Byggt verði af virðingu við fórnarlömb brunans og húsin í kring
Íbúar í Gamla Vesturbænum skora á borgaryfirvöld að eignast lóðina við Bræðraborgarstíg 1 og 3. Þeir segja reitinn ekki bera áformað byggingarmagn og vilja að þar verði reistur minnisvarði um fórnarlömb eldsvoðans og byggt í takti við hin sérstæðu timburhús í nágrenninu.
Fjölmennur hópur nágranna Bræðraborgarstígs 1-3 hefur sent áskorun á borgarstjóra, borgarstjórn og eigendur byggingarreitsins þar sem skorað er á yfirvöld að útvega eigandanum aðra lóð sem þolir meira byggingarmagn. Reykjavíkurborg taki síðan við lóðinni og þrói hana með íbúum og nærumhverfi.
Fyrir um átján mánuðum varð mannskæðasti eldsvoði i sögu höfuðborgarinnar í húsinu að Bræðraborgarstíg 1. Þrír létust, allt ungt fólk. Nágrannar vilja að á lóðinni verði minnisvarði um brunann og reiturinn byggður upp af virðingu við fórnarlömbin og þá mikilvægu menningararfleifð sem felist í einu elsta byggðamynstri borgarinnar. Hópurinn leggur m.a. til að gömul hús sem áður stóðu á þessum slóðum verði flutt á reitinn og hann verði samkomustaður fólksins í Gamla Vesturbænum.
„Þetta er hápólítískt mál sem snýst um menningu okkar og sögu. Nú gefst borgaryfirvöldum tækifæri til að sýna í verki stefnu sína gagnvart elsta hluta borgarinnar,“ segir Friðbjörg Ingimarsdóttir, sem búið hefur á svæðinu í þrjá áratugi og er meðal þeirra rúmlega fimmtíu nágranna sem sendu áskorunina. Hún segir að allt frá hinum skelfilega eldsvoða hafi það blundað í nágrönnunum að á reitnum yrði fórnarlamba eldsvoðans minnst. „Ástvinir þeirra sem létust og þeirra sem misstu allt sitt í eldsvoðanum komu hingað svo mánuðum skipti og lögðu blóm við brunarústirnar,“ segir Friðbjörg en hún býr að Vesturgötu 45, við hlið húsanna sem ýmist brunnu eða skemmdust í eldsvoðanum.
Nágrannar höfðu verið áhyggjufullir vegna ástands Bræðraborgarstígs 1 í áratug og ítrekað vakið athygli yfirvalda á því. Þeir sem svo urðu vitni að eldsvoðanum urðu fyrir miklu áfalli sem þeir glímdu við lengi. „Það er því rétt hægt að ímynda sér áfallið og sorgina sem ástvinir þeirra sem létust hafa þurft að ganga í gegnum.“
Viðtal um áformin á lóðinni á Bræðraborgarstíg 1 og 3
Núverandi eigendur lóðarinnar, Þorpið vistfélag, létu rífa brunarústirnar, Bræðraborgarstíg 1 og Vesturgötu 47, nýverið og áforma að byggja á reitnum hús með 26 íbúðum fyrir eldri, einstæðar konur. Hin feminíska hugmyndafræði er falleg, segir Friðbjörg, en byggingarmagnið er hins vegar „óheyrilegt“.
Að hennar mati var hornhúsið að Bræðraborgarstíg 1 eitt af glæsilegri og reisulegustu húsum Vesturbæjar. Viðbyggingin sem seinna kom og stóð við Vesturgötu 47 hafi aldrei átt þar heima heldur stungið í stúf í götumyndinni sem nýtur nú sérstakrar verndar Minjastofnunar. Karakter hornhússins hafi hins vegar verið mikill og ekki síður saga þess.
Á síðustu áratugum 19. aldar og og á öndverðri tuttugustu öldinni voru timbur- og steinhús tekin að rísa í stað torfbæja á þeim slóðum sem í dag kallast Gamli Vesturbærinn. Á þessu fyrsta vaxtarskeiði Reykjavíkur reis ný byggð við Bræðraborgarstíg og Framnesveg í vesturbæ og í norður- og vesturhluta Skólavörðuholts í austurbæ. Þessi byggð reis fyrst í stað án skipulags og sökum þess er yfirbragð hennar óvenju margbreytilegt með ýmis konar húsgerðum, stílbrigðum og götumyndum. Fjölbreytni í efnisvali setur einkennandi svip á útlit húsanna, sem eiga það sammerkt að vera áþekk að stærð, ýmist tví- eða þrílyft og fremur lítil um sig.
Eitt þeirra, Bræðraborgarstíg 1, byggði Otti Guðmundsson árið 1906. Húsið átti síðar eftir að hýsa bakarí og verslun sem urðu miðstöð hverfisins í áratugi. En þetta var líka fjölskylduhús þar sem atorkumikið og hjálpsamt fólk bjó, elskaði, missti og saknaði, líkt og rakið var í ítarlegri fréttaskýringu Kjarnans fyrir tæpu ári. Hornhúsið hans Otta á Bræðraborgarstíg og Vesturgötu stóð í heila öld og fjórtán ár til, eða þar til það stóð í ljósum logum á júnídegi árið 2020.
„Vesturgatan og næsta nágrenni er best varðveitta götumynd Reykjavíkur með þessum gömlu timburhúsum,“ segir Friðbjörg, „og okkur ber að vernda þessa ásýnd.“ Hún segir að „því miður“ hafi nokkur hús við Vesturgötuna verið rifin á sínum tíma og önnur byggð í staðinn sem hefðu mátt passa betur inn í þetta einstaka umhverfi. Af þeirri reynslu verði að læra og því ætti að staldra við þegar upp koma hugmyndir um að byggja stórt fjölbýlishús „í allt öðrum stíl“ á hinu sögufræga horni Vesturgötu og Bræðraborgarstígs. „Þetta gengur of langt,“ segir hún. „Svona ótrúlega mikið byggingarmagn myndi rjúfa þá stemningu sem hér er og er einstök, hvernig sem á það er litið.“
Friðbjörg segir að vissulega hafi timburhúsin í gamla Vesturbænum þróast og breyst hvert með sínum hætti í tímans rás en að þau beri þó öll enn merki þess að vera frá þeim tíma er þetta fyrsta úthverfi Reykjavíkur varð til. Húsin sem liggja að Bræðraborgarstíg séu til að mynda flest vel yfir hundrað ára gömul. „Í þessu felast gríðarleg menningarleg verðmæti,“ segir hún og þess vegna hvetji íbúarnir borgaryfirvöld til að eignast byggingarreitinn, annað hvort með kaupum eða með því að bjóða fjárfestunum aðra lóð í staðinn.
Íbúahópurinn sér til dæmis fyrir sér að hægt verði að flytja eldri timburhús annað hvort af Árbæjarsafni eða annars staðar frá á reitinn, „hús sem myndu varpa ljósi á þennan gamla tíma og falla vel að þessari sérstæðu götumynd. Það er ekki þar með sagt að það mætti ekki endurbyggja það glæsilega hús sem þarna stóð“.
Í áskorun íbúanna eru raktar átta ástæður fyrir því að þeir telji að borgin ætti að ganga til samninga við lóðarhafa með það að markmiði að eignast lóðirnar að Bræðraborgarstíg 1 og 3:
● Mikilvægi menningararfleifðar
● Varðveisla eins elsta byggðamynsturs borgarinnar
● Möguleika á að endurheimta í hverfið horfið hús.
● Vöntun á grænu svæði fyrir íbúa
● Vöntun á leiksvæði fyrir börnin
● Tenging opinna svæða við þróunarsvæði við höfnina
● Virðing við fórnarlömb brunans á Bræðraborgarstíg 1
● Minnisvarði fyrir mannskæðasta bruna í sögu Reykjavíkur
„Áskorunin er komin til vegna þess að margir íbúar hér hafa áhyggjur af þróun hverfisins,“ segir sagnfræðingurinn Astrid Lelarge sem eins og Friðbjörg býr við Vesturgötuna. Hún hefur sérhæft sig í skipulagssögu og þekkir því vel til þessara mála. „Hér eru flest húsin úr timbri og mikill samhljómur í húsagerðinni. Þess vegna hefur götumyndin hlotið vernd Minjastofnunar.“
Núna eru hins vegar blikur á lofti að mati íbúanna sem telja að með áformaðri uppbyggingu á reitnum yrði gríðarleg breyting á götumyndinni sem er að sögn Astrid hluti af menningararfleifð Reykjavíkur og landsins alls.
Ef hægt að færa burt er hægt að færa til baka
Tilhneiging er að hennar sögn fyrir því í Reykjavík að færa gömul hús í stað þess að varðveita þau þar sem þau eru byggð til að rýma fyrir nýrri byggingum. Þannig hafi vissulega tekist að varðveita mörg eldri hús en ekki að sama skapi götumyndir þar sem litið er á hlutina í stærra samhengi. „Það góða er að ef það var hægt að færa til gömul hús þá ætti að vera hægt að færa þau aftur á sama stað eða svipaðar slóðir.“
Þess vegna er lagt til í tillögu íbúahópsins að það verði gert og fundin verði hús sem passi vel við götumynd Gamla Vesturbæjarins. Telja þeir m.a. upplagt að flytja Ívarssel, hús sem byggt var 1869 og stóð við Vesturgötu 66b en er nú á Árbæjarsafni, „aftur heim á Vesturgötuna þar sem Vesturgata 47 stóð“. Þar gætu fleiri fengið að njóta þess og það myndi auk þess styrkja götumyndina og gamla byggðamynstrið.
„Þegar við tölum um götumynd erum við ekki aðeins að tala um varðveislu hvers húss fyrir sig heldur landslags og umhverfis sem hefur mikla sögu þeirra sem þar bjuggu og unnu,“ minnir Astrid á. Hugmynd íbúanna gangi út á að standa vörð um söguna og hennar gildi til framtíðar. „Mér finnst þær hugmyndir sem settar hafa verið fram um uppbygginguna á byggingarreitnum ekki vera viðeigandi á þessum stað og að þær myndu eyðileggja götumyndina.“
Eftir eldsvoðann vill samfélagið í Gamla Vesturbænum fá að taka þátt í að móta framtíðina í hjarta hverfisins. Það er þeirra vilji að þarna verði samkomustaður, grænt svæði, leiksvæði og lítið samkomuhús, sem allir geti notið. „Og það ætti að hlusta á raddir íbúanna og hvað þeir hafa til málanna að leggja.“
Gefa þarf fólki tíma til að syrgja
Astrid segir að íbúarnir og þeir sem misstu ástvini sína í brunanum þurfi líka að fá tíma til að syrgja og fyrir sárin að gróa. „Þetta var áfall fyrir marga, fyrst og fremst fyrir þá sem bjuggu þarna og ástvini þeirra.“
Hún segir líka erfitt fyrir marga nágranna að horfa upp á það sem gerðist, sérstaklega eftir að ítrekað var varað við ástandi hússins. Sumir þeirra hafi svo orðið vitni að eldsvoðanum. „Það sem er byggt upp í staðinn, eftir svona áföll, skiptir miklu máli og hefur líka áhrif á fólk. Það verður að taka það með í reikninginn þegar farið er að huga að uppbyggingu á ný á þessum stað.“