Fólk á flótta er „ekki vara sem hægt er að útvista“
Áætlanir stjórnvalda í Bretlandi um að senda fólk sem þangað leitar að vernd til Afríkuríkisins Rúanda er brot á alþjóðalögum, segir Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Ekki allt flóttafólk mun fá þessa meðferð og eru stjórnvöld sökuð um rasisma.
Fólk sem er að flýja stríð, átök og ofsóknir á skilið samúð. Það á ekki að fara með það eins og vörur, flytja það til útlanda til úrvinnslu.“
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNCHR, er mjög harðorð í viðbrögðum sínum við þeim tíðindum að stjórnvöld í Bretlandi ætli að senda fólk sem leitar þar alþjóðlegrar verndar inn í miðja Afríku. Stofnunin leggst alfarið gegn þeim fyrirætlunum að flytja út – útvista ef svo má segja – skyldum gagnvart hælisleitendum. „Að leita hælis eru mannréttindi.“
Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, segir hins vegar að það sé „siðferðislega rétt“ að flytja þær þúsundir hælisleitenda sem koma til Bretlandseyja yfir Ermarsundið, oft á litlum skektum og stefna lífi sínu og sinna með þeim hætti í voða, með flugi til Rúanda – í um 6.500 kílómetra fjarlægð.
„Ég held að við séum komin með framúrskarandi stefnu í því að reyna að stöðva drukknun fólks á hafi úti,“ hefur Johnson m.a. sagt og undrast alla þá gagnrýni sem áætlanirnar hafa fengið. „Ég held að það sé siðferðislega rétt að stoppa glæpagengi í því að misnota fólk og senda það ofan í vota gröf. Ég held að þetta sé skynsamleg, hugrökk og frumleg stefna.“
Að senda fólk sem leitar hælis til annarra landa „til úrvinnslu“ er þó alls ekki frumleg stefna. Hún hefur áður verið reynd og það með slæmum árangri. Frumleikinn er heldur ekki meiri en svo að í fyrra ákváðu dönsk stjórnvöld að fara nákvæmlega sömu leið: Senda hælisleitendur sem þangað leita beinustu leið til Rúanda.
Erkibiskuparnir af Kantaraborg og York eru í hópi þeirra sem fordæmt hafa fyriráætlanirnar og segja það að senda hælisleitendur „aðra leiðina“ í burtu ekki standast kristið siðferði.
Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands skrifaði undir viljayfirlýsingu um málið við stjórnvöld í Rúanda nýverið, samkomulag sem sagt er munu kosta 120 milljónir punda, um 20 milljarða íslenskra króna. Hún hefur einnig fengið sinn skerf af gagnrýni. Andstaða við áformin er mjög mikil innan hennar ráðuneytis og hefur hluti starfsmanna hótað að leggja niður störf í mótmælaskyni. Þeir segja aðgerðirnar „algjörlega siðlausar“ og vilja komast undan að starfa samkvæmt þeim.
Þingmenn Verkamannaflokksins greiddu í síðustu viku atkvæði gegn breytingum á lögum sem myndu heimila flutning hælisleitenda til annars lands. Sögðu þeir frumvarpið „ófullnægjandi og illkvittið“.
Fyrirætlanir breskra stjórnvalda hafa ekki enn verið útlistaðar nákvæmlega. Það sem hefur komið er fram er að flogið yrði með fólk sem kemur til Bretlands yfir Ermarsundið í leit að hæli til Rúanda þar sem við muni taka „úrvinnsla“ mála þeirra. Þessar aðgerðir gætu hafist innan fárra vikna. Eftir komuna til Rúanda myndi fólkið „samlagast samfélögum víða um landið“.
Samkvæmt lagafrumvarpinu fá stjórnvöld heimild til að senda hælisleitendur til „öruggs þriðja ríkis“. Meðal þess sem er gagnrýnt, fyrir utan það eitt að útvista móttöku hælisleitenda, eru efasemdir um að Rúanda geti talist öruggt ríki. Ekki er lengra síðan en í fyrrasumar að erindreki breskra stjórnvalda gagnrýndi þau í Rúanda fyrir að rannsaka ekki ásakanir um mannréttindabrot, m.a. pyntingar í haldi lögreglu, með „gagnsæjum“ og „trúverðugum“ hætti.
Mannréttindasamtökin Freedom House sögðu í skýrslu sinni árið 2020 að flóttafólk frá Austur-Kongó og Búrúndi sé útsett fyrir kynferðislegri misnotkun og ofbeldi í Rúanda auk þess sem það hafi verið þvingað til að ganga í vopnaðar sveitir í landinu.
„Orðspor ríkisstjórnar Rúanda er brothætt og hún hefur ekki margar leiðir til að skora hátt í trausti á alþjóða vettvangi,“ hefur Sky News eftir Taniu Kaiser, sérfræðingi í flóttamannafræðum við háskóla í London. Hún bendir á að Flóttamannastofnunin hafi ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að flóttafólk eigi erfitt uppdráttar í Rúanda.
Paul Kagame, forseti Rúanda, tjáði sig í fyrsta skipti um samkomulagið á föstudag og sagði land sitt ekki eiga í „viðskiptum með manneskjur“. Það væru „mistök“ að halda að Rúanda vildi aðeins fá peninga í skiptum fyrir hælisleitendur. „Við erum í raun og veru að hjálpa,“ sagði hann.
Vísaði hann í því sambandi til aðgerða sem hann stóð fyrir árið 2018 er hann fór fyrir Afríkubandalaginu og fólust í því að taka við flóttafólki frá Líbíu, fólki sem hygðist fara hættuför yfir Miðjarðarhafið til Evrópu. Um þúsund flóttamenn hafa síðan þá verið fluttir til Rúanda og fengið úrlausn sinna mála. Um tveir þriðju hlutar hópsins hafa fengið hæli í Evrópu og Kanada.
Með samkomulaginu væri verið að aðstoða Breta við að takast á við smygl á fólki og benti á að það sem Bretar vildu væri „skipulögð leið til að flokka fólk sem þeir taka við og annað sem þeir geta sagt nei við“.
Tveir stjórnarandstöðuflokkar í Rúanda sögðu samninginn „óraunhæfan“ og vill að ríkisstjórnin einbeiti sér að vandamálum heima fyirr í stað þess að „létta á byrðum ríkra landa“.
Fólkið sem leggur í hættuförina á smábátum frá Frakklandi yfir Ermarsund til Bretlands er flest frá Íran, Írak og Sýrlandi. Um 28 þúsund manns komu þessa leið til Bretlands í fyrra. Að minnsta kosti 44 drukknuðu á leiðinni, þar af 27 í einu og sama slysinu. Flestir hælisleitendurnir eru ungir karlmenn á aldrinum 18-39 ára.
„Frá árinu 2015 hefur Bretland boðið yfir 185 þúsund mönnum, konum og börnum, skjól, fleirum en nokkuð annað land í Evrópu,“ sagði Boris Johnson nýverið. Bretland er þó langt í frá eftirsóknarverðasti áfangastaður fólks á flótta í álfunni. Í fyrra sóttu tæplega 130 þúsund manns um hæli í Þýskalandi. Frakkland fylgdi þar á eftir en rétt rúmlega 44 þúsund manns sóttu um hæli í Bretlandi.
Flestir þeir sem koma sjóleiðina yfir Ermarsundið til Bretlands koma að landi í Dover. „Frá og með deginum í dag má flytja alla sem koma ólöglega til Bretlands sem og alla þá sem komið hafa hingað ólöglega frá áramótum, til Rúanda,“ sagði Johnson í ávarpi sem hann flutti nýverið skammt frá Dover. „Rúanda hefur getu til að koma fyrir tugþúsundum fólks á næstu árum.“
Hann bætti við að Rúanda væri „eitt öruggasta ríki heims“ og þekkt á alþjóða vettvangi fyrir að bjóða flóttafólk velkomið.
Með því að tala um tugþúsundir fólks á næstu árum er ráðherrann ekki að búast við því að aðgerðirnar komi í veg fyrir hina hættulegu för yfir hafið heldur einmitt að hún haldi áfram. Gagnrýnendur hafa m.a. bent á að stærsta hættan sé sú að fólk fari að leggja í enn hættulegri og lengri för. Komi ekki stystu leið á land og reyni að fela sig fyrir yfirvöldum.
Fólk á flótta er „ekki vara sem hægt er að útvista“
Áætlanir stjórnvalda í Bretlandi um að senda fólk sem þangað leitar að vernd til Afríkuríkisins Rúanda er brot á alþjóðalögum, segir Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna. Ekki allt flóttafólk mun fá þessa meðferð og eru stjórnvöld sökuð um rasisma.
Ástralía
Það þurfti ekki að leita langt yfir skammt til að finna hugmyndina að útvistun flóttafólksins. Hin gamla nýlenda Breta, Ástralía, hefur stundað það frá árinu 2001 að flytja hælisleitendur sem þangað koma á bátum í búðir á Kyrrahafseyjunni Nauru. Áströlsk yfirvöld hafa jafnframt heitið því að engir hælisleitendur sem reyni að koma þessa leið til landsins fái þar nokkurn tímann að búa til frambúðar.
Í upphafi var fólkið einnig flutt í búðir á Papúa Nýju-Gíneu en Hæstiréttur Ástralíu dæmdi þær búðir ólöglegar. 112 flóttamenn eru enn á eyjunni Nauru. Rökin fyrir þessu fyrirkomulagi eru líkt og í Bretlandi að koma í veg fyrir dauðsföll á hafi úti. Það hefur verið harðlega gagnrýnt og upp komist um margvísleg mannréttinda- og ofbeldisbrot í búðunum á eyjunum síðustu ár.
Ástralía gerði fyrr á þessu ári samkomulag við Nýja-Sjáland um að taka við 450 flóttamönnum sem leituðu til Ástralíu í stað þess að senda fólkið til Nauru.
Ísrael
Árið 2015 kynnti Benjamin Netanyahu, þáverandi forsætisráðherra Ísrael, þá stefnu að bjóða flóttafólki sem þangað var m.a. að koma frá Eritreu og Súdan að fara sjálfviljugu aftur til síns heimaríkis eða til Úganda eða Rúanda í Austur-Afríku. Flóttafólkinu voru boðnir 3.500 Bandaríkjadalir og flugmiði. Hinn valmöguleikinn var að dúsa í fangelsi í Ísrael.
Þessi stefna var harðlega gagnrýnd, m.a. fyrir að stilla allslausu fólki upp við vegg og fyrir að tryggja engin réttindi eða öryggi fyrir flóttafólkið. Árið 2018, þegar aðeins um 30 prósent hælisleitenda í Ísrael höfðu yfirgefið landið, ætluðu stjórnvöld að bæta um betur og flytja flóttafólk nauðungarflutningum úr landi. Þær áætlanir runnu út í sandinn eftir að Hæstiréttur Ísraels fjallaði um málið.
Talið er að stór hluti þeirra flóttamanna sem fluttir voru frá Ísrael til Austur-Afríku hafi að lokum snúið aftur til Evrópu.
Danmörk
Kjarnastefna sósíaldemókrata í Danmörku, flokks Mette Fredriksen forsætisráðherra, er að fjalla ekki um hælisumsóknir sem berast frá fólki sem dvelur í löndum innan ESB heldur aðeins utan þess. Þetta þýðir í raun að enginn hælisleitandi fær að dvelja í Danmörku á meðan umsókn hans er til meðferðar. Leitað var hófanna í Túnis og Eþíópíu um að taka við hælisleitendum frá Danmörku en upp úr þeim viðræðum slitnaði. Samkomulag náðist hins vegar við Rúanda. Það hefur ekki verið tekið til framkvæmda en verður rætt á danska þinginu í næstu viku.
Á árunum 2015-2020 sóttu tæplega fimm milljónir manna um hæli í Danmörku. 52 prósentum umsóknanna var hafnað. Dönsk stjórnvöld segja tilganginn með útvistuninni m.a. þann að reyna að koma í veg fyrir mannskaða á Miðjarðarhafinu. Þótt það sé langt í burtu frá Danmörku sækir flóttafólk sem leggur þá hættuferð á sig m.a. þangað í leit að vernd.
Vantar örugga leið
Flestir þeirra sem leita alþjóðlegrar verndar í Bretlandi, fólkið sem siglir þangað frá Frakklandi, eru flóttamenn í skilningi laganna og eiga rétt á hæli. Það hafi sýnt sig við meðferð umsókna þeirra um vernd. Aðeins þriðjungi þeirra hafi hingað til verið hafnað. „Af hverju hættir þetta fólk lífi sínu til að komast þangað? Af því að bresk stjórnvöld veita þeim ekki örugga leið til að komast þangað. Þess vegna nota þeir svokallaðar „ólöglegar leiðir“.“
Þetta segir breski rannsóknarblaðamaðurinn Jon Dazig, sem sérhæfir sig í heilbrigðis- og mannréttindamálum í umfjöllunum sínum. Hann bendir á að flóttafólkið sé að koma frá löndum þar sem ástandið er einstaklega slæmt, m.a. Afganistan, Jemen, Sýrlandi og Írak. Hins vegar sé því ekki tekið opnun örmum eins og réttilega er gert gagnvart fólki á flótta frá Úkraínu, heldur á að senda það til Rúanda.
Skoski heilbrigðisráðherrann, Humza Yousaf segir fyrirætlanirnar sýna kerfisbundinn rasisma hjá bresku ríkisstjórninni. Stjórn sem réttilega veiti Úkraínumönnum hæli og vernd á flótta undan stríði en vilji á sama tíma senda aðra hælisleitendur langt í burtu „til úrvinnslu“.
Um leið og fólk í leit að hæli er komið upp í flugvél og af breskri grund yrði það, samkvæmt samkomulaginu, ekki lengur á ábyrgð breskra stjórnvalda heldur þeirra rúönsku. Þetta er flugmiði aðra leiðina – það er ekki gert ráð fyrir að flóttafólki snúi aftur til Bretlands, að minnsta kosti í bráð.
Margir hafa komið þeirri skoðun sinni á framfæri undanfarið að gjörningurinn yrði ekki aðeins siðlaus heldur stórfurðuleg ákvörðun. Hví að senda ungt og hraust fólk í burtu frá landi sem sárlega þarfnast fleiri vinnandi handa? Þess í stað ætti að taka því fagnandi. En tryggja fyrst örugga leið þess til Bretlands svo fleiri drukkni ekki við að reyna að komast þangað.