Djúpu sporin hennar Merkel
Sextán ára valdatíð Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, hefur verið mörgum krísum stráð. Konan með rólynda yfirbragðið, kletturinn staðfasti sem fengið hefur baldna valdakarla til að sitja, þegja og hlusta, mun brátt yfirgefa hið pólitíska svið og líklega stefna rakleiðis í svissnesku Alpana – þar sem hún hefur oft notið þess að hlaða batteríin á göngu.
Ungt fólk í Þýskalandi hefur alist upp með einn og sama leiðtogann við stjórnvölinn, Angelu Merkel, sem var kjörin kanslari árið 2005, fyrst kvenna. Svo löng valdatíð í vestrænum heimi verður að teljast óvenjuleg. Enn óvenjulegri er þó ef til vill sú staðreynd að Merkel verður, eftir sín tæpu sextán ár á valdastóli, fyrsti leiðtogi Þýskalands eftir síðari heimsstyrjöld til að fara frá völdum af fúsum og frjálsum vilja.
Merkel hefur ekki verið óumdeild en hefur markað djúp spor í sögu lands síns, mörg hver til góðs fyrir þjóðina og heimsbyggðina alla. Hún hefur staðið frammi fyrir risavöxnum verkefnum: Fjármálahruni, sögulegri móttöku flóttafólks, brestum í Evrópusambandinu og heimsfaraldri – svo fátt eitt sé nefnt. En einu stærsta verkefninu, að fást við loftslagsvána, var hún ef litið er á stóru myndina aðeins rétt byrjuð að snerta á. Það mun því koma í hlut arftaka hennar að leiða þýsku þjóðina út úr því sjálfskaparvíti til framtíðar. Og þannig mögulega setja fordæmi fyrir aðra borgara þessa heims að fylgja. Það væri í takti við arfleifð Merkel sem hefur þótt merkilega fær í því að róa öldur og stilla saman ólíka strengi, þótt sumir hafi vissulega slitnað. Ákvarðanir sem upp úr slíku samráði spruttu hafa hins vegar ekki alltaf verið vinsælar.
Í eitt fyrsta skiptið sem nýr leiðtogi Kristilegra demókrata í Þýskalandi kom opinberlega fram árið 2001 kom hann mörgum fyrir sjónir sem nokkuð óöruggur. Kannski fannst fólki vanta hið valdsmannslega yfirbragð sem fyrrverandi formenn höfðu haft. Hinn nýi formaður virtist ekki njóta sín í sterkum kastljósum sjónvarpsstöðvanna. Og einhverjum fannst svörin við spurningum blaðamanna heldur litlaus – jafnvel leiðinleg. Þessi manneskja verður aldrei kanslari, hvísluðu einhverjir.
Þessi manneskja var Angela Merkel sem átti svo um munar eftir að sanna hið gagnstæða. Nei, hún hafði ekki sama valdsmannslega yfirbragð sem einkenndi karlana. Hún talaði rólega, jafnvel lágt, en var laus við hroka og yfirlæti. Fylgdist vel með. Hlustaði. Með þessa eiginleika sína og fleiri að vopni komst hún til valda, varð kanslari Þýskalands og valdamesti leiðtogi Evrópu ef út í það er farið.
En krísurnar voru einnig mun nær. Stjórnvöld fengu það óþvegið er mannskæð flóð urðu í Þýskalandi í sumar. Þá var stjórn Merkel gagnrýnd fyrir að hafa sofnað á verðinum og einnig bent á að hinar fordæmalausu rigningar sem þá urðu væru aðeins smjörþefurinn af því sem koma skal vegna loftslagsbreytinga.
Ungt fólk af Merkel-kynslóðinni varð fyrst til að benda á að frekari hörmungar af þeim toga gætu einkennt næstu ár og áratugi. Unga fólkið sem hafði fengið aðra sterka kvenfyrirmynd: Gretu Thunberg.
Þegar Angela Merkel tók við völdum leit heimurinn sannarlega öðruvísi út en hann gerir í dag. George W. Bush var forseti Bandaríkjanna og Tony Blair forsætisráðherra Bretlands. Margir héldu að samheldni Evrópu yrði vart haggað úr þessu. Að frjálslynd lýðræðisöfl væru komin til að vera. Annað átti eftir að koma á daginn. Fjármálakreppan og gríðarlegur straumur flóttafólks til álfunnar olli sundrung og um miðjan síðasta áratug voru popúlísk öfl farin að fá byr undir báða vængi og ýta undir þjóðernishyggju sem flestir höfðu talið heyra sögunni til. Evrópusamstarfið og sívaxandi völd Þjóðverja innan þess var gagnrýnt.
Evrópusambandið stóð þennan storm af sér að mestu, jafnvel þótt Bretar tækju þá ákvörðun að yfirgefa það. Donald Trump var svo kosinn forseti Bandaríkjanna um svipað leyti og þar með tók samstarf við þessi tvö stórveldi, eina helstu bandamenn Þjóðverja, að stirðna. Á forsíðum dagblaða var Merkel í kjölfarið kölluð „síðasti varðmaður frjálslyndis“ á Vesturlöndum.
Loftslagsmálin hafa síðustu ár kallað fram háværa kröfu á Merkel og hennar stjórn að ganga lengra í lagasetningu og aðgerðum sem miða að því að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda. Slík löggjöf varð að veruleika árið 2019 en mörgum þótti ekki nógu langt gengið og gagnrýnisraddirnar þögnuðu alls ekki. Umhverfisverndarsamtök sögðu alls ekki nóg að gert. Merkel svaraði: „Stjórnmál snúast um hvað er gerlegt“.
Frambjóðandi flokks Græningja í kanslarakosningunum, Annalena Baerbock, greip þessi orð á lofti og hefur í kosningabaráttu sinni sagt að stjórnmál snúist ekki aðeins um hvað sé hægt að gera heldur „hvað við getum látið gerast“.
Merkel hefur hins vegar nokkrum sínum á sínum pólitíska ferli gengið lengra en búist var við, bæði af hennar stuðningsmönnum og andstæðingum, og „látið hluti gerast“. Eftir jarðskjálftann á Japan árið 2011, sem olli því að leki kom að kjarnorkuverinu í Fukushima, tilkynnti hún að öllum slíkum verum yrði lokað í Þýskalandi fyrir árið 2022.
Einkunnarorðin
Eftirminnileg er svo ákvörðun hennar um að taka á móti einni milljón fólks á flótta árið 2015 er stríðið í Sýrlandi var í hámarki. Á meðan sumum löndum hennar fannst allt of langt gengið tóku aðrir þessari ákvörðun hennar sem vísbendingu um styrk hennar og ákveðni í því að breyta ímynd Þýskalands – að sýna að Þjóðverjar hefðu í reynd lært af fortíðinni.
Flokkssystkin hennar í Kristilegum demókrötum voru alls ekki öll sammála henni. En Merkel varð ekki haggað. „Ég verð að vera hreinskilin. Ef við þurfum að fara að biðjast afsökunar á því að sýna vináttu í neyð þá er þetta ekki mitt land,“ sagði hún í september árið 2015. „Við getum þetta,“ sagði hún svo eftirminnilega.
Merkel á ekki ein skilið heiðurinn af þeim framförum sem orðið hafa í Þýskalandi í hennar stjórnartíð. Ýmis umbótamál má rekja til samstarfsflokksins í tólf ár af sextán, Jafnaðarmannaflokksins. Saman hafa flokkarnir tveir sett á oddinn ýmis velferðar- og mannréttindamál, s.s. afnám herskyldu, lágmarkslaun, lengra fæðingarorlof og heimilað giftingar samkynhneigðra.
Hennar síðasta kjörtímabil hefur svo verið litað af heimsfaraldrinum og Merkel var aftur komin í sviðsljósið sem aldrei fyrr. Hún brást hratt við með því að setja á ýmsar harðar samfélagslegar aðgerðir. Í sjónvarpsávarpi þar sem hún greindi löndum sínum frá því sem í vændum væri rifjaði hún upp æsku sína í Austur-Þýskalandi en það hafði hún sjaldan gert á opinberum vettvangi. „Fyrir einhvern eins og mig, sem barðist ákaft fyrir ferðafrelsi, er aðeins hægt að réttlæta svona aðgerðir af brýnni nauðsyn.“ Með sinn bakgrunn í efnafræði átti hún svo ekki í vandræðum með að hlusta á vísindamennina og taka þeirra ráðleggingum.
Enda skiluðu þessar hörðu aðgerðir góðum árangri, rétt eins og við þekkjum hér á Íslandi. Fyrsta bylgjan var að mestu kveðin niður en allt fór að horfa til verri vegar á ný síðasta haust. Þá vildi Merkel aftur grípa til harðra aðgerða en kom þeim ekki í gegn vegna andstöðu leiðtoga sambandsríkjanna sextán. Þeir sáu hins vegar að sér er líða tók á veturinn og faraldurinn hélt áfram að ágerast.
En hvað finnst Angelu Merkel sjálfri standa upp úr á ferli sínum? Um það vill hún hafa sem fæst orð. „Ég hugsa ekki um hlutverk mitt í sögulegu samhengi,“ segir hún nýlegu viðtali við Financial Times. „Ég einfaldlega vinn vinnuna mína.“
Hún stóðst þó ekki mátið á kosningafundi Kristilegra demókrata í síðasta mánuði og fór yfir nokkur þeirra mála sem hún telur standa upp úr. Að minnka atvinnuleysi um helming er þar efst á blaði. Að hefja orkuskipti í Þýskalandi með lokun kjarnorkuvera og fljótlega allra kolavera. Og að endingu: Að hafa bjargað evrunni.
Allt eru þetta mál sem eiga það til að breytast hratt, hvort sem það er atvinnuleysi, loftslagsmál eða samstaða innan Evrópusambandsins. Það hefur reynslan af valdatíð Merkel sýnt okkur. En nú mun það koma í hlut næsta kanslara að fást við þau verkefni.
En hver verður það?
Kosið verður til þings í dag. Skoðanakannanir hafa ekki verið afgerandi síðustu vikur. Græningjar voru á miklu flugi í sumar en úr fylgi þeirra hefur dregið að undanförnu. Armin Laschet, arftaki Merkel í Kristilegum demókrötum, náði hins vegar framan af ekki sérstöku flugi. Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz átti betra gengi að fagna en undir lok kosningabaráttunnar voru þeir Scholz og Laschet nánast á pari.
Líkt og hér heima verða því þýsku kosningarnar mjög spennandi og þriggja flokka stjórn er talin vera í kortunum.