Fjárframlög til Miðflokksins skerðast um helming – Framsókn á grænni grein
Framsóknarflokkurinn fær ekki einungis aukin áhrif í stjórnarmyndunarviðræðum vegna kosningasigurs síns, heldur líka stóraukin framlög úr ríkissjóði næstu árin. Miðflokkurinn tapaði mestu fylgi og verður því einnig af mestum peningum inn í flokksstarfið.
Að því gefnu að stjórnmálaflokkarnir á Alþingi ákveði að veita sjálfum sér sömu upphæð í framlög úr ríkissjóði árið 2022 og veitt voru í ár mun Framsóknarflokkurinn fá rúmlega 45 milljónum króna meira í framlög á næsta ári en hann fékk í ár, eða alls 126 milljónir króna.
Á móti mun framlag til Miðflokksins rúmlega helmingast og fara úr 81,7 milljónum árið 2021 niður í um 39 milljónir árið 2022, en þessir flokkar bættu mestu við sig og töpuðu mestu á í nýafstöðnum kosningum – og framlögin til flokkanna á nýju kjörtímabili fara eftir því.
Í fjármálaáætlun næstu ára er gert ráð fyrir að framlögin til stjórnmálaflokkanna haldist óbreytt næstu tvö ár og verði 728,2 milljónir króna, sem dreifast að mestu hlutfallslega á milli flokka sem fá yfir 2,5 prósent fylgi í liðnum alþingiskosningum.
Aðrar helstu breytingar á framlögum vegna kosninganna 25. september verða þær að ríkisframlagið til Vinstri grænna dregst saman um næstum 28 milljónir, en flokkurinn mun fá 92 milljónir í stað rúmlega 120 áður. Sömuleiðis mun framlagið til Samfylkingar rýrna um rúmar 17 milljónir og fara úr tæpum 90 milljónum niður í 72, að því gefnu að framlögin til flokkanna verði áfram hin sömu og á þessu ári, sem áður segir.
Úrslit kosninganna munu hafa minni áhrif á framlög til annarra stjórnmálaafla, en Sjálfstæðisflokkurinn mun sem stærsti flokkurinn á landsvísu að sjálfsögðu áfram fá mest – um 174 milljónir króna.
Sósíalistar komust ekki inn á þing, en koma nýir inn á fjárlög. Eins og Kjarninn sagði frá á mánudag áætlar Gunnar Smári Egilsson formaður framkvæmdastjórnar flokksins að framlögin verði um 30 milljónir á ári allt kjörtímabilið og sér hann fyrir sér að það nýtist til þess að byggja undir róttæka fjölmiðlun.
Hátt í þrír milljarðar til flokkanna á liðnu kjörtímabili
Eins og sjá má á skýringarmyndinni hér að neðan hafa framlög ríkisins til stjórnmálaflokka aukist mjög mikið á undanförnum árum, en árið 2007 var ákveðið að hefta frjáls framlög einstaklinga og fyrirtækja til stjórnmálaflokka sökum þess að það þótti ekki æskilegt að stjórnmálasamtökin í landinu væru háð framlögum frá fjársterkum öflum. Einnig má segja að það svo reynst einn af lærdómum hrunsins, að það væri ekki gott fyrir lýðræðið í landinu að svo væri.
Í Rannsóknarskýrslu Alþingis var fjallað sérstaklega um styrki frá bönkum til flokka og segir þar að það sé „alvarlegt mál í lýðræðisríki þegar almannaþjónar mynda fjárhagsleg tengsl með þessum hætti við fjármálafyrirtæki“. „Fjölmargir stjórnmálamenn og stjórnmálasamtök þáðu styrki frá bönkunum sem hefur ekki haft hvetjandi áhrif á stjórnmálamenn til að skilja sig skýrar frá þeim, veita þeim aðhald og kynna sér stöðu þeirra betur með almannahag að leiðarljósi,“ segir einnig í 8. bindi skýrslunnar.
Á árunum 2010 til 2017 voru framlög ríkisins til flokkanna á milli 200 og 300 milljónir, en þau tóku stórt stökk í upphafi nýliðins kjörtímabils.
Þá, í desember 2017, barst Alþingi erindi frá sex af átta framkvæmdastjórum flokkanna sem sitja á þingi, um að nauðsynlegt væri að hækka framlögin. Einungis Píratar og Flokkur fólksins voru ekki með í þessari beiðni til fjárlaganefndar þingsins.
Í erindinu sagði að framlög til flokkanna hefðu lækkað að raunvirði ár frá ári og kallað var eftir „leiðréttingu“ samkvæmt vísitölum frá árinu 2008.
Framkvæmdastjórar flokkanna sex sögðu að lækkuð ríkisframlög að raunvirði hefðu haft slæm áhrif. „Þetta hefur haft mikil áhrif á starfsemi stjórnmálaflokka til hins verra. Þess vegna erum við undirrituð sammála um nauðsyn þess að leiðrétta framlögin,“ sögðu framkvæmdastjórarnir í erindi til fjárlaganefndar og bættu því að ekki væri hægt að uppfylla markmið laga um,,auka traust á stjórnmálastarfsemi og efla lýðræðið“ nema aukin framlög fengjust.
Flokkarnir báru sig saman við helstu hagsmunasamtök landsins og töldu það skjóta skökku við að einungis væru 13 fastráðnir starfsmenn hjá þeim átta flokkum sem ættu sæti á Alþingi, á meðan að SA væru með 30 starfsmenn, SI með 16, SFS með 15, ASÍ með 22 og VR með 62.
„Í þessu umhverfi er stuðningur við nýsköpun, þróun, sérfræðiþekkingu og alþjóðatengsl enginn inni í stjórnmálasamtökunum; endar ná ekki saman til að sinna grunnþörfum í rekstri stjórnmálaflokka og að uppfylla markmið laganna. Lýðræðið á Íslandi á betra skilið,“ sagði í erindi þeirra.
Framlögin til flokkanna hækkuðu á fjárlögum ársins 2018 upp í 648 milljónir, eða um heil 127 prósent. Framlögin fóru svo hæst í 744 milljónir árið 2019. Undanfarin tvö ár hafa þau verið 728,2 milljónir og ráðgert er að svo verði áfram næstu tvö ár, sem áður segir.