Mynd: Skjáskot/Samherji

Jón Óttar kominn með réttarstöðu sakbornings í Samherjamálinu

Gögn sem saksóknarar í Namibíu hafa lagt fram sýna að Jón Óttar Ólafsson átti í samskiptum við einn þeirra manna sem grunaðir eru um að hafa þegið mútur í skiptum fyrir kvóta á árinu 2016 og á árinu 2019. Hann var kallaður til yfirheyrslu á Íslandi í sumar og fékk réttarstöðu sakbornings við upphaf hennar.

Jón Óttar Ólafs­son, ráð­gjafi og fyrr­ver­andi rann­sókn­ar­lög­reglu­maður sem starfað hefur fyrir Sam­herja árum sam­an, var kall­aður til yfir­heyrslu hjá emb­ætti hér­aðs­sak­sókn­ara nýverið vegna rann­sóknar þess á meintum mútu­greiðslu, skatta­snið­göngu og pen­inga­þvætti Sam­herja í tengslum við starf­semi sam­stæð­unnar í Namib­íu. Við þær yfir­heyrslur fékk Jón Óttar rétt­ar­stöðu sak­born­ings í mál­in­u. 

Það þýðir að sjö manns hið minnsta hafa fengið slíka stöðu við yfir­heyrslur hjá emb­ætt­inu frá því að fyrsta lota þeirra hófst í fyrra­sum­ar.  Kjarn­inn greindi frá því fyrir nákvæm­lega einu ári síðan að Þor­steinn Már Bald­vins­son, for­stjóri Sam­herja, væri á meðal sex ein­stak­linga sem fengu rétt­ar­stöðu sak­born­ings í mál­inu við yfir­heyrslur í júlí 2020.  

Hinir fimm sem voru þá kall­aðir inn til til yfir­heyrslu og fengu rétt­ar­stöðu sak­born­ings við hana voru Ingvar Júl­í­us­son, fjár­mála­stjóri Sam­herja á Kýp­ur, Arna McClure, yfir­lög­fræð­ingur Sam­herja og ræð­is­maður Kýpur á Íslandi, Egill Helgi Árna­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­herja í Namib­íu, Aðal­steinn Helga­son, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri Sam­herja í Namib­íu, og Jóhannes Stef­áns­son.

Auglýsing

Jóhannes var fram­kvæmda­stjóri Sam­herja í Namibíu um tíma en lék lyk­il­hlut­verk í því að upp­ljóstra um meintar mútu­greiðsl­ur, pen­inga­þvætti og skatta­snið­göngu Sam­herja í umfjöllun Kveiks, Stund­ar­innar og Al Jazeera um málið sem birt­ist í nóv­em­ber 2019. 

Tölvu­póstar benda til aðildar

Jón Óttar starf­aði í Namibíu fyrir hönd Sam­herja um nokk­urra ára skeið, frá árinu 2016. Sam­herji hefur haldið því fram í yfir­lýs­ingum að í starfi hans hafi falist að kanna hvort ekki væri allt með felldu í rekstr­in­um. 

Í grein­ar­gerð sem rík­is­sak­sókn­ari í Namibíu sendi frá sér í lok júlí síð­ast­lið­ins voru birtir tölvu­póstar sem Jón Óttar sendi úr net­fangi dótt­ur­fé­lags Sam­herja 13.  sept­em­ber 2016 til tveggja ann­arra manna sem hafa rétt­ar­stöðu sak­born­ings í mál­inu, Ingv­ars Júl­í­us­sonar og Egils Helga Árna­son­ar. Þar sagð­ist hann meðal ann­ars hafa verið að ræða við einn þeirra sex manna, James Hatuikulipi, sem sitja í fang­elsi í Namibíu vegna gruns um að þiggja mútur frá Sam­herja, í tengslum við greiðslur fyrir kvóta frá fyr­ir­tæk­inu Nam­gom­ar, sem Sam­herji fékk kvóta frá á grund­velli milli­ríkja­samn­ings við Angóla. 

Tölvupóstur sem Jón Óttar Ólafsson sendi og fylgdi með nýlegra birtri greinargerð saksóknara í Namibíu.
Mynd: Skjáskot

Í grein­ar­gerð sem sak­sókn­ari í Namibíu lagði fram í kyrr­setn­ing­ar­máli í lok síð­asta árs kom þó fram að Jón Óttar hafi átt í tölvu­póst­sam­skiptum við James í maí árið 2019. Því virð­ast gögn benda til þess að Jón Óttar hafi verið í hlut­verki milli­göngu­manns milli Sam­herja og þeirra sem grun­aðir eru um mútu­þægni í að minnsta kosti tæp þrjú ár. 

Úr greinargerð saksóknara.

Til­gangur sam­skipt­anna var að lýsa yfir áhyggjum um að yfir­völd myndu upp­götva leyni­greiðslur sem Sam­herji greiddi inn á banka­reikn­ing félags­ins Tunda­vala, skráð í eigu Hatuikulipi, í Dúbaí. Nokkur hund­ruð millj­ónir króna runnu inn á reikn­inga þess frá Sam­herja á árunum 2014 til 2019. Í sam­skipt­unum reyndi Jón Óttar að slá á áhyggjur um að yfir­völd í Namibíu gætu haft upp á þeim greiðslum sem farið höfðu inn á leyni­reikn­inga í Dúbaí. „Við höfum lokað þeim reikn­ing­um. Auk þess hafa þeir ekki burði til þess að fara á eftir flóknum aflands­við­skipt­u­m,“ sagði í einum tölvu­póst­in­um. 

Allt að sex ára fang­elsi

Þau brot sem grunur er um að hafi verið framin í Sam­herj­a­mál­inu varða 109. og 264. grein almennra hegn­ing­ar­laga um mút­ur. Í fyrr­nefndu grein­inni segir að hver sem gef­ur, lofar eða býður opin­berum starfs­manni, gjöf eða annan ávinn­ing, sem hann á ekki til­kall til, í þágu hans eða ann­arra, til að fá hann til að gera eitt­hvað eða láta eitt­hvað ógert sem teng­ist opin­berum skyldum hans skal sæta fang­elsi allt að fimm árum eða sektum ef máls­bætur eru fyrir hendi. „Sömu refs­ingu skal sá sæta sem beinir slíku að erlendum opin­berum starfs­manni, erlendum kvið­dóm­anda, erlendum gerð­ar­manni, manni sem á sæti á erlendu full­trúa­þingi sem hefur stjórn­sýslu með hönd­um, starfs­manni alþjóða­stofn­un­ar, manni sem á sæti á þingi slíkrar stofn­unar eða á opin­beru lög­gjaf­ar­þingi í erlendu ríki, dóm­ara sem á sæti í alþjóð­legum dóm­stóli eða starfs­manni við slíkan dóm­stól, í því skyni að fá hann til að gera eitt­hvað eða láta eitt­hvað ógert sem teng­ist opin­berum skyldum hans.“

Í 264. grein segir að hver sem tekur við, nýtir eða aflar sér eða öðrum ávinn­ings af broti á hegn­ing­ar­lögum eða af refsi­verðu broti á öðrum lög­um, eða umbreytir slíkum ávinn­ingi, flytur hann, send­ir, geym­ir, aðstoðar við afhend­ingu hans, leynir honum eða upp­lýs­ingum um upp­runa hans, eðli, stað­setn­ingu eða ráð­stöfun ávinn­ings skuli sæta fang­elsi allt að sex árum.

Auglýsing

Þá eru einnig til rann­sóknar meint brot á ákvæðum kafla XXXVI í almennum hegn­ing­ar­lög­um, sem fjalla um auðg­un­ar­brot. Við brotum á ákvæðum þess kafla liggur fang­els­is­refs­ing sem getur verið allt að þrjú til sex ár. 

Emb­ætti skatt­rann­sókn­ar­stjóra, sem var lagt niður í núver­andi mynd fyrr á þessu ári og varð eftir það deild innan Skatts­ins, er síðan að rann­saka hvort raun­veru­legt eign­ar­hald á allri Sam­herj­a­sam­stæð­unni sé hér­lendis og hvort að ákvörðun um að greiða skatta ann­ars­staðar en hér sé þar með stór­felld skatta­snið­ganga.  

Starf­aði lengi fyrir Sam­herja

Jón Óttar starf­aði fyrir Sam­herja að ýmsum verk­efnum um margra ára skeið. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum sem nýr upp­lýs­inga­full­trúi sam­stæð­unnar veitti Stund­inni í dag þá starfar hann ekki lengur fyrir Sam­herj­a. 

Í skaða­bóta­máli sem Sam­herji höfð­aði gegn Sam­herja, og lauk í fyrra, gerði fyr­ir­tækið skaða­bóta­kröfu upp á 306 millj­ónir króna. Tæpur helm­ingur þeirrar upp­hæð­ar, alls 135 millj­ónir króna, var vegna kostn­aðar við störf Jóns Ótt­ars fyrir fyr­ir­tæk­ið. Skaða­bóta­kröf­unni var hafnað og Sam­herji tap­aði mál­inu í hér­aðs­dómi Reykja­vík­ur.

Auglýsing

Kjarn­inn greindi frá því í ágúst í fyrra að Jón Óttar hefði allt frá því að umfjöllun Kveiks og Stund­­ar­innar um við­­skipta­hætti Sam­herja í Namibíu birt­ist þann 12. nóv­­em­ber 2020 verið tíður gestur á Kaffi­­­fé­lag­inu, kaffi­­­húsi í miðbæ Reykja­vík­­­ur, einatt til að hitta á og ná tali af blaða­mann­inum Helga Selj­an, einum þeirra sem leiddi umfjöll­un­ina, en þar hitt­ist hópur fólks iðu­­lega á morgn­ana til að spjalla um dag­inn og veg­inn. 

Kjarn­inn greindi enn fremur frá því að Jón Óttar hefði ítrekað sent Helga skila­­boð, bæði í gegnum SMS og Face­book-­­reikn­ing eig­in­­konu sinn­­ar. Ingi Freyr Vil­hjálms­­son, blaða­­maður á Stund­inni sem fjallað hefur um Sam­herja, fékk einnig send skila­­boð þar sem honum var hótað „um­­fjöll­un“.

Þá hefur Jón Óttar komið fram í mynd­böndum sem Sam­herji lét vinna, þar sem blaða­menn sem fjallað hafa um Sam­herja hafa verið bornir þungum sök­um.

Hann var einnig á meðal þeirra ein­stak­linga sem mynd­uðu hina svoköll­uðu „skæru­liða­deild Sam­herj­a“, sem meðal ann­ars safn­aði saman upp­lýs­ingum um blaða­menn, reyndi að gera þá ótrú­verð­uga með ýmsum hætti og jafn­vel van­hæfa til að fjalla áfram um Sam­herja.

Lestu meira:

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar