Er kreppan búin?
Samkvæmt nýjum hagtölum er vinnumarkaðurinn orðinn svipað stór og hann var áður en heimsfaraldurinn byrjaði í mars í fyrra. Þrátt fyrir það er yfirstandandi kreppa ekki alveg búin, að minnsta kosti ekki fyrir alla.
Alls voru rúmlega 207 þúsund starfsmenn starfandi á íslenskum vinnumarkaði í ágúst, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu. Þetta eru tæplega 15 þúsund fleiri einstaklingar en voru starfandi í byrjun síðasta árs og litlu færri en störfuðu í ágúst árið 2019.
Af þessum tölum að dæma mætti halda að efnahagsástandið sé orðið sambærilegt því sem það var áður en heimsfaraldurinn skall á og yfirstandandi kreppa gæti því verið búin.
Ef breytingar á vinnumarkaðnum eru hins vegar skoðaðar nánar virðist vera mikill munur á milli þjóðfélagshópa í þeim efnum. Á meðan staða margra er jafngóð eða betri en hún var fyrir faraldurinn vantar enn töluvert upp á að störf ungs fólks og innflytjenda nái fyrri hæðum.
Hættumerki áður en veiran kom
Myndin hér að neðan sýnir breytingar í fjölda starfandi eftir mánuðum frá þarsíðustu ársbyrjun, ef miðað er við sama mánuð árið 2019, skipt eftir aldurshópum. Samkvæmt henni var vinnumarkaðurinn í ársbyrjun 2020 hjá starfsmönnum eldri en 30 ára sambærilegur því sem hann var einu ári áður.
Á hinn bóginn hafði starfsmönnum undir þrítugu fækkað töluvert á sama tíma, en í janúar og febrúar árið 2020 voru þeir orðnir 3-4 prósentum færri en þeir voru í byrjun árs 2019. Á sama tíma hafði atvinnuleysið aukist nokkuð, en það nam sex prósentum í febrúar í fyrra, miðað við fjögur prósent í febrúar árið 2019. Því voru ýmis hættumerki ljós á vinnumarkaðnum ljós áður en faraldurinn hófst.
Ungir sitja eftir
Um leið og veiran tók að breiða sér um heiminn minnkaði svo fjöldi starfa töluvert í öllum aldurshópum, en líkt og myndin hér að ofan sýnir varð lækkunin langmest á meðal ungra starfsmanna. Lágpunktinum var svo náð í síðasta janúarmánuði, en þá hafði starfsmönnum undir þrítugu fækkað um 17 prósent frá því í janúar árið 2019. Sambærileg fækkun eldri starfsmanna var mun minni og nam um fimm prósentum á sama tíma.
Sá aldurshópur sem hefur verið fljótastur að rétta úr kútnum er hópur starfsmanna á milli þrítugs og fimmtugs, en líkt og myndin sýnir starfa nú fleiri á þessu aldursbili heldur en gerðu árið 2019. Fjöldi starfsmanna yfir fimmtugu er sömuleiðis orðinn svipaður og hann var á sömu mánuðum fyrir tveimur mánuðum síðan. Hins vegar hefur hópur ungra starfsmanna ekki enn náð sér á strik. Samkvæmt tölum Hagstofu voru þeir 4 prósentum færri í síðasta ágústmánuði en þeir voru í sama mánuði árið 2019.
Mun færri starfandi innflytjendur
Þegar breytingar í fjölda starfandi eru skoðaðar eftir bakgrunn starfsmanna sést einnig skýr munur á innflytjendum og þeim sem hafa íslenskan bakgrunn. Í síðarnefnda hópnum störfuðu tæplega 170 þúsund manns í ágúst, en þeim hefur fjölgað um tæpt þúsund frá sama mánuði árið 2019.
Starfsmenn með erlendan bakgrunn eru hins vegar langt frá því að vera orðnir jafnmargir og þeir voru áður en faraldurinn byrjaði, en þeim hefur fækkað um tæplega þrjú þúsund á sama tíma. Líkt og myndin hér að neðan sýnir jafngildir þetta sjö prósenta fækkun á starfandi innflytjendum frá sama mánuði árið 2019, á meðan starfandi fólki með íslenskan bakgrunn hefur fjölgað um tæpt prósent.
Enn vantar ferðamenn, en horfur eru jákvæðar
Mismunurinn í fjölda starfandi eftir aldurshópum og bakgrunni starfsmanna sýnir hversu misjöfn viðspyrnan hefur verið í efnahagslífinu hérlendis á síðustu mánuðum. Hún gefur einnig vísbendingar þess efnis að atvinnugreinar sem reiða sig meira á yngra starfsfólk og starfsfólk með erlendan bakgrunn eigi erfiðara með að ná sér á strik.
Ein af þessum starfsgreinum er ferðaþjónustan, en samkvæmt tölum Hagstofu var hlutfall yngra starfsfólks hærra þar en annars staðar í hagkerfinu árið 2019, auk þess sem 36% þeirra hafði erlendan bakgrunn.
Samkvæmt nýbirtum tölum Ferðamálastofu um farþega um Keflavíkurflugvöll voru brottfarir þeirra um 108 þúsund talsins í síðasta mánuði, sem er ekki langt frá þeim mánaðarlega fjölda ferðamanna sem fór um flugvöllinn í byrjun árs 2020. Hins vegar vantar mikið upp á að fjöldinn komist aftur í eðlilegt horf ef leiðrétt er fyrir árstíðarsveiflum, en líkt og myndin hér að ofan fóru tæplega helmingi færri ferðamenn um flugstöðina í september heldur en í sama mánuði árið 2019.
Hins vegar mætti búast við að þetta bil muni minnka enn frekar á næstu mánuðum, en samkvæmt nýrri greiningu Íslandsbanka eru horfur á áframhaldandi fjölgun ferðamanna til næstu áramóta og útlit fyrir allhraðan bata í greininni. Verði sá bati að veruleika má búast við að staða ungs fólks og innflytjenda á vinnumarkaði batni sömuleiðis á næstunni.