„Ég held að þetta verði negla“
Voru jarðarberin íslensk og hljómaði Tarzan Boy virkilega er spennan var að ná hámarki? Blaðamaður Kjarnans fylgdist með gáskafullri kosningavöku Framsóknarflokksins, eða „partístofu Ásmundar Einars“ eins og einhverjir kölluðu hana.
Það er vindasamt úti á Granda. Fólk á leið á kosningavöku Framsóknarflokksins í sal tölvuleikjaframleiðandans CCP heldur úlpum og frökkum þétt að sér er það gengur að húsinu. Sumir hlaupa jafnvel við fót í björtu tunglsljósi að kvöldi kosningadags.
Þótt úti sé kalt og tunglið bjarta minnkandi er hlýtt og vaxandi stemning innandyra. Í raun mætir gestum notaleg birta sem minnir einna helst á sumar á suðlægari slóðum því græni liturinn er (skiljanlega) alls ráðandi. Á vegg í anddyrinu á fjórðu hæðinni þar sem vakan er haldin er varpað einu helsta slagorði Framsóknar í kosningabaráttunni: „Framtíðin ræðst á miðjunni“.
„Framtíðin ER á miðjunni,“ segja ungir, glaðhlakkalegir karlmenn sem eru meðal þeirra fyrstu sem mæta á vökuna. Þeir stilla sér upp fyrir myndatöku. Standa þétt saman, keikir, sjálfsöruggir og spenntir. Eru greinilega vongóðir enda bendir allt til þess að flokkurinn sem þeir eru komnir til að styðja eigi eftir að bæta við sig fylgi.
Um hálftími er enn í það að kjörstöðum verði lokað og fulltrúar beggja sjónvarpsstöðvanna eru mættir. Berghildur Erla Bernharðsdóttir fréttakona Stöðvar tvö og Sunna Valgerðardóttir fréttakona á RÚV. Tökumennirnir eru að stilla upp vélunum. Allt skal vera til reiðu þegar frambjóðendur koma í hús.
„Mig langar að taka mynd af okkur saman,“ segir ung kona við eldri karlmann. Á höfðinu hefur hann derhúfu með merki Framsóknarflokksins. Þarna eru tvær kynslóðir framsóknarmanna saman komnar. Annars eru ungir karlmenn enn áberandi flestir í salnum. Þeir tala hátt og hlæja mikið. Á borði fremst í situr ungt par í innilegum faðmlögum. Skammt frá stendur ólétt kona við hlið maka síns og strýkur verndandi hendi yfir kúluna. Framtíðin er þar sannarlega miðja alls.
„Er hann á kosningavöku Sósíalista?“ hrópar einn ungu mannanna skyndilega upp yfir sig. „ER einhver þar?“ spyr hann svo félaga sinn með áherslu. Þeir hlæja báðir. Bera bjórglös upp að vörum. Ekki í fyrsta skipti þetta kvöld og sannarlega ekki í það síðasta.
Skvaldrið magnast. Tónlistin er hækkuð. Er þetta Tarzan Boy, einn mesti smellur níunda áratugarins sem hljómar? Það væri vissulega ekki úr takti við hitabeltisstemninguna sem græni liturinn skapar.
Það er smellt af sjálfum í gríð og erg. Meðalaldur gesta er alveg örugglega enn undir þrítugu. Það þarf að gera grein fyrir stöðunni á öllum helstum samfélagsmiðlum. Fanga stemninguna. Sjáðu mig! Hér er ég! Í hópi sigurvegara.
Það er farið að hitna í salnum í bókstaflegri merkingu. Einhver opnar út á svalirnar og kalt haustloftið streymir inn. Í dyrunum stendur Jón Gunnar Geirdal, einn þekktasti almannatengill landsins og kosningastjóri Framsóknar í Kraganum. Hann er að tala í símann. „Líst þér ekki vel á þetta?“ segir hann stuttu seinna hress í bragði að vanda við blaðamann sem spyr á móti hvort hann hafi komið að gerð slagorðsins fræga: Er ekki bara best að kjósa Framsókn?
„Nei,“ svarar hann, „frasakóngurinn á það því miður ekki.“ Slagorðið er hugmynd Sigryggs Magnasonar, félaga Jóns og aðstoðarmanns Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns Framsóknarflokksins. Í þessum töluðu orðum gengur Sigtryggur framhjá og spyr einn gestinn sömu spurningar og Jón Gunnar hafði spurt blaðamann: „Líst þér ekki vel á þetta?“
Sá svarar að bragði: „Ég held að þetta verði negla.“
Klukkan er tvær mínútur í tíu. Senn líður á lokun kjörstaða. Margir líta á símann sinn eða úrið í sífellu. Ljósmyndarar frá fjölmiðlum standa í röðum meðfram veggjum. Loks er kveikt á kösturum sjónvarpsstöðvanna. Það verður farið í beina útsendingu innan skamms.
„Það er búið að loka!“ kallar einhver. „Árangur áfram!“ kallar annar. Það er skálað í sífellu. Nú er endanlega ekkert meira hægt að gera til að sannfæra fólk um að kjósa Framsóknarflokkinn. Tíminn er útrunninn.
„Ásmundur Einar var að detta í hús,“ segir Jón Gunnar. „Það er svo von á Lilju, Sigurði og Willum von bráðar.“
Í þeim töluðu orðum ganga oddvitar flokksins í Reykjavíkurkjördæmunum inn í salinn undir miklu lófaklappi. Sunna fréttakona RÚV er fljót að grípa þau bæði í beina útsendingu. Fólk klappar og blístrar. Eftir viðtalið gefur Lilja sig á tal við einn af mörgum hópum ungra karlmanna. Þeir horfa á hana með aðdáun. Verða slakir, einbeittir og ofurkurteisir um stund.
Sigurður Ingi, formaðurinn sjálfur, fær viðtökur sem hæfa stórstjörnu er hann kemur í salinn. „Ætlum við ekki að hafa gaman í kvöld?“ segir hann hátt og skýrt yfir mannfjöldann sem tekur undir með dúndrandi lófaklappi. Það hefur snögglega fjölgað verulega í hópi gesta. Hann líkir því sem átt hefur sér stað á undanförnum vikum við flóðbylgju. „Ég hef á tilfinningunni að það muni ganga vel.“ Sigurður er eins og venjulega, föðurlegur í fasi og minnir viðstadda á að ekki skuli þó gleðjast um of fyrirfram. „En höfum gaman!“
„Eru fyrstu tölur?“ er spurt. Og það er sussað úr ýmsum áttum þegar yfirmaður kjörstjórnar í Norðvesturkjördæmi birtist á stórum sjónvarpsskjá við enda salarins.
Að venju eru atkvæði „B-lista Framsóknarflokks“ lesin fyrst. Og áður en flestir átta sig á tíðindunum brestur á með gleðiópum sem fara svo eins og bylgja um salinn og magnast að endingu upp í kringum formanninn. Hann brosir breitt. Hættir ekki að brosa. Gefur fimmu. En þetta er ekki búið. Þegar þingmannalistinn birtist á breiðtjaldinu, sá fyrsti í þessum kosningum, verður allt vitlaust.
„Ertu með fiðrildi í maganum?“ spyr Sunna fréttakona Sigurð Inga í enn einni beinni útsendingunni. „Já, þau hafa verið þar, já.“
„Þetta er partístofa Ásmundar Einars!“ er sagt í hátalakerfið en í þann mund sem lag er sett „á fóninn“ er komið að fyrstu tölum í Suðurkjördæmi. Sagan endurtekur sig. Og á eftir að endurtaka sig fram yfir miðnætti. Það ætlar allt um koll að keyra.
„Ég hef verið í kirkjusöfnuðum og það er svo áhugavert hvað þetta er svipað,“ segir ung kona við blaðamann er hún lítur yfir salinn og drekkur í sig stemninguna. „Að allir séu sammála um eitthvað, vilji bæta samfélagið saman. Eitthvað sem sameinar alla.“ Hún má ekki vera að því að spjalla lengi. Það þarf að kyssa mann og annan. Fagna. Og fagna svo enn meira.
Stemningin sem hún var að dást að er eins og á árshátíð fyrirtækis eftir gott uppgjör. Nema líklega í tíunda veldi. Kannski má heldur líkja henni við uppskeruhátíð, enda haust, og væri það eftir til vill meira í anda Framsóknarflokksins sem á rætur í bændasamfélagi landsins. Í vor og sumar var sáð. Og nú er verið að koma ríkulegri uppskerunni í hús.
„Kæru vinir,“ segir Sigurður er hann hefur loks náð að fikra sig að sviðinu því allir vilja óska honum til hamingju. „Fyrstu tölur eru komnar og þær gefa góðar vísbendingar um vonandi það sem á eftir að koma úr öllum kjördæmum. Við höfum fundið fyrir sama meðbyrnum alls staðar á Íslandi enda erum við flokkurinn sem hugsar um Ísland allt, ekki satt?“
Þessu svara stuðningsmenn hans með skerandi fagnaðarópum. Hann segir að nú taki við biðin eftir tölum úr hinum kjördæmunum og allt að því hvíslar svo í míkrafóninn: „Af því að þetta var svo gaman að sjá þessar. Líður ykkur ekki betur?“
Sigurður er eins og hljómsveitarstjóri að stjórna mjög fjörlegum kór. „Framsóknarflokkurinn er aftur, enn á ný, orðinn leiðandi afl í íslenskum stjórnmálum.“ Hann lýkur svo ræðunni á orðunum: „Áfram Framsókn!“ sem endurtekin eru af fjöldanum.
Upphafsstef lagsins Life is Life með Opus hefst. Fólk klappar og syngur með af heitri innlifun. „When everyone gives everything, and every song, everybody sings: Life is Life.
Ungu mennirnir eru orðnir rjóðir í kinnum. Aftur er opnað út og ferskt sjávarloftið flæðir inn.
„Ég er af Framsóknarættum,“ segir karlmaður sem kominn er til fagnaðarins með eiginkonunni sem tekur virkan þátt í flokksstarfinu. Hann teygir sig í smárétti sem eru í boði, kransakökutopp og bita af hvítu Toblerone. Á boðstólum eru reyndar líka íslenskir Hraunbitar. Við hlið hans stendur ungur maður sem tekur upp súkkulaðihúðað jarðarber. „Er það nokkuð innflutt?“ spyr hann hlæjandi áður en hann stingur því upp í sig og skolar því svo niður með vænum sopa af bjór.
Opus hefur þagnað og við hefur tekið dúndrandi danstaktur. Þetta er enginn Geirmundur Valtýs ef einhver er að velta því fyrir sér. Þetta er tónlist unga fólksins, unga fólksins sem er alveg örugglega enn í meirihluta viðstaddra þótt liðið sé nokkuð á kvöldið. Fólk stendur þétt. Faðmast. Kyssist. Tónlistin er hátt stillt og kliðurinn eykst stöðugt. Eina manneskjan með grímu í salnum er kona sem kemur annað slagið að tína tóm glös og flöskur af borðum. „Það er bara einn sigurvegari í þessum kosningum,“ öskurhvíslar einn ungu mannanna að félaga sínum. „Já, ég veit það!“ hrópar hann upp í eyra vinar síns á móti. „Áfram Framsókn!“ segja þeir og skála.
Það er komið að fyrstu tölum í Norðausturkjördæmi og nú er orðið erfiðara að sussa á fólk á meðan þær eru lesnar. Eins klisjulega og það hljómar þá ætlar þakið bókstaflega að rifna af húsinu. „Framsókn! Framsókn!“
Þetta er keppni. Og þótt henni sé ekki lokið eru merkin um niðurstöðuna orðin mörg. Það er þó ekki alveg laust við að vonbrigða gæti er fyrstu tölur í Suðvesturkjördæmi birtast. Einhverjir púa. Aðrir klappa hvetjandi. „We are going up, going up, we are going up!“ kyrja ungu mennirnir við lagið Give it Up með KC and the Sunshine Band. Kappleikurinn stendur sem hæst. Og þeir eru stútfullir af bjartsýni.
Það er löng bið í næstu tölur. En það er nóg að bíta og brenna og engum virðist leiðast. „Þekkir þú einhvern hérna?“ spyr karlmaður konu sem hann reynir að troða sér með í gegnum mannþröngina. „Neibb,“ svarar hún.
Rétt fyrir miðnætti eru nokkrir orðnir valtir á fótunum. En það er haldið áfram að syngja. Klappa og stappa. Valgerður Sverrisdóttir, fyrrverandi ráðherra flokksins, stendur og ræðir við fólk. Ungu mennirnir, sem hafa brugðið á það ráð að fara í halarófu um þéttsetinn salinn – með hönd á öxl hvers annars – staldra ekki sérstaklega við þegar þeir fara fram hjá henni. Kannski eru þeir of ungir til að muna eftir henni en kannski eru þeir bara of ölvaðir af gleði. Og slatta af áfengi.
Ásmundur Einar er hins vegar umvafinn ungum aðdáendum. Ef Sigurður Ingi er föðurlegi hljómsveitarstjórinn er hann rokkstjarnan.
Eina mínútu í miðnætti er gerð heiðarleg tilraun til að sussa á mannskapinn er fyrstu tölur úr kjördæmi Ásmundar, Reykjavík norður, eru lesnar í sjónvarpinu. Ásmundur tók stóran sjens er hann flutti sig um kjördæmi úr einu helsta vígi framsóknarmanna og til höfuðborgarinnar. En hann er inni. Og stuðningsmenn hans blístra, klappa og hrópa. Þetta var þá eftir allt saman áhættunnar virði.
Sigurður Ingi gefur sig á tal við fólk hér og hvar í salnum. Sumir eiga erfitt með að sleppa honum, það er um svo margt skemmtilegt að tala, en hann smeygir sér fimlega á milli fólks til að ná að ræða við sem flesta.
„Ole ole ole ole!“
„Ertu framsóknarmaður?“ spyr kona einn ungu mannanna, nýbúin að velta því upp að kannski væru þeir ekki allir stuðningsmenn Framsóknar heldur mættir til að hafa gaman í góðu partíi. „Nei, ég er sósíalisti,“ segir hann grafalvarlegur en vinir hans sem standa við hlið hans koma upp um hann og springa úr hlátri. „Ég ætla að taka 40 prósent af þessum drykk þínum og setja til ríkisins. Restinni verður þú að deila með okkur hinum.“ Vinum unga mannsins finnst hann svo orðheppinn að þeir veltast um af hlátri.
Það er gott að vera um borð í skútu sem er á hraðri siglingu.
Þegar komið er að fyrstu tölum í Reykjavík suður er orðið ómögulegt að fá sæmilegt hljóð í salinn. Því er hins vegar ákaft fagnað er ljóst er að samkvæmt þeim er Lilja inni. „We are going up, going up, weeee are going up!“
Ef boðið hefði verið upp á brauðtertu í þessu teiti hefði majonesan líklega verið orðin gul þegar hér er komið sögu. „Aldrei að koma fyrstur og aldrei að fara síðastur,“ segir karlmaður sem verður samferða blaðamanni niður í lyftunni. Þegar komið er niður á jörðina er ljóst að fyrir utan er löng biðröð. Það er von á Herra Hnetusmjöri og færri komast að en vilja. Það eru jú í gildi samkomutakmarkanir.
„Ef þú ferð út núna geturðu ekki komið inn aftur,“ segir kona sem stendur vaktina í dyrunum.
Það stendur ekki til að snúa aftur og því hreppir einhver annar pláss blaðamanns í salnum. Kemst inn úr nöprum vindi haustsins í hitabeltisloftslagið á fjórðu hæðinni.
„Framsókn og Flokkur fólksins eru að bæta mikið við sig.“ Það er rödd Felix Bergssonar sem ómar úr útvarpinu í bílnum á leiðinni heim. Hann er að fara yfir fyrstu tölur úr öllu kjördæmum á næturvaktinni á Rás 2. „Þetta er alveg ótrúlegt!“
Sigurður Ingi er mættur í sjónvarpssal á öðrum tímanum um nóttina. Hann vill ekki spá of mikið í spilin enda „nóttin ung“ eins og stjórnmálamönnum er allt að því eðlislægt að segja á þessum tímapunkti. „Ég held að lokum hafi allir komist að því að það væri sennilega bara best að kjósa Framsókn.“
Samkvæmt úrslitum kosninganna töldu vissulega margir það best eða 34.501. Það skilaði Framsóknarflokknum 6,6 prósent fylgisaukningu á milli kosninga og þrettán þingmönnum, fimm fleiri en árið 2017.
Það er viðeigandi að segja að framsóknarmenn séu með pálmann í höndunum í komandi stjórnarmyndunarviðræðum. Það er svona í ágætum takti við hitann, svitann og suðrænu birtuna sem einkenndi partístofuna þeirra á kosninganótt.