Bleika alda Inkanna
Önnur vinstri sveifla stendur yfir í Rómönsku Ameríku. Hún hófst með kjöri Andrés Manuel López Obrador í Mexíkó árið 2018, hélt áfram með kjöri Gustavo Petro í Kólumbíu fyrr á þessu ári og afar líklegt er talið að hún muni skola Inácio Lula da Silva aftur í forsetastólinn í Brasilíu.
Quito í Ekvador er næst hæsta höfuðborg heims. Á götum þessar fallegu borgar sem Inkarnir byggðu er bersýnilegt hvaða áhrif heimsfaraldurinn og versnandi efnahagshorfur hafa haft á land sem er sér nægt um flest og þar sem framtíðarvonir voru að mestu bjartar á árunum 2007-2017.
Þá var þar við völd Rafael Correa, framfarasækinn forseti sem sór sig í ætt við nýja kynslóð vinstrisinnaðra leiðtoga í Rómönsku Ameríku sem jafnan voru kenndir við Bleiku ölduna. Aðrir í þeim hópi voru Inácio Lula da Silva í Brasilíu, Nestor Kirchner í Argentínu, Evo Morales í Bólivíu og Hugo Chavez í Venesúela.
Þó svo að arfleifð og orðspor þessara manna sé mjög ólík þá er ljóst að önnur og enn stærri vinstri alda skellur núna á þessum heimshluta. Aftur á móti er enn óljóst hvernig risastóri nágranninn í norðri, Bandaríkin, mun bregðast við.
Nágranninn og bakgarðurinn
Á 19. öld lýsti James Monroe Bandaríkjaforseti Rómönsku Ameríku sem bakgarði Bandaríkjanna, stefna sem jafnan hefur verið kölluð Monroe dotrine og gengur út að halda evrópskum nýlenduherrum frá álfunni og aðstoða ríkin þar með beinum afskiptum Bandaríkjanna. Þessi afskipti hafa oftar en ekki verið hernaðarleg og ósjaldan hafa stjórnarskipti í löndum Rómönsku Ameríku átt sér stað með hervaldi og íhlutun CIA. Gamall brandari Latínóa hljómar eitthvað á þessa leið: Veistu af hverju það hefur aldrei verið valdarán í Washington? Nú, af því að þar er ekkert sendiráð Bandaríkjanna þar.
Núverandi vinstri sveifla í forsetaembættum Rómönsku Ameríku hófst með kjöri Andrés Manuel López Obrador í Mexíkó árið 2018. Hann hefur vakið athygli fyrir róttækar ákvarðanir og að tala tæpitungulaust. Síðan urðu ákveðin þáttaskil í júlí á þessu ári þegar Kólumbíubúar kusu Gustavo Petro sem forseta landsins, fyrsta vinstri manninn í 200 ár.
Miklar líkur eru á að í Brasilíu verði Inácio Lula da Silva kjörinn aftur til forseta í haust eftir að hafa gegnt embættinu frá 2003-2011 og setið í fangelsi í millitíðinni síðan þá. Ef það gengur eftir munu 80% þeirra tæplega 700 milljón íbúa sem búa í Rómönsku Ameríku eiga sér vinstri-sinnaða leiðtoga, þ.á.m. í öllum sjö fjölmennustu ríkjunum (Brasilíu, Mexíkó, Kólumbíu, Argentínu, Perú, Venesúela og Síle).
Aðdáandi Heilags Frans af Asísí til valda
Andrés Manuel López Obrador var kjörinn forseti í Mexíkó árið 2018 eftir að hafa tapað forsetakosningum tvisvar á löngum stjórnmálaferli þar sem m.a. vísbendingar um svindl höfðu áður leitt til mótmæla. López Obrador hafði áður vakið athygli fyrir framsækna nálgun í baráttunni við glæpi og fátækt sem borgarstjóri Mexíkóborgar.
López Obrador beitti engum vettlingatökum við að sýna fram á að sér væri alvara í að taka á misrétti í landinu eftir að hann varð forseti. Hann lækkaði eigin laun um meira en helming en áður hafði launamunur forseta og meðal verkamanns hvergi verið meiri en í Mexíkó. Hann setti einnig rándýra forsetaflugvél forvera síns á sölu.
Vanalega hafa mexíkóskir forsetar sem viljað hafa taka á fátækt gert það með hærri sköttum en López Obrador ætlar sér að minnka kerfislæga spillingu og ríkisbáknið með því að reka eða færa til ríkisstarfsmenn utan verkalýðsfélaga í æðstu- og millistjórnendastöðum. Einnig eiga ríkisstarfsmenn að fá föst laun, enga bónusa og vinna sléttar átta klukkustundir sex daga vikunnar. Hann hefur lagt til að öryrkjar og 68 ára og eldri sem eru utan bótakerfis fái nauman lífeyri upp á 134 dali á mánuði.
López Obrador hefur sagst vilja sækja í áttina að „fransískri fátækt“ með því færa fátækum styrki og ná fram efnahagslegri þróun, fjölgun starfa og velferð. Heilagur Frans af Asísí var kaþólskur dýrlingur sem fyrirleit efnislegan auð svo hann gæti þjónað Kristi sem fátækur maður.
Mexíkóforseti gekk einnig svo langt að leggja til að Bandaríkin ættu að taka niður Frelsisstyttuna ef Julian Assange yrði framseldur og fangelsaður í Bandaríkjunum. Hann hefur lagt blessun sína yfir að Assange fái hæli í Mexíkó en áður hafði Correa, fyrrum forseti Ekvador, veitt stofnanda Wikileaks hæli í sendiráði landsins í London.
Forseti Kólumbíu var pyntaður
Líkt og kollegi sinn í Mexíkó, var nýkjörinn Gustavo Petro áður borgarstjóri í höfuðborginni (Bogota) og náði kjöri í þriðju tilraun eftir að hafa komist á kjörseðilinn tvisvar áður. Í fyrri skiptin var einnig mótmælt vegna ásakana um svindl.
Gustavo Petro er hagfræðingur að mennt og var félagi í skæruliðasamtökunum M-19. Árið 1985 var hann handtekinn og pyntaður. Til þess að ná kjöri þann 19. Júní s.l. hætti hann að tala um skæruliða og sósíalisma en lýsti sér sem framsæknum frambjóðanda í þágu breytinga.
Vara-forseti hans er Francia Marquez, lögfræðingur og umhverfisverndar-aktívisti. Hún er enn fremur svört á hörund sem þykir álíka ef ekki meiri framför í kólumbísku lýðræði heldur en að vinstri maður hafi verið kjörinn í fyrsta skipti í 200 ár.
Kólumbía hefur jafnan haldið sterkustu tengslunum við Bandaríkin af öllum löndum álfunnar en eftir að Petro var kosinn er horft til þess hvort Joe Biden og ráðgjafar hans blandi sér í málin í Kólumbíu og víðar.
Úr fangelsi og líklega í forsetastólinn í Brasilíu
Eftir miðja 20. öldina var stórum hluta Rómönsku Ameríku stjórnað af hægri sinnuðum herforingjum og einræðisherrum sem oftar en ekki nutu stuðnings Bandaríkjanna. Þekktasta dæmið er líklega Síle þar sem Augusto Pinochet leyfði Milton Friedman og Chicago hagfræðistrákunum að prófa róttækar frjálslyndar efnahagsstefnur á meðan stjórnarandstaðan í landinu var pyntuð og myrt á skipulagðan hátt. Salvador Allende forseti var felldur í valdaráni og herforinginn Pinochet stjórnaði með harðri hendi. Svipuð var upp á teningnum með Videla í Argentínu, Bordaberry í Úrúgvæ, Noriega í Panama og Vargas í Brasilíu.
Eðli afskipta bandarískra stjórnvalda í bakgarði sínum í Rómönsku Ameríku hefur nú breyst. Í staðinn fyrir að styðja einræðisherra með „réttar skoðanir“ með vopnum hefur baráttan færst fyrir dómstóla þar sem öllum brögðum er beitt til að fella vinsæla stjórnmálamenn með „rangar skoðanir.“
Eftirtektarverðasta dæmið er í Brasilíu þar sem tveir almennt mjög vinsælir og vel liðnir forsetar voru hraktir frá völdum eða settir í fangelsi vegna ásakana um spillingu. Því hefur verið haldið fram að Inácio Lula Da Silva og Dilma Rousaieff voru einfaldlega að reyna koma hlutum í framkvæmd í kerfi sem var spillt fyrir og þau ekki nógu spillt til að spila með.
En nú er sá fyrrnefndi, oftast kallaður Lúla, laus eftir að hæstiréttur Brasilíu sýknaði hann. Í millitíðinni varð Jair Bolsanaro forseti (Lúla var í fangelsi og gat ekki boðið sig fram þrátt fyrir að vera vinsælli kandídat) og gerði saksóknarann í máli Lúla að dómsmálaráðherra við litla hrifningu gagnrýnenda.
Bolsonaro var oft kallaður litli Trump og þykir um margt álíka skrautlegur og duttlungafullur og stóri Trump. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir að leyfa stóraukið skógarhögg í Amazon regnskóginum og afleit viðbrögð við Covid faraldrinum en hvergi annar staðar létust fleiri af sökum veirunnar en í Brasilíu (600 þús) nema í Bandaríkjunum (yfir ein milljón). Bolsonaro er enn við völd í Brasilíu en yfirgnæfandi líkur eru á að honum verði sparkað út úr forsetahöllinni af Lúla sjálfum. Þá verður Bleika aldan í Suður Ameríku að risaöldu þar sem Brasilía fjölmennasta land álfunnar.
Af hverju skellur Bleika aldan skellur aftur?
Vinsældir framsækinna vinstri-sinnaðra leiðtoga í Rómönsku Ameríku má eflaust að hluta til rekja til þeirra minninga sem kjósendur hafa af víðtækari velferðarkerfum á tímum fyrri Bleiku öldunnar. Sú alda fjaraði út þegar hægri sinnaðir leiðtogar eins og Ivan Duque í Kólumbíu og Jair Bolsonaro í Brasilíu komust til valda. Pólitískir vindar í Rómönsku Ameríku nútímans eru oft keðjuverkandi þar sem skipti frá hægri eða vinstri væng í einu landi leiðir til svipaðrar niðurstöðu í öðrum löndum.
Eitt stærsta vandamálið í heimshlutanum er fátækt og þær hindranir sem liggja í vegi vinnandi fólks í viðleitni sinni við að færa fjölskyldur sína upp úr lægri þrepum stéttanna í samfélagsstiganum. Það sem gerir vandamálið enn sorglegra að oft eru það frumbyggjasamfélögin sem framleiða fæði og klæði fyrir meirihluta landsmanna en þurfa samt búa við verstu örbirgðina.
Augljóst er að vinsældir vinstrisinnaðra frambjóðenda sem boða atvinnusköpun og aukinn jöfnuð á aukast við þessar aðstæður. López Obrador í Mexíkó hefur til dæmis sett skógrækt í forgang ekki einungis til að græða landið heldur einnig til að skapa störf við ræktina og afleidd tækifæri.
Einnig er ljóst að eftir grimmdina sem færst hefur í stjórnmálin eftir harkalega nálgun leiðtoga eins og Trump og Bolsonaro eru kjósendur að leita að friðsamari valkostum og stöðugleika. Margar vísbendingar eru í orðræðu leiðtoga Bleiku öldunnar að þeir forðist öfgar, leiti til miðjunnar frá vinstri og selja sig sem boðbera sanngjarnra breytinga. Nýju bleiku leiðtogarnir eru raunsærri og ekkert endilega and-bandarískir líkt og þeir sem tilheyrðu fyrstu kynslóðinni.
Í borg Inkanna í Ekvador
Á götum Quito í 2850 metra hæð eru bersýnilegustu merkin um fátækt og örvæntingu bein afleiðing af gjörðum eins róttækasta og sýnilegasta bleika leiðtogans af fyrstu kynslóðinni, Hugo Chavez, sem var við völd í Venesúela frá 1999 til 2013. Þar sem áður skottuðust jakkafataklæddir fjárfestar og embættismenn á milli glerháhýsa byggðum úr kínverskum byggingarefnum fyrir kínverskt lánsfé (á tímum áðurnefnds Correa) hýrast nú venesúelskar fjölskyldur. Þær eru á flótta frá heimalandi sínu, búa á götunni með ungabörn og selja smálegt drasl eins og tyggjó og orkudrykki á fjölförnum gatnamótum.
Arftaki Chavez Venesúela, Nicolas Maduro, hefur leitt glórulausa efnahagsstefnu sem sökkt hefur hagkerfinu í djúpa efnahagskreppu og ekki hefur viðskiptabann Bandaríkjanna hjálpað til. Talið er að 6 milljónir Venesúelabúar séu á flótta, flestir í nágrannalöndunum en lítill hópur hefur einnig náð til Íslands.
Viðskiptabönn Bandaríkjanna á hin ýmsu lönd í bakgarði sínum hefur lítil sem engin áhrif haft á það hverjir stjórna, sérstaklega á Kúbu og í Venesúela. Þau hafa einfaldlega styrkt leiðtoganna í sessi sem fá góða afsökun fyrir slöku efnahagsgengi á meðan þjóðir þeirra svelta.
Það verður því mikil áskorun fyrir Bandaríkin að takast á við nýju Bleiku öldina og viðhalda góðum samskiptum og samstarfi. Í Ekvador er nú Guillermo Lasso forseti, auðkýfingur og hægri maður sem nýlega þurfti að semja við skipulögð samtök frumbyggja. Þau höfðu stöðvað samgöngur og hagkerfið í landinu með mótmælum vegna hækkandi verðlags. Þar munaði mjóu að einn af síðustu hægri leiðtogunum í álfunni þyrfti að taka poka sinn.
Við þetta bætist að Kína er orðinn virkur þátttakandi í efnahagsuppbyggingu í álfunni en í stað þess að blanda sér í stjórnmál og grípa til viðskiptabanns þá er nálgun Kínverja efnahagsleg og jafnan uppbyggileg. En spillingin er sjaldan langt undan.
Sem dæmi má nefna að á meðan Correa var forseti í Ekvador voru byggðir nýtískulegir og vel búnir flugvellir í stærri borgum, nýr háskóli og glæsilega höfuðstöðvar UNASUR (Samband Suður Ameríkuþjóða).
Flestir íbúar Ekvador kjósa að keyra á milli borga þegar þeir leggja í ferðalög og margir af þessum nýju flugvöllum standa tómir. Enginn hefur útskrifast frá nýja glæsilega háskólanum og UNASUR samtökin eru svo gott sem dauð og höfuðstöðvum þeirra hefur verið skilað. Allar þessar risa-framkvæmdir eru nú gagnslausar og kalla íbúar Ekvador þetta hvíta fíla.
Stór fjárfestingaverkefni bjóða upp á tækifæri fyrir spillta embættismenn til að taka hluta af fjárfestingarfénu undir borðið. Það er út af slíkum málum sem Rafael Correa er nú á flótta undan réttvísinni og býr í Belgíu, heimalandi eiginkonu sinnar.
Á ferð í leigubíl til Quito nýlega frá Tena sem er ein af þessari borgum með auðan flugvöll var haft á orði við bílstjórann hversu góð hraðbrautin væri. Hann sagði svo vera og að hún hefði verið lögð á tímum Rafael Correa. Hann sagði að allt hefði verið betra þegar Correa var forseti.