Mynd: Birgir Þór Harðarson

Er kreppan búin?

Samkvæmt nýjum hagtölum er vinnumarkaðurinn orðinn svipað stór og hann var áður en heimsfaraldurinn byrjaði í mars í fyrra. Þrátt fyrir það er yfirstandandi kreppa ekki alveg búin, að minnsta kosti ekki fyrir alla.

Alls voru rúm­lega 207 þús­und starfs­menn starf­andi á íslenskum vinnu­mark­aði í ágúst, sam­kvæmt nýbirtum tölum Hag­stofu. Þetta eru tæp­lega 15 þús­und fleiri ein­stak­lingar en voru starf­andi í byrjun síð­asta árs og litlu færri en störf­uðu í ágúst árið 2019.

Af þessum tölum að dæma mætti halda að efna­hags­á­standið sé orðið sam­bæri­legt því sem það var áður en heims­far­ald­ur­inn skall á og yfir­stand­andi kreppa gæti því verið búin.

Ef breyt­ingar á vinnu­mark­aðnum eru hins vegar skoð­aðar nánar virð­ist vera mik­ill munur á milli þjóð­fé­lags­hópa í þeim efn­um. Á meðan staða margra er jafn­góð eða betri en hún var fyrir far­ald­ur­inn vantar enn tölu­vert upp á að störf ungs fólks og inn­flytj­enda nái fyrri hæð­um.

Hættu­merki áður en veiran kom

Myndin hér að neðan sýnir breyt­ingar í fjölda starf­andi eftir mán­uðum frá þar­síð­ustu árs­byrj­un, ef miðað er við sama mánuð árið 2019, skipt eftir ald­urs­hóp­um. Sam­kvæmt henni var vinnu­mark­að­ur­inn í árs­byrjun 2020 hjá starfs­mönnum eldri en 30 ára sam­bæri­legur því sem hann var einu ári áður.

Fjöldi starfsmanna undir þrítugu er enn ekki orðinn jafnmikill og hann var á sama tíma árið 2019.
Mynd: Kjarninn og Hagstofa Íslands

Á hinn bóg­inn hafði starfs­mönnum undir þrí­tugu fækkað tölu­vert á sama tíma, en í jan­úar og febr­úar árið 2020 voru þeir orðnir 3-4 pró­sentum færri en þeir voru í byrjun árs 2019. Á sama tíma hafði atvinnu­leysið auk­ist nokk­uð, en það nam sex pró­sentum í febr­úar í fyrra, miðað við fjögur pró­sent í febr­úar árið 2019. Því voru ýmis hættu­merki ljós á vinnu­mark­aðnum ljós áður en far­ald­ur­inn hófst.

Ungir sitja eftir

Um leið og veiran tók að breiða sér um heim­inn minnk­aði svo fjöldi starfa tölu­vert í öllum ald­urs­hóp­um, en líkt og myndin hér að ofan sýnir varð lækk­unin lang­mest á meðal ungra starfs­manna. Lág­punkt­inum var svo náð í síð­asta jan­ú­ar­mán­uði, en þá hafði starfs­mönnum undir þrí­tugu fækkað um 17 pró­sent frá því í jan­úar árið 2019. Sam­bæri­leg fækkun eldri starfs­manna var mun minni og nam um fimm pró­sentum á sama tíma.

Sá ald­urs­hópur sem hefur verið fljót­astur að rétta úr kútnum er hópur starfs­manna á milli þrí­tugs og fimm­tugs, en líkt og myndin sýnir starfa nú fleiri á þessu ald­urs­bili heldur en gerðu árið 2019. Fjöldi starfs­manna yfir fimm­tugu er sömu­leiðis orð­inn svip­aður og hann var á sömu mán­uðum fyrir tveimur mán­uðum síð­an. Hins vegar hefur hópur ungra starfs­manna ekki enn náð sér á strik. Sam­kvæmt tölum Hag­stofu voru þeir 4 pró­sentum færri í síð­asta ágúst­mán­uði en þeir voru í sama mán­uði árið 2019.

Mun færri starf­andi inn­flytj­endur

Þegar breyt­ingar í fjölda starf­andi eru skoð­aðar eftir bak­grunn starfs­manna sést einnig skýr munur á inn­flytj­endum og þeim sem hafa íslenskan bak­grunn. Í síð­ar­nefnda hópnum störf­uðu tæp­lega 170 þús­und manns í ágúst, en þeim hefur fjölgað um tæpt þús­und frá sama mán­uði árið 2019.

Starfs­menn með erlendan bak­grunn eru hins vegar langt frá því að vera orðnir jafn­margir og þeir voru áður en far­ald­ur­inn byrj­aði, en þeim hefur fækkað um tæp­lega þrjú þús­und á sama tíma. Líkt og myndin hér að neðan sýnir jafn­gildir þetta sjö pró­senta fækkun á starf­andi inn­flytj­endum frá sama mán­uði árið 2019, á meðan starf­andi fólki með íslenskan bak­grunn hefur fjölgað um tæpt pró­sent.

Þrátt fyrir að staða starfsmanna með íslenskan bakgrunn hafi náð sér á strik miðað við sama tíma árið 2019 hefur verulega fækkað í hópi starfandi innflytjenda.
Mynd: Kjarninn og Hagstofa

Enn vantar ferða­menn, en horfur eru jákvæðar

Mis­mun­ur­inn í fjölda starf­andi eftir ald­urs­hópum og bak­grunni starfs­manna sýnir hversu mis­jöfn við­spyrnan hefur verið í efna­hags­líf­inu hér­lendis á síð­ustu mán­uð­um. Hún gefur einnig vís­bend­ingar þess efnis að atvinnu­greinar sem reiða sig meira á yngra starfs­fólk og starfs­fólk með erlendan bak­grunn eigi erf­ið­ara með að ná sér á strik.

Ein af þessum starfs­greinum er ferða­þjón­ust­an, en sam­kvæmt tölum Hag­stofu var hlut­fall yngra starfs­fólks hærra þar en ann­ars staðar í hag­kerf­inu árið 2019, auk þess sem 36% þeirra hafði erlendan bak­grunn.

Í september voru ferðamenn um Keflavíkurflugvöll rúmum 40 prósentum færri en þeir voru í sama mánuði árið 2019.
Mynd: Kjarninn og Ferðamálastofa

Sam­kvæmt nýbirtum tölum Ferða­mála­stofu um far­þega um Kefla­vík­ur­flug­völl voru brott­farir þeirra um 108 þús­und tals­ins í síð­asta mán­uði, sem er ekki langt frá þeim mán­að­ar­lega fjölda ferða­manna sem fór um flug­völl­inn í byrjun árs 2020. Hins vegar vantar mikið upp á að fjöld­inn kom­ist aftur í eðli­legt horf ef leið­rétt er fyrir árs­tíð­ar­sveifl­um, en líkt og myndin hér að ofan fóru tæp­lega helm­ingi færri ferða­menn um flug­stöð­ina í sept­em­ber heldur en í sama mán­uði árið 2019.

Hins vegar mætti búast við að þetta bil muni minnka enn frekar á næstu mán­uð­um, en sam­kvæmt nýrri grein­ingu Íslands­banka eru horfur á áfram­hald­andi fjölgun ferða­manna til næstu ára­móta og útlit fyrir all­hraðan bata í grein­inni. Verði sá bati að veru­leika má búast við að staða ungs fólks og inn­flytj­enda á vinnu­mark­aði batni sömu­leiðis á næst­unni.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnJónas Atli Gunnarsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar