Mynd: Skjáskot/RÚV

Þegar konu var stefnt persónulega fyrir að telja sér mismunað á grundvelli kynferðis

Lilja D. Alfreðsdóttir ákvað að skipa flokksbróður sinn sem ráðuneytisstjóra. Það gerði hún á grunni mats sem hæfisnefnd, stýrt af trúnaðarmanni ráðherra, hafði unnið. Einn umsækjandi kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála og vann. Ráðherra lét vinna lögfræðiálit, sem hún neitar að birta, og stefndi umsækjandanum á grunni þeirra. Héraðsdómur hefur hafnað þeim málatilbúnaði með öllu en samt var ákveðið að áfrýja málinu nokkrum klukkutímum síðar. Hér er sagan öll sögð.

Þann 1. nóvember 2019 var greint frá því að Páll Magnússon hefði verið skipaður í embætti ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu til fimm ára. Hann var þá bæjarritari Kópavogsbæjar og hafði áður starfað sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs sveitarfélagsins um langt skeið. 

Páll átti sér hins vegar líka langa pólitíska fortíð og hafði árum saman gengt trúnaðarstörfum fyrir Framsóknarflokkinn, sama flokks og Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherrann sem skipaði hann í embætti, er varaformaður í. Páll var meðal annars varabæjarfulltrúi í Kópavogi á tíunda áratugnum, varaþingmaður Framsóknarflokksins í tvö kjörtímabil (1999-2007) og aðstoðarmaður Val­­­­gerðar Sverr­is­dóttur ráð­herra Fram­­­­sókn­­­­ar­­­­flokks­ins um sjö ára skeið. Í byrjun árs 2009 bauð Páll sig fram í formannskjöri Framsóknarflokksins en laut í lægra haldi fyrir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni. Tengsl Páls við Framsóknarflokkinn eru því mikil og ná aftur um áratugi. 

Auglýsing

Alls sóttu þrettán manns um embættið. Hæfisnefnd mat fjóra umsækjendur mjög hæfa til þess að gegna því og Lilja boðaði þá fjóra umsækjendur í viðtal. Í kjölfar þeirra viðtala var það mat Lilju að Páll væri hæfastur umsækjenda. 

Ekki metin á meðal þeirra hæfustu

Einn umsækjenda, Hafdís Helga Ólafsdóttir, skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu, var að mati hæfisnefndarinnar ekki talin ein af fjórum hæfustu umsækjendum. Hún sendi tölvupóst til mennta- og menningarmálaráðuneytisins 12. nóvember 2019 og óskaði eftir rökstuðningi fyrir ákvörðun um skipunina og öllum gögnum málsins. Ráðuneytið neitaði upphaflega að verða við ósk hennar um að afhenda öll gögn málsins og bar fyrir sig að einkahagsmunir annarra væru ríkari en Hafdísar í málinu. Hún gafst þó ekki upp og á endanum, eftir að Hafdís hafði gert athugasemdir við afhendingu gagna og sent þrjár ítrekanir um beiðni sína, fékk hún öll gögn málsins afhent 13. janúar 2020. 

Á grundvelli þeirra gagna sem fyrir lágu taldi Hafdís ljóst að reynsluminni og minna menntaður karlmaður hefði verið ráðin í starfið sem hún sóttist eftir. Gögnin hafi sýnt að ráðningarferlið hefði ekki verið í samræmi við ákvæði laga og reglna og Hafdís taldi sig ekki hafa fengið sanngjarna og óhlutdræga meðhöndlun af hálfu ráðuneytisins. Hún ákvað að kæra málið til kærunefndar jafnréttismála.

Páll Magnússon var skipaður í embætti ráðuneytisstjóra. Hann var virkur í stjórnmálum um langt skeið og bauð sig meðal annars fram til formanns í Framsóknarflokknum árið 2009, en tapaði.
Mynd: Kópavogsbær

Í kærunni kom meðal annars fram, auk ofangreinds, að  Hafdís teldi að við meðferð málsins hafi vísvitandi verið gert lítið úr hæfni hennar, menntun og reynslu, en að sama skapi hafi verið gert meira úr reynslu Páls á ákveðnum sviðum en efni hafi staðið til. Hafdís taldi sig búa yfir frekari menntun og meiri og fjölbreyttari starfsreynslu og væri því hæfari en Páll.

Formaðurinn í fjölmörgum nefndum

Hæfisnefndin sem ákvað að Hafdís væri ekki á meðal fjögurra hæfustu umsækjenda um stöðu ráðuneytisstjóra samanstóð af Einari Huga Bjarnasyni lögmanni, sem var formaður hennar, Kristínu Ingólfsdóttur, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands, og Guðríði Sigurðardóttur, sérfræðingi í ráðningum. 

Einar Hugi hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir Lilju og hefur verið fulltrúi Framsóknarflokksins í minnst sjö öðrum nefndum. Fram á mitt ár í fyrra hafði ráðuneytið greitt honum alls 15,5 milljónir króna fyrir lög­­­fræð­i­ráð­­­gjöf og nefnd­­­ar­­­setu á vegum ráðu­­­neyt­is­ins á kjörtímabilinu. Einar Hugi var á sínum tíma fulltrúi Framsóknarflokksins í Stjórnarskrárnefnd og sat með Lilju í sérfræðihóp forsætisráðherra um skuldavanda heimilanna þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson gegndi þeirri stöðu árið 2013, og Lilja var lánuð úr Seðlabanka Íslands til forsætisráðuneytisins til að starfa með Sigmundi Davíð.

Á meðal þeirra nefnda sem Einar Hugi situr í er fjölmiðlanefnd, þar sem hann er formaður. Hann var skipaður í þá stöðu í nóvember 2019, á svipuðum tíma og tilkynnt var um nýjan ráðuneytisstjóra í mennta- og menningarmálaráðuneytinu. Við skipan hans í þá stöðu fór Lilja gegn  lög­­­fræð­i­ráð­­­gjöf og nefnd­­­ar­­­setu á vegum ráðu­­­neyt­is­ins sem sett var fram í minnisblaði. Þeir mæltu með að Halldóra Þorsteinsdóttir yrði gerð að formanni. Hún hafði áður átt sæti í nefndinni og verið þar varaformaður. 

Auglýsing

Ákvörðun Lilju var víða gagnrýnd bæði fyrir það að skipa Einar Huga, sem hefur litla sem enga reynslu á sviði fjölmiðlaréttar, í stöðuna, og vegna þess að með skipan hans var samsetning stjórnarinnar þannig að þrír karlar sátu í henni, en ein kona. Kynjahlutföll hefðu verið jöfn ef Halldóra hefði verið skipuð.  

Braut gegn jafnréttislögum

Skemmst er frá því að segja að kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu, í úrskurði sem er dagsettur í lok maí 2020, að Lilja hefði brotið jafnréttislög við skipun Páls í embætti ráðuneytisstjóra í ráðuneyti sínu. 

Að mati kærunefndarinnar gætti ýmissa annmarka af hálfu hæfnisnefndarinnar við mat á Hafdísi annars vegar og Páli hins vegar. Þannig hefði hæfnisnefndin til að mynda vanmetið Hafdísi í samanburði við Pál varðandi menntun, reynslu af opinberri stjórnsýslu, leiðtogahæfileika og  hæfni  til að tjá sig í riti.  Allt  hefðu þetta verið fortakslaus skilyrði sem birtust í auglýsingunni um embættið. 

Hvað menntunarþáttinn varðaði tók kærunefndin fram að með hliðsjón af eðli starfs ráðuneytisstjóra og lýsingu á því í auglýsingu um embættið yrði guðfræðimenntun Páls ekki talin nýtast með sama hætti og grunnnám Hafdísar í lögfræði í slíku starfi. Hvað varðar matsflokkinn reynsla  af opinberri stjórnsýslu tók kærunefndin  fram  að  ljóst  væri  að  Hafdís  ætti  að  baki  lengri  reynslu  af  opinberri stjórnsýslu  en  Páll  og  að  hún  hafi  aflað  sér  reynslu  og þekkingar sem hafi „verulegt vægi í opinberri stjórnsýslu að því marki sem hún nýtist í störfum ráðuneytisstjóra“.

Hafdís hafi því staðið Páli framar í embættið.

Fleiri ráðherrar hafa á undanförnum árum orðið uppvísir að því að brjóta gegn jafnréttislögum. Þeirra á meðal er Jóhanna Sigurðardóttir, sem var forsætisráðherra á árunum 2009-2013.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Heilt yfir var það mat kærunefndarinnar að ekki hefði tekist að sýna fram á að aðrar ástæður en kyn hefðu legið til grundvallar ákvörðun um skipun í embættið og hefði mennta- og menningarmálaráðherra því brotið gegn jafnréttislögum.

Nokkrir aðrir brotið gegn jafnréttislögum

Lilja er sannarlega ekki fyrsti ráðherrann sem gerist sekur um að brjóta jafnréttislög. Ögmundur Jón­as­son gerði það þegar hann var inn­an­rík­is­ráð­herra og skip­aði sýslu­mann á Húsa­vík árið 2012.  Jóhanna Sig­urð­ar­dótt­ir, þá for­sæt­is­ráð­herra, braut gegn jafnréttislögum þegar hún skip­aði karl í emb­ætti skrif­stofu­stjóra á skrif­stofu stjórn­sýslu og þró­unar árið 2011. Þegar það gerðist tók Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokks, málið upp í óundirbúnum fyrirspurnatíma. Í ræðu sinni sagði Bjarni meðal annars: „Stað­reynd máls­ins er hins vegar sú að það blasir við allri þjóð­inni að for­sæt­is­ráð­herra hlýtur að vera að íhuga afsögn vegna þessa máls og fyrstu við­brögð hennar við nið­ur­stöðu kæru­nefnd­ar­innar ganga alger­lega í ber­högg við einn meg­in­til­gang þess frum­varps sem varð að jafn­rétt­islögum fyrir fáum árum, t.d. um að úrskurðir kæru­nefnd­ar­innar væru bind­andi.“ 

Jóhanna taldi ekki tilefni til að segja af sér. 

Nokkrum árum síðar, vorið 2017, var Bjarni forsætisráðherra. Þá komst kærunefnd jafnréttismála að þeirri niðurstöðu að hann hefði, sem fjármála- og efnahagsráðherra árið áður, brotið jafnréttislög þegar hann valdi karlmann sem starfaði í ráðuneyti hans í emb­ætti skrif­stofu­stjóra á skrif­stofu opin­berra fjár­mála. 

Auglýsing

Lilja er hins vegar fyrsti ráðherrann sem ákvað að una ekki niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála og höfða þess í stað mál persónulega gegn Hafdísi í nafni íslenska ríkisins. 

Þegar greint var frá þeirri ákvörðun Lilju að stefna Hafdísi kom fram að sú ákvörðun hefði verið tekin eftir að ráð­herr­ann hefði aflað sér lög­­fræð­i­á­lita sem bent hefðu á laga­­lega ann­­­marka í úrskurði kæru­­­nefnd­­­ar­inn­­­ar. Úrskurð­­­ur­inn byði upp á laga­­­lega óvissu í tengslum við það ferli sem unnið sé eftir við skipan emb­ætt­is­­­manna. Þeirri laga­ó­vissu vildi Lilja eyða. ­

Dómur í málinu féll í héraðsdómi Reykjavíkur á föstudag.
Mynd: Birgir Þór Harðarson

Kjarn­inn óskaði eftir því í byrjun að fá umrædd lög­­fræð­i­á­lit sem stefnan byggir á og ekki hefur verið upplýst hverjir unnu afhent, en var synj­að.  

Kjarn­inn kærði þá nið­­ur­­stöðu til úrskurð­­ar­­nefndar um upp­­lýs­inga­­mál sem komst að þeirri nið­ur­stöðu í ágúst að Lilja þyrfti ekki að afhenda álit­in. 

Öllum málatilbúnaði hafnað

Héraðsdómur Reykjavíkur birti dóm sinn í málinu síðastliðinn föstudag, 5. mars. Hann er afdráttarlaus og hafnar öllum lagalegum aðfinnslum Lilju við niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála. Samandregið var það niðurstaða dómsins að „ekki hafi verið fyrir hendi neinir annmarkar á málsmeðferð kærunefndarinnar sem leitt geti til ógildingar á úrskurði hennar.“ 

Kærunefndin hefði byggt úrskurð sinn á ákvæðum laga og málefnalegum sjónarmiðum, beitt lögmætum aðferðum í úrlausn sinni og  rökstuddi  niðurstöðu  sína ítarlega. „Þá verður nefndin ekki talin hafa farið út fyrir valdsvið sitt eða verksvið, hvorki við mat á einstökum hæfnisþáttum eða við heildarskoðun  á ráðningarferlinu. Verður nefndin því ekki talin hafa gengið of langt við endurskoðun á mati veitingarvaldshafans. Þannig  standa  engin  rök  til  þess  að ógilda úrskurð nefndarinnar. Dómurinn hafnar því kröfu stefnanda, íslenska ríkisins, um að úrskurður kærunefndar jafnréttismála[...]verði felldur úr gildi.“

Allur málskostnaður Hafdísar, alls 4,5 milljónir króna, greiðist úr ríkissjóði. 

Ákvörðun um áfrýjun á nokkrum klukkustundum

Nokkrum klukkustundum eftir að dómurinn lá fyrir fengust þær upplýsingar frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu að dómnum yrði áfrýjað til Landsréttar. Samhliða sagði ráðuneytið að Lilja ætlaði ekki að tjá sig um niðurstöðu héraðsdóms Reykjavíkur á meðan að á áfrýjunarferlinu stendur. Allar líkur standa til þess að það ferli muni teygja sig fram yfir komandi þingkosningar, sem fara fram 25. september næstkomandi. 

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og ráðherra jafnréttismála greindi frá því í gær, þriðjudag, í viðtali við Vísi að ákvörðunin um að áfrýja málinu væri alfarið á forræði Lilju. „Þetta hefur ekki verið rætt við ríkisstjórnarborðið eftir að þessi dómur féll og ekki við mig eftir að þessi dómur féll.“

Auglýsing

Lilja sjálf ákvað, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar, að tjá sig um málið eftir ríkisstjórnarfund í gærmorgun. Hún sagði við RÚV að ákvörðunin um að stefna Hafdísi hefði ekki verið léttvæg en að hún hafi verið „tekin í kjölfar þess að ég fékk álit sérfræðinga á þessu sviði að rökstuðningurinn á sínum tíma að hann hefði ekki verið fullnægjandi. Það er að segja að kæranda hefði verið mismunað á grundvelli kynferðis.“ Það hafi verið hennar skylda að fara í ógildingarmál á grundvelli þess sérfræðiálits. Um lögfræðilegt álitamál væri að ræða. 

Aðspurð hvað hún myndi gera ef málið tapaðist í Landsrétti sagði Lilja: „Við auðvitað metum stöðuna þá eins og við gerum alltaf.“

Þannig liggur ljóst fyrir að ráðherrann byggir ákvörðun sína um áfrýjun málsins á sömu lögfræðiálitum og mennta- og menningarmálaráðuneytið neitar að afhenda fjölmiðlum eða upplýsa þá um hverjir unnu, og héraðsdómur Reykjavíkur hefur sagt með dómi að sé lögfræðilega rangt.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar