Tanbreez Killavaat Alannguat Mynd: Af vef Tanbreez

Ásælast fjársjóðskistu Grænlands í nafni grænnar orku

Grænland var eitt sinn sunnan miðbaugs. Svo rak það norður. Síðan eru auðvitað liðin óteljandi ár en á þessu ferðalagi sínu hnoðaðist bergið og ummyndaðist svo til urðu gull og gersemar í meira magni en víðast annars staðar. Þess vegna fékk Donald Trump glampa í augun er athygli hans var vakin á þessari fjársjóðskistu, barmafullri af efnum sem þarf til að framleiða græna orku og vopn, efni sem Kínverjar ráða nú nær einir yfir. Trump gerði eins og Trump er vanur að gera, sagðist einfaldlega ætla að að kaupa það. Þótt það hafi verið „fáránleg“ hugmynd er hann langt í frá sá eini sem ásælist auðlindir stærstu eyju jarðar.

Þegar Donald Trump, þáverandi forseti Bandaríkjanna, sagði það til skoðunar (þó ekki forgangsmál) að kaupa Grænland, var gert stólpa grín að honum um allan heim. Grænland er ekki til sölu sögðu bæði forsætisráðherra Grænlands og forsætisráðherra Danmerkur en Trump hafði einmitt svarað því til, spurður um áhugann á kaupunum, að Danmörk „ætti það raunverulega“. Kaupin yrðu „í raun stór fasteignasamningur“ og „margt væri hægt að gera“ á Grænlandi. Svo gaf hann í skyn að Danir yrðu eflaust fegnir að losna við þessa stóru eyju í norðri, hún væri þeim svo íþyngjandi fjárhagslega.

„Grænland er ekki til sölu. Grænland er ekki danskt. Grænland tilheyrir Grænlandi,“ sagði Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. Hún sagði hugmyndina að kaupunum „fáránlega“ og móðgaði Trump um leið mikið.

Þetta var í ágúst árið 2019. Fyrir rúmlega einu og hálfu ári síðan.

Þótt margir hafi hlegið að þessari hugmynd Trumps þá voru aðrir sem töldu hann vera að reyna að feta í fótspor Andrew Johnson sem var forseti árið 1869 er Bandaríkjamenn keyptu Alaska af Rússum á 7,2 milljónir dala. Fleiri forsetar fyrri tíma hafa keypt landsvæði fyrir hönd bandaríska ríkisins. Það gerði Thomas Jefferson árið 1803 er hann keypti stórt landsvæði í Louisiana af Frökkum. Slík viðskipti hafa einnig farið fram milli Danmerkur og Bandaríkjanna og ekki er lengra síðan en rúm öld frá því að Woodrow Wilson keypti hinar svonefndu Dönsku Vestur-Indíur fyrir 25 milljónir dala. Eyjurnar sem keyptar voru fengu í kjölfarið nafnið Bandarísku Jómfrúaeyjar.

Auglýsing

En hvað sem fyrir Trump vakti, hvort sem hann var að reyna að auka sinn persónulega hróður eður ei, þykir mörgum ljóst hvaðan hugmyndin kom: Frá öldruðum, áströlskum jarðfræðingi sem helgað hefur líf sitt leitinni að fágætum jarðefnum.

Greg Barnes er alls enginn nýgræðingur þegar kemur að því að leita að, grafa eftir og selja sjaldgæfustu efnin sem finnast í jarðskorpunni. Þessa iðju hefur hann stundað í hálfa öld. Og hann er enn að. Augu hans höfðu því fyrir löngu beinst að Grænlandi og þess fornu fjöllum. Það var einmitt Barnes sem hafði komið á fund sérfræðinga í Hvíta húsinu í júlí árið 2019, aðeins nokkrum dögum áður en fyrstu fréttir tóku að berast af hugmyndum Trumps um að kaupa Grænland.

Ástralska viðskiptablaðið AFR (Australian Financial Review), hefur eftir heimildarmönnum að Barnes hafi hitt tuttugu sérfræðinga sem allir tengdust ríkisstjórn Trumps. Sumir voru starfsmenn ráðuneyta en aðrir stofnana, s.s. Bandarísku jarðfræðistofnunarinnar. Á fundinum upplýsti hann áheyrendur um hið risastóra námuverkefni sem hann stefnir að á Grænlandi. Verkefni sem kallast Tanbreez, nafn sem búið er til úr upphafsstöfum þeirra jarðefna sem fjöllin á suðurhluta Grænlands geyma og Barnes hefur áhuga á að vinna.

Grænland er eitt elsta land heims.
EPA

Bandaríska jarðfræðistofnunin heldur því fram að á Grænlandi sé að finna mesta vinnanlega magn heims af hinum sjaldgæfu jarðefnum sem eftirsótt eru í hverskonar iðnaði og framleiðslu. Efnin, sem heyra til þessara jarðefna, eru sautján talsins. Grænland geymir svo mun fleiri efni. Þar er að finna gull og aðrar gersemar í jörðu sem fyrr og nú hafa þótt eftirsóknarverðar.

En hvers vegna finnast öll þessi jarðefni á Grænlandi? „Grænland er meðal elstu landa jarðar, allt að 4 milljarða ára gamalt,” skrifaði Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur um málið á bloggsíðu sína. „Gamalt berg hefur gengið í margt í gegnum jarðaldirnar, eins og gefur að skilja,“ heldur hann áfram. „Grænland hefur til dæmis verið staðsett fyrir sunnan miðbaug, en rak svo norður. Grænland hefur líka verið grafið djúpt í jörðu, tugi kílómetra, sem hefur hitað og soðið jarðskorpuna og skilið að ýmsar efnasamstæður og frumefni á vissum svæðum. Þá ummyndast bergið og hnoðast, eins og þegar við bökum marmaraköku. Heitir vökvar, sem eru eins konar millistig milli hraunkviku og heita vatnsins okkar, bera með sér þessi efni úr dýpinu, en svo falla þau út og kristallast þegar vökvinn kemur upp í kaldara berg. Þá myndast málmæðar, sem eru grundvöllur fyrir námurekstri.“

Allt þetta veit Barnes sem hefur enda verið í verkefnum á Grænlandi áður. Fyrirtæki hans, Rimbal Pty Ltd., keypti námuverkefnið Tanbreez árið 2001, fyrir tveimur áratugum. Á heimasíðu Tanbreez segir að það sé enn í fullri eigu Rimbal.

Auglýsing

Donald Trump notaði hvert tækifæri sem hann gat á sinni valdatíð til að reyna að hafa áhrif á völd Kínverja í hagkerfi heimsins. Hann setti á inn- og útflutningsbönn sem og tolla á vörur frá Kína. En þegar kom að hinum sjaldgæfu og verðmætu jarðefnum var það flókið. Kínverjar ráða yfir um 90 prósent af vinnslu þeirra á heimsvísu. Þeir eru því sem næst í einokunarstöðu á þeim markaði.

Kínverskir fjárfestar eru fyrir löngu síðan farnir að horfa til Grænlands og mögulegrar námuvinnslu þar. Kínverskt fyrirtæki, sem nýtur opinbers fjárstuðnings, á í dag stærstan hlut í ástralska fyrirtækinu Greenland Minerals. Fyrirtækið hefur í meira en áratug stefnt að vinnslu sjaldgæfra jarðefna úr fjalli á suðurhluta Grænlands, ofan við bæinn Narsaq. En sá galli fylgir gjöf Narðar að í fjallinu Kuannersuit er mikil geislavirkni. Það hefur verið vitað í áratugi. Og það vissi Barnes sem ætlaði sér eitt sinn að gera þar námu. Það verkefni seldi hann hins vegar fyrir nokkrum árum.

Skammt frá Kuannersuit, sem á íslensku heitir Hvannarfjall, er nokkurs konar torg kennt við Niels Bohr, þann þekkta danska eðlisfræðing sem fékk Nóbelsverðlaun árið 1922 fyrir rannsóknir á geislun frumeinda en sneri sér svo að kjarneðlisfræði. Það var þó ekki fyrr en eftir dauða hans að Danir höfðu uppi stór áform um að vinna úran á Grænlandi til að nota í kjarnorkuverum. Þetta var árið 1980. Meira en 4.200 tonn af málmgrýti voru grafin úr Hvannarfjalli og flutt til Danmerkur. Þá voru engin kjarorkuver í Danmörku og enn er þar ekkert slíkt að finna.

Úran yrði því aukaafurð námuvinnslu Greenland Minerals yrði hún að veruleika. Grænlendingar eru hins vegar flestir síður en svo hrifnir af því og óttast að það geti spillt hinu viðkvæma lífríki við heimskautsbaug enda sérlega óstöðugt efni og erfitt í meðförum.

Donald Trump var áhugasamur um að kaupa Grænland.
EPA

Fengi Greenland Minerals að opna námu í Kuannersuit, í um 600 metra hæð yfir sjávarmáli, myndi það mala um þrjár milljónir tonna af málmgrýti úr því á ári en aðeins flytja út brot af því magni. Afganginum, sem þá yrði orðinn úrgangur, yrði komið fyrirí stóru vatni á tindi fjallsins. Þetta er ekki ósvipað áformum Tanbreez. Unnið yrði málmgrýti úr tveimur opnum námum og úrgangi, um 200 þúsund tonnum á ári, dælt um sjö kílómetra leið í gegnum pípu og út í vatnið Fostersø á toppi fjallsins Killavaat Alannguat við Kangerluarsuk-fjörð. Vatnið þyrfti að stífla og myndi fyllast af úrgangi á um þremur áratugum að því er fram kemur í matsskýrslu TanBreez sem gerð var árið 2013.

Þessi fyrirhugaða námuvinnsla varð að stærsta kosningamáli í nýafstöðnum þingkosningunum á Grænlandi og varð til þess að vinstri flokkurinn Inuit Ataqatigiit bar sigur úr býtum, flokkur sem segir enga vinnslu úrans koma til greina. Formaður flokksins, Múte Egede, hefur ennfremur sagt að nýting náttúruauðlinda Grænlandi eigi að vera á forræði Grænlendinga sjálfra. Hann var áður ráðherra auðlindamála og hitti þá jarðfræðinginn Barnes og sló ekki hugmyndir hans út af borðinu. Enda yrði úran ekki fylgifiskur vinnslu Barnes nema í “örlitlum mæli” og hann hefur þegar fengið rannsóknarleyfi.Það er önnur umhverfisáhrif sem myndu fylgja, m.a. hætta á mengun áa.

Framhaldið er hins vegar óljóst nú þegar ný stjórn munu taka við valdataumunum á Grænlandi. Barnes hefur hins vegar sagt að hvað sem verði sé hann tilbúinn að bíða miklu lengur. Náman hans á Grænlandi yrði „sú stóra“.

Tanbreez Mining Greenland fékk í ágúst rannsóknarleyfi grænlenskra stjórnvalda vegna fyrirhugaðrar námu sinnar.
Af Facebook-síðu Tanbreez

Brölt Kínverja á Grænlandi hefur hins vegar ekki verið stjórnvöldum í Bandaríkjunum að skapi. Og þegar Barnes hafði lokið erindi sínu á fundi sérfræðinganna í Hvíta húsinu hefur Trump verið upplýstur um málið. Risastórt fjall. Fullt af sjaldgæfum jarðefnum. Fleiri slík á eyjunni stóru, fjöll sem eru smám saman, vegna loftslagshamfaranna, að verða aðgengilegri til vinnslu. Nóg af efnum sem notuð eru í vindmyllur, sólarrafhlöður, símaskjái og rafhlöður rafmagnsbíla. Öll þessi nútímaþægindi sem Vesturlandabúar eru farnir að venjast og þurfa ef áætlanir um uppbyggingu „grænnar orku“ sem er á stefnuskrá flestra vestrænna ríkja, eiga að verða að veruleika. Svo eru þau einnig notuð til vopnaframleiðslu. Mikið magn segulmagnaðra sjaldgæfra jarðefna þarf í slíka hátækniframleiðslu. Mjög mikið.

Með því að komast að þeim „kjötkötlum“ þyrftu Bandaríkjamenn ekki lengur að stóla á Kínverjana í þeim efnum. Núverandi forseti Bandaríkjanna, Joe Biden, hefur ekki sagst ætla að kaupa Grænland en stjórn hans hefur upplýst að farið verði yfir öll lykil aðföng Bandaríkjanna, m.a. sjaldgæf jarðefni, og reynt að tryggja að aðrar þjóðir geti ekki notað ákveðnar framleiðsluvörur sem vopn í viðskiptum við Bandaríkin.

Pass-fjall í Kaliforníu. Þar er að finna einu námu sjaldgæfra jarðefna í Bandaríkjunum. Fyrirtækið sem hana rekur er í meirihlutaeigu Kínverja.
Bandaríska jarðfræðistofnunin

En þessi fyrirhugaða námuvinnsla er drullumall. Jarðefnin fágætu er að finna víða um heim en oftast í svo litlu magni að það hefur þurft gríðarlegan kostnað og mikla vinnu að grafa eftir þeim í vinnanlegu magni. Þetta er talin ein helsta ástæða þess að Bandaríkjamenn, sem voru leiðandi í vinnslunni á árum áður, gáfust upp á henni og Kínverjar stukku á tækifærið, glufuna sem myndaðist, með fyrrgreindum yfirburða afleiðingum. Ein slík náma er starfrækt í Bandaríkjunum. Hún er að hluta í eigu kínversks fyrirtækis sem nýtur stuðnings stjórnvalda í sínu heimalandi. Það sem unnið er úr námunni í Pass-fjalli í Kaliforníu er flutt til Kína til frekari vinnslu.

Barnes fór ekki á fund sérfræðinganna í Hvíta húsinu í þeim eina tilgangi að segja þeim sögu af grænlensku fjalli sem hann vill grafa í. Hann er í leit að fjármagni. Hann þarf 500 milljónir Bandaríkjadala til að hefja vinnsluna – að því gefnu að hann fái yfir höfuð leyfi til graftrarins. „Þetta er bara brjálæði,“ sagði Barnes nýverið um áhugann hjá fjárfestunum. Hann segist þegar hafa fengið um tuttugu tilboð.

Þetta kapphlaup um auðlindir í jörðu á Grænlandi, þessar tvær áformuðu námur sem aðeins yrðu nokkrir kílómetrar á milli, hefur afhjúpað margt en kannski fyrst og fremst tvennt: Í fyrsta lagi að það er raunveruleg valdabarátta milli Kínverja og Bandaríkjamanna um nýtingu á norðurslóðum og stundum er látið eins og aðrar þjóðir (Grænlendingar í þessu tilfelli) séu bara peð sem einfaldlega megi ryðja úr vegi. Hitt sem er loks farið að vekja athygli er að græn orka sem er efst á loforðalistum margra stjórnmálamanna er ekki alltaf svo væn.

Hinum megin á jarðkringlunni

En hvað eru tvö áströlsk fyritæki að vilja upp á dekk hinum megin á hnettinum? Námuvinnsla er umfangsmikil í Ástralíu. Þar var gullæði á þar síðustu öld og síðan þá hafa fjölmargar námur verið opnaðar vítt og breitt um landið til að grafa eftir margvíslegum málum, gimsteinum og ekki síst kolum og gasi. Í þessu umhverfi hafa mörg stór alþjóðleg námufyrirtæki orðið til sem eru með starfsemi í mörgum löndum, jafnvel mjög fjarlægum.

Tanbreez, fyrirtæki Barnes, og Greenland Minerals, eru einmitt sprottin úr þessu námuvæna landslagi efnahagslífsins í Ástralíu. Og nú vilja þau grafa á Grænlandi. Það vilja fleiri áströlsk námufyrirtæki reyndar gera. Þau eru í það minnsta sex talsins.

Bandarísk stjórnvöld hafa ekkert gefið út um það hvort að þau ætli sér að kaupa í fyrirtæki Barnes. En það er ekki útilokað því þau vilja verða sjálfbær í öflun sjaldgæfu jarðefnanna.

Grænland er stærsta eyja heims, hulin ís að mestu þó að íshellan hafi þynnst og hörfað á síðustu árum. Þar hafa landmótunaröfl náttúrunnar ekki aðeins sett svip sinn á fjöllin, dalina og firðina. Úr þessu stórbrotna umhverfi, víðáttunni til lands og sjávar, er hin fámenna en sannarlega harðgerða grænlenska þjóð sprottin. Þjóð sem hefur verið undir yfirráðum Dana í aldir en hefur síðustu ár tekið sífellt meiri völd á eigin málum. Meðal annars náttúruauðlindum.

Ferðamennska hefur aukist á Grænlandi síðustu ár og því hefur verið spáð að landið verði enn vinsælli áfangastaður í nánustu framtíð.

Nú er verið að reyna að stilla Grænlandi upp í miðjunni á valdabrölti stórvelda á norðurhjara veraldar. Sú uppstilling hefur átt ákveðinn aðdraganda og ýmsir sérfræðingar hafa á síðustu árum bent á að slíkt væri í uppsiglingu. „Hugmynd Trumps um að kaupa Grænland varð til þess að heimsbyggðin fór að átta sig á hvað fólk eins og við höfum verið að tala um allan tímann,“ sagði Dwayne Menezes, stofnandi og forstöðumaður bresku hugveitunnar Polar Research & Policy Initiative, í samtali við AFT. Grænland eigi eftir að verða miðja geópólitíkur 21. aldarinnar. Náttúruauðlindirnar og siglingaleiðirnar. Áhrif loftslagshamfaranna sem eru hvað mest á þessum slóðum. Ofan á allt saman leggst svo þykkt lag af óþoli nokkurra vesturvelda í garð Kínverja og Rússa.

Efnahagslíf Grænlendinga byggir helst á þremur stoðum: Fiskveiðum, landbúnaði og ferðamennsku. Sú síðastnefnda hefur farið vaxandi og áður en heimsfaraldur COVID-19 skall á höfðu þekkt ferðarit veðjað á að stóra eyjan í norðri yrði næsti „heiti“ áfangastaður ferðalanga. Enn á eftir að koma í ljós hvort að sú spá rætist og verði til þess að fólk eigi eftir að flykkjast til landsins og þá til að skoða hina óspilltu náttúru.

Auglýsing

„Það er ótrúleg fjölbreytni í málmum og verðmætum frumefnum í jarðskorpu Grænlands,“ skrifaði Haraldur eldfjallafræðingur í fyrrnefndri bloggfærslu sinni. „Framtíðin mun skera úr um, hvernig Grænlendingar munu fara með þessi miklu auðæfi í jörðu, en námuvinnsla þar mun hafa gífurleg og neikvæð áhrif á umhverfið, allt til Íslands.“

Egede, formaður IA, sem er nú að þreifa fyrir sér um myndun nýrrar ríkisstjórnar á Grænlandi, sendi skýr skilaboð strax og úrslit þingkosninganna voru ljós. „Við segjum nei við úranvinnslu.“ Í fjallið sem hann ólst upp undir í bænum Narsaq verður að minnsta kosti ekki grafið. Flokkur hans er hins vegar ekki alfarið á móti námuvinnslu. Barnes getur því áfram haldið í vonina. Og það gerir hann svo sannarlega. Í síðustu viku var haft eftir honum að hann hefði engar áhyggjur af nýrri ríkisstjórn. Hún myndi ekki sjá fyrirtæki hans í öðru ljósi en sú síðasta.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar