EPA

„Skunkurinn í lautarferðinni“ yfirgefur Hvíta húsið

Hann leiddi bandarísku þjóðina í gegnum faraldra HIV, inflúensu, ebólu og COVID-19. Hans stærsta orrusta var þó ef til vill af allt öðrum toga: Við forsetann fyrrverandi, Donald Trump.

Seint að kvöldi 23. sept­em­ber árið 2020 stóð Ant­hony Fauci loks í stof­unni heima hjá sér í Was­hington. Dag­ur­inn hafði byrjað fyrir klukkan sex um morg­un­inn og um hann miðjan hafði hann setið fyrir svörum þing­nefndar í þrjár klukku­stund­ir. Umræðu­efnið var COVID-19. Eftir það tók hann þátt í opnum umræðu­fundi á net­inu um far­ald­ur­inn.

En þótt það sé áliðið er vinnu­degi Faucis langt í frá lok­ið. Hann á enn eftir að lesa yfir 200 tölvu­pósta sem bíða hans. „Ég þarf svo að vakna klukkan 3 í nótt,“ segir hann við blaða­mann sem er kom­inn heim til hans á þessum ókristi­lega tíma til að taka við­tal við mann­inn er nýverið hafði prýtt for­síðu tíma­rits­ins Time sem hafði valið hann einn af áhrifa­mestu mönnum ver­ald­ar.

23. sept­em­ber var ekk­ert óvenju­legur vinnu­dagur á tímum far­sótt­ar­inn­ar. Langt í frá. Þannig vann Fauci mán­uðum sam­an. Var vak­inn og sof­inn, í bók­staf­legri merk­ingu, yfir vel­ferð banda­rísku þjóð­ar­innar og heims­byggð­ar­innar allr­ar.

Það ætti ekki að koma á óvart þegar fólk á níræð­is­aldri greinir frá því að það hygg­ist láta af störf­um. En það þóttu engu að síður tíð­indi þegar mað­ur­inn sem hefur unnið hjá Smit­sjúk­dóma- og ónæm­is­fræði­stofnun Banda­ríkj­anna (NI­AID) frá árinu 1968 og stýrt henni í 38 ár, í tíð sjö for­seta, sagð­ist ætla að láta af emb­ætti í des­em­ber – „hefja nýjan kafla“. Hann mun sam­hliða hætta sem ráð­gjafi Joes Biden for­seta í vörnum gegn smit­sjúk­dómum og annarri aðsteðj­andi heilsu­far­sógn.

Það er hins vegar engin hætta á því að hinn stál­hrausti Fauci setj­ist alfarið í helgan stein. Hann ætlar sér að ferðast, skrifa og halda áfram að hvetja ungt fólk til starfa í þágu hins opin­bera. „Svo lengi sem ég er heilsu­hraust­ur, sem ég er, svo lengi sem ég er fullur orku, sem ég er, og svo lengi sem ég hef ástríð­una, sem ég hef, þá vil ég halda áfram að gera hluti þótt það verði ekki í opin­beru starf­i,“ sagði Fauci, sem er 81 árs, í við­tali við New York Times fyrir nokkrum vik­um. Þá gaf hann í skyn að starfs­lokin væru nærri en lýsti þeirri ákvörðun sinni svo yfir fyrir nokkrum dög­um. Starfið hafi verið ein helsta gæfa lífs hans.

EPA

Biden hrósar Fauci í hástert fyrir vel unnin störf í þágu lands og þjóð­ar. „Hann hefur veitt styrka leið­sögn með visku og inn­sæi að vopn­i,“ sagði for­set­inn er tíð­indin voru kunn­gerð. „Vegna starfa sinna hefur hann bjargað manns­lífum í Banda­ríkj­unum og víðar um heim.“

Fauci hefur auð­vitað verið þekktur í heimi vís­ind­anna í ára­tugi. Og þótt hann hafi áður staðið í ströngu í bar­áttu við far­aldra (og stjórn­mála­menn) var það ekki fyrr en far­aldur COVID-19 skall á að hann varð, líkt og okkar eigin sótt­varna­læknir Þórólfur Guðna­son, dag­legur gestur á sjón­varps­skjánum – mað­ur­inn sem þótti lík­leg­astur til að leiða Banda­ríkja­menn með vís­indin að vopni í gegnum skafl­inn. Hrein­skipt­inn læknir og ónæm­is­fræð­ing­ur, fæddur á aðfanga­degi jóla, alinn upp í Brook­lyn-hverfi New York, með ára­tuga reynslu.

Anthony Fauci er hann tók við Smitsjúkdómastofnuninni árið 1984.

Er hann tók við emb­ætti sótt­varna­læknis vest­an­hafs sat repúblikan­inn Ron­ald Reagan í stóli for­seta. Og síð­asti for­set­inn sem hann mun veita ráð­gjöf, ef áform hans halda, verður demókrat­inn Joe Biden.

Fauci fékk risa­vaxið verk­efni í fangið fljót­lega eftir að hann tók við Smit­sjúk­dóma­stofn­un­inni. Á níunda ára­tugnum hóf áður óþekktur sjúk­dómur að breið­ast út í Banda­ríkj­unum og víð­ar. Þetta var HIV sem veldur alnæmi (AIDS). Hann var í fyrstu útbreiddastur meðal sam­kyn­hneigðra karl­manna og lenti Fauci á þessum tíma upp á kant við mann­rétt­inda­hópa sem börð­ust fyrir auk­inni ákefð í leit að með­ferðum við hon­um. Hann varð síðar virtur banda­maður þeirra.

Eitt hans helsta afrek, að hans eigin mati og ann­arra, var að þróa og setja á stofn alþjóð­legt verk­efni, PEP­FAR, til að berj­ast gegn útbreiðslu HIV. Talið er að verk­efnið hafi bjargað yfir 20 millj­ónum manns­lífa. Þetta gerði hann í valda­tíð George W. Bush sem sæmdi hann for­seta­orðu árið 2008.

Það er af nógu að taka úr tíð Fauci í emb­ætti sótt­varna­lækn­is. Árið 2001 var hann í brúnni er árásir og ótti við frek­ari árásir með milt­is­brandi skók Banda­ríkin líkt og fleiri ríki, m.a. Ísland. Árið 2009 varð far­aldur svínaflensu og nokkrum árum síðar blossuðu upp far­aldrar ebólu og zika-veirunn­ar. Fauci var ekki bund­inn við skrif­borð þessi ár heldur sinnti einnig sjúk­ling­um, m.a. sjúk­lingum sem smit­aðir voru af ebólu.

Fauci varð hins vegar goð­sögn í lif­anda lífi í COVID-far­aldr­in­um. Klæddur stutt­erma­bol í sjón­varps­við­töl­um, yfir­veg­aður og stað­reynda­mið­að­ur. Eig­in­leikar sem við Íslend­ingar þekkjum af góðu frá okkar sótt­varna­lækni.

Hann átti að veita Don­ald Trump for­seta ráð­gjöf, líkt og fyrri for­set­um, en óhætt er að segja að stundum hafi þeir ekki verið á sömu blað­síðu. Sumir myndu kannski jafn­vel ganga svo langt að segja að þeir hefðu ekki verið í sömu bók. Fauci þurfti ekki aðeins að glíma við skæða, nýja veiru, heldur for­seta sem fór marg­sinnis með fleip­ur, gaf sam­sær­is­kenn­ingum byr undir báða vængi og ógn­aði jafn­vel heilsu þjóðar sinnar með kol­röngum full­yrð­ing­um.

Trump var seinn til að grípa til aðgerða til varnar veirunni og tal­aði þær svo gjarnan nið­ur. Fauci þurfti því marg­sinnis að leið­rétta Trump – þótt hann færi yfir­leitt fínt í það. „Ég gat ekki stokkið fyrir framan hljóð­nem­ann og ýtt honum frá,“ sagði Fauci spurður um þetta allt saman í við­tali við vís­inda­tíma­ritið Sci­ence í miðjum far­aldr­inum árið 2020. „Mér þykir það leitt, ég er ekki að reyna að grafa undan for­set­an­um. En það er eitt­hvað til sem heitir raun­veru­leik­i.“

Fauci var nær daglega í viðtölum, stundum oft á dag, er COVID-faraldurinn stóð sem hæst.
EPA

Raun­veru­leik­inn er oft ekki aug­ljós í fíla­beinsturnum og reyk­fylltum bak­her­bergj­um. Þetta minnti Fauci aðgerðateymi Hvíta húss­ins, sem skipað var til að fást við COVID-far­ald­ur­inn, á þegar stjórn­völd með Trump í broddi fylk­ingar gáfu út ótíma­bærar yfir­lýs­ingar um að allir sem vildu gætu farið í COVID-­próf. Þetta var á tímum sem slík próf voru enn af skornum skammti og heil­brigð­is­starfs­menn og stofn­anir þegar undir gríð­ar­legu álagi. Ekki bætti úr skák þegar rangar upp­lýs­ingar um aðgengi að prófum voru aug­lýst­ar.

Fauci not­aði reynslu sína af sam­skiptum við aðgerða­hópa í upp­hafi HIV-far­ald­urs­ins í nálgun sinni á mál­ið. „Ef þú vilt raun­veru­lega vita hvað er í gangi þá áttu að tala við fólkið sem er í skot­gröf­un­um,“ sagði hann. „Þannig að þegar því var haldið fram að prófin væru svarið og að allir sem vildu gætu farið í próf þá þýddi það að ég var í sím­anum langt fram á nótt að tala við fólkið á gólf­inu, fólk sem var að vinna á gjör­gæslu­deildum í New York, Chicago, New Orleans, Seattle og Los Ang­el­es. Ég gerði þetta reglu­lega og það sem þetta fólk sá í skot­gröf­unum var ekki alltaf það sama og rætt var í fund­ar­her­bergj­u­m.“

Fauci fær sprautu af bóluefni Moderna gegn COVID-19 í desember árið 2020.
EPA

Fauci fékk hins vegar oft bágt fyrir en hélt þó ótrauður sínu striki enda starf hans að veita stjórn­völdum ráð­gjöf í heilsu­fars­legum þreng­ingum og hvika hvergi frá vís­ind­un­um. Hann er þekktur fyrir að kunna að stíga fín­legan jafn­væg­is­dans á milli stjórn­mála og vís­inda. „Ég er sá sem hikar ekki við að segja for­set­anum og vara­for­set­anum það sem þeir vilja ef til vill ekki heyra,“ sagði hann í við­tali árið 2020. Hann við­ur­kenndi að það væri sann­ar­lega fólk í Hvíta hús­inu sem ætti erfitt með að kyngja stað­reyndum um ástandið eins og hann lýsti því á fundum aðgerðateym­is­ins. „Þá fékk ég við­ur­nefnið skunk­ur­inn í laut­ar­ferð­inn­i.“

Anthony Fauci og Bill Clinton forseti árið 1997.

Honum var bent á að vera jákvæð­ari, að það væri t.d. jákvætt þegar smitum fækk­aði á ákveðnum svæð­um. Það er rétt, sagði hann en benti svo á að engum sigri væri náð á meðan hver bylgjan á fætur annarri risi hátt á öðr­um. „Landið er einn skógur í þessu sam­bandi og þegar það geisa eldar á ein­hverjum svæðum í skóg­inum er hann allur í hætt­u.“

Sam­vinna hans og for­seta Banda­ríkj­anna hefur yfir­leitt verið góð. En það breytt­ist nokkuð snögg­lega í tíð Don­alds Trump á valda­stóli þótt Fauci hafi, jafn­vel eftir að Trump fór úr emb­ætti, lítið sagt um þeirra per­sónu­legu sam­skipti. Þeir hitt­ust reyndar ekki í fyrsta skipti fyrr en Trump hafði verið þrjú ár í emb­ætti og ný og skæð veira, „nýja kór­ónu­veiran“ eins og hún var köll­uð, stakk upp koll­in­um.

Trump hót­aði því oftar en einu sinni næstu mán­uð­ina á eftir að reka hann og ýjaði nokkrum sinnum að því opin­ber­lega, þótt hann hefði reyndar vart vald til slíks. Í stað þess grófu ein­stak­lingar sem unnu náið með for­set­anum stöðugt undan Fauci.

Þannig ýtti Trump undir gagn­rýni á störf Faucis sem stóð í eld­lín­unni, með mann­inn í Hvíta hús­inu fyrir framan sig að hella olíu á eld­inn. Hann var sak­aður um athygl­is­sýki, að hefta frelsi fólks af nauð­synja­lausu og þar fram eftir göt­un­um. Honum og fjöl­skyld­unni bár­ust ítrekað líf­láts­hót­anir svo hann þurfti – og þarf reyndar enn – stranga örygg­is­gæslu allan sól­ar­hring­inn.

Hann er langur list­inn yfir ágrein­ings­efni Fauci og Trump.

Dæmi:

Trump sagði snemma í far­aldr­inum að kór­ónu­veiran myndi „fyrir krafta­verk“ hverfa – án bólu­efna.

Fauci sagði að það að sleppa veirunni lausri án aðgerða myndi kosta „gríð­ar­lega mörg“ manns­líf.

Trump kall­aði veiruna í upp­hafi „Kína-veiruna“ enda sann­færður um að hún hefði verið fundin upp á rann­sókn­ar­stofu í Whu­an.

Fauci benti strax á að engar vís­inda­legar vís­bend­ingar væru um að veiran hefði verið búin til á rann­sókn­ar­stofu.

Í apríl árið 2020 viðr­aði Trump þá hug­mynd á blaða­manna­fundi að fólk drykki sótt­hreinsi­efni til að verja sig gegn COVID-19.

„Al­mátt­ug­ur,“ seg­ist Fauci hafa hugsað og ótt­ast afleið­ingar þess að svo valda­mik­ill maður setti fram slíkar rang­færsl­ur. Hann ótt­að­ist að fólk myndi gera „hættu­lega“ og „heimsku­lega“ hluti.

HIV mót­aði allt hans líf

Fauci segir HIV hafa mótað allt hans líf og starf til þessa dags. Hann sinnti sjálfur fólki með alnæmi á fyrstu árum far­ald­urs­ins, eign­að­ist í þeim góða vini sem hann sá svo veikj­ast alvar­lega og deyja áður en gagn­leg með­ferð við sjúk­dómnum kom nokkrum árum seinna. „Áfallastreita. Það er það sem það er,“ náði hann með erf­ið­is­munum að segja, grát­klökk­ur, í heim­ild­ar­mynd um HIV er hann var spurður hvaða áhrif þessir tímar höfðu á hann.

„Ég hef aldrei hitt jafn góða mann­eskju,“ segir Peter Staley, einn ötul­asti bar­áttu­maður rétt­inda hinsegin fólks á níunda ára­tug síð­ustu ald­ar, um kynni sín af Fauci hin seinni ár. Staley sótti oft mjög hart að Fauci á árum áður, mót­mælti hástöfum aðgerða­leysi stjórn­valda fyrir utan vinnu­stað hans en segir hann þó alltaf hafa verið til­bú­inn að hlusta.

Handtakið Fauci, stendur á mótmælafána fólks sem var vantrúað á að kórónuveiran væri jafn skaðleg og sóttvarnalæknirinn héldi fram.
EPA

Dag­inn sem þau gleði­tíð­indi bár­ust í nóv­em­ber árið 2020 að fyrsta bólu­efnið gegn COVID-19 hefði sam­kvæmt rann­sóknum 90 pró­sent virkni gegn alvar­legum veik­indum hélt Fauci blaða­manna­fund. Það var þó ekki til að ræða um COVID heldur nið­ur­stöður rann­sókna á verk­efni sem hann hefur farið fyrir og stutt með ráðum og dáð í langan tíma. Verk­efnið var að gera lyf sem kemur í veg fyrir að fólk smit­ist af HIV-veirunni. Og þennan dag, sama dag og Pfizer kynnti jákvæðar nið­ur­stöður á bólu­efni gegn COVID-19, greindi Fauci frá því að til­raunir sýndu að lyfið cabot­egravir veitti konum góða vörn gegn því að smit­ast af HIV-veirunni.

Anthony Fauci er á útleið úr opinberri þjónustu sem hann hefur veitt í hálfa öld. Mynd: EPA

„Ég vildi að heim­ur­inn vissi, með fullri virð­ingu fyrir því ótrú­lega ástandi og álagi sem við vorum undir vegna COVID, stæði bar­áttan við HIV enn,“ sagði Fauci í við­tali um þetta nokkru síð­ar.

Eftir löngu vinnu­dag­ana í far­aldr­inum fór Fauci heim til sín, í húsið sitt í Was­hington-­borg sem hann hefur átt og búið í allt frá árinu 1977. Hann hafði átt þetta hús í átta ár er hann gift­ist hjúkr­un­ar- og lífsið­fræð­ingnum Christine Grady. Þau hjón eiga þrjár upp­komnar dæt­ur.

Á milli ferða­laga sem Fauci hyggst taka eftir starfs­lokin hjá hinu opin­bera, má gera ráð fyrir að hann dvelji löngum stundum í hús­inu með stóra garð­inum við skrift­ir. Því að þeim hyggst hann ein­beita sér. En það gætu orðið gárur á því frið­sæla lífi sem hann sér fyrir sér. Enn standa að honum spjót­in. Þing­menn Repúblikana­flokks­ins ætla ekki að sleppa af honum tak­inu strax.

„Það er gott að vita að þegar Fauci sest í helgan stein hefur hann nægan tíma til að koma fyrir þingið og deila eið­svar­inn því sem hann vissi um Wuhan-­rann­sókn­ar­stof­una, og síbreyti­legar leið­bein­ingar í far­aldr­inum á hans vakt sem urðu til þess rangar kvaðir voru settar á almenn­ing í Banda­ríkj­un­um,“ sagði full­trúa­deild­ar­þing­mað­ur­inn Steve Scalise í yfir­lýs­ingu er Fauci til­kynnti um áformuð starfs­lok.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar