Drottningar Atlantshafsins falla
Lóan er komin! Tjaldurinn er mættur! Fyrstu kríurnar eru komnar! Tíðindi af komu farfugla eru vorboðinn ljúfi í huga okkar flestra. En þetta vorið kann flensa sem búast má við að þeir séu margir hverjir sýktir af að varpa skugga á gleðina.
Á fyrstu dögum aprílmánaðar sátu þær flestar rólegar á hreiðrum sínum. Sumar að snyrta sig. Aðrar sváfu með höfuðið undir væng. Stórum væng sem hefur komið þeim í sögubækurnar, þessum stærstu sjófuglum Evrópu.
Tvær þeirra voru að kljást vinalega á steini. Heilsast með þanda bringu að loknum vetri á úthafinu og strjúka saman nefjum. Þannig fagna pörin trygglyndu endurfundum sínum og styrkja böndin áður en varpið hefst. Það er jú komið vor og ekki seinna vænna en að fara að byrja tilhugalífið. Æfa svo ef til vill súlukastið stórfenglega, þráðbeinar dýfingar eftir æti úr allt að fjörutíu metra hæð. Senn líður að stritinu við að koma ungum á legg. Þá verður minna um hvíld. Meira kafað utan við sæbratta klettana eftir síld eða loðnu. Og mögulega makríl og sandsíli.
Þremur dögum síðar hefur dauðinn bankað upp á. Þær sitja flestar þétt saman á klettinum en inn á milli hreiðranna, gerðum úr þangi og sinu sem þær líma saman með driti og leir, liggur ein þeirra örend. Hún mun aldrei aftur breiða út sitt mikla vænghaf eða stinga sér lóðrétt í hafið eftir einhverju í gogginn. Annað hræ liggur skammt frá. Og aðeins fáum dögum síðar eru hræin orðin fleiri.
Drottningar Atlantshafsins, eins og þær eru oft kallaðar, eru að týna tölunni. Súlurnar tígulegu og félagslyndu sem þekktar eru fyrir kraftmikið flug sitt með djúpum vængjatökum. Í Eldey, þar sem lífið er vant því að kvikna en ekki slokkna með hækkandi sól, er eitt stærsta súluvarp í heimi. Þessi magnaða litla eyja út af Reykjanesi er þó þekktust fyrir annað og verra: Að vera sá staður sem síðustu tveir geirfuglarnir voru felldir á í sumarbyrjun árið 1844.
Menn drápu geirfuglana tvo með því að snúa þá úr hálsliðnum en nú er það flensa, að líkindum, sem herjar á fuglana í Eldey, rétt eins og annars staðar á Íslandi og um gjörvalla heimsbyggðina. Skæð fuglaflensa er hún kölluð því ólíkt öðrum fuglaflensum, sem eru ávalt á sveimi rétt eins og inflúensan sem við mennirnir þekkjum of vel, er hún einmitt skæð; bráðsmitandi og bráðdrepandi. Flensan leggst á allar villtar fuglategundir sem þó virðast misnæmar fyrir veirunni og einhverra hluta vegna verða sundfuglar einna verst úti. Fá hósta. Hnerra. Niðurgang. Eiga erfitt með andardrátt. Og drepast. Spörfuglarnir virðast margir hverjir komast vel frá henni.
Ekki hefur verið staðfest með óyggjandi hætti að súlurnar í Eldey, sem fylgjast má með á vefmyndavél, séu með fuglaflensu, inflúensu af hinum hættulega stofni H5N1. Það er mögulegt að um einhverja aðra veiki sé að ræða en ljóst má vera að einhver sjúkdómur er þar á ferð þar sem fuglarnir eru að drepast á hreiðrunum. Inni í miðju varpinu. Hér og hvar.
Flest bendir einfaldlega til þess að þær séu með fuglaflensu, að sögn Sigurborgar Daðadóttur, yfirdýralæknis hjá Matvælastofnun. Í fyrsta lagi þá hafa fuglaflensuveirur greinst hér á landi undanfarið í haferni, heiðagæs, hrafni, súlu og nokkrum hænum á bæ á Skeiðum. Súlan fannst dauð í Selvogi á Reykjanesi og verða sýni úr henni líkt og önnur slík send erlendis til að fá úr því skorið af hvaða afbrigði veiran sé. Hvort um sé að ræða H5N1 eða eitthvað annað.
Bráðsmitandi
Fuglaflensa er bráðsmitandi sjúkdómur í fuglum, sem getur einnig stöku sinnum komið upp í spendýrum og mönnum. Orsakavaldur eru margar gerðir af inflúensu A veirum, sem hafa þróast þannig að þær smita fyrst og fremst fugla. Þessar veirur finnast í einkennalausum villtum fuglum um allan heim. Líkt og inflúensan sem herjar á mannfólkið tekur fuglaflensan stöðugum breytingum og stundum koma upp skæðir faraldrar hennar, líkt og nú er að eiga sé stað.
Ábendingar um dauða, villta fugla berast MAST stöðugt þessa dagana, um fugla af ýmsum tegundum sem finnast flestir á höfuðborgarsvæðinu, enda mannfólkið þar flest, en einnig annars staðar á landinu. „En það er áberandi hversu mikið er tilkynnt um súlur,“ segir Sigurborg. Tilkynningar um þær hafa m.a. borist frá Suðurnesjunum og Snæfellsnesi. Allt virðist benda til þess að um fuglaflensu sé ræða, ekki síst vegna þess „að hún geisar í öllum nágrannalöndum okkar,“ bendir Sigurborg á auk þess sem hænurnar á Skeiðum veiktust eftir að sýktur hrafn hafði verið þar á ferð og smitleiðin því nokkuð þekkt.
Ekki verður farið í sérstakar aðgerðir til að staðfesta að súlurnar í Eldey hafi drepist úr fuglaflensu. „Það er búið að staðfesta [sýkingu] í súlum þannig að líkurnar á að þarna séu súlur sem eru veikar af þessari fuglaflensu. Þær eru að drepast þarna.“
Flensa allt í kringum okkur
Það eru einnig yfirþyrmandi líkur á því að villtu fuglarnir, sem hingað flykkjast nú frá sumardvalarstöðvum sínum í Evrópu og víðar, séu margir hverjir með hana.
Hin skæða flensa hefur verið á sveimi í um tvö ár en náði að stinga sér af krafti niður í Evrópu fyrir nokkrum mánuðum og svo í Bandaríkjunum í upphafi ársins. Staðfest er að þangað barst hún yfir hafið því stofninn er sá sami. Mögulega lék Ísland þar hlutverk – var millilendingarstaður farfuglanna sem báru flensuna til Norður-Ameríku, t.d. Nýfundnalands í fyrra. „Þannig að þetta hefur verið allt í kringum okkur þó að við höfum ekki fundið það,“ segir Sigurborg, „en núna er sem sagt búið að finna þetta þótt enn eigi eftir að greina meingerðina.“
Að öllum líkindum er flensan að berast hingað frá Bretlandseyjum. Þar eru margir okkar farfugla með vetrarsetu, s.s. gæsir, álftir og fleiri tegundir „og það er bullandi fuglaflensa í Bretlandi,“ segir Sigurborg. Í fyrrasumar var mikið um dauðsföll meðal skúma á Skotlandi, svo dæmi sé tekið, og í vetur hafa orðið þar mikil afföll hjá helsingjum.
Í Bandaríkjunum hafa yfir fjörutíu villtar fuglategundir, allt frá pelíkönum og öndum til kráka og skallaarna, greinst með skæða veiruafbrigðið í meira en þrjátíu ríkjum landsins. Jafnt þar og í Evrópu hefur hún svo borist inn í alifuglahús og tugir milljóna hænsnfugla ýmist drepist eða verið felldar af þeim sökum. Í Asíu er hið sama uppi á teningnum og á nokkra mánaða tímabili hefur miklum fjölda fugla verið slátrað. Þá er Afríka ekki undanskilin en þar hefur flensan greinst í villtum fuglum og staðan í Egyptalandi til dæmis slæm.
Hænsnfuglar eru nefnilega sérstaklega næmir, sýkjast auðveldlega og drepast. Sumir villtir fuglar virðast hins vegar ekki veikjast eða lítið en geta þó borið veiruna víða og smitað aðra.
Ekkert útilokað
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skæður faraldur fuglaflensu geisar í heiminum. En það sem þykir ólíkt nú og t.d. fyrir um sjö árum þegar slíkur faraldur gekk yfir Bandaríkin er það að fleiri villtir fuglar eru að greinast, veikjast og drepast.
„Þetta eru veirur sem geta auðveldlega breytt sér, geta stökkbreyst og þá jafnvel farið að smita önnur dýr og menn,“ segir Sigurborg. „Þessi týpa sem geisar í Evrópu er alla vega ekki þannig ennþá. En það er ekkert útilokað að það gerist. Náttúran er ekki svart-hvít.“
Ný afbrigði geta komið fram, með aðra eiginleika en þau fyrri eins og við fengum að kynnast í kórónuveirufaraldrinum. Til mikils er því að vinna að halda aftur af útbreiðslunni. Smitvarnir á fuglabúum spila þar stærsta hlutverkið því þar er fuglum haldið þétt og komist smit í hópinn er voðinn vís.
Er ekki óumflýjanlegt að flensan berist inn í alifuglabú hér?
„Nei,“ svarar Sigurborg ákveðið, „það er nefnilega umflýjanlegt“.
Allt snúist þetta um að verjast því að smit frá villtum fuglum, sem m.a. finnst í driti þeirra, berist inn í eldishús. Í alifuglabúum eru fuglar innandyra alla jafna og „þar eru mjög góðar smitvarnir. Þetta skerpir menn í því að taka þær alvarlega“.
Erum við framar í þessum smitvörnum heldur en aðrar þjóðir þar sem þetta hefur borist inn í hús?
„Ég get ekki fullyrt það en ég get fullyrt að við erum framar öðrum þjóðum í að verjast því að kampýlóbakter-smit berist inn í fuglabú. Það eru fyrst og fremst smitvarnir sem hjálpa okkur þar.“ Sá árangur er sterk vísbending um að hægt sé að koma í veg fyrir að annars konar smit, m.a. fuglaflensa, berist inn í búin.
Fuglaflensa af einhverjum stofni hefur líklega fylgt lífi á jörðinni í aldir eða árþúsundir. Hins vegar hefur náið sambýli manna við fugla aukist á síðustu áratugum með tilkomu m.a. stórra alifuglabúa og fjölgun manna. Á þéttbýlum stöðum í Asíu er nábýli manna og dýra, ekki síst fugla, sérlega mikið og því engin tilviljun að inflúensur eigi margar upptök sín þar, bendir Sigurborg á, því þannig myndast kjöraðstæður fyrir veirur að stökkbreytast og smitast milli dýra og svo jafnvel yfir í menn – eða öfugt.
Í fyrradag var rigningarveður í Eldey líkt og víðar á landinu. Fjaðrir súlnanna ýfðust í rokinu og þær stóðu reglulega upp og hristu af sér bleytuna. Böðuðu út vængjunum og hreyfðu lítil stél. Eitt fyrsta hræið sem sást glöggt á vefmyndavélinni hefur verið fótum troðið ofan í jarðveginn. Skammt frá stóð súla og kroppaði í jörðina, líklega að bæta hreiðrið sitt sem hún víkur vart frá.
Varp súlnanna er þétt. Hvaða afleiðingar getur fuglaflensa í því haft? Munum við sjá fjöldadauða í Eldey?
Sigurborg segir erfitt að svara því á þessari stundu en „jú, maður getur búist við því. Vegna þess að líkt og með allar aðrar sýkingar, eftir því sem þéttleikinn er meiri því meiri líkur eru á að afleiðingarnar verði alvarlegri, að smit magnist upp. Það má því búast við því að þarna geti brotist út mikið af smitum“.
Slíkt yrði mikið áfall í einni stærstu súlubyggð heims. Ekki síst í ljósi þess að samkvæmt upplýsingum erlendis frá getur dauðinn orðið mikill.
„Smit er miklu útbreiddara í villtum fuglum núna en það var á árunum 2014 og 2015,“ hefur bandaríska útvarpsstöðin NPR eftir David Stallknecht, sérfræðingi í fuglaflensu við háskólann í Georgíu. Hann tekur sem dæmi að í Flórída hafi vel yfir þúsund endur á ákveðinni tegund fundist dauðar. Í New Hampshire fundust svo fimmtíu dauðar gæsir á litlu svæði. Í Ísrael lagðist flensan á trönur sem höfðu safnast þar um 40 þúsund saman til vetrardvalar. Um átta þúsund þeirra drápust. „Þannig að ef við ímyndum okkur að tuttugu prósent af ákveðnum fuglahópum drepist þá erum við farin að tala um gríðarleg áhrif.“
En mun þessi faraldur fuglaflensu ganga yfir eða er hún komin til að vera? Verður flensan á sveimi heimshorna á milli með farfuglunum okkar til lengri tíma? Sigurborg segist reikna með því að fjara muni undan henni „en svo kemur bara önnur týpa. Það kemur alltaf ný inflúensa sem fólk smitast af á hverju ári. Þetta er sambærilegt. Náttúran er þannig, hún finnur alltaf nýjan lykil“.