Elskuð, dýrkuð og dáð. Illa þokkuð og fyrirlitin. Tákn samstöðu og stöðugleika. Tákn ranglætis og valdníðslu.
Öll þessi orð eiga við um tilfinningar fólks í garð Elísabetar II drottningar sem féll frá í vikunni, 96 ára að aldri. En hið neikvæða tilfinningarót sem andlát hennar hefur valdið beinist þó minnst að manneskjunni Elísabetu. Hana þekktu aðeins fáir í raun. Heldur að stofnuninni sem hún stóð fyrir: Bresku krúnunni, breska heimsveldinu sem síðar varð breska samveldið. Veldi sem byggði auð sinn og velmegun á þjáningum annarra.
Elísabet fæddist inn í þessar aðstæður árið 1926. Var hundelskt lítið stelpuskott sem dáði litlu systur sína og kallaði afa sinn „afa England“. Þegar afi dó, Georg 5. konungur, tók föðurbróðir hennar við krúnunni en kærði sig að endingu ekki meira um það hlutverk en svo að hann lagði hana á hilluna – tók ástina fram yfir konungsríkið.
Og allt líf Elísabetar breyttist. Albert pabbi hennar, sem hún eyddi jafnan löngum stundum með, varð Georg sjötti og hún krónprinsessa.
Elísabet fæddist á tíma þegar breska heimsveldið stóð í sem mestum blóma, myndu einhverjir segja, en aðrir orða það öðruvísi: Á tíma þar sem fólk í svokölluðum nýlendum var kúgað sem aldrei fyrr.
Asía, Afríka, Karabískahafið. Sextánda öldin var tími mikilla landvinninga Evrópuríkja. Heimsvaldastefnan var hafin í öllu sínu veldi. Englendingar, síðar Bretar, sölsuðu undir sig hvert landsvæðið á fætur öðru í þessu kapphlaupi um yfirráð og völd. Til að standa undir aukinni velmegun heima fyrir var verslað með fólk, náttúruauðlindir og afurðir sem frjósamur jarðvegur hinna „nýfundnu“ landa gaf af sér með blóði, svita og tárum fólks í ánauð. Hagnaður af kaffi, sykri, tóbaki og málmum flæddi bókstaflega frá nýlendunum í vasa nýlenduherranna.
Á þriðja áratug síðustu aldar, er Elísabet fæddist, var breska heimsveldið stærra en nokkru sinni, náði yfir um fjórðung af öllu landsvæði jarðar og drottnaði því yfir tæplega 460 milljónum manna. Landvinningar Evrópuríkja í Afríku voru settir á oddinn um aldamótin 1900 og Bretar hrifsuðu völd yfir Egyptalandi, Kenía, Nígeríu og stórum landsvæðum í sunnanverðri álfunni. Þar högnuðust þeir á gulli, salti og fílabeini – eftir að hafa neyðst til að banna það sem getur ekki talist annað en mesti skammarblettur mannkynssögunnar: Þrælahald.
Ómögulegt er að færa í orð – hvað þá meta í fjölda fólks eða til fjár – allar þær þjáningar sem heimsvaldastefnan olli. Fólkið í nýlendunum var ekki aðeins rænt auðlindum sínum og frelsi heldur menningu, siðum og sögu. Og sárin eru ekki enn gróin.
Eftir síðari heimsstyrjöldina fór að molna verulega undan breska heimsveldinu. Árið 1947 náði Indland t.d. loks að öðlast sjálfstæði. Þegar Elísabet varð drottning, sem gerðist einmitt þegar hún var á ferðalagi um nýlenduna Kenía, var því sjálfstæðisbarátta margra ríkja hafin fyrir alvöru. Á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar losuðu meira en tuttugu ríki í Afríku og Karabískahafinu sig úr fjötrum Breta.
Ríki Elísabetar drottningar var því allt annað en það sem hún fæddist í. Hætt var að tala um breska heimsveldið. Nú var það nefnt samveldið. Elísabet var þó áfram þjóðhöfðingi hinna nýfrjálsu ríkja, af ýmsum ástæðum.
Milljónir manna syrgja Elísabetu drottningu en því er þó alls ekki eins farið með alla. Margir tengja hana við blóðuga fortíð breska heimsveldisins sem hefur enn í dag áhrif á líf og kjör fólks fyrrum nýlendanna. „Hin ólíku viðbrögð benda til þess flókna sambands og þeirra blendnu tilfinninga sem fólk hefur til bresku krúnunnar,“ segir Matthew Smith, breskur prófessor í sagnfræði, sem hefur rannsakað þrælahald Breta ítarlega.
Forfeður og -mæður Elísabetar II höfðu beinlínis beitt sér fyrir þrælahaldi, arðráni og í landvinningum og nýtt til þess sín konunglegu tengsl. Eitt dæmi um það er stofnun Royal African Company árið 1660. Stofnandinn var Karl II kóngur og sá sem fór fyrir félaginu var bróðir hans, hertoginn af York, síðar Jakob konungur II. Þetta félag gróf eftir gulli og gersemum í Afríku, keypti fílabein í stórum stíl og flutti svo að því er talið er að minnsta kosti 3.000 Afríkubúa til eyjunnar Barbados í þrældóm. Fólkið var margt hvert brennimerkt með stöfunum DY, fangamarki hertogans af York (Duke of York). Bæði Jakob og Karl II fjárfestu persónulega í þessu alræmda félagi.
Í söfnum, inni á heimilum og í höllum í Bretlandi er enn að finna áþreifanleg ummerki heimsvaldastefnunnar. Listaverk og forngripi frá fjarlægum löndum – hluti sem eiga heima annars staðar en hefur ekki verið skilað, jafnvel þótt um það hafi verið beðið.
Gripum sem sagðir eru í eigu konungsdæmisins, svo sem Koh-i-Noor demanturinn í sjálfum krúnudjásnunum, sem stolið var á tímum nýlendustefnunnar. Bæði yfirvöld í Pakistan og á Indlandi hafa ítrekað beðið um að demantinum verði skilað. Dómsmál hafa verið höfðuð vegna málsins. Það mál var óútkljáð er Elísabet lést en indversk stjórnvöld hafa frá andláti hennar ítrekað þær kröfur sínar að fá demantinn aftur. Demanturinn varð að krúnudjásni í tíð Viktoríu drottningar en hún bar einnig titilinn keisaraynja yfir þá nýlendunni Indlandi.
Breskur sagnfræðingur, Lucy Worsley, rannsakaði sögu þrælahalds í tengslum við hallir konungsfjölskyldunnar árið 2020. Hún segir að allar eignir fjölskyldunnar frá því á sautjándu öld megi með einum eða öðrum hætti rekja til auðs sem tilkominn var vegna verslunar með fólk. Það eigi t.d. við um hallirnar í Kensington og Hampton Court.
Árið 1947 ávarpaði Elísabet, þá krónprinsessa, samveldið í útvarpi. Í því hét hún því að helga líf sitt þjónustu við „okkar stórkostlegu heimsveldisfjölskyldu sem við öll tilheyrum.“ Með heimsveldisfjölskyldu (imperial family) vísaði hún til ríkjanna og allra nýlendanna sem þá voru enn undir oki Breta.
Elísabet helgaði svo sannarlega líf sitt þegnum konungsríkisins. Jafnvel er hægt að halda því fram að hún hafi tekið hlutverk sitt sem slíkt fram yfir sína eigin fjölskyldu. Að hún hafi verið drottning fyrst en eiginkona og móðir svo. Skylduræknin var henni í blóð borin en hún dró líka að sér það andrúmsloft sem hún fæddist inní og ólst upp í, að hvítir Evrópubúar væru yfir aðra hafnir og ættu að „siða“ fólk af öðrum kynþáttum – inntak þrælahaldsins og nýlendustefnunnar í hnotskurn.
Hægt er að halda því fram að hún hafi verið barn síns tíma að þessu leyti en hins vegar baðst hún aldrei afsökunar á syndum feðra sinna eða samferðamanna, jafnvel ekki á því ofbeldi sem augljóslega átti sér stað er hún hélt á valdasprotanum. Hún gaf einfaldlega ekkert út á það opinberlega.
Völd hennar voru takmörkuð, meira en forvera hennar flestra á valdastóli. Hún hafði ekki pólitískt vald í eiginlegum skilningi. Hún var sameiningartáknið, þjóðhöfðinginn sem ferðaðist um heiminn, m.a. milli nýlendanna, líklega víðförlasti jarðarbúi hingað til. Er nýlendurnar urðu sjálfstæðar, sumar eftir áralanga baráttu, reyndi hún að halda góðum tengslum við þau ríki. Hún heimsótti Kína, fyrst breskra þjóðhöfðingja, eftir að Bretar slepptu loks takinu af Hong Kong, svo dæmi sé tekið.
Hún er sögð hafa tekið afstöðu gegn aðskilnaðarstefnunni í Suður-Afríku, farið á fund leiðtoga samveldisríkjanna í Sambíu árið 1979 – gegn ráðum Margaretar Thatcher forsætisráðherra. Á sjöunda áratugnum var hún talsmaður þess að allar athafnir á Samveldisdeginum, hátíðardegi ríkja sem veldi hennar tilheyrðu, yrðu fjölmenningarlegar og öllum trúarbrögðum fagnað.
Hún var ekki kona margra orða eða stórra yfirlýsinga en hún sýndi með fyrrgreindum hætti ákveðinn vilja í verki; að halda öllum góðum, byggja brýr, lægja öldur. Reyna sitt til að halda fjölskyldunni saman.
„Við vorum barin og brotin niður til að trúa því að okkar tilgangur sem þjóðar væri að þjónusta ykkur,“ sagði í yfirlýsingu PNP, stjórnmálahreyfingar á karabísku eyjunni Jamaíka, er Vilhjálmur (nú krónprins) og Katrín eiginkona hans komu þangað í mars á þessu ári. Götur voru malbikaðar og spítalarnir þrifnir hátt og lágt fyrir hina konunglegu heimsókn slíkt hið sama var ekki gert fyrir bláfátæka íbúa Jamaíka sem þurfa á þessum innviðum að halda á hverjum degi.
Heimsókn Vilhjálms og Katrínar var alls ekki tekið af fullum samhug eyjaskeggja. Bretar gerðu Jamaíka að nýlendu sinni árið 1866 (hún var áður undir yfirráðum Spánverja) og sjálfstæði fékkst ekki fyrr en tæpri öld síðar. Elísabet var þó allar götur síðan þjóðhöfðingi.
Vilhjálmur ávarpaði Jamaíkabúa og lýsti yfir „djúpstæðri sorg“ vegna þrælahaldsins sem yrði „að eilífu blettur á sögu okkar“. Hann minntist hins vegar ekki einu orði á hlutverk fjölskyldu sinnar í þeirri hryggðarsögu. Ekki frekar en amma hans gerði, að minnsta kosti opinberlega, í heimsóknum á þessar slóðir og aðrar sem eru drifnar blóði heimsvaldastefnunnar.
Við fráfall drottningarinnar skapaðist því umræða á samfélagsmiðlum um hina óuppgerðu fortíð. „Hún varð drottning er hún var á ferðalagi um Kenía. Afríkubúar bjuggu þá við aðskilnaðarstefnu, voru frelsissviptir, pyntaðir og drepnir,“ skrifaði Twitter-notandi sem gagnrýndi harðlega það orðalag Breska ríkisútvarpsins að drottningin hefði átt í „langvinnu sambandi“ við Kenía og aðrar Afríkuþjóðir.
Karen Attiah, blaðamaður á Washington Post, segir að það ætti engum að koma á óvart að ekki allir lýstu yfir sorg vegna dauða drottningarinnar. „Svart og brúnt fólk um allan heim var beitt ólýsanlegri grimmd og arðráni á nýlendutímanum og þetta fólk hefur rétt til þess að hafa ákveðnar tilfinningar í garð Elísabetar drottningar,“ skrifar hún. „Þegar öllu er á botninn hvolft voru þeir þegnar hennar líka.“
Þótt Elísabet hafi ekki haft pólitísk völd hafi voðaverk verið framin af ríkisstjórnum hennar hátignar – í hennar valdatíð. Bent hefur t.d. verið á að breskir hermenn hafi drepið og pyntað þúsundir Keníamanna á árunum 1952-1960.
Einnig hefur verið minnt á borgarastríðið í Nígeríu sem upphófst er Bretar viðurkenndu loks sjálfstæði landsins árið 1960. Þá útveguðu Bretar hinni nýju nígerísku stjórn mikið magn vopna, opinberlega til að tryggja „frið“ en að margra mati til þess að geta áfram keypt olíu.
Þá hefur verið rifjað upp að breski nýlendustjórinn á Kýpur lýsti yfir neyðarástandi árið 1955 og það sama gerðu þeir sem fóru með yfirráð nýlendunnar Jemen árið 1963. Fólkið var að rísa upp, vildi undan Bretum, og við því var brugðist með hörku. Valdi.
Óöld hefur oft og tíðum einkennt ástand í fleiri fyrrverandi nýlendum og yfirráðasvæðum breska heimsveldisins. Þótt ekki sé hægt að fullyrða að valdníðslu nýlenduherranna sé einni um að kenna er óhætt að segja að sá yfirgangur hafi orðið olía á öll þau ófriðarbál. Þjóðir fengu ekki að þróast, þroskast og dafna á eigin forsendum. Þeim var haldið niðri og þær rændar sinni menningu og sínum auðlindum. Og sjálfstæðis- og valdabaráttan sem við tók, innan rúðustrikaðra landamæra sem Evrópuríki teiknuðu upp, hefur kostað milljónir mannslífa.
„Samveldið er ekkert í líkingu við heimsveldi fortíðarinnar,“ sagði Elísabet í jólaávarpi sínu, ári eftir að hún varð drottning. Samveldið hafði verið stofnað formlega árið 1949, á tíma þar sem nýlendur Breta í Asíu voru hver af annarri að brjótast til sjálfstæðis. En það byggði á grunni heimsveldisins, sama hvað orðum ungrar Elísabetar drottningar líður. Samveldið hafði þá yfirlýstu stefnu að mennta og leiða nýlendurnar í átt að sjálfstjórn þótt það ætti einnig, leynt eða ljóst, að tryggja ítök og völd Breta um heimsbyggðina. En það sem byggt var á yfirgangi og ofbeldi gat ef til vill ekki endað öðruvísi en í blóðbaði.
Á síðustu árum hefur vaxandi þrýstingur verið á bresk stjórnvöld að viðurkenna og bæta fyrir voðaverk þau sem unnin voru á tímum heimsveldisins. Hænuskref hafa verið stigin í þá átt en með aðstoð dómsstóla.
Breska ríkið féllst árið 2013 á að greiða fórnarlömbum pyntinga í valdatíð sinni í Kenía bætur. Þær námu samanlagt 20 milljónum sterlingspunda. Árið 2019 voru sambærilegar bætur greiddar eftirlifendum ofbeldisverkanna á Kýpur.
Elísabet II drottning var hornsteinn í lífi margra á oft ólgutímum í samfélagi manna. Hún var fastinn í glundroða hraðra breytinga. Einhvern veginn að því er virtist óhagganleg.
Nýleg skoðanakönnun sýndi að hún naut hylli um 75 prósenta Breta. „Stærsta vandamál okkar er drottningin! Allir elska hana,“ sagði formaður ástralska Verkamannaflokksins eitt sinn er gagnrýni á samveldið sem land hans tilheyrir enn fór vaxandi. Hún var límið sem hélt þessu öllu saman.
Elísabet var lokuð bók allt sitt líf, skrifaði Tina Brown, sem starfaði eitt sinn sem ráðgjafi við hirð drottningar, í bók sinni The Palace Papers. Og af því að hún sýndi sjaldan tilfinningar sínar, tjáði sig ekki um eldfim pólitísk málefni, þá bjó fólk til sína eigin hugmynd um hvaða manneskju hún hafði að geyma. Þannig varð hún allra. Sameinaði fólk, skipti því ekki í pólitískar fylkingar, tók ekki – að minnsta kosti opinberlega – eina hlið fram yfir aðra. „Og það hlýtur að hafa verið lýjandi fyrir hana,“ skrifar Brown.
Hún var drottning í kjölfar heimsstyrjaldar. Drottning þegar heimsfaraldur COVID-19 gekk yfir. Hún var drottning á tímum þar sem heimsveldi Bretlands leystist upp eða tók á sig aðra mynd eftir því hvernig á það er litið. „Heimurinn eins og hann var við krýningu hennar er einfaldlega ekki til lengur,“ segir Helen Lewis, blaðamaður The Atlantic.
Í fyrra ákvað Barbados að stofna lýðveldi og gera forseta þess að þjóðhöfðingja í stað Elísabetar drottningar. Það tilheyrir þó enn samveldinu sem henni var svo annt um. Eyjan var nýlenda Breta í 300 ár. Þar hófst þrælahald þeirra fyrir alvöru. Fólki var rænt í Afríku, það brennimerkt með fangamarki hertogans af York og því svo þrælað út, kynslóð fram af kynslóð, á sykurplantekrunum.
Margar þessara plantekra eru enn í eigu Breta.
Mun fólkið sem enn tilheyrir breska samveldinu, íbúar eyjanna í Karabískahafinu til dæmis, vilja Karl III sem konung sinn? Eða mun það fylgja fordæmi Barbadosa?
Tíminn einn mun leiða það í ljós. Síðasti kóngur sem bar nafnið Karl átti stóran þátt í harmsögu margra þessara þjóða. Og hann hélt þræla við hirð sína.
Eina manneskju keypti hann persónulega fyrir 50 pund.