Eitruð ræða Orbáns
Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands hefur reynt að lægja öldur vegna ræðu sem hann hélt í Rúmeníu undir lok júlímánaðar. Hann segist nú hreint ekki hafa verið að tala um að blöndun kynþátta væri óæskileg, þó að erfitt sé að lesa annað úr ræðunni. „Þessi lönd eru ekki lengur þjóðir, þau eru ekkert meira en samansafn fólks,“ sagði hann um ríki Vestur-Evrópu.
Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ræðu sem hann flutti á stjórnmálaráðstefnu í Rúmeníu 23. júlí. Gagnrýnendur hafa jafnvel verið á meðal bandamanna hans, en ráðgjafi sem starfaði við hlið Orbán í rúm tíu ár sagði af sér vegna innihalds ræðunnar.
Í afsagnarbréfi ráðgjafans, félagsfræðingsins Zsuzsa Hegedüs, sem hefur starfað fyrir Orbán í rúman áratug, sagði meðal annars að ummæli leiðtogans hefðu vel getað sómað sér í ræðu eftir Joseph Göbbels, áróðursmálaráðherra Þýskalands nasismans. „Algjörlega nasískur texti,“ sagði í afsagnarbréfi Hegedüs, sem sjálf er af gyðingaættum.
Það skal þó tekið fram að Orbán hefur ögn dregið úr ummælum sínum og heldur því nú fram að hann hafi ekki verið að tala um blöndun kynþátta sem slíkra, heldur blöndun menningarheima.
„Ég vil ekki að Ungverjaland verði innflytjendaland. Það er ekki spurning um kynþætti fyrir okkur. Þetta snýst um menningarmun,“ sagði Orbán við fjölmiðla í heimsókn til Vínarborgar undir lok síðustu viku og státaði sig síðan af góðum árangri í baráttu gegn rasisma heima fyrir.
Ráðgjafinn Hegedüs hefur sagt að hún taki þessa útskýringu góða og gilda – og að hún muni enn taka á móti vini sínum Orbán í kaffi hvenær sem hann vilji líta við, þó að hún snúi ekki aftur í formlegt hlutverk sitt sem ráðgjafi.
En hvað sagði ungverski forsætisráðherrann í ræðu sinni, sem minnti hans eigin ráðgjafa á orðfæri nasista og hefur uppskorið fordæmingu stjórnmálamanna í öðrum ríkjum Evrópu?
„Þessi lönd eru ekki lengur þjóðir“
Ræðu Orbáns í heild má lesa í enskri þýðingu á vef ungverskra stjórnvalda. Ummælin sem vakið hafa úlfúð og fordæmingu snerta bæði fólksflutninga og blöndun kynþátta.
Í ræðunni sagði Orbán meðal annars að fólksflutninga til Evrópu mætti kalla „endurnýjun mannfjöldans“ (e. population replacement), eða þá að tala mætti um að með fólksflutningum frá öðrum heimshornum væri verið að „sökkva“ núverandi íbúum. Talaði hann um lága fæðingartíðni og fólksflutninga sem vandamál sem steðjuðu að bæði Ungverjalandi og Evrópu.
„Fólksflutningar hafa skipt Evrópu í tvennt – eða ég gæti sagt að þeir hefðu skipt Vesturlöndum í tvennt. Annar helmingurinn er heimur þar sem Evrópubúar og fólk sem er ekki frá Evrópu býr saman. Þessi lönd eru ekki lengur þjóðir, þau eru ekkert meira en samansafn fólks. Ég gæti líka sagt að þetta væri ekki lengur hinn vestræni heimur, heldur síð-vestrænn heimur. Og um árið 2050 munu lögmál stærðfræðinnar leiða til síðustu lýðfræðilegu vendinganna: borgir í þessum hluta heimsálfunnar munu sjá hlutfall íbúa með bakgrunn utan Evrópu rísa yfir 50 prósent af heildinni. Og hér erum við í Mið-Evrópu – í hinum hluta Evrópu, eða Vesturlanda,“ sagði Orbán í ræðu sinni og bætti við að hann áliti að það væri „bardagi í gangi á milli þessara tveggja hluta Evrópu.“
„Við gáfum síð-vesturlandabúunum (e. Post-Westerners) tilboð sem byggði á skilningi og því að leyfa hvorum að vera í friði og taka sjálfstæðar ákvarðanir um með hverjum við viljum lifa, en þeir neita þessu og halda áfram að berjast gegn Mið-Evrópu, með það markmið að gera okkur eins og þau,“ sagði Orbán, og bætti því svo við að yfirstjórn ESB í Brussel og „herlið“ með tengsl við auðkýfinginn George Soros vildi „einfaldlega neyða upp á okkur farandfólki“.
„Allt sem við biðjum um er að þeir reyni ekki að troða upp á okkur örlögum sem við sjáum ekki einungis sem eðlilegt hlutskipti þjóðar, heldur sem endalok þjóðar. Þetta er allt sem við biðjum um, og ekkert meira,“ sagði Orbán.
Hann bætti því svo við að „vinstrimenn á alþjóðavísu“ beittu uppskálduðum söguskýringum þess efnis að heimsálfan Evrópa væri náttúruleg heimkynni „fólks af blönduðum kynþáttum“.
„Þetta eru sögulegar og merkingarlegar sjónhverfingar, þar sem þetta blandar tveimur mismunandi hlutum saman. Það er heimur þar sem Evrópumenn blandast þeim sem flytjast þangað frá öðrum heimshornum. Það er heimur blandaðra kynþátta. Og svo er það okkar heimur, þar sem fólk innan Evrópu blandast hvoru öðru, vinnur, og kemur sér fyrir á nýjum stað,“ sagði Orbán og bætti því við að íbúar í austanverðri Mið-Evrópu, Ungverjalandi og nágrenni, væru ekki „af blönduðum kynþáttum“ heldur „einfaldlega blanda af fólki sem lifir í okkar eigin evrópska heimalandi“.
„Þetta er ástæðan fyrir því að við höfum alltaf barist, við erum viljug til þess að blandast hvoru öðru, en við viljum ekki verða þjóðfélög blandaðra kynþátta,“ sagði Orbán og bætti því við að vegna þessa hefðu margar baráttur verið háðar fyrr á öldum og innrásum Ottómanveldisins verið hrundið bæði í Belgrad og Vínarborg á 15. og 16. öld.
Sagði hann að í dag væri staðan sú að „íslamska siðmenningin“, sem sífellt væri að færast að Evrópu, hefði áttað sig á því að óhentugt væri að reyna að fara í gegnum Ungverjaland og þaðan áfram inn í Evrópu. Því væri „áhlaupið“ ekki frá austri, heldur úr suðri, „þaðan sem þeir eru að hertaka og flæða yfir vestrið“.
„Þetta kann ef til vill ekki að vera orðið mikilvægt verkefni fyrir okkur núna, en þetta verður það fyrir börn okkar, sem munu þurfa að verja sig, ekki einungis frá suðrinu, heldur einnig frá vestrinu. Sá tími mun koma er við munum einhvernveginn þurfa að taka á móti kristnu fólki sem kemur til okkar þaðan og samþætta þau við líf okkar. Þetta hefur gerst áður, og þau sem við viljum ekki hleypa inn munu þurfa að vera stöðvuð á vesturlandamærum okkar – með Schengen eða án. En þetta er ekki verkefni dagsins, og ekki verkefni okkar lífshlaups. Okkar verkefni er einungis að búa börnin okkar undir að verða tilbúin að gera þetta,“ sagði Orbán.
Orbán sé „harmleikur Ungverjalands“
Töluverð gagnrýni hefur sem áður segir komið fram á þessi orð Orbáns, bæði heima fyrir og að heiman. Fyrrverandi forsætisráðherra Ungverjalands frá 2004-2009, Ferenc Gyurcsány, brást við orðum hans með því að kalla Orbán „harmleik Ungverjalands“. „Orð nasistans í gær útiloka okkur frá heimi heiðarlegs fólks,“ sagði Gyurcsány sömuleiðis í færslu á Facebook.
Þá komu fulltrúar allra helstu flokka í Evrópuþinginu sér saman um yfirlýsingu undir lok síðustu viku, þar sem orð Orbáns voru kölluð „óafsakanleg“ og rasísk. Þess var krafist að ríkisstjórnir Evrópusambandsríkja og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins myndu grípa til aðgerða gegn Ungverjalandi vegna orða Orbáns, sem sögð voru ganga í berhögg við ákvæði um mannréttindi allra hópa, sem kveðið er á um í sáttmála Evrópusambandsins.
Bandarískir íhaldsmenn bjóða Orbán velkominn
Orbán er á faraldsfæti þessa dagana. Hann er í Bandaríkjunum, en þar hitti hann fyrrverandi forsetann og vin sinn Donald Trump á þriðjudag og mun svo flytja ræðu á stórri ráðstefnu bandarískra íhaldsmanna, CPAC, sem hefst í Dallas í dag.
Í ljósi þeirra orða sem Orbán lét falla í ræðu sinni í Rúmeníu hafa skipuleggjendur CPAC verið spurðir hvort þeir hafi íhugað að taka Orbán af mælendaskrá. Það hafa þeir ekki gert.
„Hlustum á manninn tala,“ sagði Matt Schlapp stjórnarformaður CPAC og bætti við að ef einhverjir hefðu athugasemdir við málflutning Orbáns væri um að gera að koma þeim á framfæri.
Eins og bent er á í nýlegum leiðara Washington Post er þó ólíklegt að margir sem verða viðstaddir CPAC-ráðstefnuna í Dallas hafi miklar athugasemdir við málflutning Orbáns, þó hann yrði af sama meiði og í ræðunni umdeildu í Rúmeníu.
Innan raða íhaldsmanna í Bandaríkjunum, og þá sérstaklega þess hóps sem hefur fylgt sér um Donald Trump, hefur það nefnilega orðið útbreidd skoðun á undanförnum árum að elítur vinstrimanna vilji ýta undir fjölgun innflytjenda og fjölbreytileika samfélaga til þess að ryðja úr vegi vestrænni – og hvítri – menningu.
Sögðu leiðarahöfundar Washington Post að rasismi Orbáns sem opinberaðist í orðum hans um blöndun kynþátta í Evrópu væri á skjön við bandarísk gildi. „Þetta ætti að leiða til þess að boð hans á CPAC yrði endurkallað. Í staðinn bendir allt til þess að honum verði fagnað við komuna til Dallas,“ sagði í leiðara blaðsins.