EPA

Heimsfaraldur í eitt ár

Ár er liðið frá því að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin lýsti því yfir að heimsfaraldur væri brostinn á. Þessu ári hefur verið lýst með ýmsum orðum; það er fordæmalaust, ár hörmunga, ár sorgar, ár fórna. Ár vísindanna. Árið sem við komumst að því að við erum öll í þessu saman. Allt mannkynið.

11. mars 2020: 118 þúsund staðfest smit í 114 löndum. 4.291 hefur látist.

„Við getum ekki sagt þetta nógu hátt, nógu skýrt, nógu oft: Öll lönd geta enn breytt gangi þessa heimsfaraldurs.“

11. mars 2021: 118 milljón staðfest smit. Yfir 2,6 milljónir hafa látist.

„Ef það er eitthvað eitt sem heimsfaraldur COVID-19 hefur kennt okkur á undanförnu ári þá er það að við erum öll eitt, mannkynið, og eina leiðin til að takast á við sameiginlega ógn er að vinna saman að því að finna sameiginlegar lausnir.“

Auglýsing

Í dag er liðið ár síðan að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin lýsti því yfir að COVID-19 væri heimsfaraldur. Það kom í hlut framkvæmdastjóra stofnunarinnar, Tedros Adhanom Ghebreyesus, að greina heimsbyggðinni frá því. Í ávarpi sínu lagði hann áherslu á samræmingu aðgerða – að enn væri hægt að stöðva útbreiðsluna. Hann er enn á þeirri línu og minnir okkur á að við erum mannkynið. Við öll.

„Árangursríkasta leiðin til að hefta útbreiðslu og bjarga mannslífum er að bólusetja viðkvæmustu hópa fólks í öllum löndum, frekar en allt fólk í sumum löndum,“ sagði hann í dag í tilefni af tímamótunum. Árinu sem liðið er frá tilkynningunni sem allir vissu að væri orðin tímabær: Þetta er heimsfaraldur.

EPA

Þetta hefur verið ár mikilla þjáninga fyrir svo marga. Þriðji hver Breti þekkir einhvern sem hefur dáið úr COVID-19. Enginn efast um að smit í heiminum séu mun fleiri en 118 milljónir. Aldrei í sögu Bandaríkjanna hafa fleiri dáið á einu ári eins og í fyrra.

Að minnsta kosti þriðjungur dauðsfallanna er rakinn til COVID-19. Hvergi í heiminum en einmitt þar hafa dauðsföll af völdum sjúkdómsins verið fleiri. Í fimm öðrum löndum til viðbótar hafa að minnsta kosti 100 þúsund látist vegna farsóttarinnar. Þessi lönd eru Brasilía, Mexíkó, Indland, Bretland og Ítalía.

EPA

Í hverri einustu heimsálfu er víst að smit- og dánartölur af hans völdum eru vanmetnar. Og þó að síðasta bylgja faraldursins sé í rénun á flestum vesturlöndum, vegna bólusetningaherferða sem þar eru hafnar, er veiran að láta finna fyrir sér sem aldrei fyrr í öðrum löndum. Í Brasilíu hafa nú yfir 2.200 manns dáið daglega vegna COVID-19 nokkra daga í röð. Dagleg dauðsföll hafa aldrei verið fleiri í landinu.

Þetta hefur líka verið ár mikilla fórna. Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, segir að menntun um 1,6 milljarðs barna hafi farið úr skorðum vegna faraldursins. Skólar 168 milljóna barna hafa alfarið verið lokaðir í heilt ár. Afleiðingar þessa eiga enn eftir að koma í ljós.

Sömu sögu er að segja um afleiðingar þess á fólk að þurfa að búa við útivistarbann og ferða- og samkomutakmarkanir í lengri tíma með þeirri einangrun sem því hefur fylgt fyrir marga. Að missa vinnuna. Að búa við óvissu og ótta mánuðum saman.

EPA

En þetta hefur einnig verið ár stórkostlegra vísindalegra sigra. Innan við ári eftir að heimsfaraldri var lýst yfir voru komin á markað bóluefni gegn sjúkdómnum. Við þróun og framleiðslu sumra þeirra er beitt aðferðum sem aldrei áður hafa verið reyndar.

Það er farið að rofa til. Að minnsta kosti sums staðar. En eins og Tedros Adhanom Ghebreyesus, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og fleiri hafa sagt: Heimsfaraldri lýkur hvergi fyrr en honum lýkur alls staðar.

EPA

Einn á ferð

Maður með grímu fyrir vitum gengur í almenningsgarði meðfram bökkum Yangtze-árinnar í Wuhan í Kína í apríl á síðasta ári. Þetta er í borginni þar sem veiran er talin hafa átt upptök sín.

EPA

Undir álagi

Gjörgæsluhjúkrunarfræðingur tekur sér pásu á milli tarna á sjúkrahúsi í Brussel. Á veggnum stendur: Ég er hamingjusamur hjúkrunarfræðingur.

Gríðarlegt álag var á heilbrigðisstarfsfólki víða um heim og sérstaklega í Kína í upphafi faraldursins. Ný veira – nýr sjúkdómur.

EPA

Unnið af kappi

Loftmynd af framkvæmdasvæði nýs sjúkrahús í Wuhan í Kína sem ákveðið var að reisa þegar ljóst var orðið að pestin sem geisaði væri allt annað en venjuleg. Á rúmlega tveimur vikum var reist sjúkrahús með 1.000 rúmum. Þegar myndin er tekin, 24. janúar í fyrra, höfðu 25 látist úr hinni þá ný uppgötvuðu kórónuveiru.

EPA

Verið heima

Samtímis því að samkomutakmarkanir voru settar á víða um heim fóru að sjást vegglistaverk með boðskap aðgerðanna á húsum í hverri borg. Verið heima. Verið örugg. Gætið að ykkur.

Hér ganga konur framhjá einu slíku verki í Los Angeles í byrjun apríl í fyrra.

EPA

Við bryggju

Síkin í Feneyjum voru mannlaus í fyrstu bylgju faraldursins. Gondólar voru bundnir í röðum við bryggju. Það voru engir ferðamenn. Faraldurinn lék Ítali sérlega grátt í upphafi. Til harðra aðgerða var gripið enda fylltust sjúkrahús af alvarlega veiku fólki.

EPA

Snerting

Maria Paula Moraes faðmar 82 ára gamlan föður sinn í gegnum sérstakt tjald. Þau búa í borginni Sao Paulo í Brasilíu. Slík faðmtjöld nutu vinsælda sums staðar þar sem fólk gat ekki notið nándar við ástvini sína vegna smithættu.

Þegar myndin var tekin, 2. júlí, hafði Maria ekki faðmað föður sinn í meira en 100 daga.

EPA

Fjöldagrafir

Loftmynd af gröfum í Vila Formosa-kirkjugarðinum í Sao Paulo í Brasilíu í byrjun apríl í fyrra. Kirkjugarðurinn er í austurhluta borgarinnar og er sá stærsti í allri Suður-Ameríku.

EPA

Heima

Tvær stúlkur fylgjast með komu flutningaskips út um gluggann heima hjá sér í spænsku borginni Santander í lok mars. Vikum saman voru mjög harðar samkomutakmarkanir á Spáni og mátti fólk ekki fara út af heimilum sínum að nauðsynjalausu. Algjört útgöngubann var sett á.

EPA

Verndarhjúpur

Taílenskur hjúkrunarfræðingur setur andlitsskjöld á höfuð nýfæddra barna til að verja þau fyrir smiti af kórónuveirunni á sjúkrahúsi í Samut Prakan-héraði á Taílandi í byrjun apríl.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnSunna Ósk Logadóttir
Meira úr sama flokkiErlent