Borgarhverfi framtíðarinnar eða loftslagsskógur á Geldinganesi?
Tillögu sjálfstæðismanna í borgarstjórn Reykjavíkur um að skipuleggja Geldinganes undir íbúabyggð var hafnað á fundi borgarstjórnar á þriðjudag. Afar mismunandi sjónarmið komu fram um það hvernig skyldi nýta nesið til framtíðar, en ljóst er að þetta stóra borgarland í útjaðri núverandi byggðar er síður en svo framarlega í röðinni yfir vaxtarsvæði borgarinnar hjá núverandi meirihluta.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu til, á fundi borgarstjórnar á þriðjudag, að hafist yrði handa við skipulagningu framtíðar íbúðasvæðis í Geldinganesi, með hliðsjón af skipulagsvinnu Sundabrautar og að stefnt yrði að aðalskipulagsbreytingum með þetta í huga. Tillögunni var hafnað, í kjölfar umræðna um húsnæðismálin í borginni sem meirihlutinn ákvað að tvinna saman við umfjöllun um tillögu sjálfstæðismanna.
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sagði í ræðu sinni að það væru fjölbreytt og stór svæði að koma til uppbyggingar á næstu árum og borgin hefði úr mjög miklu að spila hvað byggingarland varðaði.
„Ég held að það sé alveg skýrt að þau svæði sem eru áherslusvæði eru þróunarásar meðfram Borgarlínu, við erum að bæta við Keldnalandinu og erum auðvitað að fá inn ný svæði í Vogabyggð, Ártúnshöfða og Skerjafirði, sem öll skipta verulegu máli, bæði nálægt okkur í tíma og þegar lengur vindur fram,“ sagði borgarstjóri, og fór svo yfir afstöðu meirihlutans til tillögu sjálfstæðismanna.
„Í stuttu máli telur meirihlutinn ekki skynsamlegt að bæta Geldinganesi þar við, þannig að við leggjum til að sú tillaga verði felld, enda er mjög mikið úr að spila í byggingarlandi og á hverjum tíma þarf borgin auðvitað að huga að því að hafa nægilegt framboð af lóðum og byggingarrétti, en líka ekki of mörg svæði í uppbyggingu í einu því það þarf að tryggja innviði, skóla, leikskóla, íþróttamannvirki, vegi, götur og annað slíkt svo hverfin byggist sem fyrst upp í heild og verði lífvænleg til íbúðar,“ sagði Dagur.
Mögulega skynsamlegt að skipuleggja Geldinganes undir byggð síðar
Einar Þorsteinsson, oddviti Framsóknarflokks og formaður borgarráðs, sagði í umræðunum að forgangsraða þyrfti kröftum starfsfólks borgarinnar í að skipuleggja svæðin sem fyrir liggi að ráðast ætti í uppbyggingu á næst og nefndi þar meðal annars Keldnalandið og Keldnaholtið.
„Það er enginn að segja að það verði aldrei úthlutað lóðum í Geldinganesi, það getur bara verið mjög skynsamlegt þegar Sundabrautin er komin, en við þurfum að forgangsraða verkefnum,“ sagði Einar.
Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins flutti tillöguna um Geldinganesið og sagði hann „mjög slæmt ástand“ ríkjandi í húsnæðismálum í Reykjavík og að það væri varla á færi venjulegs fólks að kaupa sér íbúð.
„Þetta þyrfti ekki að vera svona, Reykjavík er sennilega eina höfuðborgin í Evrópu sem á nóg land, sem er hægt að breyta í lóðir með tiltölulega skömmum fyrirvara. Þetta var gert hérna einu sinni, þegar borgaryfirvöld litu á það sem hlutverk sitt að skaffa fólkinu tiltölulega ódýrar lóðir. [...] Borgin var stundum skömmuð fyrir það að selja lóðir á lágu verði, en þá benti hún bara á það á móti að tekjur borgarinnar koma að mestu leyti úr útsvarinu, svo borgin græddi alltaf á því að fá fólk sem flutti inn í húsin og fór að borga útsvar, og það hefur nú heldur hressilega hækkað síðan,“ sagði Kjartan.
Í ræðu sinni sagði hann að pólitísk forysta Reykjavíkurborgar hefði ráðist í ýmsar aðgerðir á undanförnum árum, stórar og smáar, sem væru til þess fallnar að hækka íbúðaverð. „Auðvitað kemur þetta niður á fólki,“ sagði Kjartan, sem nefndi svo að hjá hans kynslóð hefði það verið „mjög algengt“ að fólk „fjárfesti bara í íbúð sumarið eftir stúdentinn“ eða „þegar fyrstu námslánin voru greidd út“. Þetta væri nánast óhugsandi í dag.
Sagði Kjartan að enginn væri að tala um að úthluta skyldi lóðum á Geldinganesi á þessu kjörtímabili, en að horfa þyrfti til svæðisins til framtíðar og samspili íbúðauppbyggingar við byggingu Sundabrautar, stærsta umferðarmannvirki landsins.
Uppbyggingarþörfin væri svo mikil að „fyrr en varir verður þörf á Geldinganesi“.
Geldinganes myndi fara í samkeppni við Keldnalandið
Alexandra Briem borgarfulltrúi Pírata vék að því í ræðu sinni að Reykjavíkurborg hefði þá stefnu að þétta byggð, til að bæta innviðanýtingu, styðja við virka ferðamáta og draga úr kolefnisspori. Margir uppbyggingarreitir, þar á meðal þeir sem borgin væri þegar byrjuð að huga að, eins og Vogabyggð, Ártúnshöfði, Kringlureitur, Veðurstofureitur, Arnarbakki og ýmsir aðrir reitir, væru betur til þess fallnir en Geldinganesið. Auk þess væri búið að opna á meiri byggð á jaðarsvæðum byggðarinnar, til dæmis á Kjalarnesi og í Úlfarsárdal.
„Við erum líka að undirbúa Keldnaland sem næsta stóra uppbyggingarsvæðið, enda er það í samræmi við samgöngusáttmálann. Þetta er ansi mikið, sérstaklega allt svona á sama tíma. Að bæta við Geldinganesi, sem er mjög stórt svæði og mikil til ósnortið svæði, á þessum tímapunkti væru mistök,“ sagði Alexandra. Hún sagðist meðvituð um að tillagan snerist ekki um að ráðast í uppbyggingu Geldinganes strax í dag, en að það yrðu þó alltaf mistök að fara að setja Geldinganesið inn í vaxtaráætlanir borgarinnar til næstu ára, jafnvel áratuga.
„Við viljum ekki vera að byggja upp Geldinganes á til dæmis sama tíma og Keldnalandið, þá í beinni samkeppni við Keldnalandið, enda er það eitt af markmiðum samgöngusáttmálans að reyna að fá gott verð fyrir það Keldnaland, enda er því ætlað að fjármagna stóran hluta samgöngusáttmálans af hálfu ríkisins. Því væri það í raun til höfuðs því verkefni að setja í gang annað nýtt stórt úthverfi samtímis. Ég held að það væru mistök,“ sagði Alexandra.
Kjartan Magnússon sagði í andsvari við ræðu Alexöndru að hann teldi að afar athyglisverða röksemd hjá henni, að ekki mætti spila út fleiri hverfum en Keldnalandinu því að það þyrfti að „halda uppi verðinu þar“. „Þetta er mjög athyglisverð yfirlýsing gagnvart ungu fólki í Reykjavík sem hefur lítið á milli handanna en vill samt reisa sér þak yfir höfuðið,“ sagði borgarfulltrúinn.
Alexandra sagði einnig í ræðu sinni á að vaxtarmöguleikar á Vatnsmýrarsvæðinu til framtíðar væru miklir, þegar flugvellinum hefði verið fundinn nýr staður. Það yrði vonandi næsti þéttingarstaður á eftir Keldnalandinu. Í framhaldi væri svo hægt að sjá fyrir sér að Kjalarnes og Esjumelar yrðu mikilvæg svæði þegar Sundabraut væri komin.
„Ég tel að þessi svæði séu öll nærtækari vaxtarsvæði en Geldinganes. En vissulega er ekki hægt að útiloka uppbyggingu þar í fjarlægri framtíð, eða miðframtíð,“ sagði Alexandra og nefndi að þarna væri hún ef til vill að hugsa um árin 2050 eða 2060. „Ég skal ekki segja,“ bætti hún við.
Borgin gæti haft „jákvæð áhrif á húsnæðisverð til lækkunar“
Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði að borgin hefði það í hendi sér hversu mörgum lóðum væri úthlutað til byggingar. Hún hefur áður talað fyrir skipulagningu Geldinganess undir íbúabyggð í borgarstjórn og sagði að hægt væri að úthluta lóðum til uppbyggingar þar á hagkvæmu verði, kostnaðarverði, og „gæti þannig haft jákvæð áhrif á húsnæðisverð til lækkunar“.
„Þetta land í Geldinganesi sem er í eigu borgarinnar eru 220 hektarar á stærð og samsvarar öllum því svæði sem nær frá Ánanaustum að Rauðarárstíg og frá Sæbraut að Hringbraut. Hvorki meira né minna. Auðvitað á Reykjavík, stærsta sveitarfélagið, að huga að uppbyggingu til framtíðar. Hér hafa borgarfulltrúar komið upp í hrönnum og sagt að það sé ekki tímabært að skipuleggja Geldinganesið. Við verðum að vinna heimavinnuna þegar kemur að því að við þurfum að nýta Geldinganesið. Þar væri hægt að byggja 10, 15, 20 þúsund íbúðir og þannig gætum við leyst húsnæðisvandann sem við höfum staðið frammi fyrir í allt, allt of langan tíma,“ sagði Marta.
Skógræktar- og útivistarsvæði frekar en byggð?
Ýmsar skoðanir komu fram um Geldinganesið í umræðunum í borgarstjórn, sem alls stóðu yfir í um þrjár klukkustundir. Birkir Ingibjartsson fulltrúi Samfylkingar sagði að tillaga sjálfstæðismanna um skipulag nýs hverfis þar væri til vitnis um „skort á framtíðarsýn, að leggja til uppbyggingu á hrjóstrugu nesi í útjaðri borgarinnar, en standa á sama tíma gegn uppbyggingu á besta uppbyggingarsvæði landsins, í Vatnsmýrinni“.
„Ef við raunverulega ætlum að hugsa stórt og til framtíðar væri einmitt ráð að skilgreina Geldinganes sem útivistarsvæði til framtíðar sem ekki yrði undirlagt af byggð. Það væri að mínu mati mun fremur ráð að hefja þar skógrækt við einn af loftslagsskógum Reykjavíkur. Væri það táknræn aðgerð um að segja að okkur sé alvara um að standa við loftslagsmarkmið okkar og að hvernig við högum uppbyggingu borgarinnar sé lykilatriði í því samhengi,“ sagði Birkir.
Lestu meira
-
5. janúar 2023Vindorkan áskorun fyrir stjórnkerfi skipulags- og orkumála
-
30. desember 2022Veikleikar og brotalamir í skipulagsmálum á Íslandi
-
28. desember 2022Borgarlínan „lykilþáttur“ í samkeppnishæfni höfuðborgarsvæðisins
-
27. desember 2022Áttar sig illa á andstöðu hægrimanna við veggjöld
-
1. desember 2022Hugmyndir um kláf upp á Esjuna verða teknar til skoðunar á ný