Mynd: Wow air

Hefði átt að afturkalla flugrekstrarleyfi WOW air í maí 2018

WOW air átti ekki fé til að standa við skuldbindingar sínar í maí 2018. Stjórnvöld efuðust verulega um getu Samgöngustofu til að sinna fjárhagseftirliti með flugfélaginu. Það virtist skorta á þekkingu til að vinna úr upplýsingum um fjárhagsstöðu WOW air.

Eft­ir­lit með starf­semi flug­fé­laga á Íslandi byggir á Evr­ópu­reglu­gerð frá árinu 2008 um hvort félögin geti staðið við raun­veru­legar skuld­bind­ingar og aðrar skuld­bind­ingar sem kann að vera stofnað til á tólf mán­aða tíma­bili. Sú stofnun sem hefur eft­ir­lit með þessu er Sam­göngu­stofa, sem gefur út flug­rekstr­ar­leyf­i. 

Sam­kvæmt reglu­gerð­inni á Sam­göngu­stofa taf­ar­laust að fram­kvæma ítar­legt mat á fjár­hags­stöðu flug­fé­lags ef vís­bend­ingar koma fram um að það eigi í fjár­hags­erf­ið­leik­um. Til­gangur þess fjár­hags­mats er að fá full­vissu um að flug­rek­and­inn geti annað hvort staðið við fjár­hags­legar skuld­bind­ingar sínar eða ekki. Ef matið sýnir að hann geti það er staða flug­rekstr­ar­leyfis óbreytt. Sýni matið að vafi sé á að flug­fé­lagið geti staðið við skuld­bind­ingar sínar á að fella flug­rekstr­ar­leyfi þess tíma­bundið úr gildi eða ein­fald­lega aft­ur­kalla það. Afleið­ingar af því geta verið tvenns kon­ar: Sam­göngu­stofa getur veitt félag­inu tíma­bundið flug­rekstr­ar­leyfi eða það hættir ein­fald­lega starf­semi.

Ótti við vanda WOW air

Af lestri skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar er ljóst að innan íslenska stjórn­kerf­is­ins var til staðar ótti við að íslensk flug­fé­lög gætu lent í vand­ræð­um. Því til stuðn­ings má benda á að þann 15. nóv­em­ber 2017 óskaði sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðu­neyti, þá undir stjórn Jóns Gunn­ars­sonar úr Sjálf­stæð­is­flokki, eftir upp­lýs­ingum frá Sam­göngu­stofu um hvernig metið væri hvort flug­rek­andi upp­fyllti skil­yrði um trygg­ingar og fjár­hags­stöð­u. 

Óskað var eftir grein­ar­gerð um hvernig staðið væri að mat­inu, hver við­miðin væru og hvernig það tryggi rekstr­ar­hæfi komi til áfalla eða sam­drátt­ar. Jafn­framt var óskað eftir til­lögum um hvað betur mætti fara í laga- og reglu­gerð­ar­um­hverf­in­u. 

Auglýsing

Sam­göngu­stofa svar­aði 12. jan­úar 2018, en þá var Sig­urður Ingi Jóhanns­son orð­inn ráð­herra mála­flokks­ins. Í svari hennar kom fram að stofn­unin hefði falið PwC að sinna mati á fjár­hags­legri stöðu. Það mat byggði á gagna­skilum frá flug­fé­lög­um. Í þeim fólst að afhenda end­ur­skoð­aðan árs­reikn­ing og að leyf­is­höfum bæri að afhenda fjár­hags­gögn hvenær sem Sam­göngu­stofa bæði um þau. 

Voru að verða uppi­skroppa með reiðufé

Þeim sem fylgd­ust með flug­rekstri á Íslandi var flestum orðið ljóst að vand­ræði voru í rekstri WOW air síðla árs 2017. Þá lenti færslu­hirð­ing­ar­fyr­ir­tækið Korta­þjón­ust­an, sem greiddi umtals­verðan hluta af greiðslum sem bár­ust frá við­skipta­vinum WOW air vegna ferða sem voru ófarnar strax, í vand­ræðum og eig­enda­skipt­um. Við bætt­ust erf­ið­ari ytri aðstæð­ur, aukin launa­kostn­aður og hörð sam­keppni, sem birt­ist fyrst og síð­ast í því að nær ómögu­legt virt­ist fyrir flug­fé­lög að velta auknum kostn­aði út í verð til neyt­enda. Mikið var rætt um að WOW air ætti varla reiðufé nema nokkra daga fram í tím­ann í byrjun árs 2018. Á öðrum árs­fjórð­ungi þess árs lagði Skúli Mog­en­sen, aðal­eig­andi og for­stjóri WOW air, eign­ar­hlut sinn í Cargo Express inn í WOW air og breytti kröfum sínum á hendur félag­inu í nýtt hluta­fé. Þetta var fyrsti lið­ur­inn í til­raunum til að end­ur­fjár­magna WOW air, þótt engir nýir pen­ingar hafi í raun farið inn í rekst­ur­inn við þetta. 

Skúli var svo mættur í við­tal hjá Bloomberg 27. apríl 2018 þar sem hann sagði að sala á hlut í WOW air kæmi til greina fyrir árs­lok og sá orðrómur gekk að stór alþjóð­leg flug­fé­lög, sér­stak­lega hið þýska Luft­hansa, hefði áhuga. 

Áttu að aft­ur­kalla flug­rekstr­ar­leyfið

Full­trúar Sam­göngu­stofu fund­uðu með stjórn­endum WOW air tví­vegis sum­arið 2018, sam­kvæmt því sem fram kemur í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­un­ar. Á fundi 16. maí var farið yfir árs­reikn­ing félags­ins fyrir 2017. Þar kom m.a. fram að upp­færa þyrfti rekstr­ar­á­ætlun fyrir árið 2018 þar sem olíu­verð, ráð­andi breyta í rekstr­ar­hæfi félags­ins, hafði hækk­að. Þar kom einnig fram að far­þega­þróun WOW air „væri undir vænt­ingum en stefnt væri á flug til Ind­lands áður en árið væri úti­“. 

Þórólfur Árnason var forstjóri Samgöngustofu á meðan að á dauðastríði WOW air stóð. Hann var ekki skipaður aftur í þá stöðu.
Mynd: RÚV.

Sjóðs­staðan var sögð erfið og draga hefði þurft greiðslur til leigu­sala. „Fengi félagið ekki nýtt fé í rekst­ur­inn hefði það ekki nægt fjár­magn eftir sum­arið 2018 til að standa undir rekstri vetr­ar­ins og til næsta vor­s.“

Nokkuð ljóst er að WOW air upp­fyllti ekki skil­yrði reglu­gerð­ar­innar sem félagið starf­aði eftir miðað við þessar upp­lýs­ing­ar. WOW air gat ekki staðið við skuld­bind­ingar sínar og var ógjald­fært. Í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar segir að Sam­göngu­stofa hafi, á grund­velli mats á fjár­hags­stöðu WOW Air „borið að fella tíma­bundið úr gildi eða aft­ur­kalla flug­rekstr­ar­leyf­ið“. Reglu­gerðin heim­il­aði að Sam­göngu­stofu hefði verið heim­ilt að veita tíma­bundið leyfi í kjöl­far­ið, að hámarki til eins árs, á meðan að fjár­hags­leg end­ur­skipu­lagn­ing færi fram. Þrátt fyrir að þessar upp­lýs­ingar lægju allar fyrir réðst Sam­göngu­stofa ekki í fjár­hags­mat og flug­rekstr­ar­leyfi WOW air var því aldrei aft­ur­kall­að. 

Tapið þre­fald­að­ist á nokkrum vikum

Þann 20. júní 2018 fund­uðu full­trúar frá Sam­göngu­stofu aftur með WOW air. Þá hafði staðan versnað til muna. Tap fyrir tekju­skatt á árinu 2018 stefndi nú í að verða rúm­lega þrisvar sinnum hærra en talið var nokkrum vikum áður, eða 35,5 millj­ónir dala, á þeim tíma um 3,7 millj­arðar króna. Tekju­á­ætlun félags­ins hafði dreg­ist saman um 40 millj­ónir dala, um 4,2 millj­arða króna, frá því sem kynnt var á fund­inum mán­uði áður. 

Í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar seg­ir: Þá gerðu stjórn­endur WOW air hf. full­trúum Sam­göngu­stofu grein fyrir því að fjár­hags­staða félags­ins væri mjög erfið og að stefnt væri að útgáfu skulda­bréfa til að afla fjár­magns inn í rekst­ur­inn.“ 

Auglýsing

Eft­ir­lit Sam­göngu­stofu með fjár­hag WOW air í júlí og ágúst tak­mark­að­ist við þessa tvo fundi og sím­töl um fjár­mögn­unar­á­form­in. Skulda­bréfa­út­boð­ið, sem varð afar skraut­legt, lauk ekki fyrr en um miðjan sept­em­ber. Í skýrsl­unni segir að þegar stytt­ist í nið­ur­stöðu skulda­bréfa­út­boðs­ins í sept­em­ber hafi Sam­göngu­stofa fundað dag­lega með stjórn­endum fyr­ir­tæk­is­ins og eft­ir­litið fólst í því að sann­reyna að fjár­hags­leg end­ur­skipu­lagn­ing væri í gang­i. 

Ásak­anir um blekk­ingar

Síðar kom í ljós að skulda­bréfa­út­boð­ið, sem náði í 50 millj­ónir evra, byggði að hluta til á blekk­ing­um, að mati hluta þeirra sem keyptu í útboð­inu. Þeir hafa meðal ann­ars vísað í að eigið fé WOW air hefði með réttu átt að vera nei­kvætt um mitt ár 2018 þegar farið var af stað með útboð­ið. Í efna­hags­reikn­ingi sem birtur var í fjár­festa­kynn­ing­unni var því hins vegar haldið fram að eigið fé væri jákvætt. Þ.e. að WOW air ætti meiri eignir en skuld­ir.

Þess utan vissi hluti þátt­tak­enda í útboð­inu ekki af því að sumir þátt­tak­endur í útboð­inu, um helm­ing­ur, voru að breyta skamm­tíma­skuldum í lang­tíma­skuld­ir, og voru því ekki að setja nýtt fé inn í rekst­ur­inn. Skýrasta dæmið um slíkt var Arion banki, sem skráði sig fyrir 4,3 millj­ónum evra, um 560 millj­ónir króna á þeim tíma, gegn því að WOW air myndi greiða yfir­drátt­ar­skuld sína hjá bank­anum upp. 

Með þessu dró Arion banki úr tapi sínu á WOW air. Ef yfir­drátt­ar­heim­ildin væri enn ógreidd þá væri hún ein­fald­lega almenn krafa í bú WOW air og feng­ist ekki greidd. Í stað­inn á bank­inn kröfur vegna skulda­bréf­anna.

Ráðu­neytið gerði ekki athuga­semdir við svör Sam­göngu­stofu

Sam­göngu­stofa hefur rök­stutt aðgerð­ar­leysi sitt með því að, eftir ítar­lega skoð­un, hafi ekki verið þörf á veit­ingu  tíma­bund­ins flug­rekstr­ar­leyfis þar sem Sam­göngu­stofa gat hvenær sem er tak­markað eða stöðvað rekstur félags­ins með aft­ur­köllun starfs­leyfa. Þá hafi stofn­unin talið að hefði hún veitt WOW air tíma­bundið leyfi meðan fjár­hags­leg end­ur­skipu­lagn­ing færi fram hefði það haft nei­kvæð áhrif á fjár­mögn­un­ar­mögu­leika félags­ins. Í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar seg­ir: „Þetta eru sömu svör og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðu­neyti fékk á sínum tíma og gerði ekki athuga­semdir við.“

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra.
Mynd: Bára Huld Beck

Rík­is­end­ur­skoðun segir enn fremur að hún hafi ekki fengið upp­lýs­ingar frá Sam­göngu­stofu hvað hafi falist í „ít­ar­legri skoð­un“ stofn­un­ar­innar þrátt fyrir að hafa leitað eftir upp­lýs­ingum um það. 

Í skýrsl­unni segir Rík­is­end­ur­skoðun að hún geti lítið fyrir varnir Sam­göngu­stofu fyrir aðgerð­ar­leysi sínu gagn­vart WOW air. Orð­rétt seg­ir: „Rík­is­end­ur­skoðun telur þessi rök tæp­lega stand­ast og bendir á að það sé ekki hlut­verk Sam­göngu­stofu að haga störfum sínum og eft­ir­liti með til­liti til við­skipta­legra hags­muna þeirra sem sæta eft­ir­lit­inu. Þvert á móti felist í því aukið gagn­sæi að leyfi, meðan á fjár­hags­legri end­ur­skipu­lagn­ingu standi, sé sett fram með form­legum hætti í stað þess að vera óform­legt og ótíma­bundið eins og raunin varð. Vænt­an­legum fjár­festum mátti vera full­ljóst að félagið væri í fjár­hags­erf­ið­leikum hvort sem Sam­göngu­stofa veitti því tíma­bundið flug­rekstr­ar­leyfi meðan á fjár­hags­legri end­ur­skipu­lagn­ingu stóð eða ekki.“

Afþökk­uðu aðstoð Fjár­mála­eft­ir­lits­ins

Rík­is­end­ur­skoðun fjallar líka um aðkomu sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðu­neyt­is­ins að málum WOW air á síð­ustu metr­unum í til­veru þess flug­fé­lags. Í skýrsl­unni segir að ráðu­neytið hafi sent Sam­göngu­stofu leið­bein­ingar um mat á fjár­hag flug­rek­enda 27. ágúst 2018. Það var gert vegna þess að ráðu­neytið taldi Sam­göngu­stofu ekki vera að meta stöðu WOW air í nægi­lega víðum skiln­ing­i. 

Á fundi sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðu­neytis með Sam­göngu­stofu 3. sept­em­ber 2018 ítrek­aði ráðu­neytið þá afstöðu sína að stofn­unin brygð­ist við þeim ann­mörkum sem ráðu­neytið hefði bent á að væru á fram­kvæmd fjár­hags­mats. „Bauð ráðu­neytið m.a. fram aðstoð frá Fjár­mála­eft­ir­lit­inu til að styrkja verk­lag og sækja meiri þekk­ingu á fram­kvæmd þess­ara mála. Sam­göngu­stofa taldi ekki þörf á sam­ráði og ráð­gjöf frá Fjár­mála­eft­ir­lit­in­u.“

Auglýsing

Á fund­inum kom ráðu­neytið því einnig á fram­færi að það teldi ekki for­svar­an­legt hve langt væri í næsta skipu­lagða fund Sam­göngu­stofu með WOW air. Full­trúar Sam­göngu­stofu sögðu á móti að þeir hefðu „trú á því að félagið væri rekstr­ar­hæft og að stofn­unin hefði öll þau gögn sem hún þyrfti til að geta lagt mat á stöð­una. Að þeirra mati hefði félagið trú­verð­ugar áætl­anir og stofn­unin hefði meiri áhyggjur af sumum öðrum flug­rek­endum sem flygju til og frá land­inu en WOW air.“

Ljóst má vera að mat Sam­göngu­stofu stang­ast að öllu leyti á við þær upp­lýs­ingar sem komu fram á fundum með WOW air í maí og júní og það sem fram hafði komið í fjöl­miðlum vik­urnar á undan um fjár­hags­stöðu flug­fé­lags­ins. Í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar segir að eft­ir­lits­að­il­inn telji: „al­var­legt að Sam­göngu­stofa hafi talið sig hafa trú­verð­ugar áætl­anir og upp­lýs­ingar um að flug­fé­lagið væri rekstr­ar­hæft, stæð­ist fjár­hags­kröfur reglu­gerð­ar­innar og að ekki þyrfti að óska eftir frek­ari gögnum um fjár­mál fyr­ir­tæk­is­ins þegar gögn sem aflað var stuttu síðar sýndu að full þörf var á sér­stöku eft­ir­lit­i.“

Stjórn­völd efuð­ust um getu Sam­göngu­stofu

Í skýrsl­unni segir að miklar efa­semdir hafi verið um getu Sam­göngu­stofu til að sinna fjár­hags­eft­ir­liti með flug­rek­endum meðal stjórn­valda. Þann 7. sept­em­ber 2018 sendi ráðu­neytið Sam­göngu­stofu fyr­ir­mæli um að stofn­unin gerði ítar­legt mat á fjár­hags­stöðu WOW air. Í bréf­inu kom fram að ráðu­neytið hefði end­ur­tekið kallað eftir því að stofn­unin brygð­ist við sjón­ar­miðum og afstöðu ráðu­neyt­is­ins án þess að við því hefði orð­ið. Ráðu­neytið teldi ljóst að Sam­göngu­stofa hygð­ist ekki að eigin frum­kvæði kanna fjár­hags­stöðu WOW og meta hvort rekst­ur­inn upp­fyllti kröf­ur. Í bréf­inu komu eft­ir­far­andi fyr­ir­mæli fram: „Þar sem greini­legar vís­bend­ingar eru til staðar um fjár­hags­vanda hjá leyf­is­haf­anum WOW air hf. skal Sam­göngu­stofa taf­ar­laust gera ítar­legt mat á fjár­hags­stöðu flug­rek­and­ans í sam­ræmi við 2. mgr. 9. gr. reglu­gerðar (ESB) nr. 1008/2008. Hluti af slíku mati skal fel­ast í dag­legum upp­lýs­ingum um sjóðsstreymi félags­ins og könnun á rekstr­ar­hæfni þess til næstu vikna.“

Í minn­is­blaði sem sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráð­herra sendi ráð­herra­nefnd um sam­ræm­ingu mála 13. sept­em­ber 2018 kom fram að Sam­göngu­stofa hefði upp­lýst ráðu­neytið um að lausa­fjár­staða WOW air nægði til að standa undir rekstri í að minnsta kosti þrjá sól­ar­hringa. „End­ur­skoð­andi á vegum Sam­göngu­stofu hefði stað­fest að félagið gæti haldið áfram rekstri út mán­uð­inn en gæti þá ekki greitt laun. Taldi ráð­herra ljóst að styrkja þyrfti þekk­ingu á fjár­hags­mati innan Sam­göngu­stofu. Stofn­unin nyti aðstoðar end­ur­skoð­enda en virt­ist skorta þekk­ingu til að vinna úr upp­lýs­ingum frá þeim. Þörf væri á utan­að­kom­andi ráð­gjöf til að tryggja getu Sam­göngu­stofu til að sinna sínu eft­ir­lits­hlut­verki. Ráðu­neytið hefði óskað eftir því að stofn­unin leit­aði aðstoðar aðila sem hefði næga þekk­ingu að mati ráðu­neyt­is­ins til að aðstoða stofn­un­ina við eft­ir­litið og tæki við stjórn á mati á fjár­hag WOW air.“

Ráðu­neytið gagn­rýnt fyrir aðgerð­ar­leysi

Vakin er athygli á því í skýrslu Rík­is­end­ur­skoð­unar að ráðu­neytið sendi Sam­göngu­stofu fyr­ir­mælin tæpum fjórum mán­uðum eftir að hafa fengið upp­lýs­ingar um að staða flug­fé­lags­ins hefði versnað veru­lega. Í svörum til Rík­is­end­ur­skoð­unar sagði sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðu­neytið að ástæðan fyrir þessum langa tíma væri sú að rétt þótti að gefa stofn­un­inni svig­rúm til að bregð­ast við. Við­brögð Sam­göngu­stofu hafi á end­anum ekki þótt full­nægj­andi.

Auglýsing

Rík­is­end­ur­skoðun gagn­rýnir þessa stöðu og segir það vera alvar­legt að „uppi hafi verið ágrein­ingur milli sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðu­neytis og Sam­göngu­stofu um hvernig bæri að haga eft­ir­liti með svo þjóð­hags­lega mik­il­vægu fyr­ir­tæki á við­sjár­verðum tímum í rekstri þess. Þegar svo ber undir ætti ráðu­neytið að veita und­ir­stofnun sinni leið­bein­ingar og fyr­ir­mæli svo fljótt sem verða má.“

Sam­göngu­stofa lof­aði því í bréfi sem sent var 11. sept­em­ber 2018 að hún ætl­aði að end­ur­skoða verk­lag við eft­ir­lit með WOW air og herða það. 

Biðu þar til eftir að skulda­bréfa­út­boði var lokið

Sam­göngu­stofa beið þangað til 21. sept­em­ber 2018 með að senda WOW air bréf þar sem hún til­kynnti um sér­stakt eft­ir­lit með fjár­hag félags­ins, eða tveimur vikum eftir að sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðu­neytið fór fram á að það myndi fara fram. 

Skulda­bréfa­út­boði WOW air lauk þremur dögum fyrr, 18. sept­em­ber. Svo virð­ist sem við­skipta­legir hags­munir WOW air hafi verið settir framar því að fylgja fyr­ir­mælum úr ráðu­neyt­inu sem Sam­göngu­stofa heyrir und­ir.

Rík­is­end­ur­skoðun bendir í skýrslu sinni á mis­ræmi á því sem kom fram í bréfi Sam­göngu­stofu til sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðu­neytis 11. sept­em­ber 2018 og þeim tíma sem sér­stakt eft­ir­lit Sam­göngu­stofu hófst. „Í því bréfi kom fram að stofn­unin ynni þá þegar að ítar­legu fjár­hags­mati á fyr­ir­tæk­inu. Rík­is­end­ur­skoðun bendir á að þó stofn­unin hafi fundað með flug­fé­lag­inu um sum­arið og fylgst með helstu vend­ingum í rekstri þess þá jafn­gildi það ekki því að hefja form­lega ítar­legt fjár­hags­mat sem á að fara eftir ákveðnum verk­lags­reglum og hafa ákveðin við­mið. Auk þess þurfi að gera þá kröfu að þeim sem sæta slíku fjár­hags­mati sé gerð form­lega grein fyrir því. Verður ekki annað séð en að Sam­göngu­stofa hafi veitt ráðu­neyt­inu mis­vísandi upp­lýs­ingar um umfang eft­ir­lits­ins. Að mati Rík­is­end­ur­skoð­unar end­ur­speglar þetta mis­ræmi hve óskýr við­mið stofn­unin hafði um það hvenær bæri að meta fjárhagsstöðu en einnig hve óljóst var í hverju slíkt mat fælist. Þau við­brögð sem hér um ræðir með mis­vísandi upp­lýs­inga­gjöf eru alvar­leg og síst til þess fallin að auka traust og sam­vinnu milli Sam­göngu­stofu og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðu­neyt­is.“

Skulda­bréfa­út­boðið leysti ekki vanda WOW air og fyrir árs­lok 2018 var byrjað að reyna að selja félagið til ann­arra flug­fé­laga. WOW air for svo í þrot í lok mars 2019.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar