Pexels

Drottningar Atlantshafsins falla

Lóan er komin! Tjaldurinn er mættur! Fyrstu kríurnar eru komnar! Tíðindi af komu farfugla eru vorboðinn ljúfi í huga okkar flestra. En þetta vorið kann flensa sem búast má við að þeir séu margir hverjir sýktir af að varpa skugga á gleðina.

Á fyrstu dögum apr­íl­mán­aðar sátu þær flestar rólegar á hreiðrum sín­um. Sumar að snyrta sig. Aðrar sváfu með höf­uðið undir væng. Stórum væng sem hefur komið þeim í sögu­bæk­urn­ar, þessum stærstu sjó­fuglum Evr­ópu.

Tvær þeirra voru að kljást vina­lega á steini. Heils­ast með þanda bringu að loknum vetri á úthaf­inu og strjúka saman nefj­um. Þannig fagna pörin trygg­lyndu end­ur­fundum sínum og styrkja böndin áður en varpið hefst. Það er jú komið vor og ekki seinna vænna en að fara að byrja til­huga­líf­ið. Æfa svo ef til vill súlu­kastið stór­feng­lega, þráð­beinar dýf­ingar eftir æti úr allt að fjöru­tíu metra hæð. Senn líður að strit­inu við að koma ungum á legg. Þá verður minna um hvíld. Meira kafað utan við sæbratta klettana eftir síld eða loðnu. Og mögu­lega mak­ríl og sand­síli.

Þremur dögum síðar hefur dauð­inn bankað upp á. Þær sitja flestar þétt saman á klett­inum en inn á milli hreiðranna, gerðum úr þangi og sinu sem þær líma saman með driti og leir, liggur ein þeirra örend. Hún mun aldrei aftur breiða út sitt mikla væng­haf eða stinga sér lóð­rétt í hafið eftir ein­hverju í gogg­inn. Annað hræ liggur skammt frá. Og aðeins fáum dögum síðar eru hræin orðin fleiri.

Drottn­ingar Atl­ants­hafs­ins, eins og þær eru oft kall­að­ar, eru að týna töl­unni. Súl­urnar tígu­legu og félags­lyndu sem þekktar eru fyrir kraft­mikið flug sitt með djúpum vængja­tök­um. Í Eld­ey, þar sem lífið er vant því að kvikna en ekki slokkna með hækk­andi sól, er eitt stærsta súlu­varp í heimi. Þessi magn­aða litla eyja út af Reykja­nesi er þó þekkt­ust fyrir annað og verra: Að vera sá staður sem síð­ustu tveir geir­fugl­arnir voru felldir á í sum­ar­byrjun árið 1844.

Menn drápu geir­fugl­ana tvo með því að snúa þá úr háls­liðnum en nú er það flensa, að lík­ind­um, sem herjar á fugl­ana í Eld­ey, rétt eins og ann­ars staðar á Íslandi og um gjörvalla heims­byggð­ina. Skæð fuglaflensa er hún kölluð því ólíkt öðrum fuglaflens­um, sem eru ávalt á sveimi rétt eins og inflú­ensan sem við menn­irnir þekkjum of vel, er hún einmitt skæð; bráðsmit­andi og bráð­drep­andi. Flensan leggst á allar villtar fugla­teg­undir sem þó virð­ast mis­næmar fyrir veirunni og ein­hverra hluta vegna verða sund­fuglar einna verst úti. Fá hósta. Hnerra. Nið­ur­gang. Eiga erfitt með and­ar­drátt. Og drep­ast. Spör­fugl­arnir virð­ast margir hverjir kom­ast vel frá henni.

Eldey. 8. apríl. Allt virðist með kyrrum kjörum.
Eldey. 18. apríl. Hræ á nokkrum stöðum.

Ekki hefur verið stað­fest með óyggj­andi hætti að súl­urnar í Eld­ey, sem fylgj­ast má með á vef­mynda­vél, séu með fuglaflensu, inflú­ensu af hinum hættu­lega stofni H5N1. Það er mögu­legt að um ein­hverja aðra veiki sé að ræða en ljóst má vera að ein­hver sjúk­dómur er þar á ferð þar sem fugl­arnir eru að drep­ast á hreiðr­un­um. Inni í miðju varp­inu. Hér og hvar.

Flest bendir ein­fald­lega til þess að þær séu með fuglaflensu, að sögn Sig­ur­borgar Daða­dótt­ur, yfir­dýra­læknis hjá Mat­væla­stofn­un. Í fyrsta lagi þá hafa fuglaflensu­veirur greinst hér á landi und­an­farið í haferni, heiða­gæs, hrafni, súlu og nokkrum hænum á bæ á Skeið­um. Súlan fannst dauð í Sel­vogi á Reykja­nesi og verða sýni úr henni líkt og önnur slík send erlendis til að fá úr því skorið af hvaða afbrigði veiran sé. Hvort um sé að ræða H5N1 eða eitt­hvað ann­að.

Bráðsmit­andi

Fuglaflensa er bráðsmit­andi sjúk­dómur í fugl­um, sem getur einnig stöku sinnum komið upp í spen­dýrum og mönn­um. Orsaka­valdur eru margar gerðir af inflú­ensu A veirum, sem hafa þró­ast þannig að þær smita fyrst og fremst fugla. Þessar veirur finn­ast í ein­kenna­lausum villtum fuglum um allan heim. Líkt og inflú­ensan sem herjar á mann­fólkið tekur fuglaflensan stöð­ugum breyt­ingum og stundum koma upp skæðir far­aldrar henn­ar, líkt og nú er að eiga sé stað.

Súlur eru trygglyndar maka sínum og þegar pörin hittast að vori knúsast þau með sínum hætti.
Pexels

Ábend­ingar um dauða, villta fugla ber­ast MAST stöðugt þessa dag­ana, um fugla af ýmsum teg­undum sem finn­ast flestir á höf­uð­borg­ar­svæð­inu, enda mann­fólkið þar flest, en einnig ann­ars staðar á land­inu. „En það er áber­andi hversu mikið er til­kynnt um súl­ur,“ segir Sig­ur­borg. Til­kynn­ingar um þær hafa m.a. borist frá Suð­ur­nesj­unum og Snæ­fells­nesi. Allt virð­ist benda til þess að um fuglaflensu sé ræða, ekki síst vegna þess „að hún geisar í öllum nágranna­löndum okk­ar,“ bendir Sig­ur­borg á auk þess sem hæn­urnar á Skeiðum veikt­ust eftir að sýktur hrafn hafði verið þar á ferð og smit­leiðin því nokkuð þekkt.

Ekki verður farið í sér­stakar aðgerðir til að stað­festa að súl­urnar í Eldey hafi drep­ist úr fuglaflensu. „Það er búið að stað­festa [sýk­ingu] í súlum þannig að lík­urnar á að þarna séu súlur sem eru veikar af þess­ari fuglaflensu. Þær eru að drep­ast þarna.“

Flensa allt í kringum okkur

Það eru einnig yfir­þyrm­andi líkur á því að villtu fugl­arn­ir, sem hingað flykkj­ast nú frá sum­ar­dval­ar­stöðvum sínum í Evr­ópu og víð­ar, séu margir hverjir með hana.

Hin skæða flensa hefur verið á sveimi í um tvö ár en náði að stinga sér af krafti niður í Evr­ópu fyrir nokkrum mán­uðum og svo í Banda­ríkj­unum í upp­hafi árs­ins. Stað­fest er að þangað barst hún yfir hafið því stofn­inn er sá sami. Mögu­lega lék Ísland þar hlut­verk – var milli­lend­ing­ar­staður far­fugl­anna sem báru flens­una til Norð­ur­-Am­er­íku, t.d. Nýfundna­lands í fyrra. „Þannig að þetta hefur verið allt í kringum okkur þó að við höfum ekki fundið það,“ segir Sig­ur­borg, „en núna er sem sagt búið að finna þetta þótt enn eigi eftir að greina mein­gerð­ina.“

Að öllum lík­indum er flensan að ber­ast hingað frá Bret­landseyj­um. Þar eru margir okkar far­fugla með vetr­ar­setu, s.s. gæs­ir, álftir og fleiri teg­undir „og það er bull­andi fuglaflensa í Bret­land­i,“ segir Sig­ur­borg. Í fyrra­sumar var mikið um dauðs­föll meðal skúma á Skotlandi, svo dæmi sé tek­ið, og í vetur hafa orðið þar mikil afföll hjá hels­ingj­um.

Í Banda­ríkj­unum hafa yfir fjöru­tíu villtar fugla­teg­und­ir, allt frá pelíkönum og öndum til kráka og skalla­arna, greinst með skæða veiru­af­brigðið í meira en þrjá­tíu ríkjum lands­ins. Jafnt þar og í Evr­ópu hefur hún svo borist inn í ali­fugla­hús og tugir millj­óna hænsn­fugla ýmist drep­ist eða verið felldar af þeim sök­um. Í Asíu er hið sama uppi á ten­ingnum og á nokkra mán­aða tíma­bili hefur miklum fjölda fugla verið slátr­að. Þá er Afr­íka ekki und­an­skilin en þar hefur flensan greinst í villtum fuglum og staðan í Egypta­landi til dæmis slæm.

Hænsn­fuglar eru nefni­lega sér­stak­lega næm­ir, sýkj­ast auð­veld­lega og drep­ast. Sumir villtir fuglar virð­ast hins vegar ekki veikj­ast eða lítið en geta þó borið veiruna víða og smitað aðra.

Ekk­ert úti­lokað

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem skæður far­aldur fuglaflensu geisar í heim­in­um. En það sem þykir ólíkt nú og t.d. fyrir um sjö árum þegar slíkur far­aldur gekk yfir Banda­ríkin er það að fleiri villtir fuglar eru að greinast, veikj­ast og drep­ast.

„Þetta eru veirur sem geta auð­veld­lega breytt sér, geta stökk­breyst og þá jafn­vel farið að smita önnur dýr og menn,“ segir Sig­ur­borg. „Þessi týpa sem geisar í Evr­ópu er alla vega ekki þannig enn­þá. En það er ekk­ert úti­lokað að það ger­ist. Nátt­úran er ekki svart-hvít.“

Súla á hreiðri á eyjunni St. Kilda fyrir utan Skotland. Súlur kunna best við sig á klettaeyjum og þar verpa þær einu eggi að vori.
Pexels

Ný afbrigði geta komið fram, með aðra eig­in­leika en þau fyrri eins og við fengum að kynn­ast í kór­ónu­veiru­far­aldr­in­um. Til mik­ils er því að vinna að halda aftur af útbreiðsl­unni. Smit­varnir á fugla­búum spila þar stærsta hlut­verkið því þar er fuglum haldið þétt og kom­ist smit í hóp­inn er voð­inn vís.

Er ekki óum­flýj­an­legt að flensan ber­ist inn í ali­fuglabú hér?

„Nei,“ svarar Sig­ur­borg ákveð­ið, „það er nefni­lega umflýj­an­leg­t“.

Allt snú­ist þetta um að verj­ast því að smit frá villtum fugl­um, sem m.a. finnst í driti þeirra, ber­ist inn í eld­is­hús. Í ali­fugla­búum eru fuglar inn­an­dyra alla jafna og „þar eru mjög góðar smit­varn­ir. Þetta skerpir menn í því að taka þær alvar­lega“.

Erum við framar í þessum smit­vörnum heldur en aðrar þjóðir þar sem þetta hefur borist inn í hús?

„Ég get ekki full­yrt það en ég get full­yrt að við erum framar öðrum þjóðum í að verj­ast því að kampýló­bakt­er-smit ber­ist inn í fugla­bú. Það eru fyrst og fremst smit­varnir sem hjálpa okkur þar.“ Sá árangur er sterk vís­bend­ing um að hægt sé að koma í veg fyrir að ann­ars konar smit, m.a. fuglaflensa, ber­ist inn í búin.

Fuglaflensa af ein­hverjum stofni hefur lík­lega fylgt lífi á jörð­inni í aldir eða árþús­und­ir. Hins vegar hefur náið sam­býli manna við fugla auk­ist á síð­ustu ára­tugum með til­komu m.a. stórra ali­fugla­búa og fjölgun manna. Á þétt­býlum stöðum í Asíu er nábýli manna og dýra, ekki síst fugla, sér­lega mikið og því engin til­viljun að inflú­ensur eigi margar upp­tök sín þar, bendir Sig­ur­borg á, því þannig mynd­ast kjörað­stæður fyrir veirur að stökk­breyt­ast og smit­ast milli dýra og svo jafn­vel yfir í menn – eða öfugt.

Í fyrra­dag var rign­ing­ar­veður í Eldey líkt og víðar á land­inu. Fjaðrir súln­anna ýfð­ust í rok­inu og þær stóðu reglu­lega upp og hristu af sér bleyt­una. Böð­uðu út vængj­unum og hreyfðu lítil stél. Eitt fyrsta hræið sem sást glöggt á vef­mynda­vél­inni hefur verið fótum troðið ofan í jarð­veg­inn. Skammt frá stóð súla og kropp­aði í jörð­ina, lík­lega að bæta hreiðrið sitt sem hún víkur vart frá.

Varp súln­anna er þétt. Hvaða afleið­ingar getur fuglaflensa í því haft? Munum við sjá fjölda­dauða í Eld­ey?

Sig­ur­borg segir erfitt að svara því á þess­ari stundu en „jú, maður getur búist við því. Vegna þess að líkt og með allar aðrar sýk­ing­ar, eftir því sem þétt­leik­inn er meiri því meiri líkur eru á að afleið­ing­arnar verði alvar­legri, að smit magn­ist upp. Það má því búast við því að þarna geti brot­ist út mikið af smit­u­m“.

Slíkt yrði mikið áfall í einni stærstu súlu­byggð heims. Ekki síst í ljósi þess að sam­kvæmt upp­lýs­ingum erlendis frá getur dauð­inn orðið mik­ill.

„Smit er miklu útbreidd­ara í villtum fuglum núna en það var á árunum 2014 og 2015,“ hefur banda­ríska útvarps­stöðin NPR eftir David Stallknecht, sér­fræð­ingi í fuglaflensu við háskól­ann í Georg­íu. Hann tekur sem dæmi að í Flór­ída hafi vel yfir þús­und endur á ákveð­inni teg­und fund­ist dauð­ar. Í New Hamps­hire fund­ust svo fimm­tíu dauðar gæsir á litlu svæði. Í Ísr­ael lagð­ist flensan á trönur sem höfðu safn­ast þar um 40 þús­und saman til vetr­ar­dval­ar. Um átta þús­und þeirra drápust. „Þannig að ef við ímyndum okkur að tutt­ugu pró­sent af ákveðnum fugla­hópum drep­ist þá erum við farin að tala um gríð­ar­leg áhrif.“

En mun þessi far­aldur fuglaflensu ganga yfir eða er hún komin til að vera? Verður flensan á sveimi heims­horna á milli með far­fugl­unum okkar til lengri tíma? Sig­ur­borg seg­ist reikna með því að fjara muni undan henni „en svo kemur bara önnur týpa. Það kemur alltaf ný inflú­ensa sem fólk smit­ast af á hverju ári. Þetta er sam­bæri­legt. Nátt­úran er þannig, hún finnur alltaf nýjan lyk­il“.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar