknum"

Posted by Sós­í­alista­flokkur Íslands on Wed­nes­day, Sept­em­ber 1, 2021

Þessi textaða aug­lýs­ing með orðum for­manns fram­kvæmda­stjórnar flokks­ins er í keypti dreif­ingu á Face­book þessa dag­ana.

Inn­lit/Út­lit-­stemn­ing hjá Við­reisn

Við­reisn hefur á síð­ustu vikum verið að dæla út fag­mann­lega fram­leiddum mynd­böndum á Face­book, þar sem fram­bjóð­endur flokks­ins ræða um hverjir þeir eru og af hverju þeir séu í stjórn­mál­um. Mikið virð­ist lagt í þessi mynd­bönd og fram­bjóð­end­urnir sýndir við ýmsar aðstæð­ur, á heim­ilum sínum ásamt fjöl­skyld­um.

Eitt slíkt af for­mann­inum Þor­gerði Katrínu Gunn­ars­dóttur er til dæmis í keypti dreif­ingu á Face­book þessa dag­ana.

Við­tal við Þor­gerði Katrínu, for­mann Við­reisnar

Þor­gerður Katrín Gunn­ars­dótt­ir, for­maður Við­reisnar skipar 1. sæti á lista flokks­ins í Suð­vest­ur­kjör­dæmi. Hér kynn­umst við hennar sýn á stjórn­málin betur og fáum að heyra um hvað kosn­ing­arnar munu snú­ast að hennar mati. En fáir stjórn­mála­menn hafa jafn mikla reynslu á því sviði og hún. #XC #Við­reisn

Posted by Við­reisn on Monday, Aug­ust 30, 2021

Við­reisn er einnig að keyra út styttri og snarp­ari kosn­inga­aug­lýs­ingar á miðl­in­um, eins og þessa hér, þar sem fram­bjóð­and­inn Sig­mar Guð­munds­son biður fólk um að „gefa fram­tíð­inni tæki­færi“ með því að kjósa Við­reisn.

Katrín og lofts­lags­breyt­ingar í for­grunni hjá VG

Vinstri græn hafa ekki látið mikið til sín taka í mynd­banda­gerð enn sem komið er. Flokk­ur­inn hefur til dæmis ekki enn hag­nýtt sér neitt af frammi­stöðu Katrínar Jak­obs­dóttur í leið­togaum­ræð­unum á RÚV til þess að setja fram í aug­lýs­ingum sínum á Face­book.

Á síðu flokks­ins má þó finna eitt nýlegt mynd­band, með mynd af for­mann­in­um, hressi­legri tón­list og helstu áherslu­málum flokks­ins. Það er þó ekki í kost­aðri dreif­ingu.

X-V 25. sept­em­ber

Posted by Vinstri­hreyf­ingin - grænt fram­boð on Wed­nes­day, Sept­em­ber 1, 2021

Flokk­ur­inn fram­leiddi einnig ein­falda aug­lýs­ingu sem var í birt­ingu á Face­book í seinni helm­ingi ágúst­mán­að­ar, þar sem áhersla var lögð á að flokk­ur­inn hefði löngum talað um lofts­lags­breyt­ing­ar. Um er að ræða klippu af þing­mönnum flokks­ins segja orðið „lofts­lags­breyt­ing­ar“ í ræðu­stóli Alþing­is.

„Ding, ding, ding, Erna á þing“

Mið­flokk­ur­inn hefur ekki látið farið mikið fyrir sér fara í áróð­urs­mynd­banda­gerð að und­an­förnu, en flokk­ur­inn birti þó í gær nýtt og fag­mann­lega unnið mynd­skeið þar sem Erna Bjarna­dótt­ir, sem situr í öðru sæti á lista flokks­ins í Suð­ur­kjör­dæmi, segir frá sér í stuttu máli og lætur fylgja með slag­orðið „Ding, ding, ding, Erna á þing.“

Það mynd­band var þó ekki enn komið í kost­aða dreif­ingu er Kjarn­inn skoð­aði aug­lýs­inga­kaup flokks­ins á Face­book.

Erna Bjarna­dóttir - 2. sæti Suð­ur­kjör­dæmi

Hún Erna Bjarna­dóttir skipar 2.sæti á lista Mið­flokks­ins í Suð­ur­kjör­dæmi. Áhugi Ernu á heil­brigð­is- og land­bún­að­ar­málum er kveikjan að fram­boði henn­ar. Erna hefur áður vakið athygli fyrir bar­átt­una á öruggum og skil­virkum leg­háls­skimunum kvenna. Aukum nýsköpun í land­bún­aði. Heil­brigð­is­skimanir fyrir alla! D­ing, ding, ding - Ernu á þing! www.mid­flokk­ur­inn.is

Posted by Mið­flokk­ur­inn on Fri­day, Sept­em­ber 3, 2021

Flokk­ur­inn hefur ekki enn fram­leitt neitt mynd­band upp úr kapp­ræð­unum á RÚV, þar sem for­mað­ur­inn Sig­mundur Davíð Gunn­laugs­son kom fram.

Hins vegar hefur flokk­ur­inn verið að koma kosn­inga­á­herslum sín­um, um 10 ný rétt­indi fyrir íslensku þjóð­ina, á fram­færi með stuttu mynd­skeiði af hesti.

Mál­efna­mynd­bönd Pírata

Píratar hafa á und­an­förnum dögum birt nokkur stutt mynd­skeið á Face­book þar sem fram­bjóð­endur flokks­ins fara yfir afstöðu flokks­ins til ýmissa mála. Ekk­ert þeirra var þó í kost­aðri dreif­ingu þegar Kjarn­inn fór yfir aug­lýs­inga­banka Face­book í gær.

Flokk­ur­inn, sem skor­aði hæst í hvað lofts­lags- og umhverf­is­mál varðar í hlut­lægu mati Ungra umhverf­is­sinna sem kynnt var í gær, setur til dæmis fram mynd­band um lofts­lags­stefnu sína þar sem fram­bjóð­endur flokks­ins gagn­rýna stefnu núver­andi rík­is­stjórnar í lofts­lags­málum og segja að fólk sem „skilur vand­ann“ þurfi að kom­ast að stjórn­ar­taumun­um.

Strax í gær var flokk­ur­inn svo kom­inn með mynd­band í kost­aða dreif­ingu þar sem Andrés Ingi Jóns­son þing­maður greindi frá þessum nið­ur­stöðum og stefnu Pírata í mála­flokkn­um.

🌎 Lofts­lags­stefna Pírata er sú besta að mati Ungra umhverf­is­sinna! Við þökkum UNG fyrir frá­bært fram­tak í þágu umhverf­is­ins og okkar allra. Andrés Ingi á þingi tók við ein­kunna­gjöf­inni fyrir hönd flokks­ins.

Posted by Píratar on Fri­day, Sept­em­ber 3, 2021

Auglýsing

Píratar hafa hins vegar ekki gert neitt með frammi­stöður ein­staka fram­bjóð­enda í kapp­ræðum í sjón­varpi eða á öðrum stöðum til þessa, en Þór­hildur Sunna Ævars­dóttir var full­trúi flokks­ins í leið­togaum­ræð­unum á RÚV í vik­unni.

Frjáls­lyndi lýð­ræð­is­flokk­ur­inn sífellt í beinni

Frjáls­lyndi lýð­ræð­is­flokk­ur­inn fer nokkuð óhefð­bundnar leiðir í sínum kosn­inga­á­róðri á sam­fé­lags­miðl­um. Á Face­book-­síðu flokks­ins er reglu­lega vísað beint yfir á Face­book-­færslur frá for­mönnum flokks­ins og mynd­bönd af öðrum þeirra, Guð­mundi Frank­lín Jóns­syni, ræða milli­liða­laust við kjós­end­ur.

Í gær mætti hann í beina á Face­book og mærði frammi­stöðu með­for­manns síns, Glúms Bald­vins­sonar í sjón­varp­s­kapp­ræð­unum á RÚV fyrr í vik­unni, kvart­aði yfir því að flokk­ur­inn hefði ekki þegar fengið boð í umræðu­þætti Stöðvar 2 fyrir kosn­ing­arnar og hvatti alla til að segja upp afskrift­inni af Morg­un­blað­inu, auk ann­ars, í 15 mín­útna löngu mynd­bandi.

„Þið sem eru að koma inn núna, endi­lega ýtið á líka við og deila, þá sjá þetta fleiri,“ sagði Guð­mundur Frank­lín, en flokk­ur­inn hefur minna verið í því að kaupa aug­lýs­ingar á félags­miðl­um.

Posted by Guð­mundur Frank­lín on Fri­day, Sept­em­ber 3, 2021

Þó hefur flokk­ur­inn komið boð­skap sínum áleiðis með nokkrum stuttum slag­orða­aug­lýs­ing­um, eins og til dæmis þess­ari, sam­kvæmt því sem sjá má í aug­lýs­inga­banka Face­book.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar