Mynd: Skjáskot/Samherji

Jón Óttar kominn með réttarstöðu sakbornings í Samherjamálinu

Gögn sem saksóknarar í Namibíu hafa lagt fram sýna að Jón Óttar Ólafsson átti í samskiptum við einn þeirra manna sem grunaðir eru um að hafa þegið mútur í skiptum fyrir kvóta á árinu 2016 og á árinu 2019. Hann var kallaður til yfirheyrslu á Íslandi í sumar og fékk réttarstöðu sakbornings við upphaf hennar.

Jón Óttar Ólafsson, ráðgjafi og fyrrverandi rannsóknarlögreglumaður sem starfað hefur fyrir Samherja árum saman, var kallaður til yfirheyrslu hjá embætti héraðssaksóknara nýverið vegna rannsóknar þess á meintum mútugreiðslu, skattasniðgöngu og peningaþvætti Samherja í tengslum við starfsemi samstæðunnar í Namibíu. Við þær yfirheyrslur fékk Jón Óttar réttarstöðu sakbornings í málinu. 

Það þýðir að sjö manns hið minnsta hafa fengið slíka stöðu við yfirheyrslur hjá embættinu frá því að fyrsta lota þeirra hófst í fyrrasumar.  Kjarninn greindi frá því fyrir nákvæmlega einu ári síðan að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, væri á meðal sex einstaklinga sem fengu réttarstöðu sakbornings í málinu við yfirheyrslur í júlí 2020.  

Hinir fimm sem voru þá kallaðir inn til til yfirheyrslu og fengu réttarstöðu sakbornings við hana voru Ingvar Júlíusson, fjármálastjóri Samherja á Kýpur, Arna McClure, yfirlögfræðingur Samherja og ræðismaður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árnason, framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, Aðalsteinn Helgason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu, og Jóhannes Stefánsson.

Auglýsing

Jóhannes var framkvæmdastjóri Samherja í Namibíu um tíma en lék lykilhlutverk í því að uppljóstra um meintar mútugreiðslur, peningaþvætti og skattasniðgöngu Samherja í umfjöllun Kveiks, Stundarinnar og Al Jazeera um málið sem birtist í nóvember 2019. 

Tölvupóstar benda til aðildar

Jón Óttar starfaði í Namibíu fyrir hönd Samherja um nokkurra ára skeið, frá árinu 2016. Samherji hefur haldið því fram í yfirlýsingum að í starfi hans hafi falist að kanna hvort ekki væri allt með felldu í rekstrinum. 

Í greinargerð sem ríkissaksóknari í Namibíu sendi frá sér í lok júlí síðastliðins voru birtir tölvupóstar sem Jón Óttar sendi úr netfangi dótturfélags Samherja 13.  september 2016 til tveggja annarra manna sem hafa réttarstöðu sakbornings í málinu, Ingvars Júlíussonar og Egils Helga Árnasonar. Þar sagðist hann meðal annars hafa verið að ræða við einn þeirra sex manna, James Hatuikulipi, sem sitja í fangelsi í Namibíu vegna gruns um að þiggja mútur frá Samherja, í tengslum við greiðslur fyrir kvóta frá fyrirtækinu Namgomar, sem Samherji fékk kvóta frá á grundvelli milliríkjasamnings við Angóla. 

Tölvupóstur sem Jón Óttar Ólafsson sendi og fylgdi með nýlegra birtri greinargerð saksóknara í Namibíu.
Mynd: Skjáskot

Í greinargerð sem saksóknari í Namibíu lagði fram í kyrrsetningarmáli í lok síðasta árs kom þó fram að Jón Óttar hafi átt í tölvupóstsamskiptum við James í maí árið 2019. Því virðast gögn benda til þess að Jón Óttar hafi verið í hlutverki milligöngumanns milli Samherja og þeirra sem grunaðir eru um mútuþægni í að minnsta kosti tæp þrjú ár. 

Úr greinargerð saksóknara.

Tilgangur samskiptanna var að lýsa yfir áhyggjum um að yfirvöld myndu uppgötva leynigreiðslur sem Samherji greiddi inn á bankareikning félagsins Tundavala, skráð í eigu Hatuikulipi, í Dúbaí. Nokkur hundruð milljónir króna runnu inn á reikninga þess frá Samherja á árunum 2014 til 2019. Í samskiptunum reyndi Jón Óttar að slá á áhyggjur um að yfirvöld í Namibíu gætu haft upp á þeim greiðslum sem farið höfðu inn á leynireikninga í Dúbaí. „Við höfum lokað þeim reikningum. Auk þess hafa þeir ekki burði til þess að fara á eftir flóknum aflandsviðskiptum,“ sagði í einum tölvupóstinum. 

Allt að sex ára fangelsi

Þau brot sem grunur er um að hafi verið framin í Samherjamálinu varða 109. og 264. grein almennra hegningarlaga um mútur. Í fyrrnefndu greininni segir að hver sem gefur, lofar eða býður opinberum starfsmanni, gjöf eða annan ávinning, sem hann á ekki tilkall til, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans skal sæta fangelsi allt að fimm árum eða sektum ef málsbætur eru fyrir hendi. „Sömu refsingu skal sá sæta sem beinir slíku að erlendum opinberum starfsmanni, erlendum kviðdómanda, erlendum gerðarmanni, manni sem á sæti á erlendu fulltrúaþingi sem hefur stjórnsýslu með höndum, starfsmanni alþjóðastofnunar, manni sem á sæti á þingi slíkrar stofnunar eða á opinberu löggjafarþingi í erlendu ríki, dómara sem á sæti í alþjóðlegum dómstóli eða starfsmanni við slíkan dómstól, í því skyni að fá hann til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert sem tengist opinberum skyldum hans.“

Í 264. grein segir að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinnings af broti á hegningarlögum eða af refsiverðu broti á öðrum lögum, eða umbreytir slíkum ávinningi, flytur hann, sendir, geymir, aðstoðar við afhendingu hans, leynir honum eða upplýsingum um uppruna hans, eðli, staðsetningu eða ráðstöfun ávinnings skuli sæta fangelsi allt að sex árum.

Auglýsing

Þá eru einnig til rannsóknar meint brot á ákvæðum kafla XXXVI í almennum hegningarlögum, sem fjalla um auðgunarbrot. Við brotum á ákvæðum þess kafla liggur fangelsisrefsing sem getur verið allt að þrjú til sex ár. 

Embætti skattrannsóknarstjóra, sem var lagt niður í núverandi mynd fyrr á þessu ári og varð eftir það deild innan Skattsins, er síðan að rannsaka hvort raunverulegt eignarhald á allri Samherjasamstæðunni sé hérlendis og hvort að ákvörðun um að greiða skatta annarsstaðar en hér sé þar með stórfelld skattasniðganga.  

Starfaði lengi fyrir Samherja

Jón Óttar starfaði fyrir Samherja að ýmsum verkefnum um margra ára skeið. Samkvæmt upplýsingum sem nýr upplýsingafulltrúi samstæðunnar veitti Stundinni í dag þá starfar hann ekki lengur fyrir Samherja. 

Í skaðabótamáli sem Samherji höfðaði gegn Samherja, og lauk í fyrra, gerði fyrirtækið skaðabótakröfu upp á 306 milljónir króna. Tæpur helmingur þeirrar upphæðar, alls 135 milljónir króna, var vegna kostnaðar við störf Jóns Óttars fyrir fyrirtækið. Skaðabótakröfunni var hafnað og Samherji tapaði málinu í héraðsdómi Reykjavíkur.

Auglýsing

Kjarninn greindi frá því í ágúst í fyrra að Jón Óttar hefði allt frá því að umfjöllun Kveiks og Stund­ar­innar um við­skipta­hætti Sam­herja í Namibíu birt­ist þann 12. nóv­em­ber 2020 verið tíður gestur á Kaffi­fé­lag­inu, kaffi­húsi í miðbæ Reykja­vík­ur, einatt til að hitta á og ná tali af blaðamanninum Helga Seljan, einum þeirra sem leiddi umfjöllunina, en þar hitt­ist hópur fólks iðu­lega á morgn­ana til að spjalla um dag­inn og veg­inn. 

Kjarninn greindi enn fremur frá því að Jón Óttar hefði ítrekað sent Helga skila­boð, bæði í gegnum SMS og Facebook-­reikn­ing eig­in­konu sinn­ar. Ingi Freyr Vil­hjálms­son, blaða­maður á Stund­inni sem fjallað hefur um Sam­herja, fékk einnig send skila­boð þar sem honum var hótað „um­fjöll­un“.

Þá hefur Jón Óttar komið fram í myndböndum sem Samherji lét vinna, þar sem blaðamenn sem fjallað hafa um Samherja hafa verið bornir þungum sökum.

Hann var einnig á meðal þeirra einstaklinga sem mynduðu hina svokölluðu „skæruliðadeild Samherja“, sem meðal annars safnaði saman upplýsingum um blaðamenn, reyndi að gera þá ótrúverðuga með ýmsum hætti og jafnvel vanhæfa til að fjalla áfram um Samherja.

Lestu meira:

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar