EPA

Djúpu sporin hennar Merkel

Sextán ára valdatíð Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, hefur verið mörgum krísum stráð. Konan með rólynda yfirbragðið, kletturinn staðfasti sem fengið hefur baldna valdakarla til að sitja, þegja og hlusta, mun brátt yfirgefa hið pólitíska svið og líklega stefna rakleiðis í svissnesku Alpana – þar sem hún hefur oft notið þess að hlaða batteríin á göngu.

Ungt fólk í Þýska­landi hefur alist upp með einn og sama leið­tog­ann við stjórn­völ­inn, Ang­elu Merkel, sem var kjörin kansl­ari árið 2005, fyrst kvenna. Svo löng valda­tíð í vest­rænum heimi verður að telj­ast óvenju­leg. Enn óvenju­legri er þó ef til vill sú stað­reynd að Merkel verð­ur, eftir sín tæpu sextán ár á valda­stóli, fyrsti leið­togi Þýska­lands eftir síð­ari heims­styrj­öld til að fara frá völdum af fúsum og frjálsum vilja.

Merkel hefur ekki verið óum­deild en hefur markað djúp spor í sögu lands síns, mörg hver til góðs fyrir þjóð­ina og heims­byggð­ina alla. Hún hefur staðið frammi fyrir risa­vöxnum verk­efn­um: Fjár­mála­hruni, sögu­legri mót­töku flótta­fólks, brestum í Evr­ópu­sam­band­inu og heims­far­aldri – svo fátt eitt sé nefnt. En einu stærsta verk­efn­inu, að fást við lofts­lags­vá­na, var hún ef litið er á stóru mynd­ina aðeins rétt byrjuð að snerta á. Það mun því koma í hlut arf­taka hennar að leiða þýsku þjóð­ina út úr því sjálf­skap­ar­víti til fram­tíð­ar. Og þannig mögu­lega setja for­dæmi fyrir aðra borg­ara þessa heims að fylgja. Það væri í takti við arf­leifð Merkel sem hefur þótt merki­lega fær í því að róa öldur og stilla saman ólíka strengi, þótt sumir hafi vissu­lega slitn­að. Ákvarð­anir sem upp úr slíku sam­ráði spruttu hafa hins vegar ekki alltaf verið vin­sæl­ar.

Auglýsing

Í eitt fyrsta skiptið sem nýr leið­togi Kristi­legra demókrata í Þýska­landi kom opin­ber­lega fram árið 2001 kom hann mörgum fyrir sjónir sem nokkuð óör­ugg­ur. Kannski fannst fólki vanta hið valds­manns­lega yfir­bragð sem fyrr­ver­andi for­menn höfðu haft. Hinn nýi for­maður virt­ist ekki njóta sín í sterkum kast­ljósum sjón­varps­stöðv­anna. Og ein­hverjum fannst svörin við spurn­ingum blaða­manna heldur lit­laus – jafn­vel leið­in­leg. Þessi mann­eskja verður aldrei kansl­ari, hvísl­uðu ein­hverj­ir.

Þessi mann­eskja var Ang­ela Merkel sem átti svo um munar eftir að sanna hið gagn­stæða. Nei, hún hafði ekki sama valds­manns­lega yfir­bragð sem ein­kenndi karl­ana. Hún tal­aði rólega, jafn­vel lágt, en var laus við hroka og yfir­læti. Fylgd­ist vel með. Hlust­aði. Með þessa eig­in­leika sína og fleiri að vopni komst hún til valda, varð kansl­ari Þýska­lands og valda­mesti leið­togi Evr­ópu ef út í það er far­ið.

Merkel í sextán áramótaávörpum til þjóðar sinnar.
EPA

En krís­urnar voru einnig mun nær. Stjórn­völd fengu það óþvegið er mann­skæð flóð urðu í Þýska­landi í sum­ar. Þá var stjórn Merkel gagn­rýnd fyrir að hafa sofnað á verð­inum og einnig bent á að hinar for­dæma­lausu rign­ingar sem þá urðu væru aðeins smjör­þef­ur­inn af því sem koma skal vegna lofts­lags­breyt­inga.

Ungt fólk af Merkel-kyn­slóð­inni varð fyrst til að benda á að frek­ari hörm­ungar af þeim toga gætu ein­kennt næstu ár og ára­tugi. Unga fólkið sem hafði fengið aðra sterka kven­fyr­ir­mynd: Gretu Thun­berg.

Auglýsing

Þegar Ang­ela Merkel tók við völdum leit heim­ur­inn sann­ar­lega öðru­vísi út en hann gerir í dag. George W. Bush var for­seti Banda­ríkj­anna og Tony Blair for­sæt­is­ráð­herra Bret­lands. Margir héldu að sam­heldni Evr­ópu yrði vart haggað úr þessu. Að frjáls­lynd lýð­ræð­is­öfl væru komin til að vera. Annað átti eftir að koma á dag­inn. Fjár­málakreppan og gríð­ar­legur straumur flótta­fólks til álf­unnar olli sundr­ung og um miðjan síð­asta ára­tug voru popúl­ísk öfl farin að fá byr undir báða vængi og ýta undir þjóð­ern­is­hyggju sem flestir höfðu talið heyra sög­unni til. Evr­ópu­sam­starfið og sívax­andi völd Þjóð­verja innan þess var gagn­rýnt.

Evr­ópu­sam­bandið stóð þennan storm af sér að mestu, jafn­vel þótt Bretar tækju þá ákvörðun að yfir­gefa það. Don­ald Trump var svo kos­inn for­seti Banda­ríkj­anna um svipað leyti og þar með tók sam­starf við þessi tvö stór­veldi, eina helstu banda­menn Þjóð­verja, að stirðna. Á for­síðum dag­blaða var Merkel í kjöl­farið kölluð „síð­asti varð­maður frjáls­lynd­is“ á Vest­ur­lönd­um.

Donald Trump reynir að kyssa Merkel á fundi G20 ríkjanna árið 2019.
EPA

Lofts­lags­málin hafa síð­ustu ár kallað fram háværa kröfu á Merkel og hennar stjórn að ganga lengra í laga­setn­ingu og aðgerðum sem miða að því að draga úr losun gróð­ur­húsa­lof­t­eg­unda. Slík lög­gjöf varð að veru­leika árið 2019 en mörgum þótti ekki nógu langt gengið og gagn­rýn­is­radd­irnar þögn­uðu alls ekki. Umhverf­is­vernd­ar­sam­tök sögðu alls ekki nóg að gert. Merkel svar­aði: „Stjórn­mál snú­ast um hvað er ger­leg­t“.

Fram­bjóð­andi flokks Græn­ingja í kansl­ara­kosn­ing­un­um, Anna­lena Baer­bock, greip þessi orð á lofti og hefur í kosn­inga­bar­áttu sinni sagt að stjórn­mál snú­ist ekki aðeins um hvað sé hægt að gera heldur „hvað við getum látið ger­ast“.

Merkel hefur hins vegar nokkrum sínum á sínum póli­tíska ferli gengið lengra en búist var við, bæði af hennar stuðn­ings­mönnum og and­stæð­ing­um, og „látið hluti ger­ast“. Eftir jarð­skjálft­ann á Japan árið 2011, sem olli því að leki kom að kjarn­orku­ver­inu í Fukus­hima, til­kynnti hún að öllum slíkum verum yrði lokað í Þýska­landi fyrir árið 2022.

Ein­kunn­ar­orðin

Eft­ir­minni­leg er svo ákvörðun hennar um að taka á móti einni milljón fólks á flótta árið 2015 er stríðið í Sýr­landi var í hámarki. Á meðan sumum löndum hennar fannst allt of langt gengið tóku aðrir þess­ari ákvörðun hennar sem vís­bend­ingu um styrk hennar og ákveðni í því að breyta ímynd Þýska­lands – að sýna að Þjóð­verjar hefðu í reynd lært af for­tíð­inni.

Flokks­systkin hennar í Kristi­legum demókrötum voru alls ekki öll sam­mála henni. En Merkel varð ekki hagg­að. „Ég verð að vera hrein­skil­in. Ef við þurfum að fara að biðj­ast afsök­unar á því að sýna vin­áttu í neyð þá er þetta ekki mitt land,“ sagði hún í sept­em­ber árið 2015. „Við getum þetta,“ sagði hún svo eft­ir­minni­lega.

Heimsfaraldurinn hefur verið enn ein krísan sem Merkel hefur þurft að fást við.
EPA

Merkel á ekki ein skilið heið­ur­inn af þeim fram­förum sem orðið hafa í Þýska­landi í hennar stjórn­ar­tíð. Ýmis umbóta­mál má rekja til sam­starfs­flokks­ins í tólf ár af sext­án, Jafn­að­ar­manna­flokks­ins. Saman hafa flokk­arnir tveir sett á odd­inn ýmis vel­ferð­ar- og mann­rétt­inda­mál, s.s. afnám her­skyldu, lág­marks­laun, lengra fæð­ing­ar­or­lof og heim­ilað gift­ingar sam­kyn­hneigðra.

Hennar síð­asta kjör­tíma­bil hefur svo verið litað af heims­far­aldr­inum og Merkel var aftur komin í sviðs­ljósið sem aldrei fyrr. Hún brást hratt við með því að setja á ýmsar harðar sam­fé­lags­legar aðgerð­ir. Í sjón­varps­ávarpi þar sem hún greindi löndum sínum frá því sem í vændum væri rifj­aði hún upp æsku sína í Aust­ur-Þýska­landi en það hafði hún sjaldan gert á opin­berum vett­vangi. „Fyrir ein­hvern eins og mig, sem barð­ist ákaft fyrir ferða­frelsi, er aðeins hægt að rétt­læta svona aðgerðir af brýnni nauð­syn.“ Með sinn bak­grunn í efna­fræði átti hún svo ekki í vand­ræðum með að hlusta á vís­inda­menn­ina og taka þeirra ráð­legg­ing­um.

Enda skil­uðu þessar hörðu aðgerðir góðum árangri, rétt eins og við þekkjum hér á Íslandi. Fyrsta bylgjan var að mestu kveðin niður en allt fór að horfa til verri vegar á ný síð­asta haust. Þá vildi Merkel aftur grípa til harðra aðgerða en kom þeim ekki í gegn vegna and­stöðu leið­toga sam­bands­ríkj­anna sext­án. Þeir sáu hins vegar að sér er líða tók á vet­ur­inn og far­ald­ur­inn hélt áfram að áger­ast.

EPA

En hvað finnst Ang­elu Merkel sjálfri standa upp úr á ferli sín­um? Um það vill hún hafa sem fæst orð. „Ég hugsa ekki um hlut­verk mitt í sögu­legu sam­heng­i,“ segir hún nýlegu við­tali við Fin­ancial Times. „Ég ein­fald­lega vinn vinn­una mína.“

Hún stóðst þó ekki mátið á kosn­inga­fundi Kristi­legra demókrata í síð­asta mán­uði og fór yfir nokkur þeirra mála sem hún telur standa upp úr. Að minnka atvinnu­leysi um helm­ing er þar efst á blaði. Að hefja orku­skipti í Þýska­landi með lokun kjarn­orku­vera og fljót­lega allra kola­vera. Og að end­ingu: Að hafa bjargað evr­unni.

Allt eru þetta mál sem eiga það til að breyt­ast hratt, hvort sem það er atvinnu­leysi, lofts­lags­mál eða sam­staða innan Evr­ópu­sam­bands­ins. Það hefur reynslan af valda­tíð Merkel sýnt okk­ur. En nú mun það koma í hlut næsta kansl­ara að fást við þau verk­efni.

En hver verður það?

Angela Merkel: Kanslari Þýskalands 2005-2021.
EPA

Kosið verður til þings í dag. Skoð­ana­kann­anir hafa ekki verið afger­andi síð­ustu vik­ur. Græn­ingjar voru á miklu flugi í sumar en úr fylgi þeirra hefur dregið að und­an­förnu. Armin Laschet, arf­taki Merkel í Kristi­legum demókröt­um, náði hins vegar framan af ekki sér­stöku flugi. Jafn­að­ar­mað­ur­inn Olaf Scholz átti betra gengi að fagna en undir lok kosn­inga­bar­átt­unnar voru þeir Scholz og Laschet nán­ast á pari.

Líkt og hér heima verða því þýsku kosn­ing­arnar mjög spenn­andi og þriggja flokka stjórn er talin vera í kort­un­um.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar