Keyptu hús og rústir á Bræðraborgarstíg á 270 milljónir og sækja um niðurrif eftir helgi

Loks hillir undir að brunarústirnar á Bræðraborgarstíg 1 verði rifnar. Nýir eigendur, sem gengið hafa frá kaupsamningi, vilja gera eitthvað gott og fallegt á staðnum í kjölfar harmleiksins sem kostaði þrjár ungar manneskjur lífið síðasta sumar.

Bræðraborgarstígur 1 brann í sumar. Þorpið hefur keypt rústirnar og húsið við hliðina, Bræðraborgarstíg 3.
Bræðraborgarstígur 1 brann í sumar. Þorpið hefur keypt rústirnar og húsið við hliðina, Bræðraborgarstíg 3.
Auglýsing

Gengið hefur verið frá kaupum Þorpsins vistfélags á Bræðraborgarstíg 1 og 3 af HD Verki. Kaupverðið er 270 milljónir króna. „Þetta er krefjandi verkefni,“ segir Runólfur Ágústsson, verkefnastjóri Þorpsins, um uppbygginguna framundan, „og við ætlum okkur töluvert langan tíma í hönnun og skipulag.“ 

Engu að síður er stefnt að því að verkefninu verði lokið innan tveggja og hálfs árs. Þá munu, ef allt gengur eftir, á þriðja tug kvenna á besta aldri flytja í jafn margar smáíbúðir nýrra og uppgerðra húsa og deila þvottahúsi, vinnuaðstöðu, jógasal og risastórum bakgarði með heitum potti, saunu og gróðurhúsi – og jafnvel bíl. Femínistar yfir sextugt vilja vera í nábýli hver við annan og sækja sér þannig stuðning og félagsskap.

Auglýsing

Hugmynd að kjarnasamfélagi sem þessu kann að hljóma útópísk, að minnsta kosti á Íslandi. Er til dæmis nóg af einhleypum, eldri kvenkyns femínistum á Íslandi til að fylla 26 íbúðir sem til stendur að gera? Og eru þeir virkilega tilbúnir að deila einum bíl?

Svarið við báðum þessum spurningum er já. Frumkvæðið að fyrirkomulaginu kom frá félaginu Femínistar 60+ og eftir að málið komst í fréttir hafa margar konur til viðbótar lýst áhuga sínum á að vera með. Þær vilja búa saman, jafnvel elda saman. Spjalla svo saman. Og alveg örugglega hlæja saman. 

Frá 25. júní er hornhúsið að Bræðraborgarstíg 1 brann og þrír íbúar þess létust bjó djúpur harmur þar um sig. Þar sem fjöldi fólks hafði búið í litlum leiguherbergjum þessa áður mikla fjölskylduhúss  standa nú brunnar rústir undir gráu neti. Allir vilja þær burt. Helst í gær. En þarna standa þær enn og bjóða hættunni heim. Eru slysagildra í hjarta borgarinnar.

Nýir eigendur segja ekki eftir neinu að bíða. Stefnt er að því að sækja um leyfi til niðurrifs strax eftir helgi. Einhver bið verður þó á því þar sem heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur þarf fyrst að auglýsa starfsleyfi verktakans sem tekur niðurrifið að sér í fjórar vikur. „Auðvitað myndum við helst vilja hefjast handa við að hreinsa strax,“ segir Runólfur. En svona eru reglurnar og eftir þeim verður að fara.

Hér má sjá fyrstu hugmyndir að grófu skipulagi byggingareitsins. Mynd: Yrki arkitektar

Þorpið vistfélag fer ekki hefðbundnar leiðir þegar kemur að uppbyggingu húsnæðis. Í Gufunesi, fyrsta verkefni félagsins, er nú hafin bygging annars áfanga í hverfi þar sem samfélagsleg og umhverfisleg gildi verða í forgrunni. Þar verður boðið upp á vel skipulagðar og ódýrar íbúðir. Þær hafa reynst svo vinsælar að þrír hafa sótt um hverja þeirra. Íbúðirnar, sem verða 140 talsins, eru seldar á föstu verði en ekki hæstbjóðanda og hefur því þurft að draga úr nöfnum áhugasamra kaupenda. Í Gufunesi er verið að byggja fyrir unga fólkið. Á Bræðraborgarstíg er uppbyggingin hugsuð fyrir eldri konur. 

„Það sem okkur langar að gera er að búa til eitthvað gott og fallegt á þessum stað eftir þennan hræðilega atburð,“ segir Runólfur um Bræðraborgarstíginn. Því hafi Þorpið heillast af hugmyndum kvennahópsins. Að auki telur hann að hugmyndafræði kvennanna, sem kallast baba yaga, rými vel við hugmyndafræði Þorpsins vistfélags.  

Innra skipulag jarðhæðar húsanna að Bræðraborgarstíg 1 og 3 samkvæmt fyrstu hugmyndum Þorpsins. Mynd: Yrki arkitektar

Baba yaga-systrahúsin eru alþjóðleg hreyfing sem upprunin er í Frakklandi. Fyrsta húsið var byggt í París árið 1992 að frumkvæði franska femínistans og aðgerðasinnanns Thérèse Clerc (1927-2016). Slík hús hafa síðan verið byggð víða um hinn vestræna heim. 

Hugmyndafræði Baba yaga er sú að eldri konur taki sig saman og byggi sitt sameiginlega hús „til að fá að eldast innan eigin veggja, þar sem lögð er áhersla á femínisma, gagnkvæma umönnun og sambærileg lífsviðhorf,“ segir í samantekt Þorpsins og félagsins Femínistar 60+. „Persónulegir hagsmunir og einkalíf hverrar konu eru að fullu virt en um leið skuldbinda þær sig til að veita hver annarri styrk og stuðning í lífsins ólgu sjó.“

Bræðraborgarstígur 1 árið 1920. Mynd: Jafet Hjartarson

Markmiðið með uppbyggingunni verður einnig að sögn Runólfs að hefja reitinn til vegs og virðingar á ný. Gera hann að þeim segli og þeirri miðstöð sem hann var áður í Vesturbænum. Því er stefnt að því að á jarðhæð hornhússins verði kaffihús og jafnvel handverkshús. Að sá hluti þess verði aftur samofinn nærsamfélaginu sem og íbúum hússins. Á efri hæðunum yrðu svo litlar íbúðir, um 45 fermetrar. „Okkar markmið er að ná ákveðnum fjölda íbúða til að það geti borið þessa miklu sameign,“ bendir Runólfur á. „Annars verða íbúðirnar of dýrar fyrir konurnar.“

Bræðraborgarstígur 1 var byggður árið 1906 og nokkrum árum síðar keyptu hjónin Sveinn Hjartarson og Steinunn Sigurðardóttir það. Þau stofnuðu og ráku þar bakarí sem Vesturbæingar lögðu leið sína í í áratugi. Kaffi- og handverkshús yrði því einnig framhald af sögu hússins, segir Runólfur. Samkomustaður nágranna.

Fyrstu hugmyndum að uppbyggingunni var skilað til skipulagsyfirvalda í desember. Mynd: Úr skýrslu Þorpsins

En það eru einnig persónulegar ástæður fyrir því að hugmynd kvennahópsins hreif Runólf. Þegar Sveinn og Steinunn áttu húsið var ekki búið að finna upp hugtakið „samfélagsleg ábyrgð“ en hana skorti ekki hjá þeim hjónum. Þau gáfu af sér og sínu, tóku að sér börn tveggja systra Steinunnar sem létust úr spönsku veikinni og réttu fjölmörgum vandalausum einnig hjálparhönd. 

Amma og nafna Áslaugar Guðrúnardóttur, konu Runólfs, naut góðs af gæsku hjónanna því hún hóf sinn búskap að Bræðraborgarstíg 1. Sveinn og Steinunn leyfðu unga fólkinu að búa þar án endurgjalds í fjögur ár. Faðir Áslaugar fæddist svo í húsinu. Samkennd, samvinna og hjálpsemi voru þættir í fari einna fyrstu íbúanna og viðeigandi að þeir verði það nú aftur. 

Horft yfir bakgarðinn stóra að húsunum samkvæmt fyrstu hugmyndum Þorpsins. Mynd: Yrki arkitektar

Áhersla verður að sögn Runólfs lögð á að vinna að skipulagi lóðanna og hönnun húsanna í góðu samstarfi við skipulagsyfirvöld og nágranna. Þorpið leggur til að lóðirnar verði sameinaðar, að húsið að Bræðraborgarstíg 3 verði endurbyggt í anda síns tíma, að nýtt bakhús verði byggt sem og nýtt hornhús að Bræðraborgarstíg 1.   

Þar sem hörmulegir atburðir áttu sér þarna stað er fólki ekki sama hvað tekur við. Yfir umgengni og viðhaldi húsanna að Bræðraborgarstíg 1 og 3 hafði oft verið kvartað til yfirvalda í gegnum árin. Það voru svo nágrannar sem komu með þeim fyrstu á vettvang eldsvoðans síðasta sumar og hafa þurft að ganga fram hjá brunarústunum mánuðum saman. Sumir þeirra hafa lýst erfiðum tilfinningum vegna eldsvoðans í samtali við Kjarnann sem vann ítarlegar fréttaskýringar um harmleikinn, orsakir hans og afleiðingar, og birti í nóvember.

Bræðraborgarstígur alelda þann 25. júní. Mynd: Aðsend

Runólfur segir að varlega þurfi að stíga til jarðar í allri hönnun húsanna og skipulagi, m.a. vegna þess að um gamla götumynd er að ræða sem að hluta til nýtur sérstakrar verndar. Því verður að engu óðslega farið í því ferli sem framundan er og mun líklega standa næsta árið. Sá hluti verkefnisins er þegar að fullu fjármagnaður. Þorpið stofnaði sérstakt dótturfélag um Bræðraborgarstígsverkefnið, líkt og það hefur gert fyrir alla fjóra byggingaráfanganna í Gufunesi. Í stjórn hins nýja dótturfélags sitja þrjár konur: Anna Margrét Jónsdóttir, Lilja Einarsdóttir og Áslaug Guðrúnardóttir.

Gengið var endanlega frá kaupsamningi við HD Verk fyrr í vikunni. Þorpið tekur yfir töluvert af áhvílandi lánum og mun svo fá greiddar út tryggingabætur vegna brunans þegar samkomulag næst við tryggingafélagið. „Við gerum ráð fyrir að ljúka því máli mjög fljótlega,“ segir Runólfur. Hann hefur enga trú á því að dómstólaleiðin verði farin eins og fyrri eigendur ætluðu sér. „Það er ekki okkar stíll.“

Spennandi úrlausnarverkefni

Nágrannar og skipulagsyfirvöld hafa tekið hugmyndum Þorpsins og kvennahópsins vel þó að ákveðin atriði eins byggingarmagn í hverju húsanna fyrir sig og staðsetningar á lóðinni þurfi að ræða betur. „Við munum fara bil beggja,“ segir Runólfur og ítrekar enn og aftur að reynt verði að vinna áfram að verkefninu í samvinnu og sátt við sem flesta. Viðbrögð Minjastofnunar við frumtillögum voru mjög jákvæð og Runólfur segir umsögn skipulagsfulltrúa einnig hafa verið jákvæða að mörgu leyti þó að yfirvöld vilji fara aðeins aðrar leiðir en Þorpið lagði upphaflega til. En þetta er ekki vandamál í huga Runólfs. „Við lögum okkur einfaldlega að þessu.“ 

Þannig er t.d. líklegt að hluti bygginganna verði lækkaður um eina hæð frá fyrstu tillögum. Þá vilja skipulagsyfirvöld að götuhorninu verði haldið í sem næst þeirri mynd sem það var í og á því segist Runólfur hafa skilning. „Ég lít bara á þetta sem spennandi úrlausnarefni og samstarfsverkefni okkar, borgarinnar og Minjastofnunar.“


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Steinar Frímannsson
Hver er stefna stjórnmálaflokkanna í umhverfismálum?
Kjarninn 16. september 2021
Halldóra Mogensen, þingflokksformaður Pírata, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Boðuð útgjaldaaukning Pírata er ekki fullfjármögnuð
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Halldóru Mogensen um að kosningaloforð Pírata séu fullfjármögnuð með nýjum tekjuöflunarleiðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jón Steindór Valdimarsson
Drifkraftur nýrra lausna í loftslagsmálum
Kjarninn 16. september 2021
Mikil skekkja er í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunarleiðinni sem flokkurinn sá fyrir að fjármagna kosningaloforð sín með.
Tugmilljarða skekkja í útreikningum Pírata á helstu tekjuöflunaraðgerð þeirra
Þingmaður Pírata segir að flokkurinn sé að endurskoða útreikninga sína á áhrifum 3,75 prósentustiga hækkunar efsta þreps tekjuskattskerfisins, eftir að bent var á að þar skeikaði tugmilljörðum.
Kjarninn 16. september 2021
Jóhann S. Bogason
Vesalings Færeyingarnir
Kjarninn 16. september 2021
Kolefnisgjald leggst meðal annars á bensín og dísil olíu.
Meirihluti stjórnmálaflokka vill hækka kolefnisgjald
Passa verður að kolefnisgjald leggist ekki þyngst á þau sem minnst hafa á milli handanna að mati þeirra flokka sem vilja hækka kolefnisgjald. Útblástur frá vegasamgöngum er helsta uppspretta losunar sem er á beinni ábyrgð Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Liðin tíð að Bandaríkin veiti Íslandi aðstoð „vegna góðvildar“
Íslendingar þurfa tromp á hendi til að vekja áhuga Bandaríkjanna til að styðja landið diplómatísk í alþjóðasamfélaginu og veita viðskiptalegar eða efnahagslegar ívilnanir, að því er fram kemur í þættinum Völundarhús utanríkismála Íslands.
Kjarninn 16. september 2021
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völunarhús utanríksmála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 3: Áhugi Bandaríkjanna á Íslandi
Kjarninn 16. september 2021
Meira úr sama flokkiInnlent