Harmur hertogahjónanna
Fráskilin, bandarísk kona fangar hjarta prins sem velur hana fram yfir konungsríkið. Hún er útmáluð sem skúrkurinn í ævintýrinu. Hljómar þetta kunnuglega? Hvað þá með þetta: Ung ólétt kona eigrar örvingluð um höllina. Hún vill ekki lifa lengur. En fær enga hjálp. Í reynslu Meghan Markle enduróma kunnugleg stef úr sögu bresku konungsfjölskyldunnar. Bergmálið úr lífi Díönu prinsessu, blandað rasisma í ofanálag, varð að endingu svo hávært að aðeins ein leið var fær: Út.
Brúðkaupið var óvenjulegt á ýmsa lund. Bandarískur predikari og gospel-kór léku til að mynda stórt hlutverk. Þó að vandræðalegum svip hafi brugðið fyrir í andlitum fjölskyldu brúðgumans, fólki sem er alið upp í formfestu og aldagömlum siðum, sveif bjartsýni og jákvæðni yfir vötnum. Einstakt tækifæri hafði komið upp í hendur fjölskyldunnar: Að sýna öllum heiminum að nútíminn hefði bankað upp á hallardyrnar. Og að honum hefði verið boðið inn í gullbryddaða salina á sama tíma og ungri fallegri konu með ástarblik í auga.
Fráskilinni, bandarískri, svartri konu.
Í eitt augnablik virtist sem breska konungsfjölskyldan ætlaði að grípa hið einstaka tækifæri. Segja skilið við hina myrku fortíð margvíslegrar mismununar í eitt skipti fyrir öll. Bjóða Meghan Markle, eiginkonu Harrys prins, velkomna. Hlusta á hana. Styðja hana. Og verja.
En annað kom fljótt á daginn. Meghan átti eftir að upplifa einangrun, afskiptaleysi og fordóma innan veggja hallarinnar. Og þegar verst lét vildi hún ekki lifa lengur. Þá var hún ólétt. Bað um aðstoð. En fékk hana ekki.
Utan veggja hallarinnar var hún hökkuð í spað og pakkað svo snyrtilega inn í slúðurblöðin. Hún var sögð fín með sig. Upptekin af sjálfri sér. Að hún kynni ekki gott að meta. Væri fjandsamleg í garð annarra í fjölskyldunni og legði starfsfólk hallarinnar í einelti. Hvað hélt hún eiginlega að hún væri? Hún var að minnsta kosti engin Öskubuska – sú hógværa og blíða sem heillaði prinsinn – svo mikið væri víst. Hafði hún ekki frekar hneppt hann í einhvers konar álög? Ég meina, ekki tæki hann upp á því sjálfur að fara burt? Nei, hún var augljóslega flagð undir fögru skinni, „vonda stjúpan“ holdi klædd. Skúrkurinn í ævintýrinu.
Fjölskyldan vildi ekki nýta samböndin við fjölmiðla til að „þagga niður í varðhundunum“ sem glefsuðu stöðugt í hana. Svona er þetta bara, var sagt. Það er engin ástæða til að leiðrétta allt bullið og vitleysuna sem sótsvartur almúginn kyngir vandræðalaust.
En fyrst við erum að ræða saman: Hversu dökkt gæti barnið ykkar orðið?
Hjónaband Meghan Markle og Harrys prins árið 2018 markaði tímamót í bresku samfélagi. Loksins hafði svört kona gifst inn í konungsfjölskylduna. Loks kæmu til sögunnar prinsar og prinsessur með afrískt blóð í æðum.
Breska heimsveldið var í aldir byggt upp á vinnu svartra, blóði þeirra og svita. Þrælkun þeirra. Loksins, loksins var einn úr þeirra hópi kominn alla leið að dyngju drottningar. Heyra mátti brothljóð óma um allt samveldið er glerþök og glerveggir voru mölbrotnir eins og hendi væri veifað. Svört kona í höllinni! Nánast ekkert var ómögulegt héðan í frá. Bókstaflega allt gat gerst.
Fengi hún að vera hún sjálf? Tala máli svartra? Svartra kvenna jafnvel?
Svarið við þessum spurningum er einfaldlega nei.
Tækifærið til að milda ásýnd konungsfjölskyldunnar, til að draga hana inn í 21. öldina, sýna heimsbyggðinni að innan hennar væri framsýnt og réttsýnt fólk, var ýtt út af borðinu. Ekki nýtt.
Það er þó hvorki ein manneskja né heil fjölskylda sem það ákvað heldur var það fremur meðvituð eða ómeðvituð niðurstaða þeirrar íhaldssömu stofnunar sem konungsfjölskyldan og allt sem henni fylgir er. Því þegar fjölskylda verður stofnun eða fyrirtæki, líkt og Filippus prins hefur kallað fjölskyldu sína, lýtur mennskan í lægra haldi fyrir hefðum og siðum.
Þetta kom berlega í ljós í orðum hertogahjónanna, Meghan og Harry, í hinu sögulega viðtali við Opruh Winfrey sem sýnt var vestanhafs á sunnudagskvöldið. Stofnunin, fyrirtækið, fjölskyldan – eða hvaða nafni sem breska konungsfjölskyldan kann að nefnast – ákvað ekki aðeins að skilja Meghan og Harry eftir ein á berangri til að verja sig heldur í einhverjum tilvikum að fóðra varðhundana. Efasemdamennina. Þegar fréttir voru nýverið sagðar af því að Meghan hefði lagt starfsmenn hallarinnar í einelti brást höllin við og tilkynnti þegar í stað að ásakanirnar yrðu rannsakaðar.
Þegar Meghan sagði frá rasisma sem hún og ófætt barn hennar hefðu orðið fyrir frá fólki í fjölskyldunni var því hins vegar mætt með þrúgandi þögn klukkustundum saman. Og ekki stakt orð barst frá höllinni í tvo sólarhringa um þá höfnun og það afskiptaleysi sem Meghan upplifði, örvingluð og óttaslegin, er hún bað um aðstoð vegna yfirþyrmandi vanlíðunar. Ekki heyrðist heldur múkk hvað varðar stöðu Archie litla, sonar hertogahjónanna, innan fjölskyldunnar. Hann átti ekki að verða prins líkt og frændur hans, synir Vilhjálms, og þar með ekki að fá öryggisgæslu. Vernd gegn varðhundunum.
Slík gæsla var líka tekin af Harry um leið og hann flutti til Kanada með litlu fjölskylduna sína. Hann sem hafði fæðst inn í það fangelsi sem konungsfjölskylda getur verið. Hið gríðarlega áreiti sem því getur fylgt. Og svo var líka klippt á framfærsluna. Starfskrafta hans og eiginkonunnar er ekki lengur óskað.
Í gær og dag voru að sögn haldnir krísufundir í höllinni. Fjölskyldan ætlaði ekki að láta „ýta sér út í“ að tjá sig um efni viðtalsins. Það gerði hún svo nú undir kvöld í yfirlýsingu sem send er frá höllinni fyrir hönd drottningarinnar. Þar segir að þau atriði sem hertogahjónin vöktu athygli á í viðtalinu „veki áhyggjur“ – sérstaklega þau sem snúi að kynþætti. Þá segir einnig að þó að „minni allra af atburðum“ sé ekki alltaf það sama verði þessi mál tekin alvarlega og um þau fjallað innan fjölskyldunnar. „Harry, Meghan og Archie verða alltaf elskuð.“
Síðasta árs verður ekki aðeins minnst í sögubókunum fyrir að hafa markað upphaf heimsfaraldurs heldur einnig ársins þegar fólk ákvað, að gefnu tilefni, að sitja ekki lengur þegjandi undir kerfisbundinni kúgun svartra í Bandaríkjunum. Mótmælaaldan náði víða um heim, m.a. til Bretlands. Það var komið að uppgjöri við fortíðina. Hin alltumlykjandi konungsfjölskylda hefur ekki verið saklaus áhorfandi að því misrétti í gegnum tíðina. Hún var höfuð ríkis sem var stórtækt í þrælaverslun í meira en tvær aldir. Ríkis sem sölsaði undir sig tugi þjóða og þjóðarbrota í Afríku og víðar sem enn í dag tilheyra jafnvel hinu svokallaða breska samveldi. Sambandi ríkja þar sem mikill meirihluti er dökkur á hörund.
Í viðtalinu við Opruh var afhjúpað hversu grunnt er á rasískum viðhorfum innan konungsfjölskyldunnar. Harry hafði verið spurður, oftar en einu sinni, hversu dökkt á hörund barn hans og Meghan gæti orðið. Barni sem síðar var neitað um titil sem hefði fært því öryggi.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem meðlimir konungsfjölskyldunnar, jafnvel háttsettir, hafa orðið uppvísir að rasískum ummælum. „Ef þið dveljið hérna mikið lengur verðið þið skáeygðir,“ sagði Filippus prins, afi Harrys og eiginmaður Elísabetar drottningar, við breska námsmenn í Kína árið 1986. Það er þó ekki hann sem spurði Harry hversu dökkt barn hans og Meghan gæti orðið. Það staðfesti Harry sjálfur við Opruh. Og ekki var það heldur Elísabet amma hans, drottningin sjálf. Aðrir í fjölskyldunni liggja því allir sem einn undir grun.
Karl prins, sá sem næstur mun erfa bresku krúnuna, sagði við blaðakonuna Anitu Sethi fyrir nokkrum árum að hún „liti ekki út fyrir að vera frá Manchester“. Sethi spurði hann á móti hvort að honum þætti hennar brúna húð vera „óbresk“?
Michael, prinsessan af Kent, sem er gift frænda Elísabetar drottningar, lét svarta gesti á veitingastað í New York heyra það árið 2004 og sagði þeim að fara „aftur heim í nýlendurnar“.
Kali Nicole Gross, sem er prófessor í sögu svartra við Emory-háskóla í Bandaríkjunum, segir að viðtalið hafi minnt okkur á hversu rótgróinn rasismi er í vestrænu samfélagi. Og að hann hverfi ekki á einni nóttu. Ekki einu sinni þegar svört kona giftist prinsi. „Þegar ég horfði á viðtalið rann það upp fyrir mér hversu barnalegt það var af mér að halda að eitthvað annað en nákvæmlega þetta myndi gerast,“ segir hún.
Allar konur sem hafa gift sig inn í bresku konungsfjölskylduna hafa fengið að finna fyrir því í fjölmiðlum. En í tilfelli Meghan var umfjöllunin lituð af kynþáttafordómum. Bandaríska tennisstjarnan Serena Williams er meðal þeirra sem hafa komið Meghan til varnar eftir viðtalið. Hún segist þekkja það af eigin raun hvernig það er að vera svört kona í sviðsljósinu. Hvernig fjölmiðlar gera lítið úr þeim og reyna allt hvað þeir geti til að brjóta þær niður. „Dóttir Meghan, dóttir mín og dætur ykkar eiga það skilið að búa í samfélagi þar sem þær njóta virðingar.“
Slúðurpressan hefur sagt Meghan „næstum“ tengjast glæpagengjum, að hún hafi birt djarfar myndir af sér á klámsíðu (frétt sem var síðar dregin til baka) og að hún snerti kviðinn á sér óeðlilega mikið á meðan hún var ólétt. Að hún sé frekja. Ráðrík. Og að barnið hennar líkist simpansa. Þetta er auðvitað aðeins brot af því sem hún hefur þurft að þola.
Aldarfjórðungur er síðan að Díana prinsessa, móðir Harrys, rauf þögnina og sagði frá lífi sínu innan konungsfjölskyldunnar. Reynsla hennar og Meghan er ekki ósvipuð. Sumir myndu segja líkindin sláandi. Bæði hvað varðar upplifun þeirra af slúðurpressunni sem og af lífinu innan hallarmúranna. Þegar Díana týndi lífi í bílslysi sem rakið er til eftirfarar ljósmyndara voru allir sammála um að breytinga væri þörf. Að virða þyrfti einkalíf fólks, líka þeirra sem væru opinberar persónur. En það virðist hafa verið aðeins of freistandi að fjalla frá öllum mögulegum og ómögulegum hliðum um þessa framandi konu sem nælt hafði í hjarta Harrys.
Þau höfðu ekki verið gift lengi þegar Harry sá sig knúinn til að biðla til fjölmiðla að halda sig fjarri. Að slaka á. Sagðist óttast um líf konu sinnar. Að hann teldi söguna hæglega getað endurtekið sig. Hin hræðilegu endalok móður hans væru honum ofarlega í huga. Hún hafði einnig liðið vítiskvalir, verið einangruð og afskipt. Ekki viljað lifa lengur. Samlíkingunni líkur ekki þar því báðar óskuðu eftir hjálp. En fengu ekki.
Í viðtalinu sagði Harry að árásirnar á eiginkonuna hefðu verið enn hættulegri þar sem þær væru sumar hverjar af rasískum toga. Á tíma þar sem samfélagsmiðlar ráða ríkjum. Þar sem allt er hægt að birta samstundis.
Það sem helst skilur sögu þeirra að er að hjónaband Díönu sprakk í loft upp. Var frá byrjun slæmt. Hún taldi sig engan stuðning hafa í eiginmanni sínum. Því er þveröfugt farið í tilfelli Meghan. Harry stendur eins og klettur við hlið hennar. Díana var tvítug þegar hún giftist Karli. Meghan var 36 ára þegar hún og Harry gengu í hjónaband. Hún var þroskaðri og sjálfstæðari. Díana var alin upp í bresku yfirstéttinni og öllu sem því fylgdi. Meghan hefur unnið fyrir sér frá því að hún var unglingur. Hún er bandarísk. Hikar ekki við að segja hvernig sér líði. Biðja um hjálp. Og fara sínar eigin leiðir.
Þær eiga það svo sameiginlegt að á hvoruga þeirra var hlustað þegar mest lá við. Þá skipti hvorki stétt þeirra né reynsla máli. Rödd þeirra heyrðist ekki.