Bensínverð á Íslandi aldrei verið hærra í krónum talið
Í apríl 2012 var sett met þegar viðmiðunarverð á lítra af bensíni á Íslandi fór í 268,1 krónur. Verðið hefur hækkað hratt á þessu ári samhliða því að efnahagskerfi heimsins hafa tekið við sér eftir kórónuveiruna. Og nú hefur metið verið slegið, viðmiðunarverð á bensínlítra er 268,9 krónur.
Viðmiðunarverð á bensínverði hérlendis er nú 268,9 krónur á lítra. Það hefur hækkað um 28 prósent frá miðjum desember 2020 og um heil 38,6 prósent frá því í maí í fyrra, þegar það var 194 krónur á lítra.
Alls renna 139,3 krónur af hverjum seldum lítra, 51,8 prósent, til íslenska ríkisins vegna virðisaukaskatts, almenns bensíngjalds, sérstaks bensínsgjalds og kolefnisgjalds. Hlutur olíufélaga í hverju seldum lítra er 43,9 krónur, en hann lækkar rúmlega níu prósent í krónum talið frá því í októver. Það sem eftir stendur er svo líklegt innkaupaverð sem í dag nemur 85,8 krónur á lítra, en það hækkar um næstum tíu prósent milli mánaða.
Þetta má sjá í nýjustu Bensínvakt Kjarnans sem unnin er í samvinnu við hugbúnaðarfyrirtækið Seið. Viðmiðunarverðið miðar við næstlægstu verðtölu í yfirliti síðunnar Bensínverð.is, sem Seiður heldur úti, til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó ætið með lægstu verðum.
Verðið hefur aldrei áður verið hærra í krónum talið. Fyrra met var sett í apríl 2012 þegar það fór upp í 268,1 krónur á lítra. Þá hafði um nokkurt skeið verið mikill órói í Miðausturlöndum í kjölfar arabíska vorsins sem leitt hafði til hækkana á heimsmarkaðsverði á olíu. Þegar við bættust miklir kuldar í Evrópu þá rauk verðið á jarðefnaeldsneyti fyrir bíla upp um allan heim, þar með talið hérlendis.
Þá þóttu hækkanirnar svo miklar að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins lagði fram frumvarp til laga um ráðstafanir til að lækka eldsneytisverð. Þær ráðstafanir fólu í sér að lækka ýmis gjöld sem ríkið leggur á eldsneyti. Málið náði ekki fram að ganga.
Miklar hækkanir á heimsmarkaði
Ísland framleiðir vitanlega ekkert jarðefnaeldsneyti heldur flytur það allt inn. Þótt fjöldi bíla sem ganga fyrir rafmagni hafi rúmlega tífaldast frá árslokum 2016 og til síðustu áramóta – þegar bílar sem gengu fyrir rafmagni voru 14.680 – þá eru bílarnir sem nota jarðefnaeldsneyti þó enn í miklum meirihluta. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru bensín og díselbílarnir um 320 þúsund í lok árs 2020.
Hækkandi heimsmarkaðsverð á olíu hefur því bein áhrif á veskið hjá landsmönnum þegar það kemur fram í smásöluverðinu hérlendis og hækkar auk þess verðbólgu, sem er nú 4,5 prósent. Há verðbólga hefur leitt til þess að Seðlabanki Íslands hefur hækkað vexti um alls 0,75 prósentustig í 1,5 prósent á nokkrum mánuðum. Næsti vaxtaákvörðunardagur er á morgun, miðvikudag, og búast flestir greinendur við að vextir verði hækkaðir enn á ný. Það þýðir að lánsfjármagn landsmanna verður dýrara.
Sveiflurnar á heimsmarkaðsverði hafa verið gríðarlegar. Verðið fór niður í 20 dali á tunnu í apríl í fyrra, fór yfir 86 dali á tunnu í síðasta mánuði og er nú um 83 dalir. Greiningaraðilar spá því að það fari yfir 90 dali fyrir árslok.
Ástæðurnar fyrir hærra olíuverði eru að mestu tvær. Í fyrsta lagi hefur eftirspurn eftir olíu hefur stóraukist eftir að hagkerfi heimsins fóru að taka aftur við sér eftir að hafa dormað í eitt og hálft ár vegna kórónuveirufaraldursins. Aðildarríki Samtaka olíuframleiðenda (OPEC) hafa hins vegar átt í erfiðleikum með að auka framleiðslu sína vegna vanfjárfestinga og töfum á viðhaldi vegna faraldursins.
Í öðru lagi er mikill skortur á jarðgasi og kolum, sem hafa valdið miklum hækkunum á raforku, og ýtt fleirum í að nota olíu, sem hefur enn aukið á eftirspurnina.
Gögn og aðferðafræði
Hér að ofan er birt niðurstaða útreikninga og áætlunar á því hvernig verð á lítra af bensíni skiptist milli aðila í framsetningu GRID.
- Viðmiðunarverð er fengið frá hugbúnaðarfyrirtækinu Seið ehf. sem meðal annars heldur úti síðunni Bensínverð.is og fylgst hefur með bensínverði á flestum bensínstöðum landsins daglega síðan 2007. Miðað er við næstlægstu verðtölu í yfirlitinu til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó með lægstu verðum og sýnir þar með lægri hlut olíufélagsins en reikna má með að raunin sé meðaltalið af öllu seldu bensíni á landinu.
- Hlutur ríkisins liggur ljós fyrir út frá sköttum sem eru ýmist fastir og hlutfallslegir. Upplýsingar um breytingar á skattalögum eru fengnar frá Viðskiptaráði sem fylgst hefur með slíkum breytingum um árabil.
- Líklegt innkaupaverð er reiknað útfrá verði á bensíni til afhendingar í New York-höfn í upphafi mánaðar frá bandarísku orkustofnuninni EIA og miðgengi dollars gagnvart íslenskri krónu í yfirstandandi mánuði frá Seðlabanka Íslands. Í þessum útreikningum kann að skeika nokkru á hverjum tímapunkti vegna lagerstöðu, skammtímasveiflna á markaði o.s.frv. Nákvæmara væri að miða við verð á bensíni til afhendingar í Rotterdam, en verðupplýsingar þaðan liggja ekki fyrir á opnum gagnaveitum. Mismunur á verði í New York og Rotterdam er þó yfirleitt mjög lítill.
- Hlutur olíufélags er loks reiknaður sem afgangsstærð enda haldgóðar upplýsingar um einstaka kostnaðarliði olíufélaganna ekki opinberar. Hafa ber í huga að þar sem viðmiðunarverð er með lægstu verðum á hverjum tíma er þessi liður ef til vill einhverju hærri sé litið til heildarviðskipta með bensín á Íslandi.
Verðupplýsingar miðast við verðlag hvers tíma. Gögnin eru uppfærð mánaðarlega í kringum 15. hvers mánaðar. Fyrirvari er gerður um skekkjumörk sem þó ættu í mesta lagi að nema fáeinum krónum á útreiknaða liði. Ábendingar um villur, lagfæringar og betrumbætur skal senda á gogn@kjarninn.is og er tekið fagnandi.