Mynd: EPA

Eitruð ræða Orbáns

Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands hefur reynt að lægja öldur vegna ræðu sem hann hélt í Rúmeníu undir lok júlímánaðar. Hann segist nú hreint ekki hafa verið að tala um að blöndun kynþátta væri óæskileg, þó að erfitt sé að lesa annað úr ræðunni. „Þessi lönd eru ekki lengur þjóðir, þau eru ekkert meira en samansafn fólks,“ sagði hann um ríki Vestur-Evrópu.

Viktor Orbán, for­sæt­is­ráð­herra Ung­verja­lands, hefur verið harð­lega gagn­rýndur fyrir ræðu sem hann flutti á stjórn­mála­ráð­stefnu í Rúm­eníu 23. júlí. Gagn­rýnendur hafa jafn­vel verið á meðal banda­manna hans, en ráð­gjafi sem starf­aði við hlið Orbán í rúm tíu ár sagði af sér vegna inni­halds ræð­unn­ar.

Í afsagn­ar­bréfi ráð­gjafans, félags­fræð­ings­ins Zsuzsa Hegedüs, sem hefur starfað fyrir Orbán í rúman ára­tug, sagði meðal ann­ars að ummæli leið­tog­ans hefðu vel getað sómað sér í ræðu eftir Jos­eph Göbbels, áróð­urs­mála­ráð­herra Þýska­lands nas­ism­ans. „Al­gjör­lega nasískur text­i,“ sagði í afsagn­ar­bréfi Hegedüs, sem sjálf er af gyð­inga­ætt­um.

Það skal þó tekið fram að Orbán hefur ögn dregið úr ummælum sínum og heldur því nú fram að hann hafi ekki verið að tala um blöndun kyn­þátta sem slíkra, heldur blöndun menn­ing­ar­heima.

„Ég vil ekki að Ung­verja­land verði inn­flytj­enda­land. Það er ekki spurn­ing um kyn­þætti fyrir okk­ur. Þetta snýst um menn­ing­ar­mun,“ sagði Orbán við fjöl­miðla í heim­sókn til Vín­ar­borgar undir lok síð­ustu viku og stát­aði sig síðan af góðum árangri í bar­áttu gegn ras­isma heima fyr­ir.

Ráð­gjaf­inn Hegedüs hefur sagt að hún taki þessa útskýr­ingu góða og gilda – og að hún muni enn taka á móti vini sínum Orbán í kaffi hvenær sem hann vilji líta við, þó að hún snúi ekki aftur í form­legt hlut­verk sitt sem ráð­gjafi.

En hvað sagði ung­verski for­sæt­is­ráð­herr­ann í ræðu sinni, sem minnti hans eigin ráð­gjafa á orð­færi nas­ista og hefur upp­skorið for­dæm­ingu stjórn­mála­manna í öðrum ríkjum Evr­ópu?

„Þessi lönd eru ekki lengur þjóð­ir“

Ræðu Orbáns í heild má lesa í enskri þýð­ingu á vef ung­verskra stjórn­valda. Ummælin sem vakið hafa úlfúð og for­dæm­ingu snerta bæði fólks­flutn­inga og blöndun kyn­þátta.

Í ræð­unni sagði Orbán meðal ann­ars að fólks­flutn­inga til Evr­ópu mætti kalla „end­ur­nýjun mann­fjöld­ans“ (e. population replacem­ent), eða þá að tala mætti um að með fólks­flutn­ingum frá öðrum heims­hornum væri verið að „sökkva“ núver­andi íbú­um. Tal­aði hann um lága fæð­ing­ar­tíðni og fólks­flutn­inga sem vanda­mál sem steðj­uðu að bæði Ung­verja­landi og Evr­ópu.

„Fólks­flutn­ingar hafa skipt Evr­ópu í tvennt – eða ég gæti sagt að þeir hefðu skipt Vest­ur­löndum í tvennt. Annar helm­ing­ur­inn er heimur þar sem Evr­ópu­búar og fólk sem er ekki frá Evr­ópu býr sam­an. Þessi lönd eru ekki lengur þjóð­ir, þau eru ekk­ert meira en sam­an­safn fólks. Ég gæti líka sagt að þetta væri ekki lengur hinn vest­ræni heim­ur, heldur síð­-vest­rænn heim­ur. Og um árið 2050 munu lög­mál stærð­fræð­innar leiða til síð­ustu lýð­fræði­legu vend­ing­anna: borgir í þessum hluta heims­álf­unnar munu sjá hlut­fall íbúa með bak­grunn utan Evr­ópu rísa yfir 50 pró­sent af heild­inni. Og hér erum við í Mið-­Evr­ópu – í hinum hluta Evr­ópu, eða Vest­ur­landa,“ sagði Orbán í ræðu sinni og bætti við að hann áliti að það væri „bar­dagi í gangi á milli þess­ara tveggja hluta Evr­ópu.“

„Við gáfum síð­-vest­ur­landa­bú­unum (e. Post-Western­ers) til­boð sem byggði á skiln­ingi og því að leyfa hvorum að vera í friði og taka sjálf­stæðar ákvarð­anir um með hverjum við viljum lifa, en þeir neita þessu og halda áfram að berj­ast gegn Mið-­Evr­ópu, með það mark­mið að gera okkur eins og þau,“ sagði Orbán, og bætti því svo við að yfir­stjórn ESB í Brus­sel og „her­lið“ með tengsl við auð­kýf­ing­inn George Soros vildi „ein­fald­lega neyða upp á okkur far­and­fólki“.

„Allt sem við biðjum um er að þeir reyni ekki að troða upp á okkur örlögum sem við sjáum ekki ein­ungis sem eðli­legt hlut­skipti þjóð­ar, heldur sem enda­lok þjóð­ar. Þetta er allt sem við biðjum um, og ekk­ert meira,“ sagði Orbán.

Hann bætti því svo við að „vinstri­menn á alþjóða­vísu“ beittu upp­skáld­uðum sögu­skýr­ingum þess efnis að heims­álfan Evr­ópa væri nátt­úru­leg heim­kynni „fólks af blönd­uðum kyn­þátt­u­m“.

„Þetta eru sögu­legar og merk­ing­ar­legar sjón­hverf­ing­ar, þar sem þetta blandar tveimur mis­mun­andi hlutum sam­an. Það er heimur þar sem Evr­ópu­menn bland­ast þeim sem flytj­ast þangað frá öðrum heims­horn­um. Það er heimur bland­aðra kyn­þátta. Og svo er það okkar heim­ur, þar sem fólk innan Evr­ópu bland­ast hvoru öðru, vinn­ur, og kemur sér fyrir á nýjum stað,“ sagði Orbán og bætti því við að íbúar í aust­an­verðri Mið-­Evr­ópu, Ung­verja­landi og nágrenni, væru ekki „af blönd­uðum kyn­þátt­um“ heldur „ein­fald­lega blanda af fólki sem lifir í okkar eigin evr­ópska heima­land­i“.

„Þetta er ástæðan fyrir því að við höfum alltaf barist, við erum viljug til þess að bland­ast hvoru öðru, en við viljum ekki verða þjóð­fé­lög bland­aðra kyn­þátta,“ sagði Orbán og bætti því við að vegna þessa hefðu margar bar­áttur verið háðar fyrr á öldum og inn­rásum Ottóman­veld­is­ins verið hrundið bæði í Belgrad og Vín­ar­borg á 15. og 16. öld.

Sagði hann að í dag væri staðan sú að „íslamska sið­menn­ing­in“, sem sífellt væri að fær­ast að Evr­ópu, hefði áttað sig á því að óhent­ugt væri að reyna að fara í gegnum Ung­verja­land og þaðan áfram inn í Evr­ópu. Því væri „áhlaup­ið“ ekki frá austri, heldur úr suðri, „þaðan sem þeir eru að her­taka og flæða yfir vestrið“.

„Þetta kann ef til vill ekki að vera orðið mik­il­vægt verk­efni fyrir okkur núna, en þetta verður það fyrir börn okk­ar, sem munu þurfa að verja sig, ekki ein­ungis frá suðr­inu, heldur einnig frá vestr­inu. Sá tími mun koma er við munum ein­hvern­veg­inn þurfa að taka á móti kristnu fólki sem kemur til okkar þaðan og sam­þætta þau við líf okk­ar. Þetta hefur gerst áður, og þau sem við viljum ekki hleypa inn munu þurfa að vera stöðvuð á vest­ur­landa­mærum okkar – með Schengen eða án. En þetta er ekki verk­efni dags­ins, og ekki verk­efni okkar lífs­hlaups. Okkar verk­efni er ein­ungis að búa börnin okkar undir að verða til­búin að gera þetta,“ sagði Orbán.

Orbán sé „harm­leikur Ung­verja­lands“

Tölu­verð gagn­rýni hefur sem áður segir komið fram á þessi orð Orbáns, bæði heima fyrir og að heim­an. Fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráð­herra Ung­verja­lands frá 2004-2009, Fer­enc Gyurcsány, brást við orðum hans með því að kalla Orbán „harm­leik Ung­verja­lands“. „Orð nas­ist­ans í gær úti­loka okkur frá heimi heið­ar­legs fólks,“ sagði Gyurcsány sömu­leiðis í færslu á Face­book.

Þá komu full­trúar allra helstu flokka í Evr­ópu­þing­inu sér saman um yfir­lýs­ingu undir lok síð­ustu viku, þar sem orð Orbáns voru kölluð „óaf­sak­an­leg“ og rasísk. Þess var kraf­ist að rík­is­stjórnir Evr­ópu­sam­bands­ríkja og fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins myndu grípa til aðgerða gegn Ung­verja­landi vegna orða Orbáns, sem sögð voru ganga í ber­högg við ákvæði um mann­rétt­indi allra hópa, sem kveðið er á um í sátt­mála Evr­ópu­sam­bands­ins.

Banda­rískir íhalds­menn bjóða Orbán vel­kom­inn

Orbán er á far­alds­fæti þessa dag­ana. Hann er í Banda­ríkj­un­um, en þar hitti hann fyrr­ver­andi for­set­ann og vin sinn Don­ald Trump á þriðju­dag og mun svo flytja ræðu á stórri ráð­stefnu banda­rískra íhalds­manna, CPAC, sem hefst í Dallas í dag.

Í ljósi þeirra orða sem Orbán lét falla í ræðu sinni í Rúm­eníu hafa skipu­leggj­endur CPAC verið spurðir hvort þeir hafi íhugað að taka Orbán af mæl­enda­skrá. Það hafa þeir ekki gert.

Donald Trump og Viktor Orbán hittust í á þriðjudag.
EPA

„Hlustum á mann­inn tala,“ sagði Matt Schlapp stjórn­ar­for­maður CPAC og bætti við að ef ein­hverjir hefðu athuga­semdir við mál­flutn­ing Orbáns væri um að gera að koma þeim á fram­færi.

Eins og bent er á í nýlegum leið­ara Was­hington Post er þó ólík­legt að margir sem verða við­staddir CPAC-ráð­stefn­una í Dallas hafi miklar athuga­semdir við mál­flutn­ing Orbáns, þó hann yrði af sama meiði og í ræð­unni umdeildu í Rúm­en­íu.

Innan raða íhalds­manna í Banda­ríkj­un­um, og þá sér­stak­lega þess hóps sem hefur fylgt sér um Don­ald Trump, hefur það nefni­lega orðið útbreidd skoðun á und­an­förnum árum að elítur vinstri­manna vilji ýta undir fjölgun inn­flytj­enda og fjöl­breyti­leika sam­fé­laga til þess að ryðja úr vegi vest­rænni – og hvítri – menn­ingu.

Sögðu leið­ara­höf­undar Was­hington Post að ras­ismi Orbáns sem opin­ber­að­ist í orðum hans um blöndun kyn­þátta í Evr­ópu væri á skjön við banda­rísk gildi. „Þetta ætti að leiða til þess að boð hans á CPAC yrði end­ur­kall­að. Í stað­inn bendir allt til þess að honum verði fagnað við kom­una til Dalla­s,“ sagði í leið­ara blaðs­ins.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar