Bensínverð stendur í stað milli mánaða, innkaupaverð lækkar en hlutur olíufélaga eykst
Sá sem greiddi 15 þúsund krónur á mánuði í bensínkostnað í maí 2020 þarf nú að punga út rúmlega 137 þúsund krónum til viðbótar á ári til að kaupa sama magn af eldsneyti. Heimsmarkaðsverð á olíu lækkaði skarpt milli mánaða en bensínlítrinn hækkaði samt í verði.
Viðmiðunarverð á bensínverði hérlendis er nú 341,9 krónur á lítra og hefur aldrei verið hærra í krónum talið. Það hefur hækkað um 71 prósent á tveimur árum og um 28 prósent frá því í janúar síðastliðnum. Uppreiknað miðað við þróun vísitölu neysluverðs á bensínlítrinn þó nokkuð í land með að ná sínu hæsta verði, en í apríl 2012 kostaði hann um 373 krónur á núvirði. Eftir mikla hækkunarhrinu það sem af er ári stóð bensínlítrinn nokkurn veginn í stað milli júní og júlímánaða. Viðmiðunarverðið á honum hækkaði um 0,9 krónur.
Þetta má lesa út úr nýjustu bensínvakt Kjarnans.
Verðið hækkar þrátt fyrir að að verð á olíu á heimsmarkaði hafi lækkað um næstum fimmtung frá 8. júní. Á sama tíma hefur gengi krónu gagnvart Bandaríkjadal veikst um næstum sex prósent, en það gengi hefur umtalsverð áhrif á þróun eldsneytisverðs hérlendis þar sem að innkaup á eldsneyti fara fram í dölum. Því dýrari sem dalurinn er, því meira borgum við fyrir bensín.
Mikilvægt er að hafa í huga að viðmiðunarverðið miðar við næstlægstu verðtölu í yfirliti síðunnar Bensínverð.is, sem hugbúnaðarfyrirtækið Seiður heldur úti, til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó ætið með lægstu verðum.
Kostar 137 þúsund meira að reka bíl en fyrir tveimur árum
Ísland framleiðir vitanlega ekkert jarðefnaeldsneyti heldur flytur það allt inn. Bílar sem nota jarðefnaeldsneyti er enn í miklum meirihluta hérlendis. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru bensín og dísilbílarnir um 292 þúsund í lok árs 2021.
Sveiflurnar á heimsmarkaðsverði á olíu hafa verið gríðarlegar á undanförnum mánuðum en verð á olíu og bensíni hefur ekki verið jafnhátt og það er um þessar mundir í sjö ár. Verðið fór niður í 20 dali á tunnu í apríl 2020, fór yfir 86 dali á tunnu í október. Nú er það um 97 krónur á tunnu.
Því hafa skarpar hækkanir á eldsneytisverði mikil áhrif á rekstrarkostnað heimila. Ef horft er til þeirrar hækkunar sem orðið hefur á viðmiðunarverði frá því í maí 2020 þarf sá sem eyddi að jafnaði 15 þúsund krónum á mánuði í bensín þá þarf nú að borga um 26.400 krónur fyrir sama magn af bensíni. Á ársgrundvelli er það aukinn kostnaður upp á 137.227 krónur.
Góðu fréttirnar eru þær að mikil aukning er á eign á bílum sem ganga fyrir rafmagni eða eru með raftengi. Fjöldi þeirra tvöfaldaðist frá lokum árs 2019 fram að síðustu áramótum, þegar þeir voru 21.143 talsins.
Eignarhaldi á rafbílum er þó nokkuð misskipt. Tekjuhærri og efnameiri hópar samfélagsins eiga auðveldara um vik að kaupa slíka bíla, sem eru að jafnaði dýrari en bensín- og dísilbílar þrátt fyrir verulegar skattaívilnanir. Í minnisblaði frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu sem birt var í desember í fyrra kom meðan annars fram að hæsta hlutfall rafmagns- og tengiltvinnbíla á þeim tíma var í Garðabæ og á Seltjarnarnesi, eða um 16 prósent. Í þeim sveitarfélögum eru fjármagnstekjur hæstar á landinu.
Olíufélögin farin að velta hækkunum út í verðlagið
Hækkun síðustu tveggja ára má rekja annars vegar til hækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu á meðan að kórónuveirufaraldurinn geisaði og orsakaði hökt í öllum aðflutningskeðjum í heiminum og hins vegar til innrásar Rússlands í Úkraínu í febrúar, sem gerði það að verkum að heimsmarkaðsverðið rauk enn frekar upp.
Líklegt innkaupaverð olíufélaga er nú 138,3 krónur á lítra og lækkaði um tæp sjö prósent milli mánaða. Til samanburðar var innkaupaverðið 69,1 krónur á lítra í desember og hefur tvöfaldast síðan þá.
Hlutur olíufélaga í hverjum seldum lítra hefur fylgdi ekki þessum hækkunum á innkaupaverði framan af ári. Það þýddi að félögin voru ekki að velta hækkunum á heimsmarkaðsverði að fullu út í verðlagið. Það er nú að breytast.
Hann er nú 48 krónur eða um 14 prósent af hverjum seldum lítra. Hlutur olíufélaganna í hverjum seldum lítra jókst um 29 prósent milli júní og júlímánaða.
Samanlagt fer 138,3 krónur af hverjum seldum lítra til annarra en ríkisins, þ.e. þeirra sem selja smásölum á eldsneyti vöruna og til smásalanna sjálfra.
Hærra bensínverð er einn af þeim þáttum sem drífa áfram verðbólgu, sem mælist nú 9,9 prósent. Til að reyna að hemja hana hefur Seðlabanki Íslands hækkað stýrivexti sína skarpt á skömmum tíma, upp í 4,75 prósent, og væntingar eru um að það hækkunarferli haldi áfram í næsta mánuði.
Hlutur ríkisins í hverjum seldum bensínlítra, sem samanstendur af virðisaukaskatti, almennu og sérstöku bensíngjaldi og kolefnisgjaldi er nú 155,57 krónur á hvern lítra af seldu bensíni. Það þýðir að 45,5 prósent af hverjum lítra fer í ríkissjóð.
Gögn og aðferðafræði
Hér að ofan er birt niðurstaða útreikninga og áætlunar á því hvernig verð á lítra af bensíni skiptist milli aðila í framsetningu GRID.
- Viðmiðunarverð er fengið frá hugbúnaðarfyrirtækinu Seið ehf. sem meðal annars heldur úti síðunni Bensínverð.is og fylgst hefur með bensínverði á flestum bensínstöðum landsins daglega síðan 2007. Miðað er við næstlægstu verðtölu í yfirlitinu til að forðast að einhverju leyti áhrif tímabundinnar verðsamkeppni á allra lægsta verð. Viðmiðunarverðið er þó með lægstu verðum og sýnir þar með lægri hlut olíufélagsins en reikna má með að raunin sé meðaltalið af öllu seldu bensíni á landinu.
- Hlutur ríkisins liggur ljós fyrir út frá sköttum sem eru ýmist fastir og hlutfallslegir. Upplýsingar um breytingar á skattalögum eru fengnar frá Viðskiptaráði sem fylgst hefur með slíkum breytingum um árabil.
- Líklegt innkaupaverð er reiknað útfrá verði á bensíni til afhendingar í New York-höfn í upphafi mánaðar frá bandarísku orkustofnuninni EIA og miðgengi dollars gagnvart íslenskri krónu í yfirstandandi mánuði frá Seðlabanka Íslands. Í þessum útreikningum kann að skeika nokkru á hverjum tímapunkti vegna lagerstöðu, skammtímasveiflna á markaði o.s.frv. Nákvæmara væri að miða við verð á bensíni til afhendingar í Rotterdam, en verðupplýsingar þaðan liggja ekki fyrir á opnum gagnaveitum. Mismunur á verði í New York og Rotterdam er þó yfirleitt mjög lítill.
- Hlutur olíufélags er loks reiknaður sem afgangsstærð enda haldgóðar upplýsingar um einstaka kostnaðarliði olíufélaganna ekki opinberar. Hafa ber í huga að þar sem viðmiðunarverð er með lægstu verðum á hverjum tíma er þessi liður ef til vill einhverju hærri sé litið til heildarviðskipta með bensín á Íslandi.
Verðupplýsingar miðast við verðlag hvers tíma. Gögnin eru uppfærð mánaðarlega í kringum 15. hvers mánaðar. Fyrirvari er gerður um skekkjumörk sem þó ættu í mesta lagi að nema fáeinum krónum á útreiknaða liði. Ábendingar um villur, lagfæringar og betrumbætur skal senda á gogn@kjarninn.is og er tekið fagnandi.